14.11.2011 05:40

Stund og staður - þróun og þroski - aldur og fyrri störf

                                                            

771. Það kom mér ekkert á óvart að meðalaldurinn í Selaveislunni á laugardagskvöldið var í hærri kantinum. Þannig hefur það alltaf verið og þannig mun það líklega verða áfram um ókomin ár. Það sást m.a. á því að venjulegt rokk og ról átti ekkert sérlega mikið upp á pallborðið hjá veislugestum, en gólfið fylltist hins vegar þegar við spiluðum gömlu dansana eða eitthvað í þá veruna. Ég þakkaði mínum sæla fyrir allt það nýtilega sem reynslan hefur kennt mér í áranna rás og mikill meirihluti þess sem við Axel spiluðum var því af þeim tónlistartoga. Ég gat ekki annað en brosað innra með sjálfum mér þegar gamli gítargúrúinn og harðkjarnarokkhundurinn söng hinn hálfrar aldar gamla færeyska brag um Rasmus í Görðum af mikilli innlifun. Á einhverjum öðrum tíma hefðu svona hlutir verið með öllu óhugsandi þó mikið hefði legið við.

Stundum setjast smávægileg og jafnvel ofur hversdagsleg atvik að í kollinum á mér, ýta hæfilega mjúklega við mér en samt nokkuð ákveðið. Og þau eiga það til að vekja mig til umhugsunar um hvar á lífsleiðinni ég er staddur þá stundina, en það finnst mér reyndar fullkominn óþarfi, því ég tel mig mjög meðvitaðan um aldur minn og fyrri störf eins og stundum er sagt. Við fyrstu hugsun geta þessar lítlu uppákomur virst lítt eftirminnilegar í einfaldleika sínum, þetta eru bara andartök sem líða hjá og koma aldrei aftur eins og flest hin. Dramatísk, sorgleg, fyndin, skemmtileg eða svolítið grátbrosleg eins og það sem um ræðir. En sum þeirra vilja ekki bara fara sína leið og gleymast, alla vega ekki alveg strax.

Ég veitti athygli gamalli konu sem sat handan dansgólfsins og fylgdist vel með öllu því sem við gerðum. Ég sá að stundum hreyfðist höfuð hennar eða hendur lítillega í takt við hljóðfallið, og ekki bar á öðru en að hún væri ágætlega sátt við okkur "strákana" á pallinum, sem átti reyndar eftir að koma betur í ljós. Við spiluðum valsa, ræla, skottísa, polka og meira að segja tango og ég gat ekki séð betur en sú gamla brosti sínu breiðasta.

Eftir nokkra stund sá ég að hún stóð upp og studdi sig við stólbakið meðan hún teygði sig eftir göngugrindinni. Síðan fetaði hún sig áfram, hægt og bítandi meðfram dansgólfinu sín megin, í áttina að dyrunum. En þegar þangað kom fór hún ekki fram í anddyrið, heldur gekk áfram og nú meðfram dansgólfinu okkar megin, staðnæmdist fast við pallinn og togaði í jakkalaf Axels. Þegar laginu lauk sá ég að eitthvað fór þeim á milli og Axel spurði mig hvort ég væri nokkuð með blað og penna. Ég var því miður ekki með slíkt, en gat ekki setið á mér og spurði hvert erindi gömlu konunnar væri.

"Hún vill ráða okkur til að spila á balli" svaraði Axel og ég sá að hann varð svolítið skrýtinn til augnanna.

"Ég sendi hana fram á bar til Gumma þar sem hún getur fengið númerin okkar á miða" bætti hann við.

"Árin líða greinilega og við erum líklega sjálfir bráðum komnir á tíma fyrir nýjan markhóp" sagði ég. Axel tók ekkert undir það heldur vildi byrja á næsta lagi sem fyrst. Kannski hefur hann ekki heyrt í mér, eða kannski hefur hann ekki viljað heyra í mér.

Sú gamla staulaðist í burtu og það tók hana næstum því heilt lag að komast fram að salardyrunum.


                              

Á leiðinni heim sagði Axel mér að hann hefði sofið afskaplega illa um nóttina og væri því búinn að vera með ólíkindum orkulaus í allan dag. Hann hefði vaknað kl. 4 og þá verið eitthvað svo undarlega ískalt á fótunum. Þá hefði hann reynt að ná sér í svolítinn lúr eftir hádegið, en það hefði ekki gengið upp.

"Það er svipað hérna megin, en þú varst þá að standa þig ágætlega í kvöld miðað við aðstæður" sagði ég sem var ekkert oflof.

"Erum við kannski að verða svolítið gamlir" bætti ég við.

Það varð svolítil þögn og svo var farið að tala um eitthvað allt annað, - og miklu skemmtilegra.

En ég er alveg sannfærður um að laugardaginn í næstu viku þegar við spilum fyrir Breiðhyltinga og annað gott fólk á hverfispöbbnum Búálfinum í Hólagarði, verðum við orðnir eiturhressir og búnir að hrinda þessari aldurstengdu pælingu frá okkur. Umhverfið verður allt poppaðra og klassískir rokkslagarar ásamt diskóskotnum eilífðarblöðrum munu hljóma sem aldrei fyrr.

 

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 90
Gestir í dag: 48
Flettingar í gær: 903
Gestir í gær: 489
Samtals flettingar: 323481
Samtals gestir: 36178
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 02:12:40
clockhere

Tenglar

Eldra efni