22.09.2010 09:57
Blæs um þingsali
648. Rakst á þessa "skemmtilegu" mynd á netinu, en óhætt er að segja að ekki fari mikið fyrir koppalogninu í þingsölum þessa dagana.
18.09.2010 11:50
"Rutt yfir hvalbeinið"
647. Nú þegar sú stund nálgst að miklar og langþráðar samgöngubætur verða senn orðnar að veruleika en eru ekki lengur aðeins fjarlægur draumur, leitar hugurinn stundum til fortíðar og ýmsir þættir úr samgöngusögunni rifjast upp. Nú eru rétt um 42 ár síðan Strákagöng voru formlega vígð, en umferð mun þó hafa verið hleypt á þau eitthvað fyrr. Þar áður hafði Siglufjarðarskarð verið eina tenging Siglfirðinga við vegakerfi landsins, en það var sjaldan fært nema 4-6 mánuði ársins vegna snjóa. Skarðið var tekið í notkun árið 1946 og þjónaði því byggðinni aðeins í 22 ár sem manni finnst svona eftir á að hyggja alveg ótrúlega skammur tími.
Ég rakst á athyglisverða grein um vegamál og forna búsetu á Almenningum sem birtist í Morgunblaðinu miðvikudaginn 29. ágúst árið 1962. Hana ritar "Stefán" fréttamaður Mbl. og hann ræðir þar m.a. við Gísla Felixson rekstrarstjóra vegagerðarinnar á Sauðárkróki.
Ekki kemur fram hvaða Stefán það er sen er höfundur að henni, en grunur
(Ljósmynd Hannes Baldvinsson)
(Ljósmynd Ólafur Bermannsson)
17.09.2010 23:39
Skreiðarhúsið
647. Þegar ég frétti að áformað væri að rífa gamla Skreiðarhúsið, hugsaði ég með mér að ég skyldi ekki klikka á að taka nokkrar myndir af "rifrildinu" meðan það stæði yfir. Ég náði því miður ekki fyrstu myndinni af húsinu fyrr en svolítið var farið að narta í það norðaustan til, en ég gat líka illa setið á strák mínum eins og fordæmi eru fyrir frá fyrri tíð. Ég laumaðist m.a. með myndavélina inn í húsið og upp á loft þar sem mestur hasarinn var, en slíkt er líklega alveg bannað. Og þar sem ég stóð á vaggandi loftinu kom heljarmikil krumla tækisins stundum óþægilega nálægt og kroppaði bárujárnið utan af grindinni. Sperrur og lektur voru síðan snyrtilega pikkaðar upp, flugu í fallegum boga gegn um loftið og enduði í lögulegum bing niðri á jörðinni. Það vakti athygli mína hve mikið var þarna inni af ýmis konar dóti þrátt fyrir að niðurrif hússins væri hafið, en annað hvort hefur það verið afskrifað fyrirfram alla leið niður í núll eða hinn lagni tækjamaður hugðist einfaldlega rífa húsið utan af því án þess að það yrði fyrir hnjaski.
Þó ekki væri hægt að segja að þetta 74 ára gamla hús hefði beinlínis eitthvert tilfinningagildi fyrir mig, hafði ég samt verið að vinna þarna á árunum fyrir og eftir tvítugt. Þannig var að svokallaður innri salur frystihússins náði inn í efri hæð Skreiðarhússins eftir stækkun þess fyrrnefnda, en þar hafði ég unnið um árabil og svo hafði ég einnig verið að vinna á neðri hæðinni við að pakka skreið.
Samkvæmt mínum heimildum var húsið byggt árið 1936 og þá sem mjölhús í tengslum við síldarverksmiðju SRN.
Og þó svo að fréttavefirnir siglo.is og siglfirdingur.is séu báðir búnir að
16.09.2010 07:19
Eyfirski söguhringurinn og híbýli mannanna
646 Á vef Akureyrarbæjar (undir fréttir frá 02.07.2009) er að finna eftirfarandi auglýsingu í greinarformi sem kallast "Eyfirski söguhringurinn." Að vísu finnst mér þessi hringur í þrengra lagi, en hugmyndin í sjálfu sér alveg ágæt.
"Skipulögðu ferðirnar sem hafa verið í boði með bátnum Húna II yfir sumartímann, njóta mikilla vinsælda, og bætist nú ný ferð í hópinn. Kallast hún "Eyfirski söguhringurinn" og er um fjögurra tíma ferð sem farin verður á fimmtudögum.
Húni II mun sigla með farþega til Hjalteyrar þar sem tekið verður á móti þeim með leiðsögn heimamanns. Eftir um klukkustundar stopp þar, er lagt er af stað með "sögu" rútu um athygliverða sögustaði á leiðinni til Akureyrar. 30 mínútna stopp verður á Möðruvöllum þar sem heimamenn taka á móti hópnum, sýna gestum kirkjuna og fleira, ásamt því að fræða þá um sögu staðarins.
Aðstandendur ferðarinnar eru Hollvinir Húna II, Sportrútan ehf., ásamt Verksmiðjunni á Hjalteyri, Kaffi-Lísu og Amtmannsetrinu á Möðruvöllum. Lagt verður af stað frá Torfunefsbryggju á Akureyri kl. 16.30 í dag, fimmtudag.
Sex ferðir verða í boði í sumar, 2. júlí, 9. júlí, 16. júlí, 30. júlí, 6. ágúst og 13. ágúst.
Að auki býður Húni II enn uppá hina vinsælu Sögusiglingarferð á föstudagskvöldum kl. 20.00 í sumar. Áhugaverð ferð með leiðsögumanni fyrir þá sem hafa gaman af að fræðast um þróun bæjarins, staðhætti og veiðiaðferðir fyrr og nú. Fræðslu og fróðleiksferð þar sem siglt er um innanverðan fjörðinn."
Árið 2008 var ég á Dýrafjarðardögum, en svo kallast bæjarhátíðin á Þingeyri sem er haldin fyrstu helgina í júlí. Þar var m.a. gengið um götur og saga gamalla húsa rifjuð upp svo og íbúa þeirra.
Gunnlaugur Magnússon fór fyrir hópnum og ljóst var að maðurinn var mikill viskubrunnur. Hugmyndin var hreint út sagt alveg frábær og ég hugsaði með mér að hún myndi henta vel á t.d. Síldarævintýri.
16.09.2010 06:34
Kominn suður
645. Eftir langan og mikinn blíðviðriskafla var loksins kominn að því að haustið minnti á sig, því það var auðvitað alveg til í dæminu að einhverjir héldu að það væri ennþá hásumar eins og veðurfarið hefur verið undanfarið. Ég ákvað að skreppa suður á bóginn í nokkra daga, því þar spáði nefnilega batnandi veðri. Þegar ég renndi fram hjá Sauðanesi sá ég að líklega myndi ekki mælast mesti hiti á landinu á þessum ágæta stað þennan daginn eins og svo oft hefur gerst.
Á leiðinni á suðvesturhornið gerði ég mislukkaða tilraun til að fanga dans norðurljósanna sem þau stigu svo glatt yfir byggðum Borgarfjarðar. Líklega var bæði um að kenna óþolinmæði ljósmyndarans við að finna þá stillingu á myndavélinni sem hefði dugað, en líklega ekki síður umferðinni sem var talsverð og hafði verulega truflandi áhrif á myndatökumanninn.
18.08.2010 11:44
Næturlitir og fleira skemmtilegt
En að öðru...
Ég leit í lítið eitt gulnaða skræðu sem ég fann upp í hillu og rakst þar á gamlan reikning skrifaðan af Oluf Larsen málarameistara, en hann hafði tekið að sér að lagfæra altaristöflu í þorpinu Skrave í Danmörku árið 1790 en hann hljóðaði svo...
Tveimur boðorðum breytt og öll boðorðin olíuborin kr. 2.24.
Nýtt nef sett á ræningjann og hann gerður fingralengri kr. 1.02.
Pílatus hreinsaður og oliuborinn að aftan og framan og loðkraginn hreinsður. kr. 17.00.
Gabríel hreinsaður og settir á hann nýir vængir. kr. 3.00.
Nýjar tennur settar i munn Sankti Péturs og fjaðrirnar á honum lagaðar. kr. 1.30.
Himininn víkkaður og talsvert sett upp af nýjum stjörnum. Hreinsunareldurinn endurbættur og ásjóna djöfulsins lagfærð. kr. 1.09.
Heilög Magdalena (sem var hreint ónýt) gerð upp. kr. 5.00.
Silfurpeningar Júdasar húðaðir. Farið yfir forsjálu meyjarnar og dyttað að þeim á nauðsynlegustu stöðum. kr. 1.08
Hárið á jómfrú Súsönnu endurnýjað ásamt skeifunum á hesti Elísar. Mjói vegurinn breikkaður smávegis. kr. 3.24.
Gáfulegri svipur settur á Jósef, kona Pótífars olíuborin, heimsendir lengdur lítilsháttar þar sem hann var heldur stuttur kr. 3.07.
Samtals kr. 41.32.
Og að allt öðru...
Á morgun ætla ég að fara í sveitina og freista þess að hjálpa til við að smala, en nánar um það síðar.
18.08.2010 01:39
Og örlítið frá Pæjumótshelginni
14.08.2010 12:57
Síðbúnar myndir frá Síldarævintýri
642. Undanfarnar vikur hefur skríbent síðunnar haldið til norðan heiða, eða nánar tiltekið á Siglufirði og unað hag sínum þar hið besta. Innsetningar hafa því verið með minna móti undanfarið utan tvær þær síðustu sem voru ritaðar og myndskreyttar fram í tímann.
Fyrir helgina var svo brunað suður á bóginn til að spila á Catalinu, taka eilítið til í bókhaldinu og síðast en ekki síst blogga smávegis. Eitthvað minna verður þó úr því en til stóð, þar sem stafræn skrímsli og ýmis konar andstyggilegheit hafa gert fólskulega árás á tölvuna mína svo hún getur tæplega talist nothæf til nokkurra hluta um þessar mundir. Þessi færsla er því unnin á "tölvu númer tvö" sem ég fæ stundum að setjast við ef hún er ekki í notkun.
En það verður að segjast að því miður var mun minna tekið af myndum á nýliðnu Síldarævintýri en efni stóðu til, en ekki verður kennt um skorti á myndefni. Líklega telja menn sig frekar hafa haft við ýmislegt annað að fást þessa sömu daga.
Á nýliðnu Síldarævintýri var þó farið á eina söltunarsýningu sem að venju fer fram á planinu fyrir framan Róaldsbrakka.
Myndlistarmaðurinn og músíkantinn Ragnar Páll var þar með nikkuna sína og spilaði þar tónlist sem hæfði hinni líðandi stund.
Hún Birna er svo alveg orginal síldarkerling.
Auðvitað er hún síldardama eða þannig, en síldarkerling engu að síður líka því að það er eiginlega meira og frekar starfsheitið á hinni saltandi, hausskerandi, slógdragandi og niðurleggjandi kvennastétt.
Eitt af hinum bráðbnauðsynlegu "mómentum" sem tilheyra.
Bjössi Sveins er ekki síðri í síldargallanum en í jakkafötunum, hvítu skyrtunni og með bindið eins og jafnan má sjá hann í bankanum.
Einn af hápunktunum í hverri einustu síldartörn og það sem allt snérist um...
Taka tunnu og merkið í stígvélið með það sama!
Svo var kallað hástöfum og í beinu framhaldi: - "TÓMA TUNNU"!!!!!
Síldargengið! - Harðsnúið lið sem kann handtökin alveg upp á sínar tíu.
Fjöldi áhugasamra fylgdist með alvöru síld saltaða í alvörunni.
Og svo var dansað á plani.
Öllu minna var gengið til fjalla en staðið hafði til og það þrátt fyrir marga alveg frábæra daga. En þó eitthvað því lengi hafði staðið til að kíkja á Styrbjarnardys uppi í Dalaskarði. Ég hafði einhverra hluta vegna álpast fram hjá dysinni án þess að staldra þar við í síðustu skipti sem ég hef átt þarna leið um og nú skyldi úr því bætt.
Eins og staðkunngir vita en hinir ekki, þá var oftast farið um Dalaskarð þegar menn áttu leið milli Siglufjarðar og Úlfsdala. Gengið er Siglufjarðarmegin upp fyrir ofan gömlu réttirnar eða hesthúsin og komið niður í Mánárdal norðan Mánárskriða, eða öfugt.
Sagt er að Styrbjörn hafi búið á Dalabæ og matur hafi eitt sinn verið til þurrðar genginn á bænum. Hann hafi þá farið yfir skarðið til Siglufjarðar, gengið í búr Hólsbónda og stolið "byrði sinni af mat". Hólsbóndi varð hans var, elti hann og náði uppi í skarðinu þar sem hann á hann að hafa drepið Styrbjörn og dysjað. Sagt er að varða hafi síðan verið hlaðin á dys hans og enn megi sjá merki um hana.
Frá Dalaskarði er lítill krókur út á Hafnarfjall, en þaðan er gott útsýni yfir bæinn og fjörðinn.
Það var því staldrað við um stund í blíðviðrinu og útiverunnar notið á fjallinu.
Þeir sem eiga leið fram hjá Bakaríinu að næturlagi, verða stundum varið við að (bakara)meistari Jakob kælir gjarnan nýbökuð brauð og kökur niður við opna hurð áður en dagurinn hefst. Ilminn leggur þá ekki bara um nágrennið, heldur á hann þar til að kitla einnig þefskyn nálægra svo ekki sé kveðið fastar að orði.
Biggi Dísu kom sérstaklega norður til að vitja róta sinna sem liggja um Túngötuna. Hvort hann fann þær eður ei skal ósagt látið, en fann alla vega Óla Sigga bekkjarbróðir sinn mjög auðveldlega. Eins og sjá má hafa þetta greinilega verið miklir fagnaðarfundir.
Ég er ekki frá því að Stebbi Sigmars sé búinn að taka sér hina endanlegu bólfestu fyrir framan Torgið hjá henni Erlu Gull, rétt eins og Þormóður Rammi nam allt land milli Hvanndala og Úlfsdala forðum. Ási P er svo líklega að gera ætt og erfðafræðirannsóknir á Stebba.
Síðasti miðvikudagur í júlí var dagur harmonikkunnar á Siglufirði og komu þá allmargir dragspilsþenjarar saman á torginu. Síðan dreifðu þeir sér út um bæ og léku fyrir þá sem á vegi þeirra urðu. Leið þeirra lá á Síldarminjasafnið, Heilsugæsluna, í verslanir, ýmsar stofnanir eða bara yfirleitt þar sem fólk var að finna.
Sturlaugur sem var einn af nikkurunum kaus að setja sig niður því sem næst undir svefnherbergisglugganum hjá mér og lék nokkra rómantíska slagara af fingrum fram. Ég brást við með að taka mynd af listamanninum sem sýndi því miður ekki mikla fyrirsætuhæfileika og stökk ekki bros.
Þeir bræður Steinþór og Guðmundur Þóroddsynir voru mikið á röltinu og átti ég skemmtilegt spjall við þá félaga m.a. um gömlu dagana á Sigló. Guðmundur var hér í eina tíð trommari í Siglfirskri unglingahljómsveit á sjöunda áratugnum ef ég man rét (sem ég er nokkurn vegin viss um að ég geri) en við Steinþór stuðluðum mjög að sameiningu Brekku og Suðurfráguttanna í Húnana sem margir muna eflaust eftir, en á þessum ágætu árum var oft verulegur ófriður milli hverfa og hart barist í hlíðunum fyrir ofan bæinn.
Öðlingurinn Viðar Ottesen er hugmyndafræðingurinn að frímerkjaútgáfu tengdri 20 ára afmæði Síldarævintýris. Hann fékk svo auglýsingagúrúinn (og trommarann) Birgir Ingimars til liðs við sig þegar kom að hönnun og uppsetningu og útkoman varð verulega flott. Hér er Viðar í söluhugleiðingum fyrir framan Torgið.
Ég hitti Gumma Páls (54) félaga og samverkamann frá því í denn á röltinu á Bátabryggjunni ásamt syninum (5) svo ég skírskoti til framsetningar og aðferðarfræði "Séð og Heyrt".
"Hannes boy" hefur verið einn af heitustu stöðunum á Sigló, ekki aðeins á Síldarævintýrinu, heldur í allt sumar sem er auðvitað ekkert skrýtið. Umhverfið er á allan hátt aðlaðandi og skemmtilegt, boðið er upp á frábæran og fjölbreyttan matseðil og viðmót starfsfólks er bæði fagmannlegra og þægilegra en margur hefur upplifað í annan tíma og á öðrum stað.
Tóti og Danni tróðu upp á mini sviðinu við Rauðkutorg sem er svæðið fyrir framan hinn stórkostlega "Hannes boy". Þetta eru sjóaðir drengir sem kunna alveg "fullt af gripum", enda var útkoman hin ágætasta.
Halastjarnan sem samanstóð af þeim Gylfa, Ara Jóns og Finnboga Kjartans tróð upp á Allanum fimmtudagskvöld. Eftir síðasta lag fjölgaði svo verulega uppi á palli hjá Gylfa.
Ég, Biggi Inga og Maggi Guðbrands vorum munstraðir á Rauðkupallinn á föstudagdskvöldið fyrir ævintýrið mikla. Líklega höfum við staðið okkur alveg þokkalega, því við vorum endurræstir á laugardagskvöldið.
Samkvæmt upplýsingum sem mér var tjáð að væru komnar frá lögreglu, voru u.þ.b. 300 manns á "okkar" svæði fyrra kvöldið og tæp 500 á hið síðara.
Hin nýja og breyta bæjarmynd eykur vissulega alla möguleika hvað varðar þjónustu við þá sem sækja bæinn heim. Með auknu framboði á afþreyingu, fjölgun veitingahúsa o.þ.h. kemur væntanlega minna í hlut hvers og eins, nema aðilar beri gæfu til þess að vina saman að því að "kakan" sem til skiptanna er stækki. Í ár var Síldarævintýrið mjög vel sótt rétt eins og aðrir atburðir á sumrinu sem senn er liðið og þess vegna geta velflestir gengið sáttir frá borði. Þetta þýðir líklega fátt annað en að það þarf að halda dampi og setja markið hærra á næsta ári en gert hefur verið mörg undanfarin ár ef ekki á að fara illa.
Við gerðum hlé á spilamennskunni meðan brennan og flugeldasýningin var. Fyrir þá sem voru þarna á Bátabryggjunni var eins og sitja á besta stað í stúkusæti og horfa á allan ljósaganginn, því sjónarhornið verður varla mikið betra.
Birgir Ingimarsson er einn aðal hugmyndafræðingurinn af því skemmtilega uppátæki að endurgera "Sumarsömbuna" hans Elíasar og grunar mig að honum hafi ekki verið þakkað neitt allt of vel fyrir innlegg sitt. Ég er nefnilega nokkuð sannfærður um að það hafi haft meiri áhrif á aðsókn en margur heldur. Þess má geta að núna hafa yfir 5000 aðilar spilað lagið á Youtube og þar sem teljarinn á þeim bæ telur hverja IP tölu aðeins einu sinni, má gera ráð fyrir að spilanir séu margföld sú tala. Rás tvö tók vel í að spila lagið fyrir Verslunnarmannahelgina og gerði talsvert af því, en Bylgjan hins vegar ekki. Á þeim bæ var hins vegar þjóðhátíðarlag þeirra Vestmannaeyinga spilað í bak og fyrir og jafnvel voru eldri þjóðhátíðarlög einnig rifjuð upp. Auðvitað var skýring á þessu háttarlagi þeirra Bylgjumanna, því flest er falt fyrir "rétt verð". Það lak út úr þeirra herbúðum að Vestmannaeyingar borga einfaldlega fyrir umfjöllun, en Siglfirðingar virðast hafa úr minna fé að moða og geta það ekki.
Ingvar Már leit við og sýndi okkur nýja höfuðskrautið sitt sem mig minnir að hann hafi talað um að taka ekki niður fyrr en í fyrsta lagi á þrettándanum á næsta ári.
Fyrir framan Aðalgötu 28 er þetta algeng sjón þegar líða fer á nótt og dansleikur er í Allanum. Reyndar var síðasta ævintýri með þeim rólegri, þrátt fyrir mun meiri aðsókn en þekkst hefur síðustu ár. En meðan dansleikurinn stendur yfir er mikill hávaði norðan við húsið, eða þeim megin sem danssalurinn og reykingasvæðið er. Þá er yfirleitt aðeins hægt að festa svefn með góðu móti sunnan megin í íbúðinni. Þegar líður á nóttina færist "ölvunarsvæðið" suður fyrir Allann, dansleiknum lýkur og gestir eru komnir út á götu án þess að vera neitt endilega á heimleið í bráð. Þá er ekki ólíklegt að sá eða sú sem sofið hefur sunnanvert í íbúðinni, verði að færa sig yfir ganginn og leggjast til hvílu í einhverju af norðurherbergjunum.
Svona gengur þetta stundum fyrir sig kvöld eftir kvöld og jafnvel helgi eftir helgi, og ég verð að segja að þetta er farið að verða svolítið lýjandi.
Á árum áður tóku menn einfaldlega þátt í gleðinni enda fáir aðrir kostir í stöðunni, en eftir því sem árin hafa liðið hafa þeir hinir sömu eitthvað lært að hemja gleðilæti sín þegar boðað hefur verið til mannamóta af þessu tagi.
Ég laumaðist upp á þak á Samkaupum til að ná þokkalegri mynd yfir Ráðhústorgið þegar snillingarnir í Fílapenslunum stigu á svið. Þá fjölgaði verulega í áheyrendahópnum og ég sperrti líka eyrun því ég hafði aðeins einu sinni áður heyrt í þeim félögum og það meira að segja bara svolítinn stubb.
Svo auðvitað líka nærmynd sem endar líklega í gylltum ramma uppi á stofuvegg við hliðina á Fjórum fjörugum, Bjarka Árna og hljómsveit hans, Gautum, Stormum, Gibson, Frum og fleirum.
Steingrímur var auðvitað á ferðinni með myndavélina sína ásamt fylgihlutum eins og sjá má. Ekki veitti heldur af innleggi hans á siglo.is, því ég hef sjaldan séð minni umfjöllun um ævintýrið en þetta árið þrátt fyrir að meira hafi verið´að gerast og flest betur heppnað en mörg síðast liðin ár.
Ragnar Páll er auðvitað ekkert annað en goðsögn og alveg ótal margt til lista lagt. Hann þandi nikkuna fyrir framan "Hannes boy" á sólríkum góðviðrisdegi og ljúfir tónar hans léku við hlustir viðstaddra.
Finnur Yngvi sem er einn af aðal driffjöðrunum (og e.t.v. skrautfjöðrunum líka) á "Hannes boy" og næsta nágrenni með tveimur af "stelpunum sínum" sem voru alveg harðduglegar á dælunum þessa helgi.
Flott pós...
Ég var svolítið hissa að hitta hana Hrafnhildi fyrir á nýjum slóðum og það á bak við dælu, því hún hefur í alllangan tíma gengt sömu stöðu á Catalinu þar sem ég hef verið að spila u.þ.b. einu sinni í mánuði undanfarin ár. Hún sagði mér að hún byggi um þessar mundir hjá móður sinni á Siglufirði en stefndi á að skoða sig um í útlandinu stóra þegar haustaði að.
Það var svo ekki hægt annað en að fá einhvern góðan mann til að smella af sér með "timburmönnunum" hennar Öllu Eysteins, en einhver svolítil nálgun við slíka menn er eflaust nokkuð algeng á svona mannamótum og jafnvel allt að því við hæfi. Fisflugmaðurinn Raggi Mikk átti leið hjá og tók erindi mínu vel eins og við var að búast af honum. Það var farið að styttast í hátíðahöldunum og eftir svolitla seti í þessum félagsskap stóð ég upp og hélt heim á leið inn í nóttina og mánudaginn.
19.07.2010 13:38
Aðalgatan
(Hótel Hvanneyri)
641. Það var í maí árið 1934 að Sigtryggur Benediktsson sem áður rak Hótel Akureyri opnaði stórt og vandað gistihús á Siglufirði sem hann nefndi Hótel Hvanneyri.
Þetta nýja stórhýsi var fyrsta húsið sem var byggt samkvæmt nýju og endurskoðuðu skipulagi Aðalgötunnar, sem miðaðist við að gömlu lágreistu húsin skyldu víkja smátt og smátt, en háhýsi upp þrjár til fjórar hæðir skyldu koma í þeirra stað.
(Aðalgata 12 gegnt Hótel Hvanneyri)
Þetta var líklega í fyrsta sinn á Íslandi sem stefnt var að því markmiði að þétta byggðina og það var vissulega ekki alveg að ástæðulausu. Bærinn hafði stækkað og fólki fjölgað hraðar en dæmi voru um og ef sú þróun héldi áfram sem hafði verið frá upphafi síldarsöltunar, myndi innan fáeinna áratuga eða jafnvel ára stefna í óefni hvað varðar sæmilega nýtanlegt byggingarland.
(Útvegsbankahúsið við Ráðhústorg var einnig byggt skv. gamla skipulaginu)
Þau orð voru m.a. látin falla að Aðalgatan ætti að líta út eins og skipaskurður, þráðbein og umlukin háum veggjum til beggja handa. Menn hugsuðu greinilega stórt í þá daga, enda fátt sem benti til breytinga í þeirri þróun í búsetu og atvinnumála þjóðarinnar sem verið hafði næstu tæpa 3 áratugi á undan.
(Ofan á Aðalbúðina átti að koma skrifstofuhæð og íbúð á þriðju hæð)
Fimmta hver króna sem þjóðin aflaði í formi gjaldeyris barst um Siglufjarðarhöfn, og Alþingi gat ekki lokið gerð fjárlaga fyrr en lá fyrir hversu mikið af síld hafði verið söltuð á Siglufirði og hvað myndi fast fyrir hana á erlendum mörkuðum.
(Mjólkursamsalan átti líka að verða þrjár hæðir, en eins og á Aðalbúðinni var sett bráðabirgðaþak ofan á neðstu hæðina og "staldrað við")
En nú eru aðrir tímar, önnur framtíðarsýn, aðrar væntingar og þegar gengið er um Aðalgötuna er auðveldlega hægt að ímynda sér að hún hafi verið eins og svolítið ráðvillt í stefnu sinni inn í framtíðina.
(Aðalgatan 1910 - Ljósmyndari ókunnur)
Svona var umhorfs við upphaf Síldarævintýrisins. Myndin er tekin nokkurn vegin þar sem nú er bensínstöð Olís.
(Aðalgatan í dag)
En eins og sjá má hefur margt breyst á 100 árum og þessi mynd er tekin á sama stað og sú hér að ofan.
18.07.2010 04:48
Kjarnakonan hún Nanna Franklín
640. Ég er lengi búinn að reyna að ná mynd af Hallfríði Nönnu Fanklín þegar hún leggur leið sína um bæinn á vélfáki sínum, en henni hefur til þessa alltaf tekist að smjúga úr skotlínu myndavélarinnar áður en ég hef náð að athafna mig. En það kom að því að ætlunarverkið heppnaðist og Nanna er núna komin í albúm. Ég sá hvar hún kom akandi á móti mér eftir Túngötunni og var stödd á móts við Hólakot þegar ég var í þann mund að fara fram hjá Iðjuhúsinu sem ég kalla reyndar ennþá Bólsturgerðina. Ég renndi mér inn á stæðið og smellti af þegar hún ók hjá og kinkaði í leiðinni kolli til mín með bros á vör.
Nanna hefur verið fastur punktur af tilverunni og bæjarlífinu áratugum saman, eða hvað mig snertir í u.þ.b. hálfa öld.
Mín fyrsta minning henni tengd, var þegar ég fékk að sitja í Wolksvagen bjöllunni hennar sem hún átti á árunum um og upp úr 1960. Þá var ferðinni heitið í réttirnar, sem í eina tíð var bæði mikil og merkileg samkunda á haustin. Fyrir þá sem ekki muna eða vita, þá voru þær fyrir ofan núverandi hesthúsasvæði og standa þar enn uppi leifar mannvirkjanna sem minna á þessa liðnu tíð. Kannski hef ég fengið bílfarið út á tengslin við hana í gegn um föðurfólkið mitt, en Nanna er Strandamaður eins og það.
Þá man ég eftir henni þar sem hún afgreiddi í mjólkurbúðinni á Hafnarhæðinni þar sem Óli Geir rak nýlenduvöruverslun í hálfu húsnæðinu, en Dúddi Eggerts löngu síðar videoleigu. Núna er húsið nýtt sem frístundahús eftir því sem ég best veit.
Á unglingsárum nínum rak hún svo sjoppu í kjallaranum á Túngötunni þar sem hún bjó. Þar var oftar en ekki komið við annað hvort á leið í eða úr sundtíma og brást það ekki að Nanna var með prjónana í höndunum þegar við krakkarnir rákum nefið inn hjá henni.
Á þessum árum gengu fáir um bæinn eftir að kólna tók, örðu vísi en með "Franklínhúfu" á höfði og breytti þá litlu hvort þar fóru ungir eða gamlir. Það var með ólíkindum hversu vel húfurnar hennar Nönnu náðu að verða hvort tveggja í senn, tískuflík og skynsamlegt svar við áreiti kuldabola sem vildi klípa í eyrun.
Og Nanna er síður en svo hætt að prjóna. Um síðustu áramót var hafist handa að prjóna 17 km. langan trefil sem tengja skyldi saman þéttbýliskjarnana Siglufjörð og Ólafsfjörð um Héðinsfjarðargöng og stefnt að því að hann verði tilbúinn við opnun þeirra.
Óskað var eftir liðsinni velunnara bæjanna við prjónaskapinn og brást fjöldi fólks bæði hérlendis og erlendis vel við kallinu. Nanna lét að sjálfsögðu ekki sitt eftir liggja og þegar búið var að prjóna u.þ.b. 5 kílómetra af treflinum í síðasta mánuði, hafði hún ein prjónað 300 metra eða um 6% af þeim hluta sem lokið var. Það verður að teljast vel af sér vikið hjá kjarnorkukonunni Nönnu sem er nú á 94. aldursári.
18.07.2010 04:38
Sem lindin tær
(Helgi Björnsson og Guðmundur Ó. Þorláksson)
639. Það hefur varla farið fram hjá neinum sem á annað borð sem hlustar eitthvað á útvarp að "Sem lindin tær" hefur gengið í endurnýjun lífdaga undanfarið og það svo um munar. Það hefur verið spilað eins og sagt er "sundur og saman" fyrst á Bylgjunni, en síðan einnig á Rás 2 og jafnvel eru þess dæmi að það hafi verið spilað tvisvar í einum og sama þættinum sem er eflaust frekar fátítt.
(Bjarki Árnason textahöfundur - kroppað úr Ljósmyndasafni Siglufjarðar)
Ekki eru þó allir alveg sáttir við framtak Helga því óhætt er að segja að þetta lag sé svolítið heilagt í hugum margra Siglfirðinga síðan Guðmundur Ó. Þorláksson söng það fyrir meira en 40 árum með karlakórnum Vísi. Helgi ásamt hljómsveit sinni "Reiðmönnum vindanna" hafi eiginlega "stolið" því og reyni nú að selja það sem hestalag. Útsetningin sé með lágreistara móti, framleiðslan beri það með sér að vera af ódýrasta tagi og að öllu leyti lítið í lagt. Þess utan sé farið vitlaust með textann á a.m.k. tveim stöðum, og í viðtali á Rás 2 á dögunum hafi söngvarinn ekki einu sinni vitað eftir hvern hann er.
Þegar hlustað er eftir, heyrist Helgi vissulega syngja um hundrað strengi í stað undrastengja og hann lætur lindina líka glettast ögn við lítinn fót en ekki blóm eins og Bjarki Árnason lét hana gera í þá góðu gömlu daga.
Þetta og ýmislegt fleira hefur heyrst á götubylgjunni nyrðra og virðist a.m.k. eitthvað af því sem sagt hefur verið eiga við einhver rök að styðjast. Ítalska lagið sem Engilbert Humperdink söng einnig á sjöunda áratugnum er sem sagt orðið svo rammsiglfirskt að einn þeirra sem ég átti svolítið spjall við á dögunum um nefndi gjörninginn "Helgi-spöll" hvorki meira né minna.
En burt séð frá því hvað okkur Siglfirðingum kann að vera þóknanlegt og hvað ekki, er alla vega sá ljósi punktur í málinu staðreynd, að "Sem Lindin tær" í flutningi Guðmundar Gauta hefur fyrir vikið fengið að hljóma nokkrum sinnum í útvarpi allra landsmanna og er það vel.
En Helgi má hins vegar alveg eiga það að hann er afburðamaður á sviði markaðssetningar, því það sjá allir sem þekkja eithvað til svona mála að vinsældirnar eru tilbúnar ef þannig mætti að orði komast, þ.e. lagið er látið verða vinsælt og hann á greinilega marga góða vini meðal dagskrárgerðarmanna.
Guðrún Gunnarsdóttir og Hlöðver Sigurðsson hafa einnig sungið þetta sama lag inn á disk á undanförnum árum og ekki gert því síðri skil, en það dugar skammt ef öflugt tengslanet er ekki fyrir hendi.
17.07.2010 04:43
Tiltekt á síðunni
638. Það er búið að standa til í talsverðan tíma að taka til í tenglasafninu. Margir þeirra sem áður áttu ágæta spretti, hafa í raun yfirgefið bloggheima og snúið sér að "fésinu" eða þá einhverjum allt öðrum áhugamálum. Mánuðum saman er ég búinn að smella á sömu tenglana og sjá sömu "síðustu" færslurnar eða jafnvel tómar og lokaðar síður. Það er því alveg kominn timi á svolitla tiltekt og jafnvel þó fyrr hefði verið. Ég held þó lengi vel í þá veiku von að einhverjir átti sig á villu síns vegar og hrökkvi aftur í gírinn. Þess vegna set ég mörkin nokkuð rúm (að mínu mati) og miða við að ef ekkert hefur gerst sl. 12 mánuði tel ég síðuna af og skiptir þá engu hver á í hlut.
Það eru þó ekki allt í mínus og allir á hröðu undanhaldi, því fáeinir nýjir hafa líka bæst við. Nú síðast sérann á Sigló (Sigurður Ægisson) með nýja og spennandi síðu, svo og Jón Grunnvíkingur sem ég hef lengi ætlað mér að festa link við. Ég skil reyndar alls ekki af hverju ég var ekki búinn að því fyrir löngu síðan því hann er að gera mjög fína hluti, bæði í bloggheimum svo og auðvitað fyrir vestan á henni Ramónu sem stundum hefur líka komið við á Sigló.
Svo eru auðvitað allar ábendingar vel þegnar.
12.07.2010 18:58
Meira jójó
637. Í seinni tíð, ýmist á norður eða suðurleið er oftar en ekki staldrað við á Flugumýri, heilsað upp á kýrnar í fjósinu og mannfólkið inni í bænum. Þegar ég var þar á ferðinni á dögunum lagði ég vinnubílnum "Bláusi" fyrir aftan dráttarvélina sem renndi í hlað rétt á undan mér. Ég rölti til bæjar en leit um öxl um það leyti sem ég kom í hús og sá þá ekki betur en þarna á hlaðinu gæti að líta "drög að myndefni". Eins og sjá má er sá stutti svolítið siginn að aftan, en það er vegna þess að hann fékk það hlutverk að þessu sinni að flytja búslóð (að vísu af minni gerðinni) á milli landshluta. Sætin fyrir bílstjóra og farþega voru færð fram, aftursæti lögð niður og síðan var staflað og raðað af eins mikilli útsjónarsemi og menn áttu til, þar til ekki var lengur pláss fyrir svo mikið sem haldapoka.
Það var óvenju gestkvæmt meðan ég staldraði síðast við á Sigló sem var ekkert nema skemmtilegt. Einn af þeim sem áttu leið um og heiðraði mig með nærveru sinni var Ásgeir bakari, en hann hafði með sér amerískan og þýskan hveitibjór sem eru talsvert ólíkir flestu öðru sem ég hef kynnst í þeim efnum. Hann hefur verið á mjög sérstöku námskeiði undanfarið sem hann sagði mér frá um leið og við smjöttuðum á innihaldi glerílátanna. Þegar hann minntist á "bjórnámskeið" datt mér fyrst í hug að það væri auðvitað yfirskin til að komast frá uppvaskinu og bleyjuskiptunum heima fyrir eitt kvöld í viku eða svo, en því var ekki þannig farið. Námskeiðið var á fræðilega sviðinu, farið var yfir sögu bjórsins og þróun síðustu árhundruðin, uppbyggingu, framleiðsluaðferðir og mismunandi efnasamsetningu, mismunandi neyslumynstur og markaðssetningu og svo mætti lengi telja. - Í ALVÖRU.
E.S. Hver er annars munurinn á ölgeri opg pressugeri?
Eitt af því sem pirrar mig mjög mikið í umferðinni á þjóðvegunum, svo og eflaust marga fleiri, er algjörlega tilgangslaus og stórhættulegur framúrakstur ökumanna sem eru annað hvort yfir sig stressaðir eða einhverjir heilalausir gerfitöffarar.
Það var einmitt ein slík uppákoma sem gerði mig fúlann (ég verð það víst stundum) á leiðinni niður Norðurárdalinn rétt fyrir ofan Bifröst. Umferðin var nokkuð þétt og ég var aftastur í langri lest sem liðaðist í suðurátt á 80 km. hraða. Umferð var líka nokkur á móti og það var nú einmitt meinið í þetta skiptið. Ég sá í baksýnisspeglinum hvar silfurlitaður jeppi nálgaðist hratt og það skipti engum togum að þegar hann var kominn fast að mér, skellti hann sér fram úr í sama mund og annar bill var rétt um það bil að mæta okkur. Mér dauðbrá því á þessu átti ég ekki von og mín ósjálfráðu viðbrögð voru að nauðhemla. Það var líklega eins gott því að hægra afturbretti jeppans var ekkert mjög marga sentimetra frá vinstra framstuðarahorni mínu þegar hann snöggsveigði fyrir mig og inn á réttan vegarhelming. Honum hefur líklega eitthvað verið brugðið sjálfum því talsverð stund leið áður en hann ók fram úr næsta bíl, og síðan þar næsta, eftir það þar, þar næsta o.s.frv. Ég hugsaði honum þegjandi þörfina og bölvaði í hljóði, en staðan bauð ekki upp á aðrar aðgerðir en skot í gegn um linsuop.
Síðustu Siglufjarðarlotu lauk annars s.l. föstudag, menn því komnir suður fyrir fjöll og heilmikið búið að vera að gerast um helgina. Ber þar hæst að ég eignaðist nafna, því sveinbarni Svandísar M. E. Leósdóttur og Jóhanns Waage var gefið nafn að sið ásatrúarmanna. Sá kornungi maður fæddist þ. 3. júní s.l. og heitir Ólafur Leó Waage.
Og þar sem eitt og annað smálegt liggur fyrir hér syðra sem þarf að sinna næstu daga, þykir ekki vera inni í myndinni að aka norður fyrr en eftir komandi helgi, því það stendur til að "skralla" á Catalinu 16. og 17. júlí n.k. Eftir helgina verður svo brunað norður og dvalið þar eitthvað fram í ágúst við endurbætur á húsinu uppi á Hafnarhæðinni.
28.06.2010 04:39
Höfrungur III
636. Rakst á þessa mynd á skemmtilegri og mjög svo fjölsóttri vestfiskri skipasíðu http://golli.123.is/ og staldraði auðvitað strax við hana þar sem hún var frá Siglufirði.
Með henni fylgdi eftirfarandi texti: Hér sjáum við Höfrung lll sigla smekkfullann af síld inn til Siglufjarðar á þjóðhátíðardaginn 17 júni 1966. Þarna er hann tveggja ára gamall en hann var smíðaður í Noregi 1964. Ekki veit ég hvar hann er niðukominn í dag en síðast hét hann Hafnarröst og var gerður út við strendur Afríku. Myndin er úr 70 ára afmælissögu HB&CO.
Við fyrstu sýn virðist manni hleðsla skipsins vera í meira lagi glannaleg svo ekki sé meira sagt. En þegar hugurinn leitar til þeirra liðnu ára þegar síld var enn söltuð á plönum upp á gamla mátann, rifjast það upp að þetta var í raun algeng sjón. Stundum mátti sjá mörg skip koma siglandi inn fjörðinn sama daginn, þannig að aðeins stýrishús, möstur og hvalbakur virtust vera ofansjávar.
28.06.2010 04:12
Auglýsingin í sjoppunni hjá Matta
635. Hér kemur svolítil upprifjun á gamalli færslu sem er núna talsvert aukin og endurbætt, auk þess sem Steingrímur fann mynd í fórum sínum sem hann tók af herlegheitunum.
Við strákarnir vorum að spila flestar helgar þetta sumar þó svo að eftirtekjan væri ekki alltaf í samræmi við fyrirhöfnina. Hljómsveitin hét Frum og hún starfaði frá því sein á árinu 1971 og lítillega fram á 1974. Ég, Biggi Inga, Gummi Ingólfs, Viddi Bö, Guðni Sveins, Gummi Ragnars og Tóti Ben áttum að vísu svolítið mislanga dvöl í bandinu en einhverju sinni eftir æfingu stóðum við inni í Pósthússkotinu og horfðum á sveitunga okkar sækja Moggann sinn í sjoppuna til Matta. "Af hverju setjum við ekki ballauglýsingar þarna?" Biggi trommari og auglýsingagúrú spurði bæði sjálfan sig og okkur, en við sem minna vissum um auglýsingar og markaðssetningu áttum svo sem engin svör. Þetta var eiginlega alfarið deildin hans Bigga. Við vorum bókaðir á Ketilásnum næstu helgi og nú var komin miðvikudagur, það var því hvort sem er orðið tímabært að láta vita af sínum fyrirætlunum. Biggi rölti yfir Grundargötuna og við horfðum á eftir honum fara inn til Matta og sáum að þeir tóku tal saman. Eftir svolitla stund kom hann til baka og sagði okkur að Matti vildi alveg hengja upp auglýsingu frá okkur um Ketilásballið. "Ég sagði bara hverra manna ég var og þá var allt í lagi" sagði Biggi en það hefur eflaust ekki skemmt fyrir að Ingi Bald hefur greinilega verið metinn réttu megin í pólitíkinni að mati Matta því sonurinn var þá ekki kominn með aldur til að kjósa. Við fylgdumst síðan Bigga meðan hann gerði auglýsinguna.
"Þetta verður alls staðar bannað" sagði ég þegar útlínurnar myndarinnar tóku að skýrast á blaðinu.
"Sjáum til" sagði hann og kláraði myndina og textann á ótrúlega stuttum tíma. Síðan var beðið eftir að einhver leysti Matta af og þá var farið inn með auglýsinguna inn og hún hengd upp. Mótmæli afleysingamannsinns voru kæfð í fæðingu.
"Matti var búinn að lofa okkur þessu og sagði að þetta væri í góðu lagi."
Auglýsingin var gerð á breiðan renning af umbúðapappír og var vel á annan metir á hæðina svo varð hreinlega dimmt inni í sjoppunni, en af einhverjum ástæðum lét Matti þetta yfir sig ganga. Hann vissi auðvitað að menn áttu að standa við loforð sín, en fannst eflaust að hann hafi verið plataður svona pínulítið. Myndin á auglýsingunni var af bakhluta einhvers sem var með allt niður um sig og stutt skilaboð voru dreifð út um allt. Textinn var: "Hver er þetta? Komið á ballið og fræðist". Síðan var minnt á dagsetninguna sexta maí og að sjálfsögðu var minnt á sætaferðirnar.
Það var svo Jóhannes lögga en ekki Matti sem bað okkur að taka auglýsinguna niður því hann taldi að hún gæti hugsanlega legið vitlausu megin við þá hárfínu línu sem skilur að velsæmi og siðferðisskort. Biggi varð við beiðni yfirvaldsins og tók auglýsinguna niður en setti aðra minni í staðin. Tilgangnum var náð því hún hafði þá þegar vakið talsverða athygli í bænum og það voru hvort sem er flestir búnir að sjá hana, og nú gat sólin farið að skína aftur inn í sjoppuna til Matta.