10.06.2011 13:06

Tónleikar í Salnum


Birgir Ingimarsson trommari á heiðurinn af þessu blómlega plakati.

722. Þroskuðu tónlistarmennirnir og konan sem tróðu upp í Bátahúsinu um páskana og á Græna hattinum nýverið, eru ekki alveg búin að leggja árar í bát. Það hafa borist þó nokkrar fyrirspurnir héðan og þaðan af landinu, um hvort ekki sé inni myndinni að troða upp hér og þar o.s.frv. Við getum auðvitað ekki annað en verið hæstánægð með viðbrögðin og höfum í framhaldinu velt fyrir okkur hvað sé raunhæft og hvað sé vænlegt. Upphaflega var þó hugmyndin að stofna til aðeins einna tónleika í Bátahúsi þar sem fléttað yrði saman nokkrum siglfirskum "slögurum" og uppáhaldslögunum hennar Þuríðar, en málið er sem sagt farið að vinda svolítið upp á sig.

Nú eru fyrirhugaðir tónleikar í Salnum í Kópavogi miðvikudaginn 22. júni nk., og verður sérstakur gestur þar Jóhann Vilhjálmsson, en hann er sonur Vilhjálms heitins Vilhjálmssonar stórsöngvara. Þau Þuríður og Villi störfuðu lengi saman, m.a. á Röðli, og nú ætlar Jóhann að syngja með Þuríði þekktan dúett frá tíma föður síns. Það er óhætt að segja að miðasala hafi farið vel af stað, því áður en sólarhringur var liðinn frá því að hún hófst, voru 46 miðar seldir og þó ekkert farið að auglýsa. Nú eru sólarhringarnir orðnir tveir, seldir miðar eru 87 og enn er ekkert farið að auglýsa nema á Facebook. Ekki laust við að menn séu svolítið "ligeglad" yfir þessu öllu saman.

Sölukerfið hjá Salurinn.is er mjög öflugt. Það sýnir m.a. vel hvaða sæti eru seld og hver eru enn laus, og er ein einfaldasta útgáfa á lögmálinu "fyrstur kemur fyrstur fær".

09.06.2011 07:42

Óþolandi umhverfissóðar


721. Maður verður alltaf jafn pirraður við að sjá svona lagað. Eiginlega verður maður alveg drullufúll og hugsar gerandanum jafnvel gott betur og heldur meira en þegjandi þörfina. Mér fannst hins vegar frábær sagan sem ég heyrði af öryggisverði í Kringlunni, sem horfði á bílstjóra lauma ruslapoka út á stæði og búa sig undir að aka í burtu. Hann var að vonum ekki sáttur, gekk í veg fyrir bílinn og skipaði bílsjóranum að hirða rusl sitt. Sá reif auðvitað kjaft eins og búast mátti við af manni á því þroskastigi sem gjörðir hans benda til og sagði öryggisverðinum og troða ruslapokanum */-#-+*'!. Sá kunni hins vegar ekki að meta húmorinn, heldur tók pokann og sendi hann af heilmiklu öryggi og nákvæmni inn um opinn gluggann á bínum. Pokinn rifnaði, innhaldið dreifðist um bílinn ruslið var þannig séð aftur komið á sinn byrjunarreit. Sem sagt, glæsileg sending og sanngjörn. Bílstjóranum fannst hins vegar gróflega að sér vegið, snaraðist út með miklum bægslagangi og formælingum og gerði sig líklegan til að veita öryggisverðinum ráðningu. Hann hætti þó mjög fljótlega við það, snautaði aftur inni í bíl sinn og hvarf á braut, því hann sá ekki fram á að hann myndi komast vel frá slíkri viðureign. Þetta fannst mér góður endir á sögunni og virkilega gott á FÍFLIÐ.

Ung og svo stórglæsileg stúlka að eftir var tekið, stöðvaði bíl sinn á rauðu ljósi á Dalveginum fyrir nokkru. Meðan hún beið eftir grænu, nýtti hún tímann og dundaði hún sér við tiltekt í honum. Þegar hún ók síðan af stað, stóðu nokkrar flöskur (bæði plast og gler), ásamt ruslapoka í þráðbeinni röð, nákvæmlega á miðri götunni. Þarna sannaðist gamla máltækið rétt einu sinni enn: Oft er flagð undir fögru skinni.

Jú, maður getur orðið ansi pirraður yfir þessum heilaprumpurum sem trampa greinilega ekki í vitinu, virðast helst hafa afsalað sér dómgreindinni og hafa forpokun í fyrirrúmi.

Sagði ég nokkuð of mikið?

06.06.2011 22:06

Hvur skyldi eiga ammæli í dag?

720. Í dag er mánudagurinn 6. júni, það fer ekkert á milli mála að Bubbi Mortens á afmæli í dag og ég kæmist líklega ekki hjá að vita af því þó ég reyndi heilmikið til þess. Hann á plötu vikunnar á rás 2 og mun því fá verulega spilun næstu daga ofan á það sem venjulega gerist. Hann fékk að sjálfsögðu væna sneið af Katljósinu þar sem hann trúði landsmönnum fyrir því að nýja platan sem var að koma út í dag, væri að hans mati ein sú besta á ferlinum. Reyndar hef ég heyrt útgefendur hans nota orðatiltækið "ein sú besta til þessa" í hvert einasta skipti sem Bubbi gefur út plötu. En svo er dagurinn toppaður í "Færibandinu" þætti Bubba Morteins, þar sem Bubbi verður sjálfur gestur þáttarins. Það er vinur hans Óli Palli sem ætlar að leysa hann af sem spyril og stjórnanda, en hann hefur löngum reynst Bubba betri en enginn og haldið merki hans duglega á lofti í gegn um tíðina. 

Er nokkur möguleiki á að um mismunun af einhverju tagi sé að ræða, þegar kemur að aðgengi íslenskra tónlistarmanna að útvarpi allra landsmanna? Ég skal ekki segja.

04.06.2011 19:46

Stólar með karakter



719. Þegar Tequilatunnuhúsgögnin sem skreyta Hannes boy komu á sínum tíma, vöktu þau að vonum verðskuldaða athygli. Reyndar mun gámurinn sem þau komu með, strax hafa fangað athygli tollvarðanna sem afgreiddu sendinguna, því þegar hann var opnaður lagði gríðarlega mikinn áfengisilm úr honum.

Það hefur svo komið fram að lengi hafi verið leitað að húsgögnum í Kaffi Rauðku sem væru jafn sérstæð og tunnuhúsgögn Hannesar Boy. Þau fundust eftir nokkra leit í Thaílandi og munu vera úr endurunnum hestvögnum. Þau skreyta nú sali Rauðku sem verður formlega opnuð í dag.

Enn vantar þó húsgögn með einhverjum sterkum og skemmtilegum karakter í bláa húsið. Ég er þó ekki frá því að ég hafi dottið niður á skemmtilega lausn á því máli.

03.06.2011 20:04

Þeir fiska sem róa


718. Í gær uppstigningardag tók talsverður slæðingur ferðafólks daginn snemma hérna á Sigló, og skömmu fyrir hádegi var komin rúta á stæðið fyrir framan Síldarminjasafnið sem opnaði kl. 10 f.h. Ég heyrði nokkrum sinnum tekið í hurðina á Aðalbakaríinu undir opnum stofuglugganum hjá mér, en þar var allt í lás og ég sá að sama gilti um Samkaup. Svolítið bæjarrölt varð til þess að ég komst að því að eini veitingastaðurinn sem var opinn í hádeginu og einhvern matarbita var að fá, var Allinn. Jú og auðvitað bensínstöðin sem opnaði eldsnemma, en þar var setið við hvert borð yfir hamborgurum með frönskum. Eigum við kannski að telja bensínstöðina með veitingastöðum staðarins? Er kannski alveg nóg að hafa bara Allann og bensínstöðina, - eða hvað? Nei, líklega finnst okkur það ekki eftir að hafa reynt og upplifað annað, þó báðir þessir staðir séu vissulega ágætir til sins brúks. En það rættist reyndar eitthvað úr þegar leið fram á dag, því Samkaup opnaði á slaginu 13.oo og Torgið á svipuðum tíma, en þá er reyndar hinum hefðbundna matartíma lokið. Annað er líka það sem er ekki í nægilega góðu lagi. Mikið vantar upp á að upplýsingar um opnunartíma séu nægjanlega vel sýnilegar eða þær sjást jafnvel alls ekki. Á einum af áður nefndu stöðunum hékk þó myndarleg auglýsing úti í glugga um opnunartíma skíðasvæðisins í Skarðsdal. - Ekki seinna vænna.

Nokkuð bar á því síðast liðið sumar en einnig um páskana í ár, að ferðafólk kæmi að lokuðum dyrum veitingastaða. En væru þeir opnir, mátti allt eins búast við að þeir sem á undan komu væru búnir að tæma búrið svo rækilega að sáralítið ef þá nokkuð matarkyns væri eftir. Vonandi verða þannig uppákomur þjónustuaðilunum svo góð kennslustund í "hagnýtum fræðum" um alla framtíð, að þær endurtaka sig ekki. Hér getur ferðamannaiðnaðurinn allt eins orðið að hinu nýja "síldarævintýri" ef rétt er á haldið. En sá bransi er viðkvæmur ekkert síður en síldarfarmur var á leið af fjarlægum miðum, í steikjandi sól og án nokkurrar kælingar hér í eina tíð. Spegúlant nútímans þarf því að vera á varðbergi ekkert síður en sá sem tilheyrði hinum liðnu tímum sem enn er þó verið að höndla með.

Júnímánuður er byrjaður, ferðasumarið er hafið og sumarið 2011 gæti hæglega orðið það langbesta og glæsilegasta til þessa. Einhvern tíma var sagt að ekkert þýddi annað en að vaka eins og eina vertíð ef þörf krefði, því nægur tími yrði til þess að sofa þegar maður væri dauður. En burtséð frá því, þá fiska þeir sem róa en hinir ekki.


02.06.2011 01:36

Varnaðarorð úr fortíðinni


717. Ég rakst á þessa litlu klausu á netflakki á dögunum, en hún er úr einu Akureyrarblaðinu frá árinu 1920. Ef rýnt er á milli línanna má með góðum vilja sjá svolítið samhengi milli boðskapsins sem hér birtist, og þess sem er rauði þráðurinn í pistlinum "Sukkið í síldarbænum" svolítið neðar á síðunni. Hún er þó sett fram á talsvert öðrum forsendum og ekki virðist fara mikið fyrir hinum pólitíska undirtón. Það þarf þó ekki að þýða að viðkomandi sé ekki undir áhrifum frá þeim öflum sem þar tjáðu sig. Það er ekki laust við að skrifin kalli á svolitlar vangaveltur um ástæður þess að þau eru sett fram og hvort það að vísað sé til kreppu, sé hin raunverulegar ástæða eða eitthvert yfirvarp. Kannski er hér á ferðinni "kristilegur" hægri maður sem rennur blóðið til skyldunnar og vill reka sama áróður, en bara undir öðru flaggi og málaða í felulitum. Kannski bara venjulegur bóndi sem hefur hrakist af arfleifð sinni vegna hinna nýju og breyttu tíma, þar sem Kaupfélagið er ekki lengur miðdepill alheimsins, Kaupfélagsstjórinn er ekki höfðingi sveitarinnar og bóndinn hvorki drottnari né eigandi hjúanna.

01.06.2011 02:52

Á þeim Græna


716. Það var stígið á pallinn á Græna Hattinum á Akureyri síðast liðna helgi og trallað góða kvöldstund. Tónleikarnir voru bæði mikil og góð upplifun og svolítið skrýtin reynsla í leiðinni. Þessi frábæri staður er t.d. mjög vel tækjum búinn og er þá vægt til orða tekið. Ef vilji stæði til, væri hægt að koma alveg tómhentur á staðinn, því þar er hreinlega allt til alls. Ekki bara vandað hljóðkerfi (ásamt eldklárum hljóðmanni), heldur einnig öll hljóðfæri, magnarar, míkrafónar o.s.frv. Ég hafði til afnota forláta Korg rafmagnspíanó ásamt gamla Hammond orgelinu hans Kalla í Flowers ef ég vildi, en kaus reyndar að nota Tyrusinn minn. Ég neita því ekki að ég skotraði annað slagið augunum á Hammondið ásamt Lesleyinu sem stóðu þögul úti í horni undir svartri yfirbreiðslu. Þá má ekki gleyma því að hljómburðurinn þarna með allra besta móti.

Eftir tónleikana lá svo leiðin á Sigló þar sem verður staldrað við í einhverja daga og "pínulítið ættarmót" undirbúið.

27.05.2011 12:56

Og svolítil viðbót um Önnu Láru


715. Svo verður að bæta við því allra nýjasta í afrekaskrá Önnu Láru. Í gær skrapp hún í sund með Gunnu Finna vinkonu sinni í Ólafsfjarðarlaug. Það er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi nema að Anna Lára mun hafa látið sig vaða í stóru rennibrautina sem er ekki af minni gerðinni eins og sjá má á myndinni hér að ofan. Það væri heldur ekki í frásögur færandi nema að hún er "ekki nema" 88 ára. - Geri aðrir betur.

25.05.2011 07:30

Anna Lára þriðja hæst

 

714. Þegar ég var að grúska í gömlum blöðum á dögunum vegna annarra mála, rakst ég á þessa skemmtilegu grein sem birtist í Frjálsri Verslun vorið 1941. Ég renndi fyrst lauslega yfir byrjunina og snarstoppaði svo á "Anna Lára". Ég fullvissaði mig um að þarna væri átt við okkar Siglfirsku Önnu Láru sem verslaði á Túngötu 1, Tórahorninu og síðast á Aðalgötu 28 þar sem Bakaríið er núna, en hóf síðan lesturinn á ný. Í seinni yfirferðinni drakk ég í mig hvert einasta orð og sleppti engu. Þar segir m.a. síðar í greininni.

"Ýmiskonar félagsskapur er starfræktur í Verzlunarskólanum, málfundafélag, taflfélag, bindindisfélag og ýms bekkjarfélög. Blöð eru gefin út, sum vélrituð eða fjölrituð bekkjarblöð, en skólablaðið Viljinn, sem komið hefur út í 32 ár, er nú prentað blað, og sömuleiðis Verzlunarskólablaðið, sem kemur út árlega í sambandi við nemendamót skólans. Þar geta menn lesið ýmsar nánari frásagnir, en hér eru fluttar, um skólastarfið og félagslífið. Tvær höfuðsamkomur héldur skólinn árlega, árshátíð og nemendamót. Sú fyrri er dansleikur, sú síðari einnig samkoma með all umfangsmikilli dagskrá, sem nemendurnir annast sjálfir. Þar er venjulega söngur, og ræðuhöld og leiksýning, í ár voru t.d. fluttir tveir smáleikir, Alibi Ingimundar, og Blessuð Abyssiniubörnin, sem var gamanleikur úr skólalífinu, eftir nemanda í skólanum. Einnig var leikfimissýning pilta og ein stúlka sýndi listdans, og loks var vélritunarsýning. Meðal annara skemmtana, sem nemendur hafa haldið uppi innan skólans í vetur, má nefna grímudansleik, sem fór mjög vel úr hendi, spilakvöld og skákkeppnir og knattspyrnukeppni og handknattleikskeppni. Þá hefir skólinn haft opna lesstofu, með allmiklu af blöðum og tímaritum og bókum, og nokkrir sérnámsflokkar voru starfandi. Bóksalan, sem kaupir og selur notaðar námsbækur,hefir nú starfað í átta vetur, og skólaselsnefndin, sem vinnur að því að koma upp útibúi frá skólanum, eða skólaseli, hefir einnig starfað í vetur.

24.05.2011 11:49

Bátur eða bíll

Báturinn sem í boði er.
 
713. Fyrir fáeinum vikum síðan setti ég litla einstaklingsíbúð í Reykjavík á sölu. Mér til svolítillar undrunar bárust mér tvö tilboð tiltölulega fljótlega, en það hafa ekki farið miklar sögur af hreyfingu á þeim markaði síðustu misserin. Þegar farið var að glugga í þau fór mig að gruna að tilboðsgjafar hefðu hugsanlega meiri
áhuga á að selja eitthvað en kaupa.
Í öðru tilfellinu bauðst bátur langleiðina upp í kaupverðið. Hann var sagður henta
alveg sérlega vel til sportsiglinga og íbjarnarveiða fyrir norðan og vestan.
Í hinu hékk 50 manna rúta á spýtunni og var sögð vera að verðmæti tæpar fjórar millur sem gæti vel nýst undir hljómsveit og kór.
Ég rifjaði upp í huganum þuluna frá því hér í denn um ugluna sem sat á kvisti o.s.frv. og endar eins og börn á öllum aldri vita, á orðunum "og það varst þú."
En líklega beiti ég henni ekki sem valtæki, heldur hinkra aðeins lengur. 


Þetta er ekki rútan sem var í boði, en þessi mynd kemur ósjálfrátt uppí hugann.

21.05.2011 22:41

Þrír páfar, Siggi Ægis og ég


712. Það var í fréttunum um daginn að Benedikt páfi tók Jóhannes Pál páfa í tölu blessaðra, en það er forstig þess að verða gerður að dýrlingi. Það kom hins vegar ekki fram fyrir hvaða afrek hann átti slíkt skilið. Ekki að ég sé þeirrar skoðunnar að hann Jói Palli hafi ekki verið ágætis karl, það bara kom ekki fram.

Árið 2000 varð sá síðarnefndi að taka til varna og rökstyðja þær gjörðir sínar að hafa tekið Píus páfa í tölu blessaðra. Um þann náunga er það helst að segja að hann sat á páfastóli frá 1846 til 1878 og þótti strangur og íhaldssamur. Hann gaf til dæmis út skrá yfir "rangar skoðanir", þar sem meðal annars var að finna sósíalisma, frjálslyndisstefnu, raunhyggju og framfarahyggju, auk þess sem siðmenning samtímans var fordæmd í heild sinni.

Ég ætlaði reyndar ekkert að minnast á neina páfa og þess konar kjólklæddar prjáldúkkur þegar ég settist að þessu sinni niður við tölvuna, - það bara gerðist.

En ég fékk myndina hér að ofan senda frá Gunnari Trausta vini mínum og fyrrum nágranna. Mér finnst hún bara býsna skemmtileg og mér datt si svona í hug að líklega kemst ég aldrei nær því að verða tekinn í dýrlingatölu en að standa við hliðina á Sigga Ægis.

20.05.2011 21:17

Núllkall


711. Einhverju sinni fyrir margt löngu þegar tölvur voru að ryðja sér til rúms sem apparöt hvað talið var að myndu í framtíðinni spara nær alla starfsmenn á nær öllum skrifstofum út um allt, var viðkvæðið yfirleitt á eina lund ef eitthvað fór úrskeiðis"þetta er þessum fj. tölvum að kenna". En maður spurði stundum sjálfan sig og aðra bæði fyrr og nú; hver stjórnar því hvað tölvurnar gera og hvað þær gera ekki? Auðvitað er alltaf gott að geta kennt þeim um sem ekki svara fyrir sig og hvað þá fullum hálsi, og tölvur svara vissulega ekki fyrir sig. Þær segja bara alls ekki neitt. Þær halda bara þolinmóðar og að því er virðist með ótakmörkuðu jafnaðargeði áfram að vinna hvert einasta verk sem þeim er falið að vinna samkvæmt þeim línum sem forritarinn hefur lagt. 

Nýverið bar þetta skondna bréf frá Íbúðarlánasjóði fyrir augu mín, en eins og sjá má er þar hótað kostnaðarsömum aðgerðum ef ekki eru greidd upp vanskil upp á hvorki meiri en minn en heilan núllkall. Verði það ekki gert, þá hækka dráttarvextir sem eru í dag heil 11,5% um núllkall á degi hverjum. En ef þú ert búinn að borga núllkallinn, þá bara sorry. 

Og nú spyr ég eins og hver annar auli: hvernig borgar maður núllkall?

Kannski með ávísun? 

Tölvur gera stundum villur.

Tölvur gera oft villur.

Tölvur gera margar villur.

Tölvur gera allar villur.

Það er mannlegt að gera vilur.

17.05.2011 04:40

Á Græna Hattinn


710. Einhverjar spurnir munu Akureyringar hafa haft af uppákomunni í Bátahúsinu um páskana, því nýverið var haft samband við Siglfirsku hljómsveitargaurana frá höfuðstað norðurlands. Það eru því aftur hafnar æfingar fyrir aðra tónleika, sem stefnt er að á Græna Hattinum síðustu helgina í maí. Að þessu sinni verður í hópnum auk Þuríðar burtflutti Akureyringurinn Grímur Sigurðsson. Hann lék með hljómsveit Ingimars Eydal síðustu árin sem hún starfaði og mun eflaust syngja lagið sitt um Róta raunamædda sem hljómaði ósjaldan á öldum ljósvakans fyrir hartnær 30 árum. Það verður því hópur "þroskaðra" tónlistarmanna sem leggur land undir dekk og stefnir norður yfir heiðar í leiðangur númer tvö eftir fáeina daga.


13.05.2011 06:44

Minningargrein um Osama

709. Sverrir Stormsker er sjálfum sér líkur á blokki sínu, en hann ritaði þar minningargrein um Osama bin Ladin. Í sjálfu sér kemur þar ekkert á óvart, en það er samt allaf jafn erfitt að slíta sig frá orðaleikjum og neðanbeltishúmor Sverris hvort sem manni líkar það sem fyrir augu ber eða ekki. Til að gefa svolítitla innsýn í málið eru sýnishornin hér að neðan ættuð af umræddri síðu. 

"Ástkær eiginmaður okkar, faðir, bróðir, sonur, bróðursonur, mágur og kviðmágur, Osama bin Laden andaðist á heimili sínu árla morguns mánudaginn 2. maí. Dánarorsökin var blýeitrun." 

"Af hverju hann af öllum góðum mönnum? Why?! Hvar er réttlætið? Hvert er eiginlega þessi heimur að fara? Ertu þá farinn? Ertu þá farinn frá mér? Hvar ertu núna? Hvert liggur mín leið? Hvert er stærsta stöðuvatn Ástralíu? Afhverju er himininn blár? Hvað er klukkan?

Mörgum spurningum er ósvarað í þessum heimi." 

"Óvinir hans sprungu yfirleitt úr einhverju öðru en hlátri." 

"Ýmsum þótti hann ganga full langt í að sannfæra heimsbyggðina um að Bandaríkin væru heimsveldi hins illa. Þar þurfti engra sannana við. Víetnamstríðið eitt og sér ætti að nægja sem vitnisburður - svo ekki sé minnst á Britney Spears og Justin Bieber." 

"Síðustu æviárin bjó hann á sambýli í Abbottaverybad í Pakistan en lengst af bjó hann í afar huggulegum og snyrtilegum leðurblökuhelli í Tora Bora í Líkkistan." 

"Á borðum hafði hann súpuskálar úr hauskúpum bandarískra fréttamanna og í frystikistunni geymdi hann restina af þeim. Hann átti sem sé hug og hjörtu margra Bandaríkjamanna. Hann grobbaði sig aldrei af þessu og fór reyndar með þetta eins og mannsmorð." 

"Osama bin Latte, eins og hann gjarnan var kallaður, lætur eftir sig 72 eiginkonur, 358 börn, 890 barnabörn og mikið og gott vopnasafn." 

"Útförin hefur farið fram í kyrrþey en þeir sem vilja minnast hins látna er vinsamlegast bent á hryðjuverkasamtökin al-Qaeda og íslenska bankakerfið."

"Blessuð sé minning hans. Friður guðs hann blessi og allt það. Rest in pieces." 

Og alla minningargreinina er svo að finna á http://stormsker.blog.is/blog/stormsker/

10.05.2011 21:52

Hvað varð um Noreg?



708. Það hafa sjálfsagt margir verið búnir að afskrifa íslenska lagið með vinum Sjonna, þegar aðeins var eftir að opna eitt umslag og Stella Mwangi með sitt Haba, haba var ekki enn kominn áfram. Lagi sem var af mörgum Júrófræðingum talið vera líklegt til að taka þátt í toppslagnum.
Ég ætla ekki að hafa þessa færslu lengri að sinni, heldur sökkva mér niður í djúpar pælingar.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 317
Gestir í dag: 55
Flettingar í gær: 364
Gestir í gær: 57
Samtals flettingar: 319576
Samtals gestir: 35193
Tölur uppfærðar: 29.4.2024 18:16:38
clockhere

Tenglar

Eldra efni