06.10.2012 10:00

Nokkrar haustlegar myndir að vestan


842. Seint í nýliðnum septembermánuði var skroppið í stutta ferð vestur á firði. Farið var um Dali, Þröskulda, Steingrímsfjarðarheiði og Djúpið norður, en Barðastrandarleið til baka. Svolítil lykkja var lögð á leiðina þegar komið var niður af Þröskuldum og beygt til hægri eða í suðurátt, en ekki í áttina til Hólmavíkur eins og flestir vesturfara gera. Ástæðan var sú að mig hefur lengi langað til að staldra aðeins við og líta á gamla kirkjustaðinn Kollafjarðarnes, en þar þjónaði langafi minn sr. Jón Brandsson frá 1908 og allt til ársins 1950. Hans saga verður þó ekki sögð hér, heldur bíður betri, en þó frekar öllu meiri tíma en nú er aflögu til slíkra skrifta. 



Gamla íbúðarhúsið kemur kunnuglega fyrir sjónir af öllum fjölskylduljósmyndunum sem mér hafa áskotnast í gegn um tíðina, en það virðist lítið sem ekkert hafa breyst a.m.k. hið ytra frá því fyrir miðja síðustu öld.



Á leiðinni til baka var staldrað við og smellt mynd af þessu gríðarlegu magni af rekaviði og svo má sjá Drangsnesið hinum megin við Steingrímsfjörðinn. Á þeim stað ætla ég að staldra við næst eða þar næst (eða kannski þar, þar næst).



Ég velti fyrir mér hvaðan vatnið í ána eða fossinn kemur. Áin er eiginlega foss alla leið frá brún og niður úr. Ég er vanur því að sjá litlar lækjarsprænur verða að meiri vatnsföllum eftir því sem neðar dregur í hlíðum fjalla, en þessa útgáfu. Ekki man ég hvað stóð á skiltinu við vatnsfallið en ætli ég hafi ekki þarna verið staddur í Hestfirði frekar en í Skötufirði?.


Þetta er þó alla vega Hestfjörður. Myndin er tekin innarlega í firðinum sem virðist vera óendanlegur þegar horft er út eftir honum. Firðirnir sem ekið er um eða framhjá í sunnanverðu Djúpinu eru níu eftir því sem ég best veit og eru þá víkur og vogar ekki taldir með. Þeir eru talið vestan frá; Skutulsfjörður, Álftafjörður, Seyðisfjörður, Hestfjörður, Skötufjörður, Mjóifjörður, Vatnsfjörður, Reykjarfjörður og Ísafjörður. Mér finnst alltaf jafn skrýtið að Ísafjörður sem er innsti fjörðurinn sé einn sá eyðilegasti, en Ísafjörður (kaupstaðurinn) þar sem flest fólkið býr, standi svo mun utar við Djúp og við Skutulsfjörð.



Hvammur í Dýrafirði þar sem hinn eini sanni Gústi Guðsmaður er fæddur. Þar var lengi fjórbýli, þ.e. efsti, mið og neðsti Hvammur og skiptist einn hlutinn í norður og suður Hvamm.



Þessi skilti eru negld á grind sem rís upp við vegg Öldunnar á Þingeyri, en þar var lengi rekin verslun og síðar verkstæði þar sem leikfangabíllinn Dúi var framleiddur. 



Þessi brunahani er með þeim nýtískulegri sem ég hef séð í dreifbýlinu og ég er ekkert viss um að þeir gerist neitt flottari syðra.



Hvort sem menn vilja nefna hann Fjallfoss eða Dynjanda, þá er hann flottur þarna utan í fjallshlíðinni.



Talsvert var að finna af krækiberjum vestra...



...en þó mun meira af aðalbláberjum.



Allra mest virtist samt vera af bláberjum. Því miður láðist mér að taka myndir af bláberjaklösunum sem urðu á vegi mínum í Arnarfirði skammt frá Mjólkárvirkjun, líklega vegna ákafans við að tína þau. Ég held að mér sé alveg óhætt að fullyrða að ég hef aldrei nokkurn tíma séð annað eins magn.



Lyngið var farið að roðna, kjarrið að gulna og haustilmurinn hreinlega mettaði loftið.



Haustið var alls staðar og litir þess allt um kring.



Þessi á heitir Svíná og er ekki langt frá Dynjanda, eða væri kannski réttara að nefna náttúrufyrirbærið foss eða "hálffoss" vegna þess að hallinn í landinu er eða fer eiginlega bil beggja?



Þetta er svo vatnsfallið sem rennur í gegn um ræsi á Dynjandisheiðinni, en steypist fram af brúninni nokkru neðar og myndar einn fegursta foss á Íslandi. Dynjanda sem sr. Böðvar sem var afi Ragga Bjarna söngvarans góðkunna, vildi nefna Fjallfoss vegna lögunnar sinnar og útlits.



Eftir að komið var suður af Dynjandisheiðinni og ofan í Vatnsfjörðinn (sem Hrafna-Flóki hafði vetursetu í nokkru áður en hann nam og settist að í Flókadal í Fljótum) var eins og sjá má ærin ástæða að staldra við og smella af eins og einni sólarlagsmynd.

03.10.2012 18:13

Kveðja til Bassa Möller

                                     

841. Í dag lagði ég leið mina í Digraneskirkju í Kópavogi til að kveðja mætan sveitunga, Kristinn Tómas Möller. Ég kynntist honum fyrst þegar okkur Bigga Inga datt í hug að líta út fyrir fjallahringinn nyrðra og skelltum okkur á vertíð til Eyja og það verða að teljast bæði góð og þroskandi kynni. Kristinn eða Bassi eins og hann var alltaf kallaður, réði gjarnan Siglfirðinga til vinnu í Ísfélagið, en gerði okkur jafnframt grein fyrir því að enginn skyldi halda að hægt væri að koma til að sukka og slarka. Hjá honum yrðu menn að stunda sína vinnu og standa sína plikt. Ísfélagið í Vestmannaeyjum var því góður vinnuskóli sem Bassi veitti forstöðu, a.m.k. í hugum okkar sem bjuggum á verbúðinni uppi á þriðju hæð. Og þó að hvessti stundum í samskiptum okkar um stund lægði storminn alltaf aftur því annað var ekki hægt þegar maður eins og hann átti í hlut. Til hans lögðu leið sína margir góðir drengir að heiman á árunum eftir gos, Biggi Inga, Guðbrandur Ólafs, Guðni Jóhanns, Jonni Odds, Palli Sigþórs, Bjössi Sveins, Gummi Kötu, bræðurnir Sigurjón og Úlfar Gunnlaugs, Birgir Óla Geirs. Gleymi ég einhverjum?

Og svo voru stelpurnar þarna á vistinni líka þó þær störfuðu ekki í móttökunni. Þær unnu þó oft með okkur í salthúsinu. Magga Alfreðs frá Lambanesreykjum, Erla Gull, Kristín Sigurjóns, Svava Gunnars. Ég gleymi örugglega einhverjum.

Hin síðari ár ráðgerðum við strákarnir úr þessu gengi nokkrum sinnum að kíkja á gamla verkstjórann okkar og einu sinni hringdi ég í hann því nú átti að láta verða af því.

"Þú hittir ekki vel á því ég er alveg að drepast í löppinni" sagði hann.

"Endilega kíkiði við seinna þegar ég verð orðinn skárri, en þið fáið bara kaffi og ekkert með því" bætti hann við.

Við vorum ekki búnir að gera aðra tilraun og gerum hana tæpast úr því sem orðið er, - því er nú bæði ver og miður.




Blessuð sé minning hans.

27.09.2012 23:54

Blauta grasið reyndist vera Hama(r)s-liði í vígahug


840. Vegna atviks sem talsvert hefur verið verið til umfjöllunar undanfara daga, hefur knattspyrnudeild Hamras í Hveragerði séð sig knúið til að senda frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:

-

"Stuðningsmenn KF fjölmenntu á lokaleik liðanna í 2. deild, leik þar sem KF gat tryggt sæti sitt í 1. deild að ári. Langflestir stuðningsmenn á vellinum, jafnt heimamenn sem og gestir, höguðu sér vel á áhorfendasvæðinu og voru stuðningsmenn gestanna upp til hópa liði sínu til sóma. Þó varð vart við einhverja ölvun meðal nokkurra gesta aðkomuliðsins og biðst knattspyrnudeild Hamars afsökunar á því að hafa ekki meinað þeim aðgang að vellinum.  

Undir lok leiks, er gestirnir höfðu jafnað leikinn, rauk stuðningsmaður KF út fyrir afmarkað svæði áhorfenda og inn á í átt að keppnisvellinum. Gæslumaður á vellinum stjakaði við áhorfandanum sem rann til í blautu grasinu og féll niður. Við fallið virtist umræddur stuðningsmaður hafa vankast.

Vegna þessa atviks varð mikil múgæsing meðal stuðningsmanna KF sem gerðu aðsúg að gæslumönnum vallarins, svo mikinn að sá sem féll mátti teljast heppinn að hafa ekki verið troðinn niður í hamaganginum. Gæslumenn vallarins brugðust hárrétt við er þeir reyndu að halda aftur af æstum stuðningsmönnum KF og mynda skjól í kringum þann sem lá niðri svo hægt væri að veita honum aðhlynningu. Kallað var strax á sjúkrabíl og fluttu gæslumenn þann sem féll á sjúkrabörum inn í félagsaðstöðu Hamars til aðhlynningar þar til sjúkrabíll mætti á staðinn. 

Ekki var atvikið alvarlegra en svo að umræddur stuðningsmaður var mættur á áhorfendasvæðið nokkrum mínútum síðar og tók svo aftur upp á því að fara út fyrir áhorfendasvæðið og inn á völlinn til að fagna með leikmönnum KF. 

Knattspyrnudeild Hamars stendur heil að baki ákvörðunum og verkum gæslumanna sinna en harmar um leið atvikið sem varð og einhliða fréttaflutning af því. Knattspyrnudeild Hamars þykir miður að atvik sem þetta skuli verða til þess að herða verði gæslu á leikjum liðsins í framtíðinni enda hafa sambærileg atvik ekki komið upp meðal neinna annarra áhorfenda á Grýluvelli, sem hafa sýnt af sér góðan þokka og verið félögum sínum til sóma. 

Um leið vill knattspyrnudeild Hamars óska liðsmönnum, aðstandendum og öðrum sem tengjast liði KF til hamingju með sætið í 1. deild að ári og óska þeim góðs gengis innan vallar sem utan um ókomna framtíð."

-

Kíkið á http://www.facebook.com/photo.php?v=488852227805994

-

Er þetta kannski það sem kallað er að færa í stílinn?

25.09.2012 11:02

Uppáferð í umferðinni



839. Þegar ég átti í eitt af fjölmörgum skiptum leið um Breiðholtsbrautina í síðustu viku, lenti ég í svolitlum vandræðum í einni ferðinni, því ég þurfti að fara um þrönga og krókótta hjáleið sem getur verið talsvert basl á jafn stórum bílum og strætó. Ástæðan var þetta umferðaróhapp sem sjá má á meðfylgjandi myndum sem varð til þess að götunni var lokað um stund. Það vakti athygli mina þegar ég nálgaðist að eitthvað var þarna skrýtið í gangi, því ég gat ekki betur séð en að löggan vappaði tvístígandi um svæðið og mér sýndist þeir sem þarna voru á stjákli klóra sér óvenju mikið í höfðinu. En margt bendir til þass að litlar sem engar líkur hafi verið á að það hafi verið höfuðlúsafaraldur eða einhver því um lík óværa sem herjaði á laganna verði a.m.k. ekki að þessu sinni, heldur miklu fremur hin óvenjulega aðkoma. Það hefðu að öllum líkindum einnig verið mín fyrstu viðbrögð að lyfta hendi og klóra mér í hnakkagrófinni, ef mér hefði ekki legið jafn mikið á og raunin var að fiska myndavélina upp úr vasanum, gera hana klára og ná eins og einu skoti áður en myndefnið var að baki. Ekki munu hafa orðið nein slys á fólki í árekstrinum, hamingunni sé lof. En líklega verður hann að teljast fremur óhefðbundinn, og tel ég mig ekki þurfa nauðsynlega að færa nein sérstök rök fyrir þeirri skoðun minni.

18.09.2012 05:28

Hlaupakötturinn í Kópavogi



838. Ég dró annað augað í pung, hrukkaði ennið og hummaði svolítið með sjálfum mér þegar ég las eftirfarandi frétt sem birtist á mbl.is í síðustu viku.

"Heimilisköttur í Kópavogi olli umferðarslysi um miðnættið í nótt. Flytja þurfti ökumann á slysadeild eftir að hann ók á ljósastaur. Það var um miðnætti þegar köttur í Kópavogi hljóp út á götu og í veg fyrir bifreið sem þar var á ferð. Ökumaður sveigði frá en endaði förina á ljósastaur. Ökumaður kenndi til eftir óhappið og var fluttur með sjúkrabíl á bráðamóttökuna í Fossvogi til aðhlynningar".

-

Það rifjaðist upp fyrir mér að ég hafði einmitt verið að keyra Kópavogsstrætó á leið 28 kvöldið áður þegar háttarlag kattar á Álfhólsveginum olli mér svolitlum vandræðum.

Það hefur líklega verið skömmu áður en ummrætt slys átti sér stað að ég var að koma úr Mjóddinni og var rétt ókominn í Hamraborgina þegar svart/hvítflekkóttur köttur hljóp eftir gangstéttinni og virtist vera að etja kappi við strætó. Mér fannst kisi nokkuð duglegur og standa sig vel í kapphlaupinu þar sem hann geystist áfram á gangstéttinni. Fyrst tók ég eftir honum í speglinum rétt aftan við bílinn, en eftir skamma stund var hann kominn á móts við framenda vagnsins. Svo seig hann fram úr og þá gerðist það.

Allt í einu tók hann vinkilbeygju og hvarf undir hægra horn bílsins rétt framan við framhjólið. Mér dauðbrá við þetta óvænta uppátæki kattarins og snarbremsaði ósjálfrátt. Til allrar hamingju voru ekki nema þrír farþegar í vagninum, en þeim brá greinilega rétt eins og mér því ég heyrði lágvært óp í einum þeirra, líklega þegar hann eða hún lyftist eða rann fram í sætinu við hina óvæntu hraðabreytingu. Ekki veit ég hvort farþegarnir hafa séð hlaupaköttinn eða vitað hver ásæðan var fyrir viðbrögðum bílstjórans, en mér létti mikið þegar kisi skaust undan vinstra horninu og stoppaði ekki fyrr en á gangstéttinni hinum megin. Þar settist hann niður og horfði hróðugur á vagninn fjarlægjast eins og hann vildi segja; "þarna náði ég að skjóta þér skelk í bringu karluglan þín". Ég er meira að segja ekki frá því að hann hafi verið svolítið glottuleitur til munns og augna.

-

Mér fannst þetta ekkert sérlega fyndið hjá honum enda yfirleitt ekki þekktur að því að finnast gaman að því sem er skemmtilegt, en velti því fyrir mér hvort þarna hafi verið á ferðinni sami köttur og sá sem getið var í netútgáfu Moggans.

Ef svo er, þá tel ég að hætt sé við að hin níu líf sem köttum mun vera úthlutað í "vöggugjöf" samkvæmt gömlum kattasögnum endist þeim flekkótta ekki lengi því einhver mun á endanum verða hægur á bremsunni.

18.09.2012 04:10

Dráttur


837. Ég rakst á þessa sögu á netinu og þó hún hafi eflaust farið víða og sennilega í mörgum mismunandi útgáfum, fannst mér hún það skondin, að ef einhverjir þeirra sem hingað að rekast stundum inn og hafa ekki lesið hana, vildi ég miðla henni áfram.

-

Þegar ég eignaðist hundinn minn og komið var að því að gefa honum nafn langaði mig að nefna hann eitthvað annað en þessi sígildu hundanöfn sem maður heyrir alls staðar, nöfn eins og Snati, Sámur eða Depill o.s.frv. Eftir miklar og djúpar pælingar fékk hann nafnið Dráttur, en eftir á að hyggja var það kannski hreint ekki neitt sniðugt því nafngiftin er oft búin að valda verulegum misskilningi og stundum ómældum vandræðum.
Ég fór í Ráðhúsið á dögunum til að endurnýja hundaleyfið og sagði  við afgreiðslumanninn að ég vildi fá leyfi fyrir Drætti.

Hann svaraði að bragði "ég líka", en þegar ég sagði honum að það væri hundur sem ég væri að tala um, horfði hann mjög undarlega á mig og sagði "ja, þú um þín ástamál".

"En þú skilur þetta ekki" sagði ég, "Ég fékk Drátt þegar ég var 9 ára.

"Þú hefur aldeilis verið bráðþroska" var þá svarið.
Þegar ég gifti mig og fór í brúðkaupsferð, tók ég hundinn með. Í móttökunni á hótelinu sagðist ég vilja fá herbergi fyrir okkur hjónin og auka herbergi fyrir Drátt. Mér var svarað að öll hótelherbergin væru ætluð fyrir drátt, en ég svaraði að Dráttur héldi vöku fyrir mér á næturnar. Afgreiðslumaðurinn svaraði: "Sama hjá mér".
Einn daginn lét ég skrá Drátt í hundakeppn. Rétt áður en keppnin hófst slapp hundurinn frá mér. Einn keppendanna snéri sér við og spurði hvers vegna ég væri að skima í kring um mig. Ég svaraði að ég hefði nú hugsað mér að vera með Drátt í keppninni hann svaraði: "Þú hefðir átt að selja miða að þeirri keppn"i. "Heyrðu þú skilur þetta ekki rétt", sagði ég, ég var að vonast til að geta sýnt Drátt í sjónvarpinu. Þá svaraði hann: "Það vantar greinilega ekki sjálfsálitið hjá þér".
Þegar við hjónin skildum fór málið fyrir dómara því auðvitað vildi ég berjast fyrir að fá Drátt.

"Herra dómari, ég fékk Drátt löngu áður en ég giftist" sagði ég.

"Ég líka" svaraði dómarinn.

Þá sagði ég honum að Dráttur hefði horfið þegar ég giftist og ég hefði eytt miklum tíma og orku í að leita hann uppi en ekki maðurinn minn.

"Þetta var mjög svipað hjá mér" sagði hann þá og varð svolítið dapurlegur til augnanna.

Í gærkvöldi stakk Dráttur af eina ferðina enn og ég var í marga klukkutíma að leita að honum úti í nóttinni og myrkrinu. Lögregluþjónn kom til mín og spurði hvað hvað ég væri að gera í þessari skuggalegu hliðargötu um hánótt og ég svaraði: "ég er að leita af Drætti".

"Þú skalt þá koma með mér" svaraði hann hvasst.

Ég ætlaði þá að fara að leiðrétta misskilninginn sem ég sá að var greinilega í uppsiglingu en hann vildi alls ekki hlusta á neinar skýringar.

Mér leist ekkert á blikuna þegar hann smellti handjárnunum á mig og ég æpti hástöfum og lét ófriðlega, en hann varð bara æstari og ákafari við það.
Ég fylltist skelfingu þegar við ókum af stað og ég velti fyrir mér hvernig þetta myndi enda. Ég hef nú aldrei laðast sérstaklega að mönnum í einkennisbúningum eða verið fyrir handjárn og þess háttar, en flest bendir nú til þess að hann haldi það þessi.

Ég varð eiginlega svolítið fegin þegar ökuferðin tók enda og mér var skutlað inn í klefa og síðan lokað á eftir mér með nokkrum látum.

-

En mér finnst þetta engu að síður ALLS EKKI sanngjarnt.

14.09.2012 10:19

ESB eða ekki ESB?


836. Ég gat ekki stillt mig um að draga upp myndavélina og smella af þegar ég stoppaði fyrir aftan þennan bíl á rauðu ljósi á dögunum, en hann var eins og sjá má ekkert að liggja á skoðunum sínum varðandi spurninguna um hvort við ættum erindi í ESB eða ekki. 

11.09.2012 03:24

Náði þeim í miðjum sérhljóða


835. Það er líklega full seint að fjalla loksins núna um tónlistarveisluna í Siglufjarðarkirku þ. 2. sept. sl. því henni hafa verið gerð ágæt skil bæði á siglo.is og siglfirdingur.is, en ég get þó ekki látið hjá líða að skjóta hér inn mynd af þeim félögum Hlöðve Sigurðssyni og Þorsteini Bjarnasyni þar sem þeir sungu frábæran dúett og ég náði þeim í miðjum sérhljóða.
O eða A...
-
En það er annars að segja að bloggfærslum hér hefur fækkað mjög undanfarið vegna (vonandi) tímabundins tímaleysis, því mikið mannahallæri hefur verið hjá Strætó í Kópavogi og þeir sem þar starfa hafa unnið mikla yfirvinnu í sumar og átt sáralítil frí, komið þreyttir heim og notað flestar þær stundir sem til hafa fallið utan dagskrár til hvíldar og svefns.

05.09.2012 09:55

Þvegillinn


834. Fékk þessa stórskemmtilegu auglýsingu senda í pósti á dögunum og mátti til með að flagga henni hérna, en þvegillinn var nýlunda um miðja síðustu öld og þótti hið mesta þarfaþing. Í leiðinni rifjast upp að símanúmerin í þá daga voru talsvert styttri (og þægilegri að muna) en nú er, en heima hjá mér var það 211 og ég man að ég hringdi oftast í 58 og 425 upp úr 1960, en þau voru bæði á Háveginum.

31.08.2012 09:54

Sitt lítið af hvurju.


833. Sérkennilegt einkanúmer á bíl sem er grár. Það hlýtur að liggja mikil og djúp saga á bak við það...



...og þennan virðulega sveitasöngvara hitti ég fyrir á dögunum. Hann er þó ekki frá Skagaströnd eins og kollegi hans sem ég heimsótti nýverið, heldur er fastur dvalarstaður hans Ásbrú á suðurnesjunum, eða bara Völlurinn eins og staðurinn var alltaf kallaður hér áður fyrr og sumir gera jafnvel enn.

26.08.2012 00:52

Göngum hægt um póstsins dyr



832. Í kvöld nákvæmlega kl. 23.10 dúkkaði upp póstur hjá mér sem mér fannst í meira lagi skrýtinn og jafnvel enn skrýtnari þegar ég las hann öðru sinni svona til að reyna að átta mig á þessum stórundarlegheitum. Það þarf ekki að fara í einhverjar djúpar pælingar til að átta sig á að líklea flokkast hann að stofni til sem tefund eða undirtegund af þeirri gerð sem gjarnan er kennd við Nígeríu, enda var ekkert að sjá um umrætt efni þegar skyggnst var inn á siminn.is og smellt á "fréttir".


Pósturinn leit svona út.

"Þetta er til að formlega tilkynna þér að við erum nú að vinna að gagnagrunni vefsíðu okkar til að berjast gegn spam póstur, og þetta getur lokað vefur þinn email reikningur alveg.

 

Til að forðast þetta, vinsamlegast sendu eftirfarandi datas:

 

E - póstur ( _____ _________________________)

Notandanafn / ID ( _____________ _________)

Núverandi lykilorð ( _________)

Lykilorð ( _________)

 

 

Vinsamlegast gera þetta svo reikningurinn þinn getur verið varið að loka.

 

Strax svar þitt er mjög þörf.

 

Vefpóst Stuðningur Stjórnandi.

INTERNET Tæknileg aðstoð

24 tíma á dag, 7 daga vikunnar."

 

Það er því líklega full ástæða til að fera fetið þegar kemur að hugleiðingum um svarpóst. Sérstaklega þegar stafsetning, beygingar, orðanotkun og setningafræðin er skoðuð, en svo kom sendingin úr webcustomer.servic5@gmail.com og eitthvað segir mér að siminn sé ekki mikið að nota gmail.

18.08.2012 02:16

Út við ysta sæ...


Skagaströnd og bæjarfjallið Spákonufell í baksýn. (Myndin var fengin af netinu).


831. Á leiðinni frá Siglufirði eftir tvo frábæra daga á Síldarævintýri (sem var auðvitað allt of stuttur tími), var farin styttri leiðin þ.e. yfir Þverárfjallið á suðurleiðinni. Þegar ofan af fjallinu kom, fékk ég þá skyndihugdettu að beygja til hægri í stað vinstri eins og vanalega, þ.e. í átt til Kántrýbæjarins Skagastrandar í stað þess að taka stefnuna á Blönduós og líta við hjá gömlum kunningja, Adolf Berndsen oddvita Höfðahrepps sem ég kynntist á videóárum mínum. Á leiðinni út ströndina sló ég á þráðinn og hann reyndist einmitt vera staddur á sínum heimaslóðum þennan daginn. Ég renndi í bæinn og mér var tekið fagnandi eins og búast mátti við, því sá ágæti drengur er mikill höfðingi heim að sækja. Ég ætlaði auðvitað bara að staldra örstutt við og heilsa upp á Skagstrendinginn, en eins og stundum vill verða teygðist úr heimsókninni því Adolf hélt mér alveg frábæra staðarkynningu. Þar kom mér mjög á óvart hvað staðurinn hefur upp á margt að bjóða og hve vel er hlúð að sögunni, menningu og listalífi. Við gengum frá einum stað til annars og Adolf útskýrði það sem fyrir augu bar.


Unnið við endurbyggingu Hólaness áður en því er breytt í menningarhús. (Myndin er fengin af netinu).


Fyrir fáeinum árum stofnaði Lárus Ægir Guðmundsson styrktarsjóð til minningar um afa sína og ömmur í föður og móðurætt, þau Helgu Þorbergsdóttur og Jóhannes Pálsson sem bjuggu í Garði á Skagaströnd og Láru Kristjánsdóttur og Lárus G. Guðmundsson sem bjuggu á Vindhæli í Skagabyggð en síðar á Skagaströnd. Stofnfé sjóðsins var 50 milljónir króna og aðallega ætlað að efla menningar og listalíf á Skagaströnd og í Skagabyggð.

-

Lárus sem er borinn og barnfæddur Skagstrendingur var m.a. sveitarstjóri á Skagaströnd frá árinu 1972 til 1984, framkvæmdastjóri frystihússins Hólanes frá 1984 til 1994 og stofnandi, eigandi og framkvæmdarstjóri fiskmarkaðarins Örva á Skagaströnd frá 1994 til 2007.

Lárus átti þátt á að kaupa húsið sem áður hýsti frystihúsið Hólanes og nú hefur því verið breytt í menningarhús sem listamenn frá öllum heimshornum heimsækja og dvelja þá þar við listsköpun sína í u.þ.b. mánaðartíma í senn.

Við gengum þar inn og hittum fyrir fólk frá ýmsum löndum sem var ýmist að mála, skrifa eða eitthvað annað. Líklega hefur allt að því tugur listamanna verið á staðnum, en ég stillti mig um að mynda til að valda ekki truflun.


Gamli bragginn sem nú hefur fengið nýtt hlutverk.


Spákonuhofið er í gömlum hermannabragga sem upphaflega var sjúkraskýli í seinna stríði og stóð þá á Blönduósi. Eftir stríð var hann tekinn niður og fluttur út á Skagaströnd þar sem hann gegndi hlutverki samkomustaðar bæjarbúa. Árið 1956 settu Hallbjörn Hjartarson þá aðeins 21 árs gamall ásamt tveimur bræðrum sínum og nokkrum bjarsýnum og framtakssömum vinum upp bíó sem var rekið af þeim allt til ársins 1985 þegar hreppurinn tók við rekstrinum. Þá flutist sú starfsemi í félagsheimilið Fellsborg og húsnæðið var eftir það nýtt sem verkstæði og svo áhaldageymsla bæjarins.



Adolf Berndsen og Sigrún Lárusdóttir í hofinu.


Það mun ekki hafa verið upp á marga fiska þegar Menningarfélagið Spákonuarfur var stofnað og hafist var handa við endurbygginguna. Það voru þær Dagný Marin Sigmarsdóttir og Sigrún Lárusdóttir sem hafa frá upphafi farið fyrir hópnum, en aðalhönnuðurinn var Ernst Backman og sá hann að miklu leyti um uppsetninguna.



Eldhúsið í spákonuhofinu þar sem gjarnan er sest niður yfir kaffibolla sem síðan á að spá í.


Þórdís spákona fyrsti nafngreindi íbúi Skagastrandar og settist að á Spákonufelli um miðja tíundu öld. Hún tók að sér Þorvald sem síðar var kallaður Víðförli og ól hann upp, en hann var sonur Koðráns sem bjó þá á Giljá og varð einn af fyrstu hérlendum kristniboðum. Saga hennar er öll hin merkilegasta og fyrir þá sem vilja kynna sér hana frekar, þá er aðgengilegt á RÚV alveg stórskemmtilegt viðtal við Dagnýju þar sem saga Þórdísar er rakin sem ég vil hvetja alla til að hlusta á.

Slóðin þangað er http://www.ruv.is/frett/ras-1/spakonuhofid-a-skagastrond



Siglfirðingurinn Sigurjón Jóhannsson hafði á heiðurinn af gerð refilsins sem er samansettur úr fjölda vatnslitamynda eftir hann og segir sögu Þórdísar.



Bragginn er skemmtilega hólfaður niður í nokkur rými og hér er lítið "skúkkelsi" þar sem spáð er í Tarrotspil.



Hér er rúnum kastað og síðan ráðið í þær. 



Og hér er lesið í lófa.



Þórdís fyrir framan bæjarþil sitt.



Gæsirnar koma við sögu þegar Þórdís mun hafa bruggað kröftugan seið án þess þó að hann hafi nýst eins og hún ætlaðist til, en sú saga er rakin í viðtalinu sem slóðin fyrir ofan myndina af reflinum leiðir okkur til.



Hrafnarnir koma þar einnig við sögu, en þeir eiga að vísa þeim á lykilinn af gullkistunni sem geta gengið upp á Spákonufell án þess að líta nokkurn tíma aftur fyrir sig á þeirri leið.



Hallbjörn tekur sig vel út á skjánum


Kántrýsetrið er í Kántrýbæ og þar má sjá mikið efni frá ferli kúrekans Hallbjarnar Hjartarsonar. Reyndar svo mikið að ég komst ekki nema yfir svolítið brotabrot af því þann hálftíma sem ég staldraði þar við og á því eftir að koma þar aftur og líklega enn aftur.



Í þessum glerskáp má m.a. sjá albúmið af fyrstu plötu Hallbjarnar sem kom út áður en hann tók ástfóstri við sveitatónlistina.



Þessi er verulega athyglisverð, en til er ákaflega keimlík brjóstmynd af Ludwig van Beethoven.



Í þessum skáp er auglýsing um Kántrýhátíð frá árinu 2000, en á hvern hátt hún á samleið með þessum glæsilega hvíta kögurjakka veit ég ekki.



Það sem hér getur á að líta er líklega frá síðustu öld þó það sé alls ekki eins langt síðan eins og það hljómar þegar maður segir það.



Kántrýbær hinn nýji.



Árnes.


Árnes er elsta húsið á Skagaströnd og var byggt árið 1899 af Fritz H. Berndsen kaupmanni, en eigendur hússins hafa þó ekki verið nema fjórir frá upphafi. Það var gert upp fyrir fáeinum arum og opnað sem safn árið 2009, en þar má sjá hvernig fólk bjó fyrir hartnær hundrað árum síðan.



Bjarnarnes ásamt fallbyssunni í forgrunni.


Kaffi Bjarmanes er gamalt steinhús, byggt 1913 en var endurbyggt 2004 og í framhaldi af því fundið nýtt hlutverk. Það hefur í gegn um tíðina gegnt hlutverki sem samkomuhús og lögreglustöð, en einnig verið nýtt sem íbúðarhús. Þar er nú rekið verulega fallegt kaffihús og þaðan er óviðjafnanlegt útsýni út á Húnaflóann.

Á hlaðinu hefur fallbyssu verið fundinn staður, en heypt er af henni við sérstök tækifæri.

Á vefnum skagastrond.is má lesa eftirfarandi um fallbyssuna:

Fallbyssa til Skagastrandar

Á fundi sveitarstjórnar 15. apríl 2008 var samþykkt að styrkja áhugahóp um gömlu fallbyssurnar á Skagaströnd um 500 þús kr til að flytja inn fallbyssu frá Danmörku.

Fallbyssan er eftirlíking af fallstykkjum frá 17. - 18. öld og er 1400 mm að lengd og vegur 60 kg. Hægt er að hlaða byssuna og skjóta úr henni púðurskotum. Hún er gerð fyrir sérstök cal. 12 "salutpatron". Framleiðandi / seljandi gerir einnig þá kröfu fyrir afhendingu byssunnar að viðtakandi og ábyrgðarmaður komi til Danmerkur og læri á byssuna.  Fremstillet af bronze

Forsaga þessa máls er sú að í gömlum annálum um Skagaströnd er þess getið að fyrr á öldum þegar Skagaströnd var aðal verslunarstaður Húnavatnssýslu og víðar þá voru til á staðnum tvö fallstykki. Segir sagan að skotið hafi verið úr þessum fallstykkjum við kaupskipakomur. Heyrðist þá hvellurinn víða og vissu þá bændur og búalið að kaupskip var komið í Höfða eins og sagt var í þá daga.

Önnur fallbyssan var send til Þjóðminjasafnsins árið 1946 og er þar í einhverri geymslu. Hin fallbyssan sást síðast um 1960, þá hálfgrafin í jörð við bæinn Vindhæli í Skagabyggð. Ekki hefur reynst unnt að fá byssuna úr Þjóðminjasafninu og fallstykkið sem talið er að hafi verið við Vindhæli hefur ekki fundist.

Hugmyndin er því nú að fá nýja/nýlega fallbyssu keypta til að endurvekja þessa gömlu sögu Skagastrandar. Eftir töluverða leit fannst framleiðandi í Danmörku sem vill selja fallbyssu til Skagastrandar.

Fallbyssa þessi yrði eign Sjóminja- og sögusafns Skagastrandar.

Hugmyndin er að nota fallbyssuna á hátíðis og tyllidögum og skjóta þá nokkrum púðurskotum fólki til skemmtunar.

Þetta hafa nokkrir kaupstaðir hér á landi gert. T.d. Akureyri, Seyðisfjörður og Vestmannaeyjar.

-

Núna um helgina (16-19 ágúst) standa yfir hinir árlegu Kántrýdagar og má þá reikna með að mannlífið taki miklum stakkaskiptum í þorpinu. Það verður boðið upp á mjög fjölbreytilega dagskrá http://www.skagastrond.is/kantrydagskra2012.pdf en það er þó helst svokölluð Þórdísarganga upp á Spákonufell sem ég er nokkuð súr yfir að komast ekki í. Reyndar vildi ég líka ganga suðureggjar Siglufjarðarfjalla (á sama tíma), en strætóannirnar verða einnig miklar því það þarf að ferja gesti menningarnætur til síns heima (líka á sama tíma) og er þá hver einasti sótraftur á sjó dreginn, allur bílaflotinn í meiri háttar aksjón og þá auðvitað bílstjórarnir einnig og hvorki frí eða grið gefin.

-

Og á vefnum http://www.huni.is/ eru svo Kántrýdagar auglýstir.

Kántrýdagar hófust í gær á Skagaströnd og verður mikið um að vera alla helgina enda dagskráin fjölbreytt og skemmtileg og fyrir alla aldurshópa. Eins og venjan er var hátíðin formlega sett með fallbyssuskoti við Kaffi Bjarmanes klukkan 18 í gær. Í morgun hófst Þórdísarganga upp á Spákonufell og svo rekur hver viðburðurinn annan sem eftir lifir helgi.

Í Kántrýbæ verða böll og sýning kvikmyndarinnar Kúrekar norðursins. Hljómsveitirnar Gildran, Klaufar, Illgresi, 1860 og Sefjun eru kallaðar til leiks. Ljósmynda- og listsýningar ásamt handverkssölu eru einnig í boði ásamt spádómum og gönguferðum.



Laupurinn

Á vefnum skagastrond.is er að finna hluta af skemmtilegu spjalli sem vefstjórinn átti við listamanninn Erlend Magnússon, en hann gerði verkið sem myndin er af hér að ofan. Eftir að hafa lesið það varð ekki hjá því komist að láta það fljóta með því Erlendur er greinilega einn af þessum ómissandi "orginölum" sem setja mark sitt á samtíð síma og verður síðan lengi í minnum hafður.

"Þó listaverkið sjálft sé afskaplega mikilfenglegt mátti heyrast á listamanninum að ekki hafi allt gengið eins og á var kosið við gerð þess. Erlendur var fáanlegur til að létta á hjarta sínu við tíðindamann skagstrond.is.

"Sjáðu nú til," segir Erlendur, alvarlegur í bragði. "Fyrir meira en þúsund árum bannaði Þórdís spákona öllum mönnum að flytja steina úr Höfðanum á Skagaströnd annars hefðu þeir og þeirra fólk verra af. Þessi álög hafa oft komið fram síðan. Til dæmis var grjót tekið þar í byggingu á hafnar á Skagaströnd og hvarf þá öll síld frá Norðurlandi ...!"

Listamaðurinn lítur nú upp úr kaffibolla sínum á fölan viðmælanda sinn sem má vart mæla. Og hann heldur áfram:

"Fyrir tveimur árum var fluttur steindrangur úr Höfðanum til Gamla bæjarins við Blöndu og sá hefur reynst hinn mesti álagasteinn. Nýr eigandi steinsins, nefnilega ég, hafði fengið hann í skiptum fyrir gamlan kolaofn úr elsta íbúðarhúsinu við Blöndu og var ofninn fluttur í Árnes, elsta íbúðarhúsið á Skagaströnd. 

Fljótlega eftir komu steinsins í Gamla bæinn við Blöndu fór að bera þar á allskonar óáran. Þessi þrjátíu húsa og friðsami bæjarkjarni hefur síðan verið að breytast í lítið Las't Vegas norðursins með þremur til fjórum börum, hóteli og fjórum gistihúsum, áfengisútsölu, félagsheimili AA og fleira.

Meira að segja gamla kirkja bæjarins sem stendur í þessum bæjarhluta,var afhelguð og bekkirnir notaðir sem barstólar. Þó tók steininn úr þegar fjórar konur voru kosnar í bæjarstjórn á Blönduósi í vor en þar höfðu karlar einir ráðið ríkjum áður."

Tíðindamaður kyngdi og mátti vart mæla. Hversu hrikalegt er nú ólán Gamla bæjarins við Blöndu, allt út af Þórdísi spákonu og grjóts úr Höfðanum hennar.

En Erlendur var ekki hættur: "Eftir að steinninn var fluttur á nýjan stað við ósa Blöndu gengu álögin svo nærri nýja eigandanum, sem sagt mér, að áður en hann gat snúið sér við var búið að stela af honum bæði bíl og konum. 

Og hvað gat ég gert nema krefjast þess að Sveitarfélagið Skagaströnd tæki steininn til baka með öllu sem honum fylgdi og mér væri bættur skaðinn með nýrri konu sem þó mætti vera gölluð á eins og kolaofninn hafði verið."

Nú mildaðist svipur Erlends, listamanns, enda hér komið í sögunni að hann fengi nýja konu, eða það hélt tíðindamaður.

"Nú, Sveitarfélagið skipaði þarna sátta-, sannleiks- og matsnefnd sem komst einfaldlega að því að ekki væri til gölluð kona á Skagaströnd. Hins vegar samþykkti hún af náungakærlega sínum að taka steininn til baka með aukahlutum, en greiða aðeins fyrir þá þar sem þeir ættu ekki verðlista yfir gallaðar konur. Vonast aðilar svo til þess að Þórdís spákona og dætur hennar verði sáttar við þessi málalok og létti álögunum."

Og nú hallaði Erlendur Magnússon, stórlistamaður, sér aftur í stólnum, og auðséð var að honum var létt yfir lyktum mála, þó kvenmannslaus væri, eftir sem áður.

Á meðfylgjandi mynd er sátta-, sannleiks- og matsnefnd og fyrrverandi eigandi, Erlendur Magnússon, við umræddan álagastein og fylgihluti hans. 

Á steininum er mannvistarhreiður með eggi frá 2009 og fuglinn Fönix sem hefur sig til flugs sem tákn um betri tíma bæði fyrir Skagaströnd og Gamla bæinn við Blöndu. 

Þess ber að geta að það sem listamaðurinn kallar fylgihluti er einfaldlega mikilfenglegt listaverk sem unnið hefur verið úr mannvistarleifum ýmiskonar".

12.08.2012 08:10

Svolítið síðbúið sýnishorn frá Síldarævintýri

830. Óvenju lítið hefur farið fyrir bloggfærslum hérna á síðunni undanfarna daga og þá ekki síst í ljósi þess að einn af stórviðburðum ársins er nýafstaðinn, þ.e. sjálft Síldrævintýrið. Ástæðan er aðallega myndavélarleysi framan af þeirri ágætu helgi, en einnig óvenju stuttur viðverutími nyrðra og svo að lesgleraugun hafa ekki fundist alla vikuna sem nú er senn á enda.
En hér er engu að síður örlítið sýnishorn og þá aðallega af flugeldasýningunni eins og sjá má...


Á sunnudagskvöldinu kl. 00.30 komu allmargir gestir ævintýrisins sér fyrir í fjörunni fyrir framan Síldarminjasafnið.


Veðrið var hið ákjósanlegasta og mikið fjölmenni.


Svo hófst sýningin á tilsettum tíma...


...frá björgunarbátnum Sigurvin.


Það voru engin smá stjörnuljós...


...sem lýstu upp himininn...


...og ljósin spegluðust...


...í spegilsléttum haffletinum.


Áhugasamir fylgdust með í hrifningu...


...og óteljandi myndavélar voru á lofti.


Sýningin endaði svo með miklum látum og Sigurvin var baðaður rauðleitu ljósi.


Uppi í bænum stóðu jaxlarnir Hansi og Siggi vaktina.


Daginn eftir átti ég leið út að Öldubrjót. Þar var þessi ungi maður að byggja kofa, en hann var líka að spjalla aðeins í gemsann rétt eins og íslenskir iðnaðarmenn eru að sögn ekki óvanir að gera.


En nægur er efniviðurinn í kofasmíðina...

31.07.2012 07:21

Vanir Menn á Síldarævintýri


829. Eins og á síðasta ári og einnig árinu þar á undan, ætlum við gömlu mennirnir sem spiluðum saman í Miðaldamönnum á árunum í kring um 1980 að koma saman á Síldarævintýrinu og taka eins og eitt gigg á plani og annað í húsi. Í fyrra var Baldvin Júlíusson söngvari Gauta frá sjöunda áratugnum sérlegur gestur á palli, en í ár leggur okkur lið bakarinn og söngvarinn Róbert Óttarsson sem flestir ættu að vera farnir að kannast við sem fylgst hafa með tónslitaruppákomum í bænum okkar síðustu árin.

Til stendur að spila á bryggjuballi síðdegis á laugardegi ef veður leyfir sem allt bendir reyndar til, en færa sig síðan síðan inn í hús þegar kvölda tekur. Lagavalið mun einkennast af léttum og dansvænum lögum frá liðnum árum (jafnvel löngu liðnum) og einhverjir vel þekktir siglfirskir slagarar munu örugglega fljóta með í bland við annað efni.

23.07.2012 10:04

Hér við íshaf byggð var borin...

+
(Bjarki Árnason. - Myndin er úr Ljósmyndasafni Siglufjarðar)

828. Frá og með laugardeginum s.l. mátti finna "Siglufjörður", lag og ljóð Bjarka Árnasonar inni á Youtube í splunkunýrri útsetningu. Ástæða tímasetningarinnar er auðvitað fyrst og fremst sú að óðum styttist í bæjarhátíð okkar siglfirðinga "Síldarævintýrið". Höfundurinn er eins og áður segir Þingeyingurinn Bjarki Árnason (03.05.1924 - 15.01.1984) sem fluttist til Siglufjarðar árið 1943 og bjó þar allt til dauðadags. Ýmsir hafa haft aðkomu að framkvæmdinni og vil ég þar fyrstan nefna sveitunga vorn Birgi Ingimarsson sem var aðal driffjöður og reddari hugmyndarinnar hér syðra, þá Róbert Guðfinnsson framleiðanda og væntalega fjármagnanda, Dalvíkinginn Eyþór Inga Gunnlaugsson stórsöngvara, Reykvíkinginn Þorvald Bjarna útsetjara, Ísfirðinginnn Jón Steinar sem tók myndbandið og Stefaníu Thors sem ég held að sé líka af Reykjavíkursvæðinu, en hún klippti það.

Þetta er síður en svo alveg nýtt mynstur, því í upphafi síðustu aldar fjölgaði íbúum Siglufjarðar svo hratt að engin önnur dæmi eru um slíkt hérlendis. Dugandi fólk kom þá víða að af landinu og gerði bæinn að því sem hann varð, og eiga því mun fleiri en í flestum öðrum þéttbýlisstöðum á landsbyggðinni ættir sínar að rekja til austurs, vesturs, norðurs eða suðurs.

Slóðin á lagið er http://www.youtube.com/watch?v=VP6xHczSnMg&feature=youtu.be

-

Siglufjörður.

Hér við íshaf byggð var borin 
Bærinn okkar SIGLUFJÖRÐUR.
Inn í fjöllin skarpt var skorinn 
Skaparans af höndum gjörður. 
Til að veita skjól frá skaða
Skipunum á norðurslóðum
Sem að báru guma glaða
Gull er fundu í hafsins sjóðum

Hér er skjól og hér er ylur
Hart þó ís að ströndum renni
Þó að hamist hörku bylur.
Hlýju samt hið innra kenni.
Fólkið sem að byggir bæinn 
Bestu lofgjörð honum syngur
Um að bæti öllum haginn
Eitt að vera SIGLFIRÐINGUR.
 

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 307
Gestir í dag: 53
Flettingar í gær: 364
Gestir í gær: 57
Samtals flettingar: 319566
Samtals gestir: 35191
Tölur uppfærðar: 29.4.2024 17:47:05
clockhere

Tenglar

Eldra efni