12.11.2014 01:20
Gaggó vest og hittingur í vændum

964. Það er búið að stofna
facebook síðu til að halda utan um væntanlegt árgangsmót okkar "krakkanna" frá
Sigló sem erum fædd rigningarárið mikla 1955 og áttum samleið í svo mörg ár. Ótalmörg
ár sem ætluðu engan enda að taka fannst okkur þá, því á þeim árum var tíminn svo
miklu lengur að líða en hann er í dag.
Allt of mörg ár eru liðin síðan
þá og þau liðu allt of hratt, finnst okkur sennilega öllum í dag.
Við áttum samleið gegn um súrt
og sætt, upplifðum auðvitað bæði góða daga og slæma, því tilveran fer jú í
svona upp og niðursveiflu rétt eins og hún hefur alltaf gert þar sem annars
staðar. Við þurftum að þola hvort annað á stundum og komumst kannski misjafnlega
vel frá því, eða gleðjast með hvort öðru þegar allt var gott og allir voru skemmtilegir.
En þegar árin eru orðin svo mörg sem raunin er, uppgötvum við smátt og smátt verðmætin sem liggja í þessum löngu liðna tíma. Ljúfsárar minningar, barnalegir brestir, væntingar, vonbrigði, gremja, eftirsjá, sorg, gleði, góðvild, stríðni og svo kom gelgjan...
Allt þetta og svo miklu meira til.
Smávægilegir atburðir sem
engu máli skiptu þegar þeir gerðust, verða í hugum okkar eins og eitthvað sem olli
straumhvörfum og mun lifa í það minnsta jafn lengi og við.
Mannstu þegar við.. o.s.frv.
Þannig verður þetta einhvern vegin orðað, bros munu þá færast yfir andlitin, hjartað
slær í það minnsta eitt aukaslag, það sléttast úr hrukkunum og hárið fer næstum
því aftur að vaxa.
Við munum á einu andartaki yngjast um hartnær hálfa öld.