14.10.2011 21:19

"Rangur misskilningur" eða bara til að pirra


759. Mér brá svolítið í brún þegar ég sá nafn mitt notað í auglýsingu sem birtist í formi fréttar á sksiglo.is í dag. Vart er hægt að skilja hið ritaða orð á annan veg en að ég hefði einhverja aðkomu að auglýstum tónleikum í Kópavogi, en svo er alls ekki. Framsetning pistilsins er mjög villandi, ástæða þess er mér illskiljanleg, innihaldið virkar allt eins og frekar vafasamur hálfsannleikur og í henni á ég hvorki heima né vil vera. Ég hafði samband við Guðmund Skarphéðinsson vefstjóra, kvartaði yfir færslunni og óskaði eftir að fá að birta athugasemd við hana, en ekkert hefur þó gerst á þeim bæ enn sem komið er. Ég átta mig ekki alveg á hvort hér er á ferðinni hugsunarleysi, eða hvort verið að stríða mér svolítið. Sé svo, þá hefur það kannski tekist ágætlega.

Slóðin á fréttina er http://siglo.is/is/news/af_litlum_neista_verdur_oft_mikid_bal/

Hið rétta er að Halli Gunni hefur nú vikið fyrir Grími Sigurðssyni og ég fyrir Gunnari Gunnarssyni þar sem ekki samdist um launamálin. Og fyrir þá sem ekki vita, þá var umræddur Gunnar um tíma tengdasonur Ingólfs í Höfn þó það sé allt annað mál.

Forsaga málsins er sú að í Bátahúsinu var gert upp samkvæmt hlutaskiptareglu þar sem Þuríður hafði einn og hálfan hlut fyrir sitt framlag og við vorum fyllilega sáttir við það. Þegar spilað var í Salnum í júní s.l., fór hún fram á hækkun og var þá með tvo hluti og við strákarnir sættum okkur líka alveg við það. En þegar það var fyrirséð að uppselt yrði á septembertónleikana í Salnum, varð ég meira en lítið hissa þegar ég fékk tölvupóst þar sem söngkonan bauð okkur strákunum að spila undir hjá sér fyrir fjörutíuþúsundkall á mann. Rökin voru m.a. eftirfarandi:

"Ég hef borið töluverðan kostnað af tónleikunum okkar og þrátt fyrir að fatnaður nýtist e-ð áfram hefði ég ekki gert þau innkaup ef ekki hefðu komið til tónleikarnir, og flest fötin eru af þeim toga að þau nýtast mér aðeins á sviði. Til að gefa ykkur einhverja mynd af beinum útlögðum kostnaði, þá er hann þessi:

Fatnaður og skór v. Græni hatturinn:    48.000

Kjóll og tilh.v. Bátahúsið:                            37.000

Slá, buxur, skór v. Salurinn                         57.000

Hár; litun, blástur v. Salurinn                    14.000

Förðun v. Salurinn                                          10.000

Texti v. skrifa f. tónleikanna                      10.000

Upp í málverk, Jóhann                                 30.000  

Alls                                                                      206.000

Að auki var töluverð vinna við tölvuna s.s e-mail sendingar á vini og ýmsa póstlista, Events o.fl. á Facebook, Viðtöl í útvarpi og blöðum, textaleit, höfundaleit og heimildaöflun vegna kynninga haf tekið sinn tíma fyrir utan það sem við höfum unnið sameiginlega fyrir og við æfingar. Nú á að taka upp lagið MINNINGAR til að nota í auglýsingaskyni og eitthvað mun það kosta. 150.000 hefur verið nefnt."

Mér þótti undarlegt að við strákarnir ættum nú að fara að klæða prinsessuna, og auk þess að fjármagna upptöku sem síðan yrði alfarið hennar eign. Mér þótti líka fullmikil launalækkun að fara úr 90 og ofan í 40 þúsund fyrir giggið. Ég afþakkaði því boðið og sagði mig frá viðfangsefninu. Félagar mínir létu þetta þó yfir sig ganga mér til mikillar furðu, þrátt fyrir að þeir hafi náð að semja um smávægilega slökun á kröfum söngkonunnar. En ég taldi málinu lokið hvað mig varðaði, vonaði að þau lok yrðu hávaðalaus og hafði á þeim tímapunkti fyrir mitt leyti ekkert meira um það að segja. Ég varð því aftur og enn meira hissa að heyra Þuríði senda mér létt skot í viðtali á rás 2. þar sem hún sagði að nú yrðu síðustu tónleikar toppaðir og nefndi í framhaldinu til sögunnar nýjan hljómborðsleikara. Mér fannst þessi sending hreinn óþarfi og er líka svolítið hissa á hvað mínir fyrrum félagar eiga auðvelt með að kyngja stoltinu fyrir sitt leyti. Skýringin hlýtur að vera í samræmi við það sem Birgir skrifar í fésbókarfærslu á dögunum, en þar kvaðst hann vera tilbúinn til að gera allt fyrir frægðina nema kannski að koma nakinn fram.


Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 176
Gestir í dag: 49
Flettingar í gær: 319
Gestir í gær: 61
Samtals flettingar: 318522
Samtals gestir: 34991
Tölur uppfærðar: 27.4.2024 06:05:36
clockhere

Tenglar

Eldra efni