06.08.2009 00:29

Síldarævintýri 2009



581. Um Síldarævintýrishelgina komum við nokkrir afkomendur Leós afa saman vegna 100 ára ártíðar hans. Eins og búast mátti við varð því samkoman talsvert Vestfirsk yfirlitum sem hann hefði eflaust talið af hinu góða.



Leó Jónsson var fæddur þann 7. september árið 1909 á Höfðaströnd í Grunnavík. Foreldrar hans voru Jón Arnórsson hreppstjóri og Kristín Jensdóttir en þau eignuðust sex börn. 

Kristín var seinni kona Jóns, en með fyrri konu sinni Kristínu Kristjánsdóttur átti hann einnig sex börn.

Alsystkini hans voru Valgeir, Kristín, Karl, Indriði og Sigríður sem öll eru látin en hálfsystkinin voru Árni Friðrik, Elísabet, Valgerður, Kristján, Ólafía og Arnór.

Leó var aðeins fárra ára gamall þegar faðir hans féll frá, og flutti hann þá með móður sinni og systkinum í Hnífsdal. Þar bjó hann aðeins skamma hríð því hann flutti fljótlega til Valgeirs bróður síns sem þá bjó að Gemlufelli í Dýrafirði. Þar leið honum mjög vel á sínum þroska- og uppvaxtarárum.

En þó kom að því að hann hleypti heimdraganum, yfirgaf æskuslóðir sínar á vestfjörðum og fór til Siglufjarðar líklega 1933, þá rúmlega tvítugur. Þar voru næg verkefni fyrir duglegan ungan mann, verkefni sem flest snérust um veiðar á silfri hafsins, síldinni og vinnslu á henni sem skilaði æ meiri  verðmætum til lands og þjóðar. 

Til Siglufjarðar kom margt ungt fólk til starfa á þessum árum og þar á meðal var ung stúlka úr Svarfaðardalnum, Sóley Gunnlaugsdóttir. Leiðir Leós og Sóleyjar lágu brátt saman og á ævigöngunni upp frá því voru þau samferða í lífinu.  Þau hófu fyrst búskap á Ísafirði og bjuggu þar í eitt ár, en að þeim tíma loknum fluttu þau aftur til Siglufjarðar þar sem þau höfðu fyrst kynnst og bundist tryggðarböndum.

 

Þau Leó og Sóley eignuðust eina dóttur saman, Minný Gunnlaugu, en áður hafði Leó eignast soninn Gunnar með Soffíu Bæringsdóttur. Gunnar lést af slysförum þann 27. mars árið 1994.  Hann var kvæntur Guðbjörgu Stefánsdóttur í Bolungarvík og áttu þau fjögur börn saman, Hafþór, Jóhönnu Sóley, Bæring og Elínu, en fyrir átti Gunnar dótturina Fanný.

Minný var lengst af búsett á Sauðárkróki og eiginmaður hennar var Haukur Stefánsson sem lést árið 1992 en hún árið 2002. Börn Minnýjar eru tvö, Leó Reynir og Sæunn. Leó Reynir ólst upp hjá móðurafa sínum og ömmu, Leó og Sóleyju á Hverfisgötunni og bjó hjá þeim fram yfir tvítugsaldur. Sæunn ólst upp hjá föðurafa sínum og ömmu á Ásfelli sem er rétt sunnan Akraness.

 

Fyrstu árin eftir að Leó kom til Siglufjarðar stundaði hann mest sjómennsku, en síðan söðlaði hann um og fór að vinna í landi. Fyrst í slippnum við bátaviðgerðir og ýmislegt fleira aðallega tengt bátum. Þar fann hann að smíðar áttu vel við hann, enda var hann laginn, nákvæmur og góður verkmaður. Hann vann í tunnuverksmiðjunni í mörg ár og síðar hjá Húseiningum allt frá stofnun þess fyrirtækis til 75 ára aldurs þegar hann dró sig í hlé.  Hann var einn af þeim síðustu sem fengu ráðherrabréf sem veittu honum rétti til að vinna sem smiður, en það segir sitt um verkkunnáttu hans á þessu sviði.  Það sem einkenndi Leó og kom glöggt fram í öllum hans störfum, var vinnusemi og trúmennska. Þá var hann snyrtilegur og vandvirkur, og vildi ávallt hafa hlutina í afar mikilli röð og reglu.

Hann var hægur maður sem hafði sig ekki mikið í frammi, en góður í viðkynningu og þægilegur í umgengni. Hann kom ekki mikið nálægt félagsmálum, en starfaði þó um skeið af áhuga með vestfirðingafélaginu á Siglufirði meðan það var virkt, en það áhugamál sem átti hug hans mestan og í raun allt til hinstu stundar var tónlistin. Hann hlustaði mikið á tónlist, söng gjarnan eða raulaði fyrir munni sér yfir útvarpinu og spilaði á orgel og harmoniku. En það var líklega harmonikan sem var honum hjartfólgnust og hana hafði hann gjarnan nálægt sér á góðri stundu.

En þótt gamla ítalska takkaharmonikan hljómi ekki lengur í höndum Leós afa þá geta hins vegar þeir gömlu tónar ómað sem gleðiríkur undirleikur þeirra minninga sem ástvinir eiga í hjarta á kveðjustundu og um ókomna tíð.




Með afar litlum fyrirvara var þeirri hugmynd hrint í framkvæmt að nokkrir gamlir félagar úr hinu Siglfirska poppi tengdu græjurnar og tækju nokkur lög saman á pallinum hjá Bigga Inga.



Og þar sem gengið hafði á með skúrum og jafnvel bullandi rigningu alla helgina, þótti skynsamlegt að gera þær ráðstafanir sem dyggðu til að verja hljóðfærin utanaðkomandi bleytu þó svo að mannskapurinn kættist yfirleitt af henni. 



Ég fann til all nokkra fermetra af byggingarplasti sem Biggi kom fyrir með dyggri aðstoð Palla Sigþórs smiðs.



Biggi Inga, Páll Marel og sá sem þetta ritar þrútinn í framan vegna nýfengins bráðaofnæmis með "moonface" og allt. Þrír Siglfirðingar sem hafa ýmsa "fjöruna" sopið saman. Þó munu þeir líklega hafa sopið mest sameiginlega á vertíð í Eyjum forðum þegar þeir réðu sig í vinnu hjá Bassa Möller sem stjórnaði aðgerðinni hjá Ísfélaginu.



Palli var auðvitað útnefndur rótari bandsins og þurfti því m.a. að taka nokkra takta á settið til að fullvissa sig um að það virkaði. En það má bæta því við að eftir að hann fluttist suður yfir heiðar á sínum tíma, fór hann að spila á trommur í bandi sem starfaði um skeið á Reykjavíkursvæðinu.



Haft var samband við Gumma Ragnars sem var kominn frá Sauðárkróki skömmu eftir að símtalinu lauk með gítarinn og magnarann í skottinu. Það vantaði ekki áhugann hjá honum og ég verð að segja að hann er bara skrambi liðtækur á gítarinn, eða bara helv. góður ef ég orða þetta ögn nákvæmar.



Ég held að það sé svipað hjá Bigga að tromma og þegar maður lærði að hjóla á sínum tíma. Ef maður er einu sinni kominn upp á lagið þá gleymist það einfaldlega aldrei aftur. Þannig virkaði samspilið á mig milli mannsins og settsins á myndinni hér að ofan.



Það var alveg furðulegt hvað uppákoman og framkvæmd hennar gekk vel fyrir sig. Það var ekkert æft, engin lög ákveðin fyrir fram og ekki einu sinni gert soundtest, heldur bara talið í og byrjað.
Við þremenningarinr höfum ekki spilað saman síðan árið 1978 ef frá er talið að við æfðum nokkur lög með Selmu og Magga Guðbrands (Miðaldamenn 78) og spiluðum á Players á Siglfirðingaballi.




En þetta var auðvitað alveg "ógeðslega" gaman. Við spiluðum sleitulaust í u.þ.b. tvo tíma (frá 17 - 19), en hætta skal leik þá hæst hann stendur því það var m.a. kominn kvöldmatur.



Skömmu eftir að við hófum leikinn fóru forvitnir vegfarendur að staldra við og leggja við hlustir. Bílar óku löturhægt hjá, rúður voru skrúfaðar niður og brosandi andlit birtust. Um gjörvalt nágrennið opnuðust dyr húsanna, íbúarnir settust makindalegir á tröppurnar "með kaffibolla eða eitthvað svoleiðis í höndum sér" og virtust hinir kátustu.



Einn áheyrandinn hafði á orði að það væri gaman að sjá að hljómsveitin skemmti sér ef eitthvað væri, jafnvel betur en þeir sem hún væri þó að skemmta.
Þetta er líklega það sem kallað er spilagleði...




En niðri á torgi mátti svo hlýða á Buffið um kvöldið.



Og Papana.



Ég hitti Inga Hauks bekkjarbróður minn á torginu og var hann greinilega í góðu formi eins og sjá má.



Flugeldasýningin á laugardagskvöldinu var eiginlega flottari og betur heppnuð en magn skotelda hefði átt að gefa tilefni til.



Líklega hafði umhverfið sitt að segja.



Þessi unga stúlka heitir Þóra Sóley Ingvarsdóttir. Hún tók mig á eintal og tjáði mér eftirfarandi hálf hvíslandi en í mjög alvöruþrungnum tón.
"Afi, það eru bara fimm ár þangað til ég fermist".
Auðvitað verður að huga tímanlega að slíku...




Það hafði staðið til alla helgina að kynna sér í það minnsta einhvern svolítinn hluta af sögu síldarbæjarins mikla og ráðgerð ferð að rústum Evanger. Ekki gafst þó mikill tími til slíks fyrr en á sunnudeginum en þá fór að rigna. Við biðum þolinmóð um stund og vonuðums til að stytti upp, en virtumst ekki ætla að hitta á óskastundina hvað veðurfarið varðaði.



Eftir að hafa farið yfir á gamla flugvöll og horft út í sortann var látið vaða og fjaran gengin í átt að rústunum. Ég hélt svolitla tölu sem ég hafð þróað og æft í huganum undanfarnar vikur um mikilfengleik alls þess sem gerðist framan af síðustu öld, en flest orða minna hafa sennilega rignt flest í kaf áður en þau náðu eyrum viðstaddra. Eftir skamma viðdvöl gengum við til baka og þegar við komumst loks í hús var ekki þurran þráð að finna á okkur.



Þessi mynd lýsir líklega helgar og hátíðaveðrinu nokkuð vel. Við Bæring skruppum í stutta skoðunarferð upp á snjóflóðavarnargarðana í svolítilli uppstyttu þrátt fyrir að vita að hún myndi að öllum líkindum ekki standa mjög lengi.



Á þriðjudeginum var komið að því sem ég hafði beðið eftir. Þegar ég leit til veðurs um morguninn var ekki skýtutla á fjallatoppunum, logn og blíða. Við Haukur Þór höfðu talað um að ganga til fjalla ef veður leyfði og nú var tækifærið komið þil þess konar æfinga. Við lögðum af stað með nesti sem samanstóð af Maryland kexi, Marsipan súkkulaði (sem var keypt eftir að myndin var tekin) og blávatni á heppilega löguðum ílátum. 



Við fengum skutl upp í Siglufjarðarskarð en þaðan var áætlað að ganga norður fjöllin ofan bæjar eins langt og veður eða við entumst.



Lagt var af stað upp úr skarðinu og áleiðis upp á fyrsta hnjúkinn sem ég veit því miður ekki hvað heitir. Ég hef leitað nafnsins á fjallabyggð.is/gonguleidir, snokur.is og spurt vísa menn en án nokkurs árangurs. Mikið yrði ég kátur ef einhver gæti leitt mig til hins stóra sannleika í málinu.



Ég get ekki annað en dáðst að Hauk sem hingað til hefur ekki lagt í fjallgöngur vegna meðfæddrar lofthræðslu að láta sig vaða til leiks.
Þessi uppstilling mun teljast vera innan skynsemismarka...



...En þessi líklegar mun síður.



Hér sést fjallið "nafnlausa" vel, en það er á milli skarðs og Illviðrishnjúks. Þegar hérna er komið sögu höfum við farið þar upp og aftur niður og erum komnir langt upp í hlíðar Illviðrishnjúksins.



Og toppnum er náð. Við höfum gengið rösklega fram að þessu en gefum okkur nú tilma til að virða fyrir okkur útsýnið. Hnjúkurinn er 895 metra hár og er næst hæsta fjall við Siglufjörð. Aðeins Almenningshnakki er litlu hærri eða 915 m. Ég rifjaði upp að það eru u.þ.b. 40 ár síðan ég stóð þarna síðast, en nýlega komu fram ljósmyndir sem voru teknar í þeirri ferð og mun ég örugglega gera henni og þeim skil síðar.



Þarna hefur verið komið fyrir sendi sem er knúinn sólarrafhlöðu með tilheyrandi sellu, en ég kann samt ekki alveg nógu vel skil á þessum búnaði sem þarna er nema að hann er svolítið "speisaður".



Og þar sem enn var ekki liðið langt á daginn var ennþá möguleiki á að gera nokkrar "morgunæfingar" tímasetningarinnar vegna



Og við fundum fleiri "skemmtilega" kletta sem varð að skoða nánar.



Þessi var hinn þægilegasti að tylla sér á.



Það rifjaðist upp fyrir mér að það voru líka teknar myndir í gegn um þetta sama gat fyrir fjörutíu árum, en líklega af Guðna Sveins sem var í þeirri ferð og myndefnið var ekki Siglufjarðarskarð á þeim tíma heldur nýfermdur LRÓ.



Á leiðinni niður af Illviðrishnjúk breiðir Mánárdalur úr sér fyrir fótum ferðalangsins ef horft er til vesturs.



Í norðri er Hádegisfjall og þangað fórum við næst, en af tilvist þess vita alls ekki allir. Líkleg skýring er að fjallið er ekki mikið að umfangi og sést ekki vel úr bænum.



Við gengum næst fram og niður á Snók, en af honum sést vel yfir bæinn og fjörðinn og má segja að þaðan sé ágætt skotstæði fyrir myndavélar.



Ef litið er til baka ber Illviðrishnjúk við himinn en nær er norðurendi Hádegisfjalls.



Framundan er svo Hafnarfjallið ofan Leirdala og stefnan var sett á Hafnarhyrnuna.



Hæsti hluti Hafnarhyrnunnar er þessi tvískipti toppur. (687 m).



Næsti áfangi var að ganga brúnirnar í kring um Hvanneyrarskálina. Í suðurhlíðun hennar er þessi grýtti hóll sem setur svolítið sérstakan svip á umhverfið og í fullkominni andstöðu við næsta nágrenni.



Iðjagræn Hvanneyrarskálin er svolítið dulúðleg í öllum sínum dýrðarljóma frá liðnum árum. Þarna hafa líklega margir skemmtilegir hlutir gerst.



Af brúnunum mikki skálar og Engidals var gott skyggni inn Skagafjörðinn.



En það var hátt niður að líta því þarna eru mikil klettabelti undir Engidalsmegin.



Þeir voru svo skemmtilega veðraðir þessir steinar að ég smellti mynd af þeim til frekari skoðunar á síðari stigum (eða þannig).



Norðan skálarinnar er Hvanneyrarhyrna (640 m). Fyrir neðan sést önnur hyrna og eru þær nefndar Hvanneyrarhyrnur á snokur.is. Þar fyrir neðan og lægst er Gróuskarðshyrna.



En nú var hafinn síðasti áfanginn og sá hluti leiðarinnar sem mér fannst mest spennandi, því ég hef hingað til aldrei komið í fjöllin fyrir norðan skál. Það eina sem ég hef vitað er að þar er landslag allt mun hrikalegra og stórbrotnara en annars staðar í firðinum og telst því síst af öllu heppilegt fyrir lofthrædda. Ég minntist á þetta atriði við Hauk en hann var hvergi banginn og harðákveðinn í að klára "pakkann".



Hann fór meira að segja á undan mér af stað þótt hann léti brúnir síga lítillega þegar hann sá bandið sem ætlað er til ígrips og stuðnings. Framundan er þessi myndarlega hyrna (myndin að ofan) sem ég veit ekki fyrir víst hvort er Strákahyrna eða Skrámhyrna. (Allar upplýsingar vel þegnar). Þarna eru hvassar eggjar og mun betra en ekki að jafnvægisskynið standist lágmarskröfur. Samkvæmt merkingu á mynd á örnefnavefnum snokur.is sýnist mér þó að Strákahyrna sé ysti hluti fjallsins.

Um tröllskessuna Skrámu sem fjallshyrna í Strókafjöllum dregur nafn sitt af, er það að segja að hún bjó ein í helli sínum framarlega í Engidal.
Um Stráka er það hins vegar að segja að talið er að fjallgarðurinn hafi upphaflega verið nefndur Strókar og þá dregið nafn sitt af sínum óteljandi klettastrýtum.




En það var kominn tími á að líta um öxl og horfa yfir farinn veg. Ekki sést til upphafsstaðarins því Siglufjarðarskarð er á bak við Illviðrishnjúkinn sem gnæfir yfir önnur fjöll (svolítið hægra megin við miðju). Ekki heldur til fjallsins sem nafnið finnst ekki á af sömu ástæðu. Aðeins grillir í Hádegisfjalls ef vel er rýnt, en Snókur sem er mun lægri felur sig á bak við Hafnarfjall. Nær er Hafnarhyrna (vinstra megin við miðju) og þaðan liggja brúnirnar umhverfis skálina og enda á Hvanneyrarhyrnunni (lengst til vinstri). Þetta er búinn að vera myndarlegt rölt hingað til en þó er stubbur eftir enn. Myndin er tekin af hnjúknum sem ég er ekki viss um hvort er Stráka eða Skrámhyrna.



Þegar þaðan er komið niður, er stutt í næstu hyrnu sem er þó mun flatari í kollinn en önnur fjöll á svæðinu.



En af brúnum hennar er hreint ótrúlega bratt niður á láglendið eða jafnvel alla leið ofan í fjöru.



Til vesturs má sjá bæinn Sauðanes og Sauðanesvita.



En hér endar landið og Grímseyjarsund tekur við. Ég varð samt að komast út í þennan klett sem er hin endanlega endastöð á þessari leið. Reyndar mæli ég með því við alla sem þarna fara um að þessum hluta leiðarinnar sé sleppt, því bergið þarna er mjög morkið svo erfitt getur verið að fóta sig. Og þeim sem verður fótaskortur á þessum stað, fá tæpast annan séns á þessu tilverustigi. Ég skal fúslega viðurkenna að ég var skíthræddur á leiðinni út í klettinn og jafnvel enn hræddari á leiðinni til baka, en þeirri stund fegnastur þegar ég var kominn til baka.



Hér sést niður gilið utan við Ófæruskál sem Herkonugil gengur niður úr, en það var sá farartálmi á sínum tíma sem varð til þess að Strákagöng þóttu mun hagkvæmari kostur en vegur yfir það.



Nokkrum metrum vestar sést hvar vegurinn er í þann veginn að hverfa inn í fjallið langt, langt, langt fyrir neðan.



Þessi klettur gæti alveg heitið Ystiklettur en gerir það þó sennilega ekki. Fyrir norðan hann er ekkert nema þverhnípið og áræddi ekki að nálgast hann meira en ég gerði þarna.



Það var kominn tími á að ganga nokkurn spöl til baka og hverfa til mannheima á ný. Við völdum að fara niður í Engidal, en alveg eins hefði verið hægt að ganga niður Hvanneyrarskálina norðan eða norðvestanverða.



Tilfinningin sem fylgdi því að vera kominn niður af fjallinu einkenndist af undarlegri blöndu léttis og feginleika en einnig svolítilli sigurvímu. Þetta var vissulega orðið gott í bili og ég var farinn að finna fyrir hinum vel þekktu byrjunareinkennum strengjamyndunar, en vissi jafnframt að eftir fáeina daga yrði allt komið í gott lag aftur og þá yrði enn á ný lagt á brattann.



Við sáum af veginum að þar sem við höfðum staðið rúmum hálftíma áður var nú skollin á svartaþoka.



Það var svo Gunni Óðins skipstjóri og stýrimaðurinn hans sem pikkuðu okkur upp af veginum og komu okkur í bæinn með góðum skilum. - Þökk sé þeim.

Ferðin um vesturfjöll Siglufjarðar hafði tekið slétta sjö tíma og það var farið að verða kvöldsett þegar henni lauk. Engu að síður var pakkað niður þetta sama kvöld og stefnan sett á Hafnarfjörð, en þangað var komið um fjögurleytið á miðvikudagsmorgun.

Aðeins lítill hluti þeirra mynda sem teknar voru á Síldarævintýri og í fjallgöngunni voru notaðar í pistilinn, en slóðin http://leor.123.is/album/default.aspx?aid=152434
leiðir þá sem áhuga hafa til þeirra allra.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 275
Gestir í dag: 54
Flettingar í gær: 403
Gestir í gær: 101
Samtals flettingar: 318302
Samtals gestir: 34935
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 21:56:56
clockhere

Tenglar

Eldra efni