Færslur: 2011 Febrúar

28.02.2011 05:08

Hljóðvæðing ástarlífsins



696. Austur af Hellisheiðinni stendur myndarlegur kaupstaður við mikla elfu. Yfir hana liggur brú rétt við miðbæjarkjarnann sem þykir hafa verið mikið mannvirki síns tíma. Við eystri brúarsporðinn er gamalt samkomuhús sem hefur fengið svolitla andlitslyftinu á síðustu árum. Það er bæði bæjarprýði og gæti sagt margar skemmtilegar sögur frá liðinni tíð ef það hefði mál.

 

Fyrir nokkrum áratugum á blómaskeiði átta millimetra myndanna átti óformlegur og nafnlaus karlaklúbbur atvarf í húsinu og kom þar saman á mánudagskvöldum. Fyrir hópnum fór maður nokkur sem þótti alla jafna afar sérstakur í háttum, jafnvel sérlundaður á köflum og af margra mati svolítill einfari, í það minnsta meðan dagsbirtunnar naut við. En þegar kvöldaði gerðist hann yfirleitt öllu félagslyndari og á umræddum mánudagskvöldum hreinlega umbreyttist hann í einhvern allt annan mann. Þá var eins og áður er sagt, komið saman til að sinna þeim áhugamálum sem félagsstarfið snérist um.

 

Félagsstarfið eða áhugamálið var frekar einhæft. Það var sest niður og horft á átta millimetra stuttmyndir sem áttu það allar sameiginlegt að vera af vafasamara taginu. Það ríkti undantekningalítið grafarþögn á samkomunum meðan á sýningu stóð ef frá var talið suðið í sýningarvélinni og síðfrakkaklæddir karlarnir héldu niði í sér andanum og gáfu hvorki frá sér hósta né stunu. Þegar hér er komið sögu er rétt að það komi fram að þær myndir sem þarna voru sýndar voru þöglar. En Formaðurinn (með stóru effi) eins og hann var gjarnan kallaður vildi endilega bæta úr þessu sem hann taldi verulegan ágalla á sýningunum, en óx í augum sá kostnaður sem fylgdi því að "hljóðvæða" myndakvöldin.

 

Það var vissulega úr vöndu að ráða, en uppátækjasamir menn deyja aldrei ráðalausir. Það var því eitt mánudagskvöldið að Formaðurinn mætti mun betur undirbúinn en venjulega. Auk sýningavélarinnar sem var að venju kominn á sinn stað, hafði bæst við tækjaflotann segulbandstæki og það af stærri gerðinni. Hófst nú sýningin sem óhætt er að segja að hafi verið með mjög svo öðru sniði en venjulega. Síðklæddu karlana rak í rogastans því í staðin fyrir þrúgandi þögnina sem venjulega grúfði yfir salnum, færðist nú öllu meira líf í "söguþræðina" en þeir áttu að venjast og andrúmsloftið varð um leið mun léttara en áður hafði verið.

 

Formúlan við allan galdurinn reyndist ekki mjög flókin þegar málið var skoðað nánar. Formaðurinn las ágrip af aðdraganda hverrar sögu og innihaldslýsingu, ásamt samtölum byggðu á eigin handriti inn á segulgandið. Við það bætti hann öllum þeim hljóðum (og óhljóðum) allra "leikenda" og allt það sem hann taldi að ætti við myndefnið og dró ekkert af sér. Leikhljóðin létu þó sum hver svolítið undarlega í eyrum reynslubolta á sviði ástarmála, því Formaðurinn hafði enga slíka. Aðspurður sagði hann það hafa verið stæsta vandamálið að láta segulbandið passa í tíma við sýningarvélina, en eftir talsverðar tilraunir og æfingar kvaðst hann hafa náð nokkuð góðum tökum á því.

11.02.2011 11:58

Fucking

                       

695. Hvar langar þig mest til þess að eiga heima? Kannski í einhverjum litlum bæ með mjög undarlegu nafni? Ef svo er þá gæti Fucking í Austurríki verið draumastaðurinn, en það er lítið þorp 33 km. norður af Salzburg og 4 km. austur af Þýsku landamærunum. Elstu heimildir um um bæinn eru taldar vera frá því í kring um árið 1000, en þá var nafnið ritað með öðrum hætti eða Vucchingen. En tungumál þróast og breytast í aldanna rás og þetta er sem sagt ritháttur dagsins í dag. Íbúarnir munu hafa mjög ólíkar skoðanir á nafninu vegna hinnar engilsaxnesku merkingar orðsins sem er kannski ekkert skrýtið, og sumir vilja breyta nafni staðarins. Það mun þó talsvert af ferðafólki leggja leið sína þarna um vegna nafngiftarinnar að talið er, en það þýðir auðvitað auknar tekjur íbúunum til handa. Og ef einhver skyldi halda að þetta sé eitthvert grin, þá er alls ekki svo.

09.02.2011 19:45

Siglfirskir Skíðakappar

694. Ég hef undanfarið verið að gramsa í gömlum fréttum af Siglfirskum skíðamönnum sem gerðu garðinn frægan á velmektarárunum þegar Siglufjörður var sannkallað stórveldi á því sviði og bar ægishjálm yfir önnur byggðalög. Flestir þeir bestu voru frá þessum litla kaupstað norður við íshaf og þeir gerðu margir hverjir alveg ótrúlega hluti. Hér er svolítið sýnishorn...


Bjarni Þorgeirsson sagði frá því í viðtali nýlega þegar hann og Gunnar Þórðarson, heitinn, voru ræsar upp í Skarði á einu mótinu. Það var svakalega gott veður. Jóhann Vilbergsson fór fyrstur af stað í brautina og keyrði svo rosalega vel og fallega að það gleymdist að taka tímann á næsta keppanda á eftir honum sem var Svanberg Þórðarson. Svanberg fór af stað þegar Jonni var komin hálfa leið niður brautina eins og venja var, nema hvað tímaverðirnir gleyma að setja klukkuna af stað fyrir Svanberg. Jonni var aðalstjarnan í augum Siglfirðinga og þarna gleymdu menn sér við að horfa á hann renna fallega niður brautina. Steingrímur Kristinsson labbaði með Svanbergi upp aftur og hélt á skíðunum fyrir hann, það tók 1-2 tíma að labba alla leiðina upp aftur og á meðan gekk sólin undir. Það varð kalt og frysti um leið og sólin fór, yfirborðið harðnaði og rennslið jókst. Þannig fékk Svanberg mikið betra rennsli fyrir vikið og var bara einhverjum sekúndubrotum á eftir Jonna, sem hann náði ekki í fyrri ferðinni. Keppendur fóru bara eina ferð og það var mikið lagt upp úr því að hafa brautina bara nógu langa, helst 2 og hálfan kílómeter á lengd. Jóhann Vilbergsson vann flest Skarðsmótin. Sigurður Sigurðsson, fyrrverandi íþróttafréttaritari, sá fyrst til Jonna á Akureyri 1957. ,,Þá var Jonni alveg í rassgati í fyrri ferð í svigi, svo keyrði hann alveg eins og berserkur seinni ferðina og vann og það var farið að athuga með þennan mann þarna, þennan Jóhann, þennan Siglufjarðarskelfir," sagði Sigurður. Nafni Sigurðar, sem eitt sinn var læknir á  Siglufirði, sagði líka einu sinni að strákarnir væru allir aumingjar við hliðina á Jonna.


Í viðtali við Jonna sem mun væntanlega birtast á siglo.is einhvern næstu daga, er þessi saga rifjuð upp. Jonni sagðist vel muna eftir þessu og Svanberg hefði sýnt af sér ótrúlega seiglu og keppnisvilja. Eiginlega fyndist sér að hann hefði átt skilið að vinna keppnina fyrir eljusemina.




Eftirfarandi grein birtist í Mbl. Senemma árs 1960

Skarphéðinn Guðmundsson er eini keppandi Íslands í skíðastökki á Olympiuleikunum í Squaw  Valley. Hann er elztur Olympíufaranna, fæddur í Siglufirði 1930 og verður því þrítugur innan fárra mánaða. Skarphéðinn er nú íslandsmeistari í skíðastökki og er það mál manna að fáir eða enginn hafi unnið þá grein á íslandsmóti með meiri glæsibrag en hann. Skarphéðinn hefur ákaflega fagran stökkstíl og er algerlega í sérflokki meðal íslenzkra stökkmanna. Stíll hans er mjög svipaður stíl beztu stökkmanna heims. En Skarphéðinn er óreyndur, hefur aðeins kynnzt íslenzkum stökkpöllum sem gefa ekki meira en 20-40 m stökk. En í Squaw Valley stekkur hann í braut þar sem búizt er við allt að 90 metra stökkum. Hver áhrif það hefur á óreyndan Íslending er óráðin gáta, en gaman verður að sjá þennan konung íslenzkra stökkmanna í dag meðal beztu stökkmanna heims. Olympíunefnd Íslands hafði fjármagn til að senda þrjá menn á Ieikana í Squaw Valley. Skíðasambandið valdi Eystein, Kristin og Jóhann Vilbergsson. Síðar bárust SKÍ þau boð frá Siglfirðingum að þeir hefðu skotið saman fyrir farareyri Skarphéðins. SKÍ mælti með þátttöku hans í Ieikunum og nú er hann við æfingar vestra. Slík er trú Siglfirðinga á getu Skarphéðins, að þeir vilja hann til Olympíuleika. Og þessi hógværi Siglfirðingur mun áreiðanlega sóma sér vel í hópi afreksmanna







Á gamla vef sksiglo.is er að finna mjög skemmtilega grein um afrek Sveins á hans yngri árum. Slóðin er http://157.157.96.74/gamli/morgunbl-6712.htm

03.02.2011 04:16

Ingimar "trommari" Þorláksson

                   

693. Ein af skemmtilegri hljómsveitum sem hafa verið "fundnar upp" á Siglufirði eru HELDRI MENN, sem rímar auðvitað ágætlega á móti eldri menn. Hér fyrir ofan er líklega einn af elstu trommurum landsins, ekki nema 83 ára gamall. Söngvarinn Svenni Björns sem hefur munninn yfirleitt fyrir neðan nefið, kynnti hann sem Ingimar Ringo Þorláksson. Og fyrir þá sem ekki vita þá er Snorri "Idol" bróðursonur Ingimars.
-
Þegar ég var að gramsa í gömlu "dóti" eins og ég geri oft, rakst á þessa skemmtilegu mynd af honum Ingimar Láka við trommusettið á Síldarævintýrinu 2007 ásamt meðfylgjandi texta.
Ekki get ég stært mig af myndgæðunum, því ég hef greinilega verið eitthvað ókyrr rétt á meðan myndatakan fór fram.
Ingimar lést þ. 13. jan. sl. á Siglufirði 86 ára að aldri, - blessuð sé minning hans.

01.02.2011 07:49

Kominn aftur



692. Ég var meira en lítið hissa og auðvitað líka hinn kátasti þegar ég sá að enn eru um og yfir hundrað manns að kíkja inn á síðuna mína dag hvern, þrátt fyrir að ég hafi verið fjarverandi góðan hálfan mánuð og ekki sett svo mikið sem einn einasta stafkrók hérna inn. Þegar ég fór norður á Siglufjörð að morgni hins 14.jan. leit út fyrir að einhverjar bilanir á 123.is gerðu það að verkum að mér tókst ekki að koma inn svolítilli klausu þar sem greint frá því að sá sem á myndinni sést á spjalli við óþekktann og afar dularfullan mann, hyggðist bregða sér af bæ um nokkurn tíma. Nú liggur hins vegar fyrir að ekkert er að hjá 123.is, heldur eru það einhver leiðindi í tölvunni mín megin sem orsökuðu vandamálið og gera það reyndar enn, en þá kemur sér vel að það skuli vera til fleiri slík "apparöt" á heimilinu.



Erindið var eins og svo oft á undanförnum mánuðum, þ.e. að fara á heimaslóðir og vinna að endurbótum á húseigninni að Suðurgötu 46. Það er líklega eins gott að fara að spýta í lófana því afhending á seinni íbúðinni í því húsi á að fara fram þ. 1. apríl nk. Það þýðir að það verður tæplega stoppað lengur en nauðsyn krefur á suðvesturhorninu, en þó stendur til að gefa sér tíma til að spila á eins og einu þorrablóti þ. 5. febr.
  • 1

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 627
Gestir í dag: 100
Flettingar í gær: 575
Gestir í gær: 91
Samtals flettingar: 303424
Samtals gestir: 32830
Tölur uppfærðar: 19.3.2024 09:02:55
clockhere

Tenglar

Eldra efni