14.08.2013 08:25
Kornungir gítarsnillingar
880. Þeir sem eiga það til að kíkja inn á youtube vefinn, vita að þar er auðveldlega hægt að ílengjast og það jafnvel svo um munar. Ég sá litla frétt á mbl.is í vikunni og í framhaldinu festist ég auðvitað í alllangan tíma á umræddum stað, en það er nú önnur saga. Tilefnið var sem sagt fréttin um frönsku stúlkuna, gítarsnillinginn sem er þó ekki nema 14 ára. Hún birti nýverið myndband af sér, þar sem hún situr með rafmagnsgítar og flytur, eða réttara sagt tætir það sem hún kallar verk til heiðurs Vivaldi. Flutningurinn er sannarlega ótrúlegur, en hann hefst á kunnuglegu stefi úr Sumri árstíðanna fjögurra, er í bráðskemmtilegum þungarokksstíl og fer þessu rammklassíska verki hreint alls ekki sem verst. Slóðin að snilldinni er http://www.youtube.com/watch?feature=player_embedded&v=DIGfO2Dgc9Y
Stúlkan, sem kallar sig Tina S á youtube, er ýmsum netverjum kunnug, því hátt í 6,7 milljónir hafa hlýtt á flutning hennar af Eruption eftir Van Halen.
Og á youtube leiðir oftast eitt af öðru og hlustandinn er gjarnan leiddur áfram á svipaðri braut. Eftir eitt myndbandið er boðið upp á næsta og næsta o.s.frv. Það gerðist einmitt í minu tilfelli að þessu sinni, því upp poppaði annað myndband þar sem um var að ræða 8 ára breska stelpu, en mbl.is mun einnig hafa fjallað um hana nýverið. Sú sló einnig í gegn með snilldarlegum gítarleik sínum, heitir Zoe Thomson og býr í bænum Thatcham. Hér má sjá hana leika lagið Stratosphere með finnsku þungarokkssveitinni Stratovarius en gítarhlutverkið í því lagi þykir síður en svo vera fyrir neina byrjendur.
Á mbl.is segir að Zoe litla Thomson er ekki óvön sviðsljósinu, því fyrir ári vakti hún mikla athygli með barnasveitinni The Mini Band. Sveitin varð vinsæl fyrir að flytja lagið Enter Sandman með Metallica, en meðlimir The Mini Band eru aðeins 8-10 ára.