09.06.2013 03:21

Hopparinn

869. Í síðasta mánuði var ég ræstur út frekar fyrirvaralítið á stutta aukavakt hjá Strætó, sem gerist endrum og sinnum og er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi. Ástæðan var sú að vinnufélagi minn Dylan, (hinn viðkunnanlegi Englendingur sem gerðist Íslendingur fyrir mörgum árum) var eiginlega pantaður á "Hopparann" af hópi ferðamanna. Og hvað er nú "Hopparinn" kynni einhver að spyrja. Jú, það skemmtilega fyrirbæri er tveggja hæða strætisvagn sem ekur með erlenda ferðamenn um Reykjavík sem fá í leiðinni svolitla sögu og fróðleiksmola í eyra um merka staði sem ekið er fram hjá, ásamt öðru góðmeti í formi ýmis konar upplýsinga um land og þjóð. Kerfið sem notast er við býður upp á að neytandinn (í þessu tilfelli farþeginn) geti valið milli m.a. ensku, frönsku, þýsku, spænsku og íslensku í headphones. Verulega sniðugt, ákaflega túristavænt og hið ágætasta framtak í alla staði hjá Kynnisferðum sem gera þessa vagna út og er reyndar það fyrirtæki sem ég starfa hjá um þessar mundir. - En nóg um það.

Ég ók sem sagt strætó (leið 28) fyrir Dylan sem skrapp yfir á "Hopparann", en þegar ég var staddur á stoppistöðinni í Mjódd, var hringt í mig.

"Endar þú ekki vaktina í Hamraborg"?

"Jú" svaraði ég.

"Og er ekki bíllinn þinn í Vesturvörinni"?

"Jú" svaraði ég aftur.

"Á ég ekki að skutla þér af því að ég á leið um báða staði í réttri röð og á sama tíma"?

"Jú takk," og þar með kom þriðja júið.

"Okay, ég verð þarna í stæðinu, þú kemst ekki hjá því að sjá mig."

Það var Dylan sem hringdi.



Og það reyndist rétt vera, ég gat alls ekki komist hjá því að sjá hann.



Og Dylan, hinn geðþekki enski íslendingur sat við stýrið og beið eftir eina farþeganum sem var væntanlegur í þessa ferð.



Ég varð auðvitað að skoða gripinn í leiðinni. Ég hafði ekki komið inn í tveggja hæða strætó síðan á því herrans ári 1984 sem túristi til London. Ég rölti upp hringstigann sem liggur upp á efri hæðina og tók mynd aftur eftir bílnum.



Ég gekk aftur eftir vagninum á efri hæðinni, settist í aftasta bekk og tók aðra mynd í átt til framendans. Hér var sko lágt undir loft, en allt etthvað svo undarlega útlenskt eða þannig...


                             

Svona lítur hringstiginn milli hæða út. Ég fæ það óneitanlega svolítið á tilfinninguna að ég sé að fara niður í ósamþykkt rými í kjallara eða upp á háaloft sem væri að mestu undir súð, í einhverri borulegri smáíbúð á hundraðogeinum svæðinu sem var einhvern tíma útbúin úr aukaherbergi og geymslunni í sameigninni fyrir hinn vaxandi leigumarkað, svona rétt til að drýgja tekjurnar örlítið.



Ökumaður notast við ákaflega frumstætt speglakerfi til að fylgjast með því sem gerist á efri hæðinni, þó það byggi reyndar á sömu grunnhugmynd og þeirri sem notast var við í sjónpípum þýsku kafbátanna í seinni heimstyrjöldinni þegar þeir gægðust upp fyrir sjávarborðið án þess þó að koma úr kafi.



Þetta er óneitanlega svolítið gamaldags. Sjáiði bara mælaborðið...!



En það sem kom mér svo rækilega á óvart var að allar áletranir inni í vagninum eru á þýsku, og ég sem hélt að tveggja hæða strætisvagnar væru svo innilega gegnum breskir í húð og hár eða kannski frekar grind og boddý og heimaborg þeirra langflestra væri London. En nú veit ég að svo er ekki, því þessi er alveg rammþýskur, er af gerðinni "Man", ók um götur Berlínar áður en hann fluttist á skerið og hefur aldrei til Englands komið.

Ég vil endilega hvetja sem flesta (og þá meina ég íslendinga) til að kynna sér, já og  taka sér far á góðum degi með svona vagni svo sem eins og einn hring, sem mun örugglega reynast flestum bæði fróðlegur og bráðskemmtilegur í senn. Svo er auðvitað ekki spurning um að ef erlenda gesti ber að garði, þá býður "Hopparinn" upp á svar við mörgum spurningum auk þess að vera í leiðinni hin skemmtilegasta afþeying og óvænt og skemmtileg upplifun í alla staði. Og fyrir þá sem vilja kynna sér málið nánar, er slóðin http://www.re.is/CitySightseeing/ 


Og það er eitthvað við þessa bíla hvar sem þeir eru í heiminum...

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 521
Gestir í dag: 126
Flettingar í gær: 835
Gestir í gær: 148
Samtals flettingar: 477415
Samtals gestir: 52750
Tölur uppfærðar: 3.12.2024 06:42:49
clockhere

Tenglar

Eldra efni