13.04.2014 01:23

Ævintýramaðurinn Per Martin Steen

Per Martin Steen fyrir framan Hannes Boy. Kroppuð og stílfærð mynd af siglo.is (birt án leyfis).

 

923. Nýlega birtist frétt á siglo.is þar sem sagði frá hinum ævintýrgjarna Norðmanni Per Martin Steen og ferðum hans hérlendis.

( http://www.siglo.is/is/frettir/getAllItems/1/aevintyramadurinn-per-martin-steen-a-ferd-um-hid-ovaenta ) Þegar ég las greinina og sá myndina sem henni fylgdi, kviknaði snarlega á minnisperunni og ég minntist þess að við áttum saman svolítið spjall hér syðra fyrir fáeinum dögum.

Ég var að aka leið 28 á strætó eins og svo oft og var rétt ófarinn úr Mjóddinni þegar skeggjað andlit Norðmannsins birtist í gættinni, hann kynnti sig og bætti síðan við "ég spila á gítar".

"Og ég spila á hljómborð" svaraði ég af bragði.

Hann hló við og spurði hvort hann mætti koma með án þess að vera með strætómiða. Ég varð svolítið kjaftstopp við spurninguna því öll fyrirgreiðsla af því taginu er auðvitað alveg bönnuð, en það var eitthvað sem sagði mér að ef einhver ætti að fá slíka sérmeðferð, þá væri það maður eins og hann Per.

Til allrar hamingju leystist málið nánast af sjálfu sér því nærstaddur farþegi sem hafði fylgst með innkomuni og sennilega orðið fyrir svipuðum áhrifum og ég fór ofan í vasa sinn og fiskaði þaðan upp alveg heilan helling af klinki, skellti því í baukinn og sagði; "þetta er akkúrat" um leið og hann deplaði augunum ótt og títt. Ég horfði á hrúguna á botninum og sá að þarna var a.m.k. einn hundraðkall en kannski fleiri, fimmtíukall og vænn slatti af krónum, fimmköllum og tíköllum. Og þar sem klinkið var þegar komið ofan í strætóbaukinn var ég var ekki í neinni aðstöðu til að fara út í frekari skoðun á málinu, enda áhuginn takmarkaður. Ég sagði því bara ókey nokkuð ákveðið og bauð Norsaranum að ganga til bíls á einhverri skandínavískri mállýsku sem ég hannaði og spann upp úr mér þarna á staðnum. En hann skildi mig greinilega, kom inn og við tókum spjall saman. Hann sagði mér frá veru sinni og ævintýrum sínum hérlendis. Hann hefði aðeins átt fyrir (með hjálp góðra manna og kvenna) miða með Norrænu frá Færeyjum, en þar hefði hann verið svo lánsamur að kynnast tónlistardrottningu þarlendra lítillega henni Eivøru Pálsdóttir.

Nú var kominn tími til að leggja af stað og okkar maður fann sér sæti framarlega í vagninum og virti fyrir sér umhverfið upp eftir Breiðholtsbrautinni, um Hvörf, Þing og Kóra og að Hörðuvallaskóla þar sem ég stoppaði til að tímajafna. Þá stóð hann upp og við héldum áfram spjallinu. Hann hafði spilað á pöbb í miðbæ Reykjavíkur kvöldið áður og fengið fínan kvölverð fyrir framtakið. Þar hefði hangið gítar uppi á vegg sem hann hafði getað notast við eftir svolitla vinnu við stillingar og fíniseringu. Vertinn hafði að vísu haldið því fram að hann væri bara flottur uppi á vegg en varla til neins brúks á palli, en þetta hefði nú allt saman sloppið alveg þokkalega fyrir horn. Hann hefði síðan bankað upp á hjá þeim á lögreglustöðinni á Hverfisgötu og fengið þar hina þægilegustu gistingu. Þegar talið barst að Hverfissteininum brosti hann út í bæði og sagði að svona nokkuð væri nú ekki hægt að gera í Noregi, en þeir sem réðu þarna húsum væru miklir höfðingjar heim að sækja.

Aftur ók ég af stað og okkar maður settist og horfði út um gluggann á það sem fyrir augu bar. Fleiri Kórar, síðan komu Salir, Lindir og Smárar. Við Smáratorg var ég aftur um það bil að lenda aðeins á undan áætlun og staldraði því við stutta stund.

Aftur kom Per fram í til mín og nú vildi hann segja mér frá reynslu sinni af Íslandi og íslendingum, hafði um það mörg orð hvað hann hefði alls staðar mætt mikilli gestrisni og hvað honum fyndist landið að öllu leyti hreint ótrúlega heillandi. Það var líklega þá sem hann spurði hvert við værum annars að fara. Ég sagði honum að endastöðin væri Hamraborg, en sá staður væri eiginlega gamli miðbærinn í Kópavogi sem væri bær sem lægi þétt upp að Reykjavík en þó alls ekki hluti af henni. Og ég lagði mikla áherslu á þetta "ALLS EKKI". Hann spurði hvort þar væri ekki einhver pöbb sem hann gæti boðið fram þjónustu sína fyrir mat og/eða gistingu. Ég sagði honum af Catalinu, en bætti því við að mín reynsla af viðskiptum við eigendur staðarins væri með þeim hætti að líklega væri skynsamlegra að fara aftur niður í "city center of Reykjavik" og freista gæfunnar á þeim slóðum. Síðan ókum við af stað frá Smáratorgi.

Síðasti hluti samtals okkar fór svo fram í Hamraborginni. Hann hafði ákveðið að fara að mínum ráðum og reyna að koma sér niður í miðbæ Reykjavíkur. Ég lét hann fá skiptimiða og útskýrði hvernig hann virkaði, benti honum á að best væri að taka vagn númer EITT sem væri merktur "HLEMMUR". Hann spurði þá hvort ég væri á Facebook, en þar sem ég hef ekki ennþá meldað mig þar inn, hripaði hann niður póstfangið sitt á útrunnin skiptimiða og rétti mér um leið og hann þakkaði mikið fyrir sig og flýtti sér í næsta vagn. Út um gluggann sá ég hvar hann fór inni í vagn númer EITT, en bara vitlausu megin. Sá var að koma úr Reykjavík og því á leið til Hafnarfjarðar. Hann veifaði mér glaður í bragði út um gluggann og ég veifaði á móti, en samt kannski ekki alveg jafn glaðlega.

En hvað sosum um það, maðurinn var jú að leita uppi ævintýrin þar sem þau gætu hugsanlega gerst og leynst hverju sinni - eða þannig.

Kannsi biðu þau hans óþreyjufull í Hafnarfirði akkúrat þetta kvöldið.


P.S. Prófiði svo að gúggla "Per Martin Steen" og sjáiði bara hvað þið finnið.! 

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 123
Gestir í dag: 6
Flettingar í gær: 1391
Gestir í gær: 279
Samtals flettingar: 495500
Samtals gestir: 54624
Tölur uppfærðar: 26.12.2024 10:50:13
clockhere

Tenglar

Eldra efni