14.09.2011 01:40
Fossarnir í Skútudal
752. Þær eru fleiri náttúruperlurnar
í firðinum okkar en allt of margir gerir sér grein fyrir, og meira að segja eru
þær margar hverjar "right under our nose" eins og það er sagt á "erlensku". Fyrir
nokkru lagði ég leið mina upp í Hestskarð til að kanna uppgönguleið á Pallahnjúk,
en á niðurleiðinni myndaði ég ótrúlega fallega fossa sem eru í öðrum læknum sem
renna úr Hestskarðsskálinni. Og þó þeir hafi sést áður hér á síðunni og það
ekki fyrir svo löngu síðan, finnst mér ekkert að því að rifja flottheitin upp.
Ég gerði mér svo ferð skömmu síðar til að skoða hinn lækinn sem rennur úr sömu skál, en í honum eru líka nokkrir mjög athyglisverðir fossar. Leiðin lá fyrst að munna Héðinsfjarðargangna, en þegar þangað var komið beygði ég til hægri inn Skútudalinn og áleiðis að Borholunum. Rétt fyrir sunnan munnann er komið að báðum lækjunum. Þar sem ég hafði þegar myndað þann nyrðri, hélt ég áfram og staldraði við þann syðri.
Og þá er enn eftir að skoða fjölmarga litla fossa sem eru ofarlega í Skútuánni.
08.09.2011 13:39
Hjálpum þeim

751. Axel Einarsson fyrrum
meðspilari
Slóðin á myndbandið er: http://www.youtube.com/watch?v=HkbvEyIACog
03.09.2011 16:30
Rígmontinn afi

01.09.2011 00:50
Haustið er komið
749. Sumri er greinilega tekið að halla, dagurinn hefur verið að styttast og nóttin að lengjast smátt og smátt án þess að allir hafi endilega tekið eftir því. Skuggarnir eru byrjaðir að gægjast yfir lönd og höf þegar það er orðið kvöldsett og svo mætti lengi halda áfram. Hér norður á Siglufirði hefur ferðafólki fækkað ört á tjaldstæðinu síðustu dagana, en þar hefur oft verið ansi þéttbýlt í sumar. Það styttist líka í að skólar opni dyr sínar fyrir nemendum sínum á komandi haustönn og um sama leyti breytist takturinn í mynstri svo marga okkar. Einum kaflanum er að ljúka rétt einu sinni enn, annar að hefjast og vetrardagskráin byrjuð að mótast.
Eitt af því sem ótvíræð vísbending um að haustið sé á næsta leyti, er þegar sviðið við Ráðhústorgið er tekið níður spýtu fyrir spýtu.
Tjaldstæðið er alveg autt.
Það situr enginn í flottu stólunum fyrir sunnan Rauðku.
Og síðustu menjar Njarðarplansins sem svo mikið hafa verið myndaðir í sumar með smábátahöfnina í baksýn, hafa misst spón úr aski sínum eða öllu heldur nokkra staura úr svipmóti sínu vegna færslu Snorrabrautar.
Ég held að ég fari líka að pakka saman og þetta mun því vera síðasta bloggið sem póstað er frá Siglufirði í bili.
01.09.2011 00:48
BILAÐ

748. Teljarinn sem mælir fjölda heimsókna inn á síður þeirra sem notast við 123.is mun vera bilaður. Mér fannst skrýtið þegar heimsóknum hingað inn fækkaði um helming milli daga, og síðan helmingaðist helmingurinn aftur skömmu síðar. Ég var ekkert að velta þessu fyrir mér fyrr en nokkrum dögum síðar og fór þá að skoða aðrar 123.is síður sem ég þekkti eitthvað til. Þessi breyting er alveg á línuna og til dæmis eru vinsælustu síðurnar hjá þessu fyrirtæki sem alla jafna voru með 500 - 700 heimsóknir á sólarhring, nú aðeins með á bilinu 100 - 200. Ég sendi inn fyrirspurn, en henni hefur ekki verið svarað. Alla vega ekki enn þá, en yfirleitt berast svör frá vefstjóra því sem næst um hæl. Mér reiknast svo til að eins og staðan er núna, sé ekki langt frá lagi að margfalda sýnilega tölu á teljara með 4. Þá var erfitt að koma inn myndum um tíma, blogg birtust ekki fyrr en einhverjum klukkustundum eftir að þau voru vistuð og öll vinnsla varð mun hægari.
En þetta á eflaust sínar skýringar. Nýlega hófust endurbætur á kerfinu og líklega er enn verið að vinna úr einhverjum hnökrum sem svona breytingum fylgja gjarnan.
31.08.2011 23:15
Létt skot í beinni

747. Í gær fékk ég létt skot í beinni í síðdegisútvarpinu á rás 2.
Forsaga málsins er sú að um páskana héldum við nokkrir burtfluttir Siglfirðingar ásamt söngkonunni Þuriði Sigurðardóttur tónleika í Bátahúsinu hér á Sigló. Þetta vatt upp á sig og tónleikarnir urðu fleiri. Síðast var uppselt í Salnum í Kópavogi, svo ákveðið var að endurtaka þá fljótlega eftir sumarfrí starfsfólks. Frá upphafi höfðum við gert upp samkvæmt hlutaskiptareglu, þar sem Þuríður hafði einn og hálfan hlut. Þegar á leið fór hún fram á hækkun og var með rúma tvo hluti sem litlar athugasemdir voru gerðar við, á síðasta uppgjöri. En þó að salan á næstu tónleika hafi farið mjög vel af stað og eflaust eigi eftir að seljast upp á þá líka, varð ég meira en lítið hissa þegar ég fékk tölvupóst þar sem söngkonan bauð okkur strákunum að spila undir hjá sér fyrir fjörutíuþúsundkall. Mér þótti þetta fullmikil lækkun úr níutíuþúsunum. Ég afþakkaði því boðið, sagði mig frá viðfangsefninu og bara ekkert frekar um það að segja af minni hálfu.
Ég hafði verið úti að múra í
kring um glugga og skrapp inn í síðdegiskaffi, akkúrat þegar hún var í viðtali
á rásinni. Ég heyrði hana þá segja að fyrri tónleikar yrðu toppaðir þar sem snillingurinn
Gunnar Gunnarsson píanó og hljómborðleikari væri genginn til liðs við hana. Hljómar
ekki illa, en ég kannaðist við klangið í röddinni og vissi auðvitað um leið hverjum sneiðin var ætluð. Gunnar er frábær tónlistarmaður og ég veit að tónleikarnir
verða örugglega hin besta skemmtun, en það er nú óþarfi að láta svona.
29.08.2011 18:57
Fugl dagsins
746. Ég man að fyrir margt löngu síðan var spiluð upptaka með hljóði einhverrar fuglategundar rétt fyrir
hádegisfréttir á gömlu Gufunni. Liðurinn var nefndur "Fugl dagsins", og ég veit
til þess að margir lögðu við eyru og reyndu að geta sér til um hvaða fugl væri nú
að láta í sér heyra áður en þulurinn upplýsti það. Oft varð "Fugl dagsins" líka
ágætur efniviður í alls konar einfeldningslegt grin og skemmtilega
skrumskælingu manna á meðal og margar fleygar línur uðu til.
Fugl dagsins er Furðufugl, Hermikráka, Gargönd eða Skúfönd eftir jólabaðið svo dæmi séu tekin. Einu sinni sá ég millifyrirsögnina "Fugl dagsins á einni erfiðustu holu vallarins" og svo er til "Fugl dagsins" - sagan endalausa eftir Michael Ende.
Þetta svona dúkkaði upp í
kollinum á mér þegar ég rakst á þessar tvær skemmtilegu fuglamyndir sem báðar
færu létt með að standa undir titlinum.
29.08.2011 00:29
Maggi Hauks og Ragnheiður á Sigló

745. Það kemur líklega einstaka sinnum fyrir flesta rétt eins og mig, að rekast á einhvern sem maður þekkir, á einhverjum mjög, mjög ólíklegum stað. Á sólarströnd, í jeppaferð uppi á hálendinu, sleðaferð á jökli, á fjölfarinni götu í erlendri stórborg, eða bara einhvers staðar. Við verðum alltaf jafn hissa en svona gerist þetta bara.
Ég var á rúntinum hérna á Siglufirði og datt í hug að taka létta lykkju yfir lóð S.R. af öllum stöðum og svæðum. En af því að ég veitti mikilli athygli forláta drossíu sem kom á móti mér, tók ég betur eftir ökumanninum en ég hefði ella gert og fannst hann koma mér eitthvað svo undarlega kunnuglega fyrir sjónir. Ég stoppaði og drossían stoppaði líka. Síðan bökkuðum við báðir og tókum tal saman. Þetta reyndist vera Magnús Hauksson, "gamall vídeókarl" frá Ísafirði og Ragnheiður kona hans. Hann tjáði mér að hann væri að koma til Siglufjarðar í annað skiptið, en hún í það allra fyrsta. Þau reka í dag "Tjöruhúsið" (byggt 1734) niðr'í "neðsta" (Neðstakaupstað) á Ísafirði, en það hefur þótt bjóða upp á meira spennandi fistkrétti en algengt er á veitingahúsum hér á Fróni. Hlýri, karfi, steinbítur, keila, o.fl. plús plokkari í hádeginu og allt á fáránlega sanngjörnu verði. Ég mæli með að þeir sem eiga leið um vestfirði kíki við í Tjöruhúsinu a.m.k. einu sinni áður en þeir yfirgefa "kjálkann", því leið okkar sem búum annars staðar á "skerinu" liggur því miður allt of sjaldan um þennan landshluta, og því óvitlaust að "grípa gæsina" eða öllu heldur hina frábæru fiskrétti meðan gefst.
P.S. Það er vissara að panta
og þá er síminn er 456-4419.
24.08.2011 22:01
Af hverju konur lifa lengur
744. Það er staðreynd sem ekki verður á móti mælt að
meðalaldur kvenna er hærri en karla. Ýmsir hafa orðið til að velta fyrir sér ástæðum
þess og margt hefur verið nefnt sem líklega ástæða. Hér er ein þeirra sett upp á
myndrænan hátt og líklega þarnast hún ekki flókinna skýringa.
21.08.2011 22:32
Róstursamur skilnaður Gunnars og Önnu

743. Mér barst nýverið til
eyrna að
Þar kemur fram að Stefnandi hafi fyrst komið til starfa hjá stefnda í apríl 2008 og þá fengið í laun kr. 1.500 krónur á klukkustund,
en þau laun hafi ekki verið gefin upp til skatts, sem hlýtur að teljast nokkuð sérstakur vitnisburður í dómskjölum.
Um áramótin 2008-2009 hafi verið hafist handa við undirbúning að opnun útibús Laugarásvídeós í Borgarnesi og var
stefnanda falið að sjá um rekstur þess. Og þrátt fyrir að Laugarásvidó
hafi gefið út launamiða fyrir árið 2010 þar sem heildarlaunin voru sögð 1.345.900
krónur, hafi stefnandi einungis verið greiddar 330.000 krónur fyrir störf sín á því ári.
Útibúinu hafi síðan verið lokað hinn 29. mars 2010 án þess að gengið hafi verið frá launum. Þá hafi stefnandi gert sér grein fyrir að hún fengi engar frekari greiðslur úr hendi stefnda. Hafi stefnda þá verið sent innheimtubréf þar sem krafist hafi verið greiðslu launa og uppgjörs. Því bréfi var svarað á þá leið að ekkert yrði gert fyrir stefnanda.
Í dómsorði segir að Laugarásvídeó ehf. skuli greiði stefnanda, Önnu Ólöfu Kristjánsdóttur, 630.917 krónur, ásamt dráttarvöxtum frá 3. maí 2010 til greiðsludags ásamt kr. 350.000 krónur í málskostnað.
Ja hérna hvað sumir halda sig alltaf við sama heygarðshornið, ég segi nú bara ekkert annað en það. Og ef einhver skyldi vilja kynna sér dóminn í heild sinni þá er slóðin þangað:
http://www.domstolar.is/domaleit/nanar/?ID=E201006835&Domur=2&type=1&Serial=1
19.08.2011 01:25
Gullkorn gáfumanns

742 Frá örófi alda hafa vitringar leitt okkur og leiðbeint upp úr djúpum dölum fávisku og ranghugsunar. Þessi speki kom upp í hugann þegar ég sá ummælin hér að ofan á síðu Ísfirðingsins Jóns Steinars http://prakkarinn.blog.is/ og gat í framhaldinu ekki setið á mér og stalst til að "cópý/peista" þau. Vonandi kemst ég svo upp með "glæpinn".
14.08.2011 13:11
Hestadagar á Siglufirði

741. Hestadögum lauk í dag, en þeir sóðu yfir dagana 12. til 14. ágúst. Síðast vou þeir haldnir hér á Siglufirði árið 2008 og verða næst að öllu óbreyttu aftur hér 2014. Að þeim standa hestamannafélögin Glæsi, Gnýfari og Svaði, og eru þeir því til skiptis á Siglufirði, Ólafsfirði og á Hofsósi. Á annað hundrað hestamenn komu ríðandi yfir Siglufjarðarskarð og rétt innan við hundraðið fór síðan ríðandi inn í Hólsdal vestan megin og út að austanverðu. Þá var efnt til leikja og kepptu menn þar m.a. í Dekkjarallý og Villimannareið. Ég fylgdist með mótinu og tók talsvert af myndum, en svolítið sýnishorn af afrakstrinum má sjá hér að neðan.


































































En eins og áður er sagt þá er þetta aðeins örlítill hluti myndanna. Eins og gengur heppnast ekki allar myndir eins vel og ítrustu vonir standa til, en ég henti litlu að þessu sinni og lét flest "vaða" inn á möppuna. Sumir geta einfaldlega aldrei verið kyrrir eitt andartak og myndavélin höndlar ekki alltaf með góðu móti miklar og stöðugar hreyfingar. Gott dæmi um slíkt er Margrét Alfreðsdóttir frá Lambanesreykjum. En u.þ.b. 400 myndir má finna á slóðinni http://leor.123.is/album/default.aspx?aid=212056
11.08.2011 23:00
Pallahnjúkur





















11.08.2011 00:01
Rednex, fjallahugleiðingar og krúttlegir hlaupaskór
739. Fyrir þá sem eru fjarri "góðu
gamni" eða öllu heldur góðu veðri, skal upplýst að hér á Sigló var einmuna veðurblíða
í dag. Ekki sást svo mikið sem fjaðurskýtutla á himni, sólin gat því hellt
geislum sínum yfir síldarbæinn alveg óhindrað og gerði það líka alveg svikalaust.
Hitamælirinn á Sparisjóðnum sýndi 22 stig eftir hádegið, en var komin ofan í 19
stig þegar leið að kvöldmatartíma.
Ég horfði mikið til
fjallanna í dag og ekki síst Pallahnjúks, Dísarinnar og Móskógarhnjúks, en mig
hefur lengi langað til að ganga frá Hestskarði til Hólsskarðs.
Margir hafa þó latt mig til
þeirrar ferðar og sagt mér að ekkert vit sé í að klífa Pallahnjúk frá
Hestskarði. Ég veit svo sem allt um það því ég hef staðið í skarðinu og horft
upp eftir fjallsegginni. Samt langar mig til að þó ekki sé nema að skoða málið
aðeins áður en ég tek undir slíkar skoðanir.
Það sem varð þó til þess að
ekkert var gert í neinum slíkum málum, var að ég hafði meira en nóg að sýsla
við að færa til og endurbyggja "gömlu" tröppurnar við Suðurgötu 46. Reyndar eru
þær ekki svo mjög gamlar, en fyrri hönnuður og samsetningarmaður þeirra viðurkenndi
nýlega fyrir mér að allmargir "baukar" hefðu verið hafðir við hönd við gerð
þeirra á sínum tíma. Það sést líka ágætlega ef menn renna "smiðauganu" eftir kjálkunum. Áður var þó búið að "nýsmíða" efsta hlutann og færa miðhlutann þó nokkuð marga sentimetra til suðurs. Í framhaldinu verður svo væntanlega ráðist í gerð handriðs.
En svo má ég ekki láta hjá líða að minnast á þessa
geggjuðu "hlaupaskó" sem ég sá í dag á fótum upprennandi íþróttakempu. Þessi útfærsla
fékkst alla vega ekki í skóbúðinni hjá Óla Tóra hér í denn, svo mikið veit ég.
09.08.2011 21:20
Aftur í Salinn

738. Sumri er greinilega
tekið að halla, dagurinn hefur verið að styttast og nóttin lengst að sama
skapi og án þess að margur hafi tekið allt of mikið eftir því. Skuggarnir eru
byrjaðir að teygja sig yfir höf og lönd, og svo mætti lengi halda áfram. Hér
norður á Siglufirði hefur ferðafólki fækkað ört á tjaldstæðinu síðustu dagana,
en þar hefur oft verið ansi þéttbýlt í sumar. Það styttist líka í að skólar
opni dyr sínar fyrir væntanlegum nemendum á komandi haustönn og um svipað leyti breytist allur taktur í lífsmynstri okkar. Einum kaflanum er að ljúka rétt einu sinni enn,
annar að hefjast og vetrardagskráin byrjuð að mótast.
Við (Vanir Menn) ásamt söngkonunni Þuríði Sigurðardóttur stóðum fyrir tónleikum í
Salnum í Kópavogi seint s.l. júnímánuð. Þá fannst okkur við vera mjög bjartsýn
að leggja út í þetta ævintýri, en það seldist upp á þá nánast áður en
við vorum byrjaðir að auglýsa okkur til óblandinnar ánægju. Það var því ákveðið að endurtaka leikinn, en þar
sem starfsmenn Salarins voru u.þ.b. að fara í sumarfrí, var ekki um annað að
ræða en að hinkra til haustsins. Dagurinn 29. sept. var geirnegldur í bak og
fyrir og síðan héldu allir út í sumarið sælir og glaðir.
Það má segja að okkur hafi
næstum því brugðið við þegar við sáum að áður áformuð markaðssetning var komin í
fullan gang, þótt sú tímasetning hafi auðvitað legið fyrir í allt sumar. Það var engu líkara
en bæði klukkan og dagatalið hefðu farið mun hraðar yfir, en hin líðandi stund
eins og við upplifðum hana. Og óhætt að segja að hér hafi verið tjaldað til plakati af stærri gerðinni.