30.10.2014 22:02

Selaveisla 2014


963. Þá er komið að því enn eitt árið og til viðbótar öllum hinum sem á undan eru gengin, en næstkomandi laugardag verður haldin hin árlega Selaveisla í Haukahúsinu þar sem ég ætla að mæta eins og undanfarin hartnær 20 ár. Skýringin á nærveru minni er ekki sú að á mig leiti hungur þegar ég heyri minnst á sel og selaafurðir þrátt fyrir að kræsingarnar líti glæsilega út, heldur er komin hefð á að ég standi þarna á palli við hljómborð ýmist einn eða við annan mann frá því laust fyrir síðustu aldamót og leiki bæði gömlu og nýju dansana fyrir fótafima. Í ár verður það poppgúrúinn Axel Einarsson sem ætlar að standa þarna með mér, en Axel var á sínum tíma í hljómsveitum eins og Icecross, Tilveru, Deildarbungubræðrum, Haukum o.fl., en hann samdi líka lagið góðkunna "Hjálpum þeim" sem Jóhann G. Jóhannsson gerði texann við.




Að þessari samkomu standa annars núverandi og fyrrverandi eyjabændur úr Breiðafirðinum ásamt afkomendum sínum, en allt hráefni sem notað er til matargerðarinnar kemur frá Breiðafjarðareyjunum eða upp úr sjónum í kring um þær. Selur er fyrirferðamestur á matseðlinum, en þar má einnig finna hval, fugl, fisk og lamb.




Þrátt fyrir að félagsskapur eyjabænda sé skrifaður fyrir uppákomunni, er það er Guðmundur Ragnarsson fyrrverandi landsliðskokkur með meiru sem er maðurinn á bak við herlegheitin.




Það er að sjálfsögðu ekki sama hvernig fóðrið er framreitt, en Gummi er listakokkur og kann að gera veislumat úr öllu því hráefni sem hann kemur höndum yfir.




Hann hefur rekið eldhúsið í myndveri Latabæjar undanfarin ár auk þess að fylgja Saga-film í allar veigameiri kvikmyndatökur sem það fyrirtæki hefur komið að um árabil. Hann hefur því m.a. eldað fyrir James Bond við Jökulsárlón og Löru Croft upp á Vatnajökli svo eitthvað sé nefnt, en auk þessa tekur hann að sér að sjá um veislur af öllum stærðum og gerðum. Guðmundur er sonur Ragnars Guðmundssonar eiganda veitingastaðarins Lauga-ás.




Að þessu sögðu er tímabært að skella vinnugallanum niður í tösku ásamt nesti og "gömlum" skóm, því á morgun er meiningin að skella sér norður á Sigló.


Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 390
Gestir í dag: 20
Flettingar í gær: 2796
Gestir í gær: 383
Samtals flettingar: 481107
Samtals gestir: 53319
Tölur uppfærðar: 5.12.2024 11:17:43
clockhere

Tenglar

Eldra efni