04.04.2009 17:24

Nýfarin Siglóferð, afmæli sem næstum gleymdist og fólk með englaraddir.

556. Þá hefur ferðin á heimaslóðirnar verið farin og ferðalangurinn er kominn til baka. Þessi mynd segir nokkuð um skyggni og veðurfar meðan á ferðalaginu stóð. Nánari upplýsingar eru svo á leiðinni.

En eitthvað gengur fæðingin á Siglufjarðarpistlinum erfiðlega, en vonandi hefst þetta fyrir sumarmál.


Viðbót 07.04.09.



"Fjandinn fjarri mér" hugsaði ég með mér í dag þegar ég áttaði mig á að mér hafði alveg liðið úr minni afmælisdagur míns fyrrverandi samherja um áratuga skeið.
Já, mikill lúðalags auli getur maður verið nú á hinum síðari árum þegar feyskinn hugurinn hreinlega lekur út slíkum merkisupplýsingum, rétt eins og harður diskur í útjaskaðri 286 tölvu sem hefði með réttu átt að vera búið að fara með í endurvinnslugáminn fyrir margt löngu síðan. Það bendir því flest til þess að kominn sé tími til að taka til í hausnum á sjálfum sér og "rístora" búnaðinum í toppstykkinu, eða alla vega því sem enn er virkt þar uppi.
En þessi sólhýri og sviplétti maður sem á "góðum" dögum hefur stundum verið nefndur "miðaldra dökkblá jakkaföt" af nokkrum einstaklega ófyndnum "húmoristum", átti nefnilega afmæli í vikunni. Nú er hann farinn að nálgast sextugt (kannski meira en góðu hófi gegnir að hans mati) og verður því að öllum líkindum kominn lítillega á sjötugsaldurinn um það leyti sem kreppunni fer að linna, svo gefin sé svolítil vísbending umstöðu mála án þess þó að leggja fram fullkoma aldursgreiningu.
Ég geri ráð fyrir að mikið hafi verið um dýrðir og dagurinn viðburðarríkur framan af og fram eftir. En afmælis"barnið" hafi að lokum eins og honum er svo tamt og lagið, látið sig líða inn í annan heim eftir að rökkva tók, honum horfið þar með hið veraldlega amstur og hann staðið utan líðandi stundar um nokkurt skeið.
Mikið er gott að vera slíkum kostum og hæfileikum búinn, ég segi nú ekkert annað en það.

Ég óska Gunnari Jósefssyni til hamingju með afmælið og veit að kveðjan kemst til skila af því að ég hef "sannfrétt" að hann er einn af dyggum lesendum bloggsíðunnar þó í laumi sé.


Viðbót 09.04.09.



Ég má til með að koma á framfæri við þá sem ekki þekkja einu því magnaðasta tónlistaratriði sem ég hef séð í langan, langan tíma. The Voca people er söngflokkur sem notar aðeins það mannlega hlóðfæri sem við fæðumst með og gerir það á undraverðan hátt. Þessi hópur fremur hálfgerða hljóðgjörninga án hjálpar nokkurra hljóðfæra eða effekta og maður situr gersamlega dolfallinn yfir því sem fyrir eyrum hljómar. Ég mæli með að þið smellið á slóðina http://www.youtube.com/watch?v=N6EYrqIn0yI og hækkið vel í hátölurunum.

Annars nálgast páskanir eins og "óð fluga" og sá sem þetta ritar verður "home alone" fram yfir alla dagana sem merktir eru rauðir á dagatalinu. Ástæðan er sú að það er verið að spila um hátíðarnar og ég kemst því ekki með vestur á firði eins og "hinn hlutinn". Svo má geta þess að ég keypti ekkert páskaegg í ár, en þessi í stað sex lítra af ís sem verður alveg örugglega allur búinn áður en fjölgar aftur á heimilinu og kannski hef ég það af að klára "stóra Siglufjarðarbloggið" á meðan, - hver veit.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 881
Gestir í dag: 132
Flettingar í gær: 903
Gestir í gær: 489
Samtals flettingar: 324272
Samtals gestir: 36262
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 16:33:32
clockhere

Tenglar

Eldra efni