Blog records: 2011 N/A Blog|Month_7

29.07.2011 15:31

Síldarævintýrið að bresta á


Svona tók Siglufjörður á móti þeim sem komu í bæinn aðfararnótt föstudagsins 29. júlí. Það er ekkert hægt að setja út á móttökur af þessu tagi. 

735. Það var í meira lagi fúlt að þurfa að þeysa suður á bóginn á þriðjudaginn s.l. frá Siglufirði úr glampandi sólskini, hægviðri og steikjandi hita, suður yfir heiðar í rigningarúðann og þokuslæðinginn sem þar lá yfir öllu. En það var ekki hjá því komist og stærsti kosturinn við að vera kominn suður, var sá að það var strax hægt að fara að láta sig hlakka til næstu norðurferðar. Dvölin á suðvesturhorninu átti nefnilega að verða stutt sem og varð. Fram undan er Síldarævintýrið sem virðist ætla að verða eitt hið fjölmennasta frá upphafi og strax við komuna norður sá þess þegar merki sem stefnir í og glöggir spámenn höfðu þá íað að um tíma. Fjöldi húsbíla, tjaldvagna, fellihýsa og alls kyns færanlegra vistarvera er nú þegar orðinn mun meiri en oftast hefur sést á miðjum laugardegi þegar fjöldinn hefur vanalega verið mestur. Í síðdegisútvarpinu í gær var ferðafólk beðið um að sýna sérstaka aðgát á Siglufjarðarvegi þar sem útlit væri fyrir að þar myndi verða óvenju mikil umferð farartækja af fyrrnefndum gerðum, en í hádegisfréttum á rás 2 í dag (föstudag) var aðeins talað um strauminn sem lægi til Vestmannaeyja, Akureyrar og Egilstaða. (Veit fólkið á þeim bæ ekki hvar er í gangi?) Svo hefur frést af óvenju miklum flutningum á vistum og fleiru ( t.d. fljótandi brauði) til bæjarins allra síðustu dagana, því Finni Hauks vill ekki lenda í þeim bömmer eina ferðina enn að hillur tæmist og veitingamenn vilja auðvitað geta látið dæluna ganga alla helgina.


Veðurspákort Bigga Inga frá því fyrr í vikunni. Það er líka ætlað þeim sem eru haldnir valkvíða og til að efla rétthugsun.

Á myndin hér að ofan segir okkur af þeim væntingum og spám sem voru gerðar til veðursins fyrr í vikunni, en því miður virðast veðurguðirnir ætla að verða eitthvað fýlugjarnari en við hefðum helst kosið. Það er svo önnur spurning hvort nokkuð betra sé að fara nokkuð annað? Svarið við því hlýtur að vea NEI, þar eru útlit og horfur ekki betri og sólin er líka til í fleiri birtingarmyndum en þessari heiðgulu sem hellir stundum brennheitum geislum sínum yfir okkur mannfólkið. Við mætum því bara með hana í sjálfri sálinni og sinni, og eigum saman frábæra helgi hvort sem við fáum svolitla gróðrarskúr eður ei.

25.07.2011 03:12

Hestamannatrússferð sem var botnuð með Botnaleið

734. Vildi bara að láta aðstandendur og skyldmenni vita að menn eru komnir af fjöllum. Og til að sýna fram á þeir (ég) hafi verið þar en ekki einhvers staðar allt annars staðar, tel ég rétt að famvísa nokkrum gögnum um hestaferðina upp á hálendið sem stóð í heila viku og sjá má hér að neðan.


Agnar oddviti í Akrahreppi og "prestsmaddama" á Miklabæ flutti mjög hátíðlegt og tilfinningaríkt ávarp í Miklabæjarkirkju og opnaði, ef þannig mætti að orði komast ferðina. Agnar sem er guðfræðingur að mennt rétt eins og eiginkonan Dalla, hreif alla viðstadda með stuttorðu en ótrúlega gagnorðu ávarpi sínu þar sem hvert einasta atkvæði var þrungið innihaldsríkum boðskap. Víða mátti sjá tár á hvarmi viðstaddra eftir að Agnar hafði lokið hinni tilfinningaþrungnu ræðu sinni.


Til að fullkomna þessa hátíðlegu stund hafði Kjartann (faðir Sigurjóns Kjartanssonar leikara) sem er fyrrverandi organisti Bústaðarkrikju, verið fenginn til að leika nokkur valin verk á hljóðfæri kirkjunnar. Ýmsir fleiri komu að athöfninni, m.a. með upplestri og hljóðfæraslætti, en þar sem ég ekki fengið samþykki þeirra fyrir mynd og nafnbirtingu, læt ég alla vega bíða að minnast á annars mikið og gott framlag þeirra.


En til að gera langt mál mjög stutt, þá var riðið þaðan upp Austurdal og yfir Merkigil. Þaðan lá leiðin yfir jökulsána og yfir Vesturdal, fram hann og síðan upp úr Skagafirði um Gilhagadal sem er nokkru innan við Mælifell. Þá var gert stutt stopp við Buguvatn á Eyvindarstaðaheiði, en eftir það var haldið að Galtará sem er vestan Blöndulóns. Þaðan sést vel yfir miðhálendið s.s. til Hofsjökuls, Kerlingafjalla, Langjökuls og Eiríksjökuls. Þar var staldrað við í tvo daga og síðan riðið svipaða leið til baka. Komið var niður Mælifellsdal.


Sigurður Hansen skáld á Kringlumýri drakk mikið magn kókómjólkur í ferðinni, en á myndinni má einmitt sjá hann með eina slíka fernu.


Dragspilið var þanið við hvert tækifæri sem gafst og hinir Skagfirsku hetjutenórar tóku þá vel undir og hljómuðu eins og englakór hálfguðlegra vera. Við sem ekki vorum af rammskagfirsku kyni, reyndum sem við gátum að fyllta bassann og sungum aðrar milliraddir sem ekki kröfðust jafn mikilla raddgæða.


Það var líka safnað í minningasjóð með aðstoð kísilflögu og tölvutækninnar. Það er bæði gott og veitir vissa öryggiskennd að hafa bæði sálfræðing og lækni með í ferð, þó að ekki hafi þurft að leita verulega mikið til þeirra í ferðinni. En til gamans má geta þess að Viðar læknir og saxófónleikari spilaði með Miðaldamönnum  árið 1981 þegar Erla Stefáns söng með okkur "Eftir ballið" inn á plötu:


Lagt var upp með hvorki meira né minna en 130 hesta frá Miklabæ, en 40 þeirra urðu eftir við Gilsbakka í Austurdal. Það voru því u.þ.b. 90 hross sem fylgdu reiðmönnunum alla leið. Ferðin var aðstandendum hennar í alla staði til mikis sóma.

Hér er Þórólfur bóndi (t.v.) á gangi ásamt sr. Sigfinni. Mér reiknast til að það hafi verið 1,36 guðfræðingur með í för á hverja 10 reiðmenn, en það skal tekið fram að lítið er vitað um trúarlíf og kirkjurækni Þórólfs.


Þessari frábæru og ég verð að segja mannbætandi ferð, lauk formlega hvað mig áhrærir á miðnætti að loknum föstudegi, en akkúrat þá gekk ég í hús á Siglufirði. Strax á laugardagsmorguninn var svo farið að búa sig af stað í þá næstu, sem var að vísu öllu styttri en reyndist þó ekkert sérlega auðveld þeim sem hafa trassað að hreyfa sig nægilega og bætt heilum 10 kg. af óvelkomnum "aukafarangri" utan á sig á síðustu mánuðum.


En nánar má lesa um þá ferð á siglo.is og slóðin þangað er... 

http://www.sksiglo.is/is/news/ganga_ferdafelagsins/ 

15.07.2011 18:38

Dagur þrjú og ferðalok

733. Á laugardagsmorguninn hafði létt nokkuð til og þau ský sem lægst sigldu, héldu sig velflest ofan fjallatoppana innanvert og vestantil í firðinum. Efsti hluti Siglufjarðarmúla var þó enn vel "bólstraður" og freistaði því ekki eins og á stóð. Það voru talsverð vonbrigði, því hann hafði verið ofarlega á óskalistanum. Það var því ákveðið að ganga á Illviðrishnjúk (895 m.) frá Siglufjarðarskarði og klára þannig vesturfjöllin að undanskilinni Skrámhyrnu og Strákafjalli.


Það reyndist ekki mikið mál að komast upp í skarðið, það hafði nýlega verið rutt og vegurinn orðinn ágætlega þurr.


Það vakti athygli okkan að miðstrengurinn í "háspennu"mastrinu var slitinn, en einhvern tíma hefði það valdið verulegum vandræðum í bænum.  Það hlaut því að vera búið að leggja hann í jörð, þó ég minnist þess ekki að hafa heyrt af þeim framkvæmdum.


Það var lagt á brattann eftir stutta göngu frá skarðinu. Fjallið sem fara þarf yfir áður en komið er að rótum Illviðrishnjúks, er klettótt og hentar alls ekki öllum, því það þarf að klífa upp litlar klettasnasir og fyrir sumar þeirra. Gangan niður af því sunnanverðu er þó öllu minna mál.


Ég er búinn að spyrja marga að nafni þessa fjalls, en hef enn ekki fengið þau svör sem ég sætti mig fyllilega við. Við Siglfirðingar þekkjum Illviðrishnjúk sem mun einnig hafa verið nefndur Illveðrahnjúkur, en Fljótamenn og Skagfirðingar þekkja hins vegar margir hverjir Illviðrishnjúka í fleirtölu. Þá er átt við þrjá hnjúka sem blasa við úr Fljótunum og mun "nafnlausa" fjallið vera eitt þeirra. Hins vegar gengur mikill hryggur bæði niður úr því, en einnig Fjallinu þar sem Illviðrishnjúkurinn (okkar Siglfirðinga) er efstur, og er allnokkur skál á milli þeirra eins og sést á myndinni hér að ofan. Það er því tæplega hægt að halda því fram (að mínu mati) að skyldleiki fjallanna sé nægilega mikill til að samheitið Illviðrishnjúkar fái fullkomlega staðist. Ef einhver getur bætt einhverju við mínar takmörkuðu upplýsingar, yrði þær vel þegnar.


Það urðu nokkrir eftirlegusnjóskaflar á vegi okkar, sem reyndust vera mun mýkri og þægilegri undir sóla en allt grjótið og urðin og melirnir.


En svo var toppnum allt í einu náð, bæði skyndilega og skemmtilega óvænt. Lítill skýhnoðri hafði setið þar meðan við voru á leiðinni þangað upp, en það var eins og hann losnaði allt í einu frá fjallinu og flaut frá því þegar aðeins nokkrir metrar voru eftir upp að vörðunni.


Útsýnið yfir fjörðinn var eins og best verður á kosið, ef frá er talið þykknið fyrir utan nesið og yfir Siglunesmúlanum. Eftir að hafa staldrað við í dágóða stund og m.a. leitað að gestabókinni sem fannst ekki, lá leiðin aftur niður fjallið. Við kölluðum þann hluta ferðarinnar auðvitað "niðurgang".


Þegar komið var ofan í slakkann milli hnjúksins og "nafnlausa" fjallsins skildu leiðir. Magnús gekk niður hliðina, (græna línan) sem mun vera algeng gönguleið eftir því sem mér er sagt. Ég hafði þá á orði að lítið vit væri í að fylgja þeim eftir sem villtist í skógræktinni, en hefði betur látið það ósagt. Maggi fór nefnilega skynsamlegustu leiðina, þrátt fyrir að nokkuð væri á brattann að sækja allra síðasta spölinn. Ég sá nefnilega ekki betur þaðan sem ég var, en að við mér blasti bein og ágætlega greiðfær leið framhjá klettum og klungri í tiltölulega litlum hliðarhalla. (Rauða línan). Annað og miklu verra kom þó í ljós og mér var alveg hætt að lítast á blikuna um tíma, og ég mæli ekki með því að nokkur maður "fíflist" til að eiga leið um þessa vondu leið. Þegar ég var loksins kominn á leiðarenda, beið Magnús við bílinn svolítið undirfurðulegur á svipinn.

1. Siglufjarðarskað.

2. Fjallið sem er nafnlaust Siglufjarðarmegin.

3. Illviðrishnjúkur.


En þar sem dagurinn var ekki allur, var ákveðið að kíkja á rústir Evangerverksmiðjunnar handan fjarðar. Þetta var allt saman búið að vera mikið og gott labb, en á Aðalgötunni beið Gulla matráðskona með tvö lambalæri (bæði vinstri og hægri) og "meððí".


Kvöldið leið svo í góðum gír og talsverðum stíganda, ef þannig mætti að orði komast. Nokkru eftir að Hjálmarnir höfðu lokið leik sínum á Kaffi Rauðku (en þangað lá leið flestra) og hópurinn aftur kominn í hús, var slegið upp svolitlum tónleikum á Aðalgötunni og eins og sjá má voru menn í talsvert góðum "filing".


Á sunnudagsmorguninn skartaði fjörðurinn sínu fegursta og ég er ekki frá því að í það minnsta sumir hefðu alveg getað hugsað sér að bæta eins og einum degi við dvölina. Til að nýta þó einhvern hluta af þessu frábæra veðri, var gengið á Ríplana um hádegisbilið.


En hvað eru Ríplarnir gætu þá einhverjir spurt. Hlíðarrípill, Hafnarrípill, Skriðurípill, Skálarrípill og Bakkarípill (talið frá suðri) eru þau nöfn sem gefin voru snjóflóðavarnargörðunum sumarið 2009. Hugmyndin bar sigurorð af öðrum tillögum í samkeppni um nöfn á þá og eru komin frá þeim heiðursmönnum, Hannesi, Páli og Örlygi sem standa að Örnefnafélaginu Snók.


Og því er svo við að bæta að Rípill er nafn á garði eða hrygg í landslagi, og mun orðið vera talsvert notað í jarðfræði. Eins og þeir vita sem til þekkja eru garðarnir eitt allra vinsælasta svæði til útivistar og göngu í Siglufirði.


Á Ríplaröltinu varð okkur litið upp í Gimbrakletta, en þeir stóðu greinilega vel undir nafni þá stundina því þar voru gimbrar í klettum.


En nú var komið að kveðjustund og brottför. Þetta voru búnir að vera sérdeilis frábærir dagar, þrátt fyrir að skýjafarið hafi ekki verið eins og ýtrustu væntingar stóðu til og þokubakkar hafi verið allt að því óhóflega þaulsætnir á hnjúkum fjallanna.


Að lokum vil ég geta þess að frá og með "núinu" er sá sem þetta ritar rokinn lengst inn í inndali Skagafjarðar að trússa með öldungis óviðjafnanlegum hópi hestamanna og ætlar að halda sig þar næstu 5-7 dagana í algjöru tölvu og slitróttu símasambandsleysi. 

14.07.2011 01:49

Dagur tvö

732. Á föstudagsmorguninn var enn þoka. Innlit á vedur.is gaf hins vegar tilefni til að ætla að "hann rifi það af sér" eins og stundum er sagt, eða að þokunni létti og það sæist jafnvel til sólar. Ekkert hafði þó breyst þegar leið að hádegi og þá var ákveðið að taka til áætlunar "B" sem reyndist hið besta mál eftir á séð. Það var ekið rétt upp fyrir skíðaskálann í Skarðsdal og þaðan gengið út á Leyningssúlur neðan þokurandarinnar. Það er stutt ganga og þaðan er frábært útsýni út fjörðinn, svo ekki sé talað um sjónhorn fyrir myndavélaeigendur.


Hér eru þau Edda, Ingi Gunnar og Kristjana frammi á Súlnahaus.


Magnús stillti myndavélina sína á 10 sec. og hljóp af stað til að geta verið með á myndinni.


Hann nálgaðist hratt.


Horfði aðeins til baka og hikaði.


En náði, og nú á ég bara eftir að fá að sjá afraksturinn þar sem ég fékk líka að vera með.


En áfram var gengið til suðurs og talsvert ofan við svonefndar Súlnabrúnir, inn í Selskál og út hana sunnanverða milli kletta. Þar sáum við forvitnilegan klettaskúta skammt fyrir ofan okkur sem okkur langaði reyndar til að skoða svolítið nánar, en eftir stuttan fund um málið var ákveðið að láta það ógert að sinni og haldið áfram. Eitt af því sem átti þó alveg örugglega að gera "næst".


Myndin hér að ofan er tekin fyrir ofan neðstu klettana norðan í Selfjalli og eins og sjá má er útsýnið ekki af verri endanum.


Eftir talsvert labb til viðbótar stóðum við undir hinum bráðmyndarlega Blekkli (Blekkill í nefnifalli) og gengum í átt að brún Lágblekkils. Það var líkast því að ganga á sléttlendi þar til við komum að brúninni þaðan sem innsti hluti Hólsdalsins lá fyrir fótum okkar eins og landakort.


Það var ekki laust við að sumir göngumenn hryggju frá brúninni, því svo óvænt breyttist landslagið úr sléttlendi í þverhnípi.


Frá Lágblekkli er líka frábært skotstæði fyrir myndavélar og áðurnefnda eigendur slíkra gripa.


Hvort er þetta steinn eða bein? Það var skotið á fundi og sitt sýndist hverjum. Það var svo ekki fyrr en "einhver" hafði bitið í, smakkað og smjattað svolítið, að úrskurður lá fyrir. Þetta var bein.


Það var stutt upp í Hólsskarð og sumir höfðu á orði að það væri freistandi að ganga örlítið hærra.


En niðurstaðan varð sú að það var gengið suður fyrir og niður. Bærinn hvarf næstum því sjónum okkar, en kom aftur í ljós þegar neðar dró. 


Svo var gengið niður með Hólsánni og næsta stopp var við Gálgafoss, en hann er u.þ.b. helmingi hærri en Leyningsfoss sem er höfuðdjásn Skógræktarinnar.


Skammt fyrir neðan hann eru nokkrir smærri fossar og sumir býsna laglegir, en ég hef ekki heyrt þá nafngreinda þótt þeir hafi líklega einhvern tíma borið einhver nöfn.


Sumir eru í Hólsánni sem heitir opinberlega Fjarðará, en aðrir í misjafnlega vatnsmiklum hliðar ám og lækjum.


Áfram var gengið í átt til byggða og fyrrverandi byggða.


Skammt ofan við stífluna gengum við fram á gamlar tóftir, líklega sels frá fyrri öldum. En á snokur.is er eftirfarandi klausu að finna um fornt býli norðan Blekkilsár og sunnan Selár: "Innarlega í Siglufjarðardal, vestan ár, gengt Hólsseli hefir bær verið á fyrri öldum. Er þar byggðarstæði eitt hið fegursta. Grundir miklar og breiðar, hallandi frá hlíð að á niður, túnefni því hið besta, slétt og víðlent mjög. Hefur bærinn staðið upp við rætur hlíðarinnar sem mjög er þar gróðurrík. Útsýn er og héðan sem best má vera, um byggð þessa og fjörð. Hefir tún verið slétt og allmikið. Takmarkar það lækjargil að sunnan, en túngarður mjög forn er skammt ofan bæjartófta vel skýr út hlíðarrætur; sér og nokkuð til hans norðan túns niður að á. Út frá honum eru hinar sömu sléttu engjabreiðar allt milli ár og fjalls, hefir býli þetta átt innri hlut þeirra en haglönd mikil og góð hið efra og innra til háfjalla.

Svo snemma hefir býli þetta í auðn farið, að ekki verður fundið nafn þess, þó hér sé því af staðháttum þetta nafn valið. Mun hér ekki hafa byggð verið eftir Svartadauða (1402) og máske lítil eða engin eptir 1300".


Fyrir ofan tóftirnar má svo greina hlaðinn garð.


Það var óvenju mikið vatn í Blekkilsánni sem er yfirleitt aðeins vinalegur og hjalandi lækur þegar liða fer á sumarið, en það reyndist svo sem ekkert stórmál að komast yfir hann að þessu sinni.


Stíflan og efri hluti Gálgafoss. Neðsti hlutinn sést ekki fyrr en komið er alveg að honum og sömuleiðis eru hinir minni fossar örlítið neðar í ánni alveg í hvarfi.


Næsti og jafnframt lokaáfangastaðurinn var skógræktin sem er nyrsti "skógur" á Íslandi. Það er spurning hvort ekki er kominn tími til að finna eitthvert virðulegra og mikilfenglegra nafn á þetta svæði en skógræktin. Eitthvað nafn sem endar t.d. á SKÓGUR. Þegar sá sem þetta ritar var að vinna í unglingavinnunni á árabilinu 1965-70, náðu allra hæstu trén honum u.þ.b. í axlir, en núna teygja þau hin sömu vel á annan tug metra upp í loftið.


Skógræktin í Skarðsdal er algjör perla og Leyningsfoss sem einnig nefndist Kotafoss er eins og vel þroskað jarðarber ofan á dýrindis rjómatertu.


Ekki gátu þó sumir setið á sér, heldur klifruðu upp fyrir fossinn og settust á klettabrúnina þar sem hann fellur fram af brúninni, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd og dingluðu fótunum fram af henni.


Ekki er hægt að sleppa því að nefna að á leiðinni að bílastæðinu "gleymdu menn" einni beygjunni á stígnum sem liggur þangað og var þeirri sök klínt á Magnús sem fór fyrir hluta hópsins, að hann hefði villst í skóginum. Þó lá fyrir að sá hluti göngumanna hefði hvorki rekist á Rauðhettu né úlfinn, en nánar um það í næsta hluta.


1. Upphaf ferðar ofarlega í Skarðsdal.

2. Leyningssúlur.

3. Neðstu klettarnir í norðanverðu Selfjalli.

4. Lágblekkill.

5. Gálgafoss (í hvarfi).

6. Skógræktin.

11.07.2011 01:56

Dagur eitt

731. Fimmtudagurinn sem var fyrsti göngudagurinn, var allur grárri en vonir höfðu staðið til. Það sást ekki til sólar, heldur aðeins upp í miðja hlíðar fjallanna vegna þokunnar sem grúfði yfir öllu. Eftir hafragrautinn, súrmjólkina og annað morgunfóður var staðan rædd. Fram að hádegi hafði ýmist verið horft til fjalla eða kíkt á veðurspána í tölvunni, en hún gaf tilefni til að ætla að ekki væri útilokað að það gæti jafnvel eitthvað létt til þegar liði á morguninn. En þegar ekkert hafði breyst og klukkan farin að ganga eitt, var haldið af stað upp með Hvanneyraránni, gengið upp á skálarbrún og þaðan upp í Gróuskarð. Eftir svolítið nestisstopp var haldið af stað upp í þokuna áleiðis upp að Hvanneyrarhyrnu (640 m). Þaðan mátti grilla í Skrámuhyrnu til norðurs, en hún heitir eftir tröllskessunni Skrámu sem á að hafa búið í helli sínum í norðanverðum Engidal meðan hún var og hét. Þangað er stikuð leið og síðan áfram út á Strákafjall, en ekki var hún árennileg í þokunni.


Tröllsleg ásýnd hennar varð þó ekki til þess að hræða Kristjönu frá því að feta sig meðfram kaðlinum áleiðis að henni, en þarna fyrir norðan er landslag allt með því hrikalegra sem gerist í siglfirsku fjöllunum. Við hin fylgdumst með, en ekki höfðu aðrir löngun til að fylgja henni í þennan könnunarleiðangur.


Frá Hvanneyrarhyrnunni lá leiðin næst til suðurs eftir hvössum brúnum Hvanneyrarskálarinnar, en vestan við þær er því sem næst lóðréttur klettaveggurinn niður í Engidalinn.


Magnúsi fannst hátt niður og brattleikinn mikill, þrátt fyrir að ekki sæist nema lítillega áleiðis niður í dalbotninn og hafði sýnilega engan áhuga á að standa allt of nærri brúninni.


Skagfirðingurinn Snorri og Edda sem bjó eitt sinn á Siglufirði voru sama sinnis. Sá sem þetta ritar og hefur séð alla leiðina niður í dalbotninn, veit vel að þær systur skynsemin og varúðin er heppilegir förunautar í svona ferðum þó svo að hann hafi einstaka sinnum orðið viðskila við þær á ferðum sínum.


Þarna hefur stór steinn fallið ofan á syllu og staðnæmst þar eins og minnisvarði eða ábending til ferðalanga um að tefla ekki á tæpasta vað.


Það er gægst fram af brúninni og ofan í enn eitt gilið sem virðist ekki hafa neinn neðri enda, engan botn, heldur liggja nánast beint niður, niður, niður.


Forvitnin togar þó alltaf í og Snorri gægist fram af skaflbrúninni þrátt fyrir einhverjar athugasemdir samferðarmanna og kvenna.


Hann tekur þeim af svolítilli léttúð og reynir að gera engil í harðan snjóinn, en þegar hann stendur upp sést lítið eftir af verkum hans. Það vill auðvitað enginn engill eiga heima á svona stað.


Eftir talsvert labb í kring um Hvanneyrarskálina grillti í útlínur Hafnarhyrnunnar (687 m). Þokan hafði þau áhrif á skynjunina að umhverfið varð allt einhvern vegin mun magnaðra og hrikalegra, sveipað dulúð og ófyrirsjánlegt.


En toppnum var náð og þó að útsýnið þaðan væri ekki það sem hafði í upphafi verið vænst, var upplifunin af ferðinni engu að síður sérstök og mögnuð á sinn hátt. Það var líka komið að öðru nestisstoppi.

Af hyrnunni lá leiðin suður Hafnarfjall ofan Leirdala, þar til komið var að stikunum sem marka Dalaleið. Þar var staldrað við Styrbjarnardys og þriðja nestisstoppið tekið. Annað slagið virtist vera að létta til og stundum grillti í hesthúsin langt fyrir neðan, en rofin í þokuna stóðu jafnan stutt yfir.

Fljótlega eftir að lagt var af stað frá dys hins óheppna Styrbjarnar sem endaði að sögn lífshlaup sitt uppi á miðri Dalaleið, var komið niður fyrir þokubrúnina. Nú var aðeins eftir gangan niður Skjaldarbringur og melinn milli giljanna.


Þessi lækjarspræna spratt út út gilveggnum rétt eins og hún bunaði út um rörenda. Skrýtið fyrirbæri, en segir okkur að margir eru þeir lækirnir sem ekki sjást á yfirborðinu. 


Sumir voru orðnir vatnslitlir og lækurinn freistaði. Það var því sveigt af leið og fyllt á flöskur. En nú var stutt eftir, klukkan var að verða sjö og í bækistöðinni á Aðalgötunni beið hópsins steiktur fiskur ásamt tilheyrandi meðlæti sem var vissulega tilhlökkunarefni. Þökk sé henni Gullu.

Því er svo við að bæta að eftir matinn og svolítið spjall um afrek dagsins, var farið í kvöldgöngu um eyrina og bryggjurnar, þar sem sagan var rifjuð upp ásamt því sem væntingar til framtíðar voru skeggræddar. Uppbyggingin við smábátahöfnina vakti auðvitað alveg sérlega mikla athygli. Áformað hafði verið að setjast stundarkorn inn á Rauðku, en staðurinn reyndist því miður lokaður þó að enn væri stundarkorn í miðnætti.


Rauða línan sýnir leiðina sem gengin var en gulu tölustafirnir nokkra þeirra áfangastaða sem koma við sögu.

1. Rafstöðin þar sem gangan hófst.

2. Gróuhnjúkur og Gróuskarð - fyrsta nestisstoppið.

3. Hvanneyrarhyrna.

4. Hafnarhyrna.

5. Styrbjarnardys á Dalaleið.

6. Hesthúsahverfi og göngulok.

07.07.2011 02:36

Gengið á Siglufjarðarfjöll


730. Í gærkvöldi fjölgaði íbúum á Aðalgötunni talsvert, eða úr einum og í sjö. Nokkrir félagar úr gönguhóp Gámafélagsins sem ég hef oft gengið með til fjalla syðra, komu norður og til stendur að kanna hinn Siglfirska fjallahring að einhverju leyti næstu þrjá til fjóra dagana. Það eru þau Maggi, Gulla, Snorri, Edda, Kristjana og Ingi Gunnar auk mín sem ætla að ganga til fjalla, en þó aðeins á hæfilegum gönguhraða miðað við aldur og fyrri störf. Ef einhverjir hefðu áhuga á að slást í för með okkur, væri það bara hið besta mál. Hugmyndin er að ganga Siglunesmúla frá Kálfsdalsskarði og út úr, frá Siglufjarðarskarði, fyrir Hólsdal og að Hólsskarði, einnig á Illviðrishnjúk eftir Hafnarfjalli, fyrir Hvanneyrarskál, út á Skrámu og Stráka, en svo eru Hestskarðshnjúkur og Staðarhólshnjúkur gegnt bænum líka til skoðunar. Allt fer þetta samt eftir veðri, skyggni o.s.frv.

06.07.2011 01:38

Nýir tímar


729. Þegar högg dixilmannanna bergmála ekki lengur í Gimbrarklettum og Staðarhólshnúk, þarf að finna nýtt segulafl sem knýr Klondike norðursins áfram til frægðar og frama. Það þarf að finna og virkja nýjar hugmyndir, nýjar uppsprettur og nýjar auðlindir. Ég sé ekki betur en að það hafi tekist með ágætum. Einn af sonum fjarðarins lognhlýja sem ól hann, hafi nú snúið aftur og leyst úr læðingi leynda og undirliggjandi orku kraftmikilla sveitunga sína. Hrifið þá með sér í leit að nýjum ævintýrum, fundið þau og gert að sínum.



Æskan sem hló eitt sinn mót framtið sinni á iðandi síldarplönum en hefur breyst í miðaldra fólk, finnur nú gömlu draumana sína endurborna. Ekki aðeins í Róaldsbrakka, Gránu og Bátahúsi, heldur einnig í gömlu Bátastöðinni. Rauðka, Hannes Boy og bláa Dagshúsið hafa gengið í endurnýjun lífdaga og öðlast nýtt og nútímalegt hlutverk. Bæjarmiðjan hefur færst til og það án pólitískrar handayfirlagningar í afgömlum stíl, endalaust þras, mas og bras sem er líklegra en flest annað til að kæfa góða hugmynd í fæðingu, eða grenndarkynninga sem kalla á einhverjar verulega skiptar og sundrandi skoðanir umdeildra eða jafnvel hæpinna hagsmunaaðila. Þetta bara gerðist og það er gott mál.



Ég gat ekki annað en glaðst yfir og með nýliðnum dögum, fest þá í kubb til minningar um þann tíma þegar sól síldarinnar lagði grunninn að sjálfum nútímanum og síðan framtíðinni sem bíður kankvís og óræð bak við næsta horn.


Kaldur júní hefur kvatt og sólríkur júlí mun vonandi verma sálina og andann. Það er gaman að vera til. Svo gaman að hver hálftími getur hæglega umbreyst í heil þrjú korter í hugum vorum ef við erum bara nógu móttækileg. Það lengir lífið til muna og gerir það líka skemmtilegt. Hér er gaman að vera og Siglufjörður er rosalega "inn" í dag.

04.07.2011 16:16

Sumardagurinn "fyrsti"


728. Það varð ekkert minna en algjör kúvending á veðurfarinu í miðri síðustu viku eins og sjá má á meðfylgjandi myndum, enda kannski alveg kominn tími til. 



Mælirinn á Sparisjóðnum sýndi hvorki meiran né minna en 24 stiga hita á laugardaginn. Á svona dögum er hvergi betra að vera en á Sigló.


02.07.2011 15:10

House, Club, Trance og ljós sem skera


727. "Dídjeiarnir" Márus og Hákon gista hjá mér um helgina, en þeir munu þeyta rafrænum skífum sínum á Allanum föstudags og laugardagskvöld. Þeim fylgir talsvert af dóti sem gamlir popphundar eins og sá sem þetta ritar, eru ekki að meðtaka skýringalaust. Þar á meðal eru reykvélar og ljósashow s.s. strobe, blacklight, laser o.s.frv. sem sker loftið hreinlega í sneiðar. Það þurfti auðvitað að tengja, prófa sig áfram og prógrammera fyrir gigg. Þá var dregið fyrir glugga eins og hægt var og stofan notuð sem æfingasvæði. Það var því mikill ljósagangur ásamt tilheyrandi undirtónum sem fyllti vel út í hvern krók og kima í gamla Apótekinu fram eftir föstudeginum.

01.07.2011 01:58

Gálgafoss


726. Þessi vel geymda náttúruperla heitir Gálgafoss og er í Fjarðará (Hólsá) um klukkutíma gang upp af stíflunni sem er inni í dal. Ég hef lengi verið á leiðinni upp að þessum fossi til að skoða hann svolítið og lét loksins verða af því seinni partinn í gær. Neðsti hluti hans sem er í hvarfi, sést ekki fyrr en komið er alveg upp að honum og virðist hann því vera mun lægri tilsýndar en hann er í raun og veru. Á hæðina er hann á við þriggja hæða hús og hinn myndarlegasti í alla staði. Ekki spillti það fyrir að áin er óvenju vatnsmikil um þessar mundir. Efri myndin er tekin af austurbakkanum en sú neðri af hinum vestari.


  • 1

Name:

Leó R. Ólason

Location:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Today's page views: 983
Today's unique visitors: 156
Yesterday's page views: 1391
Yesterday's unique visitors: 279
Total page views: 496360
Total unique visitors: 54774
Updated numbers: 26.12.2024 23:07:55
clockhere

Links