19.07.2008 04:52

Miðaldamenn, Erla & Kristín.


(Miðaldamenn 1980. - Ljósmynd Steingrímur.)

485. Á dögunum veitti ég því alveg sérstaka athygli þegar ég tæmdi póstkassann að þar var umslag sem var handskrifað utan á og með frímerki upp á gamla mátann, en  ekki nein vélstipluð leiðindi frá einhverjum bankanum, skattinum eða Sýsla. Ég varð auðvitað forvitinn og viti menn, þetta var vissulega skemmtilega sortin. Upp úr umslaginu komu nokkrar ljósmyndir ásamt gulum miða sem á stóð...

Sæll Leó.
Hér koma loksins myndirnar, held að ég eigi einhvers staðar fleiri, en þær koma þá seinna.
Kær kveðja... - Stína Bjarna.

Þetta var góð sending því þarna voru nokkrar myndir frá árinu 1980 þegar ég, Biggi og Sturlaugur fengum til liðs við okkur eðalvinkonurnar Erlu Guðfinns og Stínu Bjarna í Miðaldamenn þess tíma. Þriggja manna hljómsveit plús tvær söngkonur var eitthvað sem var allt öðruvísi en það sem aðrir voru að gera. Upphaflega stóð til að Bjössi Sveins yrði líka í söngvarahópnum, en hann guggnaði því miður á síðustu metrunum. En fyrst og fremst var þetta skemmtilegur tími sem mun aldrei gleymast.

Hér að neðan eru svolítil sýnishorn, en allar myndirnar eru komnar í möppu í myndaalbúmi merktar Miðaldamenn 1980. Einnig eru þar fleiri myndir teknar af Steingrími (Lífið á Sigló) fyrir framan "Fúsa Bald brakkann" sem var æfingarhúsnæði okkar á þessum árum.


(Söngkonurnar Erla & Kristín.)


(Söngkonan og bassaleikarinn.)


(Gummi Ragnars og ég, báðir sýnilega alveg bláedrú.)


(Trommarinn, prentarinn og auglýsingagúrúinn ómissandi með Freddie Mercury mottuna.)

Þetta var vissulega óvænt sending og það tók mig nokkra stund að rifja upp aðdragandann og hugsanlegrar ástæðu hennar, en það hafðist með svolitlum heilabrotum. Á Síldarævintýrinu í fyrra (frekar en hitteðfyrra) hitti ég Stínu (ásamt Erlu auðvitað) á torginu fyrir framan stóra sviðið á Ráðhústorginu og við áttum spjall saman. En hana hef ég ekki hitt síðan ég rakst á hana fyrir ótal mörgum árum á Ísafirði þar sem hún býr. Ég spurði þær stöllur hvort verið gæti að einhverjar gamlar myndir væru til frá þessum frábæra tíma og nú eru þær komnar.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 206
Gestir í dag: 63
Flettingar í gær: 343
Gestir í gær: 56
Samtals flettingar: 2148925
Samtals gestir: 300908
Tölur uppfærðar: 17.1.2019 23:14:25
clockhere

Tenglar