Færslur: 2010 Nóvember

30.11.2010 01:47

Engilsaxnesk kvikmyndanöfn upp á Frónsku


Kvikmyndasýning í Nýja Bíó - Steingrímur Kristinsson / Ljósmyndasafn Siglufjarðar

678. Það gerðist margt skrýtið árið 2007
og eitt af því skrýtnara (að mér finnst) var þegar Þorgerður þáverandi menntamálaráðherra mæltist til þess að nöfn kvikmynda væru íslenskuð. Ég man vel eftir viðtalinu við hana þegar hún lét þessa skoðun sína í ljós og ég er enn að velta því fyrir mér hvort hún hafi ekki borðað eitthvað sem var komið langt yfir síðasta söludag um morguninn.

 

Guðbrandur Örn Arnarson, markaðsstjóri Háskólabíós tók undir skoðun ráðherra og sagði hana eiga fyllilega rétt á sér. Það gerði líka einhver málnefnd sem taldi málið mögulega heyra undir sig.

En enginn spurði neytendur og því síður kvikmyndaáhugamenn.

 

Einhver sem kallar sig "Orkamjas" fullyrðir að eftirtaldar myndir hafi verið sýndar á RUV.

Ástarstjarna yfir Hraundranga.
Skýla næturský.
Hlekki brýt ég hugar.
Og heilum mér.
Fleygi faðm þinn í.

Ég geri ekki ráð fyrir að allir viti svona fyrirfram hvað er verið að bjóða upp á á skjánum ef þessir titlar eru kynntir til sögunnar.

 

Mörg okkar hafa líklega séð stórmyndirna "Svívirðileg skítseyði" með Prad Pitt og alveg heilum her af öðrum stórleikurum. Ef einhver skyldi ekki alveg vera með þetta á hreinu þá var hún sýnd á haustmánuðum 2009 og vann meira að segja Óskarinn (þýðum hann líka). En einhver er ennþá að klóra sér í kollinum þá má geta þess að hún hét líka Inglourious Basterds ef það skyldi hjálpa til.

 

Ég rakst svo á eftirfarandi upptalningu einnig á vefnum hugi.is

Cold Mountain = Kaldbakur

Trainspotting = Trufluð tilvera
Animal House = Delta klíkan
Turk 182 = Illa farið með góðan dreng
Eyes wide shut = Haltu mér, slepptu mér

Lethal Weapon = Tveir á toppnum.

Dr. Strangelove = Doktor Spesást.

Clockwork orange = Appelsínuklukka

Ég efast þó um að nokkrum sé full alvara með þessum tveim síðustu því á IMD (the internet movie database) er Dr. Strangelove nefnd "Eða hvernig ég hætti að hafa áhyggjur og elskaði sprengjur" og Clockwork orange heitir þar "Gangverk Glóaldins."

 

Á lista IMD yfir topp 250 er að finna hina frábæru "All Quiet on the Western Front" og hún heitir þar "Allt rólegt á vesturvígstöðvunum." Það þykja mér svolítið óvönduð vinnubrögð því eins konar hefð er fyrir öðru. á sínum tíma hét þessi kvikmynd "Tíðindalaust á vesturvígstöðunum" sem er eiginlega miklu flottara. Það er eins og úr verði "mildara högg" að rekast á þekkt nöfn engilsaxneskra kvikmynda sem hafa verið íslenskuð ef það hefur verið gert strax þegar viðkomandi kvikmynd var sýnd í bíó. En að sjá gömul og gróin nöfn íslenskuð er vægast sagt fáránlegt. Reyndar finnst mér að það eigi að láta svona tilraunir eiga sig sem og aðrar líkar eða skyldar. Ég man t.d. hvað snillingurinn Gerhard Smidth hló mikið þegar hann tjáði viðstöddum að hann væri kominn með íslenskan ríkisborgararétt og héti því Geirharður Valtýsson.

En hér eru nokkur dæmi af IMD.
The Philadelphia Story = Vel Séð og Heyrt
Full Metal Jacket = Skothylki

Raging Bull = Brjálað naut
Reservoir Dogs = Varahundarnir

Alien = Geimvera

Léon = Sérfræðingurinn

Apocalypse Now = Heimsendir núna

The Empire Strikes Back = Veldið snýr aftur

Vertigo = Lofthræðsla

The shining = Sýnir
Double Indemnity = Tvöföld trigging

Fa yeung nin wa =  Haukur Rósinkranz

Casablanca = Kópasker

Matrix = Á feigu flagði

Og ef einhver vill kynna sér málin af eigin raun er slóðin http://www.imdb.com/chart/top

 

Svo má ég líka til með að láta eftirfarandi kynningu á kvikmyndinni "101 Reykjavík" fylgja þessum pistli svona upp á grínið, en ég man því miður ekki hvar ég rakst á hana...

"Young Hylnur hefur fallið í ást með nýja spænska Boarder sem hefur bara leigja herbergi á heimili hans. And so has his mother. Og svo hefur móðir hans. Life in cold Reykjavik, Iceland is heated up in this debut dark comedy that gives new meaning to "keeping it in the family". Líf í köldu Reykjavík, Ísland er hituð upp í þessari frumraun dimma gamanleikur sem gefur nýja merkingu að "halda því í fjölskyldunni". Writer/director Baltasar Kormakur delivers "a funny, touching, off-the-wall relationer that's one of the freshest helming debuts in world cinema this year" (Derek Elley, Variety). Writer / leikstjóri Baltasar Kormákur skilar "fyndið, snerta, off-the-vegg relationer sem er eitt af ferskasta helming frumraun í bíó heiminum á þessu ári"

23.11.2010 06:23

Gamli tíminn varðveittur

677. Þegar ég heyrði fyrst talað um manninn sem fór um bryggjur og plön, skúra og skemmur og safnaði áhöldum og ílátum, stömpum og bjóðum, var ég að vinna í frystihúsi S.R. við Vetrarbraut. Karlarnir töluðu mikið um hann í kaffitímunum, sitt sýndist hverjum um háttarlag hans og sumum fannst jafnvel að hann gæti tæpast verið með réttu ráði. Að safna gömlu ónýtu drasli og koma fyrir í geymslu fannst þeim alveg fráleitt. Það var þeim flestum um megn að skilja að nokkur skyldi vilja halda upp á þetta dót því síldin kæmi líklegast ekkert aftur í bráð og ef hún kæmi þá nokkurn tíma. Betra og skynsamlegra væri að koma sér upp nýju í fyllingu tímans, en afgömlu og úr sér gengnu. Að hafa fyrir því að tína saman og geyma þetta kannski í mörg ár eða hver veit hvað, það væri nú meiri vitleysan því öllu yrði á endanum hent aftur. Þetta er nú meiri rugludallurinn sögðu karlarnir í kaffistofunni og tóku bakföll og slógu sér á lær. Svo var gert stólpagrín að Frosta þjóðháttarfræðing en svona var nú hugsunin þegar var farið að síga á áttunda áratuginn.

 

Þegar ég svo rakst á greinina sem er hér að neðan, rifjaðist margt upp og nostalgíufiðringurinn skreið upp eftir hryggsúlunni meðan ég las hana yfir. Svo datt mér í hug að fleiri gætu kannski haft gaman af og tók því til við að kopi/peista og laga til af miklum móð. En það sem mönnum fannst svo illskiljanlegt á árum áður, er nú talið hafa verið mikið þjóðþrifamál. Þarna var bjargað frá glötun mörgum merkisgripnum og um leið lagður grunnur að því sem við þekkjum í dag sem Síldarminjasafnið, stolt okkar Siglfirðinga.

 

Þökk sé Frosta F. Jóhannssyni fyrir hans framlag til málstaðarins.


22.11.2010 22:43

Vinur minn Lilli Au


Lilli með kökurnar úr afmælinu.

 

676. Það er fyrir langa, langa löngu síðan kominn tími til að tileinka honum Lilla Au einum alveg heila færslu sem er bara um hann og auðvitað látum við líka mynd fylgja. Hann Lilli Au kommentaði á síðustu færslu og mér sýnist hann vera orðinn pínulítið óþolinmóður, en ég skil hann vel. Það eru víst komnir þó nokkuð margir dagar síðan við fórum að tala um þetta, en hann Lilli er nágranni minn og við hittumst oft og spjöllum mikið saman. Ég var búinn að lofa honum því að segja frá því þegar hann fékk afmæliskökuna senda úr afmælinu sem hann fór ekki í af því hann er svolítið feiminn. Samt var búið að bjóða honum og hann var meira að segja búinn að útbúa pakka með korti og bandi og slaufu og allt. Það er ábyggilega allt í lagi núna að segja hvað var í pakkanum af því að hann er löngu kominn til afmælisbarnsins. Hann fór nebblega þangað um leið og kökudisknum var skilað þegar Lilli var búinn að klára af honum. Lilli hefur alltaf verið duglegur að borða og hann var mjög fljótur að klára allar kökurnar. Hann meira að segja sleikti diskinn á eftir svo hann var alveg tandurhreinn og það hefði ekkert endilega þurft að vaska hann upp. En í pakkanum var svakalega flott litabók þar sem Lilli var búinn að lita allar myndirnar sjálfur alveg rosa flott og kortið var með mynd af honum sjálfum svo það væri hægt að sjá hver gaf pakkann.

Gott hjá þér Lilli minn, þú ert rosa klár strákur.

21.11.2010 15:40

Spjallað við burtflutta675. Sennilega eru flestir
þeirra sem rekast hingað inn einnig tíðir gestir á siglo.is og hafa annað hvort gluggað í eða þá vita af pistlum okkar Birgis Ingimarssonar, þar sem við spjöllum við burtflutta Siglfirðinga. En þeim sem ekki falla að einhverjum ástæðum inn í þann hóp, langar mig að benda á að ofarlega hægra megin á þeirri ágætu síðu er gluggi sem hægt er að smella á og birtast þá þau viðtöl sem þegar hafa verið tekin.

 

Um þetta áhugamál okkar félaganna er það annars að segja, að það er búið að vera hreint ótrúlega skemmtilegt að vinna að þeim og hver einasti viðmælandi hefur hingað til komið okkur rækilega á óvart á einhvern hátt. Það liggur nú nokkurn vegin fyrir hvað frá okkur mun fara fram að áramótum, en eftir að árinu sleppir tekur við nokkuð langur nafnalisti sem jafnframt er eins konar óskalisti. Það sem hefur þó komið okkur mest á óvart er hvað konur eru miklum mun tregari til að ræða við okkur kumpána en karlar. Af fimm konum sem við höfum óskað eftir að fá að heimsækja hafa aðeins tvær svarað málaleitan okkar játandi ser eru vitanlega mikil vonbrigði, en af fimm körlum voru hins vegar allir til í tuskið og það án mikillar umhugsunar. Það bendir því ýmislegt til þess að einhver slagsíða geti orðið á þeim jafréttispælingum sem við lögðum upp með í byrjun.

Neðst hægra megin á vefnum siglo.is er að finna dálk sem merktur er "Mest lesið" og hafa allir viðmælendur okkar staldrað þar við í toppsætunum í einhvern tíma. Þegar þetta er ritað trónir Siggi Konn á toppnum en þeir Magnús og Jónmundur eru alveg nýlega signir rétt niður fyrir sjónarröndina. Við aðstandendur erum því nokkuð góðir með okkur þessa dagana og kunnum jafnvel ekkert sérlega vel að fela það. Hmmm...

En allar ábendingar um ákjósanlega viðmælendur eru auðvitað mjög vel þegnar...

17.11.2010 00:56

Á sjó...674. Í Þjóðviljanum sunnudaginn 7. júlí árið 1985
rakst ég á skemmtilega upptalningu mannanafna og viðhengja sem við þau hafa fest. Sá sem hefur safnað þeim saman heitir Bjarki Bjarnason og hann nefnir grein sína "Dagbók af sjó".

Eftir að hafa rennt lauslega yfir hana sá ég að þarna væri nokkuð sem full ástæða væri að kópí/peista, því í nafnaflórunni er m.a. að finna þekkt nöfn nokkurra Siglfirðinga. Greinin fer hér á eftir.

 

"Ekki hef ég fundið viðhlítandi skýringu á því hvers vegna fornmenn höfðu svo mikið dálæti á því að gefa hver öðrum viðurnefni af ýmsum toga. En ef marka má íslendingasögurnar fékk annar hver maður viðurnefni og eru þau af allskonar rótum runnin. Sum voru lýsingar á útliti manna t.s. Ásmundur hærulangur, Þórólfur bægifótur og Skalla-Grímur. Önnur viðurnefni áttu rætur sínar að rekja til einhverra staða sem sögupersónan var viðriðin t.a.m. Þorleifur kimbi og Grfmur háleygski. Sum eru stutt og laggóð eins og Haraldur lúfa, Leifur heppni og Þorkell heimski og hver man ekki eftir Jórunni mannvitsbrekku, Ragnari klofbrók og Grýlu skítafýlu. íslenskir sjómenn og þeir kræsar sem þeir umgangast virðast mér hafa tekið upp þann kostulega sið fornmanna að gefa hver öðrum auknefni. Het ég gert mér til gamans að taka saman viðurnefni íslenskra sjómanna og annarra. Þeir sem þykjast þekkja sjálfan sig eða aðra á þessum lista geta verið vissir í sinni trú, það eru örugglega þeir sjálfir eða aðrir.

 

Einar klobbi, Bjarni snæðingur, Stjáni stóns, Geiri biskup, Siggi Sjaplín, Diddi prestur, Gvendur þrettándi, Jón kýrtussa, Árni dingaling, Valdi vettlingur, Helgi fleygur, Kobbi leiðinlegi, Jobbi skítugi, Kobbi klaki, Árni Múli, Siggi sunnanvindur, Ingi love, Valur Patró, Valdi Akranes, Ingi dubonnet, Lindi riffill, Gvendur terta, Magnús vítamin, Óli gormur, Alli svarti, Björn bóndi, Einsi stingur, Einsi klink, Stjáni rolla, Stjáni bolti, Lási kokkur, Jón káboj, Lalli söngur, Stebbi bola, Sigurður stríðskyndari, Stjáni slinkur, Nonni píka, Siggi sjarmör, Kalli sputnik, Kalli Hofsós, Atli belja, Gvendur hlustarverkur, Eyvi sauðaþjófur, Pétur kippur, Maggi dropi, Gæi prent, Siggi dósent, Diddi slólí, Skúli dauðaleggur, Kjarri kassi, Árni dedmann, Árni bobbingur, Sæmi sleggja, Raggi moli, Gilli kroppur, Simbi sultur, Raggi fiskur, Gvendur skító, Maggi kjaftur, Maggi gullkjaftur, Binni banamaður, Bjarni bakkus, Geiri bankaræningi, Bjarni sænski, Gulli greifi, Óli skuggi, Jói keisari, Siggi sífulli, Sissi frummaður, Sævar rotta, Einar svarti, Valdi sprengikjaftur, Steini beinlausi, Jón píkus, Gvendur lamaði, Addi púta, Valli graði, Goggi halti, Óli rugguhestur, Hannes beggólín, Beggi skans, Óli lati, Eddi póló, Ævar svarti, Bjarni títa, Hemmi froskur, Jóhann páfi, Jói andskoti, Halli staur, Hafsteinn afleggjari, Gústi keila, Siggi Zetor, Bjarni böðull, Baldur putti, Maggi mó, Jón kadett, Geiri frændi, Óli bíladella, Alli vargakjaftur og Skúli holgóma."

14.11.2010 05:02

Selaveisla 2010673. Í gærkvöldi var ég að spila í enn einni selaveislunni
og var hún haldin í Haukahúsinu hérna í Hafnarfirði fimmta árið í röð. Síðustu árin hefur aðsóknin verið á bilinu 200-250 manns og ef mér er ekki farið að förlast því meira, þá er þetta níunda árið í röð sem ég er að spila fyrir þennan frábæra hóp.Svo vel vildi til að Axel Einarsson stórpoppgúrú og gítarleikari var staddur á landinu, ég hóaði í hann og mætti sá góði maður á pallinn fyrir minna en eitt orð.
Það er komið vel á þriðja áratug síðan grunnurinn var lagður að þessum mannfagnaði sem er orðin snar þáttur í félagslífi svokallaðra eyjabænda og afkomenda þeirra úr Breiðafirðinum. Í seinni tíð hefur það svo orðið hluti af hefðinni að halda mannfagnaðinn annan laugardag nóvembermánaðar. Þetta byrjaði allt saman í einhverjum beitningarskúr einhvers staðar fjarri mannabústöðum (líklega vegna lyktamengunarinnar), en hópurinn sem hafði alist upp við og ánetjast selaafurðunum stækkarði ört og þar kom að það þurfti að leigja samkomusal undir herlegheitin. Ekki liðu mörg ár þar til  þurfti að leigja stærri sal og fáum árum síðar enn stærri. Upphaflega voru veisluföngin eingöngu selaafurðir, en miðast nú orðið við það sem fólk í Breiðafjarðareyjum lagði sér til munns "heilt yfir" ef þannig mætti að orði komast. Hráefnið er og hefur ýmist komið upp úr sjónum eða af sjálfum eyjunum, þ.e. selur, fugl og fiskur ýmis konar auk lambakjöts. Skemmtileg viðbót við það sem áður hefur sést á borðum var súshiverkuð langreyður og hvalrengi sem er auðvitað pínulítið forskot á Þorrann. Veislugestir risu líka úr sætum og hrópuðu hátt og snjallt húrra fyrir Kristjáni Loftssyni


Veisluborðið sem var boðið upp á átti þó lítið skylt við réttinn "selspik og siginn fiskur" eins og ég kynntist þó alveg ágætlega í æsku, því hið hlaðna borð hefði bæði getað sómt sér með afbrigðum vel t.d. í Versölum á dögum Loðvíks 14. en einnig fengið og það án nokkurs vafa afar jákvæða gagnrýni á öllum betri veitingastöðum utan lands sem innan í dag.
Það var reyndar enginn aukvisi sem stóð fyrir hinni veglegu uppákomu hins sérstæða en þjóðlega fóðurs sem þarna var boðið upp á. Sá heitir Guðmundur Ragnarsson og er sonur Ragga sem rekið hefur veitingastaðinn Lauga-ás frá upphafi og fyrrverandi landsliðskokkur að auki. Hann hefur verið að elda fyrir ekki ómerkara fólk en Pierce Brosnan, Angeline Jolie, Kenneth Branagh og slíka Íslandsvini meðan þeir hafa staldrað við á skerinu ásamt því að sjá til þess að Latabæjargengið hafi ekki þurft að mæta í tökur með tóman maga. Það er annars alveg hreint ótrúlegt hvernig selurinn, signi fiskurinn, fuglinn og allt hitt getur breyst í ómótstæðilega veislurétti eftir að Gummi hefur farið um þá höndum.
Veislustjóri var svo Níels Árni Lund skrifstofustjóri í landbúnaðar og sjáfarútvegsráðuneytinu, en hann kann alveg hæfilega mikið af tvíræðum limrum og smásögum sem fáir koma betur til skila en hann sjálfur. Honum er ýmislegt til lista lagt og hefur hann m.a. gefið úr dist með gamanvísnasöng auk þess sem hann var að gefa út mikla og góða bók á dögunum. Sú heitir "Af heimaslóðum" og þar er rýnt í samfélagið við Leirhöfn á Melrakkasléttu á arum áður. Ég varð mér auðvitað úti um áritað eintak af bókinni, því ég veit að Níels er fróður, minnugur, hefur upplifað margt og segir mjög skemmtilega frá. Ég treysti mér þess vegna vel til að mæla með bókinni áður en ég hef lesið hana, - hugsiði ykkur.Og svo var dansað...

En P.S. Addi Kitta Gau var á staðnum og ég sá ekki betur en hann fengi sér svolitla ábót, annars sýndist mér hann reyndar hafa "þrengst" oggolítið um miðjuna.

12.11.2010 06:00

Geimgrjót og hornsteinar


(Ljósmynd af visir.is)

672. Nýbygging Háskólans í Reykjavík við Nauthólsvík var að forminu til tekin í gagnið í gær þ. 11. nóv. Bakhjarlar skólans en voru ekki nafngreindir í fréttum gærdagsins, gáfu honum loftstein sem komið verður fyrir í miðrými skólans sem kendur er við sólina. Segja má að húsið sé svolítið "speisað" því þema hússins er jörðin og himingeimurinn og hlutar þess eru til að mynda. nefndir eftir hlutum sólkerfisins svo sem plánetum. En um steininn er það að segja að hann mun vera hluti af geimgrjóti sem féll á jörðina fyrir um 4000 einhvers staðar í suður Ameríku. Efnasamsetningin bendir svo til þess að hann sé kominn úr iðrum plánetu sem hefur sundrast fyrir hugsanlega milljónum ára og síðan ferðast einhverjar aðrar milljónir ára þar til hann lenti á áfangastað.

Ari Kristinn Jónsson sem var eitt sinn starfsmaður Nasa en er nú rektor skólans, fagnaði áfanganum í spjalli bæði á Rás 2 og Bylgjunni í gær. Hann sagði m.a. það það væri miklu frekar við hæfi að fá loftstein en hornstein vegna lögunar miðrýmis hússins, en það er hringlaga bygging.

Á honum mátti einnig skilja að enginn loftsteinn hefði nokkru sinni fallið til jarðar á Íslandi svo vitað væri og því hefði þurft að sækja þann sem um ræðir um langan veg.

 


(Mynd af xenophilius.wordpress.com)

Þessi loftsteinsumræða varð til þess að það rifjaðist upp gamalt mál frá Siglufirði og eftir svolitla leit fannst grein í Tímanum frá Sunnudeginum 26. nóvember 1961.

"Fyrsti loftsteinn féll hér á landi - í viðurvist sjónarvotta

Páll Bergþórsson veðurfræðingur skýrir frá því í nýju hefti af Veðrinu, tímariti um veðurfræði, að árdegis 6. september í haust hafi loftsteinn fallið á Siglufirði, og er

þetta í fyrsta skipti, að loftsteinn eða brot úr loftsteini finnst hérlendis. Steinninn er

tveir sentimetrar, eða rúmlega það á þann veginn, sem hann er stærstur. Það er i frásögur færandi, að bifreiðarstjóri á Siglufirði, Jón Þorsteinsson, varð sjónarvottur að því, er steinninn kom til jarðar. Jón fór þegar með steininn í lögreglustöðina á Siglufirði. Sagðist honum svo frá, að hann hefði komið auga á blys á lofti í suðvestri. Nálgaðist það, óðfluga, og fylgdi hann því eftir með augunum. Virtist honum það ætla að fljúga beint á bílinn. En þó fór betur en á horfðist, því að það skall á járngjörð á síldartunnu, rétt hjá honum. Jón sá þegar, að þetta myndi vera loftsteinn, og duldist honum ekki, að hann hafði orðið hér vitni að harla sjaldgæfum atburði. Steinninn flattist út, er hann lenti á járngjörðinni, og ber hann greinileg merki eftir höggið. Dálítið af ryðkornum úr gjörðinni hefur einnig runnið saman við bráðinn steininn. Steinninn hefur ekki verið efnagreindur enn."

 

Við Jón unnum saman um tíma í frystihúsi SR. við Vetrarbraut og einhverju sinni barst talið í kaffistofunni að loftsteininum. Hann sagðist ekkert vita af afdrifum hans og varla hafa verið þakkað fyrir að skila honum af sér á sínum tíma. Hann lýsti komu hans til jarðar þannig að fyrst hefði hann séð eitthvað sem líktist blysi með rauðbláum hala fara hratt yfir himininn. Honum hefði ekkert litist á blikuna því það hefði stefnt á sig, en þetta hefði allt gerst svo hrann að það var enginn tími til að hugsa til þess að forða sér. Hann hefði síðan smollið á jörðinni rétt við bílinn og verið á stærð við hálfan eldspýtustokk eða tæplega það.

 

Ég velti fyrir mér hvað hann er niður kominn í dag...

11.11.2010 00:00

Meira um Gest Fanndal

671. Ég nefndi hér að neðan (blogg frá 7. nóv.) að Gestur Fanndal kaupmaður hefði verið umboðsmaður flugfélagsins Vængja meðan það hélt uppi ferðum til Siglufjarðar. Daginn eftir rakst ég á stutt spjall við Gest sem birtist í Mogganum þ. 1. okt. 1967.

Ég rakst líka á skemmtilega grein eftir Jón Sæmund Sigurjónsson þar sem Gestur kemur lítillega við sögu og fer hér á eftir sá kafli hennar sem fjallar um fjölda matvörubúða á Siglufirði á árum áður.

"Matvörubúðir voru all margar eins og hæfði stórum bæ. Ekki fann ég fyrir verslun Gests Fanndal þótt ég gengi niður Suðurgötuna í þá daga. Í húsi hans á Suðurgötu 6 var þá rakarastofa Jónasar, en mér þótti lengi vel skrýtið að Gestur ætlaði að hafa búð í rakarastofunni þegar að því kom. Gestur var með sína matvörubúð í Aðalgötu 20, útibú úti í Bakka eins og áður sagði, og vefnaðarvörudeild hinum megin á horninu í Aðalgötu 15, en uppi bjó Addi Þuru vinur minn með sína fjölskyldu. Þegar Gestur flutti með verslanir sína í Suðurgötu 6, tók Sófus Árnason og Sigurður sonur hans við húsnæðinu í Aðalgötu 20 og ráku þar Litlu búðina, en glæsilegur jólabasar þeirra líður seint úr minni. Í mörg ár rak Jóhann Stefánsson, sem eiginlega var þekktari sem Jói dívana, Eyrarbúðina þar við hliðina og seldi sápusælgætið fræga, en þar hafði Verslunarfélagið verið áður til húsa undir forystu Ásgeirs Jónassonar. Seinna rak Ásgeir samnefnda verslun í Aðalgötu 14. Umfangsmestu matvöruverslunina rak sennilega kaupfélagið að Aðalgötu 32, þar sem Haraldur frændi minn Árnason og Fanna á Eyri voru fremst í flokki í mínum huga. Verslunarfélagið við Túngötu 3 með þá bræður Þórhall og Ásgeir Björnssyni að ógleymdum sjálfum Jónasi Ásgeirssyni var mjög umfangsmikið, en einnig var þó nokkur verslun hjá Pétri Björnssyni, sem hafði sína matvörubúð eiginlega á annarri hæð við Aðalgötu 25, á horni Grundargötu beint á móti Aðalbúðinni, en þar hitti maður ljúfmennin Helga í Lindarbrekku og Ragga sendil fyrir. Elstu búðirnar, sem ég man eftir á þessu sviði voru Verslun Sveins Hjartar, þar sem Hannes Guðmundsson réði ríkjum, en hún var við Aðalgötu 7, þar sem seinna var áhaldadeild Kaupfélags Siglfirðinga, verslun Halldórs Jónassonar í Aðalgötu 3 og svo verslunin Frón í Vetrarbraut hjá Dóra, en hjá Dóra í Frón stofnuðu tveir ævintýramenn fornsölu, sem þeir ráku í nokkur sumur. Verslunin Hamborg var neðst í Aðalgötu 1, en hún verslaði með fleira en matvöru."10.11.2010 03:03

Jólin eru að koma til Hafnarfjarðar670. Ég átti leið um miðbæ Hafnarfjarðar í dag og sá þá að á miðju hringtorginu fyrir framan A. Hansen var verið að koma fyrir myndarlegu jólatré. Það fer því ekkert á milli mála að það styttist óðum í hátíð ljóss og kaupmanna. Ég áttaði mig á að ekki eru nema sex vikur til jóla svo líklega er óvitlaust að fara að huga að einhverjum undirbúningi.

09.11.2010 11:44

Andri Freyr og þágufallssýkin


Andri Freyr - ljósmynd af heimasíðu Besta flokksins.

 

669. Þau Andri Freyr Viðarsson og Guðrún Dís Emilsdóttir hafa umsjón með þættinum "Virkir morgnar" á RUV. Það verður að segjast að þau eru bæði bráðhress og þrælskemmtileg. Þau fara ekki alltaf alveg ótroðnar slóðir og eru síður en svo föst í einhverju gömlu fari sem aðrir hafa dýpkvað í gegn um áranna rás.

En Andri er haldinn svokallaðri þágufallssýki og veit reyndar vel af því sjálfur. þriðjudaginn 2. nóv. kom svo umrædd sýki til tals hjá útvarpsparinu og Andri

 

Andri sagði frá því að áður en þátturinn byrjaði hafi hann fengi sms sem í stóð: "Þú átt að segja spáðu í það en ekki spáðu í því. Reyndu að troða því inn í heimska hausinn á þér." Viðbrögð Andra voru að lýsa því yfir að hann hefði hér með ákveðið að segja aldrei neitt annað en spáðu í því, það væri bara hans stíll og hann ætlaði að halda sig við það hvað sem hver segði. Hann sagðist ætla að taka eins konar "Laxnes" á þetta og ef hann (Laxnes) hefði mátt skrifa eins og vitleysingur, hlyti hann að meiga segja spáðu í því. "Þarf maður nóbelinn til að geta staðið í þessu" bætti hann svo við.


Ásgrímur - ljósmynd af visir.is

 

Ásgrímur Angantýsson málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins lætur væntanlega vera að kalla Freysa inn á teppið út af svona smálegum málum enda talinn vera mjög umburðarlyndur maður fremur en bókstafstrúar þegar málfar er annars vegar.

Að hans mati virðist málumvöndunarstefna bera vott um staðnaðan hugsunarhátt og vinna gegn lifandi þróun íslenskunnar.

 

Sú skoðun hans er auðvitað góð aðferð til að geta haft það náðugt í vinnunni.

07.11.2010 08:14

Nokkrir sérvaldir suðurbæingar

668. Fyrir nokkrum mánuðum sagði ég frá því að Palli Fanndal lét mér í té nokkurt magn mynda sem hann átti í fórum sínum og afi hans Gestur hafði tekið. Ég gerði mér á sínum tíma svolítinn mat úr þessum fína myndapakka hér á síðunni, en síðan hefur hann legið í eins konar dvala í möppu sinni. Núna var ég svo aftur að kíkja á hana (möppuna) og fann þá hjá mér ríka þörf fyrir að flagga nokkrum verulega skemmtilegum skotum. Einhverra hluta vegna virðist Gestur hafa frekar myndað suðurbæinga en þá sem norðar bjuggu. En þegar málið er hugsað svolítið dýpra, eru e.t.v. á því mjög svo eðlilegar skýringar. Ég geri t.d. ekki ráð fyrir að hann hafði verið jafn smeykur að þurfa að eiga leið um villimannahverfið og ég var, eða að einhver undarleg "þjóðernishyggja" hafi stjórnað vali hans á myndefni. Gestur fór auðvitað í gegn um suðurbæinn flesta daga og stundum oft á dag á leið sinni til flugvallarins, því hann var eins og margir vita umboðsmaður flugfélagsins Vængja og síðar Arnarflugs.

 

Hér að neðan eru myndir af nokkrum "sérvöldum" suðurbæingum, en að vísu fær einn norðurbæingur að fljóta með, líklega helst vegna þess að hann bjó svo örskammt norðan "landamæranna."Nonni Baddi og Gummi Ragnars.


Gunni Binnu og Doddi Gerðu.


Bjössi Sveins, sá sem þetta ritar og Gústi Dan.


Dísa Þórðar, Sibbi Jóhanns og Sigríður þórdís Júlíiusdóttir.


Ásbjörn Blöndal, Bjössi Hannesar og Palli Kristjáns.


Guðni Sveins.


Rabbi Erlends.


Ásmundur Jóns.


Ella Hilmars.


Pétur Geira (sennilega nýlega kominn með bílprófið).

04.11.2010 05:08

siglfirdingafelagid.is667. Ég kom við í ísbúðinni í Garðabæ í gær
og fékk mér ís í brauði með lúxusdýfu. Þetta var alveg splunkuný tegund, reyndar svo ný að þetta var fyrsti dagurinn sem hún var í sölu. Við erum að tala um bláan hindberjaís úr vél og þar höfum við það. (Blúæs)
En til að fyrirbyggja hugsanlegan misskilning, þá hefur málið ekkert með Geir Ólafsson að gera. Ef svo hefði verið, þá hefði ég líklega frekar fengið mér karamelluís eða bananaís (einnig úr vél) en örugglega líka með lúxusdúfu.

 

En þetta með ísinn er svolítill útúrdúr því það var eiginlega allt annað sem mig langaði að minnast lítillega á.
Ég hef stundum kíkt inn á vef Siglfirðingafélagsins til að aðgæta hvort þar beri ekki hugsanlega eitthvað fyrir augu sem ekki var þar síðast þegar ég gáði, og auðvitað alveg sérstaklega þegar eitthverra viðburða hefur verið von.


Til vefsins var stofnað 27. okt. 2009 og í opnunarfærslunni mátti m.a. lesa eftirfarandi:


"Stjórn Siglfirðingfélagsins vonast til að sem flestir Siglfirðingar finni eitthvað við sitt hæfi enda annað ekki við hæfi vegna þess að efni síðunnar verður eingöngu um Siglufjörð, með Siglfirðingum í öllum aðalhlutverkum, í lit og cinemascope. Hér verða gömul fréttablöð Siglfirðingafélagsins aðgengileg á tölvutæku formi. Hér verða myndir af uppákomum félagsins sem ekki komust á síður Fréttablaðsins og hér ætlum við að gera Siglfirskum listamönnum hátt undir höfði. En fyrst og fremst þurfum  við að hjálpast að við að gera þessa heimasíðu Siglfirðingafélagsins að vettvangi fyrir það sem okkur þykir ávallt vænst um: Samskipti við aðra Siglfirðinga."

 

Næsta færsla er frá 23. febrúar 2010 og má ennþá lesa titilinn "Málverk Sigurjóns," en færslan sjálf er horfin.

19. mars er auglýst myndakvöld í samvinnu við Ljósmyndasafn Siglufjarðar í Kornhlöðunni. Daginn eftir þann 20. mars er svo skerpt á sama atburði.

Engu hefur verið bætt við eftir það, þrátt fyrir að út hafi komið tvö fréttabréf á vegum félagsins síðan, samkomur tengdar Siglufirði haldnar svo og núna síðast sjálfur aðalfundurinn.

 

Samt er tæplega mjög sanngjarnt að gagnrýna þá sem lengi hafa unnið mikið og óeigingjarnt starf fyrir félagið. En ég myndi engu að síður vilja benda því góða fólki á að í stað þess að ætla sér meira en hægt er að komast yfir með góðu móti, hlýtur lausnin að vera fólgin í því að kalla einfaldlega fleiri til verka. Ég er nefnilega alveg sannfærður um að það er mikið af óbeislaðri og vannýttri orku að finna í þessu ágæta félagi. Nú hefur ný stjórn verið kosin og ég vil óska Rakel Björns til hamingju með nýja embættið. En þar sem ég komst ekki á aðalfundinn þrátt fyrir góðan vilja og einlægan ásetning, var ég einmitt að aðgæta umræddan vef enn og aftur ef ske kynni að þar væri einhvern fróðleik að finna um hann.

Útkoman varð því miður eins og svo oft og svo lengi: "Minnum á myndakvöld félagsins 23. mars 2010 í Kornhlöðunni."

03.11.2010 19:26

Siggi Þór og Fiatinn hans


Fiat 600 ásamt stoltum eiganda sínum.

666. Í tilefni af sjötugsafmæli Sigurðar Þór Haraldssonar datt mér í hug að rifja upp nokkurra áratuga gamla sögu sem tengist þeim ágæta manni. Hún gerðist seinni hluta sjöunda áratugsins og Siggi átti þá heima á Hávegi 7, eða nánar tiltekið í húsinu sem Óli Kára býr í núna. Hann var þá ungur maður og tiltölulega nýbyrjaður að búa. Eins og algengt er með ungt fólk sem her að feta sig út í alvöruna, sníður það sér þrengri stakk eftir vesti en síðar gerist yfirleitt, því efnin eru jú undantekningalítið talsvert minni framan af. Þessi formúla átti alla vega við þau Sigga og Mæju hvað bílakostinn snerti, því heimilisbíllinn var af gerðinni Fiat 600.

Fiat 600 og er sennilega einn minnsti bíllinn sem Fiat verksmiðjurnar hafa framleitt og var því uppnefndur Dúkkubíllinn m.a. af  guttunum sem héngu gjarnan úti á kvöldin þarna á brekkunni og fannst þetta ekki mjög mikið tryllitæki.

Það má eiginlega segja að bíllinn hafi orðið fyrir eins konar einelti og það var hreinlega litið niður á hann vegna smæðarinnar. En Siggi komst allra sinna ferða á Dúkkubílnum eftir því sem ég best veit og útgerðin hefur eflaust verið mjög prattísk.

 

En það var ekki alltaf sem krakkarnir á brekkunni létu sér nægja að leika sér í yfir, saltað brauð eða felu og eltingaleikjum. Einu sinni varð ég vitni að því að eldri strákarnir sem voru orðnir eitthvað meiri að burðum, lögðu á ráðin að gera aðsúg að þeim litla þá um kvöldið. Þannig var að Siggi lagði bílnum alltaf niður á Hverfisgötu við norðurenda Aðventistakirkjunnar sem síðar breyttist í bílageymslu og enn síðar bílastæði. Lóðin undir Aðventistakirjunni stóð aðeins hærra en gatan, og það var meðal annars eitt af undirstöðuatriðum væntanlegs samsæris. Það átti að lyfta bílnum í skjóli myrkurs þegar flestir brekkubúar voru sofnaðir, upp á bakkann utan og neðan við kirkjuna þannig að þegar Siggi ætlaði í vinnuna morguninn eftir, þá kæmist hann hvergi því bakkinn var sannarlega allt og hár til að keyra niður af honum. Það sem gerðist svo er frekar óljóst í minningunni, en mig minnir að strákarnir hafi látið verða af þessari fyrirætlan sinni og Siggi hafi gengið til vinnu morguninn ókátur í meira lagi. Mig rekur líka minni til þess að hann hafi komið í morgunkaffinu með flokk manna til að lyfta bílnum niður á götu og að þeim sem frömdu verknaðinn hafi verið blótað í sand og ösku meðan á björgunaraðgerðunum stóð. Ég held að þetta sé sami bíllin og Jóhann Sigurðsson (Jói Bö) eignaðist síðan, en hann málaði hann ljósbláan og ók á honum um götur bæjarins öll mín unglingsár.

02.11.2010 01:36

Pólitík fyrri ára665. Greinarstúfar eins og sá sem er hér að neðan
þættu líklega heldur hæpið fréttaefni í fjölmiðlum í dag. Líklega yrðu þeir flokkaðir sem rætnir og flestir blaðamenn myndu einfaldlega hafna slíku efni. En pólitíkin var mun harðari og það á báða bóga hér á árum eins og þeir sem eru komnir til vits og ára muna áreiðanlega vel. Þá hefði mörgum fundist það sem hér sést í mesta og versta lagi vera eins og eitthvert hvimleitt nudd, nema auðvitað ekki þeim sem nefndir eru til sögunnar.

Þá vitnaði Mjölnir gjarnan í Þjóðviljann og öfugt, Siglfirðingur í Moggann og Vísi, Einherji í Tímann og Neisti í Alþýðublaðið.


01.11.2010 13:16

Síldarball

664. Ég ætlaði auðvitað að vera búinn að minnast á Síldarballið sem var haldið fyrsta vetrardag og það fyrir þó nokkuð mörgum dögum síðan. Það er líklega alveg óhætt að fullyrða að samkoman hafi bæði verið virðuleg og háttvís og farið vel fram í hvívetna. Í matnum var meðaldurinn kannski eilítið hærri en oft má sjá, en lækkaði eitthvað þegar leið á kvöldið. Eitt par sem var í hressara lagi þrátt fyrir að vera komið nokkuð á áttræðisaldurinn, gat ekki setið á sér og hóf dansinn þegar ég var enn að spila yfir matnum. Það er auðvitað tónlist í rólegri kantinum eins og flestir eflaust vita og þau dönsuðu sig upp að sviðinu og gáfu sig á tal við mig.
"Geturðu ekki spilað eitthvað pínulítið fjörugra því okkur finnst svo gaman að dansa" spurði frúin, og hún stakk í framhaldinu upp á annað hvort vals eða tangó.
"Þetta er ágætt eins og þetta er" skaut bóndinn inn í. "Ég er nú orðinn svo slæmur í löppunum."

"Uss, það er ekkert að þér" bætti frúin við, "dansaðu bara" kall.

Hann hló dátt, kinkaði kolli til mín og virtist ekkert vera óvanur svona innskotum kerlu sinnar.

Ég skellti á þau bæði vals og tangó og matargestir fylgdust áhugasamir með danssýningunni. Það var alveg ljóst að þau voru ekki að dansa sína fyrstu dansa saman.

 

Danspar frá dansskóla Heiðars Ástvalds mætti og sýndi nokkra "ballroom" dansa og það fór auðvitað ekkert á milli mála að þau hafa greinilega mjög góðan kennara. Hin ástsæla söngkona Þuríður Sigurðardóttir mætti svo fljótlega eftir að dansinn hófst og sýndi og sannaði rétt einu sinni hvað hún er frábær söngkona sem hefur engu gleymt. En Helgi Björnsson afboðaði sig á síðustu metrunum og flaug til Þýskalands. Það þótti okkur slæmt mál og veltum fyrir okkur hvað við gætum gert til að fylla í skarðið. Það var hins vegar orðið svolítið seint, eða alla vega tókst okkur ekki að finna neitt stórnúmer sem var á lausu svo fyrirvaralítið. En það sem kom þó "ánægjulega" á óvart ef þannig mætti að orði komast, var að einskis var spurt líkt og hans væri bara alls ekki saknað.
 

Það er alltaf gaman fyrir þá sem á pallinum standa þegar almenn þáttaka er í dansinum og þannig var það þetta kvöld. Þegar á leið voru því sem næst allir stólar í salnum ósetnir en parketið á dansgólfinu þess meira notað. Heiðar Ástvalds var eins og gefur að skilja mjög umsetinn og til gamans má geta þess að til mín kom kona og bað um óskalag sem ætti að koma þegar röðin kæmi að henni. Ég átti auðvitað að fylgjast vel með og vera klár með lagið á hárréttu augnabliki.

Og svo látum við auðvitað nokkrar myndir fylgja frá kvöldinu.  • 1

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 21
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 514
Gestir í gær: 79
Samtals flettingar: 372319
Samtals gestir: 41092
Tölur uppfærðar: 22.6.2024 01:01:16
clockhere

Tenglar

Eldra efni