06.09.2008 09:08

Hafnarfjall499. Sunnudaginn 31. ágúst sl. héldum við feðgarnir (sá sem þetta ritar og Gunnlaugur Óli Leósson) upp í Borgarfjörð, báðir jafn ákveðnir í að gera það sem ÉG hef stefnt að tvö síðustu sumur. Það er að "rölta" upp á Hafnarfjallið sem snöggast og síðan niður aftur skömmu síðar. En það er með þetta verkefni eins og svo mörg önnur, þau eru oft stórlega vanmetin eða eiga það jafnvel til að vinda upp á sig. Að vísu er ekkert stórmál að ganga brúnirnar frá Hámelum og fyrir ofan "Flyðrurnar" upp á topp og síðan niður aftur, en málið er ekki alveg svona einfalt. Þegar upp á toppinn er komið, þ.e.a.s. þann sem sést með góðu móti frá veginum, er annar skammt undan sem er aðeins hærri. Sá heitir Gildalshnjúkur og er hæsti hluti Hafnarfjalls. Auðvitað er ekki hægt að fara aftur niður nema að hafa farið þar upp líka, en þá poppar bara upp þar næsta spurning. Verður ekki að klára hringinn um Gildalinn og fara niður austan megin fyrst menn eru komnir svona langt? Auðvitað er slíkur valkostur skoðaður með jákvæðu hugarfari, en það líka nokkuð borðleggjandi að erfitt er að standast freistunguna.En eftir að hafa rennt sér aðeins yfir Borgarfjarðarbrúna sem stendur nú á rétt rúmlega þrítugu og var steypt að m.a. úr dansk/íslensku hraðsementi á sínum tíma, var aðeins komið við í Shellinu við norðari brúarsporðinn. Ástæðan fyrir því að ekki var staldrað við í Hyrnunni að þessu sinni eins og oftast áður, er auðvitað ónefndur pistill á ónefndri bloggsíðu sem nýlega var rituð af ónefndum manni sem veit alveg hvað hann er að segja.
Í Shellskálanum heyrði ég eina afgreiðslukonuna tala betri þýsku en margur Þjóðverjinn talar, við nokkra miðevrópska "túrhesta" sem höfðu uppi einhverjar spurningar sem ég ekki skildi.
"Æ, æ. Er nú farið að nota Þjóðverja í afgreiðslustörf á íslenskum bensínstöðvum" hugsaði ég með mér og reyndi að rifja upp eitthvað af Gagnfræðaskólaþýskunni sem Gunnar Rafn kenndi mér forðum.
Sú hin sama snéri sér síðan að mér og spurði á lýtalausri Íslensku: "Get ég aðstoðað?" 
Mér var stórlega létt og það lítur nú út fyrir að Shellið bjóði ekki aðeins upp á meira hreinlæti en samkeppnisaðilinn, heldur einnig betur menntað starfsfólk. 
Síðan var skroppið út að brúnni sem liggur yfir Brákarsundið og tengir Brákarey við fastalandið (eða stóru eyjuna.)
Ég rifjaði upp nokkurra mánaða gamla frétt sem mér fannst nokkuð kostuleg á sínum tíma og finnst reyndar enn.

Lögreglan í Borgrnesi gaf bílstjóra bíls sem ók talsvert yfir leyfilegum hámarkshraða merki um að stöðva för því hún taldi sig hafa ærna ástæðu til að hafa tal af viðkomandi.
Ökumaður bílsins sinnti stöðvunarmerkjunum í engu, reyndi að stinga laganna verði af og ók um götur bæjarins á seinna hundraðinu með glampa blárra og blikkandi ljósa í afturrúðuni. Það var ekki fyrr en leikar bárust út í Brákarey að honum tókst að "stinga þá af" að hann taldi því löggan "gafst upp" á miðri brúnni. Það var ekki fyrr en "okkar maður" á flóttabílnum áttaði sig á að eina undankomuleiðin (ef bakaleiðin um brúna var undanskilin) var út á Faxaflóa, að hann skildi hvers vegna löggan varð svo skyndilega uppgefin á eltingaleiknum.Við brúna getur að líta þessa vörðu sem reist hefur verið til minningar um ambáttina Þorgerði Brák, sem með réttu mætti gjarnan skipa hærri og stærri sess í sögunni en raun ber vitni.Minnismerki um Þorgerði Brák, fóstru Egils Skalla-Grímssonar, var reist í Borgarnesi fyrir forgöngu menningarnefndar sveitarfélagsins árið 1997 og er eftir Bjarna Þór Bjarnason sem þá var bæjarlistamaður á Akranesi. Minnismerkið stendur eitt sér uppi á háu holti við Brákarsund, þar sem ambáttin Brák er sögð hafa farist þegar hún steypti sér í straumiðuna á sínum tíma og Skalla-Grímur fleygði bjargi á eftir henni; ,,kom hvorugt upp síðan" segir í Egilssögu. Æðiskast Skalla-Gríms kom í kjölfar knattleiks sem haldinn var í Sandvík. Skalla-Grími var farið að ganga miður í leiknum; hann drap þá vin Egils sonar síns, Þórð Granason frá Granastöðum, og greip síðan til Egils, en Þorgerður Brák kom þá þar að og sýndi það hugrekki að draga athygli garpans að sér með þessum afleiðingum. Egill átti því Þorgerði Brák líf sitt að launa og sýndi þakklæti sitt í verki þegar hann síðar eignaðist sína fyrstu dóttur og nefndi hana Þorgerði.
(Gúgglað af vef Borgarbyggðar.)

 

Nýtt leikverk, Brák, eftir Brynhildi Guðjónsdóttur var frumsýnt á sögulofti Landnámssetursins í Borgarnesi á Þrettánum, 6. janúar sl. Verkið fjallar um Þorgerði brák, ambátt Skallagríms Kveldúlfssonar landnámsmanns í Borgarfirði og fóstru Egils Skallagrímssonar. Allir sem lesið hafa Egilssögu muna eftir hinni kyngimögnuðu lýsingu þegar Þorgerður brák bjargaði lifi Egils með því að snúa athygli hins hamramma Skallagríms yfir á sjálfa sig.  Hann eltir hana langa leið niður að Brákarsundi þar sem hún kastar sér á sund en hann hendir á eftir henni steini miklum og kom milli herða henni og kom hvorugt upp síðan.

Þetta er saga ískrar stúlku sen hertekin var af norrænum víkingum í heimalandi sínu, sett í skip og seld í þrældóm til Íslands. En þar átti hún eftir að fóstra mesta skáld Íslendinga, manninn sem kallaður hefur verið jafnaldri íslenskra braga, Egil Skallagrímsson.

(Gúgglað af vef Skessuhorns.)Það var háfjara og miklar sandeyrar stóðu upp úr haffletinum.Á leiðinni til baka fórum við framhjá Skalla-Gríms garði. Og þó ég hafi átt leið um Borgarnes oftar en lélegt minni mitt (núorðið) er fært um að hafa tölu á, man ég ekki eftir þessum athyglisverða reit. En þarna voru sagðir hvíla þeir Skalla-Grímur og Böðvar. Ég áttaði mig ekki alveg á hver Böðvar var, þrátt fyrir að vita af Böðvarsgötu þarna skammt frá svo ég fór aðeins á netflakk.
 

Skallagrímur Kveldúlfsson var norskur landnámsmaður sem kom til Íslands nokkru fyrir aldamótin 900.

Skallagrímur fæddist árið 863 og ólst upp á bæ föður síns, Kveldúlfs, og Salbjargar, konu hans, í Firðafylki í Noregi. Átti Skallagrímur einn bróður, Þórólf, sem er talinn vera 5 árum eldri.

Skallagrímur var ljótur maður, dökkur á brún og brá, berserkur mikill og skáld. Eiginlega hét hann bara Grímur en þegar hann var hálfþrítugur að aldri var hann orðinn nauðasköllóttur og fékk því viðurnefni sitt. Undir nafninu Skalla-Grímur þekkjum við hann flest. Skallagrímur var forvitri og vissi því fyrir um ýmsa atburði.

Skallagrímur bjó í Noregi til um 30 ára aldurs en flúði þá til Íslands ásamt föður sínum. Þeir flúðu Noreg af því að þeir höfðu drepið menn konungs til að hefna dauða Þórólfs. Skallagrímur og kona hans, Bera Yngvarsdóttir (sem hann kvæntist í Noregi), settust að á Borg á Mýrum árið 891. En þar rak kistu Kveldúlfs að landi. Kveldúlfur hafði látist á leiðinni og kistu hans var varpað útbyrðis. Áður en hann dó þá mælti hann svo fyrir að Skallagrímur skyldi setjast að þar sem kistuna myndi reka að landi.

Þau eignuðust synina Þórólf (f. 900) og Egil (f. 910) en á milli þeirra eru dæturnar Sæunn og Þórunn.

Skallagrímur var iðjumaður mikill og kom sér upp stóru búi að Borg og hafði þar jafnan margt manna. Hann var járnsmiður mikill og skipasmiður og lét hann menn sína róa út og fara í eggver.

(Gúgglað af vef fva.)

 

Böðvar Egilsson var myndarlegur piltur, sonur Egils og Ásgerðar. Hann drukknaði í Borgarfirði þegar hann fór með húskörlum að sækja timbur í skip sem lá við festar í Hvítá.  Böðvar var þá á unglingsaldri.  Egill hélt mjög upp á Böðvar og varð hugstola af sorg þegar hann dó.  Sagt er að Egill hafi þrútnað (bólgnað) svo mjög þegar Böðvar var heygður að fötin rifnuðu utan af honum.  Egill reið sjálfur með lík sonar síns í fanginu út á Borgarnes og heygði hann í haugi Skalla-Gríms, sem enn sést í Skalla-Grímsgarði.

Eftir þetta reyndi Egill að svelta sig í hel en Þorgerður dóttir hans fékk hann ofan af því og stakk upp á að Egill semdi erfiljóð.  Egill fór að ráðum hennar og orti Sonartorrek.

(Gúgglað af vef fva.)En við Gulli gengum upp frá Háumelum þaðan sem allir leggja upp sem á annað borð ganga á Hafnarfjall. Í baksýn má sjá Gildal sem gengur inn í fjallið, en hinum megin við botnsbrúnina tekur við Hafnardalur sem hallar í hina áttina.Nokkru ofar þótti ástæða til að taka eins og eina mynd.Þarna erum við því sem næst hálfnaðir upp eftir brúnunum og erum komnir upp fyrir ofan svokallaðar Flyðrur.
Flyðrur eru tveir ljósir klettar sem líta út ekki ósvipað flyðrum  eða lúðum.

Þjóðsagan segir að fyrir mörgum öldum hafi bóndi nokkur í Borgarfirði róið til fiskjar um Páskana þá er allir menn skyldu hvíldar og helgi njóta, en matur hafði þá verið ónógur í héraði um nokkurt skeið. Kom hann að landi með afla sinn sem var einn þorskur og tvær flyðrur, en þær voru svo stórar að þær mettuðu alla sveitunga hans þar til önnur matbjörg varð.
Um næstu Páska var ekki hungur í sveitinni en bóndi réri samt, því hann var nú gráðugur orðinn í afla sem eigi þyrfti að deila með öðrum. Hið sama gerðist, hann fékk einn þorsk og tvær flyðrur. En nú brá svo við að flyðrurnar slettust upp í Hafnarfjall og urðu þar að klettum sem síðan hafa alla tíð verið við þær kenndar. En hann varð hræddur og réri hið skjótasta til lands og lét aldrei reyna á gæftir um nokkra Páska eftir þetta.Örin til hægri bendir á topp þess hluta fjallsins sem snýr að veginum. Eitthvað hlýtur þessi tindur að heita en mér hefur ekki tekist að finna út hvert nafnið er. Annar tindur er svo sunnar (örin til vinstri) þ.e. Gildalshnjúkur og er hann hæsti hluti Hafnarfjalls.Ég mátti svo til með að setjast í þægilegt sæti á brúninni og dingla fótunum fram af.Gulli vildi ekki vera minni maður og gjörði slíkt hið sama.Eins og sjá má unir hann sér þarna hið besta. Við sáum nú til mannaferða á toppnum sem kom ekki svo mjög á óvart. Ég hafði reyndar ætlað mér að verða samferða þessum hópi fólks, en ferðafélagið Útivist hafði skipulagt gönguferð á fjallið þennan dag. Ég var hins vegar ekkert mjög upprifinn í morgunsárið því ég hafði auk þess að hafa verið í stífri steypuvinnu deginum áður, einnig verið að spila á Catalinu um nóttina. Þriggja til fjögurra tíma svefn tvær nætur í röð auk annarra þátta gerði það því að verkum að ég dró fæturnar þar til hópurinn var lagður af stað en ég sat eftir heima. Þegar leið að hádegi var "Eyjólfur" þó tekinn að hressast til muna, en einnig að ókyrrast verulega vegna slóðaskapsins. Það var að lokum úr að lagt var af stað og Gulli slóst með í för mér til mikillar ánægju. Það skyldi vera gengið á þetta tiltekna fjall þennan dag fyrst það var búið að ákveða það.Við mættum Útivistarhópnum nokkru áður en við náðum toppnum. Hann hafði farið upp austan dalsins og kom niður vestan megin. Við gengum hins vegar upp að vestanverðu. Ég þekkti tvo göngumanna. Grétar ljósmyndara, sem hafði verið samverða mér upp á Lómagnúp í júní sl., og svo auðvitað stórvin minn og sveitunga Magga Guðbrands.Það var kominn tími á aðra mynd því eftir því sem ofar dró varð bakgrunnurinn alltaf flottari og tilkomumeiri.Borgarfjarðarbrúin þetta stórkostlega mannvirki var nokkuð smágerð og efnislítil séð úr þessari fjarlægð.Þetta á maður eiginlega ekki að gera en samt...En bara einn og svo ekki meir...Langt, langt fyrir neðan eru pínulitlir bílar og pínulítil hús.Í hina áttina er útsýnið með þessum hætti. Í hrjóstrugum Gildalnum er lítill gróður en þess meira grjót. Nú eru aðeins nokkrir metrar eftir.Og fyrsta toppnum er náð.Þar er gestabók í vörðu og rétt að melda sig.Útsýnið er ekki slakt og hér var því tekin póstkortsmynd af Borgarnesi.Það virtist vera stutt til Snæfellsjökulls.Það var hægt að horfa ofan á þökin á Hvanneyri.Skorradalsvatn sást líka vel yfir fjallsaxlirnar fyrir norðan okkur.Inn allan Norðurárdal í átt að Holtavörðuheiði. Það er Baula sem stendur upp úr fjallahringnum vinstra megin.En fyrir sunnan okkur er Gildalshnjúkur hæsti hluti Hafnarfjalls 844 m.Og þangað lá auðvitað leiðin sem er stutt en brött síðasta spölinn.Efsti hlutinn er svolítið klettóttur en ágætt að klifra hann.Og ekki versnar útsýnið við að komast enn hærra upp.Í gegn um þetta gat í klettunum sést hér niður í Gildalinn.En uppi á toppnum sáum við til mannaferða.Við nálguðumst ferðalanginn og tókum tali. Hún kvaðst vera kölluð Jenný og búa í Borgarnesi. Hún gat sagt okkur nöfnin á öllum fjöllum, tindum og dölum eins langt og augað eygði, enda notaði hún hvert tækifæri sem gæfist til að ganga á fjöll. Eftir nokkurt spjall kom það auðvitað upp að ég væri frá Siglufirði. Þá sagði hún mér að systir sín væri gift manni frá Siglufirði og að hann héti Vernharður Skarphéðinsson. Ég kannaðist auðvitað vel við þann ágæta pilt. 

Nokkrum dögum síðar sá ég auglýsta á netinu gönguferð á Hafnarfjall þar sem leiðsugumaðurinn var sögð vera "Fjallkonan Jenný."En þarna var önnur gestabók og við settum auðvitað loppufar okkar einnig í hana. Það gerði svolitla skúr sem stóð reyndar mjög stutt yfir en hreinsaði loftið og gerði það tærara ef eitthvað var.Héðan sást ágætlega suður fyrir m.a. á Grundartanga.Og Akranes.Næsti tindur var framundan. Hann heitir Þverfell í bókini hans Ara Trausta, en Jenný sagði það ekki vera rétt því það fjall væri innar.En toppnum var náð og nú var skeggrætt um hvort ætti að fara sömu leið til baka eða ganga hringinn um Gildalinn og kona niður austan megin. Hið síðara varð ofan á og við gengum á þriðja tindinn sem annað hvort heitir Þverfell að eitthvað allt annað.Þaðan sást m.a. vel til Eiríksjökuls, en Langjökull faldi sig bak við lágskýjabakka.Næsta fjall heitir Klausturtunguhóll og er klettum girt að mestu á þrjá vegu. Þó mun leið okkar eiga að liggja niður klauf í þessu klettabelti samkvæmt leiðarlýsingu Ara Trausta og hann tekur sérstaklega fram í bók sinni að sú leið sé auðveld.Við vorum nú komnir að klettunum og hófum leit að niðurgönguleiðinni.En hvernig sem við leituðum fundum við ekki leiðina.Engin ummerki voru um mannaferðir uppi á brúninni. Hvorki nokkurt traðk né neinar merkingar.Og eftir talsvert mikla leit gáfumst við upp og gengum upp á kollinn á Klausturtunguhólnum.Fyrir neðan okkur sáum við eins og áður gönguslóðina í melnum, (sem er eins og mjótt strik fyrir m,iðri mynd) en hún hvarf síðan inn undir klettana og útilokað var að sjá nákvæmlega hvar. Við gengum því austur fyrir og leituðum annarrar leiðar niður af fjallinu.Sú leið fannst að lokum og var þá gengið niður í næsta dal austan við Gildal. En sól var farin að lækka ískyggilega mikið á lofti og rétt að fara að hraða sér því lítið spennandi er að vara á fjöllum eftir að myrkur er skollið á.Við kvöddum því fjallatindana og hröðuðum okkur niður. Til að byrja með gengum við í leir en síðan tóku við brattar skriður næsta klukkutímann. Við vorum ekki lítið fegnir þegar við náður til bíls um það bil sem kennileitin í kring um okkur voru að verða ósýnilega vegna myrkurs.Síðasta Borgarnesmyndin var tekin og það voru tveir göngumenn sem óku heimleiðis bæði þreyttir og svangir.Þetta kort er "fengið að láni" úr bókinni han Ara Trausta og sýnir hringleiðina um Gildal. (Græna línan.) En við fórum ef svo mætti segja vitlausan hring þ.e. upp að vestan (t.v. á kortinu.) En við blasir að leiðin um hamrabeltið virðist vera auðveld að klífa upp en illmögulegt að komast niður nema þá fyrir vel kunnuga. Þessar upplýsingar vantar sárlega í annars hina ágætu bók sem höfð var svo mjög til hliðsjónar. Við fórum því út af fyrirhugaðri gönguleið

En ég hef verið að flísaleggja alla vikuna og er að ég held kominn með króníska gigt í mjóhrygginn. Og til þess að rétta aðeins úr bakinu og hvíla hnén um stund verður farið til Húsavíkur þar sem staldrað verður við yfir helgina.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 267
Gestir í dag: 72
Flettingar í gær: 358
Gestir í gær: 62
Samtals flettingar: 2414599
Samtals gestir: 332285
Tölur uppfærðar: 20.9.2020 20:48:12
clockhere

Tenglar