16.08.2014 22:35

Nýja Bíó 90 ára


Nýja Bíó 1930


949. Nýja Bíó var tekið formlega í notkun föstudaginn 25. júlí árið 1924 og varð því nýlega 90 ára. 

Ef það hefði lifað - kynnu einhverjir að segja, en í hugum okkar sem upplifðum alvöru bíómenningu hinna góðu og hæfilega gömlu ára, mun minningin ylja okkur um hjartarætur sem fengum að njóta.

Þrjúbíóin á sunnudögum og hasarinn við að ná hurðarhúninum eða að minnsta kosti standa sem næst þeim sem það gerði, var spurning um virðingarstöðu og hvar í goggunarröðinni menn stæðu í tilverunni sem skipti auðvitað hreint ekki svo litlu máli.



Úr kvikmyndinni Madsalune.


Bæjarbúum var öllum boðið til opnunarinnar á sínum tíma og húsfyllir var við vígsluna eða 355 manns. Þar sungu þeir Þormóður Eyjólfsson og Sóphus A. Blöndal tvísöng við góðar undirtektir, en síðan var kvikmyndin Madsalune sýnd. Sú mynd var dönsk ævintýramynd framleidd árinu áður og var síðan sýnd all nokkrum sinnum við ágæta aðsókn. Næsta mynd sem tekin var til sýninga var svo sænska myndin Berg Ejvind och hans husfru eða Fjalla-Eyvindur sem var byggð á leikriti Jóhanns Sigurjónssonar. Hún hafði verið páskamynd Gamla Bíós í Reykjavík árið 1919 og mun hafa fengið mikið lof kvikmyndahúsgesta.

Nýja Bíó á Siglufirði var lengi vel elsta starfandi kvikmyndahús landsins og nokkuð örugglega það fyrsta sem var sérstaklega byggt sem slíkt á landsbyggðinni.



Úr leikhúsuppfærslu á Fjalla Eyvindi frá árinu 1911, en ekki fannst neitt myndefni úr kvikmyndinni.


Húsið sem stendur við Aðalgötu og er númer 30, byggði Hinrik Thorarensen ásamt Oddi bróður sínum. Sá fyrrnefndi rak það í einhverja áratugi, en síðan tóku synir Hinriks þeir Oddur og Ólafur við rekstrinum og enn síðar Oddur ásamt Guðrúnu konu sinni þegar Óli snéri sér alfarið að verslunarrekstrinum á Tórahorninu.

Árið 1982 seldi Oddur Steingrími Kristinssyni og fjölskyldu hans Nýja Bíó, en fyrsta kvikmyndin sem sýnd var af hinum nýju eigendum var Funny people 1.

Áratug síðar eða 1992 tók Valbjörn Steingrímsson og fjölskylda hans alfarið við og breyttu þau árherslum og  umfangi rekstursins verulega. Auk myndbandaleigu og sjoppureksturs sem áður hafði komið til, fékk staðurinn vínveitingaleyfi og gamla Bíókaffi á efri hæðinni var opnað aftur eftir áratugalangt hlé.

Reglulegar kvikmyndasýningar munu síðan hafa lagst af árið 1999.

 

Húsið hefur í áranna rás hýst ýmis konar starfsemi. Þar hefur verið rekið kvikmyndahús, sælgætis og íssala, það notað undir dansleikjahald, skóverslun, fataverslun, lyfsala og meira að segja kjúklingaeldi. Þarna var um tíma til húsa umboð Tóbaksverslunar ríkisins. Þarna hefur einnig verið rekin matsala, haldnar leiksýningar, troðið upp með tónleika, haldnir fundir og eiginlega allar hugsanlegar gerðir, stærðir og útfærslur mannamóta.


Árið 1936 kviknaði í húsinu þegar verið var að sýna myndina NERO fyrir fullu húsi og voru þar staddar inni m.a. áhafnir af nokkrum Færeyskum skútum. Kristinn Guðmundsson var sýningarstjóri Þetta kvöld og hjá honum í sýningarklefanum var Ragnar, elsti sonur Thorarensen. Filman sem verið var að sýna slitnaði fyrir ofan ramma og svo illa vildi til að filmuræman rúllaði inn í kolbogahúsið (ljósgafann). Þá voru filmurnar úr efni sem kallað var nitrit, sama efni og var notað í riffilskot í stríðinu. Ekki var að sökum að spyrja, það kviknaði í og fyrr en varði varð úr mikið eldhaf. Kristinn byrjaði á því að koma Ragnari út, fór síðan og slökkti á vélinni og ætlaði að freista þess að koma logandi filmunni út. Hann greip um spóluna, bar hana út að glugga en um leið og aukið súrefni umlukti spóluna varð allt alelda. Kristinn brenndist illa bæði á höndum og andliti. Það er að segja af áhorfendum að það gleymdist að kveikja ljósin í salnum en áhorfendur komust ekki hjá því að sjá hvað var að gerast, fyrst þegar slitnaði og síðan af eldbjarmanum og allir þutu hver um annan til dyra. Engin alvarleg meiðsl urðu á fólki ef undan er skilinn sýningarstjórinn. En síðar var sagt frá því að tréklossar sem færeyingarnir áttu hefðu verið á floti um allan salinn, en þeir höfðu flestir skilið þá við sig í látunum við að komast út og sagnir herma að það hafi verið spaugilegt að fylgjast með daginn eftir, er þeir reyndu að þekkja og endurheimta skótau sitt en sumir munu hafi krafið bíóið um nýja skó.

Athyglisvert er um þennan atburð að segja að það er enn til filmubúturinn sem varð eftir í myndrammanum (ein heil mynd), rammi lítilsháttar sviðinn og á svörtum fleti standa þessi orð: "Dod over Nero, Dod over Brændstifteren". En einmitt á þessari stundu í bíómyndinni sjálfri stóð yfir bruni Rómarborgar á dögum Neros.

 

Um 1950 leigði Fúsi frá Bræðrá (Bræðrá er í Fljótunum) húsnæðið þar sem seinna var Bíóbarinn og opnaði þar verslun sem endaði með því þar kviknaði aftur í. Það lagði mikinn reyk um húsið og Oddur hafði áhyggjur af kvikmyndafilmum sem voru í filmugeymslunni við sýningarklefann. Áhyggjur Odds voru ekki aðeins til komnar vegna mögulegrar sprengihættu sem þeim fylgdi, heldur ekkert síður vegna þess að kvikmyndirnar voru fimm, en aðeins þrjár þeirra voru tryggðar. Hann fékk Steingrím Kristins (Baddý í bíóinu) til að lóðsa mannskap upp og koma filmunum út. Á þessum tíma var gengið upp í sýningarklefann að norðanverðu úr sundinu milli sýningarsalarins og Valashgerðarinnar hjá Schiöth. Menn úr Slökkviliðinu bundu hann og Helga Sveins saman með stuttri taug og settu súrefnisgrímur á þá áður en þeir lögðu af stað inn í reykjarkófið. Þegar þeir voru komnir ofarlega í stigann kippti Helgi í spottann og vildi snúa við, en Steingrímur streittist á móti og hélt sínu striki. Aftur vildi Helgi snúa við en Steingrímur spyrnti þá við fótum og hálfdró hann á eftir sér. Þegar upp var komið steinleið yfir Helga en Steingrímur kom filmunum út um gluggann Aðalgötumegin. Við nánari athugun kom í ljós að ástæðan fyrir því að Helgi vildi snúa við var síður en svo einhver gunguskapur, heldur hafði gleymst að opna fyrir súrefnið á grímunni hans. Greiðlega gekk að slökkva eldinn sem reyndist ekki mikill, en reykurinn sem kom frá honum var hins vegar alveg gríðarlegur.

 

Meðan Oddur og Guðrúnu ráku bíóið kom það stöku sinnum fyrir að engin mynd var í húsi sem var ekki of mikið bönnuð til að verða sýnd á barnasýningu. Þá var auglýst nokkuð sem bar yfirskriftina "Smámyndir og þættir" og var blanda af bútum úr kúrekamyndum, teiknimyndum, gömlum grínsketsum og fleiru þar sem flestir fengu eitthvað við sitt hæfi.

Ísinn var svo landsfrægur og jafnvel rúmlega það vegna góða bragðsins. Uppskriftin var mikið leyndarmál sem var geymd í Færeyjum, að sögn Odds. Bragðið breyttist verulega þegar Steingrímur og fjölskylda tók við rekstrinum og sumir sögðu til hins verra, en skýringin mun hafa verið sú að ísvélin var þrifin sem aldrei fyrr.

 

Ég man eftir atviki fyrir framan útstillingargluggann á Bíóinu sem var alls ekkert fyndið þá, en virkar einhvern vegin allt öðruvísi í dag. Ég var varla meira en 9-10 ára gamall polli, á röltinu þarna um gangstéttina. Oddur var að hengja upp auglýsingu um mynd kvöldsins út í glugga og tvær gelgjur þess tíma fylgdust spenntar með. "Gvööööð! Það er danskur texti" andvarpaði önnur. "Og myndin er í lit" skríkti hin. Svo flissuðu þær báðar og ég skynjaði vel þótt ungur væri, að þær ætluðu alveg örugglega að kíkja á myndina fyrst hún var bæði með dönskum texta og í lit. - Og kannski líka aðeins á strákana svona rétt í leiðinni. Samkvæmt mínum útreikningum ættu þær að vera komnar fast að sjötugu í dag blessaðar stúlkurnar.

 

Tómas Óskarsson og Ásta Oddsdóttir ráku húsið um skeið og létu gera á því gríðarlega miklar endurbætur og breytingar. Næstu rekstraraðilar voru Brynjar Sigurðsson og Guðrún Jónsdóttir, þar á eftir Hulda Alfreðs og Didda Ragnars, síðan tóku við Friðfinnur Hauksson, Sigurbjörg Elíasdóttir, Ægir Bergsson og Hallfríður Hallsdóttir, en Haraldur Björnsson og Ólafía Ingibjörg Sigríður Guðmundsdóttir (Lóa) eiga það og reka í dag undir nafninu ALLINN sem margir sem komnir eru til vits og ára geta illa sætt sig við.

 

Að lokum verð ég að láta þess getið að ég starfaði þarna sem dyravörður upp úr 1980, en á móti tók Oddur að sér að sjá um bókhald myndbandaleigunnar sem ég rak á sama tíma næsta húsi.


Og til gamans má það einnig fylgja með að fyrsta skíðakappmót á Íslandi fór fram á Siglufirði þetta sama ár, fyrsti sótarinn var skipaður skv. nýlegri reglugerð um hreinsun reykháfa, byrjað var að loka Álalæknum sem varð í framhaldinu fyrsta skólpræsið í bænum, Karlakórinn Vísir var stofnaður og eflaust bar margt fleira til tíðinda, en látum þetta nægja að sinni.

 

Heimildir: Steingrímur Kristinsson, Þ. Ragnar Jónasson (Siglfirskur annáll), Gunnar Trausti Guðbjörnsson, Jóna Möller, Siglfirðingur, Morgunblaðið og ég sjálfur.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 649
Gestir í dag: 55
Flettingar í gær: 612
Gestir í gær: 128
Samtals flettingar: 306215
Samtals gestir: 33228
Tölur uppfærðar: 28.3.2024 18:45:42
clockhere

Tenglar

Eldra efni