Færslur: 2007 Ágúst

22.08.2007 09:48

Ferðin austur í Mýrdal - fyrri hluti.

398.Það er búið að standa til í allt sumar að skreppa í Mýrdalinn og "slugsast" svolítið á leiðinni, því á þessum slóðum er margt að sjá, og verður kannski bara meira og meira því oftar sem farið er. Þessi syðsti hluti landsins hefur löngum heillað mig upp úr skónum því landslagið þarna er engu líkt. Jöklasýnin er hreinlega engu lík, og þessi klettóttu lágu fjöll sem rísa upp af sléttlendinu og eru græn því sem næst upp á brúnir fá mann til að seilast fullan lotningar eftir myndavélinni. Það var þriðjudaginn 14. ágúst að við Magga lögðum land undir dekk og tilgangurinn var að skoða sem mest í þessum landshluta. Sól skein í heiði og það var hið ákjósanlegasta ferðaveður. Listinn var nokkuð langur fyrir aðeins einn dag, og mér þótti ólíklegt að hann yrði tæmdur þegar dagur yrði að kvöldi kominn. Á honum voru nokkrir afleggjarar í Landeyjum og undir Eyjafjöllum, hringurinn um Pétursey, vegurinn upp að Mýrdalsjökli, Dyrhólaey, Heiðardalur, Reynisfjall, Vík og Þakgil.



Þegar ekið er um Landeyjarnar virðast Vestmannaeyjar vera ótrúlega nálægt landi.



Svo er auðvitað hægt að draga þær enn nær, þannig að bærinn sjáist vel og það meigi jafnvel greina einstaka hús.



Eyjafjallajökull. - Ef farið er niður fyrir þjóðveginn sést enn betur til jökulsins.



Eyjafjallajökull. - Við ókum því niður að kirkjustaðnum Krossi sem stendur svolítið ofan við ströndina.



Þetta er bærinn Vatnshóll í Austur-Landeyjum. Þarna mætti að sjálfsögðu taka aðeins til á bæjarhólnum.



Núpsfjall stendur norðan við Fljótshlíðina og setur mikinn svip á þá fjallasýn sem við blasir frá þjóðveginum.



Horft inn Fljótshlíðina upp Markarfljót og Markarkarfljótsaura í áttina til Þórsmerkur. Eyjafjallajökull til hægri



Ef ekið er nokkra tugi metra inn Þórsmerkurveg er komið að Seljalandsfossi. Hér situr sá sem þetta ritar og virðir fyrir sér fossinn. (Ljósmynd: Magga)



Við ókum upp eftir veginum sem liggur upp á Hamragarðaheiði, en stöldruðum við  á brúninni fyrir ofan Seljaland. Þaðan er gott útsýni til allra átta. Hér er horft yfir Markarfljótsaura og til Vestmannaeyja..



Gljúfrafoss er rétt norðan við Seljalandsfoss. Ekki er annað hægt en að staldra við og mynda þetta magnaða náttúrufyrirbæri.



Og rétt austan við fossinn er þessi bær, en við byggingu hans hefur torfið, þetta gamla byggingarefni verið talsvert notað.



Við gengum upp að Paradísarhelli, en þangað liggur ágætlega merktur stígur af þjóðveginum. Það hittum við fyrir tvo stráka sem héldu sig greinilega að mestu við hellismunnann.
"Það er fýlsungi þarna inni og við viljum ekkert að hann sé að æla á okkur" sagði annar þerra.



Aðgengið hentar ekki hverjum sem er og ég lét það vera að príla þarna upp. Auðvitað sárlangaði mig að feta mig upp keðjuna, en það kom þrennt til sem aftraði mér frá því. Magga hefði staðið æpandi þarna fyrir neðan, fýlsunginn hefði eflaust ælt á mig og strákarnir hefðu farið að hlægja að mér ef ég hefði svo ekki ráðið við verkefnið.



Paradísarhellir er u.þ.b. 5,5 metrar að lengd og 3 metrar þar sem hann er breiðastur. Hellismunninn er frekar þröngur en þó er auðvelt að komast inn um hann eftir að hafa klifrað upp að honum.

Hellirinn einna þekktastur fyrir að hafa verið dvalarstaður Barna-hjalta sem var ástmaður og síðar eiginmaður Önnu stórbónda á Stóru-Borg. 

Í sögunni um Önnu á Stóru?Borg kemur Paradísarhellir mjög við sögu. Anna sem var auðkona og af höfðingjaættum lagði ástir á smaladreng er Hjalti hét. Páll bróðir Önnu reiddist mjög þessar ástir og vildi ná til Hjalta. Hann faldist í Paradísarhelli í fjölda ára og sagt er að hann hafi getið með Önnu 8 börn þaðan. Sagan endar á því að Páll bróðir fellur með hesti í Markarfljóti og kemur þá Hjalti til og bjargar honum og var hann tekinn í sátt upp úr því.

Jón Trausti dvaldi hjá Þorvaldi stórbónda á Þorvaldseyri upp úr aldamótunum 1900, og þar skrifaði bókina "Anna á Stóru-Borg" upp úr aldamótunum1900 en



Og á netinu rakst ég á eftirfarandi "þjóðsögu" sem sagt er að Jón Trausti hafi byggt sögu sína á auk munnmæla.

Vigfús Erlendsson á Hlíðarenda, lögmaður og hirðstjóri 1515, var maður ákaflega ríkur og mikill höfðingi. Hann átti Guðrúnu Pálsdóttir lögmanns á Skarði Jónssonar. Þeirra dætur voru tvær; Guðríður kona Sæmundar í Ási og Anna var önnur. Hún fór ógift frá föður sínum og að Stóruborg undir Eyjafjöllum, eignarjörðu sinni sem þá var einhver mesta jörð undir Fjöllum. Heyrt hefi ég að þar hafi verið sextíu hurðir á hjörum; er það oft talið um stærð bæja hvað margar voru hurðir á hjörum.

Anna gjörðist auðkona hin mesta og er það talið til marks um búrisnu hennar að hún hafði þrjú selstæðin: eitt í Seljunum, annað á Ljósadíla og þriðja á Langanesi. Sagt er að margir hafi beðið hennar, en hún verið mannvönd og engum tekið.

Hjá henni var smaladrengur sá er Hjalti hét Magnússon, lítilsigldur, en félegur. Einu sinni í kalsaregni um sumar eitt hafði Hjalti verið yfir fé og kom heim húðhrakinn og votur. Voru þá piltar hennar að nota rekjuna. Slógu þeir nú upp á glens við Hjalta og buðu honum ærið fé til að fara nú heim eins og hann var hrakinn og upp í hjá húsmóðurinni. Hjalti fór nú heim og upp í loftstigann, en er hann rak upp höfuðið leit Anna við honum. Varð hann þá inurðarlítill og dró sig í hlé. Þannig fór í þrjár reisur. Anna tók eftir þessu óvanalega einurðarleysi Hjalta og segir: ?Hjalti! Hvað er þér?? Hann segir henni hvað vinnumenn hennar hefði lofað honum. ?Tíndu þá af þér leppana, drengur minn, og komdu upp í,? segir hún. Afklæðir hann sig nú og fer upp í. Sofa þau nú fram eftir deginum eins og þeim líkar og er mælt henni hafði líkað drengurinn allvel er honum fór að hlýna. Svo sendir hún til piltanna og biður þá sjá hvar Hjalti var; heimtar nú af þeim það þeir lofuðu og máttu þeir til að inna það af hendi, svo var hún ráðrík.

Oft hafði Anna haft það um orð hvað fögur væri augu í Hjalta. Eftir þetta sænguðu þau saman og fóru að eiga börn. Þessu reiddist Vigfús faðir hennar svo ákaflega að hann sat um líf Hjalta og setti allar þverspyrnur við veru hans þar sem hann kunni. Hafðist Hjalti við í ýmsum stöðum. Mælt er að hellrar væru fyrir framan Stóruborg og væri þaðan stutter sprettur heiman úr Stóruborgarhólnum. Voru þessir hellar kallaðir Skiphellrar því þar settu menn skip sín inn í. Þar hafðist Hjalti við um stund. Hest átti hann brúnan að lit, mesta afbragð; var það lífhestur hans. Þetta frétti Vigfús faðir hennar og fór þangað með margmenni. Kom hann að Hjalta þarna í hellirnum. Hafði hann ekki annað ráð en hlaupa á bak Brún og hleypti undan. Eltu menn hann, en Brúnn var svo góður hestur að enginn sá á eftir honum. Þá bjó Eyjólfur í Dal frændi hennar Einarsson og Hólmfríður Erlendsdóttur, systir Vigfúss hirðstjóra. Eyjólfur skaut skjólshúsi yfir hann. Sumir segja hann kæmi honum til Markúsar Jónssonar á Núpi sem átti Sesilíu Einarsdóttir á Múla, systur Eyjólfs, en Markús keypti trúnað bónda þess er bjó á Fit og kæmi hann honum í Fitjarhellir og skammtaði honum mat. Mátti hann vitja hans á vissum stað. Þarna var hann svo árum skipti, en er hann varð sýkn nefndi hann hellirinn i virðingarskyni Paradís. Hann er nú ýmist nefndur Paradísar eða
Fitjarhellir. Svona var mér sagt þegar ég var ungur. Aðrir segja hann hafi haft aðsetur sitt
í helli þeim á Seljalandi er kallaður er Kverkarhellir og verið undir vernd Seljalandsbóndans. En þó hann væri svona ofsóktur var hann þó alltaf með annan fótinn í Stóruborg og var að eiga börn með Önnu. Sagt hefir mér verið að þau hafi átt svona saman átta börn.

Einu sinni kom Vigfús lögmaður faðir hennar svo að henni er Hjalti var hjá henni að hún sá ekki annað undanbragð en læsa hann í kistu sinni. Kom þá Vigfús að og leitaði Hjalta þar honum kom til hugar. Sat Anna á kistu sinni og gaf sig ekkert að því. Vigfús spurði hana hvað væri í kistu þessari. Hún kvað það barnaplögg sín. Svo varð faðir hennar reiður þessu öllu saman að hann gjörði hana arflausa.




Þetta eru litlu hellatröllin þeir Kristján og Óli, en þeir sögðust vera í sveit á bænum Steinar sem er þarna skammt fyrir austan. Þeir eru báðir Eyjapeyjar, en Kristján er þó fyrir nokkru fluttur til Þorlákshafnar.



Þessi litli en laglegi foss er við Skálaveg sem liggur m.a. að Ásólfsskála.



Þorvaldseyri þar sem sagan um Önnu á Stóru-Borg var skrifuð.



Horft til austurs frá Þorvadseyri.



Raufarfellsvegur liggur til norðurs frá Hringveginum.



Á þessu máða skilti stendur að Seljavallalaug hinni eldri hafi verið lokað. En sökum ókunnugleika fundum við ekki þessa sundlaug, sem mér skilst að sé gerð að mestu leyti af náttúrunnar hendi. En nú hafa borist nánari upplýsingar um staðsetninguna, svo að í næstu austurferð verður hún á listanum yfir þá staði sem vilji stendur til að skoða.



"Landslag væri lítils virði, ef það héti ekki neitt."
Svo mælti skáldið forðum, en hér er það Núpurinn undir Eyjafjallajökli sem gægist upp fyrir Lambafellið. 



Þetta mun vera bærinn Selkot með Rauðafellið í baksýn.



Þarna inn í gilið og til hægri liggur leiðin inn að Seljavallalaug.



Rauðafell 2. Einhvern tíma hefur staðið hér bær. Siðan hefur verið byggt við hann einu sinni, og síðan aftur og aftur og aftur... 



Fyrir framan bæinn mátti sjá þessi gömlu landbúnaðartæki sem nú hafa lokið sínu hlutverki.



Á leiðinni út úr Raufafellshringnum austan megin var þessi þreytti vörubíll rétt við veginn.



Og einnig þessi. Ekki gat ég með nokkru móti áttað mig á tegundunum, og litlar líkur verða að teljast á að þeir verði skoðaðir í ár.



Þetta eru á vissan hátt skemmtilegar andstæður sem þarna getur að líta. Þessir gömlu vinnuþjarkar sem komnir eru að fótum eða öllu heldur dekkjum fram úti í guðsgrænni náttúrunni sem á hverju vori vaknar til lífsins meðan þeir verða sífellt hrörlegri.



Hér sést vel yfir "stjórntæki bifreiðarinnar," ásamt sæti ökumanns og farþega sem einhvern tíma hafa verið bólstruð og þægileg.



Skammt vestan Skóga rís þessi Drangur upp úr sléttlendinu undir Drangshlíð og við samnefnda bæi. Þetta er sannkallað náttúrunnar undur og stórmerki, og ekki gerir gamli bærinn sem kúrir þarna útsýnið lakara. Svona landslag blandað mannanna verkum mætti halda að væri aðeins til í ævintýrunum, en það er þá alla vega líka til undir Eyjafjöllum.



Skammt undan eru svo þessar mannvistarmenjar. Við veginn er gott að staldra við því þar er rúmgott stæði eða öllu heldur vegur við hliðina á veginum sem augljóst er að margir hafa nýtt sér. Líklega er búið að taka ófáar ljósmyndirnar þaðan.



Maður var þarna á gangi á þjóðveginum sem ég hélt í fyrstu að væri ferðamaður á puttanum. En þetta reyndist vera kennari sem hafði orðið fyrir því óláni að bíll hans hafði bilað þarna skammt frá. Hann var ættaður þarna úr sveitinni og því vel kunnugur staðháttum og benti okkur á að fara niður að Eyvindarhólum, því þaðan væri fjallasýnin betri sem reyndist rétt vera.



Séð til austurs skammt ofan Eyvindarhóla. Pétursey lengst til hægri.



Eftir ferðina niður eftir afleggjaranum lá leiðina sömu leið til baka.



Við komum aftur upp á þjóðveg númer eitt og nú var stutt í næsta áfangastað.  



Þaðan var stutt í hinn glæsilega Skógarfoss. Furst var tekin ein mynd af honum.



Og svo var tekin önnur þar sem ég fékk að vera með.



Síðan varð að færa sig nær til að ná regnboganum þar sem sólarljósið brotnaði í vatnsúðanum.



Eftir það þurfti ég auðvitað að labba upp allar tröppurnar sem liggja upp á útsýnispallinn þar sem Skógáin steypist fram af brúninni. Þaðan er gott útsýni, en grunur minn er að þangað fari alls ekki allir þeir sem staldra við ryrir neðan fossinn.



Ég stalst auðvitað aðeins fram fyrir girðinguna og reyndi að mynda fossinn ofan frá, en þarna er allt rennandi blautt og að sama skapi hált svo ég hætti mér ekki alveg fram á brúnina.



Og það er þó nokkuð hátt niður.



En óneitanlega er þessi sýn tilkomumikil.



En það kom að því að það var tímabært skokka niður þrepin að halda áfram för því margt var enn ógert og óséð í þessari ferð. - Hafi einhver örnefni skolast til í kollinum á mér og lent á röngum stöðum, einhver fróðleikur sem við mætti bæta eða bara hvað sem er, eru allar ábendingar vel þegnar.

Fleiri myndir í myndaalbúmi í möppu merkt "Mýrdalur og fleiri góðir staðir."

19.08.2007 23:55

Leó Ingi þrítugur.

 

397. Í dag 19. ágúst er Leó jr. þrítugur. Af því tilefni fóru nokkrir vinir og félagar hans ásamt pabba gamla á "Einar Ben" í gærkvöldi og gæddu sér á hvorki meira né minna en helium níu réttum af alíslenskum matseðli þar sem víða var komið við. Mér varð svolítið starsýnt ofan í fyrsta diskinn, en þar gat að líta forréttinn sem var marimeruð Langvía. Dökkrauður vöðvi á stærð við sveskju, svolítið grænmeti og skrautleg teikning í kring um "fuglinn" gerð með fagurlitaðri sósu. Síðan komu þeir hver á fætur öðrum en áttu þó það sameiginlegt að magnið var ekki mikið hverju sinni, en fjöldi réttanna gerði það að verkum að menn fóru bæði saddir og afar sáttir út. Laust fyrir klukkan 11 kom þjónninn að borðinu og spurði hvort við vildum ekki skreppa út fyrir og sjá flugeldasýninguna sem færi rétt að hefjast. Við gætum síðan komið aftur að henni lokinni og haldið áfram þar sem frá væri horfið. Það þurfti ekki að minnast á þessa frábæru hugmynd nema einu sinni og við gengum út í menningarnóttina, röltum niður að höfn og horfðum á mikilfenglegan ljósaganginn. Síðan var snúið á "Einar" á ný því enn voru tveir eftir. Þegar ég kom heim áttaði ég mig á að þetta er líklega lengsti kvöldverður í tíma sem ég hefi upplifað til þessa. Það leið rúmur fimm og hálfur tíma frá því að ég fór að heiman og þar til ég renndi aftur inn á stæðið, en tíminn hafði liðið fljótt með skemmtilegu fólki.



Frá vinstri: Sá sem þetta ritar, Óli Símon, afmælisbarnið Leó Ingi, Bjarni (frændi) Kristjánsson og Fanný Guðbjörg.

Við fengum m.a. ótrúlega góða humarsúpu en í alveg einstaklega skemmtilega lagaðri súpuskál. Hún (skálin) minnti helst á leikmun úr kvikmynd byggða á gallsúrri vísindaskáldsögu af ódýrustu gerð frá sjötta áratugnum. Svona voru nefnilega fljúgandi diskar í laginu á þeim tíma sem svifu um hvíta tjaldið fullir af innrásarliði utan úr geimnum sem samanstóð af asnalegum grænum körlum með loftnet upp úr höfðinu. Þær (skálarnar) hefðu líka getað nýst afar höfuðsmáum dvergum sem barðastór hattur ef þeim hefði verið snúið á hvolf.



Leó Ingi og Óli Símon lyfta augum sínum lotningarfullir til himins eða öllu heldur upp til springandi flugelda sem lýstu upp ágústnóttina.

Eftir því sem leið á kvöldið varð eins og flestum yrði heldur léttara um mál nema þá helst pabbanum sem sagði fátt en drakk bara sitt sprite. Og eftir því sem réttunum fjölgaði snérist umræðan meira og meira um matinn og hin óteljandi og fjölbreyttu fæðuafbrigði nútímamannsins. Leó Ingi sagði okkur hinum frá því að þegar hann vann í Fjallalambi á Kópaskeri, hafi ÞINDASTAPPA eitt sinn verið í matinn. Nokkuð sem fæst örugglega ekki í einni einustu búð á Íslandi og fáir vita að sé yfirleitt til. Þindastappa eins og hún var borin fram líktist helst eins konar kjötköku, og að sögn afmælisbarnsins var hún eitt af því besta sem það hafði nokkru sinni ofan í sig látið. Þetta leiddi síðan umræðuna á vafasamar slóðir, því nú vildu sumir toppa suma. Og áfram var rætt um afurðir hinnar rammíslensku sauðkindar, það sem þjóðin kjamsaði á með velþóknun í eina tíð og það sem hún étur ekki lengur.
"Er ekki hægt að búa til eitthvað verulega gott úr því sem nú er hent núorðið eins og t.d. lungum, heilum og fylgjum og markaðssetja það á svolítið nútímalegan hátt," spurði einn ónefndur félaganna við borðið.
Ég er ekki frá því að eftir þetta innskot hafi flestir borðað örlítið hægar, en það var allt í lagi því nóttin var ekki almennilega byrjuð ennþá.

En við hér í Hafnarfirðinum óskum afmælisbarninu til hamingju með áfangann.

18.08.2007 09:31

Draugurinn í Dyrhólaey.

396. Fyrir nokkru síðan kom Magnús Skarphéðinsson fram í Kastljósi og sýndi þjóðinni merkilegar ljósmyndir þar sem draugar og aðrar yfirskilvitlegar verur höfðu slæðst inn á. Í einu tilvikinu var meira segja um ljosálfa að ræða ef ég man rétt, en þeir flokkast líklega með sjaldgæfustu tegundum dulfullra fyrirbæra. Myndirnar lagði Magnús fram sem sönnun þess að slíkar verur væru á ferðinni í mannheimum og þó að mannskepnan yrði þeirra ekki alltaf var, væri erfiðara fyrir þær að gæta sín á myndavélalinsunni. Leitað var til sérfræðings, eða atvinnuljósmyndara og hann spurður álits. Hann taldi að um einhvers konar galla í myndinni væri að ræða. Til dæmis flögu eða óhreinindi á linsunni og kvað slíkt ekki svo mjög óalgengt. En Magnús hló við og vildi eyða sem minnstu af dýrmætum tíma sínum í að sannfæra vantrúaða. Skömmu síðar var draugurinn í Dyrhólaey afhjúpaður í öðrum Kastljósþætti.

Og þar sem ég var þarna á ferðinni á dögunum í fyrsta skipti á ævinni, þótti mér rétt að gefa mér góðan tíma til að skoða þetta stórkostlega náttúruundur sem Eyjan og umhverfi hennar er. Og þá rakst ég á drauginn hans Magnúsar og ákvað að kynnast honum betur.



"Þarna má sjá einhverja veru líða áfram eftir einhvers konar fjárgötu. Ög eins og sést glöggt ef myndin er skoðuð vel, hefur hún enga fætur heldur svífur áfram í lausu lofti." U.þ.b. þannig lýsti Magnús myndinni.



Ég gekk varlega nær og eftir svolítinn spotta smellti ég annarri mynd á fyrirbærið sem virtist enn hafa nokkuð mannlegar útlínur.



En eftir því sem nær dró sannfærðist ég um að Magnúsi hefði tekist bærilega að gera sig að fífli í umræddum þætti.



Og þegar hér var komið fannst mér ekki leika nokkur vafi á að svo var.



Og hér sést "fjárgatan" vel sem draugurinn í Dyrhólaey líður eftir í lausu lofti.



En þetta er hins vegar miklu dularfyllra, óútskýranlegra og öllu illskeyttara kvikindi sem náðist mynd af við brúna yfir Klifanda sem er þarna skammt frá. Ég hyggst senda Magnúsi Skarphéðinssyni formanni sálarrannsóknarfélagsins þessa mynd svo hann geti lagt hana fram í Kastljósi og bjargað andlitinu frá því síðast. Þá getur hann sjokkerað þjóðina með þessum óræku og óhrekjanlegu sönnunum um Klifandamóra sem á það til að vera hálfgagnsær að hluta eða öllu leyti, kemur stökkvandi og æpandi að fólki og leggur ljósmyndara sérstaklega í einelti eins og hér sést með afgerandi hætti.

15.08.2007 21:27

Skreppitúr á Þingvelli.

395. Í upphafi ferðarinnar var talað um svolítinn bíltúr, en svo var minnst á að kíkja hvort einhver ber væri að finna við Hafravatn eða þar í grenndinni. Svo gleymdist ekki bara að beygja í áttina að Hafravatni, heldur var haldið í austurátt eftir Nesjavallavegi á fullri ferð en þó innan löglegra hraðamarka. Þarna er landslagið skemmtilegt svo ekki sé meira sagt og innan tíðar var slegið af og rennt inn á stæði.



Þarna eru margar og skemmtilegar gönguleiðir í allar áttir.



En við Gulli sáum lítið fell eða klett einn ógurlegan þarna við veginn sem virtist við fyrstu sýn ókleifur með öllu. Þess vegna fannst okkur sjálfsagt að klöngrast upp á hann.



Það er enginn beinn og breiður vegur.



Og hvorki vegrið, skilti né neinar merkingar, bara þröngt einstigið.



Það var hins vegar þó nokkuð hátt niður.



Og upp fóru menn.



Og hreyktu sér sigurreifir á næsta tindinum.



Það gerðu líka fleiri og það svo að undir tók í fjöllunum, - við nefnum engin nöfn (mín vegna.)



Svo voru teknar fleiri myndir.



Og við feðgarnir skiptumst á að sitja fyrir.



Og mikið rétt, þetta er Þingvallavatn sem er í baksýn.



En hinum megin liggr vegurinn til Nesjavalla.



"Komdu niður kvað hún amma,
komdu niður sögðu pabbi og mamma."



Ég féllst á að koma niður þegar búið var að taka nokkrar myndir til viðbótar.



Sólin skein og menn orðnir heitir eftir gönguna.



Svo komum við að útsýnispalli sem er fyrir ofan Nesjavelli.



Við beygðum til hægri og ókum suður Grafninginn. Þetta er líklega með flottustu kirkjustæðum en mér hefur ekki tekist að finna út hvað kirkjan heitir. - Allar upplýsingar vel þegnar.



Við veginn sem liggur fyrir ofan kirkjuna er þessi kross. Skv. mínum upplýsingum var hann settur upp eftir hörmulegt bílslys sem þarna varð. Nokkurn tíma á eftir var mikið rætt um nauðsyn þess að gera úrbætur á þessum hættulega vegi en síðan sofnaði sú umræða.



Og þarna er útilífsmiðstöð skáta við Úlfljótsvatn. Hér hafa líklega verið kyrjaðir rúmlega nokkrir skátasöngvar í það heila.



Þegar farið er yfir Sogið er Ljósafossvirkjun á vinstri hönd.



Og Írafossvirkjun til þeirrar hægri.



Þetta er Steingrímsstöð við Úlfljótsvatn sem fær vatn úr Þingvallavatni sem stendur hærra. Stöðvarhúsið stendur undir svolitlu hæðardragi sem skilur að þessi vötn, en í gegn um það kemur vatnið sem knýr virkjunina. Við fórum upp á hæðina og lituðumst um.



Yfirfallið úr Þingvallavatni virðist hafa nartað í bergið því það er farið að slúta yfir vatnið.



Gott útsýni er ofan af hæðinni yfir sumarbústaðina við Þingvallavatn.



Einnig yfir lokubúnaðinn sem tilheyrir virkjuninni.



Og inntakið fyrir Steingrímsstöð.
En þarna á hæðinni var líka talsvert af bláberjum og til allrar hamingju var hæfilega stórt kökubox í skottinu. Það var því lagst yfir lyngið og boxið fyllt.



"Þar sem að Öxará rennur,
ofan í Almannagjá."
En þar var næsti viðkomustaður. Gulli gerði sig líklegann til að framkvæma faglega úttekt á ferskleika og hitastigi árinnar.



Sem hann og gerði.



Mig langaði hins vegar að hreykja mér svolítið fyrir linsuopið en í hæfilegri fjarlægð þó.
Fyrst þarna á klettinum.



En síðan upp við brún Öxarárfoss.



Síðan var svæðið neðan gjárinnar kvatt og ekið upp fyrir hana og að þjónustumiðstöðinni þar sem útsýnispallurinn er.



Og útsýnispallurinn stendur undir nafni því þaðan er gaman að horfa enda margt að sjá.



Kirkjan og tilheyrandi eru borðleggjandi efniviður í póstkort.



Ef maður stelst aðeins útfyrir handriðið og kíkir niður á botn gjárinnar má sjá að það er svolítið hátt niður.



Það er ekkert skrýtið þó hingað liggji straumur fólks, þetta er hrikalega flott.



Þetta er þekktasti hluti gjárinnar og sá sem yfirleitt sést á öllum myndum, en Almannagjá nær allmarga kílómetra inn til landsins og nú er verið að lengja og laga gangstígana upp eftir henni svo líklegt er að fleiri leggi leið sína lengra til norðurs, enda full ástæða til.



Á pallinum voru samankomnir fulltrúar fjölmargra þjóða og mig grunar að ég sá eini íslenskumælandi í hópnum, en allt gott og blessað um það að segja.



Á leiðinni heim mátti sjá hvernig lágskýin gægðust upp fyrir fjallabrún Esjunnar og fóru síðan að "leka" niður hlíðarnar. Þetta var svolítið sérstakt og skemmtilegt sjónarspil.



En þá var bara eftir að koma við í búð og kaupa svolítið skyr.

Og miklu, miklu fleiri myndir eru inni á myndaalbúmi í möppu merkt "Þingvellir 2007."

13.08.2007 23:23

Þorskur á þurru landi.

394. Í vor fór ég eins og svo oft áður í svolítinn bíltúr og hafði myndavélina meðferðis. Ég ók í gegn um Vellina sem er nýjasta hverfið í Hafnarfirði og inn á veginn sem liggur til Krýsuvíkur. Þegar ég hafði skammt farið kom ég að fiskhjöllum og beygði inn á stæði og rölti að þeim. Ég skoðaði þá og nánasta umhverfi þeirra, tók mikið af skemmtilegum myndum og það var þá sem ég tók eftir þessum vesaling sem lá á jörðinni og ekki var betur séð en að hann væri alveg steindauður.



Ég rak tána í hann en það breytti engu, ég varð ekki var við nokkurt lífsmark. Hann hreyfði sig ekki og þegar betur að gáð, lágu fleiri úr fjölskyldu hans þarna á víð og dreif um jörðina. Ég horfði svolitla stund á hópinn og allt var kyrrt og hljótt. Það heyrist aðeins svolítið skrjáf í tómum plastpoka sem hékk á ryðguðum nagla á staur þarna skammt frá. Hann hreyfðist lítillega í hægum og hljóðlátum blænum sem strauk blíðlega á kinn en var að öðru leyti mjög svo aðgerðarlítill. Það hvarflaði að mér að sú speki ætti ef til vill við að "þeir sem vita meira en aðrir, hafa líka vit á að þegja," en líklega var það ekki málið í þessu tilfelli.
Mér fannst þetta vera mikil kyrrðarinnar stund og ég velti fyrir mér hvað væri til ráða.

Ég gæti alla vega tekið mynd af greyinu og reynt að "fótósjoppa" í hann svolítið líf.

08.08.2007 02:37

Síldarævintýri 2007

393. Að sjálfsögðu var haldið á Síldarævintýri á Siglufirði um verslunarmannahelgina eins og undanfarin ár. Það eru þó ekki endilega skemmtiatriðin og einhverjar uppákomur sem draga mig á heimaslóðir ár eftir ár, heldur miklu frekar það að sjá og hitta allt fólkið sem kemur þarna af sömu ástæðu og ég. Fólkið sem býr velflest á sama landshorni og ég, en ég rekst aldrei á það á þeim slóðum svo undarlega sem það hljómar. Hér að neðan eru nokkur sýnishorn frá nýliðinni helgi og flestar myndirnar geta líklega talað fyrir sig.



Eitt af því fyrsta sem fyrir augu bar var þessi Rússi sem var auglýstur til sölu, en að vísu vantaði verðhugmyndina á auglýsinguna. Gaman væri að hafa einhverjar tölulegar upplýsingar um þá hlið málsins.



Tveir menn með stórar myndavélar. - Jónsi (t.v.) flutti frá Siglufirði þegar hann var 10 ára en er vel meðvitaður um ræturnar. Hann var einn af þeim sem gisti á Aðalgötu 28 ásamt fjölskyldu sinni. Steingrím (Lífið á Sigló) á ekki að þurfa að kynna fyrir nokkrum manni, því hann er líklega einn frægasti Siglfirðingurinn í dag og er vel að því kominn.



Gulli (Gunnlaugur Óli Leósson) er hér með þær "copy" og "paste" eins og þær voru kallaðar til að byrja með. Það kom til af því að í upphafi þekktum við þær ekki í sundur en þegar frá leið varð það ljóst að fyrir utan háralitinn voru þær ekkert eins líkar og virtist vera við fyrstu sýn. Hin réttu nöfn þeirra eru Ólöf og Sunna.



Hérna er sá sem þetta ritar í verulega góðum félagsskap. Gunnhildur er sveitastúlka og prestsdóttir innan úr Skagafirði.



Þegar ekið er fram á fjörð eins og það er kallað, má sjá að Hólsáin sem heitir reyndar Fjarðará skv. skráðum heimildum, er betur brúuð en margar aðrar ár. Það er ekki bara ein brú sem hægt er að aka, heldur eru þær tvær hlið við hlið og báðar í bullandi notkun enn sem komið er.



Svona var veðrið á föstudag og laugardag. Lágskýjað, ýmist rigning eða skúrir og líklega ekkert sérlega spennandi að búa í litlu kúlutjaldi.



Allar sprænurnar í fjöllunum urðu að beljandi ám.



Ein af dellunum sem ég hef ánetjast er að safna skemmtilegum einkanúmerum, en það verður örugglega komið rækilega inn á það síðar. Hérna bættist eitt slíkt í safnið einmitt helgina sem svo margir taka sér frí.



Fyrri partinn á laugardagskvöldinu var spilaður blús á sviðinu við torgið og hann bara þrælskemmtilegur.



Það er vitað að Geirmundur sem spilaði í Allanum hefur ágætt viðskiptavit. Hann lagði auðvitað vel merktum hljómsveitarbílnum við hliðina á sviðinu svo hann væri fyrir hvers manns augum. Góð og ódýr auglýsing.

En þegar þennan sveiflukóng ber á góma dettur mér alltar gömul og skemmtilega saga í hug.
Fyrir allmörgum árum sendi ég lag í Sæluvikukeppnina á Króknum ásamt mörgum öðrum. Geirmundur fór hins vegar með sigur af hólmi, enda stóð hann betur að vígi en aðrir keppendur þar sem hann einn keppenda var með allt undirspil á geisladiski þar sem færustu popparar landsins lögðu honum lið. Ég lenti í fjórða sæti og þegar þeir sem náðu tíu efstu sætunum höfðu allir verið kallaðir upp á pallinn hallaði Geirmundur sér að mér og spurði: Bjóst þú kannski við að vinna?



Þetta eru þær Erla og Stína sem voru söngkonur Miðaldamanna árið 1979 eða sumarið á eftir Selmu. Samstarfið við þær var frábært í alla staði og væri hægt að segja margar skemmtilegar sögur frá þessu tímabili, en það bíður líklega betri tíma.



Þær stöllur Copy & Paste stilla sé upp fyrir framan sviðið og hljómsveitina Bermúda.



Hljómsveitin Bermúda var hins vegar alveg dúndurgóð. Sérstaka athygli mína vakti afburða góður bassaleikur og þegar ég gáði betur þekkti ég bassistann, því hann var á sínum tíma einn af betri viðskiptavinum mínum í Laugarásvideó.



Ég hitti Stjána Elíasar fyrir framan Bíóið og átti við hann stutt spjall. En það er svo annað mál að ég get með engu móti séð að hann hafi breyst nokkurn skapaðan hlut ef frá er talin klippingin, síðan hann trommaði með þeim Gumma Ingólfs, Bjössa Birgis og Jóhanni Skarp í hljómsveitinni Enterprise líklega árið 1970 eða þar um bil. Og það verður eiginlega að koma skýrt fram að Stjáni var drullugóður trommari, þungur og þéttur.



Og ég fékk fleiri stelpur í fangið. Ég hitti þau Guðmund Óla og hana Öllu sem settist hjá mér rétt á meðan myndatakan fór fram.



Ein af skemmtilegri hljómsveitum sem hafa verið "fundnar upp" á Siglufirði eru HELDRI MENN, sem rímar auðvitað ágætlega á móti eldri menn. Hér fyrir ofan er líklega einn af elstu trommurum landsins, ekki nema 83 ára gamall. Svenni Björns sem hefur munninn yfirleitt fyrir neðan nefið kynnti hann sem Ingimar Ringo Þorláksson. Og fyrir þá sem ekki vita þá er Snorri "Idol" bróðursonur Ingimars.



Svenni söngvari Björnsson er ofurtenór sem alltaf hefur haft gaman af því að syngja og langaði mikið til að vera með á uppgangsárum karlakórsins Vísis forðum. En það var hægara sagt en gert fyrir togarasjómann að sinna slíku og því varð allt slíkt að bíða.



Ég man ekki eftir að hafa vitað Ninna á Hring spila opinberlega meðan ég bjó á Sigló og heyrði ekki af því í allmörg ár eftir það. En núna er Ninni eins konar hirð-nikkari Síldarminjasafnsins og fellur vel inn í söltunarsýningarnar sem þar eru haldnar.



Hjalli Jóns fyrrum nágranni minn á Brekkunni flutti aftur í bæinn fyrir allnokkrum árum, en hann var lítillega í poppinu 1968-9 þegar hann spilaði með hljómsveitinni Max hinni fyrri. En í henni voru auk hans; Óli Ægirs (rakara), Stjáni Hauks (bróðir Finna Hauks á Bíóinu), Rabbi Erlends og Sverrir Elefsen.



Örfhenti gítarleikarinn Júlli er með sérsmíðaðan gítar fyrir þá sem þannig eru spilandi. En Júlli sækir sífellt í sig veðrið, enda farinn að læra til leiksins í Tónskólanum.



Jónsi bekkjarbróðir minn tók fullt, fullt af myndum þó hann sé ekki farinn að sýna mér þær ennþá. Ég verð líklega að rúlla suður í Reykjanesbæ og kíkja á hann þar sem hann býr í Innri-Njarðvík.



Kalli rafvirki (Latabæjar) var líka á Aðalgötunni um helgina. Það varð ekki annað séð en að hann fílaði bæinn og ævintýrið í botn.



Ég fór með Jónsa og Kalla inn í Skógrækt og hélt svolítinn fyrirlestur um Jóhann Þorvalds. Svo bætti ég við nokkrum smásögum um sjálfan mig frá því að ég var í unglingavinnunni og gróðursetti tré þarna sem ég þekki jafnvel enn.



Á sunnudeginum var komið fínt veður og allt eins og best varð á kosið. Og auðvitað var haldin söltunarsýning við síldarminjasafnið með öllu tilheyrandi.



Hún heitir Ingibjörg Þráinsdóttir, er kölluð Ibbý og hefur búið í Englandi síðan 1971 eða 2. Hún er dóttir Þráins Guðmundssonar fyrrv. skólastjóra við Laugalækjarskóla, en foreldrar hans voru Ingibjörg Jónsdóttir og Guðmundur Þorleifsson sem bjuggu að Hávegi 12b á Sigló. Og því má bæta við að Guðmundur þessi skóp ef svo má segja Guðmundartúnið sem flestir brekkubúar eiga að þekkja þó svo búið sé að grafa það allt í sundur í dag vegna gerðar snjóflóðavarnargarða. Hann heitir Duncan og er að koma til Íslands í fyrsta sinn.



Ég skrapp með Duncan og Jónsa upp í fjall eftir hinum forboðna einkavegi sem fer svo illa með bíla sem heita ekki jeppar eða eitthvað þaðan af stærra. Jónsi tók þessa mynd af mér þegar ég sá þennan stóreflis "grjóthnullung" sem ég varð auðvitað að príla upp á.



Eftir Bayonne skinkuna sem var í kvöldmatinn gat ég ekki setið á mér lengur, Ég varð bara að labba eitthvað upp í fjall. En þar sem ég var ekki orðinn alveg góður síðan ég snéri undir mér aðra löppina í Hróðmarstindum fyrr í sumar, varð að finna eitthvað auðvelt viðfangsefni. Ég ók ásamt Jónsa upp undir Siglufjarðarskarð og við gengum síðan þaðan til austurs í áttina að Súlum sem er fjall fyrir sunnan skógræktina í Skarðdal. En með því að aka svona langt upp eftir var ekki á brattan að sækja, heldur eiginlega "gönguskornar" skriðurnar þarna efst í dalnum. Það var mjög sérkennilegt að heyra lækjarniðinn undir fótum sér þó hvergi væri vætu að sjá, en þarna rennur talsvert vatn ofan í urðinni þó gróið sé yfir það fyrir árhundruðum.



Hann er alveg ótrúlega gulgrænn mosinn við mýrina og í kring um lækinn sem rennur úr vatninu ofar í fjallinu.



Það er líka eitthvað við að setjast á klettabrún og dingla fótunum fram af. Ég áttaði mig á ég var í sömu gömlu spariskónum og ég hafði verið í þegar ég asnaðist upp í Skollaskál og langt upp fyrir Fífladali um páskana. Það á ekki af greyjunum af ganga.



Þarna uppi er ekki allur snjór alveg farinn þó komið sé fram í ágúst.



Við klifruðum upp í hlíðina fyrir ofan Súlur og þarna stillir Jónsi sér upp fyrir neðan klettabrúnina.



Séð ofan í vatnið fyrir ofan Súlurnar og niður til Siglufjarðar. Frá þessu svæði er afburða gott útsýni yfir fjörðinn og bæinn og þess vegna ekki vitlaust að muna eftir hafa myndavélina meðferðis fyrir þá sem eiga þarna leið um.



En nú var kominn tími til að  halda til baka í átt að veginum sem lá upp í  Siglufjarðarskarð sem sjá má á myndinni hér að ofan.



Svona lítur urðin út sem þarf að ganga yfir og var eins gott að gæta vel að hvar drepið var niður fæti því að mjúkur mosinn á milli steinanna villti oft um fyrir hve djúpt var niður á fast. En sól gyllti tinda, það var hætt að rigna, himininn orðinn blár og dagurinn hafði verið góður.



Þetta er hann Oliver sem ætlaði með okkur Jónsa í fjallgönguna, en þegar hann kom að fyrstu lækjarsprænunni snéri hann við og hljóp aftur upp að bílnum í einum spretti þar sem hann beið þar til við komum aftur.



Og auðvitað þurftum við að  fara lengri leiðina til baka eða upp í Skarð, niður hinum megin, út Almenningana og um Strákagöng.



Þetta skilti er í Siglufjarðarskarði og fyrir þá sem geta ekki lesið svona smátt letur stendur:

Þann 15. maí 1935 hófst framkvæmd við vegagerðina undir verkstjórn Lúðvíks Kemp frá Illugastöðum í Skagafirði. Vegurinn var formlega tekinn í notkum 27. ágúst 1946.

Um Siglufjarðarskarð lá leiðin til Siglufjarðar frá landnámsöld þar til Strákagöng voru opnuð 10. nóvember 1967.

Frá 1935 til 1946 var unnið með handverkfærum og hestakerrum við vegagerðina. Það var svo sumarið 1946 að verulegt skrið komst á lokaáfanga vegagerðarinnar í skarðinu, en þá kom stórvirk jarðýta er ruddi síðasta spölinn og þann örðugasta milli vegaendanna að norðan og sunnan, en það var sjálfur Skarðskamburinn.

Yfir þessu skarði hafði síðan í heiðni andi nokkur illkynjaður er birtist í strokumynduðum skýstólpa er kom úr lofti niður ofan yfir hvað helst sem undir varð, maður, hestur eða hundur, og lá það dautt samstundis.

Annmarki þessi varaði fram á daga Þorleifs prófasts Skaftasonar. Ferðaðist hann þangað árið 1935 með ráði Steins biskups og nokkrir prestar með honum og vildismenn.

Hann hlóð altari úr grjóti annarsvegar í skarðinu og hélt þar messugjörð með vígslu og stefndi þaðan vondum öndum og í skarð það eður hraungjá er sunnar liggur í fjallsbrúninni og kallast Afglapaskarð. Þykir þar æ síðan ískyggilegt. Hefur og nokkrum sinnum orðið þangað mönnum gengið í villu og bana beðið.

Siglufjarðarskarð hefur aldrei síðan orðið mönnum að meini.

Mælti séra Þorleifur svo fyrir að hver sem yfir skarðið færi skyldi gjöra bæn sína við altarið og mundi þá vel duga. Sér þessu altari merki enn í dag.

Það er svo 15. júlí 2000 að sóknarprestur Siglfirðinga séra Bragi J. Ingibergsson framkvæmdi hjónavígslu í Siglufjarðarskarði að viðstöddum ættingjum og vinum brúðhjónanna.





Séð yfir til Skagafjarðar úr Siglufjarðarskarði.



Þegar við komum úr leiðangrinum var klukkan að verða ellefu. Sumir fóru að sofa en aðrir töldu það engan vegin tímabært. Þeirra á meðal voru þau Ólöf of Gulli.



Ég skrap út á torg um nóttina og hitti Jóa. Hann bennti mér á afturrúðuna á björgunarsveitarbílnum, en einhver hafði fundið sig knúinn að mölbrjóta hana.



Síðan varð ég auðvitað að kíkja á Pál Óskar í Bíóinu sem þeytti skífum af hjartans list. Fyrir utan hitti ég Svein Hjartar sem var trommari í hljómsveitinni Max hinni síðari. En Sveinn starfar núna sem ljósmyndari á höfuðborgarsvæðinu eftir að hafa numið þá listilegu iðju í Danaveldi.



Hvað hann Dóri er að skoða þarna veit ég ekki, en mér finnst þetta skot ekki með öllu ógalið.



Eigum við að segja að þessi mynd heiti: KJÓSANDINN OG ÞINGMAÐURINN    .



Á mánudeginum var haldið til berja inni í Skarðdal efst í skógrægtinni til að fá aðeins út á skyrið. Þarna er Magga að tína ber.



Ibbý settist aðeins niður innan um lyngið og grenið.



Duncan var alveg grjótharður í tínslunni.



Afraksturinn... Hmmmm. Ekki alveg orðin fullþroska en þau smökkuðust vel í KEA skyrinu.



Síðan var haldið niður í bæ frá stæðinu fyrir ofan Jóhannslund.



...Og tekin ein mynd frá Hóli áður en pakkað var saman og haldið suður á bóginn.

Og þetta er aðeins u.þ.b. helmingur þeirra mynda sem sjá má á Myndaalbúmi merkt "Síldarævintýri 2007."

02.08.2007 09:01

Hin síðari júlíferð á Sigló.

392. Við Magga skruppum á Sigló í örstutta vinnuferð. Það var farið eftir kvöldmat á mánudaginn sl. og komið til baka aðfararnótt miðvikudags. Það var skúrað og skrúbbað, þurrkað af og tekið til, borað og skrúfað, pípað og neglt. Valdi Gosa spurði hvort væri verið að gera partýklárt, og það má kannski segja að á vissan hátt hafi kjöftugum ratað satt orð á munn því það er von á fjölmenni í gistingu á Aðalgötuna á Síldarævintýri no. 17. Þess vegna gaf ég mér engan tíma til myndatöku á staðnum eins og venjulega, en bætti það kannski upp að einhverju leyti á leiðinni. Mikla litadýrð var að sjá ef litið var til himins, og vakti það sjónarspil náttúrunnar athygli mína. Ég stillti litlu vasamyndavélina eins og ég hafði vit til miðað við aðstæður og skaut nokkrum skotum ýmist að landslaginu sveipað rökkri miðsumarnæturinnar, eða á undarlega lituð skýin sem sum voru hæðar sinnar vegna enn böðuð sólarljósi dagsins sem var liðinn á jörðu niðri.



Horft út Skagafjörðinn.



Það rýkur úr Tindastól eins og það sé kviknað í honum. - Horft yfir Hegranesið.



Eldur í skýi yfir Blönduósi.



Horft út á Húnaflóann. Í efri skýjalögunum skin en sól dagsins sem leið, en lágskýjabakkinn læðist yfir landið úr norðri. Á morgun verða gráu tónarnir líklega allsráðandi.

Forynjur og fyrirbæri. Langur ormur liðast um loftin blá og það er engu líkara en hann opni ginið og ætli sér að steypa sér yfir okkur og gleypa vegfarendurnar sem eiga sér einskis ills von.



Er þetta geimskip að búa sig til lendingar?



Horft yfir Hrútafjarðarhálsinn. Yfir innsta hluta Strandasýslu og Laxárdalsheiðinni er þykkur skýjabakki, en fyrir ofan hann skín sólin enn. Sérstaka athygli mína vakti svarti skýhnoðrinn (til vinstri) sem er líklega rétt fyrir neðan sólargeislana og þess vegna komin nótt hjá honum.



Inn til landsins mátti sjá fullt tunglið sem var stundum á bak við skýjahulu, en fékk stundum að láta ljós "sitt" skína. En þegar dýpra er hugsað vitum við auðvitað að tunglið á sér ekkert eigið ljós heldur fær það að láni hjá sólinni og endurkastar því af góðsemi sinni til okkar jarðarbúa.

En nú fer að verða kominn tími á að drífa sig á Síldarævintýri á Sigló, en þar ætla ég að vera fram á þriðjudag.

  • 1

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 897
Gestir í dag: 117
Flettingar í gær: 575
Gestir í gær: 91
Samtals flettingar: 303694
Samtals gestir: 32847
Tölur uppfærðar: 19.3.2024 12:18:55
clockhere

Tenglar

Eldra efni