18.04.2007 00:08

Ferðin upp í Hafnarfjall.

364. Eins og fram hefur komið var ég á Siglufirði um páskana og labbaði á spariskónum upp í Skollaskál á Skírdeginum. Það varð að sjálfsögðu til þess að daginn eftir eða á Föstudaginn langa vaknaði ég með svo gríðarlega strengi um allan skrokkinn, að óhætt væri að tala um heila strengjasveit en nokkuð minna. Dagurinn var því mjög erfiður framan af en ég velti fyrir mér gömlu húsráði sem ég hafði heyrt af fyrir margt löngu, þ.e. að hægt væri hreinlega að ganga strengina úr sér. Eftir því sem á daginn leið varð mér ljósara að eitthvað þyrfti ég að gera í mínum málum, og ákvað að láta reyna á hvort eitthvert sannleikskorn væri í sögunni um "úrgöngu strengja." Ég hafði sem fyrr hjálpar og fylgdarhundinn Aríu með í ferðinni, og hélt sem leið lá suður að Stóra-Bola þar sem hann endar syðst á Suðurgötunni. Það var með talsverðum erfiðismunum að ég gekk upp sneiðinginn við rætur hans og sóttist ferðin seint að mér fannst.



Ég rölti hægt af stað upp slóðann sem liggur upp eftir garðinum, og eftir svolitla stund varð ég að setjast niður og hvíla mig svolítið. Ég smellti þá mynd af þessum hluta snjóflóðavarnargarðanna, því ég taldi þarna vera verðugt myndefni sökum stærðar sinnar og mikils jarðrasks sem þarna hefur átt sér stað. Þar sem áður hafði mátt sjá aflíðandi gróna hlíðina, var komið lítið fell sem skyggði örlítið á bæinn þaðan sem ég sat.
Eftir svolitla stund stóð ég upp og hélt áfram.

Ég skal fúslega viðurkenna að ég settist oft niður á leiðinni upp Stóra-Bola. En fyrir þá sem ekki vita þá er það nafnið á snjóflóðavarnargarðinum sem sést svo vel á myndinni hér að ofan, nefndur eftir samnefndum skíðastökkpalli sem var á svipuðum slóðum á árum áður. Litli boli var og er svolítið sunnar í hlíðinni.



Það eru liðin heil 40 ár síðan ég kom síðast upp í Fífladali sem eru í raun engir dalir, heldur svolítill slakki inn í fjallið fyrir ofan bæinn. Þessi "dæld" í fjallið er nægilega stór til þess að frá efri hluta bæjarins er sjáanleg svolítil brún, sem hefur fengið margan manninn til að trúa því að þarna væri eitthvert undirlendi en ekki bara aðeins minni halli eins og raunin er. En fyrir ofan og sunnan Fífladali má sjá tígullega kletta bera við himinn frá réttu sjónarhorni. Þegar ég var lítill strákur á brekkunni voru þeir oft kallaðir Tröllakirkja, hvort sem sú nafngift er einhvers staðar að finna yfir skráð örnefni.



Þarna uppi var miklu kaldara en niður í bæ. Allt var gaddfrosið og hvergi markaði í jarðveginn þar sem farið var um. Ég komst fljótlega að því að aðstæður þarna voru miklum mun erfiðari en í Skollaskálinni, enda var ég ásamt fylgdarhundinum Aríu kominn í miklu meiri hæð en þar.


Sums staðar þurfti ég að krækja upp eða niður fyrir harðfennið á giljum og lautum, því það var beinlínis lífshættulegt að leggja út á það. Það var hart eins og gler, flughált og svo var hallinn orðinn alveg ótrúlega mikill. Ef ég reyndi að ganga melinn, þá var jarðvegurinn þar lítið skárri við að eiga. Engin leið var að sparka far ofan í hann vegna frostsins, og ef ég reyndi að drepa niður fæti var nokkuð öruggt að ég rann af stað. Mér flaug í hug að líkast væri að ég reyndi að ganga á óteljandi mörgum kúlulegum, en eins og allir hljóta að skilja getur slíkt vart talist skynsamlegt.



Sums staðar þurfti ég að klífa í klettabeltinu rétt fyrir neðan fjallstoppinn til að krækja fyrir ófærurnar. Myndin hér að ofan er tekin næstum því beint niður og sjónarhornið sýnir engan veginn hve bratt er þarna. Það var einmitt þarna í klettunum að úrið slitnaði af mér og lenti á lítilli syllu svolítið neðar. Og eftir talsvert klifur niður og síðan aftur upp, var úrið sem ég fékk í 25 ára afmælisgjöf frá afa mínum og nafna í vasanum.



Ferðin gekk seint og tíminn leið. Ég hafði ætlað mér að fara svolítið lengra upp og mun utar í fjallið, en degi var tekið að halla og ljóst var að tímaáætlunin gat tæpast gengið upp úr því sem komið var. Á myndinni hér að ofan er efsti hluti bæjarins í hvarfi við brún Fífladala, en það vakti athygli mína hvað sjórinn var undarlega grænblár.



Ég var kominn út og upp að snjóflóðavarnargirðingunni sem er talsvert fyrir ofan miðja Fífladali og skammt fyrir neðan fjallsbrúnina. Þarna hef ég heldur aldrei komið en nú áttaði ég mig á stærð þessara mannvirkja sem virðast vera frekar lítilsigld séð neðan úr bænum. Það sem sýnast vera venjulegir girðingarstaurar eru kannski eins og einhvers konar girðingarstaurar, nema að þá eru þeir alveg örugglega af stærðinni XXL. Ég sá að nú yrði ég að snúa við, því tíminn var alveg hlaupinn frá mér og svo var gilið framundan ófært með öllu. En nú fór málið að vandast. Bæði var að ég gætti þess ekki að fara sömu leið til baka, og svo er bara mun verra að fara niður en upp við þessar aðstæður. Ég fetaði mig í áttina suður frá girðingunni og gilinu. En eftir skamma stund komst ég hvorki ekki lengra í þá áttina, upp eða niður fjallið. Ég reyndi að snúa við en það gekk alls ekki.



Brattinn var hreint ótrúlegur og ég fylgdist með Aríu sem fór um allt og fannst sá gamli vera full rólegur. Ég öfundaði hana svolítið af því að hafa helmingi fleiri fætur en ég, því það var alveg greinilegt að fleiri og hlutfallslega stærri snertifletir við jörðina skiptu höfuðmáli á þessum slóðum. Ég fékk þá snjöllu hugmynd að taka hana til fyrirmyndar, reyndi að loka öllum vösum vel og vandlega og lagðist síðan á fjóra fætur. Ég varð að finna heppilegan stein eða steinnibbu sem stóð upp úr freðinni jörðinni til að stíga eða hafa tak á. Síðan varð ég að þreifa fyrir mér ýmist með höndum og fótum eftir einhverju sem var bæði þurrt og frosið fast. Þannig gat ég komist svolítið áleiðis til baka. Þá hringdi síminn og ég svaraði standandi á tveimur fótum og hvílandi á annarri hendinni.
"Jú, jú, ég fer alveg að koma í mat. Ég er hérna uppi í fjalli að rölta með hundinn og fer bara að drífa mig."
"Krúnk, krúnk," heyrðist rétt hjá mér og ég leit upp.
Hljóðið var óhugnanlegt þarna í kyrrðinni og ég fann ískaldann hroll skríða upp hryggsúluna.
Krummi sveif nánast við hliðina á mér og mér sýndist hann vera eitthvað að skoða mig. Það var engu líkara en hann væri kyrr í loftinu, eða kannski brá mér bara svo mikið að tíminn stöðvaðist svolitla stund. Hvað mundi krummi gera ef ég rúllaði af stað niður hlíðina og þó ekki væri nema rotaðist um stund, en ég vissi svo sem allt um það. Ég fann fyrir svolitlum skjálfta í hnjánum, en verra var að ég var eiginlega hættur að finna fyrir höndunum vegna kulda. Ég heyrði meira krúnk og sá að tveir hrafnar höfðu bæst til viðbótar í áhorfendahópinn. Mér fannst rannsakandi augnaráð þeirra stinga mig í augun, og ég hugsaði mér að ef nokkurn tíma væri staður og stund til að vanda sig þá væri það líklega núna. Mér sóttist ferðin alveg ofurhægt og eftir skamma stund hringdi síminn aftur.
"Ég er á leiðinni. Ég er kominn svona 10 metra síðan áðan. Já, já, ég veit að það er liðinn hálftími síðan, en við erum samt á leiðinni en ég er bara með svo mikla strengi síðan úr skollans Skollaskálarferðinni í gær."
Næsta lota hófst og ég þreifaði mig áfram. Ferðin sóttist jafn hægt og áður og ég var orðinn ansi mikið blóðrisa á höndunum sem ég var löngu hættur að finna fyrir. Nú var ég kominn að hæfilega stórum steini til að setjast á og ég var rétt sestur þegar síminn hringdi rétt einu sinni.
"Við erum á leiðinni. Þetta tekur allt sinn tíma. Heyrumst eftir korter."
Eftir korter var það allra versta afstaðið og hrafnarnir flognir á braut, væntanlega til að leita að einhverju sem var vænlegra til átu. Síminn hringdi rétt þegar ég gat tyllt mér niður á næsta stein.
"Ég er kominn eina 30 metra frá því að þú hringdir fyrst. Ég lenti í nokkurs konar sjálfheldu. Nei láttu björgunarsveitina eiga sig, þetta er alveg komið núna."
Ég hafði verið tæpa tvo tíma að komast þessa 30 metra, en hallinn var núna miklu minni og ég var kominn niður úr klettunum. Eftir að hafa haft hendur í vösum í dágóða stund var blóðið farið að renna aftur og ég hélt af stað, neðar og neðar. Ég hljóp yfir harðfenni í gili þar sem brattinn var hverfandi og mun minna frost en uppi undir toppi fjallsins.



Ég var kominn fram á brúnina og sá uppspretturnar sem ég var búinn að gleyma að væru þarna. En heilmikið magn tærasta lindarvatns sprettur upp undan steinunum í urðinni á Fífladalsbrúninni.



Og auðvitað varð ég að stilla myndavélina á "self portrait" áður en neðar yrði haldið því ég var um það bil búinn að jafna mig eftir skelfinguna sem greip mig svolítið ofar. Svo gott sem alveg búinn á því eins og sjá má. Ég skal viðurkenna það fyrir hverjum sem vita vilja að ég varð í alvörunni alveg skíthræddur þegar verst horfði. Nú fann ég mun meira fyrir strengjunum en áður, og sóttist nú ferðin seint þeirra vegna, því sennilega hef ég alveg gleymt þeim tímabundið skömmu áður.



Græna línan sýnir leiðina sem farin var á spariskónum Föstudaginn langa, daginn eftir ferðina upp í Skollaskál til að ganga úr sér strengina.
Rauður hringur merktur 1, er Tröllakirkja.
Rauður hringur merktur 2, er snjóflóðavarnargirðingin.
Rauður hringur merktur 3, er þar sem ég lenti í sjálfheldunni.
Rauður hringur merktur 4, eru uppspretturnar í Fífladölunum.
Þegar ég var svo kominn niður á veg, lá næst fyrir að ganga að stæðinu við rætur Stóra-bola þar sem bíllinn var. Það tók ótrúlega langan tíma því ég virtist vera orðinn eitthvað svo stuttur til hnésins. Reyndar lögðust strengirnir frá deginum áður og þreytan frá göngunni upp í Hafnarfjall, á eitt með að gera mér lífið erfitt og göngulagið með undarlegra móti. Þegar ég var svo kominn á Aðalgötuna neita ég því ekki að ég þurfti eiginlega að notast við bæði hendur og fætur til að skreiðast upp stigann.
"Þú ert nú meiri vitleysingurinn" var sagt við mig þegar upp var komið, sem var náttúrulega alveg hárrétt.

Fleiri myndir frá þessu fráleita ferðalagi eru í möppu í myndaalbúmi merkt "Páskar á Sigló."

16.04.2007 00:38

Svolítið dapurlegur skúr.



363. Mér finnst yfirbragð skúrsins eiginlega vera svolítið dapurlegt. Það er kannski bara eðlilegt í þessu tilfelli og ætti ekki að vera neitt öðru vísi, því hann stendur á planinu við nýja kirkjugarðinn.

13.04.2007 20:49

Allt nema lækurinn



362. Við fyrstu sýn gæti það vafist fyrir einhverjum að átta sig á hvað þetta gæti eiginlega verið.



Myndin er tekin inn um ræsið sem er í tiltölulega lítilli notkun enn sem komið er. Staðsetningin vakti athygli okkar sem áttum leið þarna framhjá, en það er rétt fyrir austan nýju brúna yfir Hólsá sem heitir reyndar Fjarðará fyrir þá sem ekki vita. Það vantar eiginlega ekkert nema lækinn.

11.04.2007 04:31

Ferðin upp í Skollaskál.

361. Þegar ég fyrir síðustu áramót horfði svolítið til baka sá ég að ferðirnar norður á Sigló höfðu verið með færra móti á því herrans ári 2006. Sérstaklega þegar málið er skoðað út frá þeirri staðreynd að áhugann hefur aldrei skort nema síður sé, húsnæði er vissulega fyrir hendi og svo er að ég held mannskepnunni eðlislægt að vitja róta sinna og uppruna. Ég hugsaði mér að bæta úr þessu og setti mér það markmið að vera á ferðinni nyrðra að jafnaði a.m.k. einu sinni í mánuði þetta árið. Þessi síðasta ferð á heimaslóðir um páskana er fjórða ferðin í ár, og virðist því flest benda til þess að áætlunin gæti alveg átt það til að standast, eða eins og ein vinur minn segir gjarnan: Það er ekkert víst að það klikki.

Að þessu sinni var tíkin Aría með í ferð, en hún hefur áður valhoppað um Siglfirskar grundir og virðist kunna því afar vel. Það var því við hæfi að þegar ég sagðist síðdegis s.l. fimmtudag sem var reyndar Skírdagur, ætla að fá mér svolítinn bíltúr og kannski labbitúr í ofanálag, að hún kæmi með mér. Hún brást vel við þessari hugmynd og faðmaði mig að sér á sinn einstaka hátt. Við fórum yfir á gamla flugvöllinn og staðnæmdust á norðurenda hans. Þar stigum við út úr bílnum, ég á tveimur jafnfljótum en hún á fjórum og gengum af stað eftir bakkanum í áttina að Evanger rústunum. En þó fórum við ekki langt í þá áttina, því ég var búinn að skipuleggja ferðalagið með sjálfum mér og engum öðrum, og hafði gætt þess vandlega að segja ekki nokkrum frá því áður en lagt var af stað. Það hefði vísast verið ávísun á skoðanaskipti sem ég taldi óþörf og ónauðsynleg með öllu, en nú skyldi nefnilega endurtaka leikinn síðan í október og halda upp í Skollaskál. Í þetta skipti skyldi þó halda markvisst og rakleiðis alveg þráðbeinustu leið upp melana fyrir norðan Ráeyri og koma upp á sunnanverða brúnina, eða fara sem sagt stystu leið að settu marki en ekkert vera að dóla fram og aftur fjallið án sýnilegs tilgangs. Snjóföl var á allri hlíðinni alveg niður í fjöru, en melarnir voru nokkurn vegin auðir.

Aría kunni þessari algerlega "taumlausu" gönguferð vel og það virtist ekki há henni eins mikið og mér að leiðin væri öll á brattann. Í hvert sinn sem ég settist á stein til að kasta mæðinni sem var nokkuð oft, fór hún í stuttar könnunarferðir um næsta nágrenni. Hún kunni sér ekki læti og velti sér upp úr snjónum svo hann festist við feldinn og gerði hana óneitanlega svolítið vetrarlega í framan.



Núna veit ég líka hvernig orðið "kald-RANI" hefur líklega upphaflega orðið til, og þá lýsingarorðið "kaldranalegur" sem getur vart annað en verið dregið af því. Hún átti það nefnilega til að stinga snoppunni í taumlausri gleði sinni undir kragann og að hálsi mér þar sem ég taldi mig ekkert endilega þurfa á svo mikilli kælingu að halda.



Eftir því sem ofar dró breyttust útlínur fjallahringsins og nýir toppar, brekkur, gil og lautir ýmist komu í ljós, urðu sýnilegri eða tóku jafnvel á sig nýja og áður óséða lögun. Mér finnst alltaf jafn skrýtið að sjá að Hólshyrnan er í raun allt allt öðru vísi í laginu en hún virðist vera þegar horft er á hana frá bænum. Á sumri komanda er ég búinn að setja mér það markmið að ganga á hana og ná góðum skotum af bænum og firðinum. Ágætt að láta sem flesta vita af því svo ég geti vart annað en staðið við stóru orðin.



Ferðin upp tók skemmri tíma en ég hafði þorað að vona, þrátt fyrir að ég væri á spariskónum eins og svo oft áður. Þegar ég stóð þarna á brúninni fannst mér enn og aftur svolítið undarlegt hvað alltaf er miklu minni snjór í fjöllunum vestan megin fjarðar. Kannski hefði ég frekar átt að klifra upp eftir hlíðunum þeim megin að þessu sinni. En hér stóð ég og útsýnið var frábært, þrátt fyrir svolítinn hríðarhraglanda annað veifið.



Við gengum aðeins inn eftir skálinni og meðfram læknum sem hvarf inn í snjógöng þegar innar dró. Þetta er bara nokkuð myndarlegur lækur sem sprettur þarna út undan rótum hnjúkanna tveggja sem gnæfa yfir fjörðinn. Þessi skál getur ekki verið neitt annað en hreint út sagt alveg ótrúlegur staður heim að sækja að sumarlagi þegar sól skín í heiði, lækurinn hjalar og blómin anga, en þetta er um það bil að verða full dramatísk lýsing inn í ímyndaða og óupplifaða framtíðina.



Það er svolítið undarleg tilfinning að ganga spölkorn inn í skálina, setjast niður og horfa á vesturfjöllin gægjast upp fyrir brúnina en sjá hvorki bæinn né bláan fjörðinn. Það er ekki alveg laust við að kyrrðin verði svolítið afgerandi og vart verði við örlítinn skammt af angurværri einsemd eða einhverri náskyldri kennd í huga þess sem hefur alið mestallan sinn aldur í þéttbýli, þar sem ysinn og þysinn eru órjúfanlegur hluta af tilverunni og margbreytilegu mannlífinu.



En það var ekki ætlunin að stoppa mjög lengi að þessu sinni, heldur var ferðin fyrst og fremst farin til að viðhalda tilfinningunni hvernig er að stelast í svolitlu leyfisleysi og allt að því banni. Ég ætla að koma hérna aftur síðsumars þegar himininn verður blár, snjórinn farinn og sólin er komin hátt á loft. Þá verður líka jafnvel farið eitthvað lengra til eða hærra upp, - hver veit. Nú skal hins vegar halda sömu leið niður og upp var farið, og síðan rakleiðis heim því það er farið að styttast í kvöldmat og ég er að verða svangur.

"Sjáðu tindinn þarna fór ég" segir í kvæðinu, en ég fór reyndar bara upp í Skollaskál að þessu sinni. Kannski verður það tindurinn næst, hver veit. En línan sem er á myndinni sýnir leiðina eins og hún var farin að þessu sinni. Ferðin tók tvo tíma og þrjár mínútur sem ég er alveg sáttur við miðað við aldur, líkamlegt ástand, fótabúnað og að það var svo sem ekkert verið að flýta sér neitt verulega.

En páskaævintýrið var síður en svo úti, því þessi ferð var aðeins forsmekkurinn að því sem á eftir fylgdi. Eiginlega bara pínulítil æfing fyrir það sem gerðist næst, en ég ætla að fara nánar yfir þann hluta málsins einhvern næstu daga.

En ég er búinn að setja talsvert af myndum í myndaalbúm í möppu merkta "Páskar á Sigló," og von á mun fleirum.

04.04.2007 19:50

Reimleikar á Aðalgötunni



                                             Aðalgata 28.

360. Það var um mitt sumarið 1981 að ég fékk næturgesti á Aðalgötu 28 þar sem ég bjó á því herrans ári.

Forsaga þess máls var sú að ég hafði haustið áður sent inn lag í Söngvakeppni sjónvarpsins sem komst alla leið í 10 laga undanúrslitin. Ég var að vonum hæstánægður því það hafði spurst út að alls hefðu borist 550 lög. Lagið hét "Eftir ballið" og við "Miðaldamennirnir" höfðum tekið það upp í hljóðveri árið 1978 þegar Selma söng með okkur. Og þar sem til var upptaka af því síðan þá, þótti okkur alveg gráupplagt að stinga kassettu í umslag og setja í póst. Ekki komust menn á toppinn með framlag sitt að þessu sinni því lag sem heitir "Af litlum neista" vann keppnina með glæsibrag, en árangurinn var engu að síður vel viðunandi. Að keppninni lokinni þótti okkur rétt að láta reyna á hvort hægt væri að fylgja málinu eitthvað eftir og fórum til Akureyrar það sem lagið var tekið upp á ný, en Erla Stefánsdóttir sem hafði sungið með hljómsveitinni Póló féllst á að vera gestasöngkona. Það var svo um sumarið að hún kom frá Akureyri ásamt Leó Torfasyni gítarleikara og Viðari Eðvarðssyni saxófónleikara og söng með okkur á Hótel Höfn. Stækkuðu Miðaldamenn því talsvert að mannafla, gæðum og umfangi, en hljómsveitin var um þetta leiti aðeins tríó. Fleiri voru með í för, þar á meðal vinkona Erlu. Um nóttina var svo mannskapnum skipt niður á bæina til að gista, og kom það í minn hlut að hýsa m.a. vinkonuna. Hún gisti í litlu herbergi í austurenda íbúðarinnar og urðum við ábúendur ekki vör við neitt óeðlilegt fyrr en um morguninn, en þá kom vinkonan fram ósofin með öllu og illa til reika. Við spurðum forviða hverju sætti, en hún sagði okkur þá að hún hefði ekki fest blund vegna mannsins sem var að ganga upp og niður stigann sem lá upp við vegginn á herberginu í alla nótt. Hún skildi ekki hvað þessum manni hafði getað gengið til með svo undarlegu háttarlagi, og vildi fá skýringar á þessu fáránlega framferði hans. Það varð svolítið vandræðaleg þögn en svo fór ég að segja henni frá stiganum sem hafði einu sinni legið upp á loft einmitt þar sem herbergisveggurinn stóð núna. Viðbrögðin voru mestmegnis skelfingarsvipur og undarleg hljóð sem bárust frá hinum syfjaða næturgesti sem sat við eldhúsborðið. Þegar nokkuð hafði slegið á mesta eftirskjálftann vegna upplýsinganna um að ónæðið væri annars heims, vildi hún koma sér út úr húsinu sem allra, allra fyrst. Við horfðum því á eftir henni hálf hlaupa við fót niður stigann og út á götu. Útidyrnar lokuðust með svolitlum skelli og síðan hef ég engar spurnir haft af stúlkunni þeirri arna.



                                   1981 útgáfan af Miðaldamönnum.

Það var svo heilum tveimur áratugum síðar að Birgir Schiöth heimsótti mig þegar hann var staddur í bænum. Við gengum um húsið og hann benti mér á hvar hann hafði fæðst, hverju hefði verið breytt og einnig hvar hefðu verið tveir stigar sem ætlaðir voru þjónustufólkinu sem bjó á loftinu. Ég sagði honum frá áðurnefndu atviki og hann hló við og kinkaði ákaft kolli. Maðurinn sem gekk upp og niður stigann hafði verið þarna frá því að húsið var byggt, en enginn vissi nein deili á honum. Aldrei hafði neinn látist innan veggja hússins frá því að það var byggt árið 1930, en hann bætti því ekkert væri að óttast því gesturinn sem enginn sá eða þekkti hið minnsta til, væri í raun hinn besti karl.

02.04.2007 10:54

Nýtt skjaldarmerki Hafnarfjarðar



359. Ekki tel ég neitt ofsagt
þó talað sé um mikil tímamót byggðar og mannlífs í Hafnarfirði eftir nýyfirstaðnar kosningar um deiliskipulag í suðurbænum. Deiliskipulag var það vissulega og ekkert annað sem íbúarnir kusu um, og hlýtur það að teljast einsdæmi hvað Hafnarfirðingar eru orðnir áhugasamir um skipulagsmál. Þeir eru svo innilega áhugasamir um skipulagsmálin að það jaðrar við trúarofstæki. En því miður bera þeir ekki gæfu til að fagna nýfengnu ofuríbúalýðræði sem hrundi nýverið beint ofan í hausinn á þeim nánast af himnum ofan. Nokkuð sem svo einstætt í sinni röð hérlendis og einnig víðast hvar erlendis, að það á sér varla nokkra hliðstæðu í hinum vestræna, frjálsa og kapítalíska heimi. Alltaf þurfa einhverjir svartir (í þessu tilfelli grænir) sauðir að rjúfa friðinn og skera upp herör gegn rödd skynseminnar. Ekki hafa þeir vitsmuni til að lifa í sátt við framfarasinnað, vel upplýst og friðsamt fólk og stuðlað með því að betri nýtingu og beislun náttúrunnar, heldur misnota nýfengið og dýrðlegt frelsið af vankunnáttu og vanþakklæti til að kljúfa samfélagið í herðar niður.

En eftir storminn lifir aldan og nú er svo komið að sundraðar fjölskyldur, fjölgun hjónaskilnaða, vinslit margra aldavina, nágrannaerjur og ýmis konar huglægur terrorismi er það sem setur hvað mestan svip á þetta áður fyrr fyrirmyndar bæjarfélag. Allt þeim að kenna sem voru á móti þeim úrslitum sem gert var ráð fyrir að fengjust. En til allrar hamingju var kosningin svo háleynileg, að þó ég sé með einhverjar léttvægar vangaveltur um málið getur að sjálfsögðu engan rennt hinn minnsta grun í hvað ég kaus.

En hvað um það, þetta er búið og gert í fyrstu lotu og það verður þess vegna bara að kjósa aftur síðar með von um heppilegri niðurstöðu. Víst er að betra er að fara á kostum en taugum eins og sagt er, og allt skynsama og fordómalausa fólkið lætur að sjálfsögðu ekki einhver misheppnuð skúffuskáld, trefla og annað lopapeysulið rugla sig í ríminu með því að hafa uppi einhverjum smávægilegan goluþeytingi vegna málsins. ?Forpokun í fyrirrúmi? getur í sjálfu sér aldrei verið markmið, og þess vegna hlýtur það að vera hin glæsta framtíðarsýn allra skynsamra manna og kvenna að hafa það að yfirskini um hríð að græða sárin og halda áfram að tala fyrir málinu og beita markvissri innrætingu og áunninni þekkingarstjórnun í því skyni. En það verður að hafa nærgætnina og yfirvegunina bæði í hávegum og fyrirrúmi, og sá á afar lævísan hátt fræjum efasemda í huga þeirra félagslegu nátttrölla sem hafa meðvitaðar kosningamisgjörðir á samviskunni. Eiginlega verður að gera það þannig að þeir sem við er rætt hafi ekki hinu minnstu hugmynd um að verið sé að heyja aðra kosningabaráttu. Og þegar svo kemur að kosningunum með litlum sem engum fyrirvara, hlýtur niðurstaðan að stuðla að auknu góðæri, farsæld og uppgangi, jafnt fyrir bæjarbúa, aðra Íslendinga svo ég tali ekki um stórvini okkar Ameríkanana. Það hefur nefnilega enginn klifið þrítugan hamarinn svo vit sé í nema það hafi verið gert í Hafnarfirði. Máltækið ?ef þú ert ekki sammála mér þá ertu óvinur minn,? á ekki við í okkar siðmenntaða samfélagi, heldur er mun vænlegra að vera einlægur í málflutningi sínum og röksemdafærslu þó maður meini ekkert með því.

Þess vegna hef ég hannað nýtt skjaldamerki Hafnarfjarðar til nota á hinum síðari og væntanlega betri tímum í þeirri von að það verði til að auka á samhygð bæjarbúa, vinarþel þeirra í garð hvors annars og sem tákn heilbrigðri skynsemi til framtíðar.

Og því er við að bæta að sá sem síðast hlær.... hugsar hægast.

30.03.2007 20:29

Ferð á Sigló í marsmánuði



358. Það vantaði ekkert upp á móttökurnar hvað veðurblíðuna og afburðafagurt útsýnið varðaði, þegar ég skrapp á heimaslóðir nýverið. Ég er núna búinn að finna mér nýjan "stall" ef svo mætti segja, og prílaði upp á hann til að taka þessa mynd. Eiginlega er ég að meina stað sem mér finnst henta alveg einstaklega vel til myndartöku af bænum. Ofan við nyrsta hluta Hólavegar eru fjárhúsin hans Hafsteins Hólm og þangað upp eftir liggur svolítill stígur. Ef gengið er upp hann en síðan beygt til suðurs, komum við að sneiðing sem liggur skáhallt upp á norðurenda snjóflóðavarnargarðsins. Þaðan er mjög góð yfirsýn yfir bæinn, en einnig er upplagt að rölta göngustíg sem liggur eftir garðinum til suðurs. Slíkur göngutúr hressir, bætir og kætir rétt eins og sagt er um ópalið, einkum þó á góðviðrisdögum eins og þeim sem hér má sjá.



Ég skrapp fram að Hóli og staldraði þar við nokkra stund. Vélsleðamenn voru talsvert á ferðinni og einn þeirra fór mjög hátt upp í Hólshyrnuna. Við sem fylgdust með bjuggumst þá og þegar við að sjá sleðann sporðreisast, því brattinn var verulegur. En þegar sleðamaðurinn var farinn að nálgast klettana sem liggja mjög hátt í hyrnunni, tók hann u-beygju og fór að sjálfsögðu hálfu hraðar niður eins og við var að búast.
Var það ekki svona sem platan var skorin í Hlíðarfjalli á síðasta ári og búið til snjóflóð?
Það var einhver sem spurði og Andrés Stefáns taldi að þetta væri aðferðarfræðin í hnotskurn. En sjá mátti nokkur smáflóð í fjöllunum í kring.



Óli Þór var að koma af gönguskíðum og bjó sig undir að fara heim á F-21.



Bekkjarbróðir minn Andrés Stefáns og Kári Hreins, fyrrum nágranni af Brekkunni voru að dytta að troðaranum.

Það er ekki amalegt yfir að líta skíðasvæði Siglfirðinga þarna í blíðunni. Hvað er hægt að hafa það flottara, því hér er snjór lengur en á öllum hinum stöðunum og miklu meira af honum í ofanálag. Fer ekki að verða kominn tími á svolitla markaðssetningu, því eins og við sem þekkum til vitum svo vel þá er Skarðdalssvæðið sannkölluð paradís á jörð fyrir unnendur skíðaíþróttarinnar?

Þegar ég keyrði aftur í bæinn sá ég að það var stórstraumsfjara. Ég gat ekki annað en staldrað svolítið við á móts við Langeyrina og rölti út á leirurnar þar sem ég hafði dvalið bæði löngum og mörgum stundum sem barn og unglingur. Mig rekur samt ekki minni til að hafa séð svona mikið af botninum nokkurn tíma áður. Ætli það sé búið að grynnast svona mikið á þessum árum sem liðin eru, eða eru einhverjar aðrar skýringar á ástandinu. Ég gekk út á "miðjan fjörð," síðan langleiðina að flugvellinum og svo út eftir í átt að endanum á uppfyllingunni þar sem "Bás" hefur aðstöðu.

Ég gekk eftir hörðum sandbotninum en sums staðar voru svolitlir pollar sem ég sveigði hjá. Leifar af lagís sem sjáfarföllin höfðu brotið en ekki náð að fljóta út, settu skemmtilegan svip á þetta umhverfi sem ég hafði ekki farið um í hartnær fjóra áratugi. Þetta varð því á vissan hátt margföld upplifun. Þarna hafði fyrir margt löngu síðan verið gróskumikil kajakútgerð, oft höfðum við stjakað okkur um leirurnar á lagísjökum og þarna höfðum við guttarnir oft vaðið leirurnar á fjöru og tekið land hinum megin fjarðar. Eitt sinn fór ég á DBS hjólinu mínu þessa leið þrátt fyrir að ekki væri alveg háfjara. Það var auðvitað miklu sniðugra því ég hjólaði heimá leið eftir veginum sem liggur inn fyrir fjarðarbotninn þegar kominn var heimferðartími, en aðrir ferðalangar þurftu þá að ganga.

Íshraflið náði nokkuð langt út eins og sjá má, og ég hélt áfram göngunni eftir sandbotninum.

Þarna er ég kominn á móts við endann á stálþilinu og horfi þaðan yfir að flakinu af Skoger. Ég velti fyrir mér hvort ég gæti gengið að því ef ég væri sæmilega stígvélaður, en þar sem ég er aðeins á kuldaskóm legg ekki í þann áfanga. Sandrif sem ég hef aldrei séð áður og vissi ekki að væri til, gægist eins og lítil eyja upp fyrir sjávarflötinn milli flaksins og enda stálþilsins. Annað flak nokkru norðan við Skoger er nú vel sýnilegt. Hvað ætli það fley hafi heitið á sínum tíma og síðan hvenær ætli það hafi legið þarna á þessum vota hvílustað?

En landið stækkar ekki bara og stækkar, því sjórinn tekur svolítinn toll af mannanna verkum. Og þó að Ægir konungur sé ekki nein hamhleypa til verka í niðurrifsstarfseminni á þessum slóðum, nartar hann rétt aðeins eins og svolítið forvitnislega í röndina á hinu nýja landi. Þarna hefur steypuafgangi verið hellt yfir jarðveginn og myndar plötuna ofan á, en sjórinn hefur kroppað í undirlagið og myndað svolítið holrými. Lítið mál í sjálfu sér en myndefnið fangaði athygli mína, því stundum er það formið en ekki stærðin sem kallar.

En ekki voru allir dagar svona, því engu var líkara en veðurguðirnir myndu skyndilega eftir því að Síldarbærinn er staðsettur norður undir heimskautsbaug. Þeir fengu svolítið "hóstakast" sem entist í nokkurn tíma og svona kom það mér fyrir sjónir. Myndin er tekin út um dyrnar á "Kaupfélaginu" upp á gamla mátann, þrátt fyrir að staðurinn heiti Samkaup-Úrval í dag.

Eftir vikudvöl á heimaslóðum þótti mér tími kominn til að melda mig á suðvesturhorninu í svolitla stund áður en ég færi norður aftur. Á suðurleiðinni var eins og oft gerist á Íslandi, boðið upp á ýmis konar veðurafbrigði. Stundum gjörbreyttust aðstæður á hreint ótrúlega stuttum tíma. Þessi mynd er tekin í Sléttuhlíðinni, en u.þ.b. einum km. sunnar var heiðskírt og skyggni ágætt og komið besta veður sem hélst þar til við nálguðumst Vatrnsdalinn í Húnavatnssýslu.

Hér er keyrt út úr éljagangi sem byrgði sýn og hægði för, sem eitt og sér er líklega allt í lagi í umdæmi Blönduóslöggunnar.

Þarna sjást sömu fjöll og á næstu mynd fyrir ofan, en ég verð að viðurkenna að ég veit ekki hvað þau heita. En vissulega eru þau mjög löguleg og hljóta því að bera stórfengleg nöfn. Eftir þetta bar fátt eitt til tíðinda á suðurleið, en stefnan er aftur sett norður um páskana.

Svo vil ég ítreka það boð mitt sem allt eins má túlka sem áskorun til þeirra sem rekast hingað inn, að setja loppu eða skófar sitt í gestabókina meðan nóg er plássið og merkja sér þar svolítið svæði. Nokkrar myndir til viðbótar eru í "Myndaalbúmi" í möppu merktri Sigló 4.

28.03.2007 09:44

Nýja síðan og ljósmyndir frá Hafnarfirði.

357. Þá eru menn skriðnir undan feldi sínum með allt útúrhugsað og pælt, og búnir að undirbúa jarðveginn fyrir einskonar framhaldslíf í bloggheimum af mikilli kostgæfni. Nú fær síðan sem notast hefur verið við síðustu tvö árin hvíldina sína a.m.k. í bili, en mun væntanlega standa áfram þar sem hún er með öllu sínu. Hvert ætti hún svo sem annars að fara?

 

Á síðasta ári fór ég að setja myndir inn á http://www.123.is/leor/ og hvöttu nokkrir góðir menn mig til að flytja alveg. Ég notaðist þó í fyrstu aðeins við síðuna undir "bloggmyndir," því vissulega þurfti að sækja "urlið" á einhvern stað. En einnig virtist mér síðan geta verið fyrirtaks geymsla undir efni sem getur þá alltaf verið opin þeim sem vilja líta inn, og er því notagildi hennar tvöfalt á við það sem áður var sem hlýtur að teljast hinn ágætasti kostur. Svo býður hún upp á læsingar af ýmsu tagi sem blog.central gerir ekki, hvimleiðu auglýsingafarganinu er ekki lengur til að dreifa og svo er ég svo bjartsýnn að eðlisfari að ég geri að sjálfsögðu ráð fyrir einhverjum ófyrirséðum kostum eins vel og það hljómar. Meðal annars allra þessara þátta vegna þótti mér vera kominn tími til að taka skrefið til fulls flytjast með allan pakkann á einn og sama staðinn. Er það ekki annars það sem "lengra komnir" kalla hagræðingu.

 

Og þar sem þannig er nú komið geri ég ráð fyrir að ég nýti myndplássið betur og setji inn mun meira að myndefni en hingað til hefur verið gert í þeirri von að fleiri en ég megi og vilji njóta. Þar sem vaknaði alveg að óþörfu klukkan hálf-fimm í morgun og gat með engu móti sofnað aftur, safnaði ég saman nokkrum myndum sem teknar hafa verið í Hafnarfirði og allra næsta nágrenni undanfarin tvö ár. En það er um það bil sá tími sem ég hef átt myndavél, ef frá eru talin síðustu tvö árin í barnaskóla og það fyrsta í gagganum.

 

Hér að neðan er svolítið sýnishorn úr Hafnarfjarðarmöppunni, en ég er líka að fara í gegn um Siglufjarðarmyndirnar sem teknar voru á dögunum. Þær verða væntanlega "mættar" hingað innan tíðar.

 

Að lokum: Endilega setjið loppufar ykkar í gestabókina á nýju síðunni.







              



























             



















Og fleiri Hafnarfjarðarognágrennismyndir eru í "Hafnarfjarðarmöppu" ef þú smellir á "myndaalbúm."

26.03.2007 09:46

Svartir kettir.


356. Og til að ná mér niður eftir blogghremmingarnar undanfarið, leit ég inn á vísindavefinn og skoðaði föstudagssvörin sem eru léttmeti af betri gerðinni. Þar rakst ég á eftirfarandi sem ég vil endilega deila með sem flestum.

Ef svartur köttur gengur fram hjá manni, þá boðar það ógæfu. Ef hann gengur aftur til baka, hverfur þá ógæfan eða tvöfaldast hún?

Vísindavefurinn gekkst fyrir viðamikilli rannsókn á þessu efni í samvinnu við Kattavinafélagið. Viðföngum rannsóknarinnar var skipt í fjóra hópa og hver hópur var látinn gangast undir eina af eftirfarandi tilraunum:

1. Svartur köttur látinn ganga í veg fyrir viðfang.

2. Svartur köttur látinn ganga í veg fyrir viðfang, látinn snúa við og ganga aftur til baka.

3. Svartur köttur látinn ganga í veg fyrir viðfang og svo látinn ganga afturábak til baka.

4. Svartur köttur látinn ganga afturábak í veg fyrir viðfang.

Ýmsir örðugleikar komu upp við framkvæmd rannsóknarinnar. Til að mynda reyndust kettirnir sem notaðir voru ekki eins samvinnuþýðir og vonir stóðu til. Auk þess kom í ljós eftir á að einn af köttunum, Snúður að nafni, var með hvítan blett á bringu og því ekki nothæfur í rannsókninni. Hann hafði litað blettinn svartan til að geta verið með þar sem hann ásældist fiskbitann sem veittur var að launum fyrir dagsverkið. Þær rannsóknarniðurstöður sem tengdust Snúði voru því ekki marktækar.

Eftir tilraunirnar voru viðföng beðin að skrá hjá sér öll tilvik sem báru merki um heppni eða óheppni næstu 4 vikur. Að ári liðnu voru svo tekin viðtöl við viðföng þar sem þau voru beðin að meta hvort þau lifðu gæfuríku lífi.

Mestur fjöldi óhappatilvika fyrstu 4 vikur eftir tilraun reyndist vera hjá hópi B, það er þeim hópi sem svartir kettir höfðu gengið í veg fyrir fram og til baka. Þó varð einn úr þeim hópi fyrir því láni að fá happdrættisvinning og annar fann fjögralaufasmára. Tveir úr hópi C brutu spegil á þessu tímabili og einn úr hópi A missti óvenju oft af strætisvagni. Einn úr hópi D tapaði í kjöri um formennsku í húsfélagi og taldi víst að svarta kettinum væri um að kenna. Ekki voru þó allir á einu máli um hvort það ætti að teljast lán eða ólán.

Munur á lífshamingju milli hópanna að ári liðnu var ekki marktækur. Lífshamingja reyndist sambærileg við þá sem mældist hjá eigendum svartra katta sem notaðir voru sem samanburðarhópur í rannsókninni.

Eins og sjá má af þessu gaf rannsóknin enga einhlíta niðurstöðu. Hugsanlega er ófullkomnum mælitækjum þar um að kenna. Við höldum því áfram að vonast eftir framförum í rannsóknum á þessu sviði.

26.03.2007 09:03

Hlandfata og hrákadallur.


355. Það var settur linkur á síðuna mína frá b2 á dögunum, og það gerðist ekki bara einu sinni heldur tvisvar. Í fyrra skiptið var bent á pistilinn um fasteignamarkaðinn og húsnæðið á Baldursgötu, en það sem þar er fjallað um finnst mér eiginlega verulega óeðlilegt í alla staði og spurningar vakna m.a. um heilnæmi markaðarins og ábyrgð fasteignasala gagnvart hugsanlegum kaupanda. En ég eins og fleiri sem uppgötva að lesendafjöldinn margfaldast skyndilega án sýnilegrar ástæðu og einhverra skýringa, hélt auðvitað að teljarinn væri bilaður. Ég fylgdist furðu lostinn með straumnum sem lá inn á síðuna og síðan út aftur án þess að skilja neitt eftir sig nema tölulegar upplýsingar um fjölda heimsókna.

Í seinna skiptið var bent á söguna um LEO súkkulaðið, en þar sem ég hafði ekki minnsta grun um hverju ég átti von á setti ég pistilinn um ævintýrið á Bergstaðastrætinu inn um sama leyti og lætin byrjuðu. Og þar sem það mál verður að teljast mun "agressívara" urðu viðbrögðin eftir því. Heimsóknafjöldinn fór í 3069 einn daginn og verð ég að segja að mér fannst alveg nóg um svo ekki sé meira sagt. Í þetta skiptið liðu ekki bara einhverjar netvofur um síðuna, heldur var tekið til við skriftir af miklum krafti en oft lítilli hugsun. Skoðanir margra voru eiginlega nokkuð ólíkar því sem maður á að venjast, og margt í raun og veru engan veginn birtingarhæft. Orðbragðið stundum eins og maður vill hvorki sjá né heyra, og lítið um að tekin væri efnisleg afstaða með eða á móti, grundvölluð á skynsamlegum rökum. Til að byrja með hugsaði ég með mér að fara þá leið að reyna að láta öll ósköpin standa sem minnisvarða um það sem miður fer og fjalla síðar um þau sem slík, en það reyndist því miður engan veginn hægt. Sumt var bara það sóðalegt, illgirnislegt og svo alvarleg tilraun til mannorðsmorðs að það á hreinlega hvergi nokkurs staðar heima. Og eins og oftast er, þá voru þeir sem ekki vilja gera grein fyrir sjálfum sér verstir allra og sjálfum sér til mestrar skammar.

Ég fylgdist með atburðarásinni með vaxandi skelfingu. Álitin hrönnuðust inn og óhætt er að segja að sum þeirra hafi síður en svo verið sérlega áferðarfalleg svo ekki sé fastar að orði kveðið. Mér fannst ég vera aleinn í manngrúa þar sem ég átti á hættu að vera troðinn undir, en annað slagið sá ég kunnuglegar undirskriftir og mér fannst ég þá greina eins og svolitla ljóstýru í fjarska. Tíminn leið og ég skynjaði að flóðið færi líklega bráðum að réna þegar ég sá nöfn Minnýar og Boggu. Skömmu síðar Bjarna frænda, Emils, Gunnar Th. og Gulla hvern á eftir öðrum. Þá fannst mér illviðrinu vera tekið að slota það mikið að óhætt væri að koma niður af tánum, því brátt myndi sólin rísa á ný og verma sviðna jörðina. Mig þyrsti í það ástand sem áður var, líkt og skrælnaðan ferðalang em hefur villst í eyðimörkinni á göngu sinni en loksins fundið leiðina til byggða.

Eða eins og þreyttur og þjakaður sundmaður sem nær landi eftir að vera nær drukknaður í kolgráum ólgusjónum fullum af skrímslum og kynjaverum.

En eftir á að hyggja þá líkist tilfinningin og hin andlega reynsla sem ég hef nú upplifað helst því að vera dæmdur til að hírast um tíma í risastórum almenningshrákadalli eða hlandfötu sem er í fullri notkun af undirmálsliði sem kann ekki mannasiði.

En þar sem ég var á leiðinni norður á Sigló í u.þ.b. viku, taldi ég rétt að fjarlægja hið umdeilda umræðuefni vegna þess hvernig mál hafa þróast. Þvi eins og þeir hljóta að skilja sem vilja, á ég erfitt með alla aðkomu að málinu svo sem hreinsunarstarf eftir allt nafnlausa og ósýnilega fólkið sem ég tel geta verið alveg nauðsynlegt að óbreyttu meðan ég er fjarstaddur.

13.03.2007 13:57

Hasar í miðborginni um hábjartan dag.



354. Á dögunum lenti ég í svolitlu ævintýri.
Ég átti erindi á Bergstaðastrætið í Reykjavík og ók því yfir Skólavörðuholtið og niður Skólavörðustíginn í áttina þangað. Þegar ég er kominn niður að gatnamótunum við Njálsgötu, er svínað all hressilega á mig og ung stúlka ekur inn á götuna í rólegheitunum án þess að líta til vinstri upp götuna sem er jú í þessu tilfelli aðalbraut. Ekki var neinn asi á henni eða fyrirgangur, því hún fór í raun alveg ofurhægt yfir. Reyndar sá ég bara í hnakkann á henni því hún snéri sér að vinkonu sinni í farþegasætinu og var greinilega niðursokkin í samræður við hana. En það var bara ég sem trúði því ekki fyrr en bílarnir höfðu nær því snert hvorn annan, að hún myndi ekki stoppa á stöðvunarskyldunni. Ég nauðhemlaði því og flautaði til áhersluauka, en það hafði nákvæmlega engin áhrif. Engin sjáanleg breyting varð á aksturslaginu frekar en hvorki ég né nokkur annar gæti verið þarna á ferðinni, og vel mátti sjá að hún hélt áfram að tala við vinkonu sína eins og ekkert hefði í skorist og sigldi áfram á sama hraða líkt og seglskúta í hægum andvara. En þegar við nálguðumst gatnamót Bergstaðastrætis beygðu þær stöllur inn í þá götu og lögðu í laust stæði beint á móti húsinu sem ég átti erindi í. Ég lagði líka í stæði skammt frá og þegar ég hugðist sinna erindum mínum gekk ég fram hjá umræddum bíl.
Passa sig í umferðinni stelpur.



Ökumaðurinn sem var nýstiginn úr stakk höfðinu inn í hann aftur og þóttist vera þar eitthvað að gramsa, en fliss, einhverjar ógreinilegar athugasemdir ásamt léttum hlátrasköllum bárust út úr bílnum. Það var auðvitað meira en ég þoldi og þar sem ég er oftast með myndavélina í höndunum beindi ég henni að bílnum og smellti af. Ég hefði kannski átt að láta það ógert, en mér vitanlega er ekki bannað að taka myndir á almannafæri af því sem næst hverju sem er.



Þá opnast dyrnar farþegamegin, vinkonan kemur út og virðist nú skyndilega hafa skipt skapi og það svo um munar.
"Ertu fimmtán ára eða eitthvað svoleiðis fávitinn þinn? Ef þú tekur mynd af mér þá brýt ég fokking myndavélina."
Hún gekk að mér og reyndi að vera eins ógnandi á svipinn og hún frekast gat.
"Fyrst þú ert að hóta mér er ábyggilega gott að eiga mynd af þér líka" svaraði ég og ég smellti af á ný.
Skipti þá engum togum að hún stökk að mér og ég fékk krepptan hnefann í andlitið. Fyrst einu sinni, en síðan aftur og aftur. En þar sem hún reyndist ekki vera nein kraftakerling og höggin reyndust því heldur léttvæg, stóð ég bara sem fastast og spurði hana hvort hún teldi að það gætu hugsanlega verið einhver vitni að þessari ?líkamsárás.?
Stöðvuðust þá aðgerðirnar jafn skyndilega og þær höfðu byrjað og vinkonurnar hröðuðu sér á braut.

Það getur verið hættulegt að vera of-virkur myndavélaeigandi?...

13.03.2007 13:42

Um LEO súkkulaðikex



353. Einn ágætur vinur minn
spurði mig um söguna af LEO súkkulaðikexinu sem fyrir all löngu síðan var til umfjöllunar hérna á blogginu. Viðkomandi sagði það einfaldlega vera sér ofviða að pæla sig í gegn um öll eldri bloggin í leitinni að súkkulaðikexinu. Og þar sem hann er ekki sá eini sem spurt hefur um þau atvik sem urðu til þess að þessi skemmtilega saga varð til, skal ég með mikilli ánægju endurbirta umrædda klausu ásamt svolitlum skýringakafla.



Aðalsögupersónan virðist geta brugðið sér í allra kvikinda líki.

Fyrir ekki svo löngu síðan var hringt í gemsann minn og ég spurður að því hvort Laugarásvideó ehf. væri ennþá á einhvern hátt á mínum vegum. Ég kvað svo ekki vera en þar málrómurinn var kunnuglegur, var eðlislæg forvitni mín vakin og ég vildi fá að vita hvers vegna hefði verið hringt.
"Hann félagi þinn gengur á milli okkar sem stöndum í óralangri biðröð og blandar bara geði við fólk."
"Er það ekki bara jákvætt og skemmtilegt," spurði ég á móti.
"Jú, jú, nema að hann er á sneplunum og frekar úfinn um höfuðið, og það er nú ekki sérlega fögur sjón."
"Nú," svaraði ég og þóttist verða hissa.
"Hann hefur greinilega ekki eignast nýja móðulausa spegilinn sem var svo mikið auglýstur fyrir jólin, því þá mundi hann alla vega greiða sér" sagði röddin í símanum.
"Nú," svaraði ég aftur. "Hann hefur þá bara fengið eitthvað annað fallegt frá frúnni þessi jólin."
"Svo talar hann um einhvern lítinn karl suður í Hafnarfirði"
"Hver skyldi það nú vera," hugsaði ég úr Hafnarfirðinum.
Síðan kom svolítil þögn.
"Það er bara einn maður að afgreiða en sá góðglaði gengur um gólf og ruglar bara í fólki, aðallega sækir hann þó í litlar stelpur í stuttum pilsum." Ég heyrði að það hnussaði svolítið í manninum.
Ég sagði ekkert en sá sem hringdi hélt áfram.
"Nú pikkaði hann eina slíka út úr röðinni og er farinn að afgreiða hana."
Við ræddum síðan saman um önnur mál litla stund, því langt var um liðið síðan ég hafði heyrt í þessum fyrrverandi viðskiptavini mínum.
"Nú er hann greinilega farinn að afgreiða einhverja fleiri sem hann virðist hafa velþóknun á og gefur gríðarlega afslætti alveg hægri vinstri."
Eftir svolítið lengra spjall var viðmælandinn kominn að afgreiðsluborðinu.
"Spurðu um LEO súkkulaði," sagði ég.
"Ég ætla að taka þessa mynd og fá tvö LEÓ súkkulaði," heyrði ég hann segja af bragði.
Einhverju var svarað sem ég heyrði ekki en hann rak upp mikinn hlátur.
"Það er búið að banna LEO súkkulaði í þessari sjoppu," sagði hann í símann og fannst það greinilega meira en lítið fyndið.
Hann þurfti nú að ljúka viðskiptunum og kvaddi þess vegna að sinni.
Þegar ég áleit að hinu venjulega álagstímabili ætti að vera lokið, hringdi ég í gemsa starfsmannsins og vildi forvitnast svolítið.
Það var ekki fyrr en það hafði hringt a.m.k. fimm sinnum út að hann svaraði og var þá frekar andstuttur.
"Ertu bara einn að vinna?"
"Já, ég er eiginlega bara einn að vinna," svaraði starfsmaðurinn og vildi greinilega losna úr símanum sem fyrst.
"Er ekki einhver gamall maður að vinna þarna líka?"
"Hann er alla vega staddur hérna, viltu tala við hann?."
Sá sem svaraði var greinilega mjög pirraður.
"Seljið þið LEO súkkulaði," spurði ég og reyndi að vera svolítið grandalaus í röddinni.
"Nei," svaraði röddin.
"Hvers vegna ekki?" Ég virtist ekki alveg sáttur.
"Það var tekið úr sölu eftir að þú seldir og fórst og hefur verið alveg bannað síðan og þú veist þetta alveg og þarft ekki að spyrja."
Ég gat ekki annað en farið að hlægja.
Röddin í símanum varð svolítið skrýtin.
"Bara svo þú vitið það."
"Hvað." Ég skildi ekki alveg.
"Við megum ekki umgangast þig, tala við þig, hringja eða heimsækja. Allt svoleiðis er alveg bannað"
"Haaaaaa." Nú skildi ég enn minna en áður.
"Annars verðum við reknir en ég verð að halda áfram að vinna, því það gerir það enginn annar, - blessaður."
Svo var lagt á og síminn sagði bara bíb bíb bíb bíb.
Ja hérna hér.



Loftmynd af aðalsögupersónunni sem starfsmaðurinn H.T.S. sendi mér úr síma G.J.

Nokkru seinna fékk ég skemmtilega lýsingu á því hvernig LEO súkkulaðikexinu var úthýst úr sjoppunni. Daginn sem skrifað var undir skiptinguna á fyrirtækinu fann G.J. hjá sér sterka hvöt til að gera eitthvað merkilegt, einkennandi og afgerandi í tilefni dagsins. Hann fékk hugljómunina þegar hann gekk í hús með samninginn sem blekið var varla orðið þurrt á. Nú skyldi halda eins konar minningarathöfn um "litla karlinn í Hafnarfirði" eins og hann hefur kallað mig alla tíð síðan samstarfi okkar lauk. Hann gekk þungum og djúpum skrefum yfir gólfið á sjoppunni og það var engu líkara en hárlufsurnar dúuðu ofan á herðunum í samræmi við göngulagið. En þó ekki ofan á höfðinu sjálfu því þar var enginn hárvöxtur eins og kunnugir þekkja og sést á meðfylgjandi skýringamynd. Hann náði sér í lítinn pappakassa og stillti sér upp við sælgætishillurnar.
"Þetta verður aldrei selt hérna aftur" sagði hann og sópaði öllu LEO súkkulaðinu ofan í kassann.
"Af hverju ekki?" Einhver nærstaddur læddi inn spurningunni svolítið flírulegur á svipinn.
G.J. gaut augunum til fyrirspyrjanda en svaraði engu.
"Er súkkulaðið kannski bannað út af nafninu?" Sá nærstaddi spurði aftur og horfði glettnislega í kring um sig, en þeir sem fylgdust með kímdu svo lítið bæri á og reyndu að verjast brosi.
Það rumdi eitthvað í G.J. og hann lauk við að tína í kassann.

Einn af þeim sem höfðu verið það sem kalla má "húsvanir" spurði hvort ekki mætti hafa þetta með kaffinu þó svo það yrði ekki selt og eftir nokkra umhugsun taldi G.J. það væri sennilega í lagi. Sá "húsvani" beið þá ekki boðanna, heldur hellti upp á fulla könnu af kaffi og drakk síðan megnið af því sjálfur ásamt því að sporðrenna næstum því heilum kassa af LEO súkkulaði. Áður en hann fór kom hann afganginum af lagernum fyrir uppi á eldhússkáp þar sem hann var lítt áberandi. Síðan kom hann daglega í kaffi á Laugarásvideó meðan birgðirnar af LEO súkkulaðikexinu entust, en eftir að þær kláruðust hefur hann ekki sést.

Af því má ráða að LEO súkkulaðikex er örugglega skrambi gott.

13.03.2007 13:06

Græðgisvæðing á fasteignamarkaði.



352. Ég hef undanfarin misseri
þurft starfs míns vegna að fylgjast vel með hræringum á fasteignamarkaðinum hér á suðvesturhorninu, og því er ýmislegt honum tengt sem sett hefur mark sitt á þjóðfélagsumræðuna mér ekki að öllu leiti ókunnugt um. Í því þensluástandi sem einkennt hefur hann undanfarið hefur ekki farið hjá því að margt skrýtið hafi borið fyrir augu, en eftirfarandi dæmi þó líklega verið nálægt því að vera enn skrýtnari en önnur.

Þann 13. des. 2006 var skráð til sölu eign að Baldursgötu 36. Ásett verð var kr. 11.500.000 og hún seldist bæði fljótt og vel.

En þann 5. febr. 2007 er hún aftur komin á sölu, en hafði þá lítillega "hækkað í hafi" eins og það var kallað hér í eina tíð. Ásett verð er nú kr.19.900.000.

Skyldi gólfið hafa verið lagt marmara og loftið gulli skreytt á rúmum sex vikum, og ætli erlendir verkamenn á undirprís hafa lagt nótt við dag til að ljúka verkinu á svo stuttum tíma? Við nánari athugun kom þó í ljós að svo var ekki, því aðeins virtist eldra gólfefni hafa verið fjarlægt og gólfið málað svo og veggir og loft. En það virðast vera komnar sterkari ljósaperur í stæði svo allt virtist hreinna, nýrra og "endurbættara" en áður var. Ferlið minnir óneitanlega á aðferðarfræði bílabraskara hér í eina tíð sem voru margir hverjir afbragðsgóðir bónarar.

Og það fer ekki hjá því að á hugann leiti spurningar um heilbrigði fasteignamarkaðarins. Brást fasteignasali hinum fyrri seljendum og mat eignina of lágt, eða stuðlar hinn síðari að aukinni verðbólgu í landinu með því að sprengja upp markaðinn með okri í samráði við nýjan eiganda?

Ég taldi mér því allt að því skylt að senda þetta til prentmiðlanna ásamt þeim gögnum sem tilheyrðu málinu. En þar sem þeir geta hvorki leyft sér að vera frjálsir né óháðir þrátt fyrir yfirlýsingar í þá átt, geta þeir auðvitað ekki birt fréttir þar sem hallað gæti á fasteignasölur. Þær auglýsa nefnilega fyrir óheyrilegt fé hjá þeim og hlýtur því að teljast afar óskynsamlegt að gagnrýna þær á einhvern hátt. Auðvitað verður peningavaldið alltaf skoðanafrelsinu yfirsterkara á þeim bæjunum, og það er minna en ekkert í spilunum sem bendir til þess að einhverjar breytingar séu í vændum.



Annað dæmi er líka svolítið lýsandi fyrir þá Davíð og Golíat í hinu nýíslenska rekstrarumhverfi þar sem sumir virðast hafa óendanlega mikið fjármagn að spila úr.

Meðalstórt fyrirtæki í örum vexti vildi finna sér stærra húsnæði undir starfsemi sína og eftir nokkra leit fannst hentugt iðnaðarhúsnæði á Höfðanum. Á það var settur verðmiði upp á 81 milljón, en tilboð fyrirtækisins hljóðaði upp á 79 m. Ekki kom þó til þess að seljandinn þyrfti að taka afstöðu til þess því stórfyrirtæki nokkuð hafði fregnir af málinu, en þar á bæ höfðu menn einnig hugsað sér að kaupa en voru bara ekki búnir að koma því í verk. Gert var tilboð upp á 82 m, og meðalstóra fyrirtækið hækkaði í 83 m. Til þess að vera ekki að standa í einhverju þrasi og mjatli um smáaura, hækkaði stóra fyrirtækið tilboðið í 115 millur og málið var afgreitt á þeim nótum.

Greinilega alvörumenn á ferðinni.

13.03.2007 12:47

Grasasni



351. Ég kom einu sinni til Hveragerðis svo nú veit ég hvernig Grasasni lítur út.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 296
Gestir í dag: 52
Flettingar í gær: 364
Gestir í gær: 57
Samtals flettingar: 319555
Samtals gestir: 35190
Tölur uppfærðar: 29.4.2024 17:15:44
clockhere

Tenglar

Eldra efni