13.12.2011 01:45
Skattgrímur
782. Samkvæmt meðfylgjandi gögnum má ljóst vera að framundan getur varla verið neitt minna en verulega snörp leifursókn til bjargar ríkisfjármálunum.
Nú á sko að taka á því.
11.12.2011 18:18
Að vera hrútur um fengitímann
781. Það er mikið líf og fjör í fjárhúsum landsins þessa dagana því nú er hafinn sá tími sem hrútarnir hafa beðið eftir með ákefðarglampa í augum allt árið. Það verður mikið "hopp og hí og hamagangur á Hóli" í sveitum landsins eins og þeir Ríómenn sungu hér um árið og svo koma blessuð lömbið í heiminn í vor þegar fuglarnir fara að syngja, sólin að skína blómin að anga o.s.frv. Því má svo auðvitað bæta við að þar með hefur verið tryggt að landsmenn fái sunnudagslærið sitt með rauðkáli og grænum baunum næsta vetur. En þessa mynd rakst ég á einhvers staðar á víðáttum netsins og þarna má sjá lambrollurnar bíða í röðum eftir að komast að, því allar vilja þær verða næstar.
Við að sjá þessa mynd
rifjast upp meira en 40 ára gömul saga úr Barnaskóla Siglufjarðar þegar
kennarinn spurði nemendur eitt sinn hvað þá langaði mest til að verða þegar
þeir yrðu stórir og svörin voru á ýmsa lund eins og gengur. Flugmaður, kennari,
skipstjóri, lögga, bílstjóri, sjómaður og svo mætti lengi telja. Svar eins
ónefnds nemanda sem í dag gegnir viðulegri stöðu hér á Siglufirði, skar sig þó
úr með afgerandi hætti.
"Mig langar mest til að vera
hrútur um fengitímann í fjárhúsunum hjá pabba" svaraði hann án þess að blikna.
Stór hluti bekkjarins
hreinlega sprakk og kennarinn mun hafa átt mjög bágt með að halda andlitinu, en
annar hópur nemenda hló ekki neitt því hann skildi ekki hvað var svona fyndið.
10.12.2011 17:22
Uppruni laufabrauðsins
780. Það verður líklega seint sagt um okkar ágætu nágranna Ólafsfirðinga, að þeir séu illa haldnir af minnimáttakennd. Enda er engin ástæða til slíks, því þriðjungur núverandi íbúa mun vera Siglfirðingar eða afkomendur þeirra. En sú var tíðin að þegar sveitaböllin á Ketilási voru upp á sitt besta, sögðu menn gjarnan; "passi nú hver sitt, Ólafsfirðingarnir eru að koma" þegar sást til sætaferðarinnar koma niður frá Stífluhólunum. Nú orðið heyrir auðvitað allur slíkur hrepparígur sögunni til góðu heilli, og íbúar austan og vestan Héðinsfjarðar hafa fallist í faðma og gengið í eina Fjallabyggarsæng. Reyndar ætlaði ég alls ekki að minnast einu orði á neitt af ofanrituði, - ég missti mig bara svolítið í áttina til fortíðar.
Erindið var að benda á stórskemmtilega
sögu sem er að finna á "Ólafsfjarðarvefnum" 625.is sem Gísli Rúnar Gylfason stendur
fyrir. Hún opinberar hinn stóra sannleika um uppruna laufabrauðsins og er að finna
á slóðinni http://625.123.is/blog/2011/12/09/589399/
09.12.2011 01:30
Jólasveinninn er kominn
779. Þessi líflega,
skemmtilega og jólalega mynd skreytir húshlið við Suðurgötuna hér á Siglufirði.
Jólasveinninn er þarna að koma færandi hendi til handa
bæjarbúum sem honum auðvitað fagnandi. - Nema hvað.
Í fyrstu fannst þetta aðeins
virkilega flott skraut í skammdeginu, en svo fór ég að íhuga hina dýpri merkinu
skreytingarinnar og þá ekki síst með tilliti hvar hún er staðsett. Það rann upp
fyrir mér alveg nýtt ljós og ég gat ekki annað en brosað í kampinn, því með
góðum vilja og hæfilega frjálslegri túlkun má vel sjá húmorinn í myndefninu. Ég
er líka alveg sannfærður um að sá ágæti drengur sem er eigandi hússins, brosir
lika út í annað þegar hann áttar sig á djókinu.
07.12.2011 01:27
Aage Schiöt fertugur
778. Allar götur síðan ég eignaðist húsið að Aðalgötu 28, hef ég gjarnan lagt við eyru þegar ég hef heyrt eitthvað af eða um manninn sem byggði það. En það var Aage Schiöth lyfsali sem fæddist á Akureyri, en fluttist til Siglufjarðar að námi loknu þar sem hann opnaði lyfjaverslun árið 1928. Fyrstu tvö árin bjó hann í bárujárnsklæddu timburhúsi við Aðalgötu þar sem Hótel Hvanneyri stendur nú, en það brann einhverjum árum eftir að hann flutti þaðan. Apótekið opnaði hann í timburhúsi að Aðalgötu 28, en ári síðar var það flutt innar á lóðina og stórt steinhús byggt á sama stað við götuna. Í gamla húsinu rak hann síðar Efnagerð Siglufjarðar, en Apótekið í því nýja næstu þrjá áratugina. Síðar var byggður skúr á milli húsanna sem tengdi þau saman og þannig var húsakosturinn þegar ég keypti eignina árið 1981, alls 560 fermtrar. Ég rakst á greinina um fertugsafmælið á netflakki á dögunum og datt þá í hug að gúggla svolítið meira um manninn, sem svo sannarlega setti sterkan svip á síldarbæinn allan þann tíma sem hann lifði og starfaði þar.
MORGUNBLAÐIÐ. 26.06.1942.
"Í dag er einn af mestu dugnaðar og athafnamönnum Siglufjarðar fertugur. Það, er Aage Schiöth lyfsali. Það eru nú 14 ár síðan hann fluttist til Siglufjarðar og stofnsetti þar Lyfjabúð Siglufjarðar. Hefir lyfjabúðin eflst og dafnað, og er nú orðin eitt af stærstu þess kyns fyrirtækjum landsins, utan höfuðstaðarins. Schiöth er áhuga mikill fylgismaður Sjálfstæðisflokksins, og hefir jafnan staðið í fremstu röð í baráttu flokksmannasinna norður þar. Hann hefir setið 6 ár í bæjarstjórn Siglufjarðar. Fyrir nokkrum árum stofnsetti Schiöth Efnagerð Siglufjarðar h.f. og hefir það fyrirtæki blómgast vel undir stjórn hans. Hann hefir einnig rekið útgerð í nokkur ár. Þá var hann einn af aðalforgöngumönnunum að stofnun hraðfrystihússins Hrímnis h.f., sem er stór og myndarlegt fyrirtæki og vafalaust á eftir að bæta mjög atvinnu skilyrði Siglfirðinga, bæði til sjós og lands. Schiöth er ágætur áhuga maður um hvers kyns íþróttir, og landskunnursöngvari er hann Þess væri óskandi að Siglufjörður mætti sem lengst að njóta starfskrafta hans og athafnaáhuga.
S. Bj."
Það er greinilegt að Schiöth hefur byrjað kornungur að syngja eins og fram kemur í blaðinu ÍSLENDINGUR þ. 16.04.1920, en þá er hann aðeins 18 ára að aldri.
"Þriðjudaginn 6. Apríl var
haldin kvöldskemtun í leikfimishúsi Gagnfræðaskölans til ágóða fyrir sjúkrasjóð
skólans. Þar kom fram á sjónarsviðið stud. art. Aage Schiöth og söng solo "Hvorfor
svulmer Weichselfloden som et Heltebryst" og nokkur fleiri lög, öll af frábærri
list. Systir hans ungfrú Oda Schiöth aðstoðaði bróður sinn með því að spila
snildarlega undir á píanó. Hefir Aage Schiöth af Drottni þegið einhverja þá
dásamlegustu gáfu, sem nokkrum dauðlegum manni má hlotnast sem sje töfrandi
fagra söngrödd og má óhætt spá honum frægðar og frama í sönglistinni ef honum endist
aldur til, lærist honum æ betur og betur að beita sínum undurfögru hljóðum.
Eins og nærri má geta urðu áheyrendunir stórhrifnir og vottuðu söngmanninum
margsinnis aðdáun sína með dynjandi lófaklappi, og var hann kallaður fram hvað
eftir annað."
Í sama blaði er að finna
stutta tilkynningu þ. 21.11.1924.
"Þann 5. nóv. voru gefin saman
í hjónaband í Kaupmannahöfn ungfrú Gudrun Juulsöe og Aage Schiöth stud. pharm.
héðan úr bænum."
Blaðið HÆNIR á Akureyri
22.11.1924.
"Aage Schiöth, sonur Axels Schiöth bakara á Akureyri, söng hér kvöldið 17. þ. m. Um söng hans er það skjótast aö segja, að rödd hans er látlaus og allmikil, og virðist hann hafa óvenjulega mikiö vald yfir tónunum og voga sér þó nokkuð hátt. Hann hefir notið kenslu hjá söngkennara í Höfn í 3 ár, en hefir annars samtímisstundað nám í lyfjafræði og lokið nýlega prófi í henni,"
Í blaðinu "FRÉTTIR OG AUGLÝSINGAR" sem gefið var út á Siglufirði um skeið birtust eftirfarandi línur þ. 14.05.1927
"Aage Schiöth, sonur Axels Schiöths bakarameistara, hefur nýlega
lokið fullnaðarprófi í lyfjafræði með ágætri einkun. Prófið tók hann í
Hamborg."
Það vakti athygli mina að að HÆNIR á Akureyri segir Schiöth hafa lokið prófi í lyfjafræði í Höfn árið 1924, en FRÉTTIR OG AUGLÝSINGAR að hann hafi tekið fullnaðarpróf í Hamborg 1927 eða þremur árum síðar.
VÖRÐUR segir frá fjölgun
lyfjaverslana þ. 28.04.1928.
"Lyfjaverslunum fjölgar.
Heyrst hefur, að stofnaðar verði þrjár lyfjaverslanir hjer á landi í sumar. Á að reisa tvær hjer í Reykjavík. Á aðra Jóhanna Magnúsdóttir, en hina Mogensen, forstjóri vínverslunarinnar. Sú þriðja kvað eiga að koma á Siglufirði, og er eigandi hennar Aage Schiöth frá Akureyri."
05.12.2011 18:48
Svört vinna óskast
777. Það var ekkert verið að fara fínt í hlutina eða talað undir rós hjá einum auglýsandanum á bland.is í fyrra mánuði, en sá var að auglýsa eftir vinnu og þótt sérstök ástæða að taka fram að hann væri heiðarlegur. Ekki veit ég hvort Steingrímur J. hefur séð ástæðu til að svara auglýsingunni, en mér þyklir ólíklegt að hún hafi fallið honum neitt sérlega vel í geð. Auglýsingin var svohljóðandi:
Svört vinna óskast! Opna öll innlegg. svart111 | Óþekktur aðili | Umsagnir (0) | 9 nóv. '11, kl: 21:27:04 | Alls sótt: 255 | Svara | Atvinna
27.11.2011 13:23
Á Búálfinum
776. Það er alltaf gaman að fá óvæntar sendingar ef þær eru af skemmtilega taginu. Ég var að fá nokkrar myndir í pósti sem var einmitt mjög óvænt, en þær voru teknar af einum dansgestanna í Búálfinum þar sem við Axel spiluðum um helgina. En það er annað mál að ég get ekki neitað því að ég vissi ekki hverju ég mátti eiga von á þegar við réðum okkur á þennan lókalpöbb, sem er í Hólagarði í Breiðholti. En Búálfurinn reyndist hinn vinalegasti staður og það sama má segja um eigandann hann Bjarna sem er Ísfirðingur að upplagi, en það er auðvitað bullandi plús. Gestirnir eru kátt fólk sem gjörnýttu parketið á dansgólfinu þegar leið á kvöldið. Í ofanálag var þarna svolítill slæðingur af Siglfirðingum sem var nú ekki verra.
En hér má sjá myndirnar frá nonum Denna.
25.11.2011 20:29
Snú snú í yfirstærð
775. Þau eru greinilega glöð
og ánægð með tilveruna þessi burðarvirki þar sem þau eru í risa snú-snú. Eitthvað annað en sá krappi dans sem félagar þeirra sem starfa fyrir Orkuveituna hafa þurft að stíga.
Líklega eru þau í vinnu hjá Landsvirkjun eða Rarik.
25.11.2011 20:10
Manstu gamla daga
774. Árið 1992 eða sama ár
og annað Síldarævintýrið var haldið, var einn þáttanna "Manstu gamla daga" sem
Helgi P. stjórnaði, tileinkaður síldinni og Siglufirði. Í honum komu fram
söngvararnir Sigrún Eva Ármannsdóttir, Berti Möller, Stefán Jónsson, Margrét
Eir Hjartardóttir, Ari Jónsson að ógleymdum þeim félögum Ragnari Bjarnasyni og
Ómari Ragnarssyni. Aðal spjallgestirnir voru þeir Örlygur Kristfinnsson og
Theodór Júlíusson, sem í mörg ár var framkvæmdastjóri Síldarævintýrisins og
stóð sig með mikilli prýði í því hlutverki.
Í salnum má sjá margan Siglfirðinginn svo sem Hallvarð S. Óskarsson, Gunnar Trausta, Birgir
Ingimars, Billu Lúthers svo einhverjir séu nefndir. Einnig er sýnt frá einni
glæsilegastu söltunarsýningu sem sett hefur verið upp á nyrðra. Endilega kíkið á
þennan frábæra þátt. Slóðin er: http://www.youtube.com/watch?v=rcEU7i9Zw8c
21.11.2011 23:14
Nú er liðin kattartíð
773. Í dag kvaddi þennan heim hinn stórglæsilegi norski skógarköttur Tímon, en hann fékk nafn sitt strax á sínu fyrsta kattarári frá vinslæum marketti sem var óaðskiljanlegur vinur vörtusvínsins Púmbu. Hann kom inn á heimilið aðeins átta mánaða gamall fyrir rúmum sautján árum síðan. Heimsóknin átti að vera stutt, því hann var á leiðinni í hina endanlegu svæfingu, rétt eins og fóstbróðir hans hafði komið skömmu áður. Örlögin höfðu greinilega önnur plön en þáverandi aðstandendur hans, áætlanir breyttust snarlega eftir ærsl og leik um gólf og húsgögn og hann fór aldrei lengra, - fyrr en núna. Hann gerðist í kvölfarið fullgildur fjölskyldumeðlimur fyrir fullt og fast og var það alla sína kattartíð, allt til hinsta dags.
Fyrir var á heimilinu Tómas
Brjánn Margrétarson og þeir uppeldissynir og fóstbræður áttu samleið í blíðu og
stríðu næstu fimmtán árin, eða þar til sá síðarnefndi kvaddi þennan heim saddur
lífdaga um mitt sumar 2008 eftir að hafa fengið hjartaáfall og barist við ýmsa
krankleika því tengda. Auðvitað áttu þeir félagarnir það til að taka heilmiklar
rispur og stundum hélt ég að nú myndu þeir hreinlega ganga hvor frá öðrum, en
þeir náðu alltaf saman á endanum og urðu hinir mestu mátar á ný. Þegar Tómas
var horfinn á braut var hans leitað í nokkurn tíma, en þegar hann fannst ekki
tók við tímabil deyfðar og söknuðar. En sagt er að tíminn lækni öll sár og
vonandi gerði hann það einnig í þessu tilfelli. Hjartnæm og tregafull eftirmæli Tómasar er að finna á slóðinni http://leor.123.is/blog/2008/07/13/268936/
Tímon var stundum strítt
pínulítið og þá gjarnan uppnefndur "Grái fiðringurinn" vegna háralitsins, en
hann tók því aldrei illa og ekkert benti til þess að hann erfði slíkt við þá
sem það gerðu. Það er auðvitað til marks um framúrskarandi gott geðslag hans og
umburðarlyndi.
Sá grái fékk í það skiptið
engar sérstakar þakkir fyrir uppátækið þó hann sjálfur hafi eflaust haft sína
skoðun á því máli, og gott ef einhvar sagði ekki stundarhátt, en þó með illa
dulið bros á vör; "skamm kisi". Þegar hugsað er til þessa
atviks, kemur kunnulegt textabrot upp í hugann: "Þetta fullorðna fólk er svo
skrýtið, það er alltaf að skamma mann." En hvað er svo sem hægt að
Hér að ofan getur að líta síðustu myndina sem tekin var af Tímon í lifanda lífi. Hún var tekin í dag skömmu fyrir andlátið.
Bálför hans fór fram í
kyrrþey.
17.11.2011 22:01
Drekkhlaðið
772. Þegar ég sá þessa mynd fyrst, var ég þess fullviss að hún væri af skipi sem væri að því komið að sökkva. En svo fór ég að glugga í meðfylgjandi skýringartexta og þá kom annað í ljós. Þessi magnaða ljósmynd mun vera tekin einhvern tíma milli 1950 og 1960 af skipi sem er "drekkhlaðið" af síld og á leið í land. Annað skip fylgir því eftir og siglir kulmegin við það, því eins og ljóst má vera þarf ekki mikinn vind eða öldu til að illa geti farið. Maður veltir því fyrir sér hvort orðið "drekkhlaðið" lýsi ástandinu nægilega sterkt.
14.11.2011 05:40
Stund og staður - þróun og þroski - aldur og fyrri störf
771. Það kom mér ekkert á óvart að meðalaldurinn í Selaveislunni á laugardagskvöldið var í hærri kantinum. Þannig hefur það alltaf verið og þannig mun það líklega verða áfram um ókomin ár. Það sást m.a. á því að venjulegt rokk og ról átti ekkert sérlega mikið upp á pallborðið hjá veislugestum, en gólfið fylltist hins vegar þegar við spiluðum gömlu dansana eða eitthvað í þá veruna. Ég þakkaði mínum sæla fyrir allt það nýtilega sem reynslan hefur kennt mér í áranna rás og mikill meirihluti þess sem við Axel spiluðum var því af þeim tónlistartoga. Ég gat ekki annað en brosað innra með sjálfum mér þegar gamli gítargúrúinn og harðkjarnarokkhundurinn söng hinn hálfrar aldar gamla færeyska brag um Rasmus í Görðum af mikilli innlifun. Á einhverjum öðrum tíma hefðu svona hlutir verið með öllu óhugsandi þó mikið hefði legið við.
Stundum setjast smávægileg
og jafnvel ofur hversdagsleg atvik að í kollinum á mér, ýta hæfilega mjúklega
við mér en samt nokkuð ákveðið. Og þau eiga það til að vekja mig til umhugsunar
um hvar á lífsleiðinni ég er staddur þá stundina, en það finnst mér reyndar fullkominn
óþarfi, því ég tel mig mjög meðvitaðan um aldur
Ég veitti athygli gamalli
konu sem sat
Eftir nokkra stund sá ég að
hún stóð upp og studdi sig við stólbakið meðan hún teygði sig eftir
göngugrindinni. Síðan fetaði hún sig áfram, hægt og bítandi meðfram dansgólfinu
sín megin, í áttina að dyrunum. En þegar þangað kom fór hún ekki fram í
anddyrið, heldur gekk áfram og nú meðfram dansgólfinu okkar megin, staðnæmdist
fast við pallinn og togaði í jakkalaf Axels. Þegar laginu lauk sá ég að
eitthvað fór þeim á milli og Axel spurði mig hvort ég væri nokkuð með blað og
penna. Ég var því miður ekki með slíkt, en gat ekki setið á mér og spurði hvert
erindi gömlu konunnar væri.
"Hún vill ráða okkur til að
spila á balli" svaraði Axel og ég sá að hann varð svolítið skrýtinn til
augnanna.
"Ég sendi hana fram á bar
til Gumma þar sem hún getur fengið númerin okkar á miða" bætti hann við.
"Árin líða greinilega og við
erum líklega sjálfir bráðum komnir á tíma fyrir nýjan markhóp" sagði ég. Axel
tók ekkert undir það heldur vildi byrja á næsta lagi sem fyrst. Kannski hefur
hann ekki heyrt í mér, eða kannski hefur hann ekki viljað heyra í mér.
Sú gamla staulaðist í burtu og það tók hana næstum því heilt lag að komast fram að salardyrunum.
Á leiðinni heim sagði Axel
mér að hann hefði sofið afskaplega illa um nóttina og væri því búinn að vera
með ólíkindum orkulaus í allan dag. Hann hefði vaknað kl. 4 og þá verið
eitthvað svo undarlega ískalt á fótunum. Þá hefði hann reynt að ná sér í
svolítinn lúr eftir hádegið, en það hefði ekki gengið upp.
"Það er svipað hérna megin,
en þú varst þá að standa þig ágætlega í kvöld miðað við aðstæður" sagði ég sem
var ekkert oflof.
"Erum við kannski að verða svolítið gamlir"
bætti ég við.
Það varð svolítil þögn og svo var farið að tala um eitthvað allt annað, - og miklu skemmtilegra.
En ég er alveg sannfærður um
að laugardaginn í næstu viku þegar við spilum fyrir Breiðhyltinga og annað gott
fólk á hverfispöbbnum Búálfinum í Hólagarði, verðum við orðnir eiturhressir og
búnir að hrinda þessari aldurstengdu pælingu frá okkur. Umhverfið verður allt
poppaðra og klassískir rokkslagarar ásamt diskóskotnum eilífðarblöðrum munu
hljóma sem aldrei fyrr.
11.11.2011 15:52
Útsala í Bónus - fólk eins og síld í tunnu
770. Sl. þriðjudag opnaði Bónus á Selfossi kl. 9.00 um morguninn og mun þá talsverður fjöldi fólks þegar hafa verið mættur og beið þess að opnað yrði. Ástæðan var eflaust skiljanleg á þessum síðustu og verstu, því auglýstur hafði verið 30% afsláttur á öllum vörum verslunarinnar og allt átti að seljast eins og það er oft orðað í útsöluauglýsingunum. Það var ekki að sökum að spyrja, flestar hillur voru orðnar svo gott sem tómar þegar leið á daginn. Útsölur munu ekki vera algengar í þessari lágvöruverslun, en að þessu sinni var tilgangurinn sá að loka átti búðinni og lágmarka þess vegna eða jafnvel sleppa við flutning á vörubirgðum milli húsa. Bónus mun síðan opna aftur ásamt Hagkaupum í nýju og mun stærra verslunarhúsnæði að Larsenstræti á morgun þ. 12. nóv. En þetta er ekki öll sagan, því skömmu eftir opnun sást hvað sjúkrabíll og lögregla mætti á svæðið og blikkandi blá ljós lýsu upp stæðið. Og nú var ástæðan var sú að vegna loftleysisins sem mannfjöldinn inni í búðinni orsakaði, mun hafa liðið yfir einn eða fleiri viðskiptavini.
09.11.2011 06:06
Keimlík skjaldarmerki
769. Það er ekki laust við að svolítill svipur sé með þessum tveimur skjaldarmerkjum, enda má segja að þau séu bæði skyld og tengd.
Merkið vinstra megin er bæjarmerki Aabenraa, frænda okkar í Danmörku. En sá bær stendur við samnefndan fjörð á Jótlandi austanverðu, skammt fyrir norðan Þýsku landamærin. Aðal atvinnuvegur bæjarbúa hefur lengst af verið sjósókn og þar er mjög góð höfn frá náttúrunnar hendi. Á skjaldarmerkinu er mynd af þremur uppsjávarfiskum sem í þeirra tilfelli er makríll.
Merkið hægra megin kemur
líklega flestum mun kunnuglegar fyrir sjónir, því það hefur verið skjaldarmerki
Siglfirðinga í all nokkra áratugi og er teiknað af Sigurði Gunnlaugssyni.
Okkar bær stendur einnig við
samnefndan fjörð, atvinnuvegur bæjarbúa hefur lengst af verið sjósókn og þar er
mjög góð höfn frá náttúrunnar hendi. Á skjaldarmerkinu er líka mynd af þremur uppsjávarfiskum sem í okkar tilfelli er
síld.