Færslur: 2007 Maí

29.05.2007 03:18

Helgafell.

375. Þriðjudaginn 22. maí sl. var ákveðið að fara maíferðina á Sigló. En eins og áður hefur komið fram, var ákveðið fyrir nokkru síðan að stefna á að heimsækja heimabæinn að jafnaði einu sinni í mánuði og það hefur gengið eftir síðan seint á síðasta ári. Tilhlökkunin hafði farið stigvaxandi að undanförnu, en nú var dagurinn runninn upp bjartur og fagur. Undirbúningur var kominn á lokastig og bíllinn meira að segja fullur af bensíni. Allt í einu hringdi síminn og Magnús Guðbrandsson sá ágæti félagi var á línunni.
"Það á að labba upp á Helgafell á eftir, ertu ekki með?"
Þetta kom alveg flatt upp á mig og mér hreinlega vafðist "tunga um höfuð" eins og góður maður orðaði það einu sinni.
"En ég er að leggja af stað til Sigló," sagði ég og það var svolítill sjálfsvorkunnartónn í röddinni.
"Allt í lagi, en það er mæting hjá Kaldárseli kl. 18.30 ef eitthvað skyldi breytast hjá þér."
Það var engu líkara en að Maggi byggist allt eins við því að svo gæti farið.
Nú var eiginlega orðið úr svolítið vöndu að ráða, því ég var kominn a.m.k. hálfa leið norður í huganum. En mér þótti líka illt að missa af þessum "alveg passlega langa" göngutúr með öllu þessu skemmtilega fólki.
Ég hugsaði með mér að ekki yrði bæði sleppt og haldið frekar en yfirleitt, eða hvað?
Tíminn leið, það styttist í deginum og ég varð meira og meira tvístígandi.

Fyrir nokkrum árum hefði mér ekki þótt það vera neitt tiltökumál að sinna því sem þurfti yfir daginn, rölta þennan spotta um kvöldið og aka svo af stað norður í land um nóttina. En eftir því sem á líður verða menn víst hæglátari, skynsamari, jarðbundnari, e.t.v. latari, þreyttari en einnig raunsærri. Svona mætti auðvitað lengi leika sér upp að telja, en það hefur hins vegar ekki reynt á það mjög lengi hvernig gengi að takast á við verkefni sem nú virtist greinilega veri í uppsiglingu.
Það varð því niðurstaðan að rúmlega rétt í meðallagi vel athuguðu máli, að reyna að komast yfir hvort tveggja og sleppa engu. Á tilsettum tíma var ég því mættur upp við Kaldársel og var ekki sá síðasti á staðinn.
Tilgangurinn var sá að klifra upp á bæjarfjall Hafnarfjarðar, - Helgafell.



Gengið var frá Kaldárseli og stefnan tekin rakleiðis á Helgafell.


Hlíðar fjallsins voru miklu brattari en ég hafði haldið.



Sandsteinn.



Gil og skorningar.


Slétt svæði er uppi á fjallinu, en þó ekki alveg efst uppi, því síðasta lotan var enn eftir á tindinn. Klettaveggurinn á suðurhliðinni sést vel á myndinni, en frá brúninni sést vel yfir láglendið í suðri og til Bláfjalla.


Ef rýnt er í myndina sést að hún stendur mjög nálægt brúninni sem rennur svolítið saman við mosavaxið hraunið langt, langt fyrir neðan. Sá hluti vegarins til Bláfjalla sem liggur frá Hafnarfirði er eins og lítill lækjarfarvegur.


En auðvitað hafðist það sem að var stefnt og tindinum er náð. Þar er staldrað við og skyggnst til allra átta. Þó ekki sé eins víðsýnt og var frá toppi Vífilfells fyrir nokkrum dögum, er margt að sjá og það er engu líkara en verið sé að skoða risastórt landakort.


Þarna stóð það svart á hvítu (eða raunar grátt on´í gráu) að Helgafell er 340 metra hátt, og nú var að skrá sig í gestabókina. Eftir svolitla viðdvöl á toppnum var haldið af stað til suðvesturhlíðarinnar, en þar skyldi gengið niður.


Í suðaustri milli Helgafells og Bláfjalla leið ský yfir landið og neðan úr því steyptist úrkoman í formi hagléls.

Það kom einhver gulur, torkennilegur og lítill plastpoki upp úr innkaupapokanum sem geymdi gestabókina. Er þetta hass, spurði einhver og allir skoðuðu innihald hans gaumgæfilega og þefskyn okkar göngumanna og kvenna var hreinlega beitt af alefli í hvers manns nefi. Niðurstaðan var sú að þetta væri eitthvað allt annað án þess að það væri skilgreint nánar.


Ég sá klett sem ekki virtist vera hægt að klifra upp á, og þess vegna varð ég auðvitað að komast þangað upp.



Annar klettur var þarna skammt frá, ókleifur öðrum megin. (Ég segi nú bara sisona.)


Þetta skemmtilega gat var á "fjallsveggnum," en skriða gekk niður frá brúninni og í gegn um það.


Klettar og skriða, mosi og gras. - Ég áttaði mig á því í göngutúrnum að Edda bjó á Siglufirði seint á áttunda áratugnum, eða nánar tiltekið að Lindargötu 20.


Aðeins fyrir ofan okkur lágu mávar (held ég) á hreiðri.



Svo var hort til baka upp í gatið á fjallinu.



Þá varð á vegi okkar plastgerð gerfimús sem er ákaflega sjaldgæf dýrategund í "óbyggðum Hafnarfjarðar." Og nú er þessi stofn annað hvort enn sjaldgæfari eða hreinlega útdauður, því plastgerða gerfimúsin slóst í för með okkur, og hélt til byggða eftir langa og án nokkurs vafa einmanalega útilegu.


Og vegna þess að við komum annars staðar niður af fjallinu en við forum upp, þurftum við að ganga í hálfhring í kring um það til bílanna sem biðu á stæðinu við Kaldársel.


Á leið okkar varð þessi hellir, en hægt var að ganga niður í hann og svolítið undir hraunbrúnina.


Einnig lítið hraunhús sem var hægt að komast inn í og það var með þessum skemmtilega "glugga."


Vatnsverndarsvæðið fyrir ofan Kaldársel er girt af með hárri girðingu. En hún skarast á einum stað svo þar verður til hlið sem aldrei lokast. Girðing með stóru gati eða hvað? Sú kenning var sett fram á staðnum að hún væri bara til að draga úr eða takmarka umferð um svæðið. Þeir sem væru nógu vitlausir til að hvorki sjá né fatta, væru eiginlega hópur sem ætti hvort sem er ekkert erindi inn á svæðið. Ég hafði hljótt um mig og sagði nákvæmlega ekki neitt, því að ég hef aldrei tekið eftir neinu þrátt fyrir að hafa komið þarna mörgum sinnum.



Klukkan var alveg að verða 10, nú var "ævintýri á gönguför" að baki að þessu sinni, en til allrar hamingju aðeins u.þ.b. 10 min. akstur heim á hlað. Það var eiginlega eins gott, því nú styttist í öllu lengra ferðalag sem var Hafnarfjörður-Sigló.

Það er svo rétt að geta þess að miklu fleiri myndir frá ferðinni á Helgafell eru í myndaalbúmi í möppu merkt "Helgafell."

Eftir nokkra daga er áformað að ganga á Keili á Reykjanesi.

22.05.2007 00:57

Logar frá Vestmannaeyjum.

374. Fyrir nokkru síðan var fríhelgi í spilamennskunni og ég átti svolítið spjall við Axel Einarsson gítarleikara á laugardagskvöldi. Hann sagði mér þá að hann ætlaði að rölta yfir götuna og kíkja á Logana sem væru að spila á Kringlukránni þá um kvöldið, en Axel býr vestan Kringlumýrarbrautar gegnt verslunarmiðstöðinni og þá um leið umræddri krá. Ég hváði, því ég vissi ekki að Logarnir frá Vestmannaeyjum væru enn að eftir öll þessi ár.
"Þeir komu saman og gerðu sig klára fyrir nokkur gigg," sagði Axel.
Ég átti fyrst í stað ekki til eitt einasta orð, en svo komu þau bæði í belg og biðu og allt of mörg í senn. Ég talaði um hinar sætu og súru minningar frá því árum áður, mögulega upplifun og endurkomu gamalla minninga. Svo bað ég hann lengstra orða að hinkra svolítið, því ég væri alveg til í að rölta með honum yfir götuna til að hlusta á gömlu goðin og reyna að rifja upp liðnar stundir í Höllinni í Eyjum í leiðinni. Kvöldið hentaði einkar vel fyrir svolítið nostalgíukast, ég gæti bæði alveg hugsað mér að verða svolítið andvaka í morgunsárið og sofa svo fram undir hádegi daginn eftir eins og svo oft var gert í verbúðinni í Ísfélaginu eftir Logaböllin forðum.

Árin 1975 og 76 fór ég til Vestmannaeyja og vann þar í fiski, lengst af í Ísfélaginu en síðast í "Hraðinu" hjá Sigga Einars "ríka." Um helgar voru böll í "Höllinni" sem var aðalsamkomu og ballstaðurinn í Eyjum, en þar spiluðu Logarnir að öllu jöfnu. Þetta voru algjörir ofurtöffarar og "lúkkuðu" með hippalegra móti í þá daga. Þeir voru þá og eru enn mikil "Stones-fön" og héldu ávalt uppi mikilli og dansvænni stemningu.
Nú eru liðin meira en 30 ár frá mögum af mínum lífsins ljúfustu stundum, og meðlimir Loganna hafa elst og þroskast rétt eins og við hin. Þeir eiga það sjálfir til að gera svolítið grín af aldri sínum og heilsufari, og til varð skemmtileg saga um þá (sem ég hef reyndar frá þeim sjálfum) eftir að þrír þeirra höfðu fengið hjartaáfall.

Þeir voru einhvers staðar milli heims og helju, og frekar en að hafa ekkert fyrir stafni spurðu þeir til vegar og bönkuðu þeir upp á hjá Lykla-Pétri til að athuga hvort þeim yrði hleypt inn um Gullna hliðið. Sá gamli kom til dyra og spurði hverjir væru þar á ferð.
"Við erum Logarnir frá Vestmannaeyjum," svöruðu þeir í einum kór og horfðu skælbrosandi framan í gamla manninn með lyklavöldin.
Hann blaðaði í einhverjum gulnuðum skræðum og renndi fingrinum að lokum niður eina blaðsíðuna þar til hann staðnæmdist við eina línuna. Hann leit upp og sagði ábúðarfullur við drengina sem knúið höfðu dyra:
"Farið heim til ykkar aftur og verið þar þangað til ég læt sækja ykkur. Rolling Stones eru langt, langt fyrir ofan ykkur á listanum og þeir eru enn að spila á fullu."



Ég skrapp til Axels gítarleikara og við settumst inn í hljóðverið í kjallaranum, opnuðum eina græna dós og skiptum innihaldinu bróðurlega á milli okkar. Það taldist hæfilegur skammtur að sinni, því það stóð til að mynda Logana í bak og fyrir en alls ekki að hella sé á djammið.

 

Henrý hefur það "fram yfir" félaga sína að hafa fengið tvö hjartaáföll meðan tveir hinna hafa bara fengið eitt og aðrir ekkert. Eftir það fyrra hætti hann að reykja því læknarnir sögðu honum að það gæti skipt öllu máli. Þegar hann fékk það seinna ályktaði hann sem svo að bindindið hefði þá gagnast heldur illa og byrjaði aftur.



Óli Back er hörku góður trommari og hefur greinilega engu gleymt.



Laugi (eitt hjataáfall) spilaði á hljómborðið rétt eins og fyrir 30 árum+ og fyllti upp í lögin með bakkrödd.



Helgi (eitt hjartaáfall) spilaði og söng eins og honum væri borgað fyrir það, enda var það einmitt tilfellið því það kostaði 1800 kall inn.



Hermann Ingi (bróðir Helga) spilar líka á gítar og syngur.



Þetta er nýjasti meðlimurinn sem segja má að hafi fæðst inn í Loganna og heitir Ólafur. Hann er sonur Lauga hljómborðsleikara.



Þessi sagðist hafa verið vélstjóri á bát sem get var út af Ísafold fyrir góðum aldarfjórðungi eða svo. Hann bað fyrir kveðjur til Danna Bald og Ómars Hauks sem ég tel mig nú hafa komið til skila bloggleiðis.



Hún heitir Særún og er frá Siglufirði. Hún sagðist hafa flutt þaðan fyrir meira en 40 árum, en væri nú engu að síður Siglfirðingur.



Ég fann Ása Péturs svolítið inni í skugganum en hann hélt sig vel til hlés við dansgólfið allan tímann en var með kjaftagleiðasta móti.



Og Alla Hauks var þarna líka, en svei mér þá ef hún verður ekki glæsilegri með hverju árinu sem líður.



Þessi maður hver sem hann er, setti sig í stellingar og stillti sér alltaf upp þegar hann sá mig taka upp myndavélina, enda á hann alveg rosalega flottan hatt.



Ég hafði fengið nóg um hálfþrjúleytið og hugði á heimferð. En þá var þegar komin röð þar sem leigubílarnir komu að svo ég rölti upp á Listabraut og náði næsta bíl sem var á leiðinni að Kringlukránni.



Bílstjórinn sem sagðist heita Jón var viðræðugóður og við spjölluðum saman um Logana, kráarmenninguna (eða ómenninguna) á Íslandi, poppið fyrr og nú, og margt fleira. Hann sagði mér að hann hefði verið trommari í nokkrum bílskúrsböndum hér áður fyrr sem sum hver komust út úr skúrnum, og meðal annars spilað með stórgítarleikaranum Friðriki Karlssyni um svipað leyti og hann (þ.e. Friðrik) hefði ásamt félögum sínum stofnað Mezzoforte.

En fleiri myndir frá Logaballinu er að finna í myndaalbúmi, í möppu merkt "Logarnir." En um áramótin síðustu setti ég mér það markmið að heimsækja heimaslóðirnar a.m.k. einu sinni í mánuði að jafnaði, og seinni partinn í dag ætla ég að leggja upp í maíferðina á Sigló.

15.05.2007 03:30

Kvöldsólin og pósturinn sem hvarf.

373. Fyrir nokkrum dögum síðan roðuðu logar kvöldsólarinnar himininn í meira lagi og lituðu hann eldlitunum kvöld eftir kvöld. Svo mikil og afgerandi var litadýrðin að engu skipti hve djúpt ég var sokkinn ofan í sófann fyrir framan imbann, það varð engan vegin undan því vikist að standa upp og gera sér ferð út í litadýrðina og blíðuna til að fanga augnablikið. En eins og þeir vita sem fylgst hafa með sjónarspili slíkra ofurljósgeisla, standa þessir dýrðarinnar tímar oftast ekki yfir nema svolitla stund. Það dugði því ekki að slóra neitt, heldur varð að fara út að skjóta og það með hraði. Svolítið sýnishorn af uppskerunni er svo hér að neðan.

Perlan séð frá veðurstofunni.

Grótta.

Séð yfir Elliðavatn frá Heiðmörk.

Efstu byggðir Kópavogs séðar frá Heiðmörk.

Hafnarfjarðarhöfn sunnanverð.

Hafnarfjarðarhöfn norðanverð.



Horft til Álftaness frá Hafnarfirði.

Hafnarfjörður til norðurs ofan af Hamrinum.

Sólin að setjast ofan á Snæfellsjökul. Myndin er tekin úr hlíð Ásfjallsins.

En að öðru máli... Ég hef verið í vandræðum með póstforritið í tölvunni hjá mér undanfarnar vikur. Í upphafi var hægt að tala um einhverja hnökra sem versnuðu síðan smátt og smátt svo á endanum var allt komið í eina allherjar steik. Mér fannst í fyrstu ég vera farinn að fá óeðlilega lítinn póst sem minnkaði stöðugt eftir því sem á leið og í lokin hætti hann alveg að berast. Á sama tíma var líka sífellt erfiðara að koma tölvupóstinum frá sér og í einhverjum tilfellum tókst það alls ekki og það kom fyrir að það var hringt í mig og spurt um eitt og annað sem átti að vera á leiðinni. "Fráveitan" stíflaðist síðan líka alveg í lokin. Í gær (mánudag) gafst ég upp á þessu fúla ástandi og hitti Siglfirðinginn Jón Pálma hjá Tölvuvirkni, og honum tókst að leysa málið að mestu. Eftir stendur þó að engar sendingar inn og út eru til frá 16. apríl til 14. maí. Þær virðast með öllu horfnar og algjörlega "óínáanlegar." Ef einhver sem les þetta hefur sent mér póst á leor@simnet.is á þessu tímabili, bið ég þann hinn sama að senda það aftur.

11.05.2007 01:48

Úlfarsfell, Vífilfell og fleira skemmtilegt.




372. Ég er á Skoda Oktaviu þessa dagana frá Réttingarverkstæði Jóa (Jóa Valda og Ernu Rósmundar) og kann því mjög vel. Eiginlega langar mig sáralítið að skila þessum öndvegisbíl og Jói má mín vegna alveg taka sér tíma í að laga beygluna á Micrunni eftir jeppann sem rakst utan í mig á dögunum. En síðastliðinn þriðjudag átti ég erindi við byggingarfulltrúann í Mosfellsbæ og heimsótti hann í morgunsárið á Skódanum. En í bakaleiðinni gaut ég augunum á Úlfarsfellið eins og svo margsinnis áður, því mig hefur alltaf langað til að komast á topp þess og sjá hvernig borgarlandið lítur út þaðan. Ég leit á klukkuna og sá að hún var aðeins rúmlega 10 og nægur tími til að slóra svolítið. Ég beygði upp með hlíðum fellsins austanmegin og ók svolítinn spöl meðfram því áður en ég lagði bílnum. Svo rölti ég af stað í sólskininu.



Til marks um hve ferðin sóttist vel settist ég aldrei niður til að kasta mæðinni og stoppaði reyndar ekki fyrr en ég var kominn fram á brúnina sem snéri að Reykjavík. En auðvitað var skýringin sú að þetta var stutt og þægilegt rölt sem átti fátt skylt við það sem yfirleitt er kölluð fjallganga. Enda getur hæðarmunurinn á því sem skilgreint er annars vegar sem fell og hins vegar sem fjall verið talsverður, því mig minnir að miðað sé við 200 metra hæðarlínu eða er það ekki annars?




Ég var ekki svikinn af útsýninu þegar upp var komið. Höfuðborgarsvæðið var yfir að líta eins og landakort.



Húsin í bænum....



...og sundin blá.



Kópavogur, Garðabær og Hafnarfjörður í þessa áttina.




Og  Mosfellsbær í hina.



Eftir að hafa staldrað við um stund var haldið til baka.




Ég gekk meðfram brúninni austanmegin. Fyrir neðan mig var klettabeltið sem sést á næstefstu myndinni.




Og ég var annað slagið að kíkja ofurlítið fram af.



Húsin fyrir neðan voru eins og lítil leikfangahús.



Og mannfólkið eins og maurar.



Mig svimaði stundum pínulítið, en að lokum var ég kominn niður á jafnsléttu á ný.



Það var komið fram yfir hádegi og næst var að halda áfram með hina fyrirhuguðu dagskrá sem var reyndar ekki ýkja löng fyrir þennan dag.



Eftir svolitlar útréttingar heimsótti ég Gísla Viðar sem er frá Ólafsfirði, í húsið á horni Snorrabrautar og Hverfisgötu þar sem hann rekur hársnyrtistofuna Hárlínuna . Við Gísli höfum setið undanfarið á nokkrum verulega líflegum húsfundum undanfarið, en ég leigi "Tattoo og Skart" húsnæði í þessu sama húsi og er því málið skylt. Gísli hafði boðið upp á skipti á klippingu og eintaki að "Svona var á Sigló" og þáði ég það ágæta tilboð með þökkum, enda kominn tími á með rúningu. Þess er rétt að geta að hann sem er margfaldur Íslandsmeistari í hárskurði, er giftur Guðný Viðarsdóttir (dóttir Kollu Eggerts) frá Siglufirði. Og á meðan toppstykkið var snyrt ræddum við að sjálfsögðu um veðrið, þjóðina í landinu, störf stjórnar húsfélagsins, Gautana á sjöunda áratug síðustu aldar, Héðinsfjarðargöngin, böllin á Ketilási í eina tíð og Fjallabyggð eftir sameiningu svo fátt eitt sé nefnt. En þegar ég var á leiðinni út af Hárlínunni hitti ég hinn eina og sanna Gunnar Þórðarson stórgítarleikara og lagasmið í dyrunum. Og þar sem ég hef ekki hitt Gunnar síðan ég afgreiddi hann síðast á Laugarásvideó þar sem hann var mikill og góður viðskiptavinur, þurfti að sjálfsögðu að taka stutta og snarpa, en létta popp og rokkblandaða umræðu þarna á gólfinu. En nú var kominn tími á matarinnkaupin á heimleiðinni og svo stóð til að fá nýja auðkennislykilinn til að opna mér leiðir inn í bæði nýjar og eldri víddir netbankans. Rosalega er annars langt síðan ég hef komið inn í alvöru banka með útibússtjóra, gjaldkerum, þjónustufulltrúum og svoleiðis.



Sjónvarpsgláp kvöldsins hófst með fréttum sem þróaðist síðan í letilegt "dott." Ég kinkaði nokkrum sinnum kolli með hálflokuð augu, en reisti höfuðið jafnharðan upp aftur með eins og einhver hefði gert mér billt við og leit svolítið flóttalega í kring um mig. Tíminn leið og ég kom smátt og smátt til vitundar á ný en þá var hringt.
"Magnús Guðbrandsson heiti ég," sagði röddin í símanum. Ég glaðvaknaði og hváði.
En þetta var tilfellið. Maggi Guðbrands minn ágæti spilafélagi frá því á árunum um og fyrir 1980 var á línunni, og skömmu síðar var ég lagður af stað í heimsókn út á Álftanesið. Þar tók hann á móti mér ásamt tveimur ferfætlingum sem eiga lögheimili á sama stað.



Þessi að vísu óskráði, en svolítið innskeifi og vængjaði tvífætlinur býr einnig á sama stað. Ég hef alltaf haldið að munurinn á bra-bra og bí-bí væri aðallega fólginn í stærðinni, en það átti ekki við í þetta skiptið. Eftir mikið spjall og upprifjanir frá okkar skemmtilegu árum nyrðra, spurði hann hvort ég hefði áhuga á að koma með í svolitla göngu upp á Vífilfell n.k. fimmtudagskvöld. Ég var nú aldeilis hræddur um það, og þegar liðið var allnokkuð fram yfir miðnætti kvaddi ég þennan ágæta vin minn og hélt heim á leið. Daginn eftir gerði ég mér ferð í Hagkaup í Kringlunni og keypti heppilegan vind og regngalla, því ég taldi mig þurfa að lappa upp á útbúnaðinn, og nú var loksins komið að því að ég hefði einhvern félagsskap í þessu fjallaklifri sem ég hef ánetjast í það allra síðasta og ég var hreint ekki svo lítið kátur með það.



Vífilfellið sem er 655 metra hátt er nyrsti hluti Bláfjallaklasans. Þetta tignarlega fjall gnæfir yfir Litlu kaffistofuna og flugvöllinn á Sandskeiðinu. Það var ákveðið að hittast við rætur þess upp úr klukkan "átján" á fimmtudeginum. Ég var í nýja gallanum, á nýju skónum sem ég keypti í "Sappos" og með nýju göngustafina sem ég fékk í fimmtugsafmælisgjöf frá bekkjarsystrum mínum, þeim stínu Hjörleifs, Oddfríði Jóns, Klöru Sigurðar og Fríðu Birnu Kidda G. Sagt er að einhver annar maður hafi fengið gull, reykelsi og myrru (sumir segja rugl, ergelsi og pirru), en ég fékk hvítvín, rauðvín og göngustafi. Hvítvínið og rauðvínið entust ekkert sérstaklega lengi, en nú var kominn tími til að vígja stafina.
Maggi var hins vegar mættur á undan mér ásamt tveimur vinnufélögum sínum.



Við lögðum af stað og byrjuðum á að fara fram hjá gríðarlega miklum malarnámum.



Við gengum upp hlíðina neðan til í fjallinu á það var svo sannarlega á brattann að sækja.



Síðan tók við ganga yfir allmikla sléttu áður en seinni áfanginn hófst. Þessi myndarlegi snjóskafl varð á vegi okkar sem þurfti að "þvera."



Þeir kölluðu þetta landslag "steindar skjaldbökur" og ég er ekki frá því að það sé bara vel til fundið.



Þarna var rétt eins og skapari fjallsins hefði útbúið lítill pall sem eins konar hvíldarstað fyrir lokaáfangann.



En ég gat alls ekki beðið því ég er stundum svolítið mikið óþolinmóður og lokaáfanginn allt of skammt undan. Ég varð auðvitað að ná toppnum á undan hinum.



Og allir komust þeir upp, og nú var kominn tími á að kíkja aðeins á nestið.



Það var af ýmsum toga eins og sjá má...



Því ýmsar eru fóðurþarfir mannanna svo og smekkur þeirra...



Þarna erum við Magnús ásamt einum ferðafélaganum.



Okkur varð öllum starsýnt á allt víðsýnið.



Og fannst við vera á vissan hátt hærra settir en flestir aðrir.



Allar myndavélar fóru á loft þegar upp var komið.



Sumir skoðuðu landið úr "svolítið háþróaðri og nærdragandi sjónglerstækjum."



Þarna er horft í norður ofan á Reykjavík og nágrenni. En vel sást til Snæfellsjökuls, Akraness, Akrafjalls, Skarðsheiðar og Esjunnar.



Svo er horft til suður þar sem Þorlákshöfn virðist vera skammt undan.



Hellisheiðin er langt fyrir neðan okkur. Fjallið vinstra megin er Skálafell en hægra megin Meitillinn. Í fjarska og u.þ.b. fyrir miðju glittir í Eyjafjöllin og Eyjafjallajökul, en ég hugsa oft og mikið til Víkur og Mýrdalsins sem er enn austar, og ein allra, allra fallegasta sveit landsins. Þar er hægt að skemmtilegum myndum á góðum degi af hinu sérstaka landslagi sem prýðir þennan landshluta, og þangað ætla ég að fara í sumar. Við sáum líka Langjökul, Heklu, og fleiri athyglisverða staði ofan af fjallinu, en vegna þess hvað það var mikið mistur náðust engar "skynsamlegar" myndir af þeim. Einnig gægðust Vestmannaeyjar upp úr haffletinum og minntu á tilveru sína þó að mér sé hún bæði vel og að góðu kunn. Í vestrinu gátum við svo horft niður á kollinn á Keili og langleiðina til Keflavíkur. Ég hafði á orði að Keili hefði mig langað til að klífa en hann væri víst bara einhver risahundaþúfa. Mér var þá sagt af þeim sem reynt hafa að hann væri erfiðari en hæðin segði til um því hann væri svo "laus í sér.



En nú var kominn tími til að "lækka flugið" og halda af stað heim á leið og Magnús tekur til stafanna.



Það er ekki endilega alltaf auðveldara að fara niður brattann en upp. Það fengum við að reyna í þetta skiptið.



Það var farið að verða svolítið kvölsett þegar lokaáfanginn var eftir á leiðinni niður að bílunum í malarnámunni, en menn voru bæði þreyttir og kátir í senn yfir framtakinu.



Svo varð ég auðvitað að mynda hjálpartækin í sínu rétta umhverfi sem reyndust mér svo vel í ferðinni.

Ég var á dögunum að gera svolítinn óskalista yfir þá staði sem mig langar að heimsækja í sumar, og eftir nokkrar vangaveltur varð til eins konar topp-tíu listi. Hann er ekki settur fram í tímaröð, heldur er frekar um að ræða upptalningu frá norðri til suðurs, því líklegt þykir mér að Mýrdalurinn, Esjan og Hafnarfjall verði t.d. á undan Hólshyrnu í tímaröðinni þegar af stað verður farið.

Hólshyrnan (hressilegur labbitúr með Steingrími og myndavélunum okkar.)
Héðinsfjörður yfir Hestsskarð (en þangað hef ég aldrei komið.)
Illviðrishnjúkur (því ég átti enga myndavél síðast þegar ég fór)
Selvík og Kálfsdalur (sem þangað kom ég síðast fyrir 40 árum.)
Hafnarfjall (til að ná góðri mynd af Borgarnesi.)
Akrafjall (til að ná góðri mynd af Akranesi.)
Esjan (til að geta sagt að ég hafi farið þangað upp, og til að ná góðri mynd af Reykjavík.)
Reykjaneshringurinn (því það er fulllangt síðan síðast.)
Virkjanaleiðin upp eftir Þjórsá (til að telja hvað virkjanirnar eru margar, eða til að reyna að átta sig á hvað þær gætu hugsanlega orðið margar.)
Vík og Mýrdalurinn ásamt næsta nágrenni (því þar er bæði landið fagurt og fólkið gott.)

Það er svo rétt að geta þess að fleiri myndir eru á Ljósmyndasíðunni í möppu merkt Úlfarsfell og Vífilfell.

Svo er bara að sjá til hvað verður búið og gert og hvað ekki þegar haustið nálgast...

06.05.2007 04:05

Siglfirðingar á förnum vegi.


371. Þegar ég á lausa stund og finn þörf hjá mér að blogga svolítið en man ekki eftir neinu sem mig langar til að taka fyrir, hefur það reynst óbrigðult ráð að skoða nokkrar myndir úr hinu sístækkandi stafræna ljósmyndasafni. Bæði hef ég smátt og smátt verið að skanna hinar eldri, og svo tek ég allt frá 200 og jafnvel upp í 400 nýjar myndir í hverjum einasta mánuði.

Þegar ég var á dögunum að skoða mig um í möppunni sem merkt er "Ljósmyndir," datt mér í hug að taka saman nokkrar myndir af Siglfirðinum sem ég hef kynnst (að vísu misvel) í gegn um tíðina. Suma er ekki ólíklegt að hitta fyrir á góðum degi á röltinu við Ráðhústorgið, en aðra rekumst við á fjarri heimahögunum. Flestir eru þessa heims, en einhverjir hafa tekið sér far með ferjumanninum dularfulla sem flytur okkur öll að lokum yfir fljótið mikla.

Myndirnar sem eru teknar við ýmsar aðstæður og á ýmsum tímum (sólarhringsins,) endurspegla sumar hverjar staðinn, stundina og kringumstæðurnar. Þess vegna þykir mér rétt að benda þeim á sem vilja ekki sjá sjálfa(n) sig í þessu safni að hafa samband netleiðis í leor@simnet.is eða í 863-9776, og ég mun þá láta vikomandi hverfa með það sama ef vilji þeirra stendur til þess.

Hér að neðan getur að líta svolítið sýnishorn af því sem sjá má ef farið er inn á Myndaalbúm í möppu sem merkt er Siglfirðingar á förnum vegi. Afgangurinn skýrir sig sjálfur og frekari orð því með öllu óþörf.













































+



















































































































Og eins og áður er sagt er þetta aðeins svolítið sýnishorn af því sem sjá má ef farið er inn á Myndaalbúm í möppu sem merkt er Siglfirðingar á förnum vegi.

04.05.2007 03:06

Meðan bærinn sefur...



370. Meðan bærinn sefur, gerist margt undarlegt sem enginn sér?

02.05.2007 18:19

Barnapía.



369. "Geturðu passað afabörnin í smá stund?"
Það var hún Arna Rut sem var í símanum.
Mér finnst hið bestra mál að geta orðið að liði á slíkum stundum og auðvitað vildi ég það.
En það er auðvitað spurning hvort ég kann að vera barnapía, því maður ryðgar nú í þeim fræðum eins og öðrum þegar árin líða.
"Jú, jú, á ég að koma strax?"
" Nei komdu klukkan hálffjögur. Þú getur bara farið með þau í bíltúr."
Við vissum bæði hvað það þýddi og þessi hvatvísa og ófeimna stelpa hló glettnislega og spurði hvort ég myndi nokkuð gleyma hvað tímanum liði, en ég kvaðst vilja láta reyna á hversu mikið eða lítið kalkaður ég væri orðinn.
Ég klikkaði ekki á mætingunni, a.m.k. ekki að þessu sinni, og stólunum var komið fyrir í aftursætinu á Micrunni og svo var lagt af stað í bíltúrinn.
Og eins og búast mátti við leið ekki á löngum tíma þar til allt var orðið hljótt í aftursætinu. Það þurfti því ekki mikið fyrir hlutunum að hafa og það dróst að ég yrði kallaður til baka, en þegar það gerðist fannst mér sanngjarnt að koma við í næstu sjoppu og versla eins og tvo frostpinna svona rétt fyrir kvöldmatinn, því það hlýtur að vara gott að vakna við slíkt. En svo lendir það auðvitað á foreldrunum að koma útsofnum afkvæmum sínum í ró skömmu síðar...



Afabörnin eru hins vegar að öllu jöfnu hinir mestu fjörkálfar og miklir orkuboltar...

  • 1

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 807
Gestir í dag: 114
Flettingar í gær: 575
Gestir í gær: 91
Samtals flettingar: 303604
Samtals gestir: 32844
Tölur uppfærðar: 19.3.2024 11:14:00
clockhere

Tenglar

Eldra efni