03.08.2014 01:43
Eyja-bylgjan, dagur eitt
945. Meðan ég kíkti á frásögn DV um glæpamennina sem halda Ólafsfirði í heljargreipum
sínum, (slóðin er: http://www.dv.is/frettir/2014/8/1/olafsfjordur-i-heljargreipum-glaepamanna/
) kveikti ég á útvarpinu og hlustaði
svona með öðru eins og maður gerir stundum. Það var stillt á Bylgjuna að þessu
sinni og þar hljómaði þáttur sem nefndur er Verslunarmannahelgarútvarp með þeim
Valtý Birni og Jóa. En sá þáttur reyndist heldur betur einsleitur og það er
ekki laust við að stoltinu vegna upprunans og rótanna hafi verið svolítið
misboðið. Fyrst eftir að ég kveikti var rætt um Þjóðhátíð í Eyjum, síðan hringt
á Ísafjörð og rætt stuttlega við aðstandendur Mýrarboltans, síðan var gamalt Eyjalag
leikið, eftir það var rætt við Elliða Vignisson bæjarstjóra í Eyjum. Svo komu
Bylgjufréttir kl. 16 þar sem m.a. var ítarlega fjallað um aðsókn á Þjóðhátíð í
Eyjum, Eina með öllu og Ungmennafélagsmótið á Sauðárkróki en engar aðrar. Síðan
hélt umfjöllunin um Þjóðhátíð í Eyjum áfram um stund og óspart var minnt á að
Brekkusöngnum yrði útvarpað beint kl. 23 annað kvöld. Að lokum þökkuðu þeir
kumpánar fyrir sig en vildu að lokum senda góðar kveðjur til Eyja
Sigurður Hlöðversson
Kl. 17 mætti svo Siggi Hlö til leiks hæfilega sjálfumglaður að venju og spilaði sérstakt Eyjabylgjumix, en tók þó fram sem rétt er að það væri talsvert á skjön við tónlistarstefnu þáttarins. Hann var hins vegar duglegur að plögga ballinu á Spot þar sem hann og Greifarnir ætluðu að trylla lýðinn og líklega að fá "stelpurnar" til að ÖSKRA af hrifningu. Ekki man ég hvort þær sem sögðu að Siggi væri æðislegur fengu óskalögin sín leikin frekar en aðrir, eða kannski frekar aðrar, en þannig finnst mér alla vega að hlutirnirnir gangi fyrir sig. - Bara svona tilfinning.
Í fréttum stöðvar 2 var boðið
upp á beina útsendingu frá Eyjum og meira að segja í Íþróttafréttunum var
sérstaklega fjallað um Jón Jónsson og Þjóðhátíðarlagið hans í ár.
Ásgeir Páll
Eftir fréttir tók við
dagskrárliðurinn Partývaktin sem Ásgeir Páll sá um. Hann var auðvitað ofurhress
að venju því þannig eiga menn að vera í hans starfi og öðru vísi halda menn
ekki djobbinu. Áfram hélt umfjöllunin um Þjóðhátíð í Eyjum, hann spilaði mikið
af ágætri "með sítt að aftan" tónlist í bland við nokkur misgömul
þjóðhátíðarlög og hafði nokkrum sinnum samband út í Eyjar. Jú það var beðið um
meira af íslensku efni og Ásgeir spilaði nokkur íslensk lög með flytjendum sem
Bylgjan hefur velþóknun á án þess þó að ástæðan sé öllum fyllilega ljós í öllum
tilfellum.
Svo voru það auglýsingarnar. "Það er alveg sama hvar í heiminum þú ert.
Þú getur hlustað á Brekkusönginn í beinni á Bylgjunni í gegnum útvarpið, í
gegnum netið, í sjónvarpinu og í Bylgju- Appinu". Og. - "Dagskrárgerðarmenn Bylgjunnar verða á ferð
og flugi alla Verslunarmannahelgina og taka stöðuna á flestum þeim útihátíðum
sem haldnar verða um helgina".
Þá hló ég bæði hátt og
snjallt.
Það er ekki laust við að
maður velti fyrir sér hvað veldur þessum ósköpum. Ég hélt að Bylgjan væri ekki
landshlutaútvarp. Ég hélt líka að það væru fleira að gerast á landinu þessa
helgina en Þjóðhátið í Eyjum að henni ólastaðri. Hvað er þetta þá? Klíkuskapur,
starfsmenn ættaðir frá Eyjum að misnota aðstöðu sína eða umfjöllun gegn
greiðslu eða greiða?
Ég giska á þetta síðasta og get
vel ímyndað mér að það sé bara nokkuð gott gisk.
Sé farið inn á visir.is sem er sama kompaníið, má
finna þar sex fréttir sem tengjast mannamótum um helgina, þar af er
helmingurinn tengdur Eyjum.
Það rifjaðist upp að í fréttatímanum
í hádeginu sl. fimmtudag einmitt á Bylgjunni, voru taldar upp "helstu
hátíðirnar" á landinu sem voru að mati viðkomandi: Mýrarbolti á Ísafirði,
Ungmennafélagsmótið á Sauðárkróki, Ein með öllu á Akureyri sem fyrirfram var
talið að yrði sú stæsta í ár og gætti þá undrunarhreims hjá fréttamanni,
Neistaflug á Neskaupsstað, Þjóðhátíð í Eyjum, Kotmót Hvítasunnumanna, Edrúhátíð
SÁÁ og Innipúkinn. Ekki var minnst á neitt annað.
Það rifjaðist líka upp að
þeir Valtýr og Jói heimsóttu Siglufjörð á Síldardögum sem gladdi mitt
Siglfirska hjartra alveg heilan helling, en eftir á að hyggja læðist sá grunur
að manni að þarna hafi þeir aðeins verið að fylla upp í dagskrána, prófa útsendingargræjurnar
eða búa til efni til að benda á að þeir hafi jú komið víðar við en raun ber
vitni, - og nóta bene; Þjóðhátíðin var heldur ekki byrjuð þá.
Það er því dagljóst að
Bylgjan er ekki útvarp allra landsmanna og það verður fróðlegt að fylgjast með
framhaldinu á morgun og hinn.
Að endingu og af gefnu
tilefni vil ég benda á nauðsyn þess að Rás 2 verði EKKI seld og/eða einkavædd.
- ALDREI.