Færslur: 2009 Ágúst

23.08.2009 05:02

Um sitthvað sem er gamalt



584.
Í vikunni átti ég erindi í bóksölu stúdenta sem er til húsa í hinu splunkunýja Háskólatorgi. Þangað hef ég aldrei komið áður svo ég litaðist auðvitað um í glæsilegum húsakynnunum, því ég hafði ágætan tíma til að svala minni meðfæddu forvitni meðan samferðamaðurinn og nafni minn yfirfór bókalistann og fann til það sem hann átti að mæta með í Bifröst um helgina. Eftir að ég hafði rennt lauslega yfir bókakilina í nokkrum hillum beindist athygli mín m.a. að því hvaða höfundar stæðu að baki nokkurra þeirra bóka sem þarna voru. Eins og við mátti búast þekkti ég fæsta, en þó vakti athygli mína að þarna var að finna nokkur mjög kunnugleg nöfn sem kom mér eiginlega alveg í opna skjöldu. Martin Luter, Aristoteles, Virginia Wolf, Franz Kafka, Voltarie, Plato, Darwin, og svo mætti lengi telja. Var virkilega verið að nota áratuga gamalt, aldagamalt eða jafnvel allt að því tvö þúsund ára gamalt kennsluefni?  Einhver myndi eflaust velta því fyrir sét hvort engar framfarir hefðu orðið á sumum sviðum síðan árið 300 eftir Krist, meistararnir hafi verið svona langt á undan sinni samtíð eða þeir hafi fundið hina endanlegu laust eða hinn eina og rétta stóra sannleik.

Sumt stendur líklega bara alltaf fyrir sínu og er í eðli sínu bæði tímalaust og síungt.

                                           *
Á dögunum skrapp ég í Bónus eftir nauðþurftum sem eitt og sér er ekki í frásögur færandi.



En bíll sem lagt var á bílastæðinu fyrir utan vakti hins vegar mikla athygli, bæði mína svo og annarra sem áttu þarna leið um.




Ég gat ekki annað en dáðst að þessum gamla og snyrtilega Skoda sem þarna stóð. Uppi á grindinni þar sem varadekki var "vistað", var svo flaggað Tékkneska fánanum.



 

Þegar ég var lítill man ég að stundum var sungin níðvísa um þessa bifreiðategund sem var stolt Sudetahéraðanna og reyndar Tékklands alls.
Skódi ljóti, spýtir grjóti,
drífur ekki niðrí móti.
Þetta var auðvitað ekki fallega sagt...



En ég var svo sem ekki einn um að láta aðdáun mina í ljós þarna á planinu, því margir stöldruðu við og skoðuðu gripinn í krók og kring.


 

Að lokum kom eigandinn út úr búðinni klyfjaður gulum innkaupapokum og settist undir stýri.



Ég spurði hann um aldur bílsins og hann svaraði því til að þetta væri ´56 módel áður en hann ók stoltur á braut.



Segja má að upphafið af sögu Skoda meigi rekja til ársins 1894. Vaclav Klement sem þá var 26 ára gamall bóksali og hafði eignast þýskt móturhjól sendi fyrirspurn til framleiðandans varðandi hjólið. Eitthvað var ekki eins og það átti að vera og hann vonaðist til að fá svör eða leiðbeiningar varðandi það sem bilað var. En þar sem hann var ekki vel þýskumælandi skrifaði hann á tékknesku. Hann fékk snubbótt svarbréf nokkru síðar og það byrjaði á eftirfarandi orðum.

"Ef þú vilt fá svar við erindi þínu skaldu skrifa á máli sem við skiljum".

Svarið fór fyrir brjóstið á Klement og leiddi til þess að ári síðar var hann varinn að selja mótorhjól. Árið 1899 var svo fyrsta hjólið smíðað og framleiðslan var orðin á annað hundrað hjóla ári síðar. Upp úr aldamótunum 1900 var svo farið að undirbúa bílasmíði og fyrsti "Skódinn" leit dagsins ljós árið 1905.
                            *
Ég átti leið um Skagafjörðinn
í endaðan júlí og kom þá auðvitað við á Flugumýri sem er orðinn mjög fastur liður. Stæsta fréttin þann daginn var sú að það hafði fundist mjög gömul kona við bæinn Mið-Grund sem er þar skammt frá. Reyndar verður ekki annað sagt en að hún hafi verið miklu meira en fjörgömul, því hún var "frá tímum frumkristni" eins og það var orðað þarna á staðnum.

 

Fyrir 40 árum eða svo var farið að grafa fyrir nýju íbúðarhúsi á jörðinni en þá komu upp mannbein. Það var því vitað að þarna hefði að öllum líkindum verið kirkjugarður og húsinu var fundinn annar staður. Síðan hefur vitneskjan að vísu verið fyrir hendi, en engar frekari athuganir verið gerðar fyrr en nú.




Það var auðvitað gerður út leiðangur því hver vill ekki fá að sjá þessi undur og stórmerki. Ég fékk að fljóta með vopnaður myndavél að sjálfsögðu. Þegar við komum á staðinn var þar fyrir hópur af "túrhestum" sem fannst greinilega mikið til um það sem fyrir augu bar.




Þarna var líka bæði fornleifafræðingur og beinafræðingur sem tóku okkur vel, svöruðu misgáfulegum spurningum okkar greiðlega og héldu svolitla tölu um það sem fyrir augu bar.

Í gröfinni lá kona og kornabarn hjá henni. Hún hafði að öllum líkindum verið um 150 cm. á hæð í lifanda lífi og beinin voru hreint ótrúlega heilleg.




Fornleifafræðingurinn benti okkur á ljósa rák í jarðveginum og sagði okkur að þetta væri öskulag úr Heklugosi frá árinu 1104. Rákin væri rétt ofan við hið gamla yfirborð jarðlaganna eins og þau hefðu verið þegar gröfun var tekin og því hefði konan dáið einhverjum árum fyrir aldamótin 1100. Búið var að hreinsa yngri jarðlög ofan af þeim eldri á svolitlu svæði og komið höfðu í ljós a.m.k. átta grafir. Ljóst var þó að grafreiturinn var enn stærri því þegar vel var að gáð miðað við fram komnar upplýsingar, markaði enn fyrir útlínum hans eftir allan þennan tíma. Líklega hefur verið hlaðinn garður í kring um hann á sínum tíma sem enn var hægt að greina. Annað sem vakti athygli mína var að gróðurfarið innan og utan veggjar var ekki alveg með sama hætti hver sem ástæðan var.




Og þarna lá hún og brosti varalausu brosi til okkar forvitna fólksins sem virtum hana fyrir okkur í forundran.

En í morgunsárið verður lagt af stað norður á Siglufjörð til nokkurra daga dvalar.

19.08.2009 04:50

Síldarbærinn Skagaströnd



583. Að kalla einhvern annan bæ "Síldarbæ"
en sjálfan Siglufjörð og það jafnvel með stórum staf, kemur mér reyndar svolítið undarlega fyrir sjónir því hingað til hef ég talið aðeins einn bæ á landinu geta með góðu móti staðið undir slíku. En sagan er víst ekki jafn einsleit í raun og hún er í huga Siglfirðings sem upplifði endi ævintýrisins mikla á sínum heimaslóðum og vissulega var silfir hafsins bæði saltað og brætt víðar en í "höfuðstað" síldarinnar. Ég rakst á frétt um ljósmyndasýningu um síldarárin á Skagaströnd og þar sem mér þótti hún merkilegra en margt annað sem á fjörurnar rekur, leyfði mér að fá hana lánaða til endurbirtingar.




Ljósmyndasýning um síldarárin á Skagaströnd

Síldarárin á Skagaströnd nefnist ljósmyndasýning sem sett hefur verið upp í bænum. Hún er risastór í þeim skilningi að myndirnar eru allar afar stórar, 2,5 m á hæð og 3,5 m á breidd.

Sýningarstaðurinn er líka talsvert frábrugðinn því sem venjulegt má teljast. Í stað þess að halda sýninguna innanhúss hafa myndirnar verið festar utan á hús víða um bæinn.

Síldarárin svokölluðu hafa jafnan yfir sér nokkurn ljóma en eins og önnur ævintýri tók síldarævintýrið á Skagaströnd enda. Þó saltað væri flest árin frá 1935 til 1962 dró mikið úr söltun á Skagaströnd eftir 1945 er Norðurlandssíldin fór að leita á nýjar slóðir.

Ljósmyndasýningunni er ekki ætlað að vera tæmandi lýsing á tuttugu og sjö síldarárum. Þess í stað hafa verið valdar myndir sem Skagstrendingurinn Guðmundur Guðnason tók árið 1959.

Þær eru allar svart-hvítar og afar vel teknar. Úr safni Guðmundar eru nú birtar myndir sem sýna annars vegar vinnuna sjálfa, uppskipun, síldarspekúlasjónir og vinnu á plani og hins vegar skemmtilegar nærmyndir af nokkrum einstaklingum við vinnu sína. 

 



2500 manna bær skipulagður

Óvíða höfðu síldarárin meiri áhrif en á Skagaströnd. Á vegum nýsköpunarstjórnarinnar var árið 1945 skipulagður um 2.500 manna bæ. Íbúar á Skagaströnd þá ekki nema liðlega 300 talsins. Það er því vægt til orða tekið að bærinn hafi átt að breyta um svip. Nær er að tala um endurbyggingu hans.

Síldariðnaður átti að vera hornsteinn bæjarins. Reisa átti risastóra verksmiðju og nýbyggingaráð myndi styðja þau félag, sem vildu setja upp sildarverkmiður við Húnaflóa, ef þær yrðu settar upp á Skagaströnd. Gert var ráð fyrir að nokkrum síldarsöltunarstöðvum yrði komið á fót af einstaklingum og félögum enda mætti ganga út frá að söltun yrði mjög mikil. Þá átti að kanna vilja til að koma upp niðursuðu- eða niðurlagningarverksmiðju á síld á Skagaströnd. Í tillögunum var talið heppilegast að gera einkum 35-50 tonna báta út frá Skagaströnd. Lagði Einar Olgeirsson til að nýbyggingarráð hlutaðist til um smíði fimm fiskiskipa af þessari stærð. Skipin yrðu síðan seld með því skilyrði að þau væru gerð út frá Skagaströnd. Myndi þetta gefa fólki aukna möguleika á öruggri vinnu yfir veturinn.




Síldarverksmiðja byggð

Þegar hafnargerð hófst á Skagaströnd fór stjórn Síldarverksmiðja ríkisins þess á leit við ríkisstjórnina að fá leyfi til að hefja byggingu nýrra verksmiðja á Siglufirði og Skagaströnd. Var stefnt að því að verksmiðjurnar yrðu tilbúnar til vinnslu fyrir síldarvertíð 1946. Þetta samþykkti Alþingi í lok febrúar árið 1945. Benda má á að á vertíðinni 1945 veiddust í Húnaflóa um 43% þeirrar síldar sem Síldarverskmiðjur ríkins fengu til vinnslu.

Byggingakostnaðurinn verksmiðjunnar á Skagatrönd fór langt fram úr áætlun og var ríkisstjórnin mikið gagnrýnd fyrir það. Fór þá heldur að grynnka á eftirlæti stjórnvalda við síldariðnaðinn. Kom líka fleira til. Síldarvetríðin 1945 var ein sú slakasta um árabil og sú lélegasta frá því Síldarverksmiðjur ríkisins tóku til starfa árið 1930.

 



Síldin hverfur

Það kom brátt á daginn að aflatregðan 1945 markaði upphaf hrun veiða Norðurlandssíldarinnar. Örlögin höguðu málum því svo að framkvæmdir við nýju verksmiðjuna á Skagaströnd hófust á sama tíma og síldin ákvað að leita á nýjar slóðir.

Með hruni veiða Norðurlandssíldarinnar var brostinn sá grunnur öll nýsköpun á Skagaströnd hvíldi á. Innan tíðar varð ljóst að draumurinn um síldarútvegsbæinn sem átti að vera fyrirmynd annarra bæja, myndi aldrei rætast. Enn í dag gnæfir verksmiðjustrompurinn yfir bæinn eins og risavaxinn minnisvarði um þessa stóru drauma.

(Fréttin er tekin af vefnum skagastrond.is)

12.08.2009 15:16

Í fjörðinn Dýra.



582. Á dögunum voru vestfirðir heimsóttir eða öllu heldur svolítill hluti þeirra. Aldrei þessu vant var nefnilega ekkert farið út fyrir þær aðalbækistöðvar sem undanfarin ár eins og nú hefur verið Þingeyri, ef frá eru taldar tvær hæfilega langar ferðir inn í Dýrafjarðarbotn og um næsta nágrenni.
Ég hafði áður haft fregnir af skiltinu sem sjá má hér að ofan og leitaði það því uppi og festi í flögu. Sennilega er leitun að svona sérhæfðum verkstæðum í öðrum landshlutum, en að öllum líkindum er nóg að gera á þessum bæ því skriðdrekar eru algeng farartæki sem Dýrfirðingar hafa löngum kunnað vel að meta og a.m.k. annar hver maður í þessum sama firði hefur lokið einleikaraprófi á fiðlu og gerir út á Stradivarius.




Lengst af var lágskýjað meðan á dvölinni stóð og gekk ýmist á með skúrum eða jafnvel hellirigningu. Fjallatopparnir voru þá sjaldnast sýnilegir því þeir hurfu upp í grámann svo aðeins sást upp fyrir miðjar hlíðar, en þar kom að útlit var fyrir þurran og bjartan dag eða a.m.k. dagspart. Ég nýtti því þann tíma til fjallapríls, því eiginlega er komin hefð á slíkt þegar leiðin liggur á þessar slóðir. En af tilpassandi og hæfilega vel kleifum verstfirskum fjöllum verður seint verulegur skortur. Að þessu sinni varð Sandfjall fyrir valinu, en það er innsta fjall við sunnanverðan botn og stendur næst Glámu. Ég gekk í gegn um skógræktina og upp með Botnsá, í gegn um kjarrið, mýrarlega lyngmóana og upp hlíðina sunnanveða.



Mikið hamraþil er á framanverðu fjallinu en nokkuð minna klettótt til beggja hliða. Ég setti stefnuna inn í hvilftina sem er vestan við það (hægra megin) og sveigði síðan upp að stapanum sem þar er enn vestar. Ég sá ekki betur en að þar væri svolítið skriðurof í klettavegginn og uppganga gæti verið tiltölulega lítið mál.



Gangan þarna upp eftir reyndist heldur lengri en sýndist í fyrstu en engu að síður hin ánægjulegasta, því umhverfið er allt hið fegursta og mjög fjölbreytt. Bæði eru þarna hjalandi lækir og niðandi fossar, birkilággróður og grónar lautir...



...Gil og skorningar, mosi og mýrlendi,  brattgengar skriður og klettabelti.



Í Landnámu segir: Dýri hét maður ágætur. Hann fór af Sunnmæri til Íslands að ráði Rögnvalds jarls en fyrir ofríki Haralds konungs hárfagra. Dýri nam Dýrafjörð og bjó að Hálsum sem er í landi Hvamms. Hans son var Hrafn á Ketilseyri, faðir Þuríðar, er átti Vésteinn Vésteinsson. Þeirra synir vóru Bergur og Helgi.

 

Kenningar eru uppi um að nafn fjarðarins hafi upphaflega verið Dyrafjörður og gæti það verið vegna hinna náttúrulegu dyra sem opnast milli Sandafells og Mýrarfells þegar siglt er inn fjörðinn, en það er eitt sérkennilegasta og helsta auðkennið í landslaginu. Þó mun það vera álit flestra að nafngiftin hljóti að vera dregin af landnámsmanninum Dýra.

Munnmæli herma að Dýri sé heygður í Dýrahaug í Dýrahvilft, en myndin hér að ofan er mjög líklega af þeim hól sem átt er við.



Stóreflis steinar raðast sums staðar upp eins og einhver með ágæta skipulagsgáfu og góðan smekk fyrir úthugsuðu formi hafi komið þarna við sögu.



Og stundum fær maður á tilfinninguna að lítið þurfi til að allt fari af stað og þá væntanlega með miklum látum.



Þegar ofar kom sýndist mér uppgangan á fjallið ekki mundu verða mjög erfið.



En hún varð nú samt brösóttari en á horfðist síðasta spölinn, því fúið bergið var mjög laust í sér og mér skrikaði þó nokkrum sinnum fótur. Einu sinni rann ég af stað og bjóst við harðri lendingu en stöðvaðist á ögurstundu, varp öndinni léttar og hélt áfram upp. Það er nefnilega stundum þannig að við vissar aðstæður getur verið mun auðveldara að komast upp en niður.



En að lokum var toppnum náð eða öllu heldur brún hans. Fjörðurinn lá með öllum sínum stórbrotnu kennileitum við fætur mér og enn einu sinni hafði ég haft sigur á viðfangsefninu.

Eftirfarandi gúgglaði ég svo af veraldarvefnum: Dýrafjörður er stærstur fjarða í V-Ísafjarðarsýslu, um 37 km langur og 7 km breiður í miðju og 9 km yzt á milli Hafnarness að Fjallaskaga. Úr fjarðarmynninu loka fellin Mýrafell að norðan og Sandafell að sunnan sýn til innfjarðarins. Yzt eru hlíðar sæbrattar og gróðurlitlar en innar er undirlendi nokkurt, einkum að norðan og nokkrir grónir dalir. Stutt dalhvilft er upp af botni upp undir Glámuhálendið. Fjöll eru mörg há (500 - 700 m og nokkur hærri) og hrikaleg, einkum við Haukadal. Gláma er í 950 m hæð fyrir botni fjarðarins. Hæsta fjall Vestfjarða er Kaldbakur (998m), en það er milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar. Dýrafjörður er í senn fríður og svipmikill. Gísla saga Súrssonar gerist að verulegu leyti í Dýrafirði.

Eitthvert þinghald var viðhaft á Þingeyri á landnámsöld en ekki er vitað með vissu um byggð þar fyrst eftir landnám. Á 13. og 14. öld voru erlend kaupskip farin að koma í Dýrafjörð og á 16. öld var Þingeyri orðin miðstöð viðskipta í firðinum.  Aðallega voru þetta þýsk skip og sóttust þýsku kaupmennirnir helst eftir fiski, lýsi og vaðmáli. Eini Íslendingurinn sem fékk einkaleyfi til verlsunarreksturs var Eggert Hannesson, en það var árið 1579. Á 15. og 16. öld voru það nær einvörðungu Bretar og Þjóðverjar ásamt einstaka spænskri skútu sem stunduðu verslun í Dýrafirði. 1602 var danska einokunin leidd í lög og tóku þá vellauðugir danskir kaupmenn við öllum verslunarrekstri á staðnum, en  Dýrfirðingar versluðu þó á laun við franska duggara. 1684 var landinu öllu skipt í verslunarumdæmi og náði kaupsvið Þingeyrarkaupstaðar yfir norðurhluta Arnarfjarðar, Dýrafjörð og Önundarfjörð.

1742 voru á Þingeyri fjögur hús, krambúð, beykihús, pakkhús og torfkofi.



Af Sandfjalli er ágætt útsýni. Hinn fyrrverandi jökull Gláma er skammt undan og þótti mér slæmt að hafa ekki eins og 2-3 tíma aflögu til þess að ganga þangað.



Einnig sér fram á fjallsbrúnir til suðurs þar sem Arnarfjörðurinn tekur við, en þessar brúnir eru líklega skammt sunnan Mjólkárvikjunar.



Einnig sér vel yfir Hestfjarðarheiði sem liggur ofan í Hestfjörð við Djúp og líka svolítil rönd af Drangajökli handan Jökulfjarða ef vel er rýnt. Vötnin ofan við Dýrafjarðarbotn heita Þingvötn og eiga þau það líklega sameiginlegt við Þingeyri að draga nafn sitt af því þinghaldi sem var til staðar á Landnáms og Þjóðveldisöld.



Þessi skemmtilega lagaði steinn varð á vegi mínum þegar ég var farinn að huga að niðurgöngu. Eftir að hafa velt fyrir mér hvar og hvernig ég færi niður af fjallinu tók ég ákvörðun um að fara inn fyrir og suður af því. Mér sýndist sú leið greiðfærari og ekki eins brött við fyrstu sýn, en annað átti eftir að koma í ljós.



Brattinn var meiri en að norðan verðu og ég varð að ganga talsverðan spöl eftir syllu milli klettabelta.



En um það bil sem klettabeltin voru að enda, þraut sylluna og yfir gilið sem sést á myndinni hér að ofan varð alls ekki komist. Bæði var að jarðvegurinn var mjög laus í sér og svo var brattinn slíkur að nokkurn vegin heilbrigð skynsemi sagði mér að þarna væri með öllu ófært um að fara.



Ég gekk því nokkurn spöl til baka og kleif svolítinn klettaskorning (myndin að ofan) upp á næstu syllu. Myndin er tekin upp klettana og segir því lítið um hve bratt var þarna upp. Þessi leið var seinfarin en allt hafðist þetta að lokum. 



Þegar allt klettaklifur var að baki fann ég mér heppilegan stall (sem ég setti sjálfan mig á) og fagnaði lengi þeim áfanga sem nú var lokið.



Næst varð á vegi mínum langur snjóskafl og ég renndi mér niður hann  fótskriðu. Um miðja vegu missti ég fótanna og veltist áfram svolítinn kafla, en náði þó að spyrna við þokkalega skóuðum fótunum og komast aftur á lappirnar án þess að drægi nokkurn tíma úr ferðinni. Rétt eins og með klettagjána er myndin tekin upp á við og segir því hvorki mikið um brattann né lengd skaflsins og ég varð líka mjög feginn þegar þessum kapítula var lokið.



Þá var framundan talsverður spölur þar sem fyrst var farið um mýrlendi, þá mosavaxið hraun en síðast lyng og kjarr. 



Að lokum var ég var kominn til bíls, alveg gersamlega búinn á því. En ég sá ekki eftir neinu og þetta var eftir á að hyggja alveg assk... gaman.



Ég eyddi góðum dagsparti í að skoða mig um á víkingasvæðinu, en það er farið að trekkja vel á "túrhestinn". Víkingaskipið Vésteinn lá við festar skammt undan ströndinni og vaggaði værðarlega í golunni. Fyrirmynd þess mun vera Gauksstaðaskipið sem fannst við Sandefjord í Noregi, en talið er að það sé jafnvel frá árinu 870 eða þar um bil. Það mun hafa verið úthafsskip, ætlað til hernaðar og knörrinn Íslendingur sem siglt var vestur um haf árið 1998 til minningar um Leif Eiríksson og fund "Vínlands hins góða" mun vera sömu gerðar. Vésteinn var vígður og sjósettur í júlí 2008.

Á heimasíðu Íslendings má lesa eftirfarandi: Á Víkingatímanum var áhöfn svona skips 70 manns, 64 bardagamenn og ræðarar og 6 yfirmenn. 32 réru á meðan 32 hvíldu. Í miðju skipsins var sandgryfja með opnum eldi, þar sem hægt var að matreiða í lengri ferðum. Algengt var, að búfé á fæti væri með í ferðum. Íslendingur er mjög verðugur arftaki víkingaskipanna, sem sigldu um Atlandshafið fyrir teinöld. 

Íslendingur er hraðskreitt og öruggt úthafsskip. Skipið var byggt árið 1996. Það er 22,5 metra langt og 5,3 metra breitt, djúprista er 1.7 metrar og það vegur 80 tonn. Meðalhraði er 7 sjómílur, hámarkshraði 18 sjómílur. Fjöldi í áhöfn nú er 9 manns, en var 70 til forna. Skipið er byggt úr eik og furu og í það fóru 18 tonn af timbri og 5000 naglar.



Á Dýrafjarðardögum er alltaf mikið um að vera á svæðinu, en þá daga er haldin bæjarhátíð Þingeyringa sem stendur yfir heila helgi snemma í júlímánuði. Þá eru m.a. haldin námskeið í skógerð, bogsmíði, járnsmíði við opinn eld og fleira, allt með hliðsjón af verklagi víkinganna til forna. 

Eftirfarandi frétt var að finna í B.B. í júlí á síðasta ári: Almennur fundur var haldinn í Félagsheimilinu á Þingeyri á síðasta ári þar sem rætt um ýmsa möguleika og tækifæri til atvinnusköpunar á svæðinu. Fundarmenn bjartsýnir á tækifæri sem uppbygging ,,Víkingasvæðis" hefur opnað nú þegar og jákvæðar hugmyndir eru um frekari þróun. Víkingasvæðið er búið að vera 4 ár í vinnslu og hefur strax skapað nokkra

atvinnu, m.a. hafa tveir menn verið í fullu starfi um tíma við að smíða víkingakip og smíði annars skips er áætluð. Tveir til þrír hafa starfað á Víkingasvæði hluta úr ári.

Talað um aðra möguleika sem liggja í ferðaþjónustu og störfum sem tengjast henni. Fólk sammála um að afþreying og fjölbreytt tækifæri til upplifunar séu stórir áhrifavaldar þegar kemur að vali á áfangastöðum á ferðalögum.

Hestaleiga er starfrækt á svæðinu og tveir til þrír hafa unnið í tengslum við hana.

Sögustaðir og víkingaþemað skipa stóran sess í því að skapa Dýrafirði, Þingeyri og nærliggjandi svæðum sérstöðu. Námskeið hafa verið haldin í skósmíði og málmsmíði á Þingeyri og nálægt 10 - 15% íbúa þar eiga víkingafatnað. Sögustaðir tengdir Gísla sögu verða merktir með söguskiltum og stórum skúlptúrum sem eru í smíðum.

Gistirými þarf að vera nóg og ákjósanlegt að hafa það fjölbreytt,

Á safnasvæðinu á Oddanum á Þingeyri er gert ráð fyrir áframhaldandi uppbyggingu í anda víkingatímans. Þar er gert ráð fyrir aðstöðu fyrir víkingaskip sem sigla um fjörðinn með farþega. Ekki er þó gert ráð fyrir hafnaraðstöðu heldur verði aðstaðan í anda tímans sem miðað er við. Gert er ráð fyrir sterkri tengingu milli þessa svæðis og aðliggjandi útivistarsvæða og að skil milli þeirra verði ekki skýr.

Elsta starfandi vélsmiðja landsins er á Þingeyri. Smiðjan sem er nánast í upprunalegu formi ber nafn Guðmundar J. Sigurðssonar sem tók til starfa árið 1913.



Allt handbragð mannvirkjanna á svæðinu vakti sérstaka athygli mína. Greinilegt er að vel er vandað til allra verka og mikið lagt í að nálgast hið þúsund ára gamla verklag eins og verða má.  



Ekki er ólíklegt að tröppur hafi verið gerðar með þessu sniði á dögum Haralds Hárfagra.



Það er ekki á hvers manns færi að koma upp svona hleðslu.



Það er ekkert gler eða plexí af finna á víkingasvæðinu, enda væri slíkt mikið stílbrot og félli illa að hugmyndafræðinni sem allt þarna grundvallast á. Strengdar kálfshúðir eru í tóftum en þannig gerðu menn skjáina öldum saman. 



Þessi auglýsingaskilti á vegg vélageymslu eða verkstæðis er eitt það fyrsta sem tekur á móti þeim sem eiga leið um þorpið. Ég áttaði mig ekki alveg strax á að þarna er á ferðinni annað þema og aðrar áherslur en maður sér svo víða. Auglýsingarnar ganga að vísu allar út á þjónustu við ferðamenn, en nálgunin er svolítið á annan veg en svo algengt er. Gallerí, veitingar, gisting og hestaleiga, en ekki t.d. videó og bensínsjoppa staðarins, matvara eða dekkjaverkstæði.

Einn ágætur dagur (framan af) fór í berjatínslu. Berin voru alveg merkilega vel sprottin og uppskeran var alls um sex og hálft kíló. En þegar leið á gerði hálfgert skýfall og það var hlaupið til bíls og haldið til þorps. Þá kom í ljós að gemsinn minn hafði líklega runnið upp úr brjóstvasanum og hvílir því líklega í einhverri bláberjalaut. Blessuð sé minning hans.

En þegar ég fór að forvitnast nánar um t.d. framboð á veitingum og gistingu á Þingeyri, kom það mér hreint ekki svo lítið á óvart hvað framboðið er gríðarlega mikið í þessu aðeins 300 manna þorpi.




Fyrir nokkrum árum kom belgískur ferðamaður til Þingeyrar og heillaðist svo af staðnum að hann settist að á Þigeyri. Hann keypti "Simbahöllina" sem þá var í mikilli niðurníðslu og stóð til að rífa, gerði hana upp og hefur nú opnað þar kaffihús.



Í þessu húsi var lengst af verslun Gunnars Sigurðssonar sem oftast var bara kallaður Trítill, hefur Raggi Þórðar opnað veitingastað og býður upp á hamborgara og franskar.



Hótel Sandafell er gistiheimili upp á 8 herbergi. Þar er líka boðið upp á veitingar alla daga yfir sumarið. 



Þau heita Friðfinnur og Sigríður sem reka "Gistihúsið við fjörðinn" í gamla sjúkrahúsinu. Þau bjóða upp á uppbúin rúm og svefnpokapláss, góða aðstöðu fyrir hópa og einstaklinga, herbergi eða litlar íbúðir og aðgengi fyrir hreyfihamlaða.



Hinum megin við götuna er svo viðbótarrými í rauða húsinu ef sjúkrahúsið fyllist.



Þórhallur Arason býðst til að útvega farkost á sjóstöng, en einnig gistingu fyrir hópa og einstaklinga. Ég kynntist Þórhalli fyrir allmörgum árum, en þá rekur mig minni til að hann hafi verið deildarstjóri í Landbúnaðarráðuneytinu. Það kom þannig til að hann var daglegur gestur á Laugarásvideó forðum og að endingu það sem kallaðist "sjálfbjarga húsvanur kaffigestur" á þeim bæ.



Þórhallur var nýlega í þætti Gísla Einarssonar "Út og suður" og kom því vel og skilmerkilega á framfæri að hann byggi einn um þessar mundir, en færi alltaf í hreinar "nærur" og skipti um á rúminu fyrir helgar ef eitthvað ræki á fjörur hans.
Góóóóður...




Þórhallur keypti líka annað hús til að geta boðið upp á meira gistirými.



Gistiheimilið Vera er til húsa uppi á Hlíðargötu, en þar bjóða svo Skúli og Jóhanna upp á Stúdíóíbúð, uppbúin rúm, svefnpokapláss og eldunaraðstöðu.

En fyrir utan þessa upptalningu hér að ofan má einnig nefna Hótel Núp handan fjarðarins sem er stærsta hótelið á vestfjörðum svo og bændagistinguna Alviðru, rétt utan við Núp,en þar er boðið upp á ýmsar útfærslur á gistingu s.s. uppbúin rúm, svefnpokapláss, smáhýsi og hvort sem vill, eldunaraðstöðu eða mat og kaffi.




Ég gat ekki setið á mér að mynda þessa sérstöku skreytingu undir tröppunum á Veru.



Og ekki heldur hjá henni Gullu Vagns, en þarna er greinilega nostrað við garðinn.



Eitt elsta hús landsins er Pakkhúsið á Þingeyri sem einnig hefur verið nefnt Salthúsið, en það er svonefnt plankahús að gerð. Það var reist einhvern tíma á átjándu öld en tekið niður spýtu fyrir spýtu til viðgerðar árið 1994.

Ekki eru allir sammála um hver sé aldur hússins. Sumir hafa talið það vera elsta hús landsins reist árið 1732 eða 1734, en einnig er fullyrt að það sé nokkuð yngra eða byggt annað hvort árið 1774 eða 1778. En samkvæmt gömlum munnmælum er það jafngamalt Pakkhúsinu á Hofsósi sem hýsir nú Vesturfarasafnið. Húsið er sömu eða svipaðrar tegundar og bæði Tjöruhúsið og Turnhúsið í Neðstakaupstað á Ísafirði.

Endurbætur hafa að sögn gengið ágætlega, en að þeim stendur Guðmundur Óli Kristinsson frá Dröngum á Ströndum. Hann hefur verið að bæta fjalir og endurgera bita ásamt lærlingum sínum. Reyndar hefur spurst út að þær séu líklega ekkert allt of margar spýturnar sem verði úr hinu upprunalega húsi að verki loknu.



Þetta er útveggurinn sem snýr að götu séður innan frá.



Svona er hlaðið undir fótstykkið.



Og svona mætast útveggir og vel sést hvernig plankarnir eru felldir saman.



Ég endurnýjaði kynni mín við þá bræður Tinna og Trölla...



...sem eru þrátt fyrir að virðast svolítið þungir á brún, alltaf til í eltingaleik og að sýna þá gjarnan af sér heilmikla hundakæti.



En eftir fimm daga á Þingeyri var kominn tími á heimferð. Á leiðinni út úr þorpinu sá ég svartar heyrúllur í fyrsta sinn.



Og einnig þennan myndarlega hrút sem stóð grafkyrr og pósaði meðan ég myndaði hann.



Það eru komin mörg ár síðan ég fór akandi um Barðastrandarsýsluna og ég rifjaði upp nöfnin á öllum fjörðunum, en ég varð að viðurkenna að ég var u.þ.b. búinn að gleyma þeim sumum. Frá Vatnsfirði liggur leiðin um eða framhjá Kjálkafirði, Mjóafirði, Kerlingarfirði, Vattarfirði, Skálmarfirði, Kvígindisfirði og Kollafirði, en þá er komið að bænum Skálanesi. Mér hefur alltaf fundist hann vera í sérstakara lagi þar sem nánast er ekið yfir tröppurnar við dyrnar á einu húsanna og sá bær hlýtur að vera vandfundinn sem stendur nær þjóðveginum. Ég man að á árum áður var þarna til húsa sjoppa og bensínstöð, en oftast mun hafa þurft að banka upp á ef óskað var eftir afgreiðslu.



Og þar sem ég var á annað borð kominn út úr bíl og auk þess með myndavélina hátt á lofti skaut, ég einu léttu skoti að þessum flottu klettaspírum fyrir ofan bæinn. Svo var sest inn og haldið áfram um Gufufjörð, Djúpafjörð, Þorskafjörð, Berufjörð, Króksfjörð og loksins Gilsfjörð. Eftir það fóru öll örnefni að verða mun kunnuglegri. Það var auðvitað tekið talsvert af myndum í þessari vestfjarðarreisu, en aðeins lítill hluti þeirra er notaður í þessum pistli. Þeir sem hafa vilja til að skoða fleiri, finna þær á slóðinni http://leor.123.is/album/default.aspx?aid=155948

06.08.2009 00:29

Síldarævintýri 2009



581. Um Síldarævintýrishelgina komum við nokkrir afkomendur Leós afa saman vegna 100 ára ártíðar hans. Eins og búast mátti við varð því samkoman talsvert Vestfirsk yfirlitum sem hann hefði eflaust talið af hinu góða.



Leó Jónsson var fæddur þann 7. september árið 1909 á Höfðaströnd í Grunnavík. Foreldrar hans voru Jón Arnórsson hreppstjóri og Kristín Jensdóttir en þau eignuðust sex börn. 

Kristín var seinni kona Jóns, en með fyrri konu sinni Kristínu Kristjánsdóttur átti hann einnig sex börn.

Alsystkini hans voru Valgeir, Kristín, Karl, Indriði og Sigríður sem öll eru látin en hálfsystkinin voru Árni Friðrik, Elísabet, Valgerður, Kristján, Ólafía og Arnór.

Leó var aðeins fárra ára gamall þegar faðir hans féll frá, og flutti hann þá með móður sinni og systkinum í Hnífsdal. Þar bjó hann aðeins skamma hríð því hann flutti fljótlega til Valgeirs bróður síns sem þá bjó að Gemlufelli í Dýrafirði. Þar leið honum mjög vel á sínum þroska- og uppvaxtarárum.

En þó kom að því að hann hleypti heimdraganum, yfirgaf æskuslóðir sínar á vestfjörðum og fór til Siglufjarðar líklega 1933, þá rúmlega tvítugur. Þar voru næg verkefni fyrir duglegan ungan mann, verkefni sem flest snérust um veiðar á silfri hafsins, síldinni og vinnslu á henni sem skilaði æ meiri  verðmætum til lands og þjóðar. 

Til Siglufjarðar kom margt ungt fólk til starfa á þessum árum og þar á meðal var ung stúlka úr Svarfaðardalnum, Sóley Gunnlaugsdóttir. Leiðir Leós og Sóleyjar lágu brátt saman og á ævigöngunni upp frá því voru þau samferða í lífinu.  Þau hófu fyrst búskap á Ísafirði og bjuggu þar í eitt ár, en að þeim tíma loknum fluttu þau aftur til Siglufjarðar þar sem þau höfðu fyrst kynnst og bundist tryggðarböndum.

 

Þau Leó og Sóley eignuðust eina dóttur saman, Minný Gunnlaugu, en áður hafði Leó eignast soninn Gunnar með Soffíu Bæringsdóttur. Gunnar lést af slysförum þann 27. mars árið 1994.  Hann var kvæntur Guðbjörgu Stefánsdóttur í Bolungarvík og áttu þau fjögur börn saman, Hafþór, Jóhönnu Sóley, Bæring og Elínu, en fyrir átti Gunnar dótturina Fanný.

Minný var lengst af búsett á Sauðárkróki og eiginmaður hennar var Haukur Stefánsson sem lést árið 1992 en hún árið 2002. Börn Minnýjar eru tvö, Leó Reynir og Sæunn. Leó Reynir ólst upp hjá móðurafa sínum og ömmu, Leó og Sóleyju á Hverfisgötunni og bjó hjá þeim fram yfir tvítugsaldur. Sæunn ólst upp hjá föðurafa sínum og ömmu á Ásfelli sem er rétt sunnan Akraness.

 

Fyrstu árin eftir að Leó kom til Siglufjarðar stundaði hann mest sjómennsku, en síðan söðlaði hann um og fór að vinna í landi. Fyrst í slippnum við bátaviðgerðir og ýmislegt fleira aðallega tengt bátum. Þar fann hann að smíðar áttu vel við hann, enda var hann laginn, nákvæmur og góður verkmaður. Hann vann í tunnuverksmiðjunni í mörg ár og síðar hjá Húseiningum allt frá stofnun þess fyrirtækis til 75 ára aldurs þegar hann dró sig í hlé.  Hann var einn af þeim síðustu sem fengu ráðherrabréf sem veittu honum rétti til að vinna sem smiður, en það segir sitt um verkkunnáttu hans á þessu sviði.  Það sem einkenndi Leó og kom glöggt fram í öllum hans störfum, var vinnusemi og trúmennska. Þá var hann snyrtilegur og vandvirkur, og vildi ávallt hafa hlutina í afar mikilli röð og reglu.

Hann var hægur maður sem hafði sig ekki mikið í frammi, en góður í viðkynningu og þægilegur í umgengni. Hann kom ekki mikið nálægt félagsmálum, en starfaði þó um skeið af áhuga með vestfirðingafélaginu á Siglufirði meðan það var virkt, en það áhugamál sem átti hug hans mestan og í raun allt til hinstu stundar var tónlistin. Hann hlustaði mikið á tónlist, söng gjarnan eða raulaði fyrir munni sér yfir útvarpinu og spilaði á orgel og harmoniku. En það var líklega harmonikan sem var honum hjartfólgnust og hana hafði hann gjarnan nálægt sér á góðri stundu.

En þótt gamla ítalska takkaharmonikan hljómi ekki lengur í höndum Leós afa þá geta hins vegar þeir gömlu tónar ómað sem gleðiríkur undirleikur þeirra minninga sem ástvinir eiga í hjarta á kveðjustundu og um ókomna tíð.




Með afar litlum fyrirvara var þeirri hugmynd hrint í framkvæmt að nokkrir gamlir félagar úr hinu Siglfirska poppi tengdu græjurnar og tækju nokkur lög saman á pallinum hjá Bigga Inga.



Og þar sem gengið hafði á með skúrum og jafnvel bullandi rigningu alla helgina, þótti skynsamlegt að gera þær ráðstafanir sem dyggðu til að verja hljóðfærin utanaðkomandi bleytu þó svo að mannskapurinn kættist yfirleitt af henni. 



Ég fann til all nokkra fermetra af byggingarplasti sem Biggi kom fyrir með dyggri aðstoð Palla Sigþórs smiðs.



Biggi Inga, Páll Marel og sá sem þetta ritar þrútinn í framan vegna nýfengins bráðaofnæmis með "moonface" og allt. Þrír Siglfirðingar sem hafa ýmsa "fjöruna" sopið saman. Þó munu þeir líklega hafa sopið mest sameiginlega á vertíð í Eyjum forðum þegar þeir réðu sig í vinnu hjá Bassa Möller sem stjórnaði aðgerðinni hjá Ísfélaginu.



Palli var auðvitað útnefndur rótari bandsins og þurfti því m.a. að taka nokkra takta á settið til að fullvissa sig um að það virkaði. En það má bæta því við að eftir að hann fluttist suður yfir heiðar á sínum tíma, fór hann að spila á trommur í bandi sem starfaði um skeið á Reykjavíkursvæðinu.



Haft var samband við Gumma Ragnars sem var kominn frá Sauðárkróki skömmu eftir að símtalinu lauk með gítarinn og magnarann í skottinu. Það vantaði ekki áhugann hjá honum og ég verð að segja að hann er bara skrambi liðtækur á gítarinn, eða bara helv. góður ef ég orða þetta ögn nákvæmar.



Ég held að það sé svipað hjá Bigga að tromma og þegar maður lærði að hjóla á sínum tíma. Ef maður er einu sinni kominn upp á lagið þá gleymist það einfaldlega aldrei aftur. Þannig virkaði samspilið á mig milli mannsins og settsins á myndinni hér að ofan.



Það var alveg furðulegt hvað uppákoman og framkvæmd hennar gekk vel fyrir sig. Það var ekkert æft, engin lög ákveðin fyrir fram og ekki einu sinni gert soundtest, heldur bara talið í og byrjað.
Við þremenningarinr höfum ekki spilað saman síðan árið 1978 ef frá er talið að við æfðum nokkur lög með Selmu og Magga Guðbrands (Miðaldamenn 78) og spiluðum á Players á Siglfirðingaballi.




En þetta var auðvitað alveg "ógeðslega" gaman. Við spiluðum sleitulaust í u.þ.b. tvo tíma (frá 17 - 19), en hætta skal leik þá hæst hann stendur því það var m.a. kominn kvöldmatur.



Skömmu eftir að við hófum leikinn fóru forvitnir vegfarendur að staldra við og leggja við hlustir. Bílar óku löturhægt hjá, rúður voru skrúfaðar niður og brosandi andlit birtust. Um gjörvalt nágrennið opnuðust dyr húsanna, íbúarnir settust makindalegir á tröppurnar "með kaffibolla eða eitthvað svoleiðis í höndum sér" og virtust hinir kátustu.



Einn áheyrandinn hafði á orði að það væri gaman að sjá að hljómsveitin skemmti sér ef eitthvað væri, jafnvel betur en þeir sem hún væri þó að skemmta.
Þetta er líklega það sem kallað er spilagleði...




En niðri á torgi mátti svo hlýða á Buffið um kvöldið.



Og Papana.



Ég hitti Inga Hauks bekkjarbróður minn á torginu og var hann greinilega í góðu formi eins og sjá má.



Flugeldasýningin á laugardagskvöldinu var eiginlega flottari og betur heppnuð en magn skotelda hefði átt að gefa tilefni til.



Líklega hafði umhverfið sitt að segja.



Þessi unga stúlka heitir Þóra Sóley Ingvarsdóttir. Hún tók mig á eintal og tjáði mér eftirfarandi hálf hvíslandi en í mjög alvöruþrungnum tón.
"Afi, það eru bara fimm ár þangað til ég fermist".
Auðvitað verður að huga tímanlega að slíku...




Það hafði staðið til alla helgina að kynna sér í það minnsta einhvern svolítinn hluta af sögu síldarbæjarins mikla og ráðgerð ferð að rústum Evanger. Ekki gafst þó mikill tími til slíks fyrr en á sunnudeginum en þá fór að rigna. Við biðum þolinmóð um stund og vonuðums til að stytti upp, en virtumst ekki ætla að hitta á óskastundina hvað veðurfarið varðaði.



Eftir að hafa farið yfir á gamla flugvöll og horft út í sortann var látið vaða og fjaran gengin í átt að rústunum. Ég hélt svolitla tölu sem ég hafð þróað og æft í huganum undanfarnar vikur um mikilfengleik alls þess sem gerðist framan af síðustu öld, en flest orða minna hafa sennilega rignt flest í kaf áður en þau náðu eyrum viðstaddra. Eftir skamma viðdvöl gengum við til baka og þegar við komumst loks í hús var ekki þurran þráð að finna á okkur.



Þessi mynd lýsir líklega helgar og hátíðaveðrinu nokkuð vel. Við Bæring skruppum í stutta skoðunarferð upp á snjóflóðavarnargarðana í svolítilli uppstyttu þrátt fyrir að vita að hún myndi að öllum líkindum ekki standa mjög lengi.



Á þriðjudeginum var komið að því sem ég hafði beðið eftir. Þegar ég leit til veðurs um morguninn var ekki skýtutla á fjallatoppunum, logn og blíða. Við Haukur Þór höfðu talað um að ganga til fjalla ef veður leyfði og nú var tækifærið komið þil þess konar æfinga. Við lögðum af stað með nesti sem samanstóð af Maryland kexi, Marsipan súkkulaði (sem var keypt eftir að myndin var tekin) og blávatni á heppilega löguðum ílátum. 



Við fengum skutl upp í Siglufjarðarskarð en þaðan var áætlað að ganga norður fjöllin ofan bæjar eins langt og veður eða við entumst.



Lagt var af stað upp úr skarðinu og áleiðis upp á fyrsta hnjúkinn sem ég veit því miður ekki hvað heitir. Ég hef leitað nafnsins á fjallabyggð.is/gonguleidir, snokur.is og spurt vísa menn en án nokkurs árangurs. Mikið yrði ég kátur ef einhver gæti leitt mig til hins stóra sannleika í málinu.



Ég get ekki annað en dáðst að Hauk sem hingað til hefur ekki lagt í fjallgöngur vegna meðfæddrar lofthræðslu að láta sig vaða til leiks.
Þessi uppstilling mun teljast vera innan skynsemismarka...



...En þessi líklegar mun síður.



Hér sést fjallið "nafnlausa" vel, en það er á milli skarðs og Illviðrishnjúks. Þegar hérna er komið sögu höfum við farið þar upp og aftur niður og erum komnir langt upp í hlíðar Illviðrishnjúksins.



Og toppnum er náð. Við höfum gengið rösklega fram að þessu en gefum okkur nú tilma til að virða fyrir okkur útsýnið. Hnjúkurinn er 895 metra hár og er næst hæsta fjall við Siglufjörð. Aðeins Almenningshnakki er litlu hærri eða 915 m. Ég rifjaði upp að það eru u.þ.b. 40 ár síðan ég stóð þarna síðast, en nýlega komu fram ljósmyndir sem voru teknar í þeirri ferð og mun ég örugglega gera henni og þeim skil síðar.



Þarna hefur verið komið fyrir sendi sem er knúinn sólarrafhlöðu með tilheyrandi sellu, en ég kann samt ekki alveg nógu vel skil á þessum búnaði sem þarna er nema að hann er svolítið "speisaður".



Og þar sem enn var ekki liðið langt á daginn var ennþá möguleiki á að gera nokkrar "morgunæfingar" tímasetningarinnar vegna



Og við fundum fleiri "skemmtilega" kletta sem varð að skoða nánar.



Þessi var hinn þægilegasti að tylla sér á.



Það rifjaðist upp fyrir mér að það voru líka teknar myndir í gegn um þetta sama gat fyrir fjörutíu árum, en líklega af Guðna Sveins sem var í þeirri ferð og myndefnið var ekki Siglufjarðarskarð á þeim tíma heldur nýfermdur LRÓ.



Á leiðinni niður af Illviðrishnjúk breiðir Mánárdalur úr sér fyrir fótum ferðalangsins ef horft er til vesturs.



Í norðri er Hádegisfjall og þangað fórum við næst, en af tilvist þess vita alls ekki allir. Líkleg skýring er að fjallið er ekki mikið að umfangi og sést ekki vel úr bænum.



Við gengum næst fram og niður á Snók, en af honum sést vel yfir bæinn og fjörðinn og má segja að þaðan sé ágætt skotstæði fyrir myndavélar.



Ef litið er til baka ber Illviðrishnjúk við himinn en nær er norðurendi Hádegisfjalls.



Framundan er svo Hafnarfjallið ofan Leirdala og stefnan var sett á Hafnarhyrnuna.



Hæsti hluti Hafnarhyrnunnar er þessi tvískipti toppur. (687 m).



Næsti áfangi var að ganga brúnirnar í kring um Hvanneyrarskálina. Í suðurhlíðun hennar er þessi grýtti hóll sem setur svolítið sérstakan svip á umhverfið og í fullkominni andstöðu við næsta nágrenni.



Iðjagræn Hvanneyrarskálin er svolítið dulúðleg í öllum sínum dýrðarljóma frá liðnum árum. Þarna hafa líklega margir skemmtilegir hlutir gerst.



Af brúnunum mikki skálar og Engidals var gott skyggni inn Skagafjörðinn.



En það var hátt niður að líta því þarna eru mikil klettabelti undir Engidalsmegin.



Þeir voru svo skemmtilega veðraðir þessir steinar að ég smellti mynd af þeim til frekari skoðunar á síðari stigum (eða þannig).



Norðan skálarinnar er Hvanneyrarhyrna (640 m). Fyrir neðan sést önnur hyrna og eru þær nefndar Hvanneyrarhyrnur á snokur.is. Þar fyrir neðan og lægst er Gróuskarðshyrna.



En nú var hafinn síðasti áfanginn og sá hluti leiðarinnar sem mér fannst mest spennandi, því ég hef hingað til aldrei komið í fjöllin fyrir norðan skál. Það eina sem ég hef vitað er að þar er landslag allt mun hrikalegra og stórbrotnara en annars staðar í firðinum og telst því síst af öllu heppilegt fyrir lofthrædda. Ég minntist á þetta atriði við Hauk en hann var hvergi banginn og harðákveðinn í að klára "pakkann".



Hann fór meira að segja á undan mér af stað þótt hann léti brúnir síga lítillega þegar hann sá bandið sem ætlað er til ígrips og stuðnings. Framundan er þessi myndarlega hyrna (myndin að ofan) sem ég veit ekki fyrir víst hvort er Strákahyrna eða Skrámhyrna. (Allar upplýsingar vel þegnar). Þarna eru hvassar eggjar og mun betra en ekki að jafnvægisskynið standist lágmarskröfur. Samkvæmt merkingu á mynd á örnefnavefnum snokur.is sýnist mér þó að Strákahyrna sé ysti hluti fjallsins.

Um tröllskessuna Skrámu sem fjallshyrna í Strókafjöllum dregur nafn sitt af, er það að segja að hún bjó ein í helli sínum framarlega í Engidal.
Um Stráka er það hins vegar að segja að talið er að fjallgarðurinn hafi upphaflega verið nefndur Strókar og þá dregið nafn sitt af sínum óteljandi klettastrýtum.




En það var kominn tími á að líta um öxl og horfa yfir farinn veg. Ekki sést til upphafsstaðarins því Siglufjarðarskarð er á bak við Illviðrishnjúkinn sem gnæfir yfir önnur fjöll (svolítið hægra megin við miðju). Ekki heldur til fjallsins sem nafnið finnst ekki á af sömu ástæðu. Aðeins grillir í Hádegisfjalls ef vel er rýnt, en Snókur sem er mun lægri felur sig á bak við Hafnarfjall. Nær er Hafnarhyrna (vinstra megin við miðju) og þaðan liggja brúnirnar umhverfis skálina og enda á Hvanneyrarhyrnunni (lengst til vinstri). Þetta er búinn að vera myndarlegt rölt hingað til en þó er stubbur eftir enn. Myndin er tekin af hnjúknum sem ég er ekki viss um hvort er Stráka eða Skrámhyrna.



Þegar þaðan er komið niður, er stutt í næstu hyrnu sem er þó mun flatari í kollinn en önnur fjöll á svæðinu.



En af brúnum hennar er hreint ótrúlega bratt niður á láglendið eða jafnvel alla leið ofan í fjöru.



Til vesturs má sjá bæinn Sauðanes og Sauðanesvita.



En hér endar landið og Grímseyjarsund tekur við. Ég varð samt að komast út í þennan klett sem er hin endanlega endastöð á þessari leið. Reyndar mæli ég með því við alla sem þarna fara um að þessum hluta leiðarinnar sé sleppt, því bergið þarna er mjög morkið svo erfitt getur verið að fóta sig. Og þeim sem verður fótaskortur á þessum stað, fá tæpast annan séns á þessu tilverustigi. Ég skal fúslega viðurkenna að ég var skíthræddur á leiðinni út í klettinn og jafnvel enn hræddari á leiðinni til baka, en þeirri stund fegnastur þegar ég var kominn til baka.



Hér sést niður gilið utan við Ófæruskál sem Herkonugil gengur niður úr, en það var sá farartálmi á sínum tíma sem varð til þess að Strákagöng þóttu mun hagkvæmari kostur en vegur yfir það.



Nokkrum metrum vestar sést hvar vegurinn er í þann veginn að hverfa inn í fjallið langt, langt, langt fyrir neðan.



Þessi klettur gæti alveg heitið Ystiklettur en gerir það þó sennilega ekki. Fyrir norðan hann er ekkert nema þverhnípið og áræddi ekki að nálgast hann meira en ég gerði þarna.



Það var kominn tími á að ganga nokkurn spöl til baka og hverfa til mannheima á ný. Við völdum að fara niður í Engidal, en alveg eins hefði verið hægt að ganga niður Hvanneyrarskálina norðan eða norðvestanverða.



Tilfinningin sem fylgdi því að vera kominn niður af fjallinu einkenndist af undarlegri blöndu léttis og feginleika en einnig svolítilli sigurvímu. Þetta var vissulega orðið gott í bili og ég var farinn að finna fyrir hinum vel þekktu byrjunareinkennum strengjamyndunar, en vissi jafnframt að eftir fáeina daga yrði allt komið í gott lag aftur og þá yrði enn á ný lagt á brattann.



Við sáum af veginum að þar sem við höfðum staðið rúmum hálftíma áður var nú skollin á svartaþoka.



Það var svo Gunni Óðins skipstjóri og stýrimaðurinn hans sem pikkuðu okkur upp af veginum og komu okkur í bæinn með góðum skilum. - Þökk sé þeim.

Ferðin um vesturfjöll Siglufjarðar hafði tekið slétta sjö tíma og það var farið að verða kvöldsett þegar henni lauk. Engu að síður var pakkað niður þetta sama kvöld og stefnan sett á Hafnarfjörð, en þangað var komið um fjögurleytið á miðvikudagsmorgun.

Aðeins lítill hluti þeirra mynda sem teknar voru á Síldarævintýri og í fjallgöngunni voru notaðar í pistilinn, en slóðin http://leor.123.is/album/default.aspx?aid=152434
leiðir þá sem áhuga hafa til þeirra allra.
  • 1

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 897
Gestir í dag: 117
Flettingar í gær: 575
Gestir í gær: 91
Samtals flettingar: 303694
Samtals gestir: 32847
Tölur uppfærðar: 19.3.2024 12:18:55
clockhere

Tenglar

Eldra efni