29.08.2013 19:08
Bíllinn hans Gylfa
883. Ég rakst á Gylfa Ægis í Bónus á Hrauninu í Hafnarfirði þar sem hann tíndi eitt og annað smálegt í körfu sína meðan hann átti orðastað við mann og annann sem köstuðu á hann kveðju sinni. Auðvitað hlaut hann að þekkja marga hér um slóðir því hann bjó lengi á Suðurgötunni í Hafnarfirði, nema það sé bara eins og svo oft að fleiri telja sig þekkja manninn á stallinum en maðurinn þá.
Það fór sem sagt ekkert á milli mála hver var á ferðinni innandyra og þá ekki síður þegar út var komið eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Það verður tæpast annað sagt en að ökutækið sé vel nýtt til að auglýsa þá starfsemi og og þær afurðir sem eigandinn er þekktur fyrir, auk þess sem það þjónar eflaust sínu venjubundna hlutverki ekkert síður en önnur slík.
Hér fer og það eflaust víða, bæði mikil og góð auglýsing sem er líkleg til að koma þeim sem berja hana augum í betra skap og sjá lífið og tilveruna í bjartari litum eftir en áður. Alla vega var það mín upplifun.
En það er hins vegar ekki ósennilegt að einhverjir komist ekki hjá því að láta hina fjölmöru ryðbletti sem hætt er við að fari ört stækkandi á næstunni, trufla hina jákvæðu heildarmynd og ég myndi því ráðleggja okkar manni að taka á því máli hið allra fyrsta.
Ég fór allan hringinn og myndaði bílinn, en það var ekki fyrr en ég tók þessa mynd að ég tók eftir (sambýlis)konu Gylfa, (veit reyndar ekki hver hjúskaparstaða þeirra er) þar sem hún gætti bíls og beið þess undir stýri að hann kæmi úr búðarferðinni.
Ég skal viðurkenna að ég varð pínulítið kindarlegur...
Skrifað af LRÓ.