Færslur: 2013 Desember

31.12.2013 03:10

1963 - Siglufjörður fyrir hálfri öld



904. Nú þegar árið er um það bil að renna í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka eins og sr. Valdimar Briem orti á því herrans ári 1884, er nánast hefð fyrir því að horft sé um öxl og rýnt í vegferðina sem nú er að baki. Liðnir atburðir eru þá rifjaðir upp og þeim síðan fundinn staður einhvers staðar inni í stóra samhenginu, gjarnan uppi á rykugri hillu í óeiginlegri merkingu þess orðs, pakkað saman í eins konar uppflettirit til vistunar í formi minninga í afkimum hugans þar sem hægt er að nálgast það ef með þarf. En þær þurfa bæði að vera til á pappír svo og auðvitað einnig í stafrænu formi, því hugur okkar mannanna er bæði feyskinn og forgengilegur. Kannski kemur einhver nörd miklu síðar og grúskar sig í gegn um þá löngu liðna fortíð. Hann verður hugsi og spyr sig hvort allt hafi í alvörunni virkilega verið svona í gamla, gamla, gamla daga, eða um sé að ræða grínaktugar ýkjusögur frá löngu liðinni tíð. En nei, svona var þetta víst og brunnurinn virðist vera nánast ótæmandi.

Yfirleitt eru það þó tiltölulega nýliðnir atburðir ársins sem er um það bil að kveðja sem eru oftast til skoðunnar, en ég datt að þessu sinni hæfilega langt aftur í fortíðina sem er þó sjálfum mér það nálæg að ég man útlínur hennar að nokkru leyti. Þetta var árið sem ég varð 8 ára og þetta var Siglufjörður fyrir hálfri öld.

Þetta var árið 1963.

-

Skíðafélag Siglufjarðar, Skíðaborg sá um að lýsa upp brún Hvanneyrarskálar. Að þessu sinni mun Rafveita Siglufjarðar hafa aðstoðað við að koma lýsingunni upp því um áramótin 1962-63 var í fyrsta sinn lýst með rafljósum. Árið 1963 var því fyrsta ártalið sem þar var lýst upp með rafljósum, en auðvitað fannst mörgum bæjarbúum mikil eftirsjá af blysunum. - Nema hvað.



                                                  Siglfirðingur í janúar 1963


Mjölnir segir í janúar frá formannsskiptum, í Verkamannafélaginu Þrótti. Gunnar Jóhannsson baðst undan endurkjöri, en hann hafði verið formaður þess óslitið í 23 ár eða allt frá árinu 1940. Við tók Óskar Garíbaldason sem var sjálfkjörinn ásamt öðrum verðandi stjórnarmönnum, því ekkert mótframboð barst.

Hin nýja stjórn var þá þannig skipuð: Óskar Garibaldason formaður, Gunnlaugur Jóhannesson varaformaður, Kolbeinn Friðbjarnarson ritari, Hólm Dýrfjörð gjaldkeri, Anton Sigurbjörnsson og Þorkell Benónýsson meðstjórnerndur.

Einnig segir frá að stýrimannanámskeið hið minna var haldið á Siglufirði haustið áður, sem veitir réttindi til skipstjórnar á bátum allt að 120 tonnum. Alls útskrifuðust 11 skipstjórnarmenn, og hæstu einkunn á prófinu hlaut Hinrik Aðalsteinsson.



Elsti sparisjóður landsins varð 90 ára árið 1963. Sparisjóður Siglufjarðar sem nefndist reyndar framan af Sparnaðarsjóðurinn á Siglufirði, var stofnaður 3. janúar árið 1873. Upphaflega var yfirlýstur aðaltilgangur hans að koma í veg fyrir óþarfa kaup og eyðslusemi, hvetja til sparnaðar og reglusemi, svo og að ávaxta fé efnalítilla manna.

Stofnendur voru Einar Baldvin Guðmundsson bóndi að Hraunum, Jón Jónsson bóndi á Siglunesi, Páll Þorvaldsson bóndi á Dalabæ, Jóhann Jónsson bóndi og hreppstjóri í Höfn, Snorri Pálsson verslunarstjóri, Sveinn Sveinsson bóndi í Haganesvík, sr. Jón Auðunn Blöndal, þá verslunarmaður í Grafarósi og sr. Tómas Bjarnason á Siglufirði.


Á árinu var hafist handa við byggingu Ráðhúss Siglufjarðar við Gránugötu. Húsið átti að verða 360 fermetrar að flatarmáli og þriggja hæða. Bæjarskrifstofurnar höfðu þá verið staðsettar í Alfonshúsi allt frá því að Hvíta húsið við Tjarnargötu brann 1965. Það var ekki fyrr en á árinu 1981 sem þær fluttu síðan upp á þriðju hæð í hinu nýja Ráðhúsi sem var þá í raun orðið 18 ára gamalt.



Barnastúkan Eyrarrós no. 68 hélt yfirleitt fundi sína  í gamla sjómannaheimilinu.

 

Barnastúkan Eyrarrós no. 68 varð 40 ára gömul á árinu, en hún var stofnuð þ. 14 janúar 1923. Aðal hvatamaðurinn að stofnun hennar var stofnuninnai var Guðrún Jónsdóttir frá Ystabæ og var hún fyrsti gæslumaður stúkunnar. Síðan tóku við starfi hennar í tímaröð; Katrín Dúadóttir, Kristján Dýrfjörð, Jón Jónasson, Þóra Jónsdóttir og loks Jóhann Þorvaldsson sem hafði starfann á hendi í u.þ.b. 30 ár samfleytt. Eyrarrós var lengst af ein fjölmennasta stúka landsins með um 300 meðlimi þegar flest var.

 

Á forsíðu febrúartölublaðs Mjölnis birtist eftirfarandi fyrirspurn frá "Bæjarbúa".

"Mun það vera rétt sem gengur meðal manna hér í bænum að Guðbjartur Þórarinsson á Ráeyri hafi boðið bæjarstjóranum að leggja til rafmagn án greiðslu, til að lýsa upp flugvöllinn austan fjarðarins, til hagræðis fyrir flugvélar sem kynnu að þurfa að lenda á þeim tíma sem dagsbirtu nýtur ekki við, ef bærinn kostaði rafleiðslu frá húsi Guðbjarts niður að flugvellinum, en það mun vera sem næst 100 m. vegalengd. Mun það vera satt að bæjarstjórinn hafi neitað þessu boði Guðbjarts"?



Þessi auglýsing birtist í febrúarblaði Einherja, en rekstur Sigló-síldar mun ekki hafa gengið alveg snurðulaust fyrir sig á árinu 1963 frekar en mörg önnur ár. Framleiðslan mun hafa stöðvast um tíma m.a. vegna skort á umbúðum, þ.e. dósum. Markaðir voru einnig takmarkaðir og erfitt að komast inn á þá, en svo var það hráefnið sem stundum virtist vera of mikið af og þá var það selt aftur, eða það var ekki nægilegt og þá stöðvaðist reksturinn vegna skorts á því.

-

Það mun hafa verið Lions klúbburinn á Siglufirði sem fyrst hreyfði umræðunni seint á árinu 1962 um nauðsyn þess að opna og reka Tómstundaheimili fyrir Siglfirsk ungmenni. Og hlutirnir virðast hafa gerst hratt, því þ. 24. febrúar var Æskulýðsheimilið opnað. Ýmsir höfðu og mismikla aðkomu að málinu, m.a. sem styrktaraðilar, en mest mun þó hafa munað um S.R. sem lagði til húsnæðið undir starfsemina sem var Hertervigshúsið við Vetrarbraut. Jón Dýfjörð var ráðinn fyrsti forstöðumaður þess, en Júlíus Júlíusson tók við af honum síðar á árinu.

 

Kaupfélagið minnti félagsmenn á að leggja inn "arðmiðana" sem allra fyrst eða eigi síðar en þ. 1. mars nk. Auglýsingin birtist í Einherja. - Nema hvað?

En hvaða fyrirbæri voru þessir "arðmiðar" gæti nútímamaðurinn spurt þá sem enn muna tíma þeirra.

Voru það ekki eins konar kassakvittanir sem félagsmenn söfnuðu saman og geymdu fram yfir næstu áramót, og þegar kallað var eftir þeim var stormað á skrifstofu kaupfélagsins, þeim slegið saman og greidd út sú arðprósenta sem aðalfundur ákvað. Þ.e.a.s. ef hagnaður varð á rekstrinum sem var nú aldeilis ekki alltaf. Ég man vel eftir vaxandi safni rauðleitra smámiða í hillu ofarlega í einum eldhússkápanna á mínu æskuheimili sem biðu sins tíma eða kannski öllu heldur sinna áramóta.



Þessi frétt birtist í Siglfirðingi í marsmánuði. Hvar annars staðar hefði hún átt að birtast alla vega  miðað við hver niðurlagsorðin eru.



Siglfirðingur í mars 1963

 

En í marsblaði Mjölnis kvað við allt annan tón að venju. Það er eins og ekkert hafi í raun breyst í hálfa öld og þá var greinilega þá þegar búið að finna upp hina illræmdu vísitölu.

"Verkamenn hafa nýlega fengið 5% hækkun á kaupi, og er tímakaup í almennri vinnu nú kr. 26.04. Í árslok 1958 og janúar 1959 var tímakaupið kr. 23.86. Núna er það kr. 2.18 hærra. Hækkun síðan vinstri stjórnin fór frá vegna kröfu Framsóknar um kauplækkun, er því tæp 9%

Vísitalan hefur hinsvegar hækkað um 28 % á viðreisnartímabilinu. Vísitala á kaup í des. 1958 og janúar 1959 var 202 stig. Kratastjórnin Emilía, studd af íhaldinu, lækkaði kaupið 1. febr.

1959 úr kr. 23.86 niður í kr. 20,67 með því að lögbinda vísitöluálag á kaup við 175 stig.."

Síðan er taflan hér að neðan birt sem hluti af greininni.


 

En Mjölnir var einnig á öðrum og mun uppbyggilegri nótum í sama mánuði þegar hann sagði frá "Músikkabarett" þar sem lúðrasveitin, nokkrir nemendur tónskólans, leikfélagsins og nemendur úr 4. bekk Gagnfræðaskólans stóðu fyrir ásamt tónlistamanninum og hinum listræna hugmyndafræðingi Gerhard Schmidt. Þessar skemmtanir urðu síðan árvissar fram eftir áratugnum.

"Músikkabarett Lúðrasveitarinnar og Tónskólans er áreiðanlega einhver bezta skemmtun

ársins. Svo vel sem tókst til með kabarettinn í fyrra, má segja að enn betur hafi tekizt í ár.

Fyrst og fremst hafa eldri hljóðfæraleikarar æfzt og nýir bætzt við. Lúðrasveitin, sem í fyrra var mjög áheyrileg, hefur tekið miklum og ánægjulegum framförum og fiðlusveit Tónskólans

orðin ótrúlega leikin, þótt leikendur séu flestir ungir að árum. Sama er að segja um aðra hljóðfæraleikara, sem fram komu, öll músikin var leikandi létt og örugglega flutt. Seinni hluti dagskrárinnar, sem fer fram árið 1983 í hótelinu, sem byggt hefur verið á brún  Hvanneyrarskálar, þar sem aðeins koma fram "frægustu og beztu skemmtikraftar heimsins",

mun vera verk meistara Gerhards Schmidt. Þar koma Lúðrasveitin og nemendur Tónskólans

fram í ýmsum gervum, en nokkrir þekktir leikarar bæjarins og ungar stúlkur, aðallega úr 4. bekk Gagnfræðaskólans aðstoða. Er skemmst frá því að segja, að þetta var hin bezta skemmtun. Húsfyllir var og flytjendum ágætlega tekið. Skemmtunin mun verða endurtekin í kvöld eða annað kvöld og er þess að vænta, að skörð þau, er inflúenzan hafði höggvið í raðir flytjenda, verði þá fyllt".



                                     Siglfirðingur í apríl 1963

"Andrés Láka eins og hann var jafnan kallaður tók út af vélbátnum Hring þ. 9. apríl, en stundum er eins og margt gerist í einu og sama vetfanginu og  mikið sé lagt á suma, því Guðrún Jóhannsdóttir móðir Andrésar lést aðeins fjórum dögum fyrr eða þ. 5. apríl eftir að hafa átt við mikla vanheilsu að stríða".

Því er svo við að bæta að minningarathöfn um Andrés og jarðarför móður hans var sameinuð í eina og sömu athöfnina í Siglufjarðarkirkju sem fór fram þ. 17. apríl 1963. Nokkru eftir sjóslysin var farið af stað með söfnun á Siglufirði til styrktar aðstandendum þeirra sem létust og söfnuðust 79 þúsund krónur sem var stórfé árið 1963.

 

NEISTI segir í aprílblaði sínu frá sjóslysadeginum 9. apríl.

"Þriðjudagurinn 9. apríl s.l. var mikll sjóslysadagur hér við land. Þann dag f órust 16 vaskir menn. Þessir fómst:

AF M.B. HRING FRÁ SIGLUFIRBI:

Andrés Þorlaksson, 36 ára.

Kristján Ragnarsson, 23 ara. Lætur eftir sig unnustu hér í Siglufirði.

M.B. VALUR FRÁ DALVÍK:

Sigvaldi Stefánsson, lætur eftir sig konu og 3 börn

Gunnar Stefánsson, bróðir Sigvalda, ókvæntur.

M.B. HAFÞÓR FRÁ DALVlK:

Tómas Pétursson. Lætur eftir sig konu og 3 börn.

Tómas var sonur Péturs Baldvinssonar, verkstjóra hér í bæ.

Bjarmar Baldvinsson, föðurbróðir Tómasar, 24 ára. Lætur eftir sig konu og 1 barn.

Jóhann Heigason, 43 ára. Lætur eftir sig konu og 4 bórn.

Óli Jónsson, 48 ára. Lætur eftir sig konu og 2 börn

Sólberg Jóhannsson, 18 ára. Ókvæntur.

M.B. SULAN FRÁ AKUREYRI.

Kristján Stefánsson, háseti, Kópavogi. Kvæntur og átti börn.

Þórhallur Ellertsson, 1. vélstjóri, Akureyri. - Kvæntur.

Kristbjörn Jónsson, háseti, Akureyri, ókvæntur.

Hörður Ósvaldsson, háseti, Akureyri. Kvæntur.

Viðar Sveinsson, Akureyri. Ókvæntur.

M.B. MAGNI FRÁ ÞÓRSHÖFN:

Elías Gunnarsson. Lætur eftir sig konu og 3 börn.

Þórhallur Jóhannesson. Lætur eftir sig konu og eitt bam.

Það er mikill og sár harmur kveðinn við fráfall allra þessara vösku sjómanna. Aðstandendum hinna látnu eru hér færðar dýpstu samúðarkveðjur".



Sagt er frá jarðskjálftanum á Siglufirði í aprílblaði Einherja. Sá sem þetta ritar man vel eftir jarðskjálftanum þrátt fyrir að vera þá aðeins átta ára. Þsð var eiginlega svolítið óraunverulegt að koma út morguninn eftir og sjá efsta hluti skorsteinsins af Hverfisgötu 12 liggja á götunni fyrir neðan húsið, meðan Elli Ísfjörð horfði svolítið undrandi til skiptis á stromptoppinn á götunni eða upp á þakið sem hafði nú týnt einu af einkennum sínum . Líklega hefur það ekki farið fram hjá neinum sem inni var þegar hann brotnaði af, valt eftir þakinu og fram af brúninni. En það liðu ekki margir dagar þar til allt var komið á sinn stað.

 



"Ólafur Jóhannesson alþingismaður fimmtugur.

Þann 1. marz s.l. varð Ólafur Jóhannesson, alþ.m. fimmtugur. Ólafur er Fljótamaður. Þó Ólafur sé ekki nema fimmtugur er hann þegar þjóðkunnur maður, bæði sem fræðimaður á sviði laga og stjórnmálamaður. Ólafur sameinar á skemmtilegan hátt íhygli og raunsæi vísindamannsins og ákafa starfsþrá og framfarahug hins frjálslynda stjórnmálamanns. Þess vegna er hann góður fulltrúi Fraimsóknarflokksins á Alþingi og þess fólks í héraði, sem aðhyllist samvinnu og samhjálp þeirra, sem erfiðustu hafa aðstöðuna. Allir, sem kynnast Ólafi finna, að þar fer traustur maður og vel gefinn, með víðtæka þekking stjórnmálamannsins á högum lands og þjóðar. Þeir íbúar Norðurlandskjördæmis vestra, sem fylgja Framsóknarflokknum að málum, eru þakklátir yfir því, að Ólafur skuli vera einn af fulltrúum l>eirra á Alþingi. Margir af íbúum þriggja sýslna og tveggja kaupstaða, flytja Ölafi beztu árnaðaróskir með línum þessum á fimmtugsafmælinu og vænta þeir mikils af störfum hans á ókomnum árum".

(Einherji í apríl 1963)

 

Í Aprílmánuði greinir Mjölnir frá fólksfækkun í plássinu.

"Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar um mannfjölda í landinu, voru íbúar Siglufjarðar 2.625 um síðustu áramót og er það fimm færra en árið áður. Virðist því sem um 60 manns hafi flust úr bænum sl. ár ef gengið er út frá eðlilegri mannfjölgun, þ.e. mismuninum á tölu lifandi fæddra og látinna. Er þessi fækkun í fljótu bragði kynlegt fyrirbæri".


Í sama mánuði greindi Mjölnir frá því að Siglfirðingar sigruðu í öllum greinum á skíðalandsmótinu 1963 nema flokkasviginu. Úrslit í einstökum greinum voru eins og hér segir:


10 km. ganga 15-16 ára.

Björn Ólsen Siglufirði

Sigurjón Erlendsson Siglufirði

Skarphéðinn Guðmundsson Siglufirði.

-

10 km. ganga 17-19 ára.

Þórhallur Sveinsson Siglufirði

Kristján Guðmundsson Ísafirði

Gunnar Guðmundsson Siglufirði

-

15 km. ganga 20 ára og eldri.

Birgir Guðlaugsson Siglufirði

Sveinn Sveinsson Siglufirði

Guðmundur Sveinsson Siglufirði

-

Svig Karla

Jóhann Vilbergsson Siglufirði

Kristinn Benediktsson ísafirði

Svanberg Þórðarson Ólafsfirði

-

4x10 km. boðganga.

Sveit Siglufjarðar

(Sveinn, Guðmundur, Þórhallur og Birgir).

Sveit Ísafjarðar

-

Stórsvig karla.

Jóhann Vilbergsson Siglufirði

Kristinn Benediktsson Ísafirði

Hafsteinn sigurðsson Ísafirði

-

Svig kvenna.

Kristín Þorgeirsdóttir Siglufirði

Jakobína Jakobsdóttir Reykjavík

Jóna Jónsdóttir Ísafirði.

-

Stórsvig kvenna.

Kristín Þorgeirsdóttir Siglufirði

Jakobína Jakobsdóttir Reykjavík

Jóna Jónsdóttir Ísafirði.

-

Tvíkeppni í svigi og stórsvigi karla

Jóhann Vilbergsson Siglufirði

Kristinn Benediktsson Ísafirði

Árni Sigurðsson Ísafirði

-

Tvíkeppni í svigi og stórsvigi kvenna

Kristín Þorgeirsdóttir Siglufirði

Jakobína Jakobsdóttir Reykjavík

Jóna Jónsdóttir Ísafirði.

-

Sveitakeppni í svigi.

Sveit Ísafjarðar

Sveit Akureyrar

Sveit Siglufjarðar

-

30 km. ganga.

Birgir Guðlaugsson Siglufirði

Sveinn Sveinsson Siglufirði

Guðmundur Sveinsson Siglufirði

-

Ekki reyndist unnt að ljúka mótinu vegna veðurs fyrr en röskum mánuði eftir að aðalkeppnin fór fram, en úrslit urði þá eins og hér segir:

-

Stökk 20 ára og eldri

Skarphéðinn Guðmundsson

Sveinn Sveinsson

Jónas Ásgeirsson

-

Stökk 17-19 ára

Þóhallur Sveinsson

Haukur Jónsson

Sigurðiur B. Þorkellsson

-

Stökk 15-16 ára

Björn Ólsen

Sigurjón Erlendsson

Kristjá Ó. Jónsson

-

Norræn tvíkeppni 20 ára og eldri

Sveinn Sveinsson

Birgir Guðlaugsson

-

Norræn tvíkeppni 17-19 ára

Þórhallur Sveinsson

Haraldur Erlendsson

-

Stökkkeppnin fór fram uppi í Hvanneyrarskál.



Þessi mynd birtist í Siglfirðing í maí 1963 og það er greinilega farið að huga að kosningum, enda ekki nema mánuður til þeirra.

"Teiknarinn sýnir hvar Gils Guðmundsson undirritar inngöngu sína og leifanna af Þjóðvamarflokknum sáluga til "framhaldstilveru" í kærleiksfaðmi kommúnista, en á biðstofunni bíður ritstjóri Tímans, Þórarinn Þórarinsson, stundum nefndur "11. þingmaður kommúnista." Það, sem teiknarinn gefur í skyn, er fyrst og fremst, hver sú "breiðfylking" verði, sem kjósandinn geti valið í stað samstjórnar lýðræðisflokkanna, ef honum býður svo við að horfa. Annarsvegar Viðreisnarstjórnin, hinsvegar vinstri stjórn, þar sem kommar hefðu lyklavöld og oddaaðstöðu. Viðgangur Framsóknarflokksins er kommúnistum von til valda, og er báðum flokkunum þetta Ijóst, þótt framsóknarmenn kjósi að bera kápuna á báðum öxlum fram yfir kjördag. Varla er hægt að segja, að þessi nýja "fylking" vinstri aflanna sé þrungin sérstöku aðdráttarafli fyrir

lýðræðislega þenkjandi og frjálslynt fólk".

Til gamans má gjarnan geta þess að í næsta tölublaði af Siglfirðing blasti við á forsíðu fyrirsögnin "GLÆSILEGUR FRAMBOÐSFUNDUR SJÁLFSTÆÐISMANNA". Hugsanlega hefði orðalegað verið með öðrum hætti ef einhver annar flokkur hefði staðið fyrir fundinum og þá án tillits til þess hvað fór þar fram, en svona er nú þessi tík, - pólitíkin.



Kaupfélag Siglfirðinga eða KFS sem hafði rekið verslanir við Túngötu og Aðalgötu hugði nú á miklar framkvæmdir á lóðinni þar sem mjólkurbúðin og skrifstofurnar stóðu við Túngötu. Þessa auglýsingu mátti sjá í öllum bæjarblöðunum í maímánuði.

 

Þann 20 maí varð Siglufjarðarkaupstaður 45 ára.

 

Í maíblaði NEISTA segir frá því að Þorfinna í Hlíð hafi orðið sextug þ. 3. maí sl. og sendu "Siglfirskir jafnaðarmenn" eins og það er orðað í blaðinum henni sínar bestu árnaðaróskir á þessum merku tímamótum.



                                                  Siglfirðingur í maí 1963

Og það skal sérstaklega tekið fram til að fyrirbyggja allan misskilning að tegundarheiti harmonikkunnar er SKANDALI

 

Í júnímánuði var heilmikil umfjöllun um fyrirhuguð Strákagöng og Strákaveg í Siglfirðingi. Hér er svolítill úrdráttur úr henni.

"Þær vegaframkvæmdir, sem fyrirhugaðar eru á þessu ári umfram þær, sem beinlínis eru ákveðnar á fjárlögum, eru fyrst og fremst bygging Reykjanesbrautar, Ennisvegar á Snæfellsnesi og Strákavegar við Siglufjörð. Er kostnaður við þessar framkvæmdir samtals áætlaður um 80 milljónir króna. Myndi þá heildarfjárfesting

við vegaframkvæmdir á árinu vera um 140 millj. króna, þar sem framkvæmdir, sem greiddar eru með fjárveitingum í fjárlögum og af benzíngjaldi, nema 60 millj. króna. Vegaviðhald er ekki talið til fjárfestingar, en áætlað er, að kostnaðurinn við það nemi 63 millj. króna á árinu 1963."



"Myndin sýnir Sigluf jarðarkaupstað.Lengst til hægri sést fyrirhugað vegarstæði Strákavegar út Hvanneyrarströnd. Neðst til hægri sést land það, sem fer undir fyrirhugaða flugbraut. Til vinstri sjást byrjunarframkvæmdir við jarðgöngin.lagningu Strákavegar verður lokið í ágústmánuði 1965".



                                      Greinin hér að ofan birtist í maíblaði NEISTA.

 

Í júníblaði Mjölnis er sagt frá sigurgöngu Siglfirðinga á ýmsum sviðum.

Siglfirðingar unnu í öllum greinum á Skarðsmótinu.

KS-ingar heimsóttu Ísfirðinga og unnu 6-4.

Lúðrasveit Siglufjarðar tók þátt í landsmóti lúðrasveita og hlaut hún ásamt stjórnanda sínum Gerhard Schmidt, áberandi bestu undirtektir áheyrenda



Þessi auglýsing frá Snyrtistofunni Gránugötu 25 birtist í í júlíblaði Einherja. Þarna er auglýst fjögurra kvölda snyrtinámskeið, sápuspænir, herrasokkar, hin daglega starfsemi og auðvitað snyrtivörur í úrvali. Það ætti ekki að vera erfitt að muna símanúmerið því það er stutt, - 287.




Gránugata 25 er ekki til í dag en mér reiknast til að fyrirtækið hafi verið í svokölluðum Alfonsbrakka sem var rifinn í kring um 1980. Húsið hafði þá gegnt margs konar hlutverki meðan það stóð á grunni sínum, meðal annars var það læknisbústaður um skeið. En líklega var þó ekki um neinn eiginlegan grunn að ræða undir húsinu því að öllum líkindum hefur það verið byggt ofan á síldarplan sem stóð svo auðvitað á staurum sem reknir voru ofan í sjávarbotninn á þeim tíma sem fjöruborðið lá alveg fast upp við Gránugötuna. 

En hver skyldi hafa staðið að rekstri snyrtistofu á Siglufirði árið 1963? Allar upplýsingar um þennan rekstur er vel þegnar.


Einng er sagt frá því í sama blaði Einherja að Mjólkusamlag KEA á Akureyri og KS á Sauðárkróki hafi opnað nýja mjólkurvörumiðstöð þ. 14. júní sl. við Aðalgötu númer 7 á Siglufirði. Af því tilefni var forráðamönnum Siglufjarðarkaupstaðar, svo og blaðamönnum og fréttaritara útvarpsins hin glæsilegu húsakynni hinnar nýju mjólkursölustöðvar.


Daníel Þórhallsson útgerðarmaður og söngvari Varð fimmtugur þ. 3. ágúst.

Eyþór Hallsson skipstjóri Varð sextugur þ. 4. ágúst.

Siglfirðingur í ág. 63.



Það hefur eflaust komið mörgum á óvart á sínum tíma þó einhverjir hafi vel vitað af jarðhitanum, að reynt yrði að bora eftir heitu vatni á Siglufirði.

Þessi stórfrétt birtist í Siglfirðingi í septembermánuði.



Og það var skammt stórra högga á milli því í sama blaði mátti lesa um Æskuna, hið nýja og glæsilega skip sem keypt hafði verið til bæjarins.



Einhverji greindi í septemberblaði sínu frá hæstu gjaldendum útsvars sem óhætt er að segja að sé fróðleg lesning hálfri öld síðar. Skýringin á því hvers vegna söltunarstöðvar eru svo fyrirferðamiklar á listanum er ekki langsótt því að alls var 68.608,5 þús. tonnum af síld landað á Siglufirði þetta sumar og sést af því að síldarævintýrið er enn í fullum gangi.

 

Mjölnir sem kom einnig út í september eftir þriggja mánaða sumarfrí, býður Ragnar Arnalds velkominn til starfa á Alþingi og þakkar Gunnari Jóhannssyni gött starf á sama vettvangi í 10 ár, en hann lætur nú af þingmennsku.

Á sömu síðu (þ.e. forsíðunni í Mjölni) er Þóroddi Guðmundssyni síldarsaltanda og fyrrverandi alþingismanni óskað til hamingju með sextugsafmæli sitt þ. 21 júlí.



Í sama blaði Mjölnis er þessi auglýsing frá VERÐLAGSSTJÓRA, en líklega yrði einhver klumsa og klóraði sér í höfðinu við ef svona auglýsing birtist í nútímanum.


  

Auglýsingar í Enherja í septembermánuði.



Og bæjarútgerðin gekk ekki sérlaga vel og hafði raunar ekki gert það um árabil. Einhverji fjallaði um málið samkvæmt sinni pólitísku sýn septemberblaðinu en einnig mátti lesa um gæftir  og nýju talstöðina í Siglufjarðarskarði.

 

"Togarinn Hafliði hefur þegar fyrir nokkru lagt upp sinn fyrsta "túr" í haust, 147 tonn, eftir hálfsmánaðar útivist. Siglufjarðarbátar hafa nú hafið róðra. Fyrst báta hóf Særún veiðar (30 sept.) og hefur aflað 3-5 tonn í róðri. Hringur og Æskan hafa einnig hafið róðra og leggja upp hjá hraðfrystihúsi SR".


"Undanfarin ár hefur "Vörn", kvennadeild Slysavarnafélagsins í Siglufirði, unnið að því að komið yrði á símasambandi við skýlið í Siglufjarðarskarði. Um miðjan sept. sl. var sett tipp í skýlinu talstöð. Landssíminn hefur smíðað stöðina og látið setja hana upp. Jafnframt hefur ifarið fram gagngerð viðgerð á skýlinu sjálfu. Það verk hefur vegamálastjórnin annazt. Í skýlinu eru ýmis nauðsynleg tæki og útibúnaður, og er það gjöf frá kvennadeiildinni "Vörn"




Í októberblaði Siglfirðings birtist þessi magnaða mynd sem var önnur í röð "mynda mánaðarins", en óvíst er hve lengi sú skemmtilega hugmynd entist.

 

Mjölnir í októbermánuði

"Furðulegt ráðslag.

Hráefni handa Niðurlagningarverksmiðjunni á Siglufirði keypt frá Seyðisfirði!

Nýlega hefur frétzt, að ráðamenn Niðurlagningarverksmiðju S.R. á Siglufirði hafi keypt nokkur hundruð tunnur af síld handa verksmiðjunni til vinnslu í vetur. Seljandinn mun vera söltunarstöð Sveins Benediktssonar á Seyðisfirði! Er þetta merkilegt ráðslag, þegar þess er gætt, að á Siglufirði voru saltaðar nærri 70 þús. tunnur í sumar, svo unnt hefði átt að vera að útvega þar þetta magn, sem mun vera um 350 tunnur af sykursíld og kryddsíld, en flutningskostnaður á tunnu frá Seyðisfirði til Siglufjarðar er sennilega á annað hundrað krónur á tunnu. Að undanförnu hefur það verið haft mjög á orði, að rekstur þessarar verksmiðju bæri sig ekki. Er það sannarlega ekki furða, ef svipaðarar ráðdeildar gætir á fleiri sviðum reksturs hennar eins og við þessi hráefniskaup".

 

Þ. Ragnar Jónasson varð fimmtugur þ. 27. október s.l.

Siglfirðingur í okt.

 

Í nóvemberblaði Mjölnis segir frá því að sóknarnefnd Siglufjarðarkirkju ákvað að leigja út kirkjuloftið undir tónlistarkennslu. Leigan mun vera kr. 1.500 á mánuði sem sumum fannst full dýrt miðað við að um menniningartengda starfsemi er að ræða og eftirfarandi visa fylgir umfjölluninni.

Opnar standa Drottins dyr,

dýrtíðin því veldur,

öðruvísi er allt en fyrr,

aðgangurinn seldur.

-

Í Einherja er fjallað um sama mál og fleira því tengt (einnig í nóvember) án nokkurra athugasemda um okurleiguna á kirkjuloftinu.

"TÓNLISTARRÁÐ STOFNAÐ

SAMSTARF BEGGJA TÓNLISTARSKÓLANNA Í SIGLUFIRDI

"Nú undanfarið hafa átt sér stað miklar breytingar í skipulagi tónlistarmála í Siglufirði. Gengið hefur verið frá stofnun tónlistarráðs. Í því eiga sæti fulltrúar frá sex eftirtöldum aðilum, þrír frá hverjum: Karlakórnum Vísi, Tónlistarskóla Vísis, Söngfélags Siglufjarðar, Tónskóla Siglufjarðar, Lúðrasveit Sigluf jarðar og Kirkjukór Siglufjarðar, alls 18 fulltrúar. Ábyrgðarmaður Tónlistarráðsins hefir verið kosinn Hafliði Guðmundsson. Ennfremur hefir verið ákveðið að báðir tónlistarskólarnir hefji samstarf, og hefir skólastjóri verið ráðinn Gerhard Smith, sem starfað hefir við Tónskóla Siglufjarðar undanfarin ár og stjómað Lúðrasveitinni. Aðrir kennarar

hafa verið ráðnir, Mohamed Massouidikh og Sigurður Gunnlaugsson. Kennt verður á píanó, orgel, fiðlu og ýmis blásturshljóðfæri. Um 40 nemendur hafa þegar látið skrá sig, auk þess sem 9 og 10 ára bekkir barnaskólans fá kennslu í skólanum. Tónlistarskólinn mun hafa aðsetur á kirkjuloftinu".



Þar var líka að finna þessa stórskemmtilegu frétt um nýja eyju sem reis úr sjó sunnan Vestmannaeyja. Auðvitað voru strax uppi vangaveltur um hvað hún ætti að heita og þett er líklega ein af þeim frumlegri. Eyjan hlaut síðan nafnið Surtsey.

 

"Miðvikudaginn 27. nóvember minntist Kvenfélag Sjúkrahúss Siglufjarðar þess að 10 ár eru liðin frá stofnun þess. Markmið með stofnun þess mun hafa verið að safna fé til tækjakaupa fyrir sjúkrahúsið og síðar vegna byggingu nýs húss. Félagið mun hafa frá því það var stofnað hafa lagt til kr. 1,3 millj. kr. til sjúkrahússins, en það svarar til þess að hver Siglfirðingur hafi lagt fram kr. 500,00 með frjálsum framlögum. Fyrsti formaður félagsins var frú Bjarnveig Guðlaugsdóttir, en núverandi stjórn skipa: frú Hildur Svavarsdóttir, frú Ragnheiður Sæmundson, frú Kristine Þorsteinsson, frú Anna Snorradóttir og frú Dagbjört Einarsdótitir".

Siglfirðingur í nóv.



Í nóvemberblaði NEISTA segir frá því að frú Halldóra Björnsdóttir Bakka hafi orðið 100 ára þ. 5. nóvember s.l.


Frú Hólmfríður Rögnvaldsdóttir kona Páls Erlendssonar organista, varð 65 ára, 17. nóv. sl. Þau hjón eru kunn af margháttaðri félagsmálastarfsemi, bæði í Skagafirði og Siglufirði, og heimili þeirra hefur margur gist og mætt rausn og góðvild. Blaðið ,Siglfirðingur" á þeim margt og mikið að þakka, og sendir þeim beztu kveðjur í tilefni afmælisins.


Föstudaginn 29. nóv. sl. lézt á Sjúkrahúsi Siglufjarðar frú Jóhanna Jónsdóttir, tæpra 90 ára gömul. Hún var jarðsungin 10. des. sl. Föstudaginn 13. des. sl. lézt frú Guðrún Vilhjálmsdóttir á heimili Vilhjálms Hjartarsonar, sonar síns, tæpra 99 ára gömul. Siglfirðingur vottar aðstandendum þessara heiðurskvenna samúð sína.

Þessar tvær tilkynningar hér að ofan birtust í desemberblaði Siglfirðings.


Siglfirðingur sagði frá afmæli barnaskólans, en öll bæjarblöðin fjölluðu reyndar um þennan merkisatburð.

"Barnaskólinn varð 80 ára og barnaskólahúsið 50 ára árið 1963. Barnaskóli Siglufjarðar var stofnsettur í des. 1883. Var fyrst kennt í lítilli stofu í litlu tómthúsbýli, sem þá hét Búðarhóll, við fremur léleg og fátækleg skilyrði. Fyrsti skólastjóri var Helgi Guðmundsson, þáverandi héraðslæknir. Þegar leið að síðustu aldamótum var litla stofan í Búðarhóli orðin ofsetin vegna vaxandi barnafjölda. Var þá ráðist í að byggja timburhús á horni Grundargötu og Aðalgötu þar sem Pósthúsið stendur núna.

Árið 1913 var hafizt handa og byggt stærra skólahús úr varanlegu efni, sem valinn var staður þar sem það nú stendur".



                                       Ljósmynd úr Siglfirðing 1963

 

Hlöðver Sigurðsson setti samkomuna og stjórnaði henni.

Margar góðar gjafir bárust skólanum, m.a. mynd af Guðm. Skarphéðinssyni, fyrrverandi skólastjóra, en hún var gefin af frú Þorfinnu Sigfúsdóttur. Þessarra merku tímamóta var minnst í Siglufjarðarkirkju þ. 18. desember.

Aðalræðuna flutti Baldur Eiríksson formaður fræðsluráðs, Andrés Hafliðason fyrrverandi formaður skólanefndar minntist bernsku sinnar og barnaskólaáranna. Einnig flutti sr. Ragnar Fjalar Lárusson  ávarp og einhverjir fleiri stigu í pontu.

Við upphaf skólaárs haustið 1963 voru nemendur að verða u.þ.b. 350 og tveir nýjir kennarar hófu þar störf. Siglfirðingurinn Guðný Pálsdóttir og Sigríður Lára Árnadóttir. Því er svo við að bæta að Arnfinna hætti kennslu þá um vorið.

-

Á fundi bæjarstjórnar rétt fyrir jólin var samþykkt að greiða úr bæjarsjóði uppbót á laun kennara vegna skólaársins 1962-63 Greiddar skyldu verða kr. 8100 til skólastjóra en kr. 600 til kennara fyrir hvern kennslumánuð. Nam upphæðin  kr. 65.000 til kennara barnaskólans en kr. 45.000 til kennara Gagnfræðaskólans eða samtals kr. 110.000.



                                                  NEISTI í desember.

 

Í jólablaði Mjölnis var sagt frá snjóflóði sem olli stórtjóni við Fossveg.

Aðfaranótt Jóladags byrjaði að snjóa nokkuð í Siglufirði og á jóladag gerði aftaka hríðarveður.

"Jóladaginn allan og aðfaranótt annars jóladags geysaði iðulaus stórhríð og kyngdi niður meiri snjó en menn muna til að gert hafi um langt árabil, á svo skömmum tíma. Um klukkan 9.30 að morgni annars jóladags skeði sá hryggilegi atburður að snjóflóð féll úr fjallshlíðinni norðan

Hvanneyrarár. Snjóflóðið skall á húsi síldarleitarinnar "Hvanneyrarhlíð", vesturhlið hússins brotnaði undan þunga snjóskriðunnar. Húsið gekk af grunni sínum um 3-4 metra og skúrbygging sem áföst er norðan við húsið brotnaði mikið. Húsið sjálft fylltist af snjó, en unnið hefur verið að því í dag að bjarga tækjum síldarleitarinnar undan skemmdum. Á ferð sinni áfram niður hlíðina skall flóðið á tveimur íbúðarhúsum, númer 8 og númer 10 við Fossveg. Á Fossvegi 8 búa hjónin frú Magðalena Hallsdóttir og Guðlaugur Karlsson og í nr. 10 frú Ólína Björnsdóttir og Hólmsteinn Þórarinsson. Blaðið hefur átt tal við frú Magðalenu Hallsdóttir Fossvegi 8. Þau hjón vöknuðu við geysilegan hávaða um kl. 9.30 um morguninn. Flóðið skall á vesturhlið hússins og húsið skalf og nötraði. Flóðið braut glugga og hurðir á vesturhlið hússins, og fyllti um Ieið forstofu, eldhús og skála af snjó. Skemmdir urðu mjög miklar í þessum hluta hússins. Augljóst er hversu mikið lán það er að enginn skyldi vera

staddur í þessum hluta hússins, hver sem þar hef ði verið staddur hefði ekki sloppið óskaddaður. Eignatjón þess fólks, sem fyrir þessu óláni varð er mjög tilfinnanlegt, þar sem óvíst er um vátryggingu. Fólk, sem í nágrenninu býr, brá skjótt við og veitti alla þá hjálp sem möguleg var, svo og lögregla bæjarins. Blaðið hefur verið beðið um að færa þessum aðilum kærar þakkir fyrir hjálpsemina. Að kvöldi annars Jóladags féllu margar smærri snjóskriður úr fjallshlíðinni vestan bæjarins, en munu ekki hafa valdið tjóni".


Rafveita Siglufjarðar varð 50 ára á árinu.



NEISTI segir í desember frá kvikmyndasýningum ungs og upprennendi Siglfirðings, Ólafs Ragnarssonar í Sjómannaheimilinu.




Í desemberblaði Einherja er viðtal við Gerhard Schmidt sem hafði tekið við sem skólastjóri hinna sameinuðu tónlistarskóla á Siglufirði eftir að Sigursveinn D. Kristinsson flutti úr bænum. Það fer hér á eftir óstytt.

"Í síðasta tbl. Einherja er sagt frá þeim breytingum, sem átt hafa sér stað, viðkomandi tónlistarmálum í Siglufirði, stofnun tónlistarráðs og sameiningu hinna tveggja tónlistarskóla, sem starfað hafa undanfarin ár. Þar voru og einnig taldir upp þeir kennarar, sem ráðnir hafa verið að skólanum yfirstandandi skólaár. Einherji vill nú gefa lesendum sínum kost á að kynnast einum þeirra lítillega, skólastjóranum sjálfum, þjóðverjanum Gerhard Schmidt. Heima á hinu aðlaðandi heimili skólastjórahjónanna, að Hólavegi 37, svaraði Gerhard Schmidt eftirfarandi spurningum, á meðan frú Gisella Schmidt bar fram ágætar veitingar.

Hvenær og hvar ert þú fæddur?

Ég er fæddur 14. sept. 1929 í Romeburg í Thiiringen í Mið-Þýzkalandi, en það er 15

þús. íbúa bær. Þar stundaði faðir minn hljómlistarstörf m.a stjórnaði hljómsveit.

Hvað um nám þitt?

Ég byrjaði snemma að spila á hljóðfæri, en þó var víst ekki meiningin að ég gerði það

að lífsstarfi mínu, því ég varð útlærður vefari, áður en ég hóf reglulegt tónlistarnám, en þá fór ég í tónlistarskólann í Gera, sem er allstór borg, 8 km frá fæðingarbæ mínum. Síðan fór ég á tónlistarskólann í Erfurt og lauk þaðan atvinnumannaprófi í músik árið 1954. Síðan innritaðist ég i tónlistar háskólann í Leipzig, og lauk prófi þaðan vorið 1961, og var trompetleikur aðal námsgreinin.

Hvernig bar það svo til, að þú réðst að flytjast til Siglufjarðar?

Í skólanum hékk svört auglýsingatafla. Einn daginn var þar auglýst eftir tónlistamanni

til Siglufjarðar, sem kenna skyldi við tónskólann þar og stjórna lúðrasveit. Ég fór að íhuga, hvort tiltækilegt væri fyrir mig að sækja um þetta starf. Útvegaði ég mér allar þær bækur, sem hægt var að fá um Ísland, en þær reyndust ekki margar, og reyndi að gera mér hugmyndir um hvernig þar væri umhorfs. Einnig talaði ég við prófessor Griesch, en hann var kennari Páls  Isólfssonar og þekkti hér eitthvað til af afspurn. Hvatti hann mig til að fara, því hér byggi gott fólk og örugglega engir Eskimóar, svo ég ákvað að reyna þetta og kom til Siglufjarðar 26. sept. 1961, eða haustið eftir að ég útskrifaðist úr háskólanum og hefi starfað hér síðan.

Þekktir þú enga Íslendinga áður en þú komst hingað?

Í háskólanum stundaði nám í píanóleik Agnes Löve og einnig þekkti ég mann hennar, Ingimar Jónsson, sem stundaði íþróttanám í Leipzig.

Hvernig hefur þér svo líkað við fólkið og starfið hér?

Eg vil segja það fyrst, að ég gerði mér ekki rangar hugmyndir um landið eða fólkið, sem hér býr. Þetta hefur reynzt nokkurn veginn í samræmi við það, sem ég var búinn að hugsa mér. Okkur hjónunum hefur ekki leiðst hér, við höfum kunnað vel við fólkið og mér hefur líkað vel að starfa að tónlistarmálum \hér. Tónlistaráhugi virðist vera töluverður og tónlistarhæfileikar þeirra, sem ég hefi starfað með eru góðir, raddgæði söngfólksins sömuleiðis, en fyrsta skilyrði til að hægt sé að ná góðum árangri er að fólkið hafi ánægju af að syngja og leika á hljóðfæri og það þarf að hafa ákveðið mark að keppa að. Ennfremur er það ekki lítils virði að finna út hvers konar hljómlist og tónverk hrífa nemandann og þá jafnframt hvað er við hæfi áheyrendanna.Mér virðist að létt lög hafi hér almennasta hylli.

Gætir þú hugsað þér að dvelja hér hjá okkur eítthvað framvegis?

Um það er ekki svo gott að segja neitt ákveðið. Við hjónin erum bæði einkabörn foreldra okkar og að sjálfsögðu hefðu þau ekki á móti þvi að við kæmum heim til ættlandsins. Hinsvegar get ég sagt nokkuð ákveðið, að ég hefi ekki löngun til að skipta um dvalarstað á Íslandi, t. d. flytja til Reykjavíkur eða annað, svo vel hefur mér líkað hér, og vil ég nota tækifærið og bera fram einlægar þakkir til allra Siglfirðinga og þá sérstaklega til þeirra, sem ég hefi starfað með. Og undir þessi þakkarorð tekur frú Gisella og bætir við, að sér hafi fundizt hún vera hér eins og heima hjá sér.

G. J."

Gerhard Schmidt lést í Þýskalandi í septembermánuði árið 2010 eftir að hafa átt við veikindi að stríða um nokkurt skeið.


Þessar skemmtilegu jólakveðjur birtust svo í desemberblaði Siglfirðings á því herrans ári 1963


Heimildir eru að mestu fengnar úr bæjarblöðunum Siglfirðingi, Mjölni, Einherja og Neista, en einnig lítlega úr bókunum Brauðstrit & barátta og Siglufjörður 1818-1918-1968. Ekki má svo gleyma að nokkrar ljósmyndir eru ættaðar úr Ljósmyndasafni Siglufjarðar og einhverju hafði svo skrifarinn við að bæta beinustu leið frá sjálfum sér.

25.12.2013 06:58

Gleðileg jól



903. Ég óska öllum ættingjum mínum, vinum og vandamönnum, svo og öllum þeim sem hingað líta inn, gleðiríkrar og góðrar jólahátíðar, farsældar og fiðar. Megi nýtt ár síðan verða bæði gæfuríkt og gjöfult í alla staði.

Myndina hér að ofan tók ég á Digranesveginum í Kópavogi, en ekki verður séð betur en að eigendur hússins hafi horft til hennar ameríku þegar lýsingin var hönnuð.

16.12.2013 12:55

Nokkur orð um afrek háttvirts þingmanns


902. Sú Vigdís Hauks sem sagði að "Strax" væri  teygjanlegt hugtak hefur verið nokkuð áberandi að undanförnu og sett mark sitt á þjóðmálaumræðuna þó það hafi ekki alltaf verið með mjög áferðarfallegum eða jákvæðum hætti.

Hún fór mikinn í morgunútvarpi rásar 2 þann 9. des. sl., en þar sat hún fyrir svörum ásamt Katrínu Júlíusdóttur sem virtist vera ofboðið og lengst af hálf orðlaus vegna þess sem sú fyrrnefnda lét flakka og lái henni hver sem vill.

Fréttamaðurinn spurði Vigdísi Hauksdóttur út í þá furðulegu þversögn að lækka álögur á ríkt fólk en hækka þær á fátækt fólk, skera niður hjá þeim sem síst skyldi, til að mynda hjá fátækasta fólki í heimi,

Hér á eftir eru nokkrar glefsur úr svari Vigdísar.

"Þetta er bara byrjunin sem koma skal hjá nýrri ríkisstjórn.".

"Það voru kosningar í vor og það er mjög óeðlilegt að núverandi ríkisstjórn framfylgi stefnu fyrri ríkisstjórnar".

"Þetta er hluti af því að vinda ofan af þeirri vitleysu sem var í gangi á síðasta kjörtímabili, að setja fjármagn á ranga staði".

"Okkur er að takast að snúa skútunni við".

"Lækkun á útgjöldum til þróunarmála og barnabóta hluti af því að vinda ofan af vitleysu síðasta kjörtímabils".

"Það er okkar að forgangsraða í þá veru að skattféð nýtist sem best og fari á þá staði sem því er best varið".

En hægt er að hlusta á viðtalið á rás 2 í heild sinni ef fylgt er eftirfarandi slóð. http://0dayhotmusic.com/jack-hrafnkell-danielsson/vigd-s-hauks-og-katr-n-j

-

Ban-ki-moon aðalritari Sameinuðu þjóðanna sagði það sérlega aðdáunarvert að Íslenska þjóðin þrátt fyrir erfiða kreppu hefði ekki slegið af í stuðningi sínum við fátækar þjóðir og þá sem minna mega sín í heiminum. Hann sagði einnig að þær gjörðir Íslendinga mættu verða öðrum þjóðum mikil og góð fyrirmynd.

Þ. 21 mars 2013 samþykkti Alþingi aukin fjárframlög til þróunarsamvinnu með öllum greiddum atkvæðum nema einu. Vigdís Hauksdóttir greiddi atkvæði á móti.

Sjá: http://www.youtube.com/watch?v=rRkk1SGqq2g

-

Og það fór ekkert á milli mála að Vigdís vildi verða ráðherra þegar síðasta stjórn var mynduð.

"Ég varð fyrir vonbrigðum því ég sakna þess að það sé ekki ráðherra úr Reykjavík," 

"Það á eftir að skipa einn ráðherra með haustinu og það á eftir að rétta þennan kynjahalla í ríkisstjórninni að mínu mati," 

segir Vigdís í viðtali við DV sem segist hafa sóst eftir því að verða ráðherra.

-

Og hún hafði uppi það sem ýmsir hafa túlkað sem hótanir gagnvart RÚV fyrir að fara aðrar leiðir í fréttaflutningi en henni var þóknanlegt.

Veffréttamiðillinn eyjan.is fjallaði um meintar hótanir þ. 14. ágúst sl.

"Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, er afar ósátt við fréttaflutning RÚV og segir fréttastofuna vinstri sinnaða og halla undir Evrópusambandið. Hún gaf sterklega til kynna að hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar muni leggja til að skorið verði niður í rekstri RÚV. Svo bætti hún við; "Ég er náttúrulega I þessum hagræðingahópi".

Og stjörnulögmaðurinn Sveinn Andri Sveinsson sagði á facebooksíðu sinni.

"Formaður fjárlaganefndar ósáttur við að fréttastofa RUV hafði rangt eftir henni og hótar niðurskurði á fjárveitingum. Þessi ummæli væru mjög eðlileg í Zimbabwe, en það getur ekki verið að Íslendingar hafi þolinmæði gagnvart svo vitsmunaskertum ummælum og grímulausum hótunum. Í siðmenntuðum löndum væri ekki aðeins búið að krefjast afsagnar Vigdísar, heldur væri hún farin frá störfum sem formaður fjárlaganefndar".

Og nú vilja einhverjir meina að hún hafi staðið við hótanirnar.

-

Í morgunþættinu "Bítið" á Bylgjunni þ. 14. ágúst sl. viðraði Vigdís skoðanir sínar á ESB og IPA styrkjunum sem nú hafa verið dregnir til baka.

"Vigdís sagði það skoðun sína að IPA styrkir Evrópusambandsins væru "glópagull". Forstöðumenn ríkisstofnana hafi farið á ferð og flug og farnar hafi verið fjölmargar ferðir til útlanda í tengslum við aðildarumsóknina".




Myndin hér að ofan fylgdi pistli á vefnum http://jack-daniels.is sem hafði að yfirskriftinni "Vont er þeirra ranglæti, en verra er þeirra réttlæti". Þar mátti einnig lesa eftirfarandi:

"Það er deginum ljósara að við sitjum uppi með stjónrmálamenn í rikisstjórnarflokkunum sem hafa ekki einu sinni greind á við mýflugu hvað þá heldur meira.  Þetta fólk, í sjálfsánægju sinni, hroka og heimsku, heldur sig vita allt, kunna allt og geta allt.  Raunin er bara sú eins og áður er sagt að þetta fólk hefur ekki hundsvit á því sem það er að gera og er þjóðinni allri til skaða og háborinar skammar".

Og við megum eiga von á að fá meira af Vigdísi, m.a. í næsta spaugststofuþætti (þó einhverjum þyki reyndar nóg komið af henni í bili), en Pálmi Gests mun leika hana þar sem hún er trufluð án afláts með sms-um frá Vodafone á jólahlaðborði meðan hún reynir að njóta aðventunnar ásamt öðrum framsóknarmönnum. Það hefur reyndar kvisast út að hún verði fyrirferðamikil í næstu þáttum þeirra spaugstofumanna.

-

Eftir því sem meira er kafað ofan í orð hennar og gerðir, verður sú spurning áleitnari hvort finna megi mikið óheppilegri þingmann í sögu Lýðveldisins.

Sá sem þetta ritar telur sig vera alveg sérlega áhugalítinn nú orðið þegar flokkapólitík er annars vegar og hann (áhuginn) fari hratt minnkandi með hverju árinu sem líður, En þegar svona málflutning ber fyrir augu og eyru er erfitt að segja ekki neitt.

11.12.2013 17:51

Sektum hlaðinn


901. Það má alveg halda því fram með góðum og gildum rökum að eigandi þessa bíls sé að verða sektum hlaðinn, en bílastæði þar sem gjaldskylda er, mun seint verða talið heppilegt langtímastæði eða geymslustaður ökutækja.

Ég gekk fram á þennan vínrauða vagn föstudaginn 22. nóvember á stæðinu við hús Tollstjóra við Tryggvagötu og mér sýnist að ef rýnt er í neðri myndina, miðarnir undir þurrkublaðinu vera orðnir sjö talsins og hafði ratað þangað einn á dag undanfarna daga. - Þó ekki fleiri.

Á heimasíðu Bílastæðasjóðs má lesa eftirfarandi: Það gjald (sem í daglegu tali er kallað "stöðumælasekt") er 2.500.- krónur. Að frádregnum staðgreiðsluafslætti er upphæðin 1.400.- krónur. Sé gjaldið ógreitt 14 dögum eftir álagningu hækkar það úr 2.500.- krónum í 3.750.- krónur og gjöld sem enn eru ógreidd 28 dögum eftir álagningu hækka í 5.000.- krónur.

Ég átti aftur leið þarna um sunnudaginn 24. nóv. og þá var bíllinn hvergi sjáanlegur.




Og til að tengja þennan pistilstubb við Siglufjörð sem mér er svo gjarnt að gera sé þess nokkur kostur, þá er Siggi Konn húsvörður í Tollhúsinu.

08.12.2013 03:48

Kótilettukvöld togarajaxlanna



900. Síðast liðið fimmtudagskvöld hittust Hafliðaguttarnir á nítjándu hæðinni í Turninum og gerðu sér gott af algjörlega ófituhreinsuðum kótilettum ásamt tilheyrandi og raunar bráðnauðsynlegu meðlæti, þ.e. brúnuðum kartöflum, grænum baunum, rauðkáli, brúnni sósu, súrsuðum gúrkum og rabarabarasultu að ógleymdri blessaðri laukfeitinni sem átti það til að vella úr munnvikum átfundarmanna ef þeir voru ekki þeim mun settlegri.

Hljómar þetta annars ekki hæfilega virðulegt, ákaflega heilsteypt, passlega forvitnilegt og verulega seðjandi?

Eins og sjá má af disknum MÍNUM  sem myndin er af hér að ofan, var tekið hraustlega til matar sins. Og ég er hreint ekki frá því að hann hafi alls ekki verið ofhlaðinn, heldur miklu frekar dæmigerður fyrir línuna og lýsi beinlínis skoðunum "Jaxlanna" á hvernig taka á til matar sins þegar almennilegt fóður er á borðum.

Kótilettur hafa átt æ meira undir högg að sækja eftir því sem árin hafa liðið og því miður orðið að lúta í lægra haldi fyrir ýmis konar ruslfæði sem mun minna hefur þurft að hafa fyrir að matreiða, en full ástæða er til að gera átak í að halda heiðri hennar á lofti meira en gert hefur verið um árabil. Nokkuð hefur borið á því undanfarin misseri að stofnað hefur verið til kótilettukarla og kvennafélaga sem er vel. Kótilettan var nefnilega að verða eins konar "antikréttur" á þeim matseðlum veitingahúsa þar sem hún sást ennþá, en það var reyndar orðið svo óvíða að segja má að stefnt hafi í útrýmingarhættu hennar.

En nú er sem betur fer að verða vakning meðal þjóðarinnar og þessi mjög svo þjóðlegi réttur er að öðlast sinn virðingarsess á ný sem hann á svo sannarlega skilið, og svo virðist sem eins konar kynslóðaskipti séu að verða, þegar kemur að hinni íslensku matargerðarlist og hefð. Kótilettufélög eru að verða til í hverju plássi rétt eins og þorrablótin með sínum pressuðu pungum, kjömmum og súrhveli voru endurvakin í Naustinu fyrir um það bil hálfri öld.

Sjá nánar á: http://www.siglo.is/is/frettir/herrakvold-kotilettufelags-haflidaguttanna

  • 1

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 1044
Gestir í dag: 119
Flettingar í gær: 575
Gestir í gær: 91
Samtals flettingar: 303841
Samtals gestir: 32849
Tölur uppfærðar: 19.3.2024 15:00:55
clockhere

Tenglar

Eldra efni