02.02.2014 14:51

Áhlaup og ofankoma

908. Fimmtudaginn 30. jan. sl. laust upp úr miðjum degi, gerði mikla ofankomu hérna á suðvesturhorninu. Færð breyttist á svo undraskömmum tíma að fá dæmi eru um annað eins. Ég lagði upp frá skiptistöð strætó í Hamraborg í síðasta hring vaktar minnar kl. 14.06 og ók leið 28 sem liggur fram hjá Hjallahverfi í átt að Dalvegi, um Smára, Lindir, Sali, Kóra, Þing, Hvörf, þaðan um Breiðholtsbraut niður að Mjódd og síðan sömu leið til baka. Ef allt gengur samkvæmt áætlun, tekur u.þ.b. eina og hálfa klukkustund að aka leiðina fram og til baka. Við upphaf ferðar var rigningarúðinn svolítið að væta framrúðuna annað slagið eins og hann hafði reyndar gert frá því snemma um morguninn. Þegar droparnir voru farnir að sitja þéttar en æskilegt þótti, fengu risastór þurrkublöðin það hlutverk að strjúka vætuna af og útsýnið varð aftur eins og best varð á kosið. Þau hreyfðust letilega yfir rúðuna rétt eins og þeim findist verkefnið ekkert sérlega merkilegt. Þegar ég ók fram hjá Smáralindinni sá ég fáeinar stórar flyksur blandast úðanum og það var ekki laust við að ég yrði svolítið hissa því hitamælirinn í mælaborði vagnsins sýndi fjögurra gráðu hita úti. Leiðin lá eftir þetta upp á við og þegar landið hækkaði breyttist samsetning úrkomunnar.

"Það eru nú ennþá 47 vikur til næstu jóla" hugsaði ég með mér meðan ég ók upp brekkuna á Hlíðardalsveginum fyrir ofan Lindirnar sem var var næstum orðinn alhvítur. Ekki eru allir Kópavogsbúar búnir að taka niður jólaseríurnar utanhúss þrátt fyrir að komið sé fram undir janúarlok, svo þær harmoneruðu ákaflega vel við hvítu flyksurnar sem bæði stækkuðu og fjölgaði svo að umhverfið varð líkast risastóru póstkorti. Áfram var ekið sem leið lá upp á "hálendi Kópavogs" og ég heyrði í talstöðinni að verið var að ræsa út saltarana. Ekki veitti af því það var orðið skrambi hált og mér var lítillega farið að skrika dekk í kröppustu beygjunum inn og út úr hringtorgunum sem þarna eru fjölmörg. Það var farið löturhægt niður löngu brekkuna ofan af Víkurhvarfinu, en hún liggur eins og fram af brekkubrún rétt neðan við Vatnsendahæðina og niður á Breiðholtsbrautina. Ekki var þó allt búið enn því önnur brekka var eftir sem er stundum lúmskari en góðu hófi gegnir, en það er spölurinn frá Æsufelli og niður að Stekkjarbakka. Það átti svo sannarlega við í þetta skipti því afturendi vagnsins reyndi ítrekað að komast fram úr framendanum þrátt fyrir að hægt væri þokast áfram veginn. Það tókst þó að koma í veg fyrir að slíkt gerðist og skömmu síðar var lagt upp að í Mjóddinni aðeins á eftir áætlun. Það gerði þó lítið til og var jafnvel síst verra, því allir aðrir vargnar voru álíka mikið á eftir áætlun. Svo var lagt af stað til baka.

Snjókoman fór vaxandi og var nú orðin ansi þétt. Þurrkurnar gengu látlaust og rétt eftir að ég náði upp á brúnina við Víkurhvarf ók trailer þá sömu leið, en líklega full seint því hann komst aðeins upp fyrir miðja brekkuna áður en hann rann til hliðar og staðnæmdist þannig að hann lokaði veginum. Ég heyrði í talstöðinni að bílstjóri næsta vagns sem á eftir kom sagði brekkuna lokaða. Um það leyti mætti ég fyrsta trukknum sem skóf götuna um leið og hann saltaði og það mynduðust litlir ruðningar í vegkantinum. Þá var ekki liðin klukkustund frá því að ég varð var við fyrstu snjókornin. Í sama mund heyrði ég tilkynningu frá Þjónustuveri Strætó á Hesthálsinum að allar tímaáætlanir væru felldar úr gildi, vagnstjórar skuli fara sér hægt og aðeins huga að öryggisþættinum.

Ég ók inn á skiptistöðina í Hamraborginni tíu mínútum á eftir áætlun. Tvisturinn var kominn og farinn, Fjarkinn að lenda, en Ásinn tilkynnti að hann væri enn við Kringlu. Vaktinni var lokið og ég frétti daginn eftir að þeir sem tóku við áttu eftir að lenda í talsverðu brasi það sem eftir lifði dagsins.

Um kvöldmatarleytið átti ég erindi út í búð, en þá var hvellurinn búinn og rissastórt, skjannahvítt og tandurhreint teppi lá yfir öllu. Ég tók í leiðinni nokkrar myndir sem sjá má hér að neðan þar sem síðbúinn jólasnjór skreytti greinar trjánna. Um nóttina frysti og morguninn eftir þegar ég var kominn á stjá utan dyra var jafnvel enn fallegra um að litast. Ég hugsaði mér að erindast svolítið fyrst, en fara síðan góðan hring og taka nokkrar myndir til viðbótar. Klukkutíma síðar hafði hlýnað skyndilega og ekki sást snjókorn á nokkru tré.

Þetta var stutt og snarpt og á heildina litið alls ekki svo mikið snjómagn, en svona geta hlutirnir breyst með undraverðum hraða og það var einmitt það sem setti svo margt úr skorðum þennan dag.


                   













Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 349
Gestir í dag: 111
Flettingar í gær: 835
Gestir í gær: 148
Samtals flettingar: 477243
Samtals gestir: 52735
Tölur uppfærðar: 3.12.2024 05:38:59
clockhere

Tenglar

Eldra efni