04.08.2014 01:42

Eyja-bylgjan, dagur tvö



946. Í beinu framhaldi af gærdeginum (sem hefur þegar þetta er skrifað umbreyst í fyrradag) og því sem bar fyrir eyru á Bylgjunni, stillti ég á sömu útvarpsstöð eftir hádegið á nýliðnum degi. Ég vildi ekki trúa því að sagan endurtæki sig annan daginn í röð, en vonbrigðin urðu mikil.

Í stuttu máli var sá hluti dagskrárinnar þar sem útihátíðar komu beint eða óbeint við sögu og sneytt hjá allri síbylju eitthvað á þessa leið:

 

Vatýr Björn, Bjarni Ara og Jói í "Verslunarmannahelgarútvarpi" Bylgjunnar.

Byrjunin lofaði góðu þegar þeir áttu ágætt spjall við forsvarsmann Kotmóts Hvítasunnumanna, en strax eftir það var farið að auglýsa brekkusönginn í Eyjum.

Þá var talað við Ásgeir Pál Bylgjupartýsmann sem var á leið til Eyja. Hann lýsti því hvernig fólksflutningaferjan Víkingur skoppaði eins og korktappi á sjónum í Landeyjarhöfn og hann taldi sig jafnvel sjá spýjur farþeganna gusast út yfir borðstokkinn. Valtýr Björn tók undir og taldi þá vera í "Æluvinafélaginu". Svo var hlegið.

Síðan var slegið á þráð vestur á Ísafjörð til aðstandenda Mýrarboltans, en síðan kom auglýsing um að brekkusöngurinn yrði í beinni á Bylgjunni.

Þá var spjallað við Árna Johnsen um Þjóðhátíðina og eftir það fluttu Fjallabræður ásamt Sverri Bergmann þjóðhátíðalagið frá 2012, "Þar sem hjartað slær". Reyndar ferlega flott lag, flottur flutningur og alltaf gaman að heyra það.

Næsta viðtal var við Ingó og væntanlega stjórn hans á Brekkusöngnum um kvöldið. Eftir það kom auglýsing um væntanlegan brekkusöng.


Talsverð umfjöllun var um Þjóðhátíð í fréttum kl. 17 en eftir þær tók Hlynur Hallgríms við.

Hann spilaði annað þjóðhátíðalag og Brekkusöngurinn var auglýstur tvisvar, bæði með hefðbundnum og óhefðbundnum "auglýsinga"-hætti ef svo mætti segja.

Svo kom lag með Skítamóral og þess getið að þeir drengir hefðu nú verið að spila í Eyjum í gærkvöldi.

Þvi næst var "Eyjan græna" þjóðhátíðalagi Bubba Mortens frá 2009 demt yfir saklausa hlustendur. Sumir hafa þá líklega kveinkað sér og nuddað sár eyrun, - ég var einn þeirra.

Þá var fjallað um mjög bættar forvarnir af ýmsu tagi í Eyjum, s.s. hópinn sem stóð að "Bleika fílnum" og fjölgun myndavéla í dalnum. (Hið besta mál).

Svo flutti Jón Jónsson Þjóðhátíðalag 2014 sem var síðasta lag fyrir kvöldfréttir.

 

Í fréttum stöðvar 2 var sýnt frá Þjóðhátíð í Eyjum, Ein með öllu á Akureyri og Mýrarboltanum á Ísafirði, en þó lang, lang, lang mest frá Eyjum.

 

Eftir fréttir var svo Ásgeir Páll mættur á Partývaktina í beinni útsendingu úr Herjólfsdal. Reyndar var hin klassíska Bylgjusíbylja ríkjandi, en þáttastjórnandinn kom inn annað slagið alveg ofurhress og talaði þá fjálglega um að umrædd Partývakt væri stærsta og skemmtilegasta partý á Íslandi og hver vill ekki vera með??? Hann heimsótti Elliða bæjarstjóra sem stóð sig ágætlega í spjallinu, skreið undir sæng til Stebba Hilmars sem átti líka skemmtileg tilsvör og lagði heilmikið púður í að byggja upp sem mesta eftirvæntingu fyrir Brekkusönginn sem hófst svo kl. 23.

Á heimasíðu Bylgjunnar er hann auglýstur með eftirfarandi hætti:

"Ein stærsti viðburður í íslensku útvarpi verður svo klukkan 23:00 á sunnudagskvöld þegar Bylgjan færir þér Brekkusönginn úr Herjólfsdal í beinni útsendingu. Það er alveg sama hvar í heiminum þú ert. Þú getur hlustað á Brekkusönginn í beinni á Bylgjunni í gegnum útvarpið, í gegnum netið, í sjónvarpinu og í Bylgju- Appinu".

Mér fannst ekki sérlega mikið til um útkomuna og hreinlega nennti ekki að hlusta lengur og stillti yfir á aðra útvarpsstöð.

 

Á heimasíðu Bylgjunnar má einnig lesa:

"Dagskrárgerðarmenn Bylgjunnar verða á ferð og flugi alla Verslunarmannahelgina og taka stöðuna á flestum þeim útihátíðum sem haldnar verða um helgina".

Bölvaðir lygalaupar, þeir fóru á einn stað og hringdu á þrjá. Kannski hafa þeir ekki átt meiri inneign...!

 

En á morgun verður kominn nýr dagur og ég ætla að fylgjast með þeim Bylgjukumpánum, en þó ekki nema með öðru því að við norðanmenn eigum greinilega fáa vini í höfuðstöðvum 365 í Skaptahlíðinni.

Ég hvet alla Siglfirðinga til að segja upp áskrift að Stöð 2 og verða sér úti um NETFLIX.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 319
Gestir í dag: 19
Flettingar í gær: 2796
Gestir í gær: 383
Samtals flettingar: 481036
Samtals gestir: 53318
Tölur uppfærðar: 5.12.2024 10:11:23
clockhere

Tenglar

Eldra efni