30.01.2013 10:14
"Miklihvellur"
15.01.2013 09:22
F-1
09.01.2013 09:16
WC til meiri dægurgleði, breiðara bross og betri skapa.
855. Menn koma víða við á ferðum sínum um víðan völl í ýmis konar erindagjörðum, þegar hinu daglega þrasi og brasi er fylgt eftir í dagsins önn og amstri, rétt eins og gerist og gengur. Ég átti einmitt erindi í fyrirtæki nokkurt á höfuðborgarsvæðinu á síðasta ári akkúrat í einni slíkri ferð, þegar upp kom sú staða að ég þurfti nauðsynlega að bregða mér afsíðis í litla afslappaða rýmið þar sem friðurinn ríkir alla jafna og finna má í sérhverju húsi. Þegar þangað var komið sá ég þó ég vissi það nú reyndar fyrir, að húsráðendur á þessum bæ eru greinilega hinir ágætustu húmoristar eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Ég laumaðist því til að documenta speisið..
01.01.2013 16:04
Það er komið nýtt ár
854. "Hvernig fannst þér Áramótaskaupið" verður eflaust ein af algengari spurningum næstu daga eins þegar menn taka tal saman, og hún var líka eitt af því allra fyrsta sem birtist á netútgáfu DV. Það gæti auðvitað verið vegna þess hve kommentakerfi miðilsins kom þar mikið við sögu og líklega ekki alveg að ástæðulausu. Kannski hafa þeir DV menn orðið eitthvað órólegir vegna málsins og eru einfaldlega að þreifa á því hvort einhverja bandamenn og hjálparhellur sé að finna meðal fólksins í landinu sem leggi þeim lið með því að flíka skoðunum sínum enn frekar í hinum umrædda kommentakerfi. Annars er bæði skrautlegt að vanda, en líka svolítið skemmtilegt að renna yfir innleggin sem þar getur að líta eins og búast mátti við.
"Alveg skelfilegt, held að það sé komin tími á að hleypa
einhverjum öðrum að. - Mér fannst skaupið að mestu gott. - Ósmekklegt og gamlar
lummur ljótt orðbragð, ekki fyrir fjölskylduna samasem hundleiðinlegt. - Hefði
átt að banna það innan 16 ára held ég. - Já því 14-15 ára krakkar hafa aldrei
heyrt ljótt orðbragð. - Það versta sem ég man eftir. - Með þeim betri sem ég
man eftir. Versta skaup sem ég man eftir að hafa séð og orðbragðið ótrúlegt,
ekki fyrir börn. - Eitt besta skaup fyrr og síðar, held að þetta fólk sem er að
segja að skaupið hafi verið lélegt eru ekkert búin að vera að fylgjast með eða
eru bara að tala með rassgatinu! - Aldrei hægt að
En það er svo sem ekkert nýtt að það séu verulega skiptar skoðanirnar um Áramótaskaupið. Í DV sem gerði sérstaka könnun um skoðanir áhorfenda kemur fram að 27,6 prósent lesenda segja að skaupið hafi verið afleitt, en 12,9 prósent segja það hafa verið frábært. Sé spurt um í verri eða betri kantinum breytist svarhlutföllin. Alls eru þá 871 neikvæðir gagnvart því, en 705 jákvæðari sem gerir muninn talsvert minni.
-
En að ofansögðu að allt öðru máli og miklu jákvæðara. - Gleðilegt nýtt ár og bestu óskir um farsæld um ókomna tíð.
24.12.2012 23:12
Gleðileg jól gott fólk.
853. Óska öllum vinum og vandamönnum, svo og auðvitað öllum þeim sem ennþá nenna að reka nefið hérna inn á síðuna þrátt fyrir að þar hafi bæði fátt og smátt verið að gerast undanfarið, gleðilegra jóla og farsældar um ókomin ár.
Mér finnst myndin hér að ofan standa vel undir því að vera jólamyndin í ár, en á ferðum mínum fyrir fáeinum dögum staldraði ég eins og svo oft við í Mjóddinni og rakst þá á sjálfan jólasveininn, væntanlega nýlega kominn til byggða úr heimkynnum sínum í Esjunni. Þar var þá einnig stödd siglfirska kjarnakonan Lilla á Á, sem er okkur sem erum búin að ná þokkalega góðum meðalþroska að eigin mati, að góðu kunn. Þau féllust bæði góðfúslega á þá beiðni mina um að fá að mynda þau saman og kann ég þeim miklar þakkir fyrir það.
09.12.2012 10:14
Skin og skúrir
852. Það er stundum kallað "Kodak moment", augnablikið þegar maður með myndavél er á réttum stað á réttum tíma. Ég ætla samt ekki að halda því fram að ég hafi fortakslaust verið sá maður í einhverju þvíumlíku hlutverki þegar myndefnið hér að ofan var fangað í flögu, og þó. En óneitanlega tekur samspil ljóssins við skammdegið, regnið, skýjafarið og aðra umhverfisþætti á sig skemmtileg form og mikil er litagleðin.
29.11.2012 08:37
Flottur bíll, en á röngum stað
851. Það fer líklega ekkert á milli mála að þessum fína bíl er lagt ólöglega, en einhver myndi væntanlega kalla það "að bera í bakkafullan lækinn" þegar ökumenn velja sér stað við hvorki meira né minna en fimm skilti sem öll segja í rauninni það sama, og þá er guli kanturinn ekki talinn með.
Myndin er tekin inni í hringtorgi sem er sérhannað sem strætó stoppistöð og er einungis ætlað til slíkra hluta. Í hringnum eru samanlagt 22 skilti sem benda öðrum ökumönnum á að leggja ekki þarna, svo maður skyldi ætla að boðskapurinn ætti alla vega þess vegna að komast til skila. Það vantar þó mikið upp á slíkt því ég hef talið allt upp í átta bíla í hringnum þegar ég hef átt leið þarna um, og stundum hafa jafnvel rútur teppt leiðina. Það má svo gjarnan fylgja sögunni að við hliðina á hringtorginu er slíkur fjöldi bílastæði að þau ná aldrei að fyllast.
Einn kollegi
"Ég komst hálfa leið eða svo í hringnum þegar bill var fyrir
mér sem lokaði leiðinni og hann var greinilega ekkert að flýta sér. Ökumaðurinn
sat bara við stýrið og virtist vera svo djúpt hugsi að líkast til hefur hann
verið að leysa sjálfa lífsgátuna akkúrat þá þarna. Ég hinkraði svolitla stund og
vonaðist til að hann færði sig eins og flestir
25.11.2012 08:24
Europrise lokar í dag
850. Eftir daginn í dag mun 10 ára saga norsku verslunarkeðjunnar Europris á Íslandi heyra sögunni til, því verslunin á Dalvegi í Kópavogi sem nú er sú eina sem enn er opin mun þá skella endanlega í lás. Verslanirnar voru 6 þegar þær voru flestar, en áður var búið að loka á Fiskislóð, Korputorgi, Hafnarfirði, Selfossi og Akureyri.
Rýmingarsala vegna fyrirhugaðrar lokunnar hefur staðið yfir síðan í byrjun október og mun hafa gengið vel ef marka má myndina hér að ofan sem ég tók í síðast liðinni viku þegar ég átti leið um Dalveginn.
Staðfest er að Jóhannes "í Bónus" hefur fest kaup á húsnæði
Europris vestur á Granda og hyggst opna þar aðra
Ef rétt reynist eiga þessar tvær nýju matvöruverslandi alla vega eitt sameiginlegt sem eru fyrri störf eigendanna. Jóhannes er ekki kenndur við Bónus af ástæðulausu eins og alþjóð væntanlega veit, en Eiríkur Sigurðsson í Víði sem má kalla "faðir klukkubúðanna" átti og rak 10-11 verslanirnar til margra ára eða þar til hann seldi þá keðju til Jóns Ásgeirs.
Segja má að Víðir sé nú endurreistur, því Eiríkur ásamt Matthíasi bróður sínum ráku verslunina Víði eftir lát föðurs sins þar til hún fór í þrot 1988. Um Matthías bróður Eiríks má svo bæta því við að hann hefur verið aððalmaðurinn á bak við rekstur Europris - og með þeim orðum lokum við hringnum að sinni.
20.11.2012 09:35
Flottur á hjólinu
849. Ég náði líka þessu fína
skoti af Kópavogsbúanum Jóa þegar hann átti leið fram hjá mér í Hamraborginni og fór
mikinn. Þetta er þó síður en svo í fyrsta sinn sem ég mynda "Jóa á hjólinu"
sem er fyrir löngu orðinn goðsögn og nánast eins og eitt af kennileitunum í sínum heimabæ, en
hann var tíður gestur á Catalínu um tíma þar sem hann þótti sérlega liðtækur á
dansgólfinu (mætti auðvitað alltaf í fullum skrúða) og ef satt skal segja mun eftirsóttari
dansherra en margur yngri og sprækari.
15.11.2012 09:47
Risar á brauðfótum
848. Einu sinni var., en á þeim orðum byrja öll skemmtileg ævintýri og þau sömu orð eiga nú ágætlega við Videóhöllina Lágmúla sem er búin að skella í lás í síðasta sinn.
Videóhöllin í Lágmúla var um áratuga skeið risinn í bransanum, langflottust, langstærst, þar var langmesta úrvalið og þangað fóru allir sem vildu eitthvað eitthvað meira, betra, merkilegra og menningarlegra en hinn ótölulegi fjöldi af misjafnlega sjoppulegum og sjúskuðum smáleigum sem eitt sinn voru á hverju götuhorni bauð jafnan upp á.
Það eru vissulega breyttir tímar frá því sem áður var því niðurhalið og VOD-inn eru smátt og smátt að taka við hlutverki leiganna. Ég átti spjall við annan uppgjafa videókarl snemma á síðasta ári og okkur taldist til að hvorki fleiri né færri en 27 leigur hefðu lokað árið 2010. Það segir sína sögu og víst er að þróunin hefur ekkert verið að hægja á sér. Hérna í Hafnar firði voru eftir fjórar leigur í ársbyrjun, en nú hefur þeim fækkað um helming. Aðeins Snæland við Reykjavíkurveg og Snæland í Setbergi standa eftir og hvorug þeirra getur talist mikil að vöxtum eða hafa standard yfir meðallagi.
Árið 2005 seldi ég
Gunnar fyrrum meðeigandi
Það hlýtur því miður að vera aðeins tímaspursmál hvenær fer fyrir síðustu leigunum eins og risaeðlunum forðum, þ.e. þær deyja út sem slíkar, en einhver stökkbreytt afbrigði eru þó líkleg til að aðlaga sig að breyttum aðstæðum.
09.11.2012 07:36
Fáein orð um Þormóð Eyjólfsson
Þormóður Eyjólfsson. (Ljósmynd skönnuð upp úr útvarpstíðindum.)
847. Í sumar sem leið mátti lesa á
vefsíðunni siglfirdingur.is mjög skemmtilega grein sem birtist í Vísi þ. 17.
júní 1944 þar sem hátíðahöldunum á Siglufirði voru gerð hin ágætustu skil. Þar
var meðal annars minnst á Karlakórinn Vísi sem söng á palli sem reistur hafði
verið á hinum nýja malarvelli við Túngötu og stjórnanda hans Þormóð Eyjólfsson.
Þessi grein varð kveikjan að svolitlu fortíðargramsi, forvitnisárátta um löngu
liðin gullaldarár eða kannski fer betur á að kenna þau við silfur. Árin þegar
silfurnámur hafsins virtust óþrjótandi og
En hver var þessi maður? Ég man til þess að nafn hans hafi oftsinnis borið á góma þegar ég var á barnsaldri, en æ sjaldnar eftir því sem árin liðu uns umræðan um hann hljóðnaði að lokum. Eftir stóð þó hið risastóra og glæsilega hús hans ofan og til hliðar við bretatúnið sem fékk nýtt hlutverk nokkrum árum eftir lát hans og var þá breytt í leikskóla.
Þegar ég fór að kynna mér líf hans og
starf, þó ég hafi aðeins drepið niður fæti hér og þar, kom það mér svolítið á
óvart hve lítið hann hefur verið í umræðunni hin síðari ár og ég hefði haldið að
nafni hans hefði að ósekju mátt halda meira á lofti en gert hefur verið vegna margra verka hans þó svo að hann hafi verið umdeildur eins og svo algengt er um menn sem eru áberandi í framlínu stjórnmálanna.
-
Þormóður fæddist þ. 15. apríl 1882 að Mælifellsá í Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði, en sleit barnsskónum í Tungusveitinni sem tilheyrði sama hreppi. Foreldrar hans voru hjónin Eyjólfur Einarsson og Margrét Þormóðsdóttir, sem síðar bjuggu að Reykjum í Tungusveit. Þormóður missti foreldra sína aðeins 14 ára gamall, fór hann þá í fóstur til séra Hjörleifs Einarssonar að Undirfelli í Vatnsdal og konu hans, Bjargar Einarsdóttur sem var föðursystir hans. Þormóður gekk í Flensborgarskólann og var þá strax farinn að hneigjast að sönglistinni. Í Söngmálablaðinu Heimi var hans getið árið 1923 og mun hann hafa bæði numið og kennt við skólann árin 1900-1902 þá innan við tvítugt.
Hann mun hafa flutt ungur maður og
nýgiftur Guðrúnu Björnsdóttur til Siglufjarðar fljótlega upp úr aldamótunum
1900 og bjuggu þau þar til dauðadags. Hann var umboðsmaður Samábyrgðar Íslands,
Brunabótafélags Íslands og Sjóvátryggingarfélags Íslands frá stofnun allra
þessara félaga. Afgreiðslumaður Eimskipafélags Íslands og ræðismaður Noregs frá
frá 1924, skrifstofustjóri síldareinkasölunnar var hann frá 1928, bæjarfulltrúi
1930, var mörg ár í hafnarnefnd, marga áratugi í niðurjöfnunarnefnd og
skattanefnd og formaður beggja þeirra nefnda
í mörg ár. Þormóður var í stjórn Síldarverksmiðja rikisins frá 1930 og oftast
formaður. Um 12 ára skeið átti hann sæti í sóknarnefnd Siglufjarðarkirkju og
var einn þeirra sem unnu einna ötullegast að því að ný kirkja var byggð árið
1932, eða þá sem enn í dag er stolt bæjarins. Noregskonungur sæmdi hann
Þormóður var mjög virkur í hinni
litskrúðugu pólitík í síldarbænum á þeim árum þegar það pólitíska landslag var
í burðarliðnum sem má segja að sé að mörgu leyti ennþá ríkjandi, því á þessum
árum var strax farið að marka fyrir útlínum þess kerfis sem síðan hefur lengst
af verið ríkjandi; - fjórflokkurinn var að fæðast.
Verkalýðssamband norðurlands gaf út
blaðið Verkamanninn og í des. 1928 birtist grein í því vegna væntanlegra
bæjarstjórnarkosninga á Siglufirði. Þar gætti talsverðar hógværðar í garð
Þormóðs og hans flokks, sem var þó í fyrsta sæti á lista Framsóknar, því
erkióvinurinn var auðvitað íhaldið. Kosningarnar fóru svo fram þ. 4. jan 1929
og Þormóður var kjörinn í bæjarstjórn ásamt Andrjesi Hafliðasyni kaupmanni,
Sigurði J. S. Fanndal kaupmanni og Sveini Þorsteinssyni skipstjóra.
Sumarið 1931 er aftur farið að styttast
í kosningar og sama blað beinir nú spjótum sínum að Þormóði og fer mikinn. Menn
voru ekki á eitt sáttir um ágæti hans eins og oft vill verða um þá sem í
eldlínunni standa og skipti þá undantekningalítið mun meira máli hvar í hinu
pólitíska litrófi menn voru staðsettir en orð og gerðir.
-
"Hver er það, sem réðist á kauptaxta
verkamanna i bæjarvinnunni og vinnutíma þeirra? Þormóður Eyjólfsson, formaður
Hriflu-fasismans hér í bænum. Allur verkalýður á að svara árásum fasistans
Þormóðs á þann hátt, að kjósa eingöngu kommúnistana. Hver er það, sem hefir við
hvert tækifæri svikist aftan að verkalýðnum og brotið kauptaxta þeirra?
Þormóður Eyjólfsson, formaður fasistanna hér".
-
Mjölnir í jan. 1939.
".Það er einnig sagt í nefndri sorpgrein,
að bæjarstjóri hafi sagt að ellihrum gamalmenni gætu búið í spítalanum á
vetrum, ef hann væri stækkaður og ætti þeim þá að vera vorkunnarlaust að ganga
sjálfala á sumrin. Þetta eru tilhæfulaus ósannindi og Þormóðsklíkunni einni til
skammar. Framsóknarflokkurinn hefir töluvert komið við stjórn Siglufjarðarkaupstaðar,
allan tímann haft hér bæjarstjóra og í sinni nánu samvinnu við
Sjálfstæðisflokkinn miklu ráðið um úrslit merkra mála. Annars er ekki rétt að
tala um Framsóknarflokk á Siglufirði, því hann er hér enginn til. Flokkur sá,
sem íhaldsmaðurinn Þormóður Eyjólfsson
hefir safnað hér í kringum sig, er bara íhaldsflokkur. Að
Þormóður vildi heldur nýjan flokk en að
vera í Sjálfstæðisflokknum, kom til af því, að þar fékk hann
ekki að ráða öllu einn. Framsóknarmenn
sem í Þormóðsflokknum eru, fá engu að ráða, enda er mikil óánægja innan
flokksins. Einu af fyrirtækjum bæjarins hefir Þormóðsflokkurinn ráðið yfir, það
er Hólsbúið. Bústjórinn er Þormóðsmaður og hann hefir þar mestu ráðið. Útkomuna
þekkja Siglfirðingar og því er hún nefnd hér, að hún er táknræn fyrir árangur
af starfi þeirra Þormóðsklíkumanna yfirleitt. Það skulu skriffinnar og ræðumenn
þessarar klíku vita, að ómótmælt skulu þeir ekki fá að halda uppteknum hætti um
málflutning sinn".
-
Harkan í pólitíkinni var að öllum
líkindum talsvert meiri á Siglufirði en annars staðar á landinu og umræðan ekki
alltaf á mjög faglegum nótum. Dæmi um slíkt má sjá hér að neðan, en úrklippan
er úr
Látum þetta duga af pólitík fyrri hluta síðustu aldar þó meira en nægu sé af að taka og skoðum uppbyggilegri hluti, m.a. aðkomu Þormóðs að Karlakórnum Vísi, en hann var söngstjóri hans í rúma tvo áratugi.
Fálkinn júníhefti 1930
Hér er sagt frá landskórnum sem söng á
Alþingishátíðinni 1930, taldi hvorki meira né minna en 150 söngmenn og var því
stærsti karlakór sem sungið hafði á Íslandi. Hann var samansettur úr sex kórum
og þar á meðal Vísi frá Siglufirði sem á þessum tíma telur tuttugu söngmenn.
-
Mbl. föstudaginn 29., júní 1934
-
Vísir, mánudaginn 19. apríl 1937.
"KARLAKÓRINN "VÍSIR".
Söngstjóri: Þormóður Eyjólfsson. Samsöngur í Gamla Bíó þriðjudaginn 20. og miðvikudaginn 21. þ. m. kl. 7,15. Einsöngvarar: Daníel Þórhallsson, Halldór Kristinsson, Haraldur Jónsson og Sigurjón Sæmundsson. Við hljóðfærið: Emil Thoroddsen. "Fóstbræður" (áður Karlakór K. F. U. M.) syngja nokkur lög með "Vísi" á þriðjudagssamsöngnum".
-
Útvarpstíðindi marshefti 1939
Siglfirðingur 10. nóv. 1949
-
Þormóður stjórnar Vísi á hinum splunkunýja fótboltavelli Siglfirðinga við Túngötu. (Myndir er úr fórum frænda míns Gunnars Bíldal.)
Árið 1950 birtist eftirfarandi í einu Reykjavíkurblaðanna. Ekki var þó farið alls kostar rétt með staðreyndir því áður en Þormóður tók við söngstjórn kórsins gerðu það einnig þeir Halldór Hávarðsson og Tryggvi Kristinsson þó til skamms tíma væri.
-
"Karlakórinn Vísir á Siglufirði.
Kórinn söng hér í Reykjavík í apríl 1937 og aftur í júní 1944. Ennfremur söng hann hér á söngmótum íslenzkra karlakóra árin 1930, 1934 og 1950. Söngmennirnir eru um 40, margir góðir raddmenn og var söngurinn drengilegur og lýsti sönggleðin. Söngstjóri kórsins var Þormóður Eyjólfsson konsúll og hefur stjórnað kórnum frá byrjun, en kórinn er stofnaður árið 1924. Kórinn söng aftur hér 1944, eins og áður er sagt, og hafði þá tekið miklum framförum, Söngskráin var svipuð og hjá öðrum íslenzkum karlakórum á þessum árum, skandinavísk og íslenzk lög".
-
Jónas Jónsson frá Hriflu skrifaði grein í Tímann sem birtist þriðjudaginn 14. apríl 1942 daginn fyrir sextugsafmæli Þormóðs.
-
"Um langt skeið hefir Þormóður Eyjólfsson verið nafnkenndur maður á Siglufirði, og það fyrir margra hluta sakir. Hann hefir um langt skeið verið forustumaður við að stofna og starfrækja stærsta atvinnufyrirtækið, sem rekið er á vegum íslenzka ríkisins. Hann hefir í fjórðung aldar verið í fylkingarbrjósti í sínu bæjarfélagi um flestar framfarir, sem þar hafa orðið. En til viðbótar þessum efnislegu framkvæmdum er hann listrænn maður í bezta lagi, einn af helztu söngstjórum landsins og mikill styrktarmaður um samstarf söngfélaganna í landinu. Þessi maður er sextugur á morgun. Vinir hans víða um land hafa ákveðið að nota þessi vegamót í æfi hans til þess að minna þennan merkismann á, að samferðamenn hans kunna að meta hið fjölþætta starf hans í þágu íslenzkrar viðreisnar, bæði andlegrar og efnalegrar. Þormóður Eyjólfsson er Skagfirðingur að ætt og uppruna. Faðir hans bjó á Reykjum í Tungusveit, og fleiri jörðum þar í grennd. Eyjólfur var atorkumaður mikill en auk þess gæddur svo frábærri söngrödd, að sr. Bjarni Þorsteinsson á Siglufirði taldi hann bestan tenór á Íslandi meðal sinna samtíðarmanna. Þormóður missti föður sinn er hann var á fermingaraldri. Dreifðist barnahópurinn þá til vina og vandamanna. Sr. Vilhjálmur Briem fóstraði Sigurð Birkis að mestu á Staðastað á Snæfellsnesi, en sr. Hjörleifur á Undirfelli tók Þormóð til sín, því að kona hans var systir Eyjólfs á Reykjum. Þormóður var í fóstri á Undirfelli fram á fullorðinsár. Var þá félagslíf mikið í Vatnsdal og gott til lífvænlegra áhrifa ungum mönnum. Á Kornsá, næsta bæ við Undirfell, fæddist upp frú Guðrún Björnsdóttir kona Þormóðs, ein hin hugkvæmasta og víðsýnasta kona um mannfélagsmál, sem nú er uppi á Íslandi. Þormóður Eyjólfsson gekk í Flensborgarskólann og hvarf þaðan að verzlunarstörfum á Blönduósi. En skömmu eftir giftinguna gerðust hin ungu hjón úr Vatnsdalnum landnemar í hinum hríðvaxandi síldarbæ, Siglufirði. Þegar Þormóður Eyjólfsson festi byggð sína á Siglufirði var bærinn með allt öðru sniði en nú. Norðmenn höfðu uppgötvað hin góðu atvinnuskilyrði, sem biðu síldveiðimanna á þessum stað. Þeir höfðu auk þess kennt íslendingum að veiða og verka síld. En jafnframt þessu áttu þeir Siglufjörð. Íslendingar voru í raun réttri undirtyllur útlendinga í þessari arðgæfu veiðistöð. Að vonum var reglusemin í kauptúninu ekki sérlega mikil, meðan erlendir stundargestir réðu þar lögum og lofum. Á þessum árum varð það almenn skoðun, að Siglufjörður væri hin fasta borg syndsamlegs lífernis á Íslandi. Þormóður Eyjólfsson hóf nú margskonar atvinnurekstur á Siglufirði. Hann var útgerðarmaður, seldi síld, afgreiddi skip, varð ræðismaður fyrir útlent ríki, bæjarfulltrúi Siglufjarðar og þátttakandi í ótölulegum nefndum, sem störfuðu að velferð bæjarins. Þormóður Eyjólfsson myndi hafa orðið landnámsmaður, hvar sem hann hefði dvalið, af því hann er gæddur eiginleikum þess manns, sem ryður nýjar brautir. Hann er hugkvæmur, bjartsýnn, sístarfandi að almenningsheill, bjartsýnn á framtíð lands og þjóðar, góður félagsbróðir, vinsæll og sífellt leitandi að nýjum viðfangsefnum. Á slíka menn eru í öllum frjálsum löndum lagðar miklar byrðar. Þeir eru svo að segja fæddir til að bera miklu meira en sinn hluta af álagi mannfélagsins. Heimili þeirra Þormóðs Eyjólfssonar og Guðrúnar Björnsdóttur hefir verið miðstöð framfarabaráttunnar á Siglufirði. Þar hefir í bezta skilningi verið haft opið hús. Þangað hafa legið leiðir áhugasamra Siglfirðinga og fjölmargra langferðamanna, er sótt hafa heim þenna mikla gróðabæ á Norðurlandi. Mér eru ekki nema að litlu leyti kunn hin fjölmörgu ítök Þormóðs Eyjólfssonar að framfaramálum bæjarins. Mér er þó kunnugt, að hann var einn af helztu forvígismönnum að kirkjubyggingunni, og lagði fram fé og fyrirhöfn til að útvega þangað hina fögru og frumlegu mynd Blöndals: Þegar Kristur lægir öldur hafsins. Hann beitti sér fyrir smíði hafnarbryggjunnar og kom í gegnum þingið 1933, að kalla mátti einn og óstuddur, ríkisframlagi til að byggja brimbrjótinn, sem ver nú bryggjur ríkisverksmiðjanna gegn hafróti og hafís. Enginn Siglfirðingur hefir lagt fram jafn mikla vinnu og Þormóður Eyjólfsson til að hrinda í framkvæmd akvegargerð yfir Siglufjarðarskarð. Eitt sinn þegar Siglufjarðarkaupstaður vildi fá lán í Skarðsveginn, sendi bæjarstjórn Þormóð Eyjólfsson sinna erinda í þeim efnum, þó að hann væri þar minnihlutamaður. En menn vissu að ef málið átti að vinnast, þá var bezt að fela það Þormóði Eyjólfssyni. Í fyrstu voru menn allmjög skiptir i Siglufjarðarbæ um nauðsyn þessarar vegagerðar, en nú er sú framkvæmd orðin heitasta áhugamál bæjarbúa, enda mun þar skammt að bíða mikilla framkvæmda. Síldarverksmiðjur ríkisins á Siglufirði eru þó það fjárhagslega stórmál, sem lengst mun geyma minningu Þormóðs Eyjólfssonar. Þegar Magnús Kristjánsson ráðherra tók upp baráttu fyrir þessari verksmiðjugerð, var Þormóður Eyjólfsson þegar í stað mesti stuðningsmaður málsins á Siglufirði. Tryggvi Þórhallsson fól Þormóði formennsku í verksmiðjustjórninni, og hefir hann gegnt því starfi síðan, að frátöldu stuttu tímabili, þegar óáran og óöld var ríkjandi um málefni þessara landsfyrirtækja. Lengi framan af var sess þessi vandsetinn. Margskonar hagsmunir komu hér til greina, og var ekki laust við að stéttir og einstaklingar vildu olnboga sig áfram til hlunninda, án þess að gæta nægilega hófs og stillingar. En eftir hin fyrstu fjörbrot hefir komizt á viðunandi vinnufriður í síldarverksmiðjum ríkisins. Hefir Þormóður Eyjólfsson átt mikinn þátt i að tekin voru upp friðsamleg vinnubrögð á þessum vettvangi. Bjartsýni hans og drenglyndi í skiptum við aðra menn, jafnvel þó að um andstæðinga sé að ræða, hafa gert honum kleift að lækka öldurnar í hinum viðkvæmu síldarmálum. Undir stjórn hans hefir reynslan sannað, að ríkið getur með góðum árangri. rekið stóreflda framleiðslustarfsemi til hagsbóta fyrir allar stéttir mannfélagsins. Hér eftir mun engum þjóðmálamanni koma til hugar að leggja niður síldarbræðslu ríkisins. Þvert á móti hefir Alþingi og ríkisstjórn stöðugt sótt á að efla og stækka þessi fyrirtæki. Siðan 1930 hafa verksmiðjur ríkisins verið stækkaðar hvað eftir annað. Auk þess hefir ríkið eignast nokkrar aðrar síldarbræðslur, annars staðar á landinu. Það er fágætt hér á landi, að umsvifamiklir fésýslumenn séu líka starfandi hugsjónamenn. Og með hverju ári fækkar þeim íslendingum, sem sameina löngun til listrænna umbóta við umsvifamikla fjármálaforustu. En þetta gerir Þormóður Eyjólfsson. Söngflokkur hans, "Vísir", hefir nú starfað á Siglufirði fram undir 20 ár. Þormóður Eyjólfsson hefir allan þennan tíma þjálfað hann og varið til þess mikilli vinnu. Stundum hefir honum tekist að draga til Siglufjarðar álitlega söngmenn, með því að hjálpa þeim með ráðum og dáð, til að geta starfað í bænum. Karlakórinn Vísir hefir eflt sönglíf og almenna menningu á Siglufirði. Auk þess hefir kórinn farið, meir en nokkur annar söngflokkur, ferðir um flestar helztu byggðir Norðurlands og tvisvar til Reykjavíkur. Hefir Vísir notið mikilla vinsælda og viðurkenningar, hvar sem hann hefir farið. Þegar hreyfing byrjaði í þá átt að koma á nánara samstarfi milli allra karlakóra hér á landi, var Þormóður Eyjólfsson frá upphafi einn af helstu stuðningsmönnum málsins með biskupnum, Sigurgeir Sigurðssyni. Hefir þetta samstarf söngflokkanna farið vaxandi með ári hverju til mikils stuðnings allri söngmennt í landinu. Sigurður Birkis, yngri bróðir Þormóðs Eyjólfssonar, hefir um nokkur undanfarin ár verið starfsmaður íslenzku kóranna og unnið þar gott og þýðingarmikið verk. Það má marka gáfur og skapgerð Þormóðs Eyjólfssonar á því, að hann sinnir jöfnum höndum kröfum hinnar efnalegu baráttu daglegs lífs og þróun sönglistar og söngmenntunar í landinu. Þegar hann hefir lokið erfiðu dagsverki við hin margháttuðu borgaralegu störf, byrjar hann að vinna með starfsbræðrum sínum í kórnum, og er þar jafn fjörmikill og áhugasamur eins og þeir, sem bestir eru af hinum ungu félagsmönnum. En þetta nægir ekki Þormóði Eyjólfssyni. Honum þykir það ekki nóg verkefni, að hann stýri góðum kór á Siglufirði. Hann vill fá sem flesta söngmenn til að mynda kórfélög og sameina þau undir eina yfirstjórn. Hugsjón hans er að efla söngmennt allra íslendinga, hvar sem þeir eiga heima hér á landi. Engir vinna þannig að málum nema þeir, sem gæddir eru innri eldi djarfra hugsjóna. Þó að ekki væri vitað um landsmálaskoðanir Þormóðs Eyjólfssonar, þá mætti fullyrða, af því sem sagt er hér að framan, að hann myndi skipa sér í fremstu röð baráttumanna, sem starfa að þjóðlegum umbótum. Sú er líka reyndin. Þegar á æskuárum var Þormóður Eyjólfsson einlægur landvarnarmaður. Sú hugsjón, að Ísland yrði aftur alfrjálst þjóðveldi eins og í fornöld, heillaði hug hans þegar á æskuárum. Hann hefir ekki enn hopað um hársbreidd í því efni. Þegar átök urðu um sjálfstæðismálið á útmánuðum 1941, var Þormóður Eyjólfsson einn af þeim mönnum, sem með mestri einlægni og manndóm beitti sér fyrir því, að þjóðin framkvæmdi þá þegar fullan skilnað og skipulega lýðveldismyndun. Þegar Framsóknarflokkurinn var stofnaður fyrir fjórðungi aldar, gekk Þormóður Eyjólfsson þá þegar fram í fylkingarbrjóst. Stefna flokksins, að vinna jöfnum höndum að fullkomnum skilnaði við Dani, og alhliða framförum þjóðarinnar bæði andlega og efnalega, var honum að öllu leyti að skapi. Hann varð boðberi hinnar nýju landsmálastefnu í síldarborginni. Í höndum flestra manna hefði sú starfsemi borið lítinn árangur. En hér varð reyndin önnur. Þormóður Eyjólfsson hafði til flokksmyndunar þá eiginleika, sem mest komu að liði. Hann var fullur af brennandi áhuga fyrir framförum Siglufjarðar sem landsins alls. Verkefnin voru jafnan mörg og nærtæk. Utan um Þormóð Eyjólfsson safnaðist á Siglufirði fylking margra vaskra manna. Þar sem áhuginn er nógur, lyftir hver félagsbróðir sinum sessunaut. Flokkur Framsóknarmanna á Siglufirði hefir jafnan verið í sókn. Hann hefir haft úrslitaáhrif á meðferð hinna þýðingarmestu mála í bænum, og verið þungt lóð á metaskálum kosninganna í Eyjafjarðarsýslu. Þegar Þormóður Eyjólfsson kom til Siglufjarðar, var bærinn niðurbæld norsk veiðistöð, og að orðtaki víða um land fyrir lausung og léttúð. Nú er Siglufjörður blómlegur kaupstaður með miklu og margþættu atvinnulífi. Enginn, sem til þekkir, kastar nú steini að Siglufirði fyrir það, að fylkingu íslenzkra menningarvarna hafi hnignað þar. Siglufjörður er nú í fararbroddi í margskonar umbótum og menningarstarfsemi. Í einni hinni nauðsynlegustu og fegurstu íþrótt, eru Siglfirðingar brautryðjendur, sem aðrir landsmenn fylgja. Hinar miklu framfarir Siglufjarðar, frá því hann var norsk verstöð og þar til hann er orðinn myndarlegur, íslenzkur kaupstaður, er vitanlega verk margra manna. En í hinni myndarlegu fylkingu siglfirzku umbótamannanna stendur einna fremst hinn prúði, bjartsýni sextugi maður, sem ber að vísu nokkuð af silfurhárum, eftir langan starfsdag, en er jafnframt því gæddur þeim áhuga og fjöri sannrar æsku, sem einkenndi þá kynslóð hér á landi, sem hóf starf sitt á morgni tuttugustu aldarinnar. Sú kynslóð vonar enn að sjá vordrauma sína rætast, Ísland alfrjálst, undir íslenzku þjóðarmerki. Þormóður Eyjólfsson á svo mikinn þátt í þeim sigrum, sem nú þegar hafa verið unnir, að vinir hans og samherjar munu óska þess, að honum megi auðnast að taka þátt í þeirri úrslitasókn fyrir frelsi landsins, sem er lokasteinninn í þeirri byggingu, sem Þormóður Eyjólfsson og samherjar hans hafa unnið að með mikilli giftu og glæsilegum árangri".
-
Árið 1950 tekur Karlakórinn Vísir þátt í landsmóti karlakóra sem haldið er 9. til 11. júní það ár í Reykjavík. Eftirfarandi frétt birtist í Þjóðviljanum 25. maí 1950.
-
"Þriðja landsmót Sambands íslenzkra karlakóra verður haldið í Reykjavík dagana 9. - 11. júní n.k. Sjö karlakórar, um 250 söngmenn alls, taka þátt í mótinu. Halda kórarnir þrjá samsöngva í Austurbæjarbíó dagana 9. og 10. júní, en 11. júní syngja þeir í Tívolí.
Kórarnir, sem þátt taka í mótinu eru þessir: Karlakór Akureyrar, söngstjóri" Áskell Jónsson. Fóstbræður, söngstjóri Jón Halldórsson. Geysir, söngstjóri Ingimundur Árnason. Karlakór Reykjavíkur, söngstjóri, Sigurður Þórðarson. Svanir (Akranesi), söngstjóri Geirlaugur Arnason. Vísir, söng stjóri Þormóður Eyjólfsson. Þrestir, söngstjóri Ragnar Björnsson.
Kórarnir syngja saman 5 lög og síðan hver kór tvö lög. Söngstjórar landskórsins verða þeir Þormóður Eyjólfsson, Jón Halldórsson, Ingimundur Árnason og Sigurður Þórðarson.
-
Í október 1950 er Tónlistarskóli Siglufjarðar sem stofnsettur og rekinn var að Karlakórnum Vísi, settur í fyrsta skipti. Þar með var brotið blað í tónlistarsögu bæjarins, því þetta var líka fyrsti tónlistarskólinn til að starfa á Siglufirði. Þormóður setti skólann og kórinn söng auðvitað við setningu hans. Nemendur þetta fyrsta skólaár voru 40 og skólastjóri var Jón Gunnarsson. Til gamans má geta þess að kennslan fór fram í norska sjómannaheimilinu, eða í sama húsi og hann er nú í.
Einhvern tíma skömmu eftir 1950 dregur Þormóður sig í hlé frá tónlistarstússinu eftir langan og farsælan feril á því sviði og Haukur Guðlaugsson síðar söngmálastjóri þjóðkirkjunnar tekur við keflinu".
-
Karlakórinn syngur
fyrir utan heimili Þormóðs og Guðrúnar við Hlíðarveg þ. 15. apríl 1952 þegar
Þormóður er sjötugur. (Ljósmynd úr Ljósmyndasafni Siglufjarðar).
Í Siglfirðing sem kom út þ. 19. apríl birtist eftirfarandi grein þar sem afmælinu var gerð góð skil, en enginn ritar þó undir greinina.
"Þormóður Eyjólfsson átti 70 ára afmæli þ. 15. þ.m. Víða hefir þessa dags verið minnzt, í útvarpi og blöðum, enda er Þormóður Eyólfsson löngu þjóðkunnur fyrir hina margþáttuðu starfsemi sína í atvinnumálum lands og þjóðar en ekki síður sem söngstjóri Karlakórsins Vísir. Af tilefni þessa afmælis hélt Vísir söngskemmtun á páskadag fyrir fullu húsi áheyrenda og tókst hún ágætlega. Að þessu sinni stjórnaði kórnum kornungur maður ættaður frá Eyrarbakka, Haukur Guðlaugsson að nafni. Verður ekki annað sagt, en að söngstjórn hans hafi tekizt ágætlega. Leynir það sér ekki, að hann er óvenju söngvinn og eldlegann áhuga skortir hann heldur ekki. Er framkoma hans öll látlaus og lipur, stjórn nákvæm og fáguð,
leikur léttur og fágaður. Að vanda vakti söngur hinna kunnu einsöngvara hrifningu, enda fóru
þeir ýmist vel eða ágætlega með verkefnin. Að aflokinni söngskemmtuninni flutti formaður kórsins, Sigurjón Sæmundsson snjalla ræðu og rakti í aðaldráttum hið mikla og óeigingjarna
starf Þ.E. í þágu Vísis. Benti hann á hve mikils virði það væri, að halda uppi sönglistarstarfi
í bænum og færði hann Þ.E. fagra blómakörfu og alúðarfyllstu þakkir sínar og söngmannanna.
Einnig afhenti Sigurjón Þ.E. fallega bók með nöfnum Vísismanna og fjölda annarra, er gefið
höfðu 12 þús. kr. í Söngmálasjóð Þ.E. Í umboði karlakórsins Geysis á Akureyri, festi Daníel Þóhallsson gullheiðursmerki á brjóst Þormóðs og tilkynnti um leið, að hann hefði verið kjörinn heiðursfélagi Geysis. Þá færði forseti bæjarstjórnar, Bjarni Bjarnason, afmælisbarninu
forkunnarfagra blómakörfu ásamt þakklæti bæjarstjórnar fyrir öll hin margþáttuðu störf, sem hann hefir unnið fyrir bæjarfélagið. Þakkaði Þ.E. með nokkrum orð um, óskaði bæjarbúum alls góðs í nútíð og framtíð og brýndi fyrir Siglfirðingum, að standa saman um þau vandamál, sem steðjuðu að. Kl. 8 sama kvöld hélt Vísir þeim hjónum, Þormóði og frú Guðrúnu, samsæti að Hótel Hvanneyri. Fór þetta samsæti prýðilega fram. Margar snjallar ræður voru fluttar fyrir minni þeirra hjóna og hins unga söngstjóra, sem nú er tekinn við hinu vandasama starfi, sem Þormóður hefir innt af hendi í 23 ár. Ræðumenn voru auk heiðursgestanna þeir Egill Stefánsson, Daníel Þórhallsson, Aage Schiöth, Sigurður Gunnlaugsson og Halldór Kristinsson. Afmælisdaginn þ. 15. þ.m. var gestkvæmt á hinu fagra heimili þeirra hjóna. Vísir sótti þau heim með söng og ávarpaði formaður Vísis Þormóð f.h. kórsins, framkvæmdastjóri Síldarverksmiðja ríkisins, Sigurður Jónsson, flutti þeim erindi erindi f.h. stjórnar þess fyrirtækis og afhenti 5000 kr. gjöf til söngmálasjóðs Þormóðs Eyólfssonar. Friðjón Þórðarson, settur bæjarfógeti færði þeim blóm og kveðjur f.h. Karlakórs Reykjavíkur og margir aðrir tóku til máls, Jóhann Jóhannsson skólastjóri, Otto Jörgensen, símstjóri, frú Þórarna Kristjánsson o.fl. Mun hátt á 3. hundrað manns hafa heimsótt hið gestrisna heimili þeirra hjóna þennan dag.
Söngmenn og nemendur Gagnfræðaskólans sýndu þeim hjónum sérkennilegan og fagran virðingarvott, sem vakti óskipta athygli bæjarbúa. Skömmu fyrir miðnætti var stofnað til blysfarar frá aðalgötu bæjarins, upp á brekkuna að dyrum þeirra hjóna. Blæjalogn var og heiðskírt þetta kvöld og var það tilkomumikil sjón að sjá 70 blys í höndum söngmanna og nemenda svífa upp brekkuna að heimili þeirra hjóna við Hlíðarveg. Flutti Aage Schiöth þeim þar stutt þakkarávarp og tók mannfjöldinn undir með ferföldu húrrahrópi. Vill þetta blað taka undir með öllum þeim, sem sýndu þeim hjónum virðingu og þakklæti á þessum merkisdegi, þakkir fyrir óeigingjarnt starf til eflingar andlegri og veraldlegri menningu þessa bæjar og forgöngu í uppeldis og kennslumálum bæjarbúa".
Karlakórinn Vísir 1957.
- Söngstjóri kórsins er Haukur Guðlaugsson. Formaður Sigurjón Somundsson. -
Visir starfrækir Tónlistarskóla og hafa sótt hann um 30 menn á ári hverju. S.l.
vetur var Máni Sigurjónsson skólastjóri í fjarveru Hauks Guðlaugssonar. (Ljósmynd skönnuð upp úr Mbl.)
-
Óli B. Björnsson skrifar langa grein reyndar ekki sína fyrstu um Siglfirsk málefni í 2. hefti blaðsins AKRANES sem kom út í apríl 1957. Hluti hennar fjalaði um Karlakórinn Vísir og þá kom Þormóður auðvitað við sögu.
-
"Því miður er mér ekki nægjanlega kunn hin merka saga Karlakórsins Vísis. Ég tel víst, að séra Bjarni og fjölskylda hans hafi átt þar veigamkinn þátt í, en einnig hafa þar fleiri ágætir söngmenn og menntafrömuðir komið við sögu, allt frá því er kórinn var stofnaður árið 1924.
Fyrsti söngstjóri Vísis mun hafa verið Halldór Hávarðsson frá ísafirði, faðir Torfa Halldórssonar skipstjóra í Reykjavík. Halldór var mikill músikmaður. Hann átti áður heima í Bolungarvík og á Ísafirði, stjórnaði þar kórum og tók mikinn virkan þátt í sönglífi þessara
bæja. Um skeið var einnig stjórnandi kórsins og mikill
áhugamaður, Tryggvi heitinn Kristinsson, sem á alla
ýmsum ágætum kórröddum og einsöngvurum. Það má og segja Siglfirðingum til hróss, að þeir hafa þroskað með sér slíkan músikkúltúr, að þeir hafa beinlínis staðið saman um það, að ná til sín og halda hjá sér úrvals röddum til þess að byggja upp, treysta og viðhalda í bæ
sínum þeim mikla menningarmeiði sem tónmenntin óneitanlega er hverju menningarsamfélagi sem lífsanda dregur, og á sér nokkurt líf fyrir höndum. Hún er hin mikla drottning allra lista.
Nú stendur ekki vel á fyrir Vísismönnum, og mun kórinn nánast liggja niðri, þar sem síðasti söngstjóri þeirra, Haukur Guðlaugsson, mun um tveggja ára skeið hafa verið við nám í útlöndum. Vonandi kemur hann bráðlega til þeirra aftur til að gefa Vísi vængi á ný, því
að það væri mikil synd og óbætanlegt tjón fyrir menningu bæjarins að láta slíkan kór veslast upp. Ekki er hér með sögð öll saga karlakórsins Vísis. Á hans vegum hefur verið rekinn Tónlistarskóli á Siglufirði um nokkur ár, og með góðum árangri. Þá kennslu önnuðust að verulegu leyti fyrrnefndur Haukur Guðlaugsson og Máni Sigurjónsson, sem báðir munu hafa nokkuð til brunns að bera í tónmennt. Meðal einsöngvara karlakórsins munu eftirtaldir menn hafa verið: Sigurjón Sæmundsson, núverandi formaður. Þórður Kristinsson, Jón Ásgeirsson, Daníel Þórhallsson, Sigurður Gunnlaugsson, Aage Schiöth, Þorsteinn Hannesson og Jón Gunnlaugsson, sem fyrir nokkrum árum er fluttur til Akraness, og hefur hér verið starfandi kórfélagi, og á stundum einsöngvari í karlakórnum Svanir. Þá mun Jósef Blöndal hafa verið söngmaður í kórnum og áhugasamur félagi á fyrri árum kórsins. Árið 1954 voru eftirtaldir söngmenn í söngför er Vísir fór í tilefni af 30 ára afmæli kórsins 1954.
I. TENÓR:
Árni Friðjónsson.
Bjarni Kjartansson.
Guðmundur Þorlaksson.
Helgi Vilhjálmsson.
Jónas Ásgeirsson.
Reynir Árnason.
Rögnvaldur Rögnvaldsson.
Sigurjón Sæmundsson.
Sveinn Björnsson.
II. TENÓR:
Eiríkur Eiríksson.
Erlendur Pálsson.
Guðvarður Jónsson.
Jóhannes Jónsson.
Kjartan Hjálmarsson.
Kristján Róbertsson.
Sigurgeir Þórarinsson.
Steingrímur Guðmundsson.
Sverrir Sigþórsson.
Viðar Magnússon.
I. BASSI:
Bjarki Árnason.
Egill Stefánsson.
Gestur Frimannsson.
Guðmundur Árnason.
Guðlaugur Karlsson.
Gunnlaugur Friðleifsson.
Hafliði Guðmundsson.
Ragnar Sveinsson.
Sigurbjörn Frimannsson.
II. BASSI:
Bjarni Jóhannsson.
Björgvin D. Jónsson.
Gísli Þorsteinsson.
Guðmundur Jónasson.
Gunnlaugur Jónsson.
Kjartan Einarsson.
Kristinn Georgsson.
Ragnar Erlendsson.
Þórður Kristinsson.
Óli Geir Þorgeirsson".
-
En þó að Þormóður hafi dregið sig í hlé fyrir nokkru, átti nafn hans þó eftir að koma upp í tengslum við siglfirska tónlistariðkun og flutning. Nokkru eftir síðari heimstyrjöldina tók Karlakórinn Vísir á Siglufirði upp nokkrar plötur hjá Ríkisútvarpinu sem átti upphaflega einungis að nota í tengslum við útvarpsdagskrá. Tókust upptökurnar sérlega vel og voru mikið leiknar í útvarpi, m.a. í öllum þeim óskalagaþáttum sem þá voru á dagskrá. Yfirmagnaravörður útvarpsins eins og tæknimenn þess tíma voru nefndir Dagfinnur Sveinbjörnsson, sá til þess að upptökurnar voru vel varðveittar og vann að því ásamt Sigurði Birkis að efnið yrði pressað og gefið út. Í júní árið 1957 segir svo Alþýðublaðið frá útgáfunni.
-
"Árið 1956 tókust samningar við íslenzka Tóna um útgáfu á nokkrum af plötunum og er nú sú fyrsta þeirra komin á markaðinn, Alfaðir ræður, eftir Sigvalda Kaldalóns við ljóð eftir Sigurð Eggerz, í útsetningu Sigurðar Þórðarsonar. Einsöngvari er Daníel Þórhallsson, og er þetta fyrsta platan sem út hefur verið gefin með söng hans, undirleikari er Emil Thoroddsen og Þormóður Eyjólfsson er söngstjórinn".
-
Í 3. tölublaði Ægis, riti fiskifélags Íslands sem kom út 15. febrúar 1959, birtust nokkur minningarorð um þennan Skagfirðing sem varð þó Siglfirðingur strax á unga aldri.
-
"Þormóður Eyjólfsson fyrrum formaður í stjórn Síldarverksmiðja ríkisins andaðist að heimili sínu á Siglufirði hinn 27. jan. s. 1. á 77. aldursári. Þormóður var um langt skeið einn helzti atkvæðamaður á Siglufirði og kom mjög við sögu síldarútvegsins. Í mörg ár hafði hann með höndum síldarsöltun og síldarverzlun í stórum stíl. Hann var fyrsti formaður stjórnar
Síldarverksmiðja ríkisins árið 1930. Átti hann sæti í stjórn verksmiðjanna í 15 ár, þar af formaður í 11 ár. Hann beitti sér fyrir byggingu hafskipabryggjunnar á Siglufirði og átti þátt
í því að S. R. reistu þar öflug hraðfrystihús. Þormóður hafði afgreiðslu helztu skipafélaganna með höndum áratugum saman og var umboðsmaður Brunabótafélags Íslands og margra annarra félaga og stofnana. Einnig var hann ræðismaður Norðmanna. Hann átti sæti í bæjarstjórn Siglufjarðar í 16 ár og var forseti hennar í nokkur ár. Þormóður var söngstjóri Karlakórsins Vísis í 23 ár og varð kórinn þá landskunnur. Þormóður var Skagfirðingur að ætt,
fæddur að Mælifellsá 15. apríl 1882. Kvæntur var hann Guðrúnu Björnsdóttur frá Kornsá, sem lifir mann sinn. Þormóðs mun lengi verða minnzt í sögu Siglufjarðar og síldarútvegsins".
-
Og meira að segja í Mánudagsblaðinu af öllum blöðum, var farið fögrum orðum um lífshlaup og störf Þormóðs. En skýringin var auðvitað sú að greinina ritaði Jónas Jónsson frá Hriflu og þar segir m.a.
-
"Listrænasti maður bæjarins hafði enn einu sinni fundið lykil að gullkistu nýbyggðarinnar.
Þormóður ól upp einn af beztu kórum landsins og með þeim liðsafla hafði hann ótrúlega mikil áhrif á menntun og menningu í nýbyggðinni. Þormóður skipti orku sinni milli atkvinnuframkvæmda og sönglistarinnar. Honum tókst með forsjá að flytja álitlega söng
menn til Siglufjarðar. Þegar Þormóður átti sjötugsafmæli komu Siglfirðingar í heimsókn til afmælisbarnsins og þökkuðu einlæglega fyrir langa og góða samvinnu. Efna- og valdamenn komu með gjafir í söngmálasjóð sem Þormóður hafði stofnað. Söngmenn fylktu liði.
Söngstjórinn greip enn einu sinni vopn sín og fyllti bæinn með söng. Börn og ungmenni lýstu
upp skammdegiskvöldið með blysför. Þessi skilnaðarfagnaður var vel til fundinn þegar kveðja skyldi aldurhniginn mann sem hafði sameinað listrænt starf og baráttu fyrir daglegu brauði alþjóðar. Dauðinn gerði vart við komu sína í hús Þormóðs Eyjólfssonar. Lífsorka hans fjaraði út mánuð eftir mánuð. Kona hans og aðrir vandamenn gerðu sitt til að létta síðustu baráttu hans. Eftir lifa verk hans mikil og margþætt. Mörg þeirra eru bundin við Siglufjörð og þá sem njóta ávaxtar af langri umbótabaráttu brautryðjandans. Íslenzka útvarpið mun líka á ókomnum árum bera tóna frá kórsöng Þormóðs Eyjólfssonar inn í öll heimili á landinu".
-----------------------------------------------------------------------------------------
Nafn: |
Þormóður Eyólfsson |
Mynd: |
|
Heimili: |
|
Staða: |
Konsúll |
Staður: |
|
Fæðingardagur: |
15-04-1882 |
Kirkjugarður: |
Dánardagur: |
|
|
Reitur: |
6-1-27 |
Jarðsetningardagur: |
|
Annað: |
|
Aldur: |
Ekki vitað |
-----------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------
Á gardur.is eru upplýsingar vægast sagt af skornum skammti eins og sjá má hér að ofan og ekki virðast allt of margir huga að leiði hans hin síðari ár. Þó helgaði Þormóður Eyjólfsson samfélaginu í hinum nyrsta kaupstað landsins krafta sína, hann vildi veg þess sem mest og ævistarf hans mótaðist af því að þjóna því bæði vel og dyggilega.
31.10.2012 03:04
Rölt upp í Skollaskál
25.10.2012 09:43
Afastelpur
18.10.2012 10:12
Skarðsmótið 1976
844. Ég rakst á þessi stórskemmtilegu glös fyrir stuttu síðan
þegar mér datt í hug að kíkja inn í hið óborganlega og ómissandi magasín "Góða
Hirðinn". Ég hugsaði mig ekki mjög lengi um og festi kaup á þeim þrátt fyrir að
mig vantaði svo sem ekkert endilega fleiri drykkjarílát. Kaupverðið var 10 kr.
stykkið og þar sem stóð sæmilega á hjá mér akkúrat þá stundina, gat ég nokkuð
auðveldlega greitt það út í hönd í reiðufé. Þegar heim kom datt mér í hug að
fræðast svolítið um þetta tiltekna mót og niðurstöðurnar
Þetta ár áttu Siglfirðingar því miður mun færri menn og konur á verðlaunapalli en fáeinum árum áður þegar "við" bárum hreinlega ægishjálm yfir flesta aðra landsmenn þegar skíðaíþróttir voru annars vegar.
Enginn Siglfirðingur var í neinu af fimm efstu sætunum í stórsvigi karla, en Gústi Stefáns bjargaði því sem bjargað varð í þeirri grein og var í þriðja sæti í sviginu. Gamla kempan Jóhann Vilbergs var í þriðja sæti í alpatvíkeppni karla, en garpurinn Magnús Eiríksson var fyrstur í göngu karla og þar með eru siglfirstu nöfnin upp talin.
Athygli vakti að Steinunn Sæmundsdóttir Reykjavík, Aldís Arnardóttir Akureyri og Kristín Úlfsdóttir Ísafirði voru efstar í stórsvigi kvenna, svigi kvenna og alpatvíkeppni kvenna. Og ekki bara það, heldur var Steinunn alltaf efst, Aldís alltaf önnur og Kristín alltaf í þriðja sæti.
11.10.2012 23:54
Skömmbakkar í skítamálum
843. Ófögur sjón blasti við nokkrum erlendum ferðamönnum fyrir stuttu síðan í miðbæ Reykjavíkur þegar þeir þurftu að létta á sér eftir hressandi morgungöngu og búðarráp, en eins og sjá má á myndinni er sumt greinilega verulega úr lagi fært þarna innan dyra. Varla verður aðkoman að þessari bráðnauðsynlegu aðstöðu talin landi og þjóð til sóma á erlendri grund þegar frá líður, en auðvitað geta því miður fáein skemmd epli haft mjög svo mengandi áhrif á umhverfið með háttarlagi sínu og eru því verulega slæm auglýsing fyrir Ísland og íslendinga. - Nema þeir sem þarna voru á ferð hafi verið með svona gríðarlega mikið harðlífi.