Færslur: 2009 Desember
26.12.2009 13:41
Uppáferð Bláusar og afleiðingar hennar
603. Það var einhvern tíma seint í haust að ég heyrði þessa nafngift fyrst og kunni strax vel við hana.
En Bláus...! Hver er nú það?
Jú, það mun vera litla bláa Micran sem hefur komið mér á milli staða undanfarin ár og undantekningalítið staðið sig með undraverðum hætti þó svo að oft hafi verið mikið á hana lagt.
En nýverið lenti hann í slíkum hremmingum að tvísýnt þótti um framhaldið, þ.e. hvort hann yrði dæmdur til pressu eða púkkað frekar upp á gripinn. Upphaf málsins var að í desemberbyrjun frysti fyrst snögglega, en hlánaði síðan aftur með engu minni látum svo úr varð verulegt og mjög skyndilegt hálkuskot. Glærasvell myndaðist og þó að ástandið stæði stutt yfir, náði það að gera mönnum einhverjar skráveifur áður en það hvarf aftur af malbikinu. Síðdegis þennan sama dag var sá sem þetta ritar sendur út í búð eftir nauðsynjum sem er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi. Leiðin lá frá Öldugötu, yfir Áslandið og niður að Völlunum sem eru þar fyrir sunnan og neðan. Þannig hagar til að leiðin sem lýst er liggur fyrst upp brekku áleiðis upp að Ásfjallinu, en síðan er ekið niður aðra brekku sem endar í beygju inn á eitt hinna fjölmörgu hringtorga Vallarhverfisins. Þegar umrædd sendiferð var farin var "hálkuferlið" líklega nálægt hámarki sínu.
Þegar komið var niður brekkuna, hlýddi sá blái "skyndilega" engum fyrirmælum og fór sínu fram á fljúgandi hálum veginum og stefndi rakleiðis á endann á vegriði sem gróf sig ofan í vegkantinn. Það var sama hvað var að gert, engum vörnum varð við komið og það var eins og litli bíllinn hefði öðlast sjálfstæðan vilja. Sá vilji fór svo sannarlega ekki saman við minn því ég bremsaði, sleppti brensunum aftur, beygði og gíraði niður allt án þess að það breytti nokkru. Bláus stefndi rakleiðis að rótum vegriðsins og hóf sig á loft eins og lítill fugl á góðviðrisdegi snemma vors þegar sólin skín, flugurnar suða og blómin anga.
Eftir að hafa rennt sér á vegriðinu nokkra metra var engu líkara en sá blái hefði tekið hina endanlegu ákvörðun um hvoru megin riðs hann vildi heldur vera og tók að hallast ískyggilega mikið til vinstri. Auðvitað má vel vera að þungi ökumannsins hafi haft þarna nokkur áhrif því vigt hans telst vera lítillega yfir meðallagi miðað við hæð, aldur, beinabyggingu o.s.frv. En svo má auðvitað ekki gleyma því að vogstangaraflið eða "vegasaltáhrifin" séu ekki síður líkleg til að hafa sín áhrif. Samkvæmt áðurnefndum kenningum sem hafa margsannað sig, er það sem er á uppleið öðru megin nefnilega vísast til að halda sínu striki og taka stefnuna niður hinum megin sem var akkúrat það sem gerðist í þessu tilfelli. Sá blái rann ótúlega hægt og alls ekki neitt sérlega tignarlega út af áðurnefndu vegriði og lenti ofan á tveimur stórum steinum. Kannski væri nær að segja björgum því lendingargrjótið er af svipaðri stærð og lögun og sést oft í uppfyllingum þar sem því er ætlað að varna landbroti af völdum sjávargangs. Og þarna tók ökutækið aftur að hallast að mér fannst ofurhægt og enn meira til vinstri þar til það stöðvaðist. Um stund sat það eins og fátt eitt hefði gest og vélin malaði áfram eins og saumavél sem henni er svo tamt að gera í hægagangi. Mér fannst eins og litli blái bíllinn vildi segja: "Jæja, þá erum við komnir hingað".
En ég var þegar þarna var komið sögu, ekki alveg búinn að átta mig á verulega breyttum aðstæðum og tók nú að hugsa fyrir framhaldsaðgerðum.
Líklega var best að stíga út og sjá hvernig þetta væri allt saman að gera sig. Ég reyndi að opna hurðina mín megin en það var alls ekki nokkur vegur að hreyfa hana. Ég leit út um hliðarrúðuna farþegamegin en skynjaði þá að ég "horfði til himins" eins og segir í texta þeirra Nýdanskra. Mér datt þá í hug að skrúfa niður hliðarrúðuna mín megin og renna mér þar út. Ég drap þó fyrst á bílnum og lét mig því næst vaða niður um gluggann. Ég gekk aftur fyrir bílinn og virti stöðu hans fyrir mér. Hún var allt í senn, listræn, dapurleg, án mögulegrar flóttaleiðar og eiginlega um leið talsvert spaugileg.
Hún var listræn að því leyti að hægra framhjólið og vinstra afturhjólið tylltu sér upp á eins konar staksteina og framhjólið þó mun hærra. Vinstra framhjólið virtist hafa komið sér makindlega fyrir ofan í djúpri dæld sem væri líklegt til að veita því skjól fyrir svolítilli slydduhríð sem þarna angraði okkur. Hægra afturhjólið var hins vegar hátt á lofti rétt eins og afturendi á kálfi sem er að stíga sín allra fyrstu skref út í sumarið eftir að hafa dvalið veturlangt í fjósi. Já bílgarmurinn sat þarna sem fastast, reygði sig og teygði uppásnúinn eins og misheppnaður skúlptúr nýlistarmanns sem á langt í land með að finna og þróa hinn endanlega stíl sinn. Og örugglega einnig án þess að vekja nokkra aðdáum þeirra sem gætu haft einhverja aðkomu að málinu t.d. fyrir listræna uppsetningu, fagurfræðilega hönnun eða uppátækjasama nýbreytni sem væri líkleg til að slá í gegn. En því verður ekki á móti mælt að litlar sem engar líkur eru á að hægt sé að endurtaka lendingu eins og þessa sama hvað reynt yrði.
Hún var verulega dapurleg fyrir veskið mitt, svo ekki sé minnst á að heima biðu mín nýsoðnir ábrystir sem myndu verða orðnir kaldir þegar ég kæmist í þá. Auk þess var þessi ferð mín tilkomin vegna þess að það var ekki til rjómi út á þá sem mér þykir alveg nauðsynlegur þáttur. Hún var algjörlega án möguleika á að aka, ýta eða draga vesalinginn þarna uppi á grjótinu í burtu og halda áfram ferð sinni. Hann var nefnilega svo kyrfilega skorðaður á stalli sínum að eina leiðin til að ná honum niður var að bregða á hann stroffum og hífa upp og til hliðar, yfir vegriðið og inn á götuna.
Og svo var hún spaugileg á sinn sérstaka hátt í dapurleikanum sem er eiginlega lýst til fulls í listræna þættinum hér að ofan. Að vísu er ekki alveg víst að allir skilji gráleitan húmorinn í þessu öllu saman en það verður þá bara að hafa það.
Og þarna stóð ég og virti fyrir mér þennan samferðung minn til margra ára og við sem höfum svo marga fjöruna sopið saman.
Þegar söguhetjunni Bláus hafði verið komið í hús, var farið að kanna skemmdir og því næst mögulegar framhaldsaðgerðir. Eftir að fyrir lá hvaða varahluti þurfti til viðgerðarinnar, var farið að kanna hvað þeir myndu nú kosta. En eftirhrunsgengi krónunnar virðist hafa haft síst minni áhrif á notaða varahluti hjá partasölum en vöruverð í verslunum, svo ekki þótti réttlætanlegt að eiga mikil viðskipti á þeim bæjum. Það mætti ætla að nýbúið væri að leysa allt þeirra gamla og misjafnlega mikið slitna dót úr tollinum með tilheyrandi fjármagnskostnaði og ómældri fyrirhöfn. Nú voru góð ráð dýr, önnur jafnvel enn dýrari og sum þó langdýrust. En þar sem ég velti fyrir mér möguleikunum í stöðunni mundi ég eftir að hafa heyrt um einhverjar Micrur norður í Skagafirði sem búið var að leggja. Ég hringdi því norður, kannaði málið og viti menn, þar norðurfrá virtist kreppuáhrifa gæta mun minna og á annan hátt en hér syðra.
"Það eru tveir svona bílar eins og þú átt hérna úti á hlaði og þú getur fengið allt sem þú vilt taka úr þeim báðum fyrir tvo bjórkassa af viðurkenndri tegund" var svarið við erindi mínu.
Ég hafði því næst samband við Ingólf bónda á næsta bæ við Micrustaði og áður en ég hafði að fullu lokið við að stynja upp erindinu, var hann búinn að bjóða mér bæði aðstoð sína og alla þá aðstöðu sem hann réði yfir.
Þegar ég kom norður var Ingólfur búinn að draga aðra Micruna til skemmu og koma henni upp á kubba. Mikil atlaga var nú gerð að "Rauðku" og eftir hluta úr kvöldstund var bæði fátt og lítið eftir í henni framan við framrúðu. Rétt er og sanngjarnt að geta þess að það var Ingólfur sem dró vagninn í "rifrildinu" og á allan heiður af hinum verklegu framkvæmdum. En ég sem hef aldrei komið nálægt bílaviðgerðum og er mikil rati á því sviði, var að mestu í hlutverki handlangarans.
Afurðirnar voru nú settar á kerru sem Ingólfur lánaði mér til suðurferðarinnar, en ég hafði komið norður á Subaru Legacy sem ég hafði líka fengið að láni. Reyndar var það hjá ágætum nágranna hér syðra sem hafði nýverið fengið heilmikla slæmsku í annan fótinn og taldist vera ófær um að aka bíl þar til hann hefði fengið bót meina sinna. Ekki verður því annað sagt en að rausnaskapur og greiðvikni Ingólfs svo og fótamein nágrannans hafi orðið bílaútgerð minni til bjargar á ögurstundu.
Hér getur að líta hina Micruna sem við fyrstu sýn virtist vera í fullu fjöri. Mér var þó sagt að það væri nú vísast eitthvað minni háttar sem væri að plaga og hún væri þess vegna á leið í pressu. Ég taldi þá rétt að fullnýta "bjórkassadílinn" því hún var afar vel dekkjuð og þess vegna hvíldi hún aðeins á tveimur vörubrettum þegar ég yfirgaf staðinn.
Allt var nú tilbúið til brottfarar. Nauðsynlegir varahlutir og aðrir hlutir sem gæti hugsanlega einhvern tíma vantað, voru komnir á kerru ásamt fjórum lítið slitnum dekkjum á felgum. Ég gat ekki verið annað en sáttur við viðskiptin og þakklátur hjálparhellunni Ingólfi.
Og nú var ekið viðstöðulítið suður yfir heiðar. Þó gat ég ekki á mér setið og staldrað örlítið við í Borgarfirðinum milli Bifrastar og Hraunsnefs þar sem þetta flotta jólahús fangaði athyglina. Ég kom þrífætinum fyrir við heimreiðina, fann réttu stillinguna og myndaði þennan ljósum prýdda bæ svo fleiri mættu njóta.
En því er við að bæta að Bláus er kominn á stjá á nýjan leik og er hinn hressasti.
24.12.2009 10:40
Gleðileg jól gott fólk!
602. Á dögunum rakst ég á skemmtilegan "jólapóst" frá liðnu ári sem hefur eflaust komið víða við á flakki sínu í netheimum og eflaust laðað fram létta brosvipru hjá "fyrra árs" lesendum. En ef sagan skyldi hafa farið fram hjá einhverjum eða léttur þokuslæðingur umvafið starfsemina í einhverju toppstykkjum síðan þá og hún því gleymst, má ætla að meinlítið muni vera að láta hana fylgja myndinni hér að ofan, þrátt fyrir að möguleg tenging við hana hljóti að vefjast fyrir flestum. Reyndar er hún alls ekki fyrir hendi því sagan ku vera ættuð úr ranni okkar gömlu herraþjóðar, en myndina tók óþekktur ljósmyndari eitt sinn, sem á rölti sínu um bæinn mætti mikilli hersingu (greinilega eitthvert utanbæjarlið hér á ferð) sem mun hafa verið á leið í pylsu og kók á bensínstöðina.
Jólahlaðborð í danska fyrirtækinu.
2. desember.
Til allra starfsmanna.
Það er mér mikil ánægja að tilkynna að jólahlaðborð fyrirtækisins, julefesten, verður haldin á Steikhúsi Knudsen þann 20 desember. Jólaskreytingar verða komnar á sinn stað og lítil hljómsveit mun spila vinalega og velþekkta jólasöngva. Aðstoðarforstjórinn kemur og leikur
jólasveininn og hann ætlar líka að kveikja á jólatrénu. Þið megið koma með jólagjafir en þær mega ekki kosta meira en 200 krónur. Ég óska ykkur og fjölskyldum ykkar friðar á aðventu.
Tina Johansen
fulltrúi í starfsmannahaldi
3. desember.
Til allra starfsmanna.
Það var ekki meiningin með tilkynningunni í gær að móðga tyrknesku vinnufélagana okkar. Við vitum að helgidagarnir þeirra eru ekki alveg samstæðir okkar. Þess vegna köllum við jólahlaðborðið framvegis árslokaveislu. Af þessum ástæðum verður ekkert jólatré og ekki jólasöngvar. Ég óska ykkur og fjölskyldum ykkar góðra stunda.
Tina Johansen
fulltrúi í starfsmannahaldi
7.desember.
Til allra starfsmanna.
Félagi í Anonyme Alkoholikere, AA, sem ekki vill láta nafns síns getið af eðlilegum ástæðum, krefst þess að á árslokaveislunni verði þurrt borð. Með gleði get ég sagt að það verður orðið við þessum óskum en vil um leið benda á að þurrkinn eftir veisluna get ég ekki ábyrgst. Þar að auki verða ekki gefnar jólagjafir því verkalýðsfélagið hefur mótmælt og telur 200 krónur allt of háa upphæð í jólagjafir.
Tina Johansen
fulltrúi í starfsmannahaldi.
9. desember.
Til allra starfsmanna.
Mér heppnaðist að fá borð langt frá hlaðborðinu fyrir félaga okkar úr megrunarklúbbi fyrirtækisins. Svo fékk ég líka borð fyrir alla ólétta rétt hjá salernisdyrunum. Hommar sitja hlið við hlið. Lesbiur þurfa ekki að sitja við hliðina á hommunum, þær fá sér borð. Að sjálfsögðu fá hommar og lesbiur blómaskreytingu á borðin sín. ERUÐ ÞIÐ NÚ ÁNÆGÐ... EÐA HVAÐ?
Tina Johansen
fulltrúi á geðveikradeildinni í starfsmannahaldi
10. desember.
Til allra starfsmanna.
Að sjálfsögðu tökum við tillit til þeirra sem ekki reykja. Teppi verður notað til að skipta veislusalnum í tvær deildir. Möguleiki á að hafa reyklaust fólk í tjaldi fyrir utan veitingahúsið.
Tina Johansen
fulltrúi í starfsmannahaldi fyrir undirokaða
14. desember.
Til allra starfsmanna.
Grænmetisætur! Ég beið nú bara eftir að heyra frá ykkur. Mér er svo innilega, alveg skít sama hvort veislan passar fyrir ykkur eða ekki. Við förum á Steikhúsið. Mín vegna getið þið farið til tunglsins 20.desember til að sitja eins langt frá dauða-grillinu og þið mögulega getið.
Njótið, for helvede, saladbarsins og étið ykkar hráu tómata. Og munið að tómatar hafa líka tilfinningar. Þeir æpa þegar maður sker í þá, ég hef sjálf heyrt það. Jæja svín, þarna fenguð þið á baukinn! Ég óska öllum hvínandi góðra jóla, drekkið ykkur drullu-full, svo þið farið í kóma!
Kveðja frá "Bitchen" á þriðju hæðinni.
16. desember.
Til allra starfsmanna.
Ég er viss um að ég tala fyrir hönd okkar allra, þegar ég óska Tine Johansen góðs bata. Það verður metið við ykkur ef þið sendið henni kort með góðum óskum á Geðdeildina. Stjórn fyrirtækisins hefur ákveðið að það verður ekki nein árslokaveisla eða jólahlaðborð. Þið megið taka ykkur frí allan daginn þann 20. desember á kostnað fyrirtækisins.
Gleðileg jól!
Frederik Lindstrøm
Starfsmannastjóri.
Ég vil svo þakka öllum þeim sem hingað hafa lítið inn fyrir komuna og megi þeir hinir sömu kíkja sem fyrst við aftur. Óska öllum gleðilegra jóla og ómældrar farsældar um alla framtíð.
Lifið heil - Leó R. Ólason.
22.12.2009 02:54
Sigurður læknir og Einar Haukur Ásgrímsson
601. Þetta er enn ein af myndunum úr fórum Gests Fanndal sem ég hef verið að glugga í undanfarið. Ég var ekki í neinum vandræðum með að þekkja Sigurð lækni sem er með eftirminnilegri mönnum frá því á sjöunda áratugnum á Sigló, en öðru máli gegndi um þann sem hjá honum stendur þó mér finndist ég ætti að kannast við svipinn.
Ég brá því á það ráð sem stundum hefur reynst svo vel, þ.e. að senda myndirnar til valinkunnra Siglfirðinga ásamt fyrirspurn um myndefnið.
Að þessu sinni dugði að senda hana aðeins til Bigga Ingimars því hann framsendi hana strax áfram til þeirra Gunnars Trausta og Sigga Pálma sem var af augljósri ástæðu oftast nefndur "Siggi læknisins" hér á árum áður. Ekki leið á löngu þar til rafræn skilaboð fóru að berast manna á millum bæði fram og til baka, að endingu var búið að rifja alveg heilmikið upp og "útlínur heildarmyndarinnar" tóku að skýrast.
Gunnar taldi fyrst að maðurinn tengdist S.R., en Siggi hélt að hann héti Einar Haukur og hefði starfað í tunnuverksmiðjunni. Til að vera viss taldi hann rétt að bera málið undir föður sinn Sigurð, fyrrverandi héraðslækni okkar Siglfirðinga til samþykktar eða synjunar eins og sagt er. Og útkoman eða kannski öllu heldur niðurstöður rannsóknarinnar liggja nú fyrir.
Til vinstri er Sigurður Sigurðsson sem var héraðslæknir á Siglufirði frá því um 1960 þegar Halldór Kristinssson lét af því starfi og að mig minnir fram undir 1970. Hann bjó ásamt fjölskyldu sinni lengst af að Suðurgötu 52 en einnig að mig minnir einhvern tíma að Lindargötu númer 10.
Hinn maðurinn heitir Einar Haukur Ásgrímsson, er verkfræðingur að mennt og starfaði um skeið sem framkvæmdastjóri í Tunnuverksmiðjunni á Siglufirði. Hann varð á svipstundu þekktur um land allt þegar hann keppti eitt sinn í spurningaþætti hjá Svavari Gests sem hét "Vogun vinnur". Svavar sem var mjög lágvaxinn maður er sagður hafa horft upp eftir Einari í kynningunni við upphaf þáttarins og stunið upp:
"Rosalega er maðurinn stór, hann er bara eins og viti".
Einar horfði þá niður á Svavar og svaraði af mikilli hógværð:
"Þá hlýtur þú að vera hálf-viti"
Þegar Gunnar Trausti rifjaði þessa sögu upp mundi ég eftir henni því ég sat auðvitað við útvarpstækið heima og heyrði þegar salurinn hreinlega ærðist við tilsvarið.
Og Gunnar rifjaði líka upp svolitla prakkarasögu, en það er eins og þeir vita sem til þekkja afar ólíkt honum að hafa komið nálægt slíku á sínum unglings og uppvaxtarárum.
"Við gerðum at í Einari Hauki (blessuð sé minning hans) þegar hann bjó á Hverfisgötunni. Við setttum svokallaðan bankara (sem samanstóð af löngu bandi og steini eða einhverju öðru þungu sem var bundið í annan enda spottans) á handfangið hjá Einari og lágum síðan í hvarfi við bakka á lóðamörkunum milli hans og Helga Sveins. Gaman var að sjá þennan stóra mann koma ítrekað til dyra og verða alltaf jafn hissa þegar enginn var þar sjáanlegur. Hann hljóp fyrir húshornið, lagðist í leyni og reif upp hurðina meðan bankarinn var dreginn hljóðlega til baka.
En það var sama hvað hann gerði, allt kom fyrir ekki og að lokum varð hann að játa sig sigraðan. Og þetta fannst okkur hreint ekki leiðinlegt."
Einar Haukur sem er nú látinn fyrir allmörgum árum, var giftur Ásdísi Helgadóttur.
Mig langar í lokin að bæta við einni smásögu um viðskipti okkar Sigurðar Pálma Sigurðssonar, þó vandséð sé að hún tengist umræðunni sem farið var af stað með í upphafi. Þannig var að Þegar Kristján Möller veitti Æskó á Siglufirði forstöðu, stóð hann eitt sinn fyrir skákmóti sem ætlað var nemendum Gagnfræðaskólans. Eitthvað fannst Kristjáni lítill áhugi vera fyrir mótinu, svo hann hvatti marga minni spámenn á sviði skáklistarinnar til að skrá sig til keppni og þar á meðal mig. En það má einnig koma fram til gamans að það var einmitt Kristján Möller sem hafði kennt mér mannganginn nokkrum árum áður. Mér gekk alveg hræðilega illa í byrjun og skíttapaði fyrstu skákinni fyrir Halla "kjaft" Hafliðasyni sem var ekki endilega talinn með þeim allra sleipustu. Ég skammaðist mín fyrir árangurinn eða öllu heldur árangusleysið, en sótti mjög í mig veðrið eftir að hafa lesið "Lærið að tefla" eftir Friðrik Ólafsson spjaldanna á milli. Ég las mig líka í gegn um aðra bók sem ég man ekki hvað heitir, en sú er eftir Boris Spassky sem var einmitt heimsmeistari á þessum árum. Ég lagðist í þetta sjálfsnám næsta sólarhringinn eftir fyrstu skákina og hreinlega drakk í mig allan þann fróðleik sem í þessum ágætu kennslubókum var að finna.
Þegar komið var að því að tefla við Sigga læknisins sem var einn þátttakenda, vissi ég að nú þyrfti að hugsa djúpt ef ekki ætti illa að fara. Viðureignin sem átti sér stað uppi í risi í Æskó við Vetrarbraut, fór mjög hægt af stað og af fádæma yfirvegun. Við reyndum báðir að sjá sem flesta mögulega og líklega leiki fram í tímann áður en við lékum, og það var liðið vel á þriðja tíma áður en fyrsta peðið féll. Allir aðrir höfðu fyrir löngu lokið sínum skákum og komu annað slagið og fylgdust með þessari ótrúlegu langloku. Ég held að í heildina hafi taflmennskan staðið yfir í u.þ.b. fjóra tíma og ég er ekki frá því að þetta hafi verið fallegasta skák sem ég hef nokkru sinni teflt. Fróðlegt væri að vita hvort Siggi man eftir þessu.
Þessa mynd fékk ég "lánaða" á gömlu síðunni hans Steingríms. Þarna eru Þórður í Hrímni, Sigurður læknir (með pípuna) og Tryggvi Sigurbjörnsson rafveitustjóri. En ég er ekki frá því að drengurinn sem sést milli þeirra Þórðar og Sigurðar sé Sigurður Pálmi Sigurðsson eða Siggi læknisins.
15.12.2009 10:03
Fjallganga fyrir hartnær 40 árum.
600. Eins og þegar hefur komið fram hitti ég Palla Fanndal á förnum vegi fyrir all nokkru síðan og við tókum auðvitað tal saman, enda erum við Palli gamlir grannar af Brekkunni. Hann sagði mér af fjallgöngumyndunum sem hann hafði fundið í safni afa sins af mér, þeim bræðrum Guðna og Bjössa Sveinssonum ásamt Gústa Dan sem átti um tíma heima á neðri hæðinni að Hverfisgötu 11. Ég mundi vel eftir þessari allra fyrstu fjallgöngu minni, en ég varð svolítið hissa á að heyra að myndavél hefði verið með í för, enda hvorki meira né minna en tæp 40 ár síðan ferðin var farin.
Gestur mun líklega látið Guðna hafa myndavélina, en hann starfaði á þessum tíma sem sendill í verslun hans. Við höfum líklega skiptst á að "skjóta" léttum skotum á hvorn annan á ferðalaginu, en eftir á að hyggja hefðum við alveg mátt
Þegar ég átti svo leið um sömu slóðir í ágúst s.l. með Hauk Þór, gengum við fram hjá þessu gati sem er í allmiklum kletti á leiðinni frá Illviðrishnjúk og niður að Snók. Ég mundi þá vel eftir honum frá hinni fyrri ferð og tilfinningin var ekki ólík því að hitta gamlan félaga eftir langan aðskilnað. Neðstu (gat)myndina tók ég nú í ágúst en hinar tvær efri hefur Guðni að öllum líkindum tekið 1970, en eftir því sem ég fæ best munað var göngutúrinn mikli farinn það ár.
Gestur lét okkur hafa allmikið reipi í nokkurs konar "nesti" til ferðarinnar, ef við skyldum rata í einhver vandræði í klettum eða bröttum skriðum. Ekki kom þó til þess að við þyrftum á því að halda, en vissulega var hugmyndin óvitlaus með öllu. Verst þótti mér að það dæmdist á mig að bera reipið því sem næst alla leiðina, því ég var stærstur á þessum árum og áætluð "burðargeta" mín því væntanlega talin gefa fullt tilefni til þeirrar tilætlunarsemi. Mig minnir t.d. að ég hafi verið u.þ.b. 20 kílóum þyngri en Guðni, en reikna með að þau hlutföll hafi hugsanlega eitthvað "lítillega" breyst á liðnum árum.
Guðni pósaði uppi á vörðunni á toppi Illviðrishnjúks, sem við töldum eins og svo margir aðrir á þessum tíma að væri hæsta fjall við Siglufjörð. Varðan var að miklum mun lágreistari en hún var síðastliðið sumar, en út úr henni fiskuðum við samt hólk með gestabók ásamt penna sem virkaði bara alveg þokkalega. Úr honum kom blátt blek og við settum tunguna út í annað munnvikið, hrukkuðum ennið og rituðum nöfn okkar á svo til alveg óskrifað blað. En fróðlegt væri að vita hvað verður af slíkum heimildum þegar fram líða stundir.
Almenningshnakki er að vísu u.þ.b. 15 metrum hærri en umræddur hnjúkur, og einhvern tíma heyrði ég þeim rökum beitt að það fjall sé að svo miklu leyti Fljótamegin við landamerki milli byggðanna að það geti því tæplega talist vera Siglfirskt fjall.
En það vildu auðvitað allir láta mynda sig á toppnum og sjónarhornið þurfti auðvitað að vera tilkomumikið. Vá maður. - Hver er góður með sig þarna?
En þetta eru leiðangursmennirnir Bjössi Sveins, ég og Gústi Dan.
Guðni er hér í nýja rauða nylonstakknum sínum á klettabrúninni vegna fyrirhugaðrar myndatöku, og ef ég man rétt þá staldraði hann ekki lengur við í of mikilli nálægð við brúnina en hann nauðsynlega þurfti. En mig langar til að bæta við nokkrum orðum um rauða stakkinn sem þótti að mörgu leyti afar sérstök strákaflík, og var allt að því umdeildur sem slík. Það komu aðeins tvö eintök í bæinn og að sjálfsögðu í einu tískuvöruverslunina sem var að sjálfsögðu Diddabúð sem var var til húsa á Tórahorninu efst í Aðalgötunni þar sem Sparisjóðurinn er núna. Guðni keypti strax annan þeirra en hinn hékk nokkurn tíma til sýnis á herðartré úti í glugga Túngötumegin. En svo fór þó að ég kom við hjá Önnu Láru einn daginn og keypti hann þrátt fyrir að mér þætti hann allt að því glannalegur á litinn. Á þessum árum gekk varla hnífurinn á milli okkar Guðna og við vorum bæði mestu og bestu vinir hvors annars allt þar til Helga Sigurbjörns náði af mér þeim titli. Ég velti því líka fyrir mér hvort ég hef e.t.v. pínulítið meðvitað eða ómeðvitað verið að treysta fóstbræðralagið enn frekar með þessum fatakaupum. Reyndar man ég líka vel að fljótlega eftir ég var farinn að ganga í honum fjaraði umræðan út smátt og smátt, en ég fílaði mig eftir það hið besta í nylonstakknum þrátt fyrir að hann væri allt að því "óhóflega" rauður.
Okkur þótti leiðin um fjallið fyrir ofan bæinn bæði löng og ströng, enda ekki nema ca. 12-14 ára gamlir guttar þarna á ferð. Það var því ósjaldan sest niður og pústað alla leiðina frá Siglufjarðarskarði að Hvanneyrarskál.
En útsýnið var vissulega frábært og við uppgötvuðum alveg nýtt sjónarhorn á landslagið miðað við hvernig við höfðum þekkt það áður. - Það var nokkuð sem geymdist í hugum okkar en gleymdist ekki.
14.12.2009 00:13
Hálfdrættingar við Húsafell
599. Endrum og sinnum þegar verið er að leita að einhverju tilteknu efni í leyndum afkimum harða disksins, kemur ekki ósjaldan fyrir að eitthvað allt annað og með öllu óskylt poppar upp, grípur athyglina heljartökum og vill alls ekki sleppa henni aftur. Eitthvað slíkt og þvílíkt var einmitt að gerast akkúrat núna þegar ég rakst á nokkrar myndir úr fullnaðarprófsferðinni sem farin var um vorið 1968.
Sérlegir gæslumenn krakkaskarans voru þeir Hlöðver skólastjóri og Benni kennari. Þessir miklu heiðursmenn og lærifeður sem við krakkarnir mátum því meira sem árunum fjölgaði, við þroskuðumst og lengra leið á lífsins braut.
Barnaskólagöngunni var nú lokið og næsta haust myndum við setjast að í sjálfum Gagganum uppi á Hlíðarvegi. En þetta var mikið ferðalag á þess tíma mælikvarða og einn af þeim fjölmörgu stöðum sem árgangur 1955 heimsótti meðan á því stóð var Húsafell þar sem myndirnar hér að neðan voru teknar.
En þar eru þeir Fullsterkur 154 kg, Hálfsterkur 100 kg, Hálfdrættingur 54 kg og Amlóði 23 kg sem svo margir hafa reynt sig við.
Það mun vera Hálfdrættingur sem Guðni Sveins hefur hér á loft við mikinn fögnuð bekkjarfélaganna. Aðrir sem sjá má á myndinni eru Viðar Jóhannsson (bróðir Kristjáns myndlistakennara), Árni Haralds (vörubílsstjóri á Sigló), þann sem þetta ritar (LRÓ) og svo er sýnileg svolítil rönd af Friðriki Má Ásgrímssyni (Frigga Guggu friðargæsluliða).
Það mun hafa verið Magga Steingríms sem tók myndina.
Ég hefði líklega seint fengist til að yfirgefa staðinn öðruvísi en að a.m.k. jafna afrek Guðna. Það reyndist ekki mjög erfitt, enda var ég á þessum tíma heldur meiri að vexti en jafnaldrar mínir, þó þeir næðu mér og sumir gott betur á árunum sem á eftir komu. Auðvitað reyndum við báðir við Hálfsterk sem við gátum auðveldlega reist upp á rönd en ekkert umfram það, og svo Fullsterk sem við fengum alls ekki bifað hvað sem við reyndum. Það mun vera Ingi Hauks rafvirki sem er lengst til vinstri á myndinni, en get ekki með nokkru móti áttað mig á hver sæta stelpan er fyrir aftan okkur. Þessi mynd mun vera úr safni Gunnólu bekkjarsystur minnar í Sparisjóðnum sem væntanlega mun hafa tekið hana.
09.12.2009 21:47
Óborganlegur Pétur Geira.
598. Hann er ekki lítið stoltur ökumaðurinn sem er sennilega nýlega kominn með bílprófið þegar þessi mynd er tekin, - og á engri smá drossíu.
Er nokkuð hægt að toppa þetta?
Fyrir u.þ.b. þremur árum hitti ég Palla Fanndal á götu á Siglufirði. Hann sagði mér að hann hefði undir höndum nokkrar gamlar myndir af mér og fleiri góðum drengjum í fjallgöngu, en þeim vildi gjarnan koma til mín við fyrstu hentugleika. Nokkur tími leið þó án þess að neitt gerðist og það var ekki fyrr en s.l. vetur að ég gerði mér ferð til Keflavíkur í þeim tilgangi að líta við hjá sveitunga mínum og kíkja á umræddar myndir. Það var haldin heilmikil slides sýning þar suður frá og eftir skemmtilegt kvöld þar sem mikið var spjallað, ók ég aftur í Hafnarfjörðinn með hvorki meira né minna en 80 myndir til afritunar. Bæði fjallgöngumyndirnar sem talað hafði verið um, en einnig talsvert af öðrum ekki síður skemmtilegum skotum. En þar sem um var að ræða slides myndir kom upp vandamál sem þurfti að leysa, því skanninn
Þessi frábæra mynd hér að ofan er úr safni Gests Fanndal.
07.12.2009 04:24
Er önnur stjórnarkreppa framundan?
597. Eftir að hafa horft á fréttir í kvöld og síðan endurtekið Silfur Egils, setti ég mig mig í spor hins djúphugsandi manns sem veltir fyrir sér mögulegum framtíðarfléttum á hinu pólitíska leiksviði þjóðmálanna. Sá tími er liðinn að hanastél og kristalsglös voru hátt á lofti jafnt hvunndags sem rúmhelga daga og ríkisstjórnin haltrar áfram á sínum tveimur vinstri fótum og glímir við ramman fortíðardraug.
Mikil undirskrifarsöfnun hefur farið fram á netinu þar sem skorað er á Ólaf Ragnar Grímsson að staðfesta ekki Icesave-lögin hin síðari og leggja ekki sitt af mörkum til að leysa vandamál vandamálanna, heldur búa frekar til mörg ný.
Mín skoðun er sú að Bessastaðabóndinn muni engu að síður setja nafn sitt við þau hvað sem skrafað er í netheimum. En ekki er þó ólíklegt að hann sjái ástæðu til að gefa út einhverja yfirlýsingu þar sem hann skýrir gerðir sínar og leiðréttir "rangan misskilning" þeirra sem hafa afsalað sér dómgreindinni og farið skoðanavillt.
Því geri hann það ekki má spyrja sig hvort stjórninni sé sætt og síðan má aftur spyrja sig að því hver tæki þá við, sem við núverandi aðstæður getur tæplega talist mjög eftirsóknarvert. Vill þjóðin virkilega koma þeim flokk aftur til valda sem lagði hornsteininn að hruninu mikla, þó svo að þau mistök hafi vafalaust ekki verið gerð af yfirlögðu ráði heldur aðeins farið illa með frelsið. Og hverjir myndu þá vilja spila með sem aukaleikarar, "vitandi" að í næstu kosningum yfðu fátt annað en pólitísk helför og "drög að sjálfsmorði". Og ef einhverjir "baldnir" VG-liðar ganga úr skaftinu þegar gengið verður til kosninga á Alþingi um sama frumvarp og fella það, geta þá afleiðingarnar ekki orðið hinar sömu? Líklega vantar okkur síst af öllu aðra stjórnarkreppu á árinu eða væri kannski réttara að kalla slíkt hinn óleysanlega og endanlega kreppurembihnút ef til kæmi? Ætti þetta einstaka mál ekki að vera yfir allar flokkslínur og þingsalakarp hafið, eða ætla þeir sem þjóðin treystir fyrir fjöreggi sínu að kjafta frá sér allt vit þangað til það hefur umbreyst í fúlegg vegna vanrækslu og senda okkur með tímavél Gordons Brown, AGS og fleiri illa þefjandi drauga aftur til grárrar fortíðar?
02.12.2009 02:07
Hljómsveitin Kaskó
596. Í fyrrakvöld fékk ég myndina hér að ofan senda frá ekki færri en þremur aðilum ásamt spurningu um hverjir þetta gætu verið og hvar þetta væri hugsanlega tekið. Pósturinn var m.a. ættaður frá Bjarna Degi útvarpsmanni og Króksara, en frá Rúnari Jónssyni sem ég veit ekki hver er á undan honum.
Sá sagðist hafa fengið hana frá Erlingi múrara (syni Mansa) sem byggi á Sauðárkróki og velti fyrir sé hvort hún gæti verið tekin í Haganesvík fyrst hún væri greinilega ekki tekin á Króknum.
Flestir sem þekkja eitthvað til á utanverðum Tröllaskaga vita að það gengur ekki upp, en eftir að hafa rýnt í hana og velt vöngum, fannst mér líkindi til að hún gæti verið að austan og þá helst frá Fáskrúðsfirði. Það kom líka á daginn því ég áframsendi póstinn til Þóru Bjarkar sem býr á Stöðvarfirði og það stóð ekki á svari.
Þessi mynd er tekin á Fáskrúðsfirði á sjómannadaginn 1966 og þetta er hljómsveitin Kaskó.
Frá vinstri eru: Hafþór Eide (sjómaður), Ómar Bjarnþórsson (skólastóri á Breiðdasvík), Stefán Garðarsson (f.v. sveitarstjóri í Þorlákshöfn) og Agnar Eide (býr held ég í Svíþjóð).
Enginn þeirra hélt áfram í tónlist eftir að þeir urðu fullorðnir.
Erlingur er sonur Jóhannesar múrara á Króknum sem bjó á Fáskrúðsfirði ásamt fjölskyldu sinni um tíma, en konan hans er þaðan. Erlingur bjó því fyrir austan um tíma ásamt foreldrum sínum, en þau fluttu fluttu aftur á Sauðárkrók 1970.
Þess má til gamans geta að Þóra Björk er bróðurdóttir Þórarins Vilbergssonar á Siglufirði sem er Stöðfirðingur að uppruna, en fór ungur að læra smíðar á Siglufirði og ílentist þar.
Birgir Ingimarsson fékk eftirfarandi upplýsingar frá Maríu Óskarsdóttir eftir að ég sagði honum frá þeim grunsemdum mínum hvaðan myndin væri ættuð.
Já, það held ég nú. Þessi mynd er tekin á sjómannadaginn að ég held 1965 neðan við hafnavigtarskúrinn á Fáskrúðsfirði, húsið Hraun í baksýn og félagsheimilið Skrúður þar fyrir ofan. Sjáið snjóinn í hlíðunum í byrjun júní !!!.
Á myndinni eru : Hafþór Eide Hansson - yfirhafnarvörður hjá Fjarðabyggðarhöfnum, Ómar Bjarnþórsson - Skólastjóri Grunnskóla Breiðdælinga , Stefán Garðarsson - markaðsráðgjafi og Agnar Eide Hansson- búsettur í Svíþjóð að ég held. Ekki man ég hvað bandið hét, en hef eflaust heyrt það einhvern tíman.
Myndin er úr safni feðganna Jóhannesar Jósepssonar (Jóhannes múrari kallaður á meðan hann bjó á Fásk.) og Erlings Jóhannessonar.
Það er gaman að þessu og svona virkar netið.
- 1