30.07.2013 04:47
Auglýsingin á Sparisjóðnum
877. Þetta er Túngatan á Siglufirði. Það ætti að vera nokkuð augljóst bæði þeim sem þekkja þarna til, og jafnvel einnig þeim sem þekkja minna til, því "Ríkið" er fyrsta hús til hægri á myndinni og þangað hafa margir ratað sem ekki hafa átt annað erindi í bæinn. En þetta er nú útúrdúr því leið okkar liggur um þessa götu í átt að sjálfum miðbænum og Ráðhústorginu þar sem lífæð íbúanna liggur um stéttir og stíga, þar sem svo auðvelt er að finna fyrir nálægð þorpssálarinnar og þar sem hjartað slær gjarnan glatt á góðum dögum. - En ef að er gáð, má sjá að eitthvað er öðruvísi en venjulega.
Nokkrir tugir metra til viðbótar eftir götunni og það er engum blöðum um það að fletta að þarna hangir eitthvað á spýtunni, og það alveg í bókstaflegri merkingu.
Nýeinangraður og múraður norðurveggur gamla Útvegsbankahússins eða SPS í dag, maður að sýsla uppi á vinnupöllum og annar að fylgjast með á jörðu niðri. Mikil litagleði einkennir auglýsinguna sem hangir þarna uppi og hún er risastór þó svo að hún sýnist ekki vera það á vegg þessa "sex" hæða húss (ef risið og kjallarinn eru talin með).
Jú, Skúli Jóns var að festa auglýsinguna en Höddi Júll sagðist vera svolítð lofthræddur og vildi því frekar hafa fast land undir fótum og segja Skúla til. Þarna var að fara upp stærsta auglýsing um skemmtun og/eða dansleik m/meiru sem sett hefur verið upp á Siglufirði eða upp á heila átta fermetra. Verður það ekki að teljast sögulegur viðburður eða hvað?
Og þá er komið að því sem ég vildi vekja athygli á og fór svo rækilega í kring um hér að ofan með endalausum orðalengingum og skrúðmælgi, en það er skemmtunin BÍTLAÁRIN á Rauðku föstudaginn 2. ágúst. Skemmtun í myndum, tali og tónum sem hefst með borðhaldi kl. 19.00 þar sem boðið verður upp á þriggja rétta kvöldverð. Sítrusmaríneraða sjávarrétti, reyktan og grafinn lax með piparrótar og graflaxsósu, nautacarpaccio með steinseljurót, jómfrúarolíu og parmessan í forrétt. Í aðalrétt eru beikonvafðar kalkúnabringur með supréme sósu og nautahryggjarvöðvi með villisveppasósu ásamt ofnbökuðu rótargrænmeti kryddjurtabökuðu kartöflusmælki, fersku slati, nýbökuðu brauði og smjöri. Í eftirrétt er svo gómsæt súkkulaðikaka með kremi og vanillusósu.
Þá munu bítladrengirnir Birgir, Leó (ég), Maggi og Grímur með stórsöngvarann Ara Jóns úr Roof Tops í broddi fylkingar stíga á pall ásamt sérlegum gestum kvöldsins, þeim Ómari Hauks og Þorvaldi Halldórssyni. Kynnir kvöldsins er blaða og sjónvarpsmaðurinn Þröstur Emilsson.
Miðasala og pantanir eru á Rauðku og í síma 467-7733 og athygli skal vakin á að aðeins eru 110 miðar í boði á hinn þriggja rétta kvöldverð plús skemmtunina.
-
Á eftir sér svo bítlabandið Vanir Menn um að allir skemmti sér á dunandi balli.
Skrifað af LRÓ.