09.10.2014 04:29

Nú leggjum við land undir dekk og fáum ORÐ í eyra



960. Fyrir nýliðna helgi sá ég fram á svolítla glufu í dagatalið þar sem ekki var gert ráð fyrir vaktafríi og ekkert benti til þess að mann vantaði á aukavakt hjá Kynnisferðum. Þetta kom mér allt að því skemmtilega óvænt því þriggja daga frí hefur ekki komið til síðan í vor ef frá eru taldar tvær vikur af sumarfríinu sem ég náði að berja út með mánaðar millibili og sex dagar þegar ég eiginlega laumaðist norður og fékk kollega til að hafa vaktaskipti við mig í tvo daga. Trixið virkaði því þegar ég átti eftir þá tveggja daga vaktafrí, var ég kominn norður þegar hringt var og ég beðinn um að taka aukavaktir þá daga.

Æ, æ, var sagt í símann og aftur æ, æ, þegar ég bað um tvo daga í viðbót af því sem ég ætti eftir af sumarfríinu. Það var samþykkt með svolitlum tregatón, en sá ágæti maður sem sér um að manna þau skörð sem myndast í skipuritinu vegna margvíslegra ástæðna eins og gengur, hefur fullan skilning á að þeir sem komnir eru svolítið til ára sinna þurfa að hvíla lúin bein annað slagið.

En það var reyndar alls ekki þetta sem ég ætlaði að minnast á að þessu sinni.



Hljómar 1966, Hljómar 1968, Hljómar 2003 og Hljómar 2004


Það var ekki haft mikið fyrir því að ferðbúast, enda lítil ástæða til að gera einfalda hluti flókna. Föt til skiptanna ofan í einn bónuspoka og vinnuföt í annan, svolítið nesti úti í búð á leiðinni út úr bænum og auðvitað eyrnafóðriðí geislaspilarann í bílnum. Að þessu sinni urðu hinir íslensku bítlar eða Hljómarnir frá Keflavík fyrir valinu. Fjórir diskar af fimm sem komu út undir merkjum sveitarinnar meðan hún starfaði, en einn sat eftir heima því satt best að segja finnst mér bara eitt lag skemmtilegt á honum. Það er að sjálfsögðu "Tasko tostada" eftir eðalrokkarann Rúnna Júll. Svo finnst mér heldur engan vegin ekki passa að Bjöggi hafi verið að troða sér í Hljómana þarna um árið. Hann er bara einhver allt önnur sort en frumkvöðlarnir, ef þannig mætti að orði komast og ætti þess vegna að halda sig þar sem hann fittar inn í félagsskapinn.

En það var reyndar alls ekki þetta sem ég ætlaði að minnast á að þessu sinni.



"ORÐ" þeirra Guðmundar, Róberts og félaga.


Aðal málið er að ég fór á tónleika fyrir norðan meðan ég staldraði þar við. Þeir voru haldnir í hinni glæsilegu Rauðku og þar stigu á pall góðir gestir ofan af Krók. Það er þó tæplega hægt að kalla alla þá sem þar komu fram gesti, því tveir þeirra eru bornir og barnfæddir Siglfirðingar. Guðmundur Ragnarsson og Róbert Óttarsson voru að gefa út geisladiskinn "Orð" þar sem Gummi semur öll lögin en Róbert syngur, og var það tilefni heimsóknar þeirra á heimaslóðirnar að þessu sinni. Full ástæða er til að nefna til sögunnar Fljótamanninn og kirkjuorganistann á Króknum, Rögnvald Valbersson sem er eins nálægt því að vera Siglfirðingur og hægt er að vera án þess að hann sé það með formlegum hætti.

En hljómsveitin var annars nokkuð fjölmenn og taldi alls níu manns, ákaflega vel spilandi og skilaði sínu með miklum sóma.

Þegar þar kom að halda skyldi suður fengu Hljómarnir að dúsa í hanskahólfinu, en diskur þeirra félaga var spilaður alla leiðina á suðvesturhornið, aftur og aftur og aftur og..

Róbert hefur fyllta og ákaflega þægilega rödd og það er eiginlega bráðfyndið hvað hann getur verið því sem næst óþekkjanlegur frá frænda sínum "Stubba" eða Kristbirni Bjarnasyni á köflum. Lögin hans Gumma falla vel að rödd Róberts eða er það kannski öfugt? Alla vega flísfalla þeir félagar saman í sköpun sinni á því sem fyrir eyru bar og mega vera stoltir af afurðinni. Þá má ekki gleyma að minnast á textana á disknum, en þar er bókstaflega hvergi veikan hlekk að finna.

Mínar mestu og bestu hamingjuóskir Guðmundur, Róbert og þið öll sem að málinu komu.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 197
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 2796
Gestir í gær: 383
Samtals flettingar: 480914
Samtals gestir: 53310
Tölur uppfærðar: 5.12.2024 05:38:55
clockhere

Tenglar

Eldra efni