17.03.2014 09:57

Lítill flutningabíll með mikla flutningsgetu



917. Það er stundum haft á orði um ýmsar tegundir smábíla að þeir séu stærri að innan en utan. Auðvitað er þetta oftar en ekki sagt í léttu grínu og þá væntanlega helst af eigendum þeirra sem tala þá upp veg þeirra, getu og gagnsemi og gera heldur meira úr öllu saman en útlitið bendir til. Sennilega bera þessar línur vott um að sá sem þetta ritar er engin undantekning á reglunni því ég er bæði ánægður og upp með mér af mínum smáa en rýmisgóða, burðarmikla (þó ekki íburðar), ólseiga og notadrjúga "flutningabíl".

Þannig bar til að ég keypti eitt eurobretti af varningi af innflytjanda sem hafði ákveðið að leggja niður þann hluta starfseminar sem tiltekin vörulína tilheyrði. Haldin var heilmikil útsala þar sem ég mætti og verslaði í nokkra meðalstóra pappakassa. Þegar ég hafði þakkað fyrir mig og gekk til dyra, kallaði eigandinn á eftir mér.

"Viltu ekki bara taka andsk. brettið á fimmtíu þúsund kall".

Ég snarsnérist þá á hæli og áður en ég vissi af hafði ég svarað hátt og skýrt með afgerandi "Jú takki".

En þar sem ég var þá á leið til vinnu varð að samkomulagi að ég kæmi í hádeginu daginn eftir og gengi frá mínum málum.

Ég mætti nokkuð stundvíslega og hitti þá fyrir meðeiganda þess sem ég hafði átt viðskiptin við deginum áður og sá var greinilega vel upplýstur um málin.

"Komstu ekki með einhvern bíl með þér" spurði hann".

"Ég er á bíl" svaraði ég og bennti á Micruna.

"Ég meina sendibíl undir dótið" sagði hann og brosti til mín og það var eins og það örlaði aðeins fyrir vorkunsemi bæði í röddinni og brosinu. Maðurinn hafði greinilega verulegar efasemdir um þann hæfileika sem liggur að vísu nokkuð misvel fyrir mönnum og er stundum kölluð "rýmisgreind".

"Heldurðu að þetta fari ekki nokkuð langt í þennan" spurði ég á móti en maðurinn hló.

"Ég er líka á bíl og gæti kannski tekið eitthvað af þessu og skotist með þér".

Þetta var þá vinalegur karl og vel meinandi, en ég hafði ekki fleiri orð um pláss eða plássleysi og byrjaði að bera dótið út og raða í bílinn. Hann fór þá að bera með mér og fylgdist áhugasamur með hvernig raðaðist meðan lækkaði á brettinu en þéttist í bílnum. Þannig fór að lokum að ég hélt á síðasta kassanum í fanginu sem var í stærra lagi, en hann komst alls ekki inn. Það mál leystist þó með því að opna hann og raða innihaldinu sem voru margir litlir hvítir kassar í allar þær glufur sem fyrirfundust. Að lokum átti ég aðeins eftir að koma sjálfum mér inn sem hafðist með góðum vilja og nokkurri lagni, því ég hafði þurft að færa bílstjórasætið svo mikið fram að það lá við að ennið legðist á framrúðuna. Ég fann einnig út að ég gat alls ekki sett í bakkgír vegna plássleysis, en það kom reyndar ekki að sök að þessu sinni. Ég ók af stað og maðurinn sem hafði afgreitt mig og verið svo hjálplegur við lestunina, stóð eftir og horfði hugsandi á eftir bílnum og ökumanni hans fjarlægjast og hverfa síðan fyrir næsta horn.



15.03.2014 02:46

Umhleypingar

916. Vér Frónbúar munum eflaust verða seint þreyttir á að spá í veðrið, velta fyrir okkur hvenær það breytist næst, hvernig og hvað geti hugsanlega verið handan við hornið í þeim málaflokki. Við erum ýmsu vön og stundum höfum við leyft okkur að henda gaman að því að einn og sami dagurinn geti vel átt það til að sýna okkur sýnishorn að flestum þeim veðurafbrigðum sem á annað borð eiga það til að sýna sig hérna á skerinu.

Nokkuð sem gerist ekki alls staðar í henni veröld.

Í vikunni sem nú er senn liðin fengum við sem búum hérna á suðvesturhorninu svolítinn skammt af umhleypingum.




Dagur 1.

Síðustu dagana hafði tekið upp snjóinn sem síðast kom og það var orðið því næst sem autt.

Allt í einu en þó ekki aðlveg að óvörum fór að snjóa og þær voru svo sannarlega ekki af minni gerðinni flyksurnar sem svifu til jarðar og þöktu hana hvítu teppi á skammri stundu.

Að kvöldi hafði teppið þykknað það mikið að mun réttara orðalag yfir úrkomu dagsins var jafnfallinn snjór upp á einhverja tilgreinanlega þykkt samkvæmt viðeigandi mælieiningum.




Dagur 2.

Snjórinn síðan í gær var á hröðu undanhaldi, enda rigndi eins og enginn væri morgundagurinn. (Þó hann væri auðvitað tiltölulega skammt undan, - alla vega ef horft er til jarðsögulegra tímaviðmiðana).

Ég kom við í Bónus á Hrauninu í Hafnarfirði á leiðinni heim. Öðru megin við húsið eða þeim megin sem ég er vanur að leggja, var ekki mikið um nýtileg bílastæði eins og á stóð. Niðurfall hafði greinilega stíflast eða það hafði ekki undan flaumnum og svæðið ekki skótækt. Það mæta nebblega sárafáir í búðina á vöðlum. Allir voru því hinum megin og þar var algjört bílakraðak.




Dagur 3.

Það var næstum því eins og sumarið væri komið. Engin rigning lengur og allir búnir að gleyma að það hefði snjóað nokkuð að ráði þennan veturinn. Aðeins vantaði þó enn upp á græna, rauða, gula og bleika litinn í gróðrinum.

Þetta er nú meiri tíðin sögðu menn hver við annan og nutu veðurblíðunnar á stutterma.

07.03.2014 09:34

Borgarafundur um áfengismál




915. Margt var svo mikið öðruvísi hér í denn að það þarf að setja sig í sérstakar stellingar til að meðtaka það sem fyrir augu ber þegar grúskað er í gömlum blöðum. Ég rakst á greinina hér að neðan í Siglfirska kratablaðinu NEISTA frá 29 nóv. 1945.


Almennur borgarafundur um áfengismál var haldinn s.l. sunnudag. Að fundi þessum stóðu helztu félagssamtök hér í bæ. Ræður fluttu: Frú Þóra Jónsdóttir, Guðmundur Hannesson bæjarfógeti, frú Sigurbjörg Hólm, Einar Albertsson verkamaður, Hlöðver Sigurðsson skólastjóri og Jóhann Þorvaldsson kennari. Ennfremur: Jón Jóhannesson, Jóhann G. Möller og Gunnar Jóhannsson. Fundarstjóri var Pétur Björnsson og ritari Nils Ísaksson.

Eftirfarandi ályktanir voru gerðar á fundinum:

"Almennur Borgarafundur haldinn á Siglufirði 25. nóv. 1945, skorar á hin ýmsu félagssamtök í bænum að hefja samstarf um að vinna gegn áfengisneyzlu, meðal annars á eftirfarandi hátt:

1. Að sjá um, að áfengi sé eigi um hönd haft á skemmtunum, sem félögin standa að, eða ölvuðum mönnum leyfður inngangur.

2. Að félögin vinni að því, að meðlimir þeirra hafi ekki áfengi um hönd á opinberum skemmtistöðum.

3. Að félögin, hvert í sínu lagi, ræði áfengismálin á félagsfundum og hvetji meðlimi sína til að vinna gegn áfengisneyzlu. Jafnframt hafi félögin samstarf um þessi mál.

"Almennur borgarafundur haldinn á Siglufirði 25. nóv. 1945 lítur svo á, að brýna nauðsyn beri til að í öllum skólum landsins séu haldnir fræðandi og hvetjandi áminningarræður um nauðsyn bindindis og reglusemi nemenda."

"Almennur borgarafundur haldinn á Siglufirði 25. nóv. 1945 lítur svo á, að áfengisneyzla þjóðarinnar sé nú svo mikil, að stórkostleg menningar og fjárhagsleg hætta stafi af.

Fundurinn telur það algjörlega óhæft að mikill hluti tekna ríkisins sé ágóði af áfengissölu, og

skorar því á alþingi og ríkisstjórn að vinna að því í náinni framtíð, að íslenzka ríkið byggi ekki afkomu sína á slíkum tekjum."

"Almennur borgarafundur haldinn á Siglufirði 25. nóv. 1945, skorar á ríkisstjórnina að láta koma til framkvæmda lög um héraðabönn. Ennfremur lýsir fundurinn því yfir, að hann telur óhjákvæmilega nauðsyn að áfengisútsölu ríkisins á Siglufirði sé lokað yfir síldveiðitímann.

 

Svo mörg voru þau orð.

 

En mér þykir rétt að láta kauptaxtann frá sama ári og fundurinn var haldinn fylgja þessari upprifjun, svona rétt til að minna á að full ástæða var að hafa ráðdeild og sparsemi að leiðarljósi þegar hugað var að áfengiskaupum.



02.03.2014 03:37

Endurnar á Tjörninni og gestir þeirra

914. Um helgar á ég oft leið fram hjá Tjörninni í Reykjavík, ýmist að morgni eða kvöldi og freistast þá stundum til að draga myndavélina upp úr brjóstvasanum og smella nokkrum hnitmiðuðum af svæðinu, að þessu sinni undan sól.

-

Kyrrlátt og yfirvegað andrúmsloftið, hrifning viðstaddra (sem fæstir tala reyndar íslensku) á þessari friðsælu vin í miðri borginni, litir himinsins að kvöldi eða geislar sólarinnar sem gægjast yfir sjóndeildarhringinn að morgni, gleði mannfólksins sem blandast gleði fiðurfénaðarins sem þiggur sínar brauðgjafir með kvakandi þökkum, skautasvellið nánast við hliðina á heita affallinu í norðausturhorninu sem heldur vökinni við Iðnó ávallt opinni.

-

Allt þetta og miklu, miklu fleira skapar stemmingu sem fyrirfinnst hvergi annars staðar, a.m.k. ekki hérlendis og hefur mikið aðdráttarafl á þá sem vilja kynna sér svolítið sýnishorn af því hvernig Paradísarvist gæti verið.

-

Hér að neðan eru nokkar myndir af fiðruðum íbúum Tjarnarinnar og ófiðruðum gestum þeirra plús ein sem ég læt fljóta með og er af "seinni" turninum við Smáralind, en framkvæmdir við byggingu hans eru nú hafnar að nýju síðan staldrað var við nokkru eftir hrun..

















26.02.2014 08:46

Fyrir 100 árum

913. Árið 1914 eða fyrir réttum 100 árum mátti lesa eftirfarandi í blaðinu Ísafold undir fyrirsögninni "Pistlar úr sveit".


 


Um þetta leyti eru landsmenn byrjaðir að brjóta sér leið úr klóm bændasamfélagsins í átt til nútímans. Fólk í sveitum landsins að losna úr þess tíma þrælahaldi, þéttbýli að myndast víðar en í Reykjavík og sumir (meira að segja þingmenn) orðuðu það í fullri alvöru að réttast væri að banna síldveiðar til þess að bændum héldist á hjúum sínum.

22.02.2014 04:10

Amen eftir efninu


912. Skyldi það vera prestur sem á þessa skruggukerru? Eða er það kannski einhver víxlubiskupinn, biskupsritari eða jafnvel biskupinn sjálf(ur).

En hvernig sem eignarhaldinu er háttað, þá er bíllinn drulluflottur og númerið ekki síður.

Svo vildi ég láta þess getið svona rétt til að afsaka sjálfan mig og sáralitla "framlegð" mína hérna á síðunni undanfarið, að þær fáu stundir sem ég hef haft aflögu undanfarna daga, hef ég flestar notað til að endurskrifa gamla grein um hina goðsagnakenndu unglingahljómsveit HRÍM frá Siglufirði og mun hún væntanlega birtast á siglo.is um eða upp úr helginni.

13.02.2014 01:06

Á ferð og flugi á Fésbókinni



911. Myndin af þessari gömlu kennslubók í reikningi eftir Eirík Briem  hefur verið á miklu flugi í fésbókarheimum að undanförnu. Það er ekkert skrýtið, ef litið er til þeirrar kúvendingar og rúmlega það sem hefur orðið á skoðunum fólks þegar kemur að því hvað telst birtingarhæft á prenti, ásættanleg umræða og heilbrigður hugsunarháttur.

Í dag finnst okkur með miklum ólíkindum hvað þótti eðlilegt og sjálfsagt hér í denn.

Þar sem ég rakst á myndina hér að ofan fylgdi henni eftirfarandi texti:

"Pabbi safnar gömlum kennslubókum og í kvöld var hann að lesa í einni gamalli stærðfræðibók. En eins glöggir menn sjá má lesa á kápunni að bókin er rétt rúmlega 100 ára gömul. Við lesturinn rakst hann á þetta snilldar stærðfræðidæmi, það er langt síðan ég hef verið í stærðfræði en dæmin voru ekki svona skemmtileg í minningunni".



Þetta minnir mig á aðra umræðu um aðra bók sem var endurútgefin árið 2007. Bókin um negrastrákana 10 kom fyrst út árið 1922 og hefur margsinnis verið endurútgefin eftir það, og sumir kalla hana fyrstu íslensku barnabókina þó hún sé alls ekki íslensk.

Foreldrar þeldökkra barna hafa ritað bréf til leikskóla á höfuðborgarsvæðinu, þar sem hvatt er til þess að barnabókin Tíu litlir negrastrákar verði ekki lesin fyrir börnin. Efni og myndir bókarinnar séu særandi og kyndi undir fordómum í garð svartra. (Frétt af RUV.)

-

Eftirfarandi er sótt á sbs.is (Stefán Birgir Stefánsson), en hann framkvæmir sína tegund af krufningu á mjög skemmtilegan hátt.

Ég var að hlusta á einhverja jólaplötu, svona eins og gengur og gerist, þegar lagið "Negrastrákarnir" byrjaði í spilun. Ég áttaði mig ekki alveg á því hvernig ófarir tíu lítilla svertingja gæti hugsanlega tengst jólunum á einhvern hátt.

Ég man vel eftir bókinni "Tíu Litlir Negrastrákar", hét á frummáli "Ten Little Niggers". Ég man líka að mér fannst hún alltaf svolítið skrítinn.

Eftir að hafa hlustað á þetta lag gerði ég mér grein fyrir því að hér er á ferðinni lag sem er svo fullt af fordómum og hatri í garð svertingja að Guð einn veit á hvaða Ku Klux Klan fundi það var samið. Förum yfir textann og reynum að ímynda okkur hugsunar hátt einstaklingsins sem skrifaði hann.

Negrastrákar fóru á rall,
þá voru þeir tíu,
einn drakk flösku af ólyfjan
en eftir urðu níu.

Hér byrjum við söguna, kynnum persónurnar til sögunnar og sýnum strax að þetta eru tíu heimskir litlir negrastrákar. Einn gaurinn var svo heimskur að hann drakk heila flösku af eitri, hve heimskur þarftu að vera? Sjálfsmorð ef þú spyrð mig.

Níu litlir negrastrákar
fóru seint að hátta
einn þeirra svaf yfir sig
og þá voru eftir átta

Sjáið til, blökkumenn, einfalt fólk. Það er ekki hægt að ætlast til þess að einfeldningar kunni á vekjaraklukku. Blökkumenn hata líka aðra blökkumenn, þess vegna vöktu hinir átta gaurarnir ekki þennan eina.

Átta litlir negrastrákar
vöknuðu klukkan tvö.
Einn þeirra dó úr geispum
en þá voru eftir sjö.

Okay, þarna, sko. Blökkumenn eru svo latir að þeir fara á fætur klukkan tvö. Munið að gaur númer níu svaf yfir sig, hve lengi svaf hann ef hinir vöknuðu klukkan tvö? Og hvað er það að deyja úr geispum? Gat hann ekki bæði andað og geispað svo hann kolféll? Heimski maður.

Sjö litlir negrastrákar
sátu og átu kex
einn þeirra át yfir sig
en þá voru eftir sex.

Ef það er eitthvað sem svertingjar elska meira en vatnsmelónur og kjúkling þá er það kex, sætt sætt melónukjúklingabragðbætt kex. Þegar þeir byrja þá geta þeir ekki hætt. Enda eru svertingjar mjög gráðugt fólk.

Sex litlir negrastrákar
sungu dimmalimm
einn þeiirra sprakk á limminu
en þá voru eftir fimm.

Að springa á limminu merkir að standast ekki freistingar eða geta ekki haldið eitthvað út. Ég geri ráð fyrir að svertinginn hafi verið svo aumur að hann átti erfitt með að syngja dimmalimm (ég geri ráð fyrir að þeir séu að tala um lagið með Spírandi Baunum). Þetta vandamál á við marga svertingja.

Fimm litlir negrastrákar
héldu að þeir væru stórir
einn þeirra fékk á hann
en þá voru eftir fjórir.

Ég geri ráð fyrir að hér sé verið að tala um að hann hafi fengið AIDS. "Fékk á hann", hann hvern? Broddinn. Hvað gerist þegar svertingjar fá á broddinn? AIDS. (ég veit hvað "að fá á'ann merkir!)

Fjórir litlir negrastrákar
fóru að reka kýr
ein kýrin stangaði einn þeirra
en þá voru eftir þrír.

Helsti óvinur svertingjans eru ráðvillt dýr, sérstaklega kvenkyns dýr.

Þrír litlir negrastrákar
þorðu nú ekki meir
einn þeirra dó úr hræðslu
en þá voru eftir tveir.

Að eðlisfari eru svertingjar hrætt fólk, þess vegna ganga allir svertingjar um með byssu. Það að deyja úr hræðslu er í öðru sæti yfir það sem dregur svertingja til dauða, númer eitt er að einhver bösti cap í rassinn þeirra.

Tveir litlir negrastrákar
þögðu nú eins og steinn
annar hann varð vitlaus
en þá var eftir einn

Það þurfti nú ekki mikið til að hann varð vitlaus, skal segja ykkur það.

Einn lítill negrastrákur
sá hvar gekk ein dama
Hann gaf sig á tal við hana
og bað hennar með það sama

Hann bað hennar, augljóslega. Mér finnst þetta samt vera verst skrifaða stanzaið.

Negrastelpan sagði já
og svo fóru þau í bíó
ekki leið á löngu
uns þau urðu aftur tíu.

Auðvitað drápust 9 manns í þessu lagi (þessi sem svaf yfir sig var étinn af krókódíl síðar) en það er allt í lagi því blökkumenn eignast börn eins og kanínur og hver getur hvort sem er séð muninn á þeim? Enginn. Takið eftir að það nægði að fara með hana í bíó, svertingjar eru fátækt fólk og það þarf ekki mikið til að heilla þá.

Kannski er ég að taka þetta of alvarlega en mér finnst þetta lag setja vissar hugmyndir í huga barna sem eiga ekki við á tuttugustu og fyrstu öld. Þetta lag má vel vera til sem "icon" af hvernig hugsunarháttur var hér í den en hann á ekki heima á leikskólum, nema hugsanlega í suðurríkjum bandaríkjanna.

Viðauki:
Vel hugsanlegt er að margir hér séu að dæma börn of hart, halda að þau séu ekki nægilega þroskuð til að tengja saman hluti eins og texta af lagi og hugmyndir. Ég veit ekki til þess að það sé einhver sönnun fyrir því að texti um stereótýpur hafi ekki áhrif á "implicit" hugsunarhátt barna, þvert á móti mundi ég telja að" primaceið" væri meira fyrir fordómum ef þau læra snemma að "tíu litlir negradrengir" séu frekar heimskir gaurar.

P.S. ég veit hvað það að fá á'ann merkir...

-

En finna má fordóma víða í námsefni og barnaefni frá liðinni öld sem fáum eða engum þótti vera neitt tiltökumál á sínum tíma. Orðið "negri" var jafn sjálfsagt og eðlilegt í málinu eins og t.d. sykur og kaffi eða svart og hvítt. Á visir.is birtist í vikunni grein undir fyrirsögninni "Fordómar leynast víða í námsefni" og er úrdrátturinn hér að neðan úr henni.

"Mennirnir á jörðinni eru ekki allir eins. Svartir menn eru kallaðir negrar." Svo hljóðar heimaverkefni fyrir börn í öðrum bekk í Varmárskóla. Það er ekki einsdæmi að námsbækur sem innihalda úreltar upplýsingar séu í umferð í grunnskólum og ekkert eftirlit er með slíku.

Í bókinni sem um ræðir er tekið fram að gulir menn séu kallaðir mongólar og búi flestir í Asíu. Rauðir menn séu kallaðir rauðskinnar eða indíánar og þeir búi í Ameríku. Vísir.is fjallaði um málið í gærkvöldi og vakti það mikla athygli og fjölmargir tjáðu sig í athugasemdakerfi fréttarinnar.  

Þórhildur Elvarsdóttir, skólastjóri í Varmárskóla sagði svo í viðtali við vefinn í dag að bókin sem um ræðir, "Við lesum C," hafi verið í umferð fyrir mistök. Bókin sé notuð sem aukaefni fyrir íslensku og efnistök í verkefnum hafi farið framhjá kennurum.

Slíkt er ekki einsdæmi. Bókin "Þjóðfélagsfræði" er ætluð efstu bekkjun grunnskólans og er skrifuð af Garðari Gíslasyni. Bókin hefur verið gefin út þrisvar sinnum frá árinu 2000. Í kafla bókarinnar um kynvitund og fjölskyldur kemur fram að hjónabönd fólks af mismunandi kynþáttum séu afar sjaldgæf. Ef þau verða er það yfirleitt þannig að karlinn er svartur og konan hvít".

-

Ja hérna...!

09.02.2014 04:17

Við Reykjavíkurtjörn




910. Í gærmorgun þegar sólin var að koma upp, opnaði dagurinn sig í mikilli litadýrð yfir snjóhvítum Bláfjöllunum. Skýin tóku á móti birtu nýs dag og endursendu okkur mannfólkinu hana löngu áður en við gátum numið þau beint og milliliðalaust frá ljósgjafanum mikla þegar hann lyfti sér upp fyrir sjóndeildarhringinn.

Gult, bleikt, rautt og appelsínugult á heiðblárri festingunni. Ég bölvaði í hljóði. "Hvað það getur verið skítt að eiga ekki almennilega myndavél".

Svo vaknaði allt.

Eftir vinnu fór ég í aðra vinnu, en eftir hana hélt ég áleiðis heim. Dagur var að kvöldi kominn og sólin að setjast í engu minni litadýrð en um morguninn. Ég ók fram hjá Tjörninni og dáðist að því sem fyrir augu bar. Ég var næstum því kominn fram hjá henni þegar ég fékk bakþanka og snéri við, fann mér laust stæði eftir svolitla leit og gekk fram á völlinn vopnaður gömlu, þreyttu og löskuðu myndavélinni sem varð bara að duga rétt eina ferðina enn því ekkert annað var í boði.

Það ríkti einhver undarleg og lotningarfull kyrrð yfir öllu. Mest heyrðist í fuglunum við bakkann. Skvamp, vængjasláttur, kvak. - Agndofa útlendingar með myndavélar á lofti. - Hljóðlátir Íslendingar horfðu út á tjörnina og nutu kyrrðarinnar. - Einhverjir útdeildu brauðmeti til fiðraðra vina sinna. - Ungmenni voru á rölti úti á ísnum.

Heildarmyndin nálgaðist fullkomnunina svo mikið að nær því takmarki verður vart komist.











05.02.2014 10:02

SpKef

909. Ég sá þessa bók í búðarhillu á dögunum og auðvitað var ekki annað hægt en að veita henni athygli, en nú eru "góð" fimm ár liðin frá Hruni (með stórum staf). 




"SpKef 100 ára, - 1907-2007. Sjóður Suðurnesjamanna,

bakhjarl í heimnabyggð" 

eftir Eðvarð T. Lárusson er eitthvað svo mikið 2007, enda kom hún einmitt út í tilefni aldarafmælis sparisjóðsins árið 2007.

Það er ekki laust við að maður finni fyrir einhverri undarlegri tímaskekkjutilfinningu sem lýsir hann sér svolítið eins og stingur í eitthvað mikilvægt líffæri, (þó ekki í hjartað því það beintengist öðru byggðarlagi). En kannski fá einhverjir sáran verk í veskið við að lesa svona bók. En auðvitað er svona bók bara sagan, - eða einhver hluti af henni. Annar hluti kom svo síðar í ljós, en við skulum ekkert minnast á hann hér því hann er ekkert skemmtilegur. Svo svo á sagan sér líka stundum jafn margar hliðar og sögumennirnir eru margir og hver vill svo sem vera dómari um bestu útgáfuna?

Ekki ég!




En það var virkilega gaman á þessum dýrðarinnar tímum, við skulum ekki gleyma því. Þá voru jafnvel dæmi um að menn átu gull sér til þarflausrar skemmtunnar, kannski bara til að geta sagt frá því einhvern tíma seinna að þeir hefðu jú gert það og það gekk síðan niður af þeim eins og gengur og endaði úti í sjó, líka eins og gengur.

Eflaust hafa fiskarnir þá orðið mjög hissa á því sem fyrir þeirra stóru og  kringlóttu fiskaaugu bar. Og hvað skyldu fiskarnir þá hafa hugsað?

Kannski: Ætli mannfólkið uppi á þurrlegndinu sé nú endanlega búið að tapa glórunni?

Ef fiskarnir hafa hugsað þannig hafa þeir verið framsýnni en við mennirnir.

Kannski þarf ekki alltaf svo ýkja mikið til.

02.02.2014 14:51

Áhlaup og ofankoma

908. Fimmtudaginn 30. jan. sl. laust upp úr miðjum degi, gerði mikla ofankomu hérna á suðvesturhorninu. Færð breyttist á svo undraskömmum tíma að fá dæmi eru um annað eins. Ég lagði upp frá skiptistöð strætó í Hamraborg í síðasta hring vaktar minnar kl. 14.06 og ók leið 28 sem liggur fram hjá Hjallahverfi í átt að Dalvegi, um Smára, Lindir, Sali, Kóra, Þing, Hvörf, þaðan um Breiðholtsbraut niður að Mjódd og síðan sömu leið til baka. Ef allt gengur samkvæmt áætlun, tekur u.þ.b. eina og hálfa klukkustund að aka leiðina fram og til baka. Við upphaf ferðar var rigningarúðinn svolítið að væta framrúðuna annað slagið eins og hann hafði reyndar gert frá því snemma um morguninn. Þegar droparnir voru farnir að sitja þéttar en æskilegt þótti, fengu risastór þurrkublöðin það hlutverk að strjúka vætuna af og útsýnið varð aftur eins og best varð á kosið. Þau hreyfðust letilega yfir rúðuna rétt eins og þeim findist verkefnið ekkert sérlega merkilegt. Þegar ég ók fram hjá Smáralindinni sá ég fáeinar stórar flyksur blandast úðanum og það var ekki laust við að ég yrði svolítið hissa því hitamælirinn í mælaborði vagnsins sýndi fjögurra gráðu hita úti. Leiðin lá eftir þetta upp á við og þegar landið hækkaði breyttist samsetning úrkomunnar.

"Það eru nú ennþá 47 vikur til næstu jóla" hugsaði ég með mér meðan ég ók upp brekkuna á Hlíðardalsveginum fyrir ofan Lindirnar sem var var næstum orðinn alhvítur. Ekki eru allir Kópavogsbúar búnir að taka niður jólaseríurnar utanhúss þrátt fyrir að komið sé fram undir janúarlok, svo þær harmoneruðu ákaflega vel við hvítu flyksurnar sem bæði stækkuðu og fjölgaði svo að umhverfið varð líkast risastóru póstkorti. Áfram var ekið sem leið lá upp á "hálendi Kópavogs" og ég heyrði í talstöðinni að verið var að ræsa út saltarana. Ekki veitti af því það var orðið skrambi hált og mér var lítillega farið að skrika dekk í kröppustu beygjunum inn og út úr hringtorgunum sem þarna eru fjölmörg. Það var farið löturhægt niður löngu brekkuna ofan af Víkurhvarfinu, en hún liggur eins og fram af brekkubrún rétt neðan við Vatnsendahæðina og niður á Breiðholtsbrautina. Ekki var þó allt búið enn því önnur brekka var eftir sem er stundum lúmskari en góðu hófi gegnir, en það er spölurinn frá Æsufelli og niður að Stekkjarbakka. Það átti svo sannarlega við í þetta skipti því afturendi vagnsins reyndi ítrekað að komast fram úr framendanum þrátt fyrir að hægt væri þokast áfram veginn. Það tókst þó að koma í veg fyrir að slíkt gerðist og skömmu síðar var lagt upp að í Mjóddinni aðeins á eftir áætlun. Það gerði þó lítið til og var jafnvel síst verra, því allir aðrir vargnar voru álíka mikið á eftir áætlun. Svo var lagt af stað til baka.

Snjókoman fór vaxandi og var nú orðin ansi þétt. Þurrkurnar gengu látlaust og rétt eftir að ég náði upp á brúnina við Víkurhvarf ók trailer þá sömu leið, en líklega full seint því hann komst aðeins upp fyrir miðja brekkuna áður en hann rann til hliðar og staðnæmdist þannig að hann lokaði veginum. Ég heyrði í talstöðinni að bílstjóri næsta vagns sem á eftir kom sagði brekkuna lokaða. Um það leyti mætti ég fyrsta trukknum sem skóf götuna um leið og hann saltaði og það mynduðust litlir ruðningar í vegkantinum. Þá var ekki liðin klukkustund frá því að ég varð var við fyrstu snjókornin. Í sama mund heyrði ég tilkynningu frá Þjónustuveri Strætó á Hesthálsinum að allar tímaáætlanir væru felldar úr gildi, vagnstjórar skuli fara sér hægt og aðeins huga að öryggisþættinum.

Ég ók inn á skiptistöðina í Hamraborginni tíu mínútum á eftir áætlun. Tvisturinn var kominn og farinn, Fjarkinn að lenda, en Ásinn tilkynnti að hann væri enn við Kringlu. Vaktinni var lokið og ég frétti daginn eftir að þeir sem tóku við áttu eftir að lenda í talsverðu brasi það sem eftir lifði dagsins.

Um kvöldmatarleytið átti ég erindi út í búð, en þá var hvellurinn búinn og rissastórt, skjannahvítt og tandurhreint teppi lá yfir öllu. Ég tók í leiðinni nokkrar myndir sem sjá má hér að neðan þar sem síðbúinn jólasnjór skreytti greinar trjánna. Um nóttina frysti og morguninn eftir þegar ég var kominn á stjá utan dyra var jafnvel enn fallegra um að litast. Ég hugsaði mér að erindast svolítið fyrst, en fara síðan góðan hring og taka nokkrar myndir til viðbótar. Klukkutíma síðar hafði hlýnað skyndilega og ekki sást snjókorn á nokkru tré.

Þetta var stutt og snarpt og á heildina litið alls ekki svo mikið snjómagn, en svona geta hlutirnir breyst með undraverðum hraða og það var einmitt það sem setti svo margt úr skorðum þennan dag.


                   













19.01.2014 04:41

Skrýtnar fréttir

907. Það má oft hafa mjög gaman af þeim fréttum sem eru á einhvern hátt öðruvísi og óhefðbundnari en öllu því staðlaða og sterilíseraða efni sem algengast er að sett sé upp í fjölmiðlum samkvæmt viðurkenndum og margreyndum uppskriftum, og matreitt ofan í neytandann eftir þróuðum formúlum markaðshyggjunnar. Stundum getur klaufalegt orðalag og/eða ambögur blaða og fréttamanna hreinlega bjargað hvunndeginum hjá hinum týpíska meðaljóni úti bæ, að ógleymdum stórskrýtnum frásögnum af undarlegu fólki og enn undarlegri atburðum sem eru oftast miklu líkari lýginni en sannleikanum, þrátt fyrir að hið síðar nefnda sé yfirleitt tilfellið.

Hér að neðan eru nokkur misgóð, misfyndin og mis-smekkleg dæmi og það skal líka tekið sérstaklega fram að allur gangur er á hvort myndirnar sem fylgja fréttunum tengjast þeim á einhvern hátt.



Brúðkaup blásið af vegna skalla.

Indverskur maður var laminn af tilvonandi eiginkonu sinni og tengdafjölskyldu eftir að þau komust að því að hann hafði fallið skalla með hárkollu. Prabir Das frá Assam á Indlandi sagði lögreglu að kærastan hefði rifið hárkolluna af honum eftir kvöldverð og ráðist á hann fyrir að fela kollinn.

Foreldrar hennar lögðu henni síðan lið og rifu rándýra kolluna í tætlur. Í refsingarskyni fyrir blekkinguna tóku þau peningaveski hans, farsíma, mótorhjól og ökuskírteini.

Das sem vinnur á einkasjúkrahúsi hafði auglýst eftir brúði í hjúskapardálk dagblaðs á staðnum. Dilip Roy sem var að leita að mannsefni fyrir dóttur sína svaraði. Búið var að ákveða að brúðkaupið yrði 12. desember og fjölskylda brúðarinnar hóf að safna fyrir heimanmundi.

Lögreglan sagði að búið væri að yfirheyra tengdafaðirinn sem neitaði rifrildinu. Lögreglan telur víst að búið sé að aflýsa brúðkaupinu.

Visir.is 23.11.2007.



Banki tók páfagauk upp í fasteignaskuld.

Kona í Pittsburgh höfðar nú mál gegn Bank of America fyrir að hafa gert páfagaukinn sinn upptækan. Starfsmenn bankans stóðu í þeirri meiningu að konan hefði yfirgefið húsið enda hafði hún ekki borgað af fasteignalánum sínum og því sendu þeir verktaka á staðinn til þess að skipta um lás á fasteigninni.

Bank of America hefur beðið konuna afsökunar á þessu framferði. Fram kemur í frétt breska ríkisútvarpsins, BBC, að verktakar á vegum bankans hafi lokað fyrir hita, rafmagn og vatn til hússins auk þess sem þeir eyðilögðu húsgögn. Jafnframt helltu þeir frostlög ofan í öll niðurföll og tóku svo páfagaukinn, sem gengur undir nafninu Lúkas, ófrjálsri hendi. 

Konan reyndi ítrekað að hafa samband við bankann og krafðist þess að fá páfagaukinn sinn til baka. Mun hún hafa fengið óblíðar viðtökur frá starfsmönnum bankans en þeir sögðust ekki hafa hugmynd um hvar páfagaukurinn væri. Loksins sögðu starfsmennirnir henni að gaukurinn væri staðsettur á skrifstofu umrædds verktaka. 

Bank of America hefur beðið konuna afsökunar á þessari uppákomu, en hún krefst þess að bankinn greiði henni 50 þúsund dali í miskabætur. Meðal annars vegna þess að þetta hafi komið henni í svo mikið uppnám að hún hafi þurft að leita sér læknishjálpar vegna ofsakvíða. 

Samkvæmt frétt The Wall Street Journal hefur Lúkas jafnað sig á þessu leiðindaatviki en að sögn konunnar þurfti hann dágóðan tíma til þess að jafna sig.

Mbl.is 11.03.2010.



Sæðisbanki fyrir fallega.

Stefnumótasíðan beautifulpeople.com, sem er einungis fyrir fallegt fólk, íhugar að stofna sæðisbanka. Sæðið yrði frá einstaklega myndarlegum karlmönnum. CNN greinir frá.
Greg Hodge, framkvæmdastjóri beutifulpeople.com, segist hafa fengið fjölmargar fyrirspurnir um sæði, hvaðanæva úr heiminum.

Vísir 14.07. 2010





Edgar Allan Poe jarðsettur aftur.

Bandaríski rithöfundurinn Edgar Allan Poe var loksins lagður til hinstu hvílu í gær, 160 árum eftir dauða sinn.

Poe kvaddi þennan heim slippur og snauður í október árið 1849. Hann hafði skömmu áður fundist ráfandi um götur Baltimore, ráðvilltur og örvinglaður, sennilega af völdum langvarandi drykkju. Jarðneskum leifum rithöfundarins var komið fyrir í ódýrustu líkkistu sem völ var á og hún grafin niður í kirkjugarði borgarinnar, án formlegrar athafnar og að viðstöddum einungis sjö syrgjendum.

Í janúar á þessu ári voru 200 ár liðin frá fæðingu Poe og af því tilefni ákváðu aðstandendur Poe-minjasafnsins í Baltimore að veita honum loksins almennilega jarðarför, 160 árum eftir andlátið. Þetta gerðist í gær og nú mættu töluvert fleiri en við fyrri jarðarförina þar sem aðdáendur rithöfundarins og ritstjórans fyrrverandi fjölmenntu við athöfnina.

Poe er þekktastur fyrir hryllingssögur og skörulega ljóðabálka og má meðal verka hans nefna ljóðið Hrafninn, The Raven, og skáldsöguna Morðin við líkhúsgötu eða Murders in the Rue Morgue eins og hún heitir á frummálinu. Vonandi hvílir Poe nú í friði eftir tvær jarðarfarir.

Vísir 12.10.2009



Kisi bjargaði málinu

Ólöglegur innflytjendandi frá Bólivíu slapp við að vera vísað frá Bretlandi þegar hann sagði dómnefndinni sem fjallaði um mál hans að hann og bresk kærasta hans hefðu sameiginlega keypt sér kött.

Hann taldi það skýra vísbendingu um að hann hefði fest rætur í landinu. Dómnefndin var þessu sammála og taldi að það yrði brot á mannréttindum að hrófla við fjölskyldulífi hans.

Lögfræðingur Bólivíumannsins segir að fleiri þættir hafi haft áhrif á niðurstöður dómnefndarinnar en kötturinn.

Blaðið Daily Mail segir hinsvegar að breska innanríkisráðuneytið hafi farið framá að þessu úrskurður verði endurskoðaður þar sem kattareignin hafi vegið of þungt.

Vísir, 19.10.2009.



Átta ára fangelsi fyrir að stela osti: Saksóknari vildi lífstíðarfangelsi

Bandaríkjamaðurinn Robert Ferguson mun þurfa að dúsa bak við lás og slá næstu átta árin eftir að hann laumaði oststykki í buxurnar sínar í stórmarkaði og gekk út. Ferguson býr í Kaliforníu en þar eru lög í gildi sem kveða á um að brjóti einstaklingur af sér þrisvar geti hann átt von á lífstíðarfangelsi.

Þetta kemur fram í vefútgáfu breska blaðsins Telegraph. Þar kemur fram að oststykkið hafi verið aðeins fimm hundruð króna virði en þar sem Ferguson á langan afbrotaferil að baki ákvað dómari að loka hann inni næstu átta árin. Saksóknarar vildu fá hann dæmdan í lífstíðarfangelsi þar sem Ferguson er vanaafbrotamaður og hefur brotið af sér þrettán sinnum áður.

Lögmaður Fergusons vildi hinsvegar vægari dóm þar sem hann er haldinn stelsýki. Í mörgum ríkjum Bandaríkjanna eru lög þess efnis að brjóti einstaklingar af sér þrisvar geti þeir átt von á lífstíðardómi. Ekkert ríki Bandaríkjanna framfylgir þessum lögum af jafn mikilli hörku og Kaliforníuríki.

DV. 03.03.2010.



Bændur leita að kindum á fjórhjólum.

SÉST hefur til bænda á fjórhjólum utan vega í Borgarfirði leita að kindum að undanförnu. Eðlilega hafa hjólin skilið eftir sig ljót sár í landinu og hefur verið kvartað undan þessu framferði til fjallskilanefndar.

SÉST hefur til bænda á fjórhjólum utan vega í Borgarfirði leita að kindum að undanförnu. Eðlilega hafa hjólin skilið eftir sig ljót sár í landinu og hefur verið kvartað undan þessu framferði til fjallskilanefndar.

Eigendur Hreðavatns í Borgarfirði hafa sent athugasemdir til fjallskilanefndar vegna ferða fjórhjóla og jafnvel sexhjóla vítt og breitt um landið að undanförnu. Birgir Hauksson, einn eigenda Hreðavatns, segir að för séu um allt í landinu eftir þessi hjól og það sé segin saga að svona för dragi að sér meiri akstur á fjórhjólum. Þó utanvegaakstur á þessum hjólum sé bannaður sé ekki farið eftir því, en ekki sé hægt að líða þessi brot endalaust.

"Þetta er eitthvað sem við viljum alls ekki," segir Birgir og áréttar að framferði bændanna kalli á meiri akstur verði ekkert að gert. "Það verður að stöðva þennan akstur," heldur hann áfram og bendir á að margir eigi fjórhjól og sjái þeir hjólför í landinu keyri þeir beint af augum eftir þeim. "Nú er rjúpnatímabilið að byrja og hvað gerist þá," spyr hann.

Mbl. 13.10.2009.


 Fjölbýlishúsið í Newcastle sem hjónin búa í.

Braut gegn banni með óhóflegum kynlífshljóðum

Bresk kona hefur játað fyrir rétti að brjóta gegn banni um hávaðamengun með hávaðasömum kynlífshljóðum. Nágrannar konunnar lýsa hljóðunum sem ónáttúrulegum og sem parið líði töluverðar kvalir. Kveðinn verður upp dómur yfir konunni 18. janúar nk.

Breska ríkisútvarpið, BBC, greinir frá málinu á vefsvæði sínu í dag. Þar segir að hjónin Caroline og Steve Cartwright búi í fjölbýlishúsi Newcastle. Nágrannar þeirra kvörtuðu fyrst yfir gríðarlegum hávaðanum fyrir rúmum tveimur árum og var þeim í kjölfarið bannað að öskra eða yfirleitt fara yfir venjubundin hávaðamörk í kynlífi sínu. Síðar hafa fleiri kvartað, þar á meðal póstburðarmaður.

Hávaðamæling hefur farið fram og mældust kynlífshljóð hjónanna allt að 47 desíbil þegar mest lét. Samkvæmt kvarða Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) er þrjátíu desíbil nægilegur hávaði til að raska svefni.

Einn nágranni konunnar segist sífellt mæta og seint til vinnu sinnar þar sem hún sé vakandi allar nætur vegna hávaðans, sem sé stanslaus klukkutímum saman.

Mbl. 15.12.2009



Lét karlinn róa fyrir krókódíl

Áströlsk kona á sextugsaldri heimtaði skilnað þegar eiginmaður hennar krafðist þess að hún losaði sig við krókódíl sem hún heldur sem gæludýr.

Vicki Lowing lét engan bilbug á sér finna þegar hún sparkaði karlinum vegna deilu þeirra um gæludýr hennar sem er tæplega tveggja metra langur þrettán ára gamall krókódíll sem ber hið viðkunnanlega nafn Johnny. Vicki er hjúkrunarkona og þau fyrrum hjónin búa í Melbourne. Hjúkkan miskunnsama tók dýrið að sér eftir að hún fann það á tröppum heimilisins þar sem óþekktur fyrri eigandi hafði ákveðið að losa sig við það. Þetta var árið 1996.

Leið svo og beið og hægt og rólega varð andrúmsloftið á heimilinu óþolandi að mati fyrrum eiginmanns Vickiar. Þegar fjölmiðlar spurðu Vicki hvort ákvörðunin hafi ekki verið erfið svaraði hún því einfaldlega til að flestir eiginmenn gætu séð um sig sjálfir en krókódílar kynnu ekki að elda ofan í sig. Hún lét karlinn því einfaldlega róa og situr nú alsæl öll kvöld fyrir framan sjónvarpið með Johnny í fanginu og þykist hafa himin höndum tekið.

Vicki segist alltaf hafa þráð að eignast dóttur en ferfætlingurinn græni með halann komi í raun alveg í stað þess. Hann fer að minnsta kosti aldrei á túr segir Vicki, sigri hrósandi.

Vísir, 15.10.2009.



Hænan kom á undan egginu.

Hæna verpti fyrsta hænueggi veraldar. Samkvæmt því klaktist hænan sú ekki úr hænueggi.

Breskir vísindamenn hafa nú leyst hina ævafornu gátu um það hvort kom á undan, hænan eða eggið. Svarið er hænan.

Vísindamennirnir segja annað óhugsandi en að hænan hafi komið á undan vegna þess að framleiðsla eggja sé aðeins möguleg vegna tiltekins próteins í eggjastokkum hænanna.

"Menn hefur lengi grunað að eggið hafi komið á undan en nú höfum við vísindalega sönnun þess að í raun var það hænan," sagði dr. Colin Freeman við Sheffield-háskóla þegar niðurstaðan var ljós. Til að komast að henni þurfti ofurtölvan HECToR að kanna byggingu eggs nánar en hingað til hefur verið unnt.

Fréttablaðið, 16.07.2010.



Fyrirsæta stofnar stjórnmálaflokk fyrir fallega

Sanziana Buruiana vill leggja háa skatta á offitusjúklinga eða um 10 evrur á hvert kíló ofþyngdar og refsa öllum þeim sem segja ljóskubrandara.

"Allt svoleiðis fólk á heima í fangelsi," sagði 23 ára gömul fyrirsætan en önnur lykilatriði stjórnmálaflokksins eiga að vera 100 evra sekt fyrir ótryggð og lög sem gæta þess að einungis fyrirsætur í baðfötum mega vinna sem leiðsögumenn ferðamanna.

Mbl. 15.07.2010.



Máttu engan tíma missa.

Þetta unga par stöðvaði heldur betur umferðina með athæfi sínu á miðri umferðargötu í Krefeld í Þýskalandi aðfaranótt laugardags. Skötuhjúin gátu hreinlega ekki beðið með ástaratlotin þar til þau væru komin úr augsýn vegfarenda og enduðu í villtum kynferðismökum á malbikinu.

Lögreglan í iðnaðarbænum lýsir nú eftir parinu eftir að myndin birtist í fjölmiðlum.

Vitni segja að hið ástleitna par hafi velt sér upp úr regnvotri götunni í að minnsta kosti tíu mínútur þar til það væntanlega áttaði sig á hvar það væri.

Haft er eftir leigubílstjóra sem stoppaði til að virða fyrir sér sýninguna að hann hefði næstum klessukeyrt leigubílinn sinn þegar hann sá hvað þarna gekk á

DV. 05.032010.



Skipað að hylja nekt allt of kynþokkafullrar snjákonu.

Bandaríkjamenn eru þekktir fyrir sína miklu blygðunarkennd. Hún tók sér þó nýja mynd fyrir skömmu þegar fjölskyldu í New Jersey var skipað að hylja snjóskúlptúr sem búið var að móta í garðinum.

Fjölskyldumeðlimirnir höfðu dundað sér við að móta fagurvaxna konu á evuklæðunum. Nágrönnunum þeirra misbauð svo hrikalega nektin að þeir létu lögregluna vita af dónaskapnum sem blasti við þeim.

Eftir að lögreglumaður hafði grandskoðað styttuna skipaði hann Gonzalez-fjölskyldunni að hylja styttuna hið snarasta. Brá fjölskyldan á það ráð að skella henni í bikinítopp og fékk styttan sjal um sig miðja.

Gonzalez fjölskyldan var þó á einu máli um það, að snjóverkið væri virðulegt, þó svo að það hafi haft allar þær línur sem lögulega vaxnar konur bera.

DV. 05.03.2010



Og Djöfullinn sagði Okey!

Samkvæmt sögubókum unnu innfæddir Haítí búar sigur á frönskum nýlenduherrum sínum árið 1804 og lýstu yfir sjálfstæði.

Bandaríski sjónvarpspredikarinn Pat Robertson hefur eigin sýn á mannkynssögunni. Hann segir að Guð hafi refsað Haítí-búum með jarðskjálftanum vegna þess að þeir hafi á sínum tíma gert sáttmála við djöfulinn.

-Haítí var undir hælnum á Frökkum, þú veist, Napóleon þriðji eða eitthvað svoleiðis, sagði Robertson.

-Svo komu þeir saman og gerðu samning við djöfulinn. Þeir sögðu; við munum þjóna þér ef þú losar okkur við Frakka.

-Og djöfullinn sagði ókei.

Robertson sagði á sínum tíma að Guð hefði verið að refsa Bandaríkjunum fyrir fóstureyðingar með því að senda fellibylinn Katrínu á New Orleans.

Vísir 14.01.2010



Deilt um meydóm Maríu í Nýja-Sjálandi

Nýsjálendingar deila nú hart um auglýsingaskilti sem sett var undir þeim formerkjum að ögra staðalímyndum um fæðingu Jesú Krists. Á skiltinu sést vansæll Jósef liggja í rúmi við hliða Maríu meyjar og fyrir neðan stendur "Grey Jósef. Það var erfitt að vera næstur á eftir Guði."

Mbl. 17.01.2009

12.01.2014 09:40

RISAÚTSALA

Dæmigerð "villandi" risaútsöluauglýsing.

906. Janúar er sá tími sem verslanir nota gjarnan í tiltekt hjá sér og auglýsa þá útsölur, verðhrun, rýmingarsölur, lagerhreinsanir og setja svo upp alls konar markaði, ýmist nokkrar saman eða hver fyrir sig, þar sem sami varningur er oft seldur á verulega niðursettu verði frá því hann var á fáeinum vikum áður.

Einn ágætur kunningi minn og samstarfsmaður hafði nokkur orð að segja um þetta árvissa tímabil.

"Ég hef aldrei skilið þegar verslanir auglýsa RISAÚTSÖLU" sagði hann hugsi þegar við sátum eitt sinn inni á kaffistofunni og hann fletti sig í gegn um auglýsingar Fréttablaðsins.

Ég hváði og sá í fyrstu ekkert athugavert við að auglýsa RISAÚTSÖLU.

"Jú sjáðu til, í þeim tilvikum er ALDREI verið að selja það sem er auglýst, heldur alltaf eitthvað allt annað".

Það rann skyndilega upp fyrir mér hvað klukkan sló og það er bara alveg hárrétt. Það var hægt að fá tölvur og tölvuíhluti á tölvuvöruútsölunni í Tölvutek sem hófs strax eftir jól eða þ. 28 des. sl., húsgögn á húsgagnaútsölunni hjá innlit.is. núna í janúarbyrjun og golfkúlur, kylfur og þvíumlíkt á golfvöruútsölu Golfskálans svo dæmi sé tekið, en það fást undantekningalaust aldrei RISAR á RISAÚTSÖLU.



Risar sem vilja komast á útsölu


Getur ekki einhver framtakssamur verslunarstjóri eða kaupmaður hugsað sér að bæta úr þessu? Mér dettur í hug að það mætti til dæmis gera í einni versluninni sem sveitungar mínir kannast eflaust vel við af bakgrunni meðfylgjandi myndar.

09.01.2014 00:26

Gleðilegt nýtt ár

905. Þegar árið er liðið, stjörnuljósin dáin út, flugeldaprikin hafa svifið til jarðar og pappahólkarnir utan af tertunum eru orðnir að kolbrunnu rusli, er eins og að myndist eitthvert tómarúm í dagskránni. Jólin og áramótin liðin hjá með öllu sínu og svo kemur nýjársdagur og eftir hann verður allt svo óskup venjulegt aftur.

Þegar árin líða og eru orðin svo mörg sem raunin er á, breytist hegðunar og neyslumynstrið. Þess vegna var ég kannski kominn snemma á fætur fyrsta dag ársins 2014. Já ég vil segja hreint ótrúlega snemma miðað við hvernig það var hér í denn og hefði líklega sagt hvern þann ljúga sem hefði sagt mér til um framtíðina.

Ég fékk mér langan bíltúr, fór víða um og merki hins liðna árs sáust auðvitað hvert sem farið var. Ég get ekki svarið fyrir að það hvarflaði stundum að mér að árið 2007 væri hugsanlega afturgengið, alla vega sums staðar þar sem ég fór um, því innkaup á skoteldum og slíkum varningi virtust ekki hafa verið svo mjög nánasarleg a.m.k. á sumum bæjum.



En það þarf auðvitað að "klára pakkann" og taka hraustlega til eftir alla gleðina og það er örugglega búið að klára allt slíkt núna, en þessi mynd var tekin í Dimmuhvarfi í Kópavogi.



Hér hefur mikið verið sent til himins og dýrðin eflaust með ólíkindum, enda henta liklega fáir staðir betur til slíkra hluta en fremsti hluti Rjúpnahæðarinnar sem gnæfir yfir Smárann, Lindirnar og Salina - einnig í Kópavoginum.



Við Kópavogsbrautina hefur greinilega mikið gengið á og líklega er fullkominn óþarfi að taka fram hvaða bæjarfélagi sú gata tilheyrir.



Og til þess að einhæfnin verði ekki algjör, er þessi mynd frá Hafnarfjarðarhöfn.


Það var alls ekki ætlunin að agnúast út í brennt og brotið rusl og drasl. því það einfaldlega tilheyrir áramótunum og ekki orð um það meir.

En það var hins vegar ætlunin að óska fjölskyldumeðlimum, vinum, sveitungum, svo og öllum þeim sem hafa átt og gætu átt það til að kíkja hérna inn, fasældar á nýju ári þó sú kveðja sé kannski að verða svolítið síðbúin.

31.12.2013 03:10

1963 - Siglufjörður fyrir hálfri öld



904. Nú þegar árið er um það bil að renna í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka eins og sr. Valdimar Briem orti á því herrans ári 1884, er nánast hefð fyrir því að horft sé um öxl og rýnt í vegferðina sem nú er að baki. Liðnir atburðir eru þá rifjaðir upp og þeim síðan fundinn staður einhvers staðar inni í stóra samhenginu, gjarnan uppi á rykugri hillu í óeiginlegri merkingu þess orðs, pakkað saman í eins konar uppflettirit til vistunar í formi minninga í afkimum hugans þar sem hægt er að nálgast það ef með þarf. En þær þurfa bæði að vera til á pappír svo og auðvitað einnig í stafrænu formi, því hugur okkar mannanna er bæði feyskinn og forgengilegur. Kannski kemur einhver nörd miklu síðar og grúskar sig í gegn um þá löngu liðna fortíð. Hann verður hugsi og spyr sig hvort allt hafi í alvörunni virkilega verið svona í gamla, gamla, gamla daga, eða um sé að ræða grínaktugar ýkjusögur frá löngu liðinni tíð. En nei, svona var þetta víst og brunnurinn virðist vera nánast ótæmandi.

Yfirleitt eru það þó tiltölulega nýliðnir atburðir ársins sem er um það bil að kveðja sem eru oftast til skoðunnar, en ég datt að þessu sinni hæfilega langt aftur í fortíðina sem er þó sjálfum mér það nálæg að ég man útlínur hennar að nokkru leyti. Þetta var árið sem ég varð 8 ára og þetta var Siglufjörður fyrir hálfri öld.

Þetta var árið 1963.

-

Skíðafélag Siglufjarðar, Skíðaborg sá um að lýsa upp brún Hvanneyrarskálar. Að þessu sinni mun Rafveita Siglufjarðar hafa aðstoðað við að koma lýsingunni upp því um áramótin 1962-63 var í fyrsta sinn lýst með rafljósum. Árið 1963 var því fyrsta ártalið sem þar var lýst upp með rafljósum, en auðvitað fannst mörgum bæjarbúum mikil eftirsjá af blysunum. - Nema hvað.



                                                  Siglfirðingur í janúar 1963


Mjölnir segir í janúar frá formannsskiptum, í Verkamannafélaginu Þrótti. Gunnar Jóhannsson baðst undan endurkjöri, en hann hafði verið formaður þess óslitið í 23 ár eða allt frá árinu 1940. Við tók Óskar Garíbaldason sem var sjálfkjörinn ásamt öðrum verðandi stjórnarmönnum, því ekkert mótframboð barst.

Hin nýja stjórn var þá þannig skipuð: Óskar Garibaldason formaður, Gunnlaugur Jóhannesson varaformaður, Kolbeinn Friðbjarnarson ritari, Hólm Dýrfjörð gjaldkeri, Anton Sigurbjörnsson og Þorkell Benónýsson meðstjórnerndur.

Einnig segir frá að stýrimannanámskeið hið minna var haldið á Siglufirði haustið áður, sem veitir réttindi til skipstjórnar á bátum allt að 120 tonnum. Alls útskrifuðust 11 skipstjórnarmenn, og hæstu einkunn á prófinu hlaut Hinrik Aðalsteinsson.



Elsti sparisjóður landsins varð 90 ára árið 1963. Sparisjóður Siglufjarðar sem nefndist reyndar framan af Sparnaðarsjóðurinn á Siglufirði, var stofnaður 3. janúar árið 1873. Upphaflega var yfirlýstur aðaltilgangur hans að koma í veg fyrir óþarfa kaup og eyðslusemi, hvetja til sparnaðar og reglusemi, svo og að ávaxta fé efnalítilla manna.

Stofnendur voru Einar Baldvin Guðmundsson bóndi að Hraunum, Jón Jónsson bóndi á Siglunesi, Páll Þorvaldsson bóndi á Dalabæ, Jóhann Jónsson bóndi og hreppstjóri í Höfn, Snorri Pálsson verslunarstjóri, Sveinn Sveinsson bóndi í Haganesvík, sr. Jón Auðunn Blöndal, þá verslunarmaður í Grafarósi og sr. Tómas Bjarnason á Siglufirði.


Á árinu var hafist handa við byggingu Ráðhúss Siglufjarðar við Gránugötu. Húsið átti að verða 360 fermetrar að flatarmáli og þriggja hæða. Bæjarskrifstofurnar höfðu þá verið staðsettar í Alfonshúsi allt frá því að Hvíta húsið við Tjarnargötu brann 1965. Það var ekki fyrr en á árinu 1981 sem þær fluttu síðan upp á þriðju hæð í hinu nýja Ráðhúsi sem var þá í raun orðið 18 ára gamalt.



Barnastúkan Eyrarrós no. 68 hélt yfirleitt fundi sína  í gamla sjómannaheimilinu.

 

Barnastúkan Eyrarrós no. 68 varð 40 ára gömul á árinu, en hún var stofnuð þ. 14 janúar 1923. Aðal hvatamaðurinn að stofnun hennar var stofnuninnai var Guðrún Jónsdóttir frá Ystabæ og var hún fyrsti gæslumaður stúkunnar. Síðan tóku við starfi hennar í tímaröð; Katrín Dúadóttir, Kristján Dýrfjörð, Jón Jónasson, Þóra Jónsdóttir og loks Jóhann Þorvaldsson sem hafði starfann á hendi í u.þ.b. 30 ár samfleytt. Eyrarrós var lengst af ein fjölmennasta stúka landsins með um 300 meðlimi þegar flest var.

 

Á forsíðu febrúartölublaðs Mjölnis birtist eftirfarandi fyrirspurn frá "Bæjarbúa".

"Mun það vera rétt sem gengur meðal manna hér í bænum að Guðbjartur Þórarinsson á Ráeyri hafi boðið bæjarstjóranum að leggja til rafmagn án greiðslu, til að lýsa upp flugvöllinn austan fjarðarins, til hagræðis fyrir flugvélar sem kynnu að þurfa að lenda á þeim tíma sem dagsbirtu nýtur ekki við, ef bærinn kostaði rafleiðslu frá húsi Guðbjarts niður að flugvellinum, en það mun vera sem næst 100 m. vegalengd. Mun það vera satt að bæjarstjórinn hafi neitað þessu boði Guðbjarts"?



Þessi auglýsing birtist í febrúarblaði Einherja, en rekstur Sigló-síldar mun ekki hafa gengið alveg snurðulaust fyrir sig á árinu 1963 frekar en mörg önnur ár. Framleiðslan mun hafa stöðvast um tíma m.a. vegna skort á umbúðum, þ.e. dósum. Markaðir voru einnig takmarkaðir og erfitt að komast inn á þá, en svo var það hráefnið sem stundum virtist vera of mikið af og þá var það selt aftur, eða það var ekki nægilegt og þá stöðvaðist reksturinn vegna skorts á því.

-

Það mun hafa verið Lions klúbburinn á Siglufirði sem fyrst hreyfði umræðunni seint á árinu 1962 um nauðsyn þess að opna og reka Tómstundaheimili fyrir Siglfirsk ungmenni. Og hlutirnir virðast hafa gerst hratt, því þ. 24. febrúar var Æskulýðsheimilið opnað. Ýmsir höfðu og mismikla aðkomu að málinu, m.a. sem styrktaraðilar, en mest mun þó hafa munað um S.R. sem lagði til húsnæðið undir starfsemina sem var Hertervigshúsið við Vetrarbraut. Jón Dýfjörð var ráðinn fyrsti forstöðumaður þess, en Júlíus Júlíusson tók við af honum síðar á árinu.

 

Kaupfélagið minnti félagsmenn á að leggja inn "arðmiðana" sem allra fyrst eða eigi síðar en þ. 1. mars nk. Auglýsingin birtist í Einherja. - Nema hvað?

En hvaða fyrirbæri voru þessir "arðmiðar" gæti nútímamaðurinn spurt þá sem enn muna tíma þeirra.

Voru það ekki eins konar kassakvittanir sem félagsmenn söfnuðu saman og geymdu fram yfir næstu áramót, og þegar kallað var eftir þeim var stormað á skrifstofu kaupfélagsins, þeim slegið saman og greidd út sú arðprósenta sem aðalfundur ákvað. Þ.e.a.s. ef hagnaður varð á rekstrinum sem var nú aldeilis ekki alltaf. Ég man vel eftir vaxandi safni rauðleitra smámiða í hillu ofarlega í einum eldhússkápanna á mínu æskuheimili sem biðu sins tíma eða kannski öllu heldur sinna áramóta.



Þessi frétt birtist í Siglfirðingi í marsmánuði. Hvar annars staðar hefði hún átt að birtast alla vega  miðað við hver niðurlagsorðin eru.



Siglfirðingur í mars 1963

 

En í marsblaði Mjölnis kvað við allt annan tón að venju. Það er eins og ekkert hafi í raun breyst í hálfa öld og þá var greinilega þá þegar búið að finna upp hina illræmdu vísitölu.

"Verkamenn hafa nýlega fengið 5% hækkun á kaupi, og er tímakaup í almennri vinnu nú kr. 26.04. Í árslok 1958 og janúar 1959 var tímakaupið kr. 23.86. Núna er það kr. 2.18 hærra. Hækkun síðan vinstri stjórnin fór frá vegna kröfu Framsóknar um kauplækkun, er því tæp 9%

Vísitalan hefur hinsvegar hækkað um 28 % á viðreisnartímabilinu. Vísitala á kaup í des. 1958 og janúar 1959 var 202 stig. Kratastjórnin Emilía, studd af íhaldinu, lækkaði kaupið 1. febr.

1959 úr kr. 23.86 niður í kr. 20,67 með því að lögbinda vísitöluálag á kaup við 175 stig.."

Síðan er taflan hér að neðan birt sem hluti af greininni.


 

En Mjölnir var einnig á öðrum og mun uppbyggilegri nótum í sama mánuði þegar hann sagði frá "Músikkabarett" þar sem lúðrasveitin, nokkrir nemendur tónskólans, leikfélagsins og nemendur úr 4. bekk Gagnfræðaskólans stóðu fyrir ásamt tónlistamanninum og hinum listræna hugmyndafræðingi Gerhard Schmidt. Þessar skemmtanir urðu síðan árvissar fram eftir áratugnum.

"Músikkabarett Lúðrasveitarinnar og Tónskólans er áreiðanlega einhver bezta skemmtun

ársins. Svo vel sem tókst til með kabarettinn í fyrra, má segja að enn betur hafi tekizt í ár.

Fyrst og fremst hafa eldri hljóðfæraleikarar æfzt og nýir bætzt við. Lúðrasveitin, sem í fyrra var mjög áheyrileg, hefur tekið miklum og ánægjulegum framförum og fiðlusveit Tónskólans

orðin ótrúlega leikin, þótt leikendur séu flestir ungir að árum. Sama er að segja um aðra hljóðfæraleikara, sem fram komu, öll músikin var leikandi létt og örugglega flutt. Seinni hluti dagskrárinnar, sem fer fram árið 1983 í hótelinu, sem byggt hefur verið á brún  Hvanneyrarskálar, þar sem aðeins koma fram "frægustu og beztu skemmtikraftar heimsins",

mun vera verk meistara Gerhards Schmidt. Þar koma Lúðrasveitin og nemendur Tónskólans

fram í ýmsum gervum, en nokkrir þekktir leikarar bæjarins og ungar stúlkur, aðallega úr 4. bekk Gagnfræðaskólans aðstoða. Er skemmst frá því að segja, að þetta var hin bezta skemmtun. Húsfyllir var og flytjendum ágætlega tekið. Skemmtunin mun verða endurtekin í kvöld eða annað kvöld og er þess að vænta, að skörð þau, er inflúenzan hafði höggvið í raðir flytjenda, verði þá fyllt".



                                     Siglfirðingur í apríl 1963

"Andrés Láka eins og hann var jafnan kallaður tók út af vélbátnum Hring þ. 9. apríl, en stundum er eins og margt gerist í einu og sama vetfanginu og  mikið sé lagt á suma, því Guðrún Jóhannsdóttir móðir Andrésar lést aðeins fjórum dögum fyrr eða þ. 5. apríl eftir að hafa átt við mikla vanheilsu að stríða".

Því er svo við að bæta að minningarathöfn um Andrés og jarðarför móður hans var sameinuð í eina og sömu athöfnina í Siglufjarðarkirkju sem fór fram þ. 17. apríl 1963. Nokkru eftir sjóslysin var farið af stað með söfnun á Siglufirði til styrktar aðstandendum þeirra sem létust og söfnuðust 79 þúsund krónur sem var stórfé árið 1963.

 

NEISTI segir í aprílblaði sínu frá sjóslysadeginum 9. apríl.

"Þriðjudagurinn 9. apríl s.l. var mikll sjóslysadagur hér við land. Þann dag f órust 16 vaskir menn. Þessir fómst:

AF M.B. HRING FRÁ SIGLUFIRBI:

Andrés Þorlaksson, 36 ára.

Kristján Ragnarsson, 23 ara. Lætur eftir sig unnustu hér í Siglufirði.

M.B. VALUR FRÁ DALVÍK:

Sigvaldi Stefánsson, lætur eftir sig konu og 3 börn

Gunnar Stefánsson, bróðir Sigvalda, ókvæntur.

M.B. HAFÞÓR FRÁ DALVlK:

Tómas Pétursson. Lætur eftir sig konu og 3 börn.

Tómas var sonur Péturs Baldvinssonar, verkstjóra hér í bæ.

Bjarmar Baldvinsson, föðurbróðir Tómasar, 24 ára. Lætur eftir sig konu og 1 barn.

Jóhann Heigason, 43 ára. Lætur eftir sig konu og 4 bórn.

Óli Jónsson, 48 ára. Lætur eftir sig konu og 2 börn

Sólberg Jóhannsson, 18 ára. Ókvæntur.

M.B. SULAN FRÁ AKUREYRI.

Kristján Stefánsson, háseti, Kópavogi. Kvæntur og átti börn.

Þórhallur Ellertsson, 1. vélstjóri, Akureyri. - Kvæntur.

Kristbjörn Jónsson, háseti, Akureyri, ókvæntur.

Hörður Ósvaldsson, háseti, Akureyri. Kvæntur.

Viðar Sveinsson, Akureyri. Ókvæntur.

M.B. MAGNI FRÁ ÞÓRSHÖFN:

Elías Gunnarsson. Lætur eftir sig konu og 3 börn.

Þórhallur Jóhannesson. Lætur eftir sig konu og eitt bam.

Það er mikill og sár harmur kveðinn við fráfall allra þessara vösku sjómanna. Aðstandendum hinna látnu eru hér færðar dýpstu samúðarkveðjur".



Sagt er frá jarðskjálftanum á Siglufirði í aprílblaði Einherja. Sá sem þetta ritar man vel eftir jarðskjálftanum þrátt fyrir að vera þá aðeins átta ára. Þsð var eiginlega svolítið óraunverulegt að koma út morguninn eftir og sjá efsta hluti skorsteinsins af Hverfisgötu 12 liggja á götunni fyrir neðan húsið, meðan Elli Ísfjörð horfði svolítið undrandi til skiptis á stromptoppinn á götunni eða upp á þakið sem hafði nú týnt einu af einkennum sínum . Líklega hefur það ekki farið fram hjá neinum sem inni var þegar hann brotnaði af, valt eftir þakinu og fram af brúninni. En það liðu ekki margir dagar þar til allt var komið á sinn stað.

 



"Ólafur Jóhannesson alþingismaður fimmtugur.

Þann 1. marz s.l. varð Ólafur Jóhannesson, alþ.m. fimmtugur. Ólafur er Fljótamaður. Þó Ólafur sé ekki nema fimmtugur er hann þegar þjóðkunnur maður, bæði sem fræðimaður á sviði laga og stjórnmálamaður. Ólafur sameinar á skemmtilegan hátt íhygli og raunsæi vísindamannsins og ákafa starfsþrá og framfarahug hins frjálslynda stjórnmálamanns. Þess vegna er hann góður fulltrúi Fraimsóknarflokksins á Alþingi og þess fólks í héraði, sem aðhyllist samvinnu og samhjálp þeirra, sem erfiðustu hafa aðstöðuna. Allir, sem kynnast Ólafi finna, að þar fer traustur maður og vel gefinn, með víðtæka þekking stjórnmálamannsins á högum lands og þjóðar. Þeir íbúar Norðurlandskjördæmis vestra, sem fylgja Framsóknarflokknum að málum, eru þakklátir yfir því, að Ólafur skuli vera einn af fulltrúum l>eirra á Alþingi. Margir af íbúum þriggja sýslna og tveggja kaupstaða, flytja Ölafi beztu árnaðaróskir með línum þessum á fimmtugsafmælinu og vænta þeir mikils af störfum hans á ókomnum árum".

(Einherji í apríl 1963)

 

Í Aprílmánuði greinir Mjölnir frá fólksfækkun í plássinu.

"Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar um mannfjölda í landinu, voru íbúar Siglufjarðar 2.625 um síðustu áramót og er það fimm færra en árið áður. Virðist því sem um 60 manns hafi flust úr bænum sl. ár ef gengið er út frá eðlilegri mannfjölgun, þ.e. mismuninum á tölu lifandi fæddra og látinna. Er þessi fækkun í fljótu bragði kynlegt fyrirbæri".


Í sama mánuði greindi Mjölnir frá því að Siglfirðingar sigruðu í öllum greinum á skíðalandsmótinu 1963 nema flokkasviginu. Úrslit í einstökum greinum voru eins og hér segir:


10 km. ganga 15-16 ára.

Björn Ólsen Siglufirði

Sigurjón Erlendsson Siglufirði

Skarphéðinn Guðmundsson Siglufirði.

-

10 km. ganga 17-19 ára.

Þórhallur Sveinsson Siglufirði

Kristján Guðmundsson Ísafirði

Gunnar Guðmundsson Siglufirði

-

15 km. ganga 20 ára og eldri.

Birgir Guðlaugsson Siglufirði

Sveinn Sveinsson Siglufirði

Guðmundur Sveinsson Siglufirði

-

Svig Karla

Jóhann Vilbergsson Siglufirði

Kristinn Benediktsson ísafirði

Svanberg Þórðarson Ólafsfirði

-

4x10 km. boðganga.

Sveit Siglufjarðar

(Sveinn, Guðmundur, Þórhallur og Birgir).

Sveit Ísafjarðar

-

Stórsvig karla.

Jóhann Vilbergsson Siglufirði

Kristinn Benediktsson Ísafirði

Hafsteinn sigurðsson Ísafirði

-

Svig kvenna.

Kristín Þorgeirsdóttir Siglufirði

Jakobína Jakobsdóttir Reykjavík

Jóna Jónsdóttir Ísafirði.

-

Stórsvig kvenna.

Kristín Þorgeirsdóttir Siglufirði

Jakobína Jakobsdóttir Reykjavík

Jóna Jónsdóttir Ísafirði.

-

Tvíkeppni í svigi og stórsvigi karla

Jóhann Vilbergsson Siglufirði

Kristinn Benediktsson Ísafirði

Árni Sigurðsson Ísafirði

-

Tvíkeppni í svigi og stórsvigi kvenna

Kristín Þorgeirsdóttir Siglufirði

Jakobína Jakobsdóttir Reykjavík

Jóna Jónsdóttir Ísafirði.

-

Sveitakeppni í svigi.

Sveit Ísafjarðar

Sveit Akureyrar

Sveit Siglufjarðar

-

30 km. ganga.

Birgir Guðlaugsson Siglufirði

Sveinn Sveinsson Siglufirði

Guðmundur Sveinsson Siglufirði

-

Ekki reyndist unnt að ljúka mótinu vegna veðurs fyrr en röskum mánuði eftir að aðalkeppnin fór fram, en úrslit urði þá eins og hér segir:

-

Stökk 20 ára og eldri

Skarphéðinn Guðmundsson

Sveinn Sveinsson

Jónas Ásgeirsson

-

Stökk 17-19 ára

Þóhallur Sveinsson

Haukur Jónsson

Sigurðiur B. Þorkellsson

-

Stökk 15-16 ára

Björn Ólsen

Sigurjón Erlendsson

Kristjá Ó. Jónsson

-

Norræn tvíkeppni 20 ára og eldri

Sveinn Sveinsson

Birgir Guðlaugsson

-

Norræn tvíkeppni 17-19 ára

Þórhallur Sveinsson

Haraldur Erlendsson

-

Stökkkeppnin fór fram uppi í Hvanneyrarskál.



Þessi mynd birtist í Siglfirðing í maí 1963 og það er greinilega farið að huga að kosningum, enda ekki nema mánuður til þeirra.

"Teiknarinn sýnir hvar Gils Guðmundsson undirritar inngöngu sína og leifanna af Þjóðvamarflokknum sáluga til "framhaldstilveru" í kærleiksfaðmi kommúnista, en á biðstofunni bíður ritstjóri Tímans, Þórarinn Þórarinsson, stundum nefndur "11. þingmaður kommúnista." Það, sem teiknarinn gefur í skyn, er fyrst og fremst, hver sú "breiðfylking" verði, sem kjósandinn geti valið í stað samstjórnar lýðræðisflokkanna, ef honum býður svo við að horfa. Annarsvegar Viðreisnarstjórnin, hinsvegar vinstri stjórn, þar sem kommar hefðu lyklavöld og oddaaðstöðu. Viðgangur Framsóknarflokksins er kommúnistum von til valda, og er báðum flokkunum þetta Ijóst, þótt framsóknarmenn kjósi að bera kápuna á báðum öxlum fram yfir kjördag. Varla er hægt að segja, að þessi nýja "fylking" vinstri aflanna sé þrungin sérstöku aðdráttarafli fyrir

lýðræðislega þenkjandi og frjálslynt fólk".

Til gamans má gjarnan geta þess að í næsta tölublaði af Siglfirðing blasti við á forsíðu fyrirsögnin "GLÆSILEGUR FRAMBOÐSFUNDUR SJÁLFSTÆÐISMANNA". Hugsanlega hefði orðalegað verið með öðrum hætti ef einhver annar flokkur hefði staðið fyrir fundinum og þá án tillits til þess hvað fór þar fram, en svona er nú þessi tík, - pólitíkin.



Kaupfélag Siglfirðinga eða KFS sem hafði rekið verslanir við Túngötu og Aðalgötu hugði nú á miklar framkvæmdir á lóðinni þar sem mjólkurbúðin og skrifstofurnar stóðu við Túngötu. Þessa auglýsingu mátti sjá í öllum bæjarblöðunum í maímánuði.

 

Þann 20 maí varð Siglufjarðarkaupstaður 45 ára.

 

Í maíblaði NEISTA segir frá því að Þorfinna í Hlíð hafi orðið sextug þ. 3. maí sl. og sendu "Siglfirskir jafnaðarmenn" eins og það er orðað í blaðinum henni sínar bestu árnaðaróskir á þessum merku tímamótum.



                                                  Siglfirðingur í maí 1963

Og það skal sérstaklega tekið fram til að fyrirbyggja allan misskilning að tegundarheiti harmonikkunnar er SKANDALI

 

Í júnímánuði var heilmikil umfjöllun um fyrirhuguð Strákagöng og Strákaveg í Siglfirðingi. Hér er svolítill úrdráttur úr henni.

"Þær vegaframkvæmdir, sem fyrirhugaðar eru á þessu ári umfram þær, sem beinlínis eru ákveðnar á fjárlögum, eru fyrst og fremst bygging Reykjanesbrautar, Ennisvegar á Snæfellsnesi og Strákavegar við Siglufjörð. Er kostnaður við þessar framkvæmdir samtals áætlaður um 80 milljónir króna. Myndi þá heildarfjárfesting

við vegaframkvæmdir á árinu vera um 140 millj. króna, þar sem framkvæmdir, sem greiddar eru með fjárveitingum í fjárlögum og af benzíngjaldi, nema 60 millj. króna. Vegaviðhald er ekki talið til fjárfestingar, en áætlað er, að kostnaðurinn við það nemi 63 millj. króna á árinu 1963."



"Myndin sýnir Sigluf jarðarkaupstað.Lengst til hægri sést fyrirhugað vegarstæði Strákavegar út Hvanneyrarströnd. Neðst til hægri sést land það, sem fer undir fyrirhugaða flugbraut. Til vinstri sjást byrjunarframkvæmdir við jarðgöngin.lagningu Strákavegar verður lokið í ágústmánuði 1965".



                                      Greinin hér að ofan birtist í maíblaði NEISTA.

 

Í júníblaði Mjölnis er sagt frá sigurgöngu Siglfirðinga á ýmsum sviðum.

Siglfirðingar unnu í öllum greinum á Skarðsmótinu.

KS-ingar heimsóttu Ísfirðinga og unnu 6-4.

Lúðrasveit Siglufjarðar tók þátt í landsmóti lúðrasveita og hlaut hún ásamt stjórnanda sínum Gerhard Schmidt, áberandi bestu undirtektir áheyrenda



Þessi auglýsing frá Snyrtistofunni Gránugötu 25 birtist í í júlíblaði Einherja. Þarna er auglýst fjögurra kvölda snyrtinámskeið, sápuspænir, herrasokkar, hin daglega starfsemi og auðvitað snyrtivörur í úrvali. Það ætti ekki að vera erfitt að muna símanúmerið því það er stutt, - 287.




Gránugata 25 er ekki til í dag en mér reiknast til að fyrirtækið hafi verið í svokölluðum Alfonsbrakka sem var rifinn í kring um 1980. Húsið hafði þá gegnt margs konar hlutverki meðan það stóð á grunni sínum, meðal annars var það læknisbústaður um skeið. En líklega var þó ekki um neinn eiginlegan grunn að ræða undir húsinu því að öllum líkindum hefur það verið byggt ofan á síldarplan sem stóð svo auðvitað á staurum sem reknir voru ofan í sjávarbotninn á þeim tíma sem fjöruborðið lá alveg fast upp við Gránugötuna. 

En hver skyldi hafa staðið að rekstri snyrtistofu á Siglufirði árið 1963? Allar upplýsingar um þennan rekstur er vel þegnar.


Einng er sagt frá því í sama blaði Einherja að Mjólkusamlag KEA á Akureyri og KS á Sauðárkróki hafi opnað nýja mjólkurvörumiðstöð þ. 14. júní sl. við Aðalgötu númer 7 á Siglufirði. Af því tilefni var forráðamönnum Siglufjarðarkaupstaðar, svo og blaðamönnum og fréttaritara útvarpsins hin glæsilegu húsakynni hinnar nýju mjólkursölustöðvar.


Daníel Þórhallsson útgerðarmaður og söngvari Varð fimmtugur þ. 3. ágúst.

Eyþór Hallsson skipstjóri Varð sextugur þ. 4. ágúst.

Siglfirðingur í ág. 63.



Það hefur eflaust komið mörgum á óvart á sínum tíma þó einhverjir hafi vel vitað af jarðhitanum, að reynt yrði að bora eftir heitu vatni á Siglufirði.

Þessi stórfrétt birtist í Siglfirðingi í septembermánuði.



Og það var skammt stórra högga á milli því í sama blaði mátti lesa um Æskuna, hið nýja og glæsilega skip sem keypt hafði verið til bæjarins.



Einhverji greindi í septemberblaði sínu frá hæstu gjaldendum útsvars sem óhætt er að segja að sé fróðleg lesning hálfri öld síðar. Skýringin á því hvers vegna söltunarstöðvar eru svo fyrirferðamiklar á listanum er ekki langsótt því að alls var 68.608,5 þús. tonnum af síld landað á Siglufirði þetta sumar og sést af því að síldarævintýrið er enn í fullum gangi.

 

Mjölnir sem kom einnig út í september eftir þriggja mánaða sumarfrí, býður Ragnar Arnalds velkominn til starfa á Alþingi og þakkar Gunnari Jóhannssyni gött starf á sama vettvangi í 10 ár, en hann lætur nú af þingmennsku.

Á sömu síðu (þ.e. forsíðunni í Mjölni) er Þóroddi Guðmundssyni síldarsaltanda og fyrrverandi alþingismanni óskað til hamingju með sextugsafmæli sitt þ. 21 júlí.



Í sama blaði Mjölnis er þessi auglýsing frá VERÐLAGSSTJÓRA, en líklega yrði einhver klumsa og klóraði sér í höfðinu við ef svona auglýsing birtist í nútímanum.


  

Auglýsingar í Enherja í septembermánuði.



Og bæjarútgerðin gekk ekki sérlaga vel og hafði raunar ekki gert það um árabil. Einhverji fjallaði um málið samkvæmt sinni pólitísku sýn septemberblaðinu en einnig mátti lesa um gæftir  og nýju talstöðina í Siglufjarðarskarði.

 

"Togarinn Hafliði hefur þegar fyrir nokkru lagt upp sinn fyrsta "túr" í haust, 147 tonn, eftir hálfsmánaðar útivist. Siglufjarðarbátar hafa nú hafið róðra. Fyrst báta hóf Særún veiðar (30 sept.) og hefur aflað 3-5 tonn í róðri. Hringur og Æskan hafa einnig hafið róðra og leggja upp hjá hraðfrystihúsi SR".


"Undanfarin ár hefur "Vörn", kvennadeild Slysavarnafélagsins í Siglufirði, unnið að því að komið yrði á símasambandi við skýlið í Siglufjarðarskarði. Um miðjan sept. sl. var sett tipp í skýlinu talstöð. Landssíminn hefur smíðað stöðina og látið setja hana upp. Jafnframt hefur ifarið fram gagngerð viðgerð á skýlinu sjálfu. Það verk hefur vegamálastjórnin annazt. Í skýlinu eru ýmis nauðsynleg tæki og útibúnaður, og er það gjöf frá kvennadeiildinni "Vörn"




Í októberblaði Siglfirðings birtist þessi magnaða mynd sem var önnur í röð "mynda mánaðarins", en óvíst er hve lengi sú skemmtilega hugmynd entist.

 

Mjölnir í októbermánuði

"Furðulegt ráðslag.

Hráefni handa Niðurlagningarverksmiðjunni á Siglufirði keypt frá Seyðisfirði!

Nýlega hefur frétzt, að ráðamenn Niðurlagningarverksmiðju S.R. á Siglufirði hafi keypt nokkur hundruð tunnur af síld handa verksmiðjunni til vinnslu í vetur. Seljandinn mun vera söltunarstöð Sveins Benediktssonar á Seyðisfirði! Er þetta merkilegt ráðslag, þegar þess er gætt, að á Siglufirði voru saltaðar nærri 70 þús. tunnur í sumar, svo unnt hefði átt að vera að útvega þar þetta magn, sem mun vera um 350 tunnur af sykursíld og kryddsíld, en flutningskostnaður á tunnu frá Seyðisfirði til Siglufjarðar er sennilega á annað hundrað krónur á tunnu. Að undanförnu hefur það verið haft mjög á orði, að rekstur þessarar verksmiðju bæri sig ekki. Er það sannarlega ekki furða, ef svipaðarar ráðdeildar gætir á fleiri sviðum reksturs hennar eins og við þessi hráefniskaup".

 

Þ. Ragnar Jónasson varð fimmtugur þ. 27. október s.l.

Siglfirðingur í okt.

 

Í nóvemberblaði Mjölnis segir frá því að sóknarnefnd Siglufjarðarkirkju ákvað að leigja út kirkjuloftið undir tónlistarkennslu. Leigan mun vera kr. 1.500 á mánuði sem sumum fannst full dýrt miðað við að um menniningartengda starfsemi er að ræða og eftirfarandi visa fylgir umfjölluninni.

Opnar standa Drottins dyr,

dýrtíðin því veldur,

öðruvísi er allt en fyrr,

aðgangurinn seldur.

-

Í Einherja er fjallað um sama mál og fleira því tengt (einnig í nóvember) án nokkurra athugasemda um okurleiguna á kirkjuloftinu.

"TÓNLISTARRÁÐ STOFNAÐ

SAMSTARF BEGGJA TÓNLISTARSKÓLANNA Í SIGLUFIRDI

"Nú undanfarið hafa átt sér stað miklar breytingar í skipulagi tónlistarmála í Siglufirði. Gengið hefur verið frá stofnun tónlistarráðs. Í því eiga sæti fulltrúar frá sex eftirtöldum aðilum, þrír frá hverjum: Karlakórnum Vísi, Tónlistarskóla Vísis, Söngfélags Siglufjarðar, Tónskóla Siglufjarðar, Lúðrasveit Sigluf jarðar og Kirkjukór Siglufjarðar, alls 18 fulltrúar. Ábyrgðarmaður Tónlistarráðsins hefir verið kosinn Hafliði Guðmundsson. Ennfremur hefir verið ákveðið að báðir tónlistarskólarnir hefji samstarf, og hefir skólastjóri verið ráðinn Gerhard Smith, sem starfað hefir við Tónskóla Siglufjarðar undanfarin ár og stjómað Lúðrasveitinni. Aðrir kennarar

hafa verið ráðnir, Mohamed Massouidikh og Sigurður Gunnlaugsson. Kennt verður á píanó, orgel, fiðlu og ýmis blásturshljóðfæri. Um 40 nemendur hafa þegar látið skrá sig, auk þess sem 9 og 10 ára bekkir barnaskólans fá kennslu í skólanum. Tónlistarskólinn mun hafa aðsetur á kirkjuloftinu".



Þar var líka að finna þessa stórskemmtilegu frétt um nýja eyju sem reis úr sjó sunnan Vestmannaeyja. Auðvitað voru strax uppi vangaveltur um hvað hún ætti að heita og þett er líklega ein af þeim frumlegri. Eyjan hlaut síðan nafnið Surtsey.

 

"Miðvikudaginn 27. nóvember minntist Kvenfélag Sjúkrahúss Siglufjarðar þess að 10 ár eru liðin frá stofnun þess. Markmið með stofnun þess mun hafa verið að safna fé til tækjakaupa fyrir sjúkrahúsið og síðar vegna byggingu nýs húss. Félagið mun hafa frá því það var stofnað hafa lagt til kr. 1,3 millj. kr. til sjúkrahússins, en það svarar til þess að hver Siglfirðingur hafi lagt fram kr. 500,00 með frjálsum framlögum. Fyrsti formaður félagsins var frú Bjarnveig Guðlaugsdóttir, en núverandi stjórn skipa: frú Hildur Svavarsdóttir, frú Ragnheiður Sæmundson, frú Kristine Þorsteinsson, frú Anna Snorradóttir og frú Dagbjört Einarsdótitir".

Siglfirðingur í nóv.



Í nóvemberblaði NEISTA segir frá því að frú Halldóra Björnsdóttir Bakka hafi orðið 100 ára þ. 5. nóvember s.l.


Frú Hólmfríður Rögnvaldsdóttir kona Páls Erlendssonar organista, varð 65 ára, 17. nóv. sl. Þau hjón eru kunn af margháttaðri félagsmálastarfsemi, bæði í Skagafirði og Siglufirði, og heimili þeirra hefur margur gist og mætt rausn og góðvild. Blaðið ,Siglfirðingur" á þeim margt og mikið að þakka, og sendir þeim beztu kveðjur í tilefni afmælisins.


Föstudaginn 29. nóv. sl. lézt á Sjúkrahúsi Siglufjarðar frú Jóhanna Jónsdóttir, tæpra 90 ára gömul. Hún var jarðsungin 10. des. sl. Föstudaginn 13. des. sl. lézt frú Guðrún Vilhjálmsdóttir á heimili Vilhjálms Hjartarsonar, sonar síns, tæpra 99 ára gömul. Siglfirðingur vottar aðstandendum þessara heiðurskvenna samúð sína.

Þessar tvær tilkynningar hér að ofan birtust í desemberblaði Siglfirðings.


Siglfirðingur sagði frá afmæli barnaskólans, en öll bæjarblöðin fjölluðu reyndar um þennan merkisatburð.

"Barnaskólinn varð 80 ára og barnaskólahúsið 50 ára árið 1963. Barnaskóli Siglufjarðar var stofnsettur í des. 1883. Var fyrst kennt í lítilli stofu í litlu tómthúsbýli, sem þá hét Búðarhóll, við fremur léleg og fátækleg skilyrði. Fyrsti skólastjóri var Helgi Guðmundsson, þáverandi héraðslæknir. Þegar leið að síðustu aldamótum var litla stofan í Búðarhóli orðin ofsetin vegna vaxandi barnafjölda. Var þá ráðist í að byggja timburhús á horni Grundargötu og Aðalgötu þar sem Pósthúsið stendur núna.

Árið 1913 var hafizt handa og byggt stærra skólahús úr varanlegu efni, sem valinn var staður þar sem það nú stendur".



                                       Ljósmynd úr Siglfirðing 1963

 

Hlöðver Sigurðsson setti samkomuna og stjórnaði henni.

Margar góðar gjafir bárust skólanum, m.a. mynd af Guðm. Skarphéðinssyni, fyrrverandi skólastjóra, en hún var gefin af frú Þorfinnu Sigfúsdóttur. Þessarra merku tímamóta var minnst í Siglufjarðarkirkju þ. 18. desember.

Aðalræðuna flutti Baldur Eiríksson formaður fræðsluráðs, Andrés Hafliðason fyrrverandi formaður skólanefndar minntist bernsku sinnar og barnaskólaáranna. Einnig flutti sr. Ragnar Fjalar Lárusson  ávarp og einhverjir fleiri stigu í pontu.

Við upphaf skólaárs haustið 1963 voru nemendur að verða u.þ.b. 350 og tveir nýjir kennarar hófu þar störf. Siglfirðingurinn Guðný Pálsdóttir og Sigríður Lára Árnadóttir. Því er svo við að bæta að Arnfinna hætti kennslu þá um vorið.

-

Á fundi bæjarstjórnar rétt fyrir jólin var samþykkt að greiða úr bæjarsjóði uppbót á laun kennara vegna skólaársins 1962-63 Greiddar skyldu verða kr. 8100 til skólastjóra en kr. 600 til kennara fyrir hvern kennslumánuð. Nam upphæðin  kr. 65.000 til kennara barnaskólans en kr. 45.000 til kennara Gagnfræðaskólans eða samtals kr. 110.000.



                                                  NEISTI í desember.

 

Í jólablaði Mjölnis var sagt frá snjóflóði sem olli stórtjóni við Fossveg.

Aðfaranótt Jóladags byrjaði að snjóa nokkuð í Siglufirði og á jóladag gerði aftaka hríðarveður.

"Jóladaginn allan og aðfaranótt annars jóladags geysaði iðulaus stórhríð og kyngdi niður meiri snjó en menn muna til að gert hafi um langt árabil, á svo skömmum tíma. Um klukkan 9.30 að morgni annars jóladags skeði sá hryggilegi atburður að snjóflóð féll úr fjallshlíðinni norðan

Hvanneyrarár. Snjóflóðið skall á húsi síldarleitarinnar "Hvanneyrarhlíð", vesturhlið hússins brotnaði undan þunga snjóskriðunnar. Húsið gekk af grunni sínum um 3-4 metra og skúrbygging sem áföst er norðan við húsið brotnaði mikið. Húsið sjálft fylltist af snjó, en unnið hefur verið að því í dag að bjarga tækjum síldarleitarinnar undan skemmdum. Á ferð sinni áfram niður hlíðina skall flóðið á tveimur íbúðarhúsum, númer 8 og númer 10 við Fossveg. Á Fossvegi 8 búa hjónin frú Magðalena Hallsdóttir og Guðlaugur Karlsson og í nr. 10 frú Ólína Björnsdóttir og Hólmsteinn Þórarinsson. Blaðið hefur átt tal við frú Magðalenu Hallsdóttir Fossvegi 8. Þau hjón vöknuðu við geysilegan hávaða um kl. 9.30 um morguninn. Flóðið skall á vesturhlið hússins og húsið skalf og nötraði. Flóðið braut glugga og hurðir á vesturhlið hússins, og fyllti um Ieið forstofu, eldhús og skála af snjó. Skemmdir urðu mjög miklar í þessum hluta hússins. Augljóst er hversu mikið lán það er að enginn skyldi vera

staddur í þessum hluta hússins, hver sem þar hef ði verið staddur hefði ekki sloppið óskaddaður. Eignatjón þess fólks, sem fyrir þessu óláni varð er mjög tilfinnanlegt, þar sem óvíst er um vátryggingu. Fólk, sem í nágrenninu býr, brá skjótt við og veitti alla þá hjálp sem möguleg var, svo og lögregla bæjarins. Blaðið hefur verið beðið um að færa þessum aðilum kærar þakkir fyrir hjálpsemina. Að kvöldi annars Jóladags féllu margar smærri snjóskriður úr fjallshlíðinni vestan bæjarins, en munu ekki hafa valdið tjóni".


Rafveita Siglufjarðar varð 50 ára á árinu.



NEISTI segir í desember frá kvikmyndasýningum ungs og upprennendi Siglfirðings, Ólafs Ragnarssonar í Sjómannaheimilinu.




Í desemberblaði Einherja er viðtal við Gerhard Schmidt sem hafði tekið við sem skólastjóri hinna sameinuðu tónlistarskóla á Siglufirði eftir að Sigursveinn D. Kristinsson flutti úr bænum. Það fer hér á eftir óstytt.

"Í síðasta tbl. Einherja er sagt frá þeim breytingum, sem átt hafa sér stað, viðkomandi tónlistarmálum í Siglufirði, stofnun tónlistarráðs og sameiningu hinna tveggja tónlistarskóla, sem starfað hafa undanfarin ár. Þar voru og einnig taldir upp þeir kennarar, sem ráðnir hafa verið að skólanum yfirstandandi skólaár. Einherji vill nú gefa lesendum sínum kost á að kynnast einum þeirra lítillega, skólastjóranum sjálfum, þjóðverjanum Gerhard Schmidt. Heima á hinu aðlaðandi heimili skólastjórahjónanna, að Hólavegi 37, svaraði Gerhard Schmidt eftirfarandi spurningum, á meðan frú Gisella Schmidt bar fram ágætar veitingar.

Hvenær og hvar ert þú fæddur?

Ég er fæddur 14. sept. 1929 í Romeburg í Thiiringen í Mið-Þýzkalandi, en það er 15

þús. íbúa bær. Þar stundaði faðir minn hljómlistarstörf m.a stjórnaði hljómsveit.

Hvað um nám þitt?

Ég byrjaði snemma að spila á hljóðfæri, en þó var víst ekki meiningin að ég gerði það

að lífsstarfi mínu, því ég varð útlærður vefari, áður en ég hóf reglulegt tónlistarnám, en þá fór ég í tónlistarskólann í Gera, sem er allstór borg, 8 km frá fæðingarbæ mínum. Síðan fór ég á tónlistarskólann í Erfurt og lauk þaðan atvinnumannaprófi í músik árið 1954. Síðan innritaðist ég i tónlistar háskólann í Leipzig, og lauk prófi þaðan vorið 1961, og var trompetleikur aðal námsgreinin.

Hvernig bar það svo til, að þú réðst að flytjast til Siglufjarðar?

Í skólanum hékk svört auglýsingatafla. Einn daginn var þar auglýst eftir tónlistamanni

til Siglufjarðar, sem kenna skyldi við tónskólann þar og stjórna lúðrasveit. Ég fór að íhuga, hvort tiltækilegt væri fyrir mig að sækja um þetta starf. Útvegaði ég mér allar þær bækur, sem hægt var að fá um Ísland, en þær reyndust ekki margar, og reyndi að gera mér hugmyndir um hvernig þar væri umhorfs. Einnig talaði ég við prófessor Griesch, en hann var kennari Páls  Isólfssonar og þekkti hér eitthvað til af afspurn. Hvatti hann mig til að fara, því hér byggi gott fólk og örugglega engir Eskimóar, svo ég ákvað að reyna þetta og kom til Siglufjarðar 26. sept. 1961, eða haustið eftir að ég útskrifaðist úr háskólanum og hefi starfað hér síðan.

Þekktir þú enga Íslendinga áður en þú komst hingað?

Í háskólanum stundaði nám í píanóleik Agnes Löve og einnig þekkti ég mann hennar, Ingimar Jónsson, sem stundaði íþróttanám í Leipzig.

Hvernig hefur þér svo líkað við fólkið og starfið hér?

Eg vil segja það fyrst, að ég gerði mér ekki rangar hugmyndir um landið eða fólkið, sem hér býr. Þetta hefur reynzt nokkurn veginn í samræmi við það, sem ég var búinn að hugsa mér. Okkur hjónunum hefur ekki leiðst hér, við höfum kunnað vel við fólkið og mér hefur líkað vel að starfa að tónlistarmálum \hér. Tónlistaráhugi virðist vera töluverður og tónlistarhæfileikar þeirra, sem ég hefi starfað með eru góðir, raddgæði söngfólksins sömuleiðis, en fyrsta skilyrði til að hægt sé að ná góðum árangri er að fólkið hafi ánægju af að syngja og leika á hljóðfæri og það þarf að hafa ákveðið mark að keppa að. Ennfremur er það ekki lítils virði að finna út hvers konar hljómlist og tónverk hrífa nemandann og þá jafnframt hvað er við hæfi áheyrendanna.Mér virðist að létt lög hafi hér almennasta hylli.

Gætir þú hugsað þér að dvelja hér hjá okkur eítthvað framvegis?

Um það er ekki svo gott að segja neitt ákveðið. Við hjónin erum bæði einkabörn foreldra okkar og að sjálfsögðu hefðu þau ekki á móti þvi að við kæmum heim til ættlandsins. Hinsvegar get ég sagt nokkuð ákveðið, að ég hefi ekki löngun til að skipta um dvalarstað á Íslandi, t. d. flytja til Reykjavíkur eða annað, svo vel hefur mér líkað hér, og vil ég nota tækifærið og bera fram einlægar þakkir til allra Siglfirðinga og þá sérstaklega til þeirra, sem ég hefi starfað með. Og undir þessi þakkarorð tekur frú Gisella og bætir við, að sér hafi fundizt hún vera hér eins og heima hjá sér.

G. J."

Gerhard Schmidt lést í Þýskalandi í septembermánuði árið 2010 eftir að hafa átt við veikindi að stríða um nokkurt skeið.


Þessar skemmtilegu jólakveðjur birtust svo í desemberblaði Siglfirðings á því herrans ári 1963


Heimildir eru að mestu fengnar úr bæjarblöðunum Siglfirðingi, Mjölni, Einherja og Neista, en einnig lítlega úr bókunum Brauðstrit & barátta og Siglufjörður 1818-1918-1968. Ekki má svo gleyma að nokkrar ljósmyndir eru ættaðar úr Ljósmyndasafni Siglufjarðar og einhverju hafði svo skrifarinn við að bæta beinustu leið frá sjálfum sér.

25.12.2013 06:58

Gleðileg jól



903. Ég óska öllum ættingjum mínum, vinum og vandamönnum, svo og öllum þeim sem hingað líta inn, gleðiríkrar og góðrar jólahátíðar, farsældar og fiðar. Megi nýtt ár síðan verða bæði gæfuríkt og gjöfult í alla staði.

Myndina hér að ofan tók ég á Digranesveginum í Kópavogi, en ekki verður séð betur en að eigendur hússins hafi horft til hennar ameríku þegar lýsingin var hönnuð.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 307
Gestir í dag: 53
Flettingar í gær: 364
Gestir í gær: 57
Samtals flettingar: 319566
Samtals gestir: 35191
Tölur uppfærðar: 29.4.2024 17:47:05
clockhere

Tenglar

Eldra efni