13.08.2007 23:23

Þorskur á þurru landi.

394. Í vor fór ég eins og svo oft áður í svolítinn bíltúr og hafði myndavélina meðferðis. Ég ók í gegn um Vellina sem er nýjasta hverfið í Hafnarfirði og inn á veginn sem liggur til Krýsuvíkur. Þegar ég hafði skammt farið kom ég að fiskhjöllum og beygði inn á stæði og rölti að þeim. Ég skoðaði þá og nánasta umhverfi þeirra, tók mikið af skemmtilegum myndum og það var þá sem ég tók eftir þessum vesaling sem lá á jörðinni og ekki var betur séð en að hann væri alveg steindauður.



Ég rak tána í hann en það breytti engu, ég varð ekki var við nokkurt lífsmark. Hann hreyfði sig ekki og þegar betur að gáð, lágu fleiri úr fjölskyldu hans þarna á víð og dreif um jörðina. Ég horfði svolitla stund á hópinn og allt var kyrrt og hljótt. Það heyrist aðeins svolítið skrjáf í tómum plastpoka sem hékk á ryðguðum nagla á staur þarna skammt frá. Hann hreyfðist lítillega í hægum og hljóðlátum blænum sem strauk blíðlega á kinn en var að öðru leyti mjög svo aðgerðarlítill. Það hvarflaði að mér að sú speki ætti ef til vill við að "þeir sem vita meira en aðrir, hafa líka vit á að þegja," en líklega var það ekki málið í þessu tilfelli.
Mér fannst þetta vera mikil kyrrðarinnar stund og ég velti fyrir mér hvað væri til ráða.

Ég gæti alla vega tekið mynd af greyinu og reynt að "fótósjoppa" í hann svolítið líf.

08.08.2007 02:37

Síldarævintýri 2007

393. Að sjálfsögðu var haldið á Síldarævintýri á Siglufirði um verslunarmannahelgina eins og undanfarin ár. Það eru þó ekki endilega skemmtiatriðin og einhverjar uppákomur sem draga mig á heimaslóðir ár eftir ár, heldur miklu frekar það að sjá og hitta allt fólkið sem kemur þarna af sömu ástæðu og ég. Fólkið sem býr velflest á sama landshorni og ég, en ég rekst aldrei á það á þeim slóðum svo undarlega sem það hljómar. Hér að neðan eru nokkur sýnishorn frá nýliðinni helgi og flestar myndirnar geta líklega talað fyrir sig.



Eitt af því fyrsta sem fyrir augu bar var þessi Rússi sem var auglýstur til sölu, en að vísu vantaði verðhugmyndina á auglýsinguna. Gaman væri að hafa einhverjar tölulegar upplýsingar um þá hlið málsins.



Tveir menn með stórar myndavélar. - Jónsi (t.v.) flutti frá Siglufirði þegar hann var 10 ára en er vel meðvitaður um ræturnar. Hann var einn af þeim sem gisti á Aðalgötu 28 ásamt fjölskyldu sinni. Steingrím (Lífið á Sigló) á ekki að þurfa að kynna fyrir nokkrum manni, því hann er líklega einn frægasti Siglfirðingurinn í dag og er vel að því kominn.



Gulli (Gunnlaugur Óli Leósson) er hér með þær "copy" og "paste" eins og þær voru kallaðar til að byrja með. Það kom til af því að í upphafi þekktum við þær ekki í sundur en þegar frá leið varð það ljóst að fyrir utan háralitinn voru þær ekkert eins líkar og virtist vera við fyrstu sýn. Hin réttu nöfn þeirra eru Ólöf og Sunna.



Hérna er sá sem þetta ritar í verulega góðum félagsskap. Gunnhildur er sveitastúlka og prestsdóttir innan úr Skagafirði.



Þegar ekið er fram á fjörð eins og það er kallað, má sjá að Hólsáin sem heitir reyndar Fjarðará skv. skráðum heimildum, er betur brúuð en margar aðrar ár. Það er ekki bara ein brú sem hægt er að aka, heldur eru þær tvær hlið við hlið og báðar í bullandi notkun enn sem komið er.



Svona var veðrið á föstudag og laugardag. Lágskýjað, ýmist rigning eða skúrir og líklega ekkert sérlega spennandi að búa í litlu kúlutjaldi.



Allar sprænurnar í fjöllunum urðu að beljandi ám.



Ein af dellunum sem ég hef ánetjast er að safna skemmtilegum einkanúmerum, en það verður örugglega komið rækilega inn á það síðar. Hérna bættist eitt slíkt í safnið einmitt helgina sem svo margir taka sér frí.



Fyrri partinn á laugardagskvöldinu var spilaður blús á sviðinu við torgið og hann bara þrælskemmtilegur.



Það er vitað að Geirmundur sem spilaði í Allanum hefur ágætt viðskiptavit. Hann lagði auðvitað vel merktum hljómsveitarbílnum við hliðina á sviðinu svo hann væri fyrir hvers manns augum. Góð og ódýr auglýsing.

En þegar þennan sveiflukóng ber á góma dettur mér alltar gömul og skemmtilega saga í hug.
Fyrir allmörgum árum sendi ég lag í Sæluvikukeppnina á Króknum ásamt mörgum öðrum. Geirmundur fór hins vegar með sigur af hólmi, enda stóð hann betur að vígi en aðrir keppendur þar sem hann einn keppenda var með allt undirspil á geisladiski þar sem færustu popparar landsins lögðu honum lið. Ég lenti í fjórða sæti og þegar þeir sem náðu tíu efstu sætunum höfðu allir verið kallaðir upp á pallinn hallaði Geirmundur sér að mér og spurði: Bjóst þú kannski við að vinna?



Þetta eru þær Erla og Stína sem voru söngkonur Miðaldamanna árið 1979 eða sumarið á eftir Selmu. Samstarfið við þær var frábært í alla staði og væri hægt að segja margar skemmtilegar sögur frá þessu tímabili, en það bíður líklega betri tíma.



Þær stöllur Copy & Paste stilla sé upp fyrir framan sviðið og hljómsveitina Bermúda.



Hljómsveitin Bermúda var hins vegar alveg dúndurgóð. Sérstaka athygli mína vakti afburða góður bassaleikur og þegar ég gáði betur þekkti ég bassistann, því hann var á sínum tíma einn af betri viðskiptavinum mínum í Laugarásvideó.



Ég hitti Stjána Elíasar fyrir framan Bíóið og átti við hann stutt spjall. En það er svo annað mál að ég get með engu móti séð að hann hafi breyst nokkurn skapaðan hlut ef frá er talin klippingin, síðan hann trommaði með þeim Gumma Ingólfs, Bjössa Birgis og Jóhanni Skarp í hljómsveitinni Enterprise líklega árið 1970 eða þar um bil. Og það verður eiginlega að koma skýrt fram að Stjáni var drullugóður trommari, þungur og þéttur.



Og ég fékk fleiri stelpur í fangið. Ég hitti þau Guðmund Óla og hana Öllu sem settist hjá mér rétt á meðan myndatakan fór fram.



Ein af skemmtilegri hljómsveitum sem hafa verið "fundnar upp" á Siglufirði eru HELDRI MENN, sem rímar auðvitað ágætlega á móti eldri menn. Hér fyrir ofan er líklega einn af elstu trommurum landsins, ekki nema 83 ára gamall. Svenni Björns sem hefur munninn yfirleitt fyrir neðan nefið kynnti hann sem Ingimar Ringo Þorláksson. Og fyrir þá sem ekki vita þá er Snorri "Idol" bróðursonur Ingimars.



Svenni söngvari Björnsson er ofurtenór sem alltaf hefur haft gaman af því að syngja og langaði mikið til að vera með á uppgangsárum karlakórsins Vísis forðum. En það var hægara sagt en gert fyrir togarasjómann að sinna slíku og því varð allt slíkt að bíða.



Ég man ekki eftir að hafa vitað Ninna á Hring spila opinberlega meðan ég bjó á Sigló og heyrði ekki af því í allmörg ár eftir það. En núna er Ninni eins konar hirð-nikkari Síldarminjasafnsins og fellur vel inn í söltunarsýningarnar sem þar eru haldnar.



Hjalli Jóns fyrrum nágranni minn á Brekkunni flutti aftur í bæinn fyrir allnokkrum árum, en hann var lítillega í poppinu 1968-9 þegar hann spilaði með hljómsveitinni Max hinni fyrri. En í henni voru auk hans; Óli Ægirs (rakara), Stjáni Hauks (bróðir Finna Hauks á Bíóinu), Rabbi Erlends og Sverrir Elefsen.



Örfhenti gítarleikarinn Júlli er með sérsmíðaðan gítar fyrir þá sem þannig eru spilandi. En Júlli sækir sífellt í sig veðrið, enda farinn að læra til leiksins í Tónskólanum.



Jónsi bekkjarbróðir minn tók fullt, fullt af myndum þó hann sé ekki farinn að sýna mér þær ennþá. Ég verð líklega að rúlla suður í Reykjanesbæ og kíkja á hann þar sem hann býr í Innri-Njarðvík.



Kalli rafvirki (Latabæjar) var líka á Aðalgötunni um helgina. Það varð ekki annað séð en að hann fílaði bæinn og ævintýrið í botn.



Ég fór með Jónsa og Kalla inn í Skógrækt og hélt svolítinn fyrirlestur um Jóhann Þorvalds. Svo bætti ég við nokkrum smásögum um sjálfan mig frá því að ég var í unglingavinnunni og gróðursetti tré þarna sem ég þekki jafnvel enn.



Á sunnudeginum var komið fínt veður og allt eins og best varð á kosið. Og auðvitað var haldin söltunarsýning við síldarminjasafnið með öllu tilheyrandi.



Hún heitir Ingibjörg Þráinsdóttir, er kölluð Ibbý og hefur búið í Englandi síðan 1971 eða 2. Hún er dóttir Þráins Guðmundssonar fyrrv. skólastjóra við Laugalækjarskóla, en foreldrar hans voru Ingibjörg Jónsdóttir og Guðmundur Þorleifsson sem bjuggu að Hávegi 12b á Sigló. Og því má bæta við að Guðmundur þessi skóp ef svo má segja Guðmundartúnið sem flestir brekkubúar eiga að þekkja þó svo búið sé að grafa það allt í sundur í dag vegna gerðar snjóflóðavarnargarða. Hann heitir Duncan og er að koma til Íslands í fyrsta sinn.



Ég skrapp með Duncan og Jónsa upp í fjall eftir hinum forboðna einkavegi sem fer svo illa með bíla sem heita ekki jeppar eða eitthvað þaðan af stærra. Jónsi tók þessa mynd af mér þegar ég sá þennan stóreflis "grjóthnullung" sem ég varð auðvitað að príla upp á.



Eftir Bayonne skinkuna sem var í kvöldmatinn gat ég ekki setið á mér lengur, Ég varð bara að labba eitthvað upp í fjall. En þar sem ég var ekki orðinn alveg góður síðan ég snéri undir mér aðra löppina í Hróðmarstindum fyrr í sumar, varð að finna eitthvað auðvelt viðfangsefni. Ég ók ásamt Jónsa upp undir Siglufjarðarskarð og við gengum síðan þaðan til austurs í áttina að Súlum sem er fjall fyrir sunnan skógræktina í Skarðdal. En með því að aka svona langt upp eftir var ekki á brattan að sækja, heldur eiginlega "gönguskornar" skriðurnar þarna efst í dalnum. Það var mjög sérkennilegt að heyra lækjarniðinn undir fótum sér þó hvergi væri vætu að sjá, en þarna rennur talsvert vatn ofan í urðinni þó gróið sé yfir það fyrir árhundruðum.



Hann er alveg ótrúlega gulgrænn mosinn við mýrina og í kring um lækinn sem rennur úr vatninu ofar í fjallinu.



Það er líka eitthvað við að setjast á klettabrún og dingla fótunum fram af. Ég áttaði mig á ég var í sömu gömlu spariskónum og ég hafði verið í þegar ég asnaðist upp í Skollaskál og langt upp fyrir Fífladali um páskana. Það á ekki af greyjunum af ganga.



Þarna uppi er ekki allur snjór alveg farinn þó komið sé fram í ágúst.



Við klifruðum upp í hlíðina fyrir ofan Súlur og þarna stillir Jónsi sér upp fyrir neðan klettabrúnina.



Séð ofan í vatnið fyrir ofan Súlurnar og niður til Siglufjarðar. Frá þessu svæði er afburða gott útsýni yfir fjörðinn og bæinn og þess vegna ekki vitlaust að muna eftir hafa myndavélina meðferðis fyrir þá sem eiga þarna leið um.



En nú var kominn tími til að  halda til baka í átt að veginum sem lá upp í  Siglufjarðarskarð sem sjá má á myndinni hér að ofan.



Svona lítur urðin út sem þarf að ganga yfir og var eins gott að gæta vel að hvar drepið var niður fæti því að mjúkur mosinn á milli steinanna villti oft um fyrir hve djúpt var niður á fast. En sól gyllti tinda, það var hætt að rigna, himininn orðinn blár og dagurinn hafði verið góður.



Þetta er hann Oliver sem ætlaði með okkur Jónsa í fjallgönguna, en þegar hann kom að fyrstu lækjarsprænunni snéri hann við og hljóp aftur upp að bílnum í einum spretti þar sem hann beið þar til við komum aftur.



Og auðvitað þurftum við að  fara lengri leiðina til baka eða upp í Skarð, niður hinum megin, út Almenningana og um Strákagöng.



Þetta skilti er í Siglufjarðarskarði og fyrir þá sem geta ekki lesið svona smátt letur stendur:

Þann 15. maí 1935 hófst framkvæmd við vegagerðina undir verkstjórn Lúðvíks Kemp frá Illugastöðum í Skagafirði. Vegurinn var formlega tekinn í notkum 27. ágúst 1946.

Um Siglufjarðarskarð lá leiðin til Siglufjarðar frá landnámsöld þar til Strákagöng voru opnuð 10. nóvember 1967.

Frá 1935 til 1946 var unnið með handverkfærum og hestakerrum við vegagerðina. Það var svo sumarið 1946 að verulegt skrið komst á lokaáfanga vegagerðarinnar í skarðinu, en þá kom stórvirk jarðýta er ruddi síðasta spölinn og þann örðugasta milli vegaendanna að norðan og sunnan, en það var sjálfur Skarðskamburinn.

Yfir þessu skarði hafði síðan í heiðni andi nokkur illkynjaður er birtist í strokumynduðum skýstólpa er kom úr lofti niður ofan yfir hvað helst sem undir varð, maður, hestur eða hundur, og lá það dautt samstundis.

Annmarki þessi varaði fram á daga Þorleifs prófasts Skaftasonar. Ferðaðist hann þangað árið 1935 með ráði Steins biskups og nokkrir prestar með honum og vildismenn.

Hann hlóð altari úr grjóti annarsvegar í skarðinu og hélt þar messugjörð með vígslu og stefndi þaðan vondum öndum og í skarð það eður hraungjá er sunnar liggur í fjallsbrúninni og kallast Afglapaskarð. Þykir þar æ síðan ískyggilegt. Hefur og nokkrum sinnum orðið þangað mönnum gengið í villu og bana beðið.

Siglufjarðarskarð hefur aldrei síðan orðið mönnum að meini.

Mælti séra Þorleifur svo fyrir að hver sem yfir skarðið færi skyldi gjöra bæn sína við altarið og mundi þá vel duga. Sér þessu altari merki enn í dag.

Það er svo 15. júlí 2000 að sóknarprestur Siglfirðinga séra Bragi J. Ingibergsson framkvæmdi hjónavígslu í Siglufjarðarskarði að viðstöddum ættingjum og vinum brúðhjónanna.





Séð yfir til Skagafjarðar úr Siglufjarðarskarði.



Þegar við komum úr leiðangrinum var klukkan að verða ellefu. Sumir fóru að sofa en aðrir töldu það engan vegin tímabært. Þeirra á meðal voru þau Ólöf of Gulli.



Ég skrap út á torg um nóttina og hitti Jóa. Hann bennti mér á afturrúðuna á björgunarsveitarbílnum, en einhver hafði fundið sig knúinn að mölbrjóta hana.



Síðan varð ég auðvitað að kíkja á Pál Óskar í Bíóinu sem þeytti skífum af hjartans list. Fyrir utan hitti ég Svein Hjartar sem var trommari í hljómsveitinni Max hinni síðari. En Sveinn starfar núna sem ljósmyndari á höfuðborgarsvæðinu eftir að hafa numið þá listilegu iðju í Danaveldi.



Hvað hann Dóri er að skoða þarna veit ég ekki, en mér finnst þetta skot ekki með öllu ógalið.



Eigum við að segja að þessi mynd heiti: KJÓSANDINN OG ÞINGMAÐURINN    .



Á mánudeginum var haldið til berja inni í Skarðdal efst í skógrægtinni til að fá aðeins út á skyrið. Þarna er Magga að tína ber.



Ibbý settist aðeins niður innan um lyngið og grenið.



Duncan var alveg grjótharður í tínslunni.



Afraksturinn... Hmmmm. Ekki alveg orðin fullþroska en þau smökkuðust vel í KEA skyrinu.



Síðan var haldið niður í bæ frá stæðinu fyrir ofan Jóhannslund.



...Og tekin ein mynd frá Hóli áður en pakkað var saman og haldið suður á bóginn.

Og þetta er aðeins u.þ.b. helmingur þeirra mynda sem sjá má á Myndaalbúmi merkt "Síldarævintýri 2007."

02.08.2007 09:01

Hin síðari júlíferð á Sigló.

392. Við Magga skruppum á Sigló í örstutta vinnuferð. Það var farið eftir kvöldmat á mánudaginn sl. og komið til baka aðfararnótt miðvikudags. Það var skúrað og skrúbbað, þurrkað af og tekið til, borað og skrúfað, pípað og neglt. Valdi Gosa spurði hvort væri verið að gera partýklárt, og það má kannski segja að á vissan hátt hafi kjöftugum ratað satt orð á munn því það er von á fjölmenni í gistingu á Aðalgötuna á Síldarævintýri no. 17. Þess vegna gaf ég mér engan tíma til myndatöku á staðnum eins og venjulega, en bætti það kannski upp að einhverju leyti á leiðinni. Mikla litadýrð var að sjá ef litið var til himins, og vakti það sjónarspil náttúrunnar athygli mína. Ég stillti litlu vasamyndavélina eins og ég hafði vit til miðað við aðstæður og skaut nokkrum skotum ýmist að landslaginu sveipað rökkri miðsumarnæturinnar, eða á undarlega lituð skýin sem sum voru hæðar sinnar vegna enn böðuð sólarljósi dagsins sem var liðinn á jörðu niðri.



Horft út Skagafjörðinn.



Það rýkur úr Tindastól eins og það sé kviknað í honum. - Horft yfir Hegranesið.



Eldur í skýi yfir Blönduósi.



Horft út á Húnaflóann. Í efri skýjalögunum skin en sól dagsins sem leið, en lágskýjabakkinn læðist yfir landið úr norðri. Á morgun verða gráu tónarnir líklega allsráðandi.

Forynjur og fyrirbæri. Langur ormur liðast um loftin blá og það er engu líkara en hann opni ginið og ætli sér að steypa sér yfir okkur og gleypa vegfarendurnar sem eiga sér einskis ills von.



Er þetta geimskip að búa sig til lendingar?



Horft yfir Hrútafjarðarhálsinn. Yfir innsta hluta Strandasýslu og Laxárdalsheiðinni er þykkur skýjabakki, en fyrir ofan hann skín sólin enn. Sérstaka athygli mína vakti svarti skýhnoðrinn (til vinstri) sem er líklega rétt fyrir neðan sólargeislana og þess vegna komin nótt hjá honum.



Inn til landsins mátti sjá fullt tunglið sem var stundum á bak við skýjahulu, en fékk stundum að láta ljós "sitt" skína. En þegar dýpra er hugsað vitum við auðvitað að tunglið á sér ekkert eigið ljós heldur fær það að láni hjá sólinni og endurkastar því af góðsemi sinni til okkar jarðarbúa.

En nú fer að verða kominn tími á að drífa sig á Síldarævintýri á Sigló, en þar ætla ég að vera fram á þriðjudag.

30.07.2007 19:11

Einn af Jónösunum í umferðinni.

391. Það er oft brýnt fyrir okkur að fara varlega, betra sé að fara sér hægt og komast klakklaust á leiðarenda, en öllu má nú ofgera. Sumir taka slíkar umvandanir svo bókstaflega að horfir til stórvandræða, og sá sem ók á undan mér skammt austan við Selfoss fyrr í sumar er án nokkurs vafa einn þeirra. Kílómetra eftir kílómetra hélt hann sig á nákvæmlega 70 km hraða og ekki agnarögn meira en það. Talsverð umferð var á móti svo mér þótti ekki fýsilegur kostur að aka fram úr vegna þess. Nokkur röð var farin að myndast fyrir aftan mig og sá ég í speglinum að það var eins og sumir bílarnir væru að gægjast út á veginn, rétt eins og ökumenn þeirra væru að velta fyrir sér að taka stökkið og þeysa fram úr. En þeir eins og ég mátu aðstæður þannig að slíkt væri ekki með öllu óhætt og héldu sig á sínum stað í sístækkandi lestinni. Loksins sá ég að nú myndi vera óhætt að ýta pinnanum svolítið nær gólfi og geystist fram úr þeim gráa sem hafði verið á undan mér allt of lengi. Ég er ekki frá því að hann hafi aðeins bætt í ferðina meðan ég fór fram úr honum og sendi mér svolítið súrt augnaráð sem var lýsti bæði hneykslan og reiði. Ég stillti mig um að senda honum þekkt merki þar sem langatöng kemur hvað mest við sögu, enda orðinn öllu dannaðri með aldrinum.



Nálin virtist lengi vel vera föst á 70.

Lestarstjórinn sem stjórnaði hraðanum hjá okkur hinum.

28.07.2007 13:30

Frumvarp til laga...



390. Ég fékk þetta sent frá ágætum vini mínum sem hafði fengið þetta sent frá ágætum vini sínum eins og svo oft gerist í netheimum. Þess vegna er m.a. höfundur með öllu ókunnur.

Frumvarp til laga um kvótaúthlutun og ýmislegt fleira sem færa má til betri vegar.

1. Öllum þorski er hér með bannað að fara í veiðarfæri báta og skipa, nema viðkomandi þorskur hafa tilskilin leyfi sjávarútvegmálaráðherra.
2. Hver sá sjómaður sem fær þorsk í óleyfi, skal henda honum án tafa út fyrir borðstokkinn.
3. Öllum hvölum er með öllu óheimilt að borða þorsk eða aðrar fisktegundir sem eru í útrýmingarhættu samkvæmt reiknilíkönum fiskifræðinga.
4. Útgerðum hvalaskoðunarbáta er skylt að bjóða upp á hvalkjöt sem aðalrétt í öllum skoðunarferðum.
5. Engum er heimilt að verða fyrir slysi af neinu tagi, nema viðkomandi hafi aflað sér til þess tilskilinna leyfa sem fást hjá umferðastofu´gegn hæfilegu gjaldi.
6. Björgunarsveitum er stranglega bannað að bjarga fólki, nema öruggt sé að viðkomandi hafi áðurnefnt leyfi til að slasast.
7. Þrátt fyrir að hinn slasaði hafi slíkt leyfi, er stranglega bannað að fara í björgunarleiðangur hans vegna leiði það til þess að farið verði fram úr fjárlögum ársins.
8. Til að fyrirbyggja að slys geti orðið, er öllum ferðalöngum skylt að tryggja sig hjá einhverju af hinum stóru tryggingafélaga.
9. Til að losna við hvimleiða innbrotsþjófa er öllum sem hyggja á ferðalög, skylt að tryggja sig gegn innbrotum., Þeir sem tryggja verða því hvorki fyrir skemmdum né missi á persónulegum eignum. Sérstaklega skal á það minnt að þér er alveg óhætt að keyra á ef þú ert tryggður! (eða svo má skilja á auglýsingum tryggingafélaga sem alltaf hafa rétt fyrir sér!)
10. Til viðbótar áður tilkomnum lögum um jafnrétti kynjanna, þá er framvegis stranglega bannað að mismuna börnum sem fæðast á sjúkrahúsum. Því skal framvegis annað hvert barn vera kvenkyns (og hitt karlkyns) og viðkomandi heilbrigðisstofnun þarf að sækja um sérstakan kvóta vegna barna sem í framtíðinni má ætla að hneigist til samkynhneigðar.
11. Íbúum Fjallabyggðar er stranglega bannað að skreppa í Bónus á Akureyri til að nálgast þar ódýrari vörur en í heimabyggð, jafnvel þó verð á bensíni á Akureyri sé 6 krónum ódýrara en í Fjallbyggð.
12. Fjölmiðlum, ASÍ og Neytendastofu er framvegis stranglega bannað að birta opinberlega verð á vörum í Bónus og bera það saman við verslanir á landsbyggðinni. Aðeins má birta opinberlega mismuninn á verði í ESB löndum og Reykjavík.
13. Öll vínsala á Siglufirði er óheimil nema vínið verði fyrst blandað vatni í réttu hlutfalli við hraða ADSL-tenginga á staðnum. Leggja skal 5% aukagjald á vínið, sem renni í ferðasjóð utanríkisráðherra.
14. Fjölmiðlum, Símanum, bönkum og öðrum fyrirtækjum er skylt að senda út auglýsingar og gylliboð til allra viðskipta-?vina? sinna eins og þeir hafa gert hingað til án tillits til þess hvort viðskiptavinirnir eigi kost á að njóta þeirrar þjónustu og gylliboða sem þeir bjóða í persónulegum bréfum og eða auglýsingum. Persónuvernd og Neytendastofnunum kemur slíkt ekkert við.
15. Til að sinna eftirliti með því að ofanritað verði framfylgt skal skipa sérstaka nefnd. Hún skal skipuð öllum sitjandi kvenkyns alþingismönnum á þingi og jafnmörgum karl-alþingismönnum völdum af handahófi án tillits til hvort þeir hafa eitthvað vit á ofannefndum lagagreinum.
16. Þungar sektir sem renna skulu í kaffisjóð (risnusjóð) utanríkisþjónustunnar verða innheimtar af þeim sem brjóta ofangreind lög.
17. Lögreglunni á Siglufirði er þó óheimilt að hafa afskipti af brotum ofannefndra laga, alveg eins og brotum á lögum og reglum varðandi það hvernig Siglfirðingar leggja ökutækjum sínum.

Þetta lagafrumvarp er sett upp á þann hátt að auðvelt er að hafa margar og mismunandi skoðanir á því og túlka bæði vítt og þröngt eða eftir smekk hvers og eins. Eins og eðli allra laga stendur til, þarf síðan stóran hóp hálærða spekinga til að túlka og dæma eftir þeim. Að vísu má búast við að flestir skili séráliti í nánast hvert einasta sinn sem reynir á lögin.
Aðeins 17 sérfræðingar komu að gerð þessa lagafrumvarps sem er óvenjulega fámennt, en ástæða þess er hversu fjármagn var takmarkað vegna fyrirhugaðra ferðalaga flestra ráðherra ríkisstjórnarinnar.
En þeir sem kunna að hafa eitthvað við frumvarp þetta að athuga er bent á að þeir geta látið skoðun sína í ljós hér að neðan.

26.07.2007 00:37

Verslað í Bónusvideó.



389. Einhvern tíma hefði ég hlotið mína eigin fordæmingu án áminningar fyrir það eitt að láta nokkurn mann sjá mig halda poka svona kyrfilega merktum Bónusvideó svo hátt á lofti sem glöggt má sjá, en núna er ég sem sagt farinn versla stundum í Bónusvideó.

Það var á því herrans ári 1981 þann 12. ágúst klukkan 16.00, sem ég byrjaði að leigja út videóspólur norður á Siglufirði. Upphaflegt stofnfé var hvorki meira né minna en heilar tólf þúsund krónur, og fyrir þær voru keyptar átján notaðar videóspólur í Videóbankanum við Laugarveg. Segja má að mjór sé mikils vísir og það varð síðan mitt aðalstarf í 24 ár að reka myndbandaleigur sem grundvallaðist á þessu umrædda upphafi. Fyrst á Siglufirði, þá Videóbjörninn Hringbraut 119 í Reykjavík og síðast Laugarásvideó í Laugarásnum. Það var á síðasta staðnum sem menn gátu loksins gert eitt og annað sem hugurinn hafði alltaf staðið til. Eitt af því var að hefja stórfelldan innflutning á svokölluðu jaðarefni sem var þá hvergi annars staðar til. Það gerði staðinn verulega sérstakan og orðspor hans fór hratt vaxandi. Eitt af því sem fréttist út var að starfsmönnum Bónusvideó sem margir hverjir voru góðir viðskiptavinir Laugarásvideós, var harðbannað að benda viðskiptavinum sínum á að myndefnið sem þeir leituðu að og var ekki til þar, væri fáanlegt í Laufgarásvideó. Þetta hleypti kergju í "suma" og Bónusvideó var úthrópað sem myndbandaleiga hins smekklausa undirmálsmanns sem gerir ekki gæðakröfur heldur vill láta matreiða afþreyinguna ofan í sig gagnrýnilaust án nokkurrar hugsunar.
"Þegar þú ert farinn að versla í Bónusvideó, þá ertu búinn að finna botninn."
Reyndar er ég þeirrar skoðunar enn í dag að þetta eigi við einhnver rök að styðjast en samt...

Áður fyrr horfði ég á að minnsta kosti eina bíómynd á hverjum einasta degi, en ég var að átta mig á því nýverið að ég hef hvorki notað DVD tækið né gamla spólujálkinn til að horfa á svo mikið sem eina einustu ræmu allt þetta ár. Ég spyr því sjálfan mig hvað sé eiginlega að gerast, en við þeirri spurningu er líklega ekki til neitt einfalt svar.
Ég læt mér alla vega ekki detta í hug að reyna að svara henni, yppi bara öxlum kæruleysislega og segi bara - SO WHAT!

Ég er nefnilega steinhættur í videóbransanum.

22.07.2007 02:19

Júlíferð á Sigló, - fyrri hluti.

388. Ég skrapp á Sigló um helgina (13-16) og eins og svo oft á þessum tíma ársins var mikið að gerast í bænum. Mannlífið bar svolítið "keim til fortíðar" vegna þess hversu margir voru á ferli sem eru burtfluttir fyrir að vísu mislöngu síðan. Ástæðan var að sjálfsögðu sú að þrjú árgangsmót voru haldin þessa daga auk eins ættarmóts sem var reyndar ekki af minni gerðinni. Það voru árgangar ´47, ´52 og ´57 sem voru saman komnir til að finna til hinnar nostalgíulegu samkenndar sem eðlilega einkennir slíkar samkomur þegar bæði sætar og súrsætar minningar eru gjarnan rifjaðar upp. Svo voru "Gosarnir" frammi á Hóli með ættarmótið sitt, en það verður að segjast að viðkoma þeirra sem teljast til þessarar ættar er líklega talsvert langt yfir meðallagi, slíkur var fjöldinn á gamla kúabúinu. Reyndar var einnig haldið pílumót að Suðurgötu 10, en ég veit ekki hvort það hefur dregið að sér margmenni til bæjarins að þessu sinni.


Eitt af því sem ég klikka ekki á er að kaupa Sírópskökur hjá Kobba. Nokkuð sem ég hef hingað til ekki séð annars staðar. Alla vega ekkert sem stenst samanburð.

Biggi Ölmu sem er af ´57 árgerðinni var á ferðinni seinni part laugardagsins, bankaði upp á og tók nokkur létt en valinkunn rokkslagarastef frá því í denn á eldhúsgólfinu. Hann hlaut auðvitað sína umbun fyrir rétt eins og krakkarnir sem fara syngjandi milli búða á Öskudaginn. Við Biggi vorum nefnilega saman í hljómsveit að okkur minnti árið 1975 sællar minningar og spiluðum þá oft í Allanum hjá Villa Friðriks.



Eitt af því sem mér tókst alveg sérlega vel upp með að gera, var að læsa mig úti. Ég sá þá að stofuglugginn var opinn og einfaldast að fara þar inn. Ég fór því svolítinn rúnt ásamt Ingvari afkvæmi mínu um nágrennið í leit að stiga. Við fundum hann í garði við ónefnt hús í nágrenninu og rændum honum, reisum upp og ég klifraði upp og inn. Síðan fórum við annan leiðangur skömmu síðar, rétt eins og ræningjarnir í Kardímommuibænum þegar þeir skiluðu Soffíu frænku. Auðvitað lögðum við stigann aftur í grasfarið sitt þar sem hann hafði verið tíndur upp.



"Gosarnir" sem hafa tímgast með ólíkindum voru á Hóli.



Þarna tókst að mynda það sem kallast "sólarglenna" þó í fjarska sé.



Manngerð tjörn og manngerður lækur, hvílík ónáttúra á bak við tóra Bola gæti einhver heittrúaður umhverfisverndarsinni látið sér detta í hug að segja. En samt alveg ferlega flott rétt eins og Bakkatjörnin hinum megin í bænum.



En ég var aðallega kominn norður í þetta skipti til að skipta um útihurð á Aðalgötunnu. Hér má sjá þá gömlu og nýju. Tíminn sem ég valdi til skiptanna var líklega ekkert eðlilegri en svo margt annað sem ég hef tekið mér fyrir hendur um dagana. Ég byrjaði um tíuleytið á laugardagskvöldinu og var búinn rétt fyrir þrjú um nóttina. Þar sem inngangurinn í Bíókaffi þar sem Karma var að spila fyrir fyllu húsi, var innan við 10 metrum ofar í götunni var auðvitað erilsamt hjá mér við allt annað en hurðarísetningu.

Margir litu inn og það voru teknar langar pásur. Gummi Páls og Gústi Dan eru ekki daglegir gestir.



Maggi Jóns hjá Sam-bíóunum á Akureyri og fyrrum næst, næsti nágranni er það ekki heldur.

Maggi Árna (bróðir Elmars) er "alvöru" smiður og með pappíra upp á það. Hann var með ólíkindum hjálpsamur við að glerja, bora lista og skrúfa. En hann skrapp aðeins út af ballinu en fór þangað aftur, að vísu löngu seinna en hann ætlaði sér í upphafi.

Öðlingurinn Steini Garðars var líka einn af þessum góðu drengjum sem vildu leggja málefninu lið. Hann réðist að slúttjárninu sem hafði núna lokið hlutverki sínu. Inn um dyrnar gægist Rögnvaldur stórtónlistarmaður frá Sólgörðum sem færði mér disk að gjöf sem hann hafði tekið upp og ég þakkaði ekki nógsamlega fyrir. Alltaf þegar ég sé Rögnvald rifjast upp fyrir mér þegar ég seldi honum fyrsta rafmagnsorgelið. Hann kom ásamt föður sínum upp á Hverfisgötu 11 til að sækja gripinn samkvæmt umtali sem var forláta tveggja borða Yamaha rafmagnsorgel með fótbassa, og sá gamli spurði hvort þetta væri ekki bara einhver bölvuð vitleysa í stráknum að vera að kaupa svona lagað en ég hélt nú aldeilis ekki.



Ásgeir Sölva heiðraði mig líka með nærveru sinni, en við unnum saman í Húseiningum hf. á árabilinu ´78 - ´81

Þegar hurðin var komin í fór ég úr vinnufötunum, í þau skárri og leit aðeins út í tjaldið sem er komið inn á baklóðina hjá mér og þá einnig á bak við Bíókaffi. Ballið var búið og þar var slangur af skemmtilegu fólki sem var ekki farið heim alveg strax.



Gamlir popparar. Stjáni og Siggi Hólmsteins.


"Bleeeeeeeeeessaður," en ég skaut flöguskoti á móti.

Hann er ógeðslega frægur leikari eða eitthvað. Ég ætla að læðast bak við hann og vertu svo tilbúinn að taka mynd. Mér sýnist plottið hafa gengið upp.



Fleiri vildu leika þetta eftir og "frægi" maðurinn fílaði sig ágætlega en alveg ómeðvitað í þessu nýjasta hlutverki sínu.



En þá var komin röðin að mér. Þessir drengir sem eru gamlir kúnnar úr Laugarásvideó kölluðu mig "video-legend" og ég féllst því á þessa myndatöku alveg "ógeðslega" mikið upp með mér af öllu hólinu sem þeir demdu yfir mig.



Hverju skyldi hún vera að hvísla að honum og klukkan orðin svona margt???



Júhúúúú. Taktu mynd af okkur sagði Una sem er alltaf til í að sitja fyrir.



Og fleiri voru tilbúnir að sitja fyrir.



Tumi blikkari og Elli Ísfjörð jr. voru á Torginu. En nú var komið nóg og tími á svolítinn svefn.



Á sunnudeginum skrapp ég svolítinn rúnt í blíðunni. Ég velti fyrir mér hvort saga þessa "draugaskips" í slippnum er einhvers staðar til og aðgengileg.



Um kvöldið má segja að "kvöldblíðan lognværa" hafi verið ríkjandi með afgerandi hætti. Sjórinn orðinn seigfljótandi, sólin strýkur fjallatoppana og fjöllin standa á haus í sjónum.

Í þessu spilverki náttúrunnar kjagar ungamamma með afkvæmi sín fram hjá mér og hefur fátt annaað til málanna að leggja en bra, bra, bra...



Álfhóll við ós Fjarðarárinnar sem ég held að flestir þekki núorðið sem Hólsá.



Þegar heitara og svolítið kaldara loft mætist verður til svona míni-þoka.



Þessi mynd er tekin suður í Melasveit að lokinni einni af ferðum mínum á æskuslóðirnar. Ég er ekki farinn að sjá dagskrá Síldarævintýrisins ennþá, en er samt fyrir margt löngu búinn að taka þessa helgi frá og stefna fullt af fólki norður í Síldarbæinn.

18.07.2007 10:30

Júlíferð á Sigló, - seinni hluti.

387. Þegar ég skrapp á Sigló um helgina, var ég með sæþotuna í eftirdragi sem Haukur var nýbúinn að kaupa. Hann sem var nýlega kominn af sjónum, var svo snoðaður að ég ætlaði varla að þekkja piltinn. Bítlakynslóðargenið frá föðurnum (mér) virðist sem sagt ekki vera að virka þegar kemur að hársöfnun á þeim aldri þegar rokklegt útlit til höfuðsins er það sem mestu máli skiptir. Kannski lýsandi dæmi um breyttar áherslur í tímmanna rás sem mér er reyndar með öllu móti fyrirmunað að skilja. En nýja leikfangið komst norður á föstudeginum síðasta og það var ekki beðið mjög lengi með að sjósetja það og þeysa síðan um fjörðinn, enda aðstæður hinar ákjósanlegustu alla helgina. Ég fór niður í fjöruna í Hvanneyrarkróknum og síðan niður á Hafnarbryggju til að ná nokkrum skotum af "athöfninni."



Sjósetning og undirbúningur.



Allt að verða tilbúið.



Niður slétta sandfjöruna og út í báruna.



"Apparatið" lyftist af kerrunni sem er síðan dregin aftur upp á land.



Sett í gang.



Stórsvig um fjörðinn.



Talandi um svokallaðan "snertiflöt."



Þetta er svolítið meira en smávægilegur ýringur.



Farið fram hjá ljósmyndaranum sem stendur á bryggjunni á hægri ferð til að fá amk. eina mynd sem örugglega ekki hreyfð.

Þetta hlýtur að vera "ógeðslega" gaman.

13.07.2007 01:15

Í staðin fyrir stígvél.

386. Fyrir nokkrum vikum keypti ég kjallaraíbúð við Hallveigarstíg á hundraðogeinum í Reykjavík. Húsið var tekið í gegn fyrir fáeinum árum að utan og fært að mestu í upprunalegt horf, en það er hundrað ára gamalt á þessu ári. Og auðvitað gerði ég það vegna þess að inni í íbúðinni var varla svo mikið sem ein einasta spýta heil. Allt var í gömlum en grautfúnum og illa lyktandi panel sem var sums staðar horfinn undir óteljandi lög af veggfóðri. Eitt af því sem ég gerði var að fjarlægja innveggi og gera þrjú rými að einu, þ.e. gang, eldhús og stofu. Kom þá í ljós að golf voru mishá svo leggja þurfti í hluta gólfflatarins. Í þann hluta fóru hvorki meira né minna en tvö tonn af steypu sem ég handhrærði í stórum bala með litlum rjómaþeytara. (Reyndar er ég að tala um borvél ásamt tilheyrandi fylgibúnaði.)


Svona leit gólfið út eftir að öll steypan var komin á sinn stað.



En eins og búast mátti við þurfti að ýta aðeins við flotinu svo það settist sæmilega. Og til þess að gera það þurfti að vaða út í steypuna, en ég var bara á gömlu aflögðu spariskónum sem nú gegndu hlutverki vinnuskóbúnaðs. En það varð auðvitað að reyna að bjarga sér þó engin væru stígvélin sem þurfti til þess verkþáttar. Því varð að notast það sem gerði sama gagn eins og Geir sagði forðum og lengi verður í minnum haft.

En nú ætla ég að skreppa á Sigló yfir helgina.

11.07.2007 00:59

Toto.

385. Ég fór að sjá og heyra mega-bandið Toto í höllinni í gærkvöldi. Samsetning bandsins hér á klakanum var eftirfarandi: Steve Lukather - Gítar / Söngur, Lee Sklar - Bassi / söngur, Simon Pillips - Trommur , Bobby Kimball - Söngur og Greg Phillinganes - Piano / Söngur. Hvort hægt er að tala um að hljómsveit sé einhvern tíma skipuð "orginal" hljóðfæraleikurunum vil ég hafa sem fæst orð um, því þannig er því farið í henni veröld að menn koma og menn fara. En það sem var boðið upp á í Höllinni í kvöld var að mínu mati eitt hið mesta eyrnakonfekt sem rekið hefur á Frónskar rokkfjörur. Það voru sannkallaðir snillingar í hverju rúmi sem skiluðu frábærri "heildarhljóðmynd." Þetta eru svo sem engir byrjendur í bransanum því þessar menn hafa verið í fremstu röð t.d. sem eftirsóttustu sessionspilarar í rokkinu í áraraðir. Steve Lukather er svo fáránlega góður gítarleikari að manni er næst að halda að hann sé rammgöldróttur. Þau voru hreint ótrúleg hljóðin sem hann seiddi fram úr hljóðfærinu og það sem meira var, það var ekki að sjá að hann þyrfti að hafa mikið fyrir gjörningnum. Simon Pillips hefur m.a. einnig leikið með hljómsveitinni Asia auk þess að hafa tekið við sem trommari The Who.Greg Phillinganes hefur túrað með Stevie Wonder, Michael Jackson og Eric Clapton. Lee Sklar sem kom inn í túrinn eftir að hann var hafinn, er líka án nokkurs vafa einn besti rokkbassisti um þessar mundir þó útlitið bendi frekar til þess að hann sé útúrruglaður vísindamaður og náskyldur Skrepp seiðkarli.

Ég náði eftirfarandi myndrænum skotum af Toto-flokknum í gærkvöldi...







08.07.2007 00:09

Þegar ég stal brúðinni.



384. Það var um mitt sumarið 1976 heima á Siglufirði að ég fékk skilaboð um að mér væri boðið í partý næstkomandi laugardagskvöld ásamt fleira fólki sem ég þekkti og umgekkst alla jafna. Það var svo sem ekkert nýtt að brugðið væri á leik og skvett svolítið í belginn á sér á þeim árum þegar menn voru ekki nema tvítugir, en þeim sem stóðu fyrir mannfagnaðinum að þessu sinni var ég aðeins lítillega kunnugur. Ég var því svolítið hissa á boðinu og fannst það koma ef svo mætti segja, úr frekar óvæntri átt.

Hann var fæddur og uppalinn á Siglufirði, en hún var einhvers staðar að sunnan. Þau bjuggu á þessum tíma í litlu bárujárnsklæddu timburhúsi sunnarlega í bænum sem nú er horfið. Það stóð svolítið afsíðis sem hentaði þeim skötuhjúum afar vel því þau voru bæði ölkær með afbrigðum, og að sama skapi mjög hávaðasöm svo vægt sé til orða tekið.

Ég spurði hvort eitthvað sérstakt stæði til, en fékk þau svör að svo væri alls ekki. Aðeins væri meiningin að eiga saman skemmtilegt kvöld, og það var sérstaklega tekið fram að "vínguðinn" myndi án nokkurs vafa heiðra samkomuna með nærveru sinni. Ég þakkaði fyrir mig og mætti á staðinn umrætt laugardagskvöld á tilsettum tíma. Mér fannst samt eitthvað undarlegt liggja í loftinu en gat samt ekki alveg áttað mig á því hvað það gæti eiginlega verið.

Það verður ekki annað sagt en að höfðinglega hafi verið tekið á móti mér þegar ég mætti á staðinn, því ég var vart kominn inn fyrir þröskuldinn en ég var kominn með glas í hönd og síðan leiddur rakleiðis til stofu þar sem allt var fullt af Buggles, Ritz-kexi, allnokkrum sortum af ídýfum og fleira góðgæti. Til gamans langar mig að skjóta því inn að á þessum tíma var fátt annað til gamla Buggles-ið sem var undanfari þess aragrúa af tegundum og óteljandi afbrigðum kartöflu og maísafurða, kræsilega distileruðum, maukuðum og uppsoðnum sem nútímamaðurinn kallar snakk.

Fljótlega fjölgaði í húsinu og þegar leið á kvöldið ríkti gleðin og glaumurinn með frekar lítt beisluðu og nánast alveg óheftu sniði. Ég sá t.d. á eftir strák og stelpu sem núna eru virðulegri en orð fá lýst og komin á sextugsaldurinn, inn á þröngt og illa lyktandi klósettið sem var á stærð við meðalstóran Ikeaskáp af ódýrari gerðinni. Þau komu svo þaðan út skömmu síðar með rjóð í kinnum og það breiðasta bros sem ég hef nokkru sinni séð.

Rétt er að geta þess að húsbóndinn á bænum hafði um árabil verið þekktur brennivínsberserkur og mönnum ekki með öllu grunlaust um að það hegðunarmynstur sem hann var hvað frægastur fyrir væri engan vegin fyrir bý, þrátt fyrir að frægðarsól hans á því sviði hefði dvínað lítillega allra síðustu misserin. Hann hafði nefnilega alltaf átt það til að láta hendur skipta ef orða var vant sem gerðist alloft, því hann var engan vegin þekktur fyrir að vera neitt sérlega orðheppinn eða mælskur. Þess vegna notaði hann hendurnar og hnefana kannski oftar en góðu hófi gegndi en höfuðið að sama skapi minna.

Það kom líklega fáum viðstöddum á óvart að þetta kvöld endaði einmitt þannig, og sérstaklega þó vegna þess hve ótæpilega var tekið við veitingunum þar sem húsráðandinn gekk á undan með "góðu" fordæmi. Þegar nokkuð var liðið á nóttina varð parinu sundurorða sem sem lá í loftinu að myndi gerast, og ágreiningsmálið var leyst með hæfilegum barsmíðum. Þegar ég kom að lá hún í gólfinu svolítið vönkuð vegna "tiltalsins" sem hún hafði fengið ásamt áfengisáhrifunum, en hann hafði skroppið inn í stofu til að fylla á glasið sem var orðið tómt rétt einu sinni enn. Ég ásamt öðrum gesti sem þarna var staddur togaði húsfreyjuna á fætur og kom henni út úr húsinu, og síðan í veg fyrir bíl sem ók hjá og fékk far fyrir okkur bæði niður í bæ. Ég reyndi að ná sambandi við hana en þar sem hún var frekar rænulítil, (reyndar var hún alveg pissfull) fékk ég litlar eða öllu heldur engar upplýsingar um hvað hafði gengið á eða hvað hún vildi gera í sínum málum. Ég fór því með hana heim til mín, kom henni fyrir uppi í rúmi, breiddi yfir hana og slökkti ljósið. (Það skal tekið skýrt fram að ég svaf ekki í sama herbergi.)

Morguninn eftir þegar ég vaknaði var hún horfin.

Síðar hinn sama dag frétti ég að mín væri ákaft leitað af nýorðnum eiginmanni hennar sem ætlaði að drepa mig og það strax. Því þrátt fyrir að þau hafi haldið því fram að ekkert sérstakt hafi staðið til umrætt kvöld, giftu þau hjú sig engu að síður með leynd þá um daginn, en ég hafði síðan orðið þess valdandi að brúðguminn hafði sofið einn á sjálfa brúðkaupsnóttina.

04.07.2007 11:15

Bónus regnboginn.



383. Nú þykir mér almættið sýna svo ekki verður um villst að það hefur velþóknun á Baugur group og þeirri starfsemi sem það stendur fyrir. Það fær ekki hver sem er híbýli sín skreytt á þennan hátt sér að kostnaðarlausu nema að vera í náðinni. Sennilega hefur ómakleg aðför stjórnvalda að fyrirtækinu og eigendum þess orðið til þess að vekja meðaumkun almættisins á því, svo ekki sé nú minnst á alla þá töpuðu milljarða sem "þetta glaðlega svín" hefur orðið af vegna aðgerða þeirra andlegu dverga og hugsjónageldinga sem eru ekkert annað en Nátttröll í hugsun og gerðum. Nær væri að vinir litla mannsins fengju Fálkaorðuna fyrir að hafa átt stærstan þátt í því að þeir verst settu í hinu íslenska samfélagi þar sem ofurlaunin geta orðið allt að 20 millur á mánuði, þurfa nú síður að leita matarleifa í sorptunnum nágrannans. En sem betur fer þá er útlit fyrir að réttlætið sigri að lokum, við getum haldið áfram að láta okkur líða vel í eigin skinni og Bónusfeðgar munu vonandivaka áfram yfir velferð þess hluta þjóðarinnar sem þarf á styrkri leiðsögn þeirra að halda. Og þá gildir einu hvort um er að ræða portkonur eða hreinar meyjar, uppþornaðar gamlar karllufsur með kulnað gjálífisblik í auga, eða siðbættir og sjálfskipaðir gæslumenn minnipokamannsins.

En spakmæli dagsins er: Aldrei kalla mann heimskan ... láttu hann frekar lána þér pening.
Og til vara: Berjist gegn verðbólgu! - Étið þá ríku

P.S. Til að fyrirbyggja misskilning, þá er "þetta glaðlega svín" tilvísun á logo fyrirtækisins og ekkert annað.

01.07.2007 22:47

Esjan - Þverfellshorn.

382. Þau Svandís og Bjarni kíktu við um kvöldmatarleytið á föstudaginn og það var eftir matinn sem ég spurði Bjarna því sem næst upp úr hvort við ættum ekki að skreppa upp á Esjuna á eftir að því að það væri svo gott veður.
?Jú, jú,? svaraði hann að bragði og deplaði ekki auga.
Ég reiknaði alveg fastlega með að hann væri að grínast, en komst að því að svo var ekki því skömmu síðar stóð hann upp og spurði hvort ég væri ekki að koma.
Og ég gat auðvitað ekkert annað gert en að standa upp og lýsa mig reiðubúinn.
Við komum við á Njálsgötunni en ókum síðan áleiðis upp í Mos, og á leiðinni sagði ég við Bjarna að hann skyldi gá að því að fyrst við færum svona seint af stað yrði hann varla kominn heim aftur fyrr en í fyrsta lagi um hálf tvö.
?Já, já,? sagði hann og glotti. Það var ekki fyrr en ég var kominn niður af fjallinu um nóttina að ég komst að því að hann hélt að nú væri það ég sem væri að grínast.

Við ókum inn á stæðið við Esjurætur og lögðum af stað upp eftir hlíðinni. Gangan gekk ágætlega en það er samt ekki mjög sniðugt að fara hratt af stað upp Esjuna því hún er eiginlega svolítið launbrött. Og ganga á Esjuna er mun lengri en á flest önnur fjöll sé horft til hæð yfir sjáfarmáli. Því við Esjuna byrjar ferðin við ströndina, en í flestum tilfellum eru menn komnir í margra tuga metra hæð þegar fjallganga hefst.

Á vefnum kjalarnes.is má lesa eftirfarandi.
Vinsælasta leiðin á Esju frá Mógilsá. Hún er auðrötuð enda mörkuð af sérstökum göngustíg á fjallinu. Efst eru nokkur klettaþrep sem auðvelt er að klífa en rétt er að fara varlega vegna hættu á grjóthruni frá fólki sem kann að vera fyrir ofan. Lofthræddum er bent á að ganga aðeins vestan við hornið og finna sér leið þar upp. Að vetrarlagi skal þó fara að öllu með gát en árið 1979 féll á þessum slóðum snjóflóð og létust 2 menn. Í vörðunni, sem er í 750 m hæð má finna gestabók sem komið hefur verið fyrir í stálhólki. Rétt er að skrá nafn sitt í bókina, afrekinu til sönnunar. Sagt er að fjallið sé ekki sigrað fyrr enn hinum eina sanna tindi er náð. Um klukkustundar gangur frá vörðunni að Hábungu Esju sem rís hæst 914 m. yfir sjáfarmáli.

Talsverð umferð var um fjallið og var oft staldrað við og spjallað því með ólíkindum var hvað maður þekkti marga sem áttu leið þarna um.




Bjarni stillir sér upp til myndatöku.



Ég geri það auðvitað líka en það má sjá að kvöldblíðan hreinlega breiðir úr sér um gjörvallt baklandið.



Og geislarnir tylla sér á fjallatoppana, en skafheiður himinninn myndar ljósblá leiktjöldin.



Við vorum komnir í 240 metra hæð þegar Bjarna fannst nóg komið. Ég held að honum hafi fundist ég hafa platað hann út í eitthvað sem hann vissi ekki hvað hann var. Alla vega sagðist hann ætla að setjast niður og hvíla sig, ég skyldi labba upp á þetta fjall en hann myndi bara bíða hérna á meðan. Tíkin Aría hafði komið með okkur og varð það úr að við héldum áfram en Bjarni ætlaði að vera í sólbaði og afslöppun á meðan við ?skryppum? þarna upp. Rétt að geta þess að lagt var af stað rétt fyrir tíu, en hún var orðin rúmlega hálf ellefu þegar leiðir skildu.



Svolítið ofar sá ég að það voru komin ský á himininn yfir Reykjanesinu.



Samkvæmt þessu leiðakorti eru 773 metrar upp á Þverfellshornið en ekki 750 eins og fram kemur á kjalarnes.is en ekki að það breyti svo sem neinu.



Rétt fyrir neðan tindinn hvarflaði að mér að skynsamlegt væri að snúa við því þokan var farin að þéttast nokkuð mikið þarna efst uppi.



En viðvarandi skynsemisskortur kom í veg fyrir svoleiðis nokkuð. Leiðin gerðist nú ögn erfiðari yfirferðar.



Aría fylgdi mér eftir en gaf sér þó ágætan tíma til að skoða næsta nágrenni í leiðinni. Henni þótti greinilega ekkert leiðinlegt að hafa það frelsi sem fylgdi fjallaferðum eins og þessari. Það var þó þegar að við komum að þrepum í berginu sem gamanið kárnaði. Hún lagði ekki í þau og ég þurfti að beita hana svolitlum fortölum til að fá að halda á henni upp á brúnina.



En upp forum við þó útsýnið væri ekki eins og ég vonaðist eftir.



Þó létti til í svolitla stund en skömmu síðar var allt komið í sama horf. Ég settist niður og sendi sms til nokkurra útvalinna.
?Kominn á tindinn,? og ég hugsaði til Bjarna sem ég vissi ekki betur en að biði neðarlega í hlíðum fjallsins. ?Honum er örugglega farið að hundleiðast.?



Þegar horft er til austurs er skýjafarið með öðrum hætti og nýr dagur greinilega að verða til.



En til vesturs var útsýnið orðið svona skýin voru orðin eins og ólgandi haf en engu var líkara en brimskaflarnir skyllu á fjallshlíðinni rétt eins og þeir kæmu æðandi upp í stórgrýtta fjöruna.
Þetta var reyndar þó nokkuð flott.



En það var komið fram yfir miðnætti og kominn tími á heimferð.



Þegar ég var hálfnaður niður fjallið kom ég niður úr skýjunum. Borgin var orðin ágætlega upplýst en það var mun dimmra yfir en þegar ég fór upp þó Borgarljósin komi ekkert sérlega vel út á myndinni.

Þegar ég var loksins kominn niður á stæði komst ég að því að Bjarni var löngu farinn heim að sofa en í stað hans biðu mín systurnar Svandís og Minný. Þessi ferð var að baki en takmarkinu var ekki náð. Ég verð að fara aftur þegar skyggni og birtuskilyrði henta betur til myndatöku.

En myndirnar hér að ofan eru aðeins brot af Esjumyndunum í myndaalbúmi.

29.06.2007 12:08

Pönnukökukötturinn.

381. Það voru bakaðar pönnukökur á dögunum og þegar slíkur atburður á sér stað verður að fara varlega með afurðirnar. Það hefur nefnilega gerst allt of oft að þær hafa lent í klóm og kjafti kattarins, sem lævís og lipur spyr engan hvort hann megi fá eins og eina eða svo. Pönnukökur í stafla á diski uppi á eldhúsborði meðan heimilisfólkið er að horfa á sjónvarpið eiga sér litla von. Svo er komið að hnuplaranum hálfu belgmeiri en hann er vanur að vera við iðju sína, og hann skilur ekkert í öllum þessum pirring í mannfólkinu.



Það er því farið að gæta þess vel og vandlega að geyma afraksturinn bak við luktar dyr, en kisi vissi svo sem allt um það hvar hvað var. Og hann ætlast beinlínis til þess að þeim hinum sömu dyrum verði upp lokið fyrir honum svo hann geti boðið sjálfum sér til veislu. Hann settist niður og mjálmaði ámátlega, og ekki verður sagt að hljóðin hafi verið sérlega fögur. Í fyrstu var hann og hans óskir um fullan aðgang að krásunum algerlega hundsaðar, en hann sat sem fastast og gaf sig hvergi en öðru hvoru gaf hann frá sér alveg skelfileg hljóð.



Og auðvitað var gefið eftir að lokun og orðið við bón kattarins og hann eins og annað fólk á bænum fékk sinn skerf. Það var að þessu sinni fylgst vel með borðsiðum pönnukökuætunar sem voru reyndar svolítið áfergjulegir á köflum.



Og svo aðra til, og enn aðra til?
Hann heitir Tómas sem er eflaust algengasta kattanafn í heimi. Stundum hefur hann verið uppnefndur ýmist Tómhaus eða Taumús, en honum virðist standa nákvæmlega á sama um þess konar eineltistilburði mannanna. En hann á sér óskamatseðlil sem stundum er hafður lítillega til hliðsjónar á hátíðis og tyllidögum. Ofarlega á því blaði eru nefndar til sögunar réttir eins og pönnukökur, kleinur, maís, skonsur, ólífur, jólakaka og tebollur.

22.06.2007 00:39

Vestfjarðarreisan og heimkoman.

380. Hér að neðan svo og í nokkrum pistlum sem eru ýmist enn í smíðum eða þá mjög svo fyrirsjáanlegir vegna áætlaðra ferða um vegleysur og óbyggðir, er viðfangsefnið fjallgöngur og enn meiri og fleiri fjallgöngur. Reyndar er ég svolítið smeykur um að síðan geti orðið aðeins of einsleit fyrir þá sem engan áhuga hafa á slíku. En þetta er nú einu sinni sá tími sem slík ferðalög eru hvað mest iðkuð svo að eftir fáeinar vikur fer að draga úr þessu sporti og þá umfjölluninni í leiðinni.

Föstudagurinn 15. júní.
Þann dag var haldið í vestfjarðaleiðangur. Fyrst var ekið í Hólminn, síðan siglt með Baldri yfir Breiðafjörð á Brjánslæk og þaðan ekið til Þingeyrar við Dýrafjörð. Áætlað var að stoppa við vestra fram á þriðjudag, en fara þó nægilega snemma til að ná göngunni með Gámaþjónustuhópnum upp á Lág-Esjuna þá um kvöldið. Ég fékk svolítið klikkaða hugmynd. Hvernig væri að setja sér það markmið að fara eins og einn leiðangur upp á eitthvert fjallið vestra á hverjum degi meðan staldrað er við. Verst hvað öll fjöllin í þessum landshluta eru ofboðslega há og reisuleg. Það gæti því reynst mér ofraun að þurfa að standa við einhverjar heitstrengingar svo ég hugsaði mér að best væri að hafa þetta bara svolítið óformlegt, og ég þyrfti því engum að segja neitt fyrr en það kæmi í ljós hver framvindan yrði. Ég gæti fengið einhverja strengjasveit í heimsókn sem léki skrokksymfóníuna bæði í dúr og moll, frjálst og óhindrað í kálfum, lærum og jafnvel víðar. En hugmyndin var samt freistandi og mér fannst ég þurfa að skoða hana vandlega og með jákvæðu hugarfari.

Ofarlega í Hrafnseyrarheiðinni Dýrafjarðarmegin er mjög kröpp beygja sem nefnd hefur verið Sigurvinsnef. Sagt er að nefið á Sigurvin sem var verkstjóri þeirra vegagerðarmanna sem lögðu þennan hluta vegarins, hafi verið notað sem fyrirmynd að beygjunni.

Það var farið að líða á kvöldið og klukkan eitthvað gengin í tíu þegar ákveðið var að fara svolítinn kvöldrúnt. Ég settist undir stýri og ók af stað og rúnturinn endaði uppi á hæsta hluta Hrafnseyrarheiðar sem er 552 m. há. Þar steig ég út úr bílnum og lét þess getið að það væru nægilega margir bílstjórar í bílnum til að allir farþegarnir kæmust til byggða akandi, og lagði að því sögðu af stað gangandi upp á Hvammsfjall en það heitir fjallið norðan heiðarinnar.

Á korti sem gefið er út af landmælingum Íslands, er fjallið sunnan Dýrafjarðar sem Sandafellið er nokkurs konar framhald af og tekur við af Hvammsfjalli nefnt Breklathorn. Engir Dýrfirðingar sem ég talaði við könnuðust við þetta nafn, svo ekki er hægt að útiloka að um prentvillu að ræða. Mér fyndist t.d. ekkert óeðlilegt miðað við aðstæður að fjallið héti Brekkuhorn. En síðar þegar ég fór upp á Sandafellið skoðaði ég útsýnisskífu þar sem kemur fram að fjallið heiti Þríhnúkafjall og finnst mér það trúlegast. Við Gulli (Gunnlaugur Óli Leósson) gengum upp á fjallið árið 2004, þaðan inn eftir Hvammsfjalli og enduðum inni á Hrafnseyrarheiði. Ferðin tók rúma fjóra tíma og þangað vorum við sóttir því við vorum alveg búnir á því, uppþornaðir og gátum varla talað því tungan var orðin mörgum númerum of stór. Það má því segja að við kæmum aldrei niður af fjallinu með "eðlilegum hætti." Það var því komið að því að klára þennan þriggja ára gamla göngutúr, fara upp á fjallið og ljúka honum formlega. Og til þess að allt væri eins og það á að vera varð auðvitað að fara öfuga leið miðað við þá sem áður hafði verið farin.

Gangan eftir Hvammsfjallinu gekk mjög vel. Þarna uppi eru víðáttumiklar sléttur að mestu vaxnar mosa og lyngi, en að öðru leyti frekar gróðurlitlar. Eftir því sem vestar dró varð sléttlendið minna og mjórra og sums staðar var hægt að horfa fram af brúninni niður klettana, fyrst þegar gengið var fyrir Brekkuhvilft en síðan ofan í dalina sitt hvoru megin. Þegar komið var að sjálfu Þríhnjúkafjallinu sem er 625 m. hátt, (ef það er rétt nafn) var fjallseggin orðin svo skörp að hægt var að setjast klofvega á hana og má þá segja að annar fóturinn hafi þá verið í Brekkudal en hinn í Hvammsdal.

Göngunni (u.þ.b. 6-7 km.) var haldið viðstöðulaust áfram og aldrei stansað því það var engri mæði að kasta, en það var samt engu líkara en fjallið lengdist við hvert skref. Að lokum kom að því að það fór að halla undan fæti og ég var innan skamms kominn niður fjallshrygginn, eftir Brekkuhálsinum og alla leið niður á veg innan við Sandafellið. Ferðin hafði tekið tvo tíma og korter, og líklega er þetta í fyrsta sinn sem ég hef gengið á fjöll þar sem aðeins er gengið á sléttlendi eða niður í móti.



Þríhnjúkafjall stendur rétt innan við Þingeyri.



Ein af efstu beygjunum á veginum upp á Hrafnseyrarheiði Dýrafjarðarmegin sem nefnd er Sigurvinsnef.



Leiðin upp á heiðina.



Héðan skal gengið.



Frjálst er í fjallasal.



Horft af Hvammsfjalli fram á Þríhnjúkafjall.



Og til baka, því Hvammsfjallið er nánast rennislétt að ofan.



Svo er kíkt niður eftir einu og einu gili.



Þegar komið er upp á það ég hélt vera síðasta hnjúkinn, sést að fjallið er enn lengra og það er engu líkara en næsti hjúkur skjóti hreinlega upp kollinum.



Mikið klettagil er til hægri handar þegar gengið er fram fjallið.



En sandarnir upp af fjörunni fyrir miðri mynd.



Beint framundan Þríhnjúkafjalli er Sandafellið



Og loksins var komið að endimörkum Þríhnjúkafjalls. Það er ekki mikið mál eins og sjá má að setjast klofvega á fjallseggina og hafa annan fótinn í Brekkudal en hinn ofan í Hvammslandið.

Laugardagurinn 16. júní.
Eftir síðbúinn morgunverð sem samanstóð af talsverðu magni af kaffi, tveimur ristuðum brauðsneiðum með osti og einni blóðþrýstingspillu, taldi ég mig færan í flestan sjó. Eftir svolítið spjall og vangaveltur sagðist ég vera farinn út á rúntinn og myndi hugsanlega reyna að finna einhvern hól. Ég nefndi Sandafellið sem líklegan áfangastað og þeirri hugmynd var ágætlega tekið. En um leið og út úr húsinu kom skipti ég snarlega um skoðun og þeysti inn Dýrafjörðinn, yfir brúna og út eftir hinum megin. Ég ók svolítinn spotta upp á Gemlufallsheiðina og fann mér hentugt stæði þar sem ég ók út af veginum og lagði bílnum. Svo var gengið rösklega af stað.

Síðasti bærinn sem ekið er hjá áður en beygt er upp á heiðina heitir Gemlufall, en þar ólst Leó móðurafi minn upp hjá Valgeir bróður sínum eftir að hann hafði misst báða foreldra sína á þriðja áratug síðustu aldar. Hann var fæddur á Höfðaströnd í Jökulfjörðum en flutti ungur með föður sínum til Hnífsdals. Hann var yngstur 12 af systkinum og flutti til Siglufjarðar laust upp úr 1930 þar sem hann kynntist ömmu minni í síldinni í þeim óviðjafnanlega ævintýrabæ. Fyrir ofan bæinn stendur svo fjallið Gemlufell og þangað upp vildi ég, því mig langaði að ná eins konar loftmynd af Þingeyri og auðvitað líka bænum Gemlufalli sem ég heyrði svo mikið talað um á mínu æskuheimili. Ég gekk upp í hlíðar fells sem stendur örlítið innar og vestar en Gemlufell en virðist ekki bera neitt nafn svo ég viti, og þaðan inn í svokallaða Gemlufallshvilft. Eftir það var á brattan að sækja og uppi undir brún fellsins var svolítið klettabelti sem þurfti að klífa. En þegar upp var komið blasti við hin myndarlegasta háslétta. Ég gekk eftir henni og fram á brúnina sem vissi að Dýrafirðinum.

Mér varð litið aftur fyrir mig og þar sá ég annað fjall all nokkru hærra, en það virtist samt ekki vera svo ýkja langt í burtu. Ég vissi að það hét Tafla, það stendur upp af Gemlufelli og er 680 metra hátt. Ég hugsaði með mér að ef ég færi ekki þar upp núna, gæti svo farið að tækifærið kæmi ekki aftur í þessu lífi. Ég lagði því af stað eftir sléttunni miklu ofan á Gemlufelli í áttina til Töflu. Gangan varð lengri og meira lýjandi en ég hafði reiknað með, því eftir því sem nær dró breyttist landið. Þar sem áður hafði verið lyng, mosi, geitaskófir og fjallagrös, varð nú minni og minni gróður eftir því sem ofar dró en þess meira af grjóti, leir og snjó. Það má því segja að ljóðlínurnar "urð og grjót, upp í mót" hafi átt einkar vel við, og þá sér í lagi síðasta spölinn. Ég gekk meðfram brún fjallsins og horfði ofan í Litladal, en það heitir dalurinn sem gengur í suðaustur frá Gemlufallsheiðinni norðan við Töflu. Bjargið var því sem næst lóðrétt og mig sundlaði svolítið. Ég tók eftir sprungum í leirbornum jarðveginum sem náðu nokkra tugi metra frá brúninni og færði mig ósjálfrátt fjær. Eftir að hæsta hluta fjallsins hafði verið náð, var auðvitað mikið myndað því frá þeim stað er mjög víðsýnt. En eftir svolitla stund var lagt af stað til baka því degi farið að halla. Ég fór sömu leið til baka og fann að ég var orðinn all nokkuð uppþornaður. Ástandið fór nú hratt versnandi og ég greikkaði sporið að sama skapi. Það var því ekki sérlega leiðinlegt þegar ég kom loksins að ánni sem rann meðfram veginum þar sem litli blái bíllinn minn beið mín. Sennilega hefur áin orðið eitthvað vatnsminni um stundarsakir neðan við staðinn þar sem ég beygði mig niður að vatnsborðinu.

Ég var orðinn svangur, göngutúrinn hafði tekið heila 5 klukkutíma og nú skyldi haldið úr útilegumannaslóðum til mannabyggða. Ég byrjaði á að stoppa í sjoppunni og keypti fjóra lítra af gosi, malti og pilsner sem mér fannst mig sárvanta þá stundina. Þegar ég kom svo á Vallargötu 2 til hennar Sollu, sá ég að það hafði verið plokkfiskur á borðum. Ég skar mér því tommuogkvartþykka rúgbrauðssneið, makaði á hana yfirgengilegu magni af íslensku smjöri, jós talsverðu magni af plokkara yfir herlegheitin, slæmdi síðan nokkrum ostsneiðum yfir, mokaði kúfullri matskeið af vel möluðum svörtum pipar yfir ostinn og stakk svo öllu saman inn í örbylgjuna. Á meðan "fóðrið" hitnaði, lauk ég við u.þ.b. einn og hálfan lítra af ýmis konar vökva, og á meðan ég nærði mig var bleytt í með ennþá meiri vökva. Og eins og mönnum er gjarnt við slíkar aðstæður er gengið skrefi lengra en skynsamlegt er. Skyndilega var belgurinn orðinn svo fullur að miðframstykkið varð allt framstæðara og allar hreyfingar urðu einhvern vegin mun hægari. Samt varð að klára málið því heita baðið var eftir.

"Ef þið heyrið ekkert skvamp í hálftíma samfleytt, bankið þá á hurðina og vekið mig" sagði ég um leið og ég lokaði á eftir mér.



Fjallið heitir Gemlufall á korti landmælinga, en Gemlufell á skífunni á Sandafellinu. Talsvert upp af fjallinu efst hægra megin er svo hnjúkurinn Tafla. Fyrir neðan brún Töflu er langur snjóskafl sem kemur við sögu hér að neðan.



Ég gekk af Gemlufallsheiðinni og átti í fyrstu í svolitlum erfiðleikum með að komast yfir ána, því ekki vildi ég leggja upp með blauta fætur og koma svo angandi að táfýlu til mannheima að loknu labbinu. Það hafðist að lokum með því að fara yfir á snjóbrú sem ég var þó smeykastur um að héldi ekki, en það gekk.



Það var á brattann að sækja og ég þurfti oft að setjast niður og blása mæðinni eins og stórhveli sem hefur verið allt of lengi í kafi.



En upp á brúnina komst ég Gemlufallsheiðarmegin og gekk fram á fjallið þar til ekki varð komist lengra.



Bærinn Gemlufall ásamt útihúsum og fl. lá við fætur mér eins og lítil kubbahús.



Ég settist fram á klettabrún og lét fæturna dingla fram af. Það fór einhver fiðringur um iljar og tær sem læddist upp eftir fótunum. Eða kannski var það "hríslingur," en það skemmtilega orð er ég nýbúinn að læra.



En það var ekki komið að ferðalokum því ég varð líka að komast upp á Töflu. Hún virtist í órafjarlægð séð frá brúninni, en myndin er tekin þegar ég er kominn stæsta hluta leiðarinnar að henni.



Það var gott útsýni út fjörðinn, til Mýrafells og langleiðina að Núpi.



Svona var gróðurfarið ofan á Gemlufellinu.



En svona var landslagið uppi á Töflu, eða líkast leikmynd í vísindaskáldsögu.



Skaflinn fyrir neðan Töflubrún. 



Og hærra varð ekki komist á þessum slóðum.



En það þurfti ekki að kvarta yfir útsýninu þótt nokkrar rigningaskúrir bleyttu aðeins í mér.



Ég fór sömu leið til baka.



Litla fjallið norðvestan við Gemlufellið heitir svo ég viti ekki neitt. ég spurðist fyrir, skoðaði skífuna á Sandafellinu, rýndi í kortin en allt kom fyrir ekki. Samt er það alveg nægilega flott til að standa undir einhverju nafni, - eða hvað?



Þegar ég kom niður að ánni var ég orðinn svo þyrstur og skrælnaður, að ég er viss um að það hefur minnkað verulega í henni neðan við staðinn þar sem ég laut niður að vatnsborðinu.



Og litli blái bíllinn beið mín þar sem ég hafði skilið við hann. Ég settist inn og ók af stað inn Dýrafjörðinn þreyttur, svangur og alveg ógurlega þyrstur.



Mér fannst fjörðurinn vera með lygnara móti svo ég staldraði við og smellti af einni mynd. Ég átti þó eftir að komast að því að hann gat orðið miklu flottari.



Fyrir neðan Bræðratungu er þetta bátaskýli. Það er gert úr gömlum olíutanki sem skorinn hefur verið í sundur upp úr og niðr´úr, og helmingarnir síðan soðnir saman enda við enda.



Ég kom við í sjoppunni og keypti fjóra lítra af gosi, malti og pilsner. Svo mikil vatnslosandi áhrif hafði gangan haft á mig að ég sem yfirleitt kaupi aldrei slík drykkjarföng, réð ekki við mig. Þetta var sennilega eitthvað svipað því að fara langsoltinn inn í Hagkaup. En þegar í hús var komið tóku þeir Tinni og Trölli á móti mér og vildu fara að leika sér, en ég var einhvern veginn ekki alveg nægilega vel upprifinn að þessu sinni.



En þegar nennti ekki að leika við þá og reyndist ekki vera sá félagi sem þeir vonuðust eftir, settust þeir niður við svalahurðina og horfðu dreymandi út í kvöldblíðuna.

Sunnudagurinn 17. júní.
Alveg eins og í gær samanstóð morgunverðurinn af talsverðu magni af kaffi, tveimur ristuðum brauðsneiðum með osti og einni blóðþrýstingspillu. En í dag er þjóðhátíðadagur Íslendinga. Jón "forseti" Sigurðsson fæddist þennan dag árið 1811 að Hrafnseyri við Arnarfjörð. Ég skrapp yfir heiðina og renndi í hlaðið á þessum merka stað og staldraði við um stund. Prúðbúið fólk var að koma frá messu og þarna var með allra líflegasta móti um að litast af tilefni dagsins. En hjá mér heitir fjall dagsins Grandahorn (646 m) og stendur á milli Brekkudals og Galtardals. Þangað upp er mjög gott að komast frá veginum sem liggur upp á Hrafnseyrarheiðina Dýrafjarðarmegin. Ég stoppaði því í bakaleiðinni, opnaði skottið, sótti þangað stafi og vindjakka og gekk af stað. Gangan var ekki erfið því lagt var upp frá stað sem er í talsverðri hæð, en hins vegar hafði mælst 16 stiga hiti fyrr um daginn og þeir voru ófáir svitadroparnir sem féllu ofan í svörðinn. Einum og hálfum tíma síðar stóð ég á brún fjallsins og horfði yfir sandana sem breiddu úr sér fyrir neðan mig. Það er einmitt þarna sem nokkrir "framtaksamir athafnamenn" vilja sjá olíuhreinsunarstöð rísa. Ég staldraði við stundarkorn og tók nokkrar myndir, en gekk síðan af stað til baka. Ég var klukkutíma niður að bíl og ók af stað niður eftir, en þegar ég kom að Sandafellinu beygði ég inn á afleggjarann, ók veginn á enda og endaði upp við skífuna. Ég varð að vita vissu mína varðandi nokkur örnefni sem voru ekki alveg á hreinu. Að því loknu lá leiðin niður á Þingeyri þar sem biðu mín kjötbollur í brúnni sósu með baunum, kartöflum og rauðkáli.



Svona lítur sjálfur sautjándajúníbærinn út á sjálfan 17. júní.



Og svona ef sjónarhornið er víkkað örlítið.



Þetta fjall heitir Grandahorn og þangað var förinni heitið þennan sólríka dag, en vinstra megin við það liggur vegurinn upp á Hrafnseyrarheiði. Myndin er tekin af toppi Sandafells.



Lagt var á fjallið frá veginum upp á heiði heldur ofarlega. Þetta reyndist ekki vera erfið ganga en þó sýndist mér kletturinn sem virtist sitja á fjallsegginni geta orðið einhver farartálmi.



Þegar nær dró sá ég fjárgötu liggja framhjá honum og fylgdi þeim og málið var leyst.



Horft til baka eftir fjallshryggnum.



Það sást vel upp á heiði og jafnvel ofan í Arnarfjörð.



Fjöll og dalir skiptust á í norðvestur.



Horft fram af fremstu brún á Grandahorni. Héðan sést niður á Sandana þar sem framtakssöm ofurmenni í fjárfestingar og iðnaðargeiranum vilja reisa mikla olíuhreinsunarstöð.



Og síðan var fetuð sama leið til baka. Þegar ég fór fram hjá áðurnefndum kletti tók ég þessa mynd. Hann virðist allur vera að frostspringa og flagna niður, nema þarna sé um að ræða einhverja náttúrulega framleiðslu á íslenskum náttúrusteini.



Þessi mynd er tekin niður skriðuna fyrir neðan klettinn, og það virðist enginn hafa hirt um að sækja afurðirnar í langan tíma.



Áður en komið var niður á veg, gekk ég fram á þessi undarlegu mannvirki á mjög svo undarlegum stað að mér fannst. Svo voru fleiri slík ofar í fjallinu. Skyldu þetta vera leifar af frumstæðri skíðalyftu frá því á miðri síðustu öld eða hvað?



Ég ók upp á Sandafellið og skoðaði skífuna vel og vandlega. Það er ótalmargt sem þarna stendur sem passar alls ekki við kort útgefin af Landmælingum Íslands. Ég hallast að því að treysta skífunni betur.



Um miðnættið var farið út að labba og þá sást að einhver var greinilega að gleyma sér, því skv. fánalögum verður að vera búið að draga íslenska fánann niður í síðasta lagi kl. 20. Þessi var við tjaldstæðið og Íþróttahúsið.



Hér er flaggað við skólann laust eftir miðnætti.



Víkingasvæðið er á vestanverðum Þingeyraroddanum.
En eftir þessa kvöldgöngu var kominn háttatími.

Mánudagurinn 18. júní.
Sólin vakti mig með því að smeygja nokkrum geislum sínum gegn um litla rifu á gluggatjöldunum. Klukkan var ekki nema fimm og ég gat ekki með nokkru móti áttað mig á að ég ætti nokkurt erindi á fætur svo snemma. Ég reyndi að ná aðeins lengri tíma með takmarkaðri meðvitund, en gafst upp um sjöleytið og fór á fætur og settist við ferðatölvuna hennar Minnýjar og lauk "skýrslu" gærdagsins. Morgunmaturinn samanstóð að kaffi, grófri brauðsneið frá Bakaranum á Ísafirði með paprikuosti, blóðrauðum íslenskum tómat, þykkmjólk og einni blóðþrýstingspillu. Solla gægðist fljótlega fram svolítið "nývöknuð" í framan, en var samt ekki lengi að aðlagast nýjum degi. Hún var á leið í vinnu í frystihúsinu, en settist hjá mér við eldhúsborðið og sagði mér nýjustu "fiskisögurnar" um leið og hún fékk sér svolitla næringu.
"
Fyrir nokkru var sojapróteini ásamt pipar og salti blandað út i marninginn og hann frystur þannig í blokkum. Það var hundleiðinleg vinna og ekkert nema bölvað moj. En núna er marningurinn frystur en síðan skafinn niður með sérstakri vél. Honum er blandað saman við pækil, og úr öllu saman verður til nokkurs konar súpa sem er síðan sprautað í flökin með sértækri nálastunguaðferð."
"Ja hérna, þetta var ekki svona þegar ég vann í fiskinum fyrir hartnær 30 árum" sagði ég forviða. Maður hefur greinilega ekki fylgst með framþróun í fiskiðnaði.
"Jú, jú, og bráðum fara þeir eflaust að framleiða flök með blýkanti til að gera þau þyngri," sagði Solla og stóð upp.
Klukkan var alveg að verða átta en frystihúsið sem er eitt það fullkomnasta á landinu er aðeins í fárra metra fjarlægð frá heimili hennar.
Ég sat einn eftir og velti fyrir mér hvað ég ætti að gera af mér í dag. Sólin hellti geislum sínum yfir landið, himininn var skafheiður og hitamælirinn utan á húsinu sýndi mér heil 18 stig.

Ég settist upp í bílinn og renndi út úr þorpinu án þess að mér væri ljóst hver áfangastaðurinn ætti að vera. Ég ók fyrst upp á Sandafellið, en síðan yfir Gemlufallsheiðina og ofan í Önundarfjörðinn. Þegar ég horfði upp eftir Breiðadalnum og inn í myrkt augað í miðju fjallinu. Opið á Vestfjarðagöngunum horfði yfir allt og alla sem þarna áttu leið um í þögulli morgunkyrrðinni, Eitthvað gerði að að verkum að ég beygði inn á Flateyrarafleggjarann og eftir að hafa farið nokkra hringi í þorpinu gerði ég mér ferð upp fyrir snjóflóðavarnargarðinn utanverðan, tók nokkrar myndir yfir eyrina og virti fyrir mér hið rismikla fjall Þorfinn sem gnæfir yfir firðinum. Þangað upp þarf ég að fara einhvern tíma en ekki núna því ég fann að þetta var ekki fjall dagsins í dag, þetta var fjall einhvers annars dags. Ég renndi því til baka og tók vinstri beygju þegar Flateyrarafleggjarinn náði ekki lengra, og eftir skamma stund var ég horfinn inn í augað í fjallinu.

Það er eitthvað við Ísafjarðarkaupstað sem heillar mig. Líklegast er að gamlar þokukenndar minningar frá vetrinum 1973-74 þegar ég vann í Norðurtanganum, séu að banka létt ofan í kollinn á mér. Verst er að það verður sífellt lágskýjaðra í toppstykkinu og þessi skemmtilegi tími verður sífellt daufari eftir því sem árin líða.
En niðri á eyrinni fékk ég þá hugljómun sem ég beið eftir þennan daginn. Ég leit upp og sá fjallið Kubba gnæfa tignarlega yfir Skutulsfjörðinn. En til að einhverjir skilji mig betur, þá er staðsetning fjallsins og afstaða til nánasta umhverfis með svolítið keimlíku sniði og Hólshyrnunnar á Siglufirði. Ég ók gömlu leiðina áleiðis upp á Breiðadalsheiðina og var kominn góðan hluta leiðarinnar upp á fjallstopp, þegar ég ók inn á stæði við grjótnámu. Þarna skyldi gangan hefjast og ég fór að leita leiða til að komast þurrum fótum yfir ána sem rennur þarna rétt við vegkantinn. Rétt fyrir neðan námuna hafði stórgrýti verið rutt út í árfarveginn svo hægt var að stikla á því yfir hann. En það þurfti að gæta sín vel og kunna fótum sínum forráð, því margir steinarnir sátu illa og þurftu ekki mikið til að velta um eða hreyfast þegar stigið var á þá. Ég hélt upp í hlíðina sem reyndist brattari en ég hafði haldið. Ég þurfti að fara því sem næst beint upp til að byrja með til að komast upp fyrir klettabelti sem voru utar. Þarna þurfti að ganga talsverðar skriður sem voru bæði brattar og mjög lausar, svo segja má að ég hafi orsakað svolítið jarðrask sem vonandi flokkast þó ekki umhverfisspjöll. Eftir klukkutíma göngu hafði ég náð upp að vörðu sem mér sýndist vera hæsti hluti fjallsins. En þaðan sást ekki eins vel til kaupstaðarins og ég hafði vonað, því fjallið nær nokkuð langt til norðurs og lækkar þegar framar dregur. Ég varð auðvitað að ganga alveg fram á brúnina og sjá allt sem hægt var að sjá, því annars var varla hægt að segja að ferðin næði tilgangi sínum að fullu. Ég gekk aftur af stað, fyrst eftir sléttum kolli efri og innri hlutans og þarna var landslagið líkt því sem maður ímyndar sér að sé á fjarlægum reikistjörnum. Urð og meiri urð, steinarnir svolítið undarlegir í laginu og mosaþemburnar eins og kítti sem lokuðu öllum glufum. Þegar ég var kominn ofan á neðri hlutann var það lyngið, fjallagrösin, geitaskófir og einstaka puntstrá sem var sá gróður sem var ríkjandi. Allt í einu náði fjallið ekki lengra og ég stóð á klettabrúninni og horfði beint ofan á Holtahverfið sem er nánast undir fjallinu. Mér brá svolítið því þetta gerðist eitthvað svo snöggt og það virtist vera svo hátt niður, en þegar betur er að gáð er fjallið ekki nema 346 metra hátt á þessum stað sem er minna en ég hefði haldið. Eftir að hafa staldrað við um stund og horft nægju mína í allar áttir, gekk ég af stað sömu leið til baka. Það var skafheiður himinn, logn og geislar sólarinnar virtust vera heitari en nokkru sinni fyrr. Svitinn lak niður í augun og hárið var rennandi blautt eins og ég væri nýkominn úr sturtu.



Horft inn Dýrafjörðinn af Sandafellinu.



Svona lítur Sandafellið út að ofan sauðaustanvert. - Pínulítið speisað.



Þegar ég kom inn fyrir Hvamm varð ekki hjá komist að staldra við og festa fegurð augnabliksins í kísilflöguna.



Fyrir neðan Gemlufell er svolítil bryggja. Fyrir ofan hana liggja þessar öldruðu fleytur á hvolfi í grasinu. Fyrir miðri mynd gnæfir Kaldbakur yfir önnur fjöll, en hann er hæsta fjall á vestfjörðum 998 m. Fyrir einhverjum árum fór hópur manna upp á fjallið og hlóð tveggja metra háa vörðu á toppi þess svo að með hinni manngerðu viðbót er fjallið 1000 metra hátt. Fjallið er ókleift þeim megin sem snýr að Dýrafirði eins og sjá má, en hægt er að komast upp af Álftamýrarheiði sem er fjallvegur sem liggur upp úr Kirkjubólsdal og yfir í Arnarfjörðinn. Mig langaði mikið að leggja leið mína þarna upp en loforð var tekið af mér að gera það alla vega ekki einn.
Ég lofaði því hátíðlega.



Ég skrapp inn á Flateyri, en hinum megin Önundarfjarðarins gengt þorpinu rís fjallið Þorfinnur upp úr sjónum og gnæfir yfir umhverfið. Ég velti fyrir mér hvort það yrði fjall dagsins, en kaus að hugsa mig aðeins betur um.



Þessar gömlu minjar gleðja augað alltaf jafn mikið. Ég hélt frá Flateyri og yfir til Skutulsfjarðar.



Það var alveg glampandi sól og sannkallað bongóblíðuveður. Ég byrjaði á að rúnta svolítið um Ísafjarðarkaupstað og endaði niður á höfn.  Togarinn sem myndin er af heitir greinilega Gunnbjörn IS 307. Fyrst í stað fannst mér ekkert athugavert við það.



En fyrir framan hann var þessi togari bundinn. Samkvæmt merkingum var hann líka Gunnbjörn frá Bolungarvík, en var skráður IS 302.



Ég varð að eignast mynd af Sundstræti 29, en þar voru haldin nokkur verulega villt partý veturinn 1973-74 meðan tveir ónefndir siglfirðingar bjuggu þar. En við förum ekki nánar út í það á þessum vettvangi.



En þegar ég kom fyrst til Ísafjarðar var mér komið fyrir á hernum. Herkastalinn hefur nokkuð látið á sjá og ég sá alls engin merki um Benna og Mánakaffi hinum megin við götuna.



Minn gamli vinnustaður er eins og minnisvarði um liðna tíð. Það virðist vera unnið að því að breyta húsnæðinu svo það geti tekið að sér nýtt hlutverk á nýjum tímum.



Ég fékk mér bleikan ís með lúxusdýfu í Hamraborg sem var á sínum tíma og er ennþá aðalsjoppan í bænum. En það hafa orðið miklar breytingar á henni frá þeim tíma sem maður hljóp þangað úr vinnu í kaffi eða matarhléi. Ég hitti Gísla, annan eigandann sem ég kannast ágætlega við og við fórum saman yfir breytingaferlið sl. 33 ár.



Ég heimsótti Guðbjart í nýju búðina sína sem heitir Bergkristall. Guðbjartur Jónsson rak lengi vel veitingastaðinn Vagninn á Flateyri, og varð frægur fyrir ambögur sínar og tilsvör sem mörg hver urðu landsfleyg.
"Maður á undan sinni framtíð."



En þar sem ég var á ferðinni um Ísafjarðarkaupstað varð mér allt í einu litið upp og fjall dagsins blasti við. Það heitir Kubbi og stendur fyrir botni Skutulsfjarðar, en það heitir fjörðurinn sem Ísafjarðarkaupstaður stendur við. Uppi á fjallinu má lesa að það sé 346 m. hátt, en á vestfjarðavefnum er það sagt 376 metra hátt. En þá er verið að mæla fremsta hlutann sem er mun lægri en sá hærri sem innar stendur.



Ég ók áleiðis upp á Breiðadalsheiði og lagði hjá grjótnámu sem þar er. Héðan ætti að vera gott að skáa fjallið upp fyrir klettabeltið og síðan upp á toppinn.



Það þurfti oft að stoppa og blása mæðinni því hlíðin þarna er mjög brött og hana varð að ganga næstum því beint upp til að komast upp fyrir klettana. En þarna er ég kominn upp á hæsta hlutann (giska á 500 m.) og veðrið var alveg ólýsanlega gott. Það var hvergi ský á lofti, stafalogn og sólin hellti brennheitum geislum sínum yfir löðursveittan göngumanninn.



Og þar sem enginn var þarna til að taka mynd af mér með þennan glæsilega bakgrunn, varð ég að gera það sjálfur.



Ekkert nema urð og mosi. Þannig er umhorfs uppi á efri hlutanum.



Þar sem ég stóð og virti fyrir mér útsýnið varð ég allt í einu var við einhverja hreyfingu í ekki meira en 10 metra fjarlægð. Ég leit upp og við horfðumst stutta stund í augu, ég og einn af íbúum fjallsins. Líklega vorum við báðir jafn hissa, en hann var fljótari að hugsa og tók á sprett, en ég þreifaði í ofboði eftir myndavélinni. Hann stoppaði og leit við og þá náði ég þessu skoti áður en hann hvarf alveg á braut. Hann var enn svolítið sneplóttur ofan í bakið, því hann var greinilega ekki alveg genginn úr vetrarhárunum.



Eftir langa göngu frá toppnum var eins og fjallið væri allt í einu búið og ég snarstoppaði við brúnina. Útsýnið var heldur ekkert slor í þessu veðri.
 


Holtahverfið kúrir undir fjallinu.



Það er ekki alveg laust við að örlaði á svolítilli lofthræðslu. Fyrsta flugferðin vestur rifjaðist upp og ég man vel hvað ég sat stífur af hræðslu við gluggann þegar flugvélin snéri við inni í firðinum og ég sá fjöllin nálgast á ógnarhraða.



Ísafjarðarkaupstaður við Skutulsfjörð á góðum degi. Er þetta ekki rosalega flott.



Horft frá brúninni upp að efsta hluta fjallsins.



En nú var kominn tími til að halda til baka.



Ég leitaði að stað þar sem ég kæmist þurrum fótum yfir ána. Hér hafði stórgrýti verið rutt út í árfarveginn svo hægt var að "stikla á stóru" í orðsins fyllstu merkingu.

Þriðjudagurinn 19 júní.
Morgunverðurinn var að þessu sinni marsípankaka, (þori varla að segja frá því) kaffi og blóðþrýstingspilla. Fljótlega var lagt af stað suður yfir vestfjarðakjálkaheiðarnar, því það var einlægur ásetningur minn að ná í skottið á Gámaþjónustuhópnum sem hugðist rölta sér upp á svolítinn Esjupart þá um kvöldið. Á leiðinni yfir Breiðafjörðinn með Baldri pantaði ég mér hamborgara með mikilli sósu öllu því jukki sem hugsast gat. Það var haft á orði við mig að "fóðrið" væri í talsverðu ósamræmi við hegðunina undanfarna daga. Ég spurði á móti hvort málshefjandi hefði ekki heyrt auglýsingarnar undanfarið um að kolefnisjafna þyrfti bíla, ferðalög og ég veit ekki hvað.
"Jú, jú," var svarið.
"Ég er að kalróríujafna" svaraði ég, og þar með var þeirri umræðu lokið.
Það gekk allt saman eftir og mér tókst með naumindum að ná hópnum áður en hann lagði af stað upp frá eftirlitsstæðinu rétt sunnan Hvalfjarðaganga. Margar og mismunandi leiðir liggja upp eftir Esjuhlíðum, og mörg eru kennileitin, markmiðin og örnefnin. Það er ekki eins og Esjan sé bara eitt fjall sem rís upp af jafnsléttunni og heiti bara Esja. Nei, málið er miklu mun flóknara en svo. Þetta er því sem næst nyrsti hluti fjallgarðsins og hugmyndin var að ganga upp á það sem kallað er Smáþúfur. Ekki var veðrið að leika við okkur í þetta skiptið frekar en stundum áður, því nokkuð þétt þokuslæða lá á fjallinu og huldi að mestu fyrir ofan miðjar hlíðar. En ekki þýddi að láta það á sig fá og af stað var haldið. Ekki er hægt að eyða mörgum "dálksentímetrum" á umfjöllun um útsýnið, því það var að langmestu leyti ekki neitt. En þetta er góður hópur og skemmtilegur, gangan var hressandi og verður að teljast heilsusamleg, auk þess sem nú er hægt að benda upp á fjallið þegar ekið er um vesturlandsveginn og segja: Þarna fór ég. En reyndar rofaði svolítið til annað slagið eins og sést á meðfylgjandi myndum. Látum hér með þessari fimm fjalla og fimm daga umfjöllun lokið og ljúkum við að skoða myndirnar hér að neðan.



Gámaþjónustuhópurinn sem beið við Esjurætur var heldur fjölmennari en oft áður.



Lagt var upp skammt sunnan við Hvalfjarðargöngin og ferðinni heitið upp á svokallaðar Smáþúfur.



Kristjana sagði okkur frá stað sem nefnist Kjötfönn og er skammt frá, en þar áttu útilegumenn að hafa grafið kjöt í snjó til geymslu.



Hærra, hærra.



Við vorum farin að nálgast þokuna sem grúfði yfir fjallinu ofanverðu.



Áfram er gengið.



Fyrirsæta dagsins.



Búnaðurinn er nútímalegur og hentugur, en hvaða vökva skyldi hann hafa að geyma. 



Horft yfir þann hluta Kjalarness og nánasta umhverfis sem þokan hylur ekki.



Þetta er auðvitað mjög þokukennd mynd.



Ég fékk sms frá Ásgeir pípara rétt um það bil sem ég tók þessa mynd uppi á annarri smáþúfunni, en hann hefur verið mér innan handar við lagnavinnu í íbúð sem ég er að gera upp. Eitthvað hef ég verið annars hugar þegar ég reyndi að fá alla til að horfa í myndavélina en Snorri (í bláu úlpunni) snéri hnakkanum í mig.
"Ásgeir, lofaðu mér að sjá framan í þig" hrópaði ég en enginn sinnti kalli mínu.
"Ásgeir, snúðu hnakkanum til suðurs" kallaði ég aftur.
Þá leit allur hópurinn samtímis upp, horfði á mig undarlegu og fjarrænu augnaráði og ég fann að eitthvað var að.
Eftir svolitla þögn hóf einhver upp raust sína og spurði.
"Hver er Ásgeir?"



Ein mynd bara af stelpunum í tilefni þess að það er 19. júní.



Það er áð í mosavaxinni lautu og tekið upp nesti.



Það var líka keppt í óvenjulegri íþróttagrein, - bananahýðiskasti.



Svo er haldið til baka.



Snorri (Ásgeir) kíkir fram af.
"Það vex Lúpína hérna utan á brúninni" sagði einhver.



En nú var þessum þriggja tíma labbitúr í þann veginn að ljúka og ég hafði komist að því að það var hægt að taka myndir í þoku.

Eftir stendur: Fimm fjöll á fimm dögum og 228 myndir. Einnig 6-7 tíma vinna við að raða saman myndum og setja saman texa fyrir aðeins eina bloggfærslu. Eins gott að ég fái einhver "komment" á pistilinn.
Sérstakar þakkir fær Minný fyrir að lána ferðatölvuna sína meðan hún er í Búlgaríu. Hún nýttist einkar vel fyrir vestan við að skrá niður minnispunkta í lok hvers dags. Einnig allir þeir sem nenna að lesa þessa langloku og alveg sér í lagi og sérstaklega þeir sem setja inn nokkur orð undir "...álit, skrifaðu líka." Svo er rétt að benda á að í gestabókinni eru enn margar óskrifaðar síður.

En það má sjá miklu, miklu fleiri myndir frá þessum göngutúrum ef farið er inn á Myndaalbúm og í möppur merktar Vestfjarðarreisan og Esjan.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 176
Gestir í dag: 42
Flettingar í gær: 364
Gestir í gær: 57
Samtals flettingar: 319435
Samtals gestir: 35180
Tölur uppfærðar: 29.4.2024 10:40:15
clockhere

Tenglar

Eldra efni