13.10.2013 06:35

Náttúruperlur á Reykjanesi

890. Ég átti leið suður með sjó í byrjun síðasta mánaðar. Með mér í för var Ásgeir nokkur Magnússon, bakari, pípari og fyrrverandi afgreiðslumaður á Laugarásvideó frá því bæði laust fyrir og eftir síðustu aldamót. Ástæða ferðarinnar var bæði sú að nefndur Ásgeir var að koma til landsins frá Norgi þar sem hann hefur búið undanfarin ár, en einnig vantaði eina afastelpuna skutl á Ásbrúna til móður sinnar. Það var þess vegna alveg gráupplagt að "slá tvær flugur í sama höfuðið" eins og spakur maður orðaði meiningu sína eitt sinn. Þegar sú stutta var komin á áfangastað, lögðum við Ásgeir upp frá miðbæ Keflavíkur og hugðumst ekki gera neitt annað en að bruna í bæinn. Mér varð á að minnast lítillega á nokkra merka staði sem væru þarna skammt undan, og mér til mikillar undrunar hafði hann ýmist ekki séð þá eða jafnvel hvorki heyrt þá né séð. Það varð því úr að ekið var suður í Hafnir og áfram allt þar til komið var að þeim stað sem upphaflega var nefndur Reykjanes, en það er sá hluti Reykjanesskagans sem við sjáum fyrir okkur sem hælinn á landakortinu.

Þegar ekið er í suður frá Höfnum er fljótlega komið að brúnni milli heimsálfanna sem er bæði merkilegur og skemmtilegur staður sem mætti gjarnan fá meiri athygli bæði íslenskra og erlendra ferðamanna. 




Þarna hefur einhver skiltagerðarmaður einfaldað málin með því að einkenna álfurnar með fánum Evrópubandalagsins og Bandarríkjanna, en það má jafnvel einnig hafa svolítið gaman að því uppátæki sé skopskynið í þokkalegu standi.




Þarna eru Evrasíu og Norður-Ameríkuflekarnir að gliðna og liggja plötuskilin frá Reykjanesi, m.a. í gegn um Þingvelli og norðaustur um land. Hægt er að halda því fram með góðum og gildum rökum að Reykjaneshryggurinn komi þarna upp á land og skipti Íslandi milli tveggja jarðskorpufleka og þá í leiðinni milli Evrópu og Asíu. 




Í sandinum ofan í gjánni og undir brúnni er algengt að erlendir ferðamenn "riti" nöfn landa sinna, sitt eigið eða síns fólks í sandinn og noti til þess laust grjót sem þarna er nóg af. Sá eða sú sem kemur þarna oft, getur því sífellt verið að lesa ný skilaboð af botni gjárinnar.




Sé gengið spölkorn norður fyrir Gunnuhver sem er skammt sunnan við Brúna milli heimsálfa, er gott útsýni bæði til hafs og lands.

Reykjanesviti var fyrsti viti á Íslandi. Hann var upphaflega reistur árið 1878, og var þá upp á svonefndum Valahnjúk. Árið 1896 urðu nokkrir jarðskjálftar sem urðu til þess að undirstaða vitans skemmdist það mikið að talið var nauðsynlegt að byggja nýjan. Honum var þá valinn staður á Bæjarfelli sem er um 400 metra frá Valahnúk og þá einnig frá ströndinni. Þeirri staðsetningu fylgdi þó sá galli, að Skálafell skyggir á vitann séð úr suðaustri. Þess vegna var reistur annar lítill viti úti á svokölluðum Skemmum sem sumir kalla hálf-vitann. Því má svo gjarnan bæta við að frá Reykjanesi er óslitið haf allt til Suðurskautslandsins.

Á myndinni hér að ofan má sjá Reykjanesvita hinn síðari lengst til hægri á Bæjarfellinu sem áður nefndist Grasfell en einnig Vatnafell. Þá eru hús vitavarðarins næst, en föst búseta vitavarðar lagðist ekki af fyrr en árið 1999.

Valahnjúkur sem er vinstra megin við miðja mynd, gengur fram í fjörukamb þegar lágsjávað er, en því sem næst í sjó fram á háflóði. Því miður var ekki tími til að skoða hann betur, eða draugahellirinn sem þarna er rétt hjá. Aðeins sést í Valbjargargjá þar sem elstu núlifandi Grindvíkingar lærðu sund. Laugin var hlaðin að hluta og þótti allvel boðleg á þeim tíma.

Þá er aðeins eftir að geta eyjarinnar sem sést úti fyrir ströndinni, en það er sjálf Eldey, en hún er 77 m hár, þverhníptur, gerð úr móbergi og u.þ.b. 15 km. frá landi. Þarna skammt frá var áður eitt síðasta vígi geirfuglsins,Geirfuglasker. Það hvarf að mestu í hafið í eldsumbrotum 1830.Það var ekki vitað til þess, að eyjan hefði verið klifin, þegar þrír vaskir Vestmannaeyingar klifu hana 30. maí 1894 og þeirra á meðal var Hjalti Jónsson, öðru nafni Eldeyjar Hjalti sem áður hafði klifið Háadrang hjá Dyrhólaey. Þremenningarnir töldu sig hafa séð bolta á nokkrum stöðum í berginu í Eldey, sem gaf til kynna að þetta væri ekki í fyrsta skipti sem eyjan væri klifin. Eftir það var farið árlega í Eldey til fugla og eggjatöku allt þar til hún var friðuð árið 1940.




Þá er einnig örstutt í Reykjanesvirkjun sem var formlega tekin í notkun í maí 2006 og auðvitað reist í lítilli sátt við náttúruverndarsinna eins og nánast allar aðrar virkjanir. Það má nefnilega alla jafna ganga má út frá a.m.k. tvennu sem nokkurn veginn vísu; nýting orkulinda verður alltaf nauðsynleg, en ósnortin náttúran er líklega besta fjárfestingin til langframa. Í þriðja lagi mun líklega alltaf reynast snúið að sætta þessi sjónarmið.




Og hinn einstaki Gunnuhver er líka á þessum sama bletti, eða örskammt sunnan við Brúna milli heimsálfa og Reykjanesvirkjun. Frá aðalveginum liggur 1.3 km. malarspotti að hvernum og er hann ágætur yfirferðar.




Þegar komið er á bílastæðið við hverinn tekur við svolítil ganga um ágætlega merkta stíga og timburbrýr. Full ástæða er til að halda sig á merktum leiðum, því þarna er mikill hiti í jörðu og ekki að vita hvort einhverjar óvæntar breytinhgar hafa orðið við nýlegar jarðhræringar sem áttu upptök sín skammt frá Reykjanestá á dögunum.




Aðalskiltið við Gunnuhver lýsir draugasögunni um Gunnu, sem var eitthvað á þessa leið: "Gunna var uppi um 1700 og var leiguliði í koti við Kirkjuból í Sandgerði. Eftir að hún gat ekki staðið skil á leigunni tók Vilhjálmur Jónsson lögréttumaður pott sem hún átti upp í leiguna. Við þetta reiddist Gunna mjög og neitaði að drekka vígt vatn og dó skömmu síðar. Þegar hún var sett niður í gröfina heyrðist sagt: ,,Ekki skal djúpt grafa, ekki á lengi að liggja."

Næstu nótt fannst Vilhjálmur dauður og heyrðist af Gunnu afturgenginni um Miðnesheiðina. Margir reyndu að kveða Gunnu niður en ekkert gekk fyrr en séra Eiríkur á Vogsósum fékkst í verkið eftir drjúgt brennivínsþamb. Sagði hann mönnum að koma hnykli í hendurnar á Gunnu og þá rúllaði hann með hana þangað sem hún gerði engum skaða. Þetta gekk allt eftir og Gunna elti hnykilinn í hverinn við Reykjanesvita og steyptist þar ofan í og hefur verið þar síðan. Sumir sjá hana hlaupa hring eftir hring á hverabarminum á eftir hnyklinum, við það að detta ofan í og hljóðar hún þá hátt".




Á árunum milli 1930 og 1940 bjuggu þarna hjón af erlendu bergi brotin. Þau höfðu kölluðust Höyer að ættar eða eftirnafni, hann var Danskur en hún var Lettnesk. Hinn Danski Höyer var garðyrkjumaður  og kom upphaflega til landsins til að stunda rannsaka og ræktun við jarðhita. Hann hóf starf sitt í Hveradölum, en flutist síðan einhverra hluta vegna út á Reykjanes. Þau fengu til ábúðar skika úr landi Staðar og nefndu bæ sinn Hveradali, en hann var að hálfu íveruhús og að hálfu verkstæði ásamt vinnustofu. Aðalstarf þeirra hjóna var blómarækt og gerð jurtapotta úr leir sem þau hertu við jarðhitann. Mjög víða á Reykjanesinu er lítið um ferskt vatn, enda eru þar nánast engar bergvatnsár eða lækir. Allt vatn sem þau þörfnuðust fengu þau með því að þétta hveragufuna og kæla hana niður. Höyer var áður blaðamaður á hinu danska stórblaði Politiken og bauðst eftir nokkurra ára dvöl á Íslandi starf meðritstjóra við deild um landbúnaðarmálefni þess. Hann þáði það og þau hjón fluttust til Kaupmannahafnar skömmu fyrir stríð.

Þar skrifaði hann æfisögu konu sinnar sem var 15 árum yngri en eiginmaðurinn að hluta, eða allt fram að þeim tíma þegar hún komst til Þýskalands eftir fyrra stríð. Bókin kom út í Danmökru á stríðsárunum en Árni Óla þýddi hana á íslensku. Hún heitir Anna Ivanowna og er höfundur er skráður Erika Høyer sem mun vera nafn hennar eftir giftingu. Bókin er átakanleg lýsing á miklum hörmungatímum í ævi konunnar og var eitt sinn lesin sem útvarpssaga. Hann kom aftur til Íslands eftir stríð og endaði starfsæfi sína sem flugumferðarstjóri á Melgerðismelum í Eyjafirði en hún varð eftir í Danmörku




Enn má sjá rústir bæjarhúss Höyerhjónanna sem stóð við kísilhóinn rétt við Gunnuhver. Á sínum tíma mátti vel finna að jörð væri þarna ilvolg en núna er þarna allt að því suðuhiti og mjög varhugavert er að ganga um bæjarstæðið.




En að lokinni u.þ.b. klukkustundarlangri dvöl á Reykjanesinu sem er auðvitað allt of stutt, var haldið áfram. Mér finnst óneitanlega svolítið skrýtið að nálgast Grindavík frá þessu sjónarhorni. Sérstaklega þar sem maður kom árum saman akandi inn í bæinn hina hefðbundnu leið, þ.e. í suðurátt frá Reykjanesbrautinni og Stapanum, yfir úfið hraunið, fram hjá Bláa lóninu og svo auðvitað Þorbirninum.

Þegar ekið er inn í Staðarhverfið sem er vestan Grindavíkur, blasir sjáfarþorpið við þar sem fiskur var forðum sagður vera undir steini sem frægt varð og að margra mati gert heldur heldur minna úr menningu staðarins en efni stóðu til.

Um Stað og Staðarhverfi segir: "Kirkja var á Stað allt frá 13.öld til 1907. Í Staðarhverfi var konungsverslun á 18. öld, eða þangað til hún var flutt til Básenda. Árið 1703 var Staðarhverfið fjölmennast í Staðarsókn (Grindavík). Áttatíu árum seinna var þar orðið fámennast. Í dag er enginn íbúi skráður í Staðarhverfi en þar má sjá tóftir tveggja lögbýla og 26 hjáleiga frá mismunandi tímum."

"Hverfin í Grindavík eru þrjú; Þórkötlustaðarhverfi austast, Járngerðarstaðarhverfi í miðið og Staðarhverfi vestast."




Þetta myndarlega og upplýsandi söguskilti er á svokölluðum Holuhól sem er nokkuð vestan við kirkjugarð Grindvíkinga, en myndin er einmitt tekin frá nefndum hól. Saga staðarins er bæði löng og merkileg og mun meiri að vöxtum en margur heldur. Hún er svo sannarlega ekki bara fiskvinna alla virka daga og ball í Festi um helgar.

Íbúarnir eru orðnir 2.850, í bænum er glænýtt tjaldstæði, góð sundlaug og 18 holu golfvöllur.

Náttúran og landslagið er með sérstæðara móti, náttúruperlur á borð við Gunnuhver, Brimketil, Eldvörp, Kleifarvatn (já það tilheyrir Grindavík) og Krísuvíkurberg.

Í fjörunum eru fjölmörg gömul og forvitnileg skipsflök, gönguleiðir eru margar s.s. Prestastígur, Skógarfellsvegur, Reykjavegur og er auðvitað við hæfi að rölta upp á bæjarfjallið Þorbjörninn.



Það er illa gerlegt að ná þokkalegri mynd að bænum af sléttlendinu sem hann stendur á, nema þá að ganga á Þorbjörninn, en þangað lagði ég ekki leið mina að þessu sinni. Ég fékk því þessa loftmynd lánaða af vefnum visitgrindavik.is og vonast auðvitað til þess að komast upp með glæpinn.

"Grindavík hlaut kaupstaðarréttindi árið 1974. Í Landnámabók segir að Molda-Gnúpur Hrólfsson og synir hans námu land í Grindavík. Þar segir svo: ,Þeir voru þá fulltíða synir Molda-Gnúps, Björn og Gnúpur, Þorsteinn hrugnir og Þórður leggjaldi. Björn dreymdi um nótt, að bergbúi kæmi að honum og bauð að gera félag við hann, en hann þóttist játa því. Eftir það kom hafur til geita hans og tímgaðist þá svo skjótt fé hans að hann varð vellauðugur á skömmum tíma; síðan var hann Hafur-Björn kallaður.

Þegar einokunarverslun komst á árið 1602 var Grindavík ein af lögskipuðum verslunarhöfnum".




Tyrkjaránið var atburður í sögu Íslands sem átti sér stað árið 1627 þegar sjóræningjar rændu fólki í Grindavík, Vestmannaeyjum og á Austfjörðum og seldu í þrældóm í Barbaríinu sem svo var nefnt Nokkuð af fólkinu var síðar leyst út, snéri heim aftur og sagði sögu sína. Þekktust þeirra er Guðríður Símonardóttir (Tyrkja Gudda), sem síðar giftist Hallgrími Péturssyni og Halldór Hertekni sem síðar varð lögréttumaður og bjó á Hvaleyri við Hafnarfjörð.

Jan Janszoon van Haarlem var hollenskur sjóræningi sem gengið hafði í þjónustu Ottómanaveldisins og kallaðist þar oftast Murat Reis aðmíráll. Hann varð fyrsti landstjóri og stóraðmíráll borgríkisins Salé á strönd Marokkó, en höfnin þar var miðstöð sjóræningja sem herjuðu á nærliggjandi hafsvæði. Árið 1627 skipaði Janszoon dönskum þræl úr áhöfn sinni sem hafði komið til Íslands, að stýra skipi sínu þangað sem engum hafði áður dottið í hug að fremja sjórán. Annað skip, sem var frá Algeirsborg, lagði einnig af stað í ránsferð til Íslands en kom þangað mun síðar og er ekki ljóst hvort skipin höfðu eitthvert samflot í upphafi eða samráð um Íslandsferðina.

Ræningjarnir frá Salé undir forystu Janszoons komu til Grindavíkur 20. júní 1627. Danski kaupmaðurinn í Grindavík, Lauritz Bentson, sendi átta menn á báti til að athuga hvaða skip væri þarna á ferðinni og fóru þeir um borð en ræningjarnir tóku þá og fengu þá til að upplýsa að fátt væri um varnir í landi. Þeir náðu líka á sitt vald dönsku kaupskipi sem lá á höfninni. Murat Reis fór svo með þrjátíu menn í land og rændu þeir kaupmannsbúðina en kaupmanninum tókst að flýja ásamt öðrum dönskum mönnum nema þeim þremur sem verið höfðu um borð í danska skipinu.

Síðan rændu þeir bæina í víkinni, hirtu það sem þeim þótti fémætt en tóku 15 manns höndum og særðu tvo illa. Margir gátu þó flúið og falið sig í hrauninu. Ræningjarnir sigldu svo frá Grindavík en á útsiglingunni urðu þeir varir við danskt kaupskip sem var á leið til Vestfjarða. Þeim tókst að blekkja skipverja með því að draga upp falskt flagg og ná skipinu á sitt vald og höfðu þeir nú þrjú skip.

Ræningjarnir munu sjálfir hafa haft í huga að fara til Vestfjarða og ræna þar en hættu við það og ætluðu að ráðast að konungsmönnum á Bessastöðum en þar voru menn viðbúnir þeim og höfðu safnað liði og mannað fallbyssur. Eftir að eitt skipanna steytti á skeri utan við Bessastaði gáfust ræningjarnir upp á fyrirætlunum sínum og sigldu þ. 24. júní frá landinu og héldu heim á leið með fólkið, sem var svo selt var í  ánauð í Salé. Guðrún Jónsdóttir húsfreyja á Járngerðarstöðum og Halldór bróðir hennar losnuðu fljótt úr haldi og komu aftur til Íslands 1628, en Helgi sonur Guðrúnar var keyptur laus 1636 og kom þá heim. Hinir níu Grindvíkingarnir sneru ekki aftur.




Suðurstrandarvegurinn nýi var formlega opnaður  21. júní 2012.

"Fornar göngu og reiðleiðir hafa legið austur og vestur með suðurströnd Reykjanesskagans allt frá fyrstu tíð búsetu hér á landi. Eftir að Skálholtsstóll eignaðist flestar jarðirnar á svæðinu varð það eitt mesta forðabúr biskupssetursins. Jafnvel svo mikilvægt að dæmi eru um að fella hafi þurft niður skólahald í Skálholtsskóla þegar aflabrestur varð á vertíðum í og við Grindavík. Af meitluðum götunum í berghelluna má ætla að skreiðarlestar-ferðirnar hafi verið margar á þessu tímabili.Við opnun nýja vegarins eru liðin nákvæmlega 80 ár frá því að fyrsti vagnvegurinn var lagður milli Grindavíkur og Krýsuvíkur. Það var Hlín Johnson, sem greiddi fyrir lagninguna sumarið 1932, en þá áttu hún og bóndi hennar, Einar Benediktsson, skáld, bæði Herdísarvík í Ölfushreppi og Stóra-Nýjabæ í Krýsuvíkurhreppi. Tilgangurinn var að búa til leið til að koma heyfeng síðarnefndu jarðarinnar í verð í Grindavík. Þessi vagnvegur var að mestu lagður ofan í gömlu reiðleiðina. Hann varð einnig, til að byrja með, farvegur fyrstu bílanna, sem þarna fóru á milli.Árin 1946 og '47 var síðan lagður akfær vegur milli Ölfus og Grindavíkur. Sá vegur hefur að mestu leyti legið í farvegi þess vegar er sá nýi leysir nú af hólmi, eða í 65 ár."




Engin viðdvöl var höfð við í Grindavík, enda tíminn knappur og ferðalagið sem ekki einu sinni átti að verða neitt, hafði tekið dágóðan tíma.

Áður en lagt var af stað áleiðis til Hafnarfjarðar um Krýsuvík og Suðurstrandarveg, var staldrað við í Járngerðarstaðahverfi og teknar nokkrar myndir. Auðvitað var svo ákveðið að fara þessa leið aftur og gefa sér þá góðan tíma til þess. Vonandi gengur það eftir.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 557
Gestir í dag: 134
Flettingar í gær: 835
Gestir í gær: 148
Samtals flettingar: 477451
Samtals gestir: 52758
Tölur uppfærðar: 3.12.2024 07:04:09
clockhere

Tenglar

Eldra efni