12.02.2010 00:52

Sea Shepherd, hvalir, selir og ESB

613. Meðan ég var að raða saman ýmsu því sem var mér ofarlega í huga úr Skagafirðinum frá liðnu ári, rakst ég á nokkrar fréttir í fjölmiðlum sem ég gat ekki annað en staldrað við og sett í nokkurt samhengi við hina Íslensku pólitík sem tók alveg nýja stefnu með umsókn í ESB.




Fyrst rakst ég á frétt um að Sea Shepherd menn eru óhressir með að Japanskt hvalveiðiskip sökkti áreytisfleytunni Ady Gil að þeirra sögn viljandi, en þeir voru að reyna að flækja reipi í skrúfu þess (viljandi). Þar sem það liggur fyrir að áhafnarmeðlimum hraðbátsins varð ekki meint af, spyr maður sig hvort ekki bara góð ástæða til að glotta flírulega út í annað hér uppi á Íslandi og það alveg vorkunnarlaust?




Það rifjaði upp að Hval 6 og 7 var sökkt í Reykjavíkurhöfn snemma að morgni þ. 9. nóv. 1986 og Paul Watson virtist stoltur af þeim verkum sínum þegar hann viðurkenndi þau að því er virtist fúslega í viðtali við fréttamann RUV.

En það er auðvitað með öllu óþolandi að skipum Sea Shepherd sé sökkt þó svo að sömu samtök hafi staðið fyrir því að sökkva öðrum skipum.

En kannski er siðferðisgenið í Paul Watson með móralskan einstreymisloka...




Ég stóðst svo ekki mátið þegar ég hnaut um eftirfarandi pistil og fékk hann að "láni" frá Þórhildi Daðadóttir.

"Sea Shepard meðlimir sem handteknir voru í Færeyjum fyrir rétt um 20 árum fengu að borða grindhvalasteik, gúllash ofl. góðgæti eftir að þeir voru settir í steininn í Thorshavn. Þeir voru búnir að bíða í einvherjar vikur innan Færeyskrar landhelgi eftir því að heimamenn kölluðu út í grind, en án árangurs. Reyndar veiddu heimamenn grind á meðan hryðjuverkaliðið lét flatreka. Þá kom að því að einhverjir spjátrungarnir um borð voru búnir með sumarleyfið sitt og þurftu að komast heim. Þeim var því skutlað í land í Thorshavn á gúmmítuðru. Um leið og þeir lögðust að bryggju voru þeir handteknir fyrir þær sakir að koma ólöglega til landsins, þ.e. þeir höfðu ekki tilkynnt yfirvöldum að þeir væru væntanlegir og þar með brutu þeir lög. Þeir voru dæmdir til setu á bak við lás og slá í einhverja daga. Á meðan dvöl þeirra stóð voru þeim bornir miklar kræsingar, enda Færeyingar höbbðingjar heim að sækja, og þar á meðal, sem fyrr segir nýslátruð grind matreidd af mikilli list."


En nýjasta "afrek" Sea Shepherd manna er að þeim tókst að slasa þrjá menn í andliti, þegar Paul Watson og menn hans köstuðu smjörsýru um borð í Japanskt hvalveiðiskip í vikunni. Skömmu áður en þessir atburðir gerðurst, munu Japanarnir hafa tekið þátt í leit af Sea Shepherd mönnum sem voru týndir á hraðbát og talið var að gætu verið í nauðum.
Skrýtið þakklæti þetta...


-

En svo við víkjum að því sem umræðan hefur snúist svo mjög um hér á Fróni undanfarna mánuði að undanskildu Icesave, þá ætla dýraverndunarsamtök að beita sér fyrir því að viðsemjendur Íslendinga standi hart á Evrópureglum sem banni aðildarlöndum að veiða hvali.

"Það er pólitísk afstaða Evrópusambandsins sem líka kemur fram í tilskipunum sambandsins, að það eigi ekki að veiða hvali heldur eigi að vernda þá. Við munum að sjálfsögðu halda mönnum við efnið í þessu sambandi", segir Sigursteinn Másson talsmaður Alþjóða dýraverndunarsjóðsins eða International Fund for Animal Welfare. Hann sagði síðan að Íslendingar þyrftu að velja á milli hvalveiða og aðildar að ESB.

 

Nýlega bauð fjármálaráðherra Canada forystumönnum G7 ríkjanna til hátíðakvöldverðar eftir að leiðtogafundi þeirra lauk og meðal annars átti að bjóða gestunum upp á selkjöt. Vonast var til að með því mætti auka skilning á selveiðum frumbyggja á heimskautasvæðunum, en ráðherrarnir ásamt fylgdarliði sínu brugðust við gestrisni Canadamanna með því að hundsa boðið. Og fyrir þá sem ekki vita, þá er í gildi innflutningsbann við selaafurðum í löndum ESB.

 

Þetta er eitt af því sem fær mann til að hrukka ennið og velta fyrir sér hvort við Frónbúar eigum samleið með hinu verðandi sambandsríki "Stór-Evrópu".

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 37
Gestir í dag: 7
Flettingar í gær: 319
Gestir í gær: 61
Samtals flettingar: 318383
Samtals gestir: 34949
Tölur uppfærðar: 27.4.2024 02:13:39
clockhere

Tenglar

Eldra efni