Blog records: 2010 N/A Blog|Month_4
30.04.2010 19:56
Kiddi, Pétur og sólarlagið
628. Þessa ágætu drengi hitti ég þar sem þeir hímdu undir vegg í "smoke time". Ég mundaði vélina og þeir tóku sér pós-stöðu með það sama.
Að vísu gerðu þeir svolitla athugasemd við útlit mitt sem var reyndar fullkomlega réttmæt, en við skulum ekkert vera að fara neitt nánar út í það núna.
Þetta var góður puntur hjá ykkur strákar, ég ætla að skoða hvað hægt er að gera...
Og meðan staldrað var við á suðvesturhorninu var m.a. prílað upp á Melahnjúk sem er svolítið uppi í Esjuni fyrir ofan þar sem Hvalfjarðargöngin opnast að sunnanverðu. Þegar komið var aftur niður af fjalli var sólin einmitt að setjast beint ofan á kollinn á Snæfellsjökli.
En nú skal haldið norður á bóginn enn ag aftur og er næsta suðurferð áætluð þann 11. maí nk. Hafið það gott á meðan.
27.04.2010 12:01
Portúgali, Tíðaskarð, Saurbær og önnur skrýtin bæjarnöfn, ofureldavél og bæjarfjallið Hólshyrnan...
627. Þegar ég var á leiðinni norður á Sigló fyrir fáeinum dögum, kom ég við hjá Hrólfi á Nýbýlaveginum því það var alveg kominn tími á klippingu og þó fyrr hefði verið. Það er ekki hægt að segja að það hafi myndast langar og vandræðalegar þagnir meðan staldrað var við því það var meira en nóg að spjalla um. En áður en ég fór, sýndi hann mér Portúgalann sem hann notar gjarnan þegar við á.
Þetta er akkúrat nákvæmlega sami Portúgali og Gylfi Ægis orti um í "Minning um mann" forðum.
"Hann Portúgalann teygaði það gerði ekkert til,
það tókst með honum yl í sig að fá."
Þar segir frá Gölla Valda sem þótti í meira lagi drykkfelldur og einn af hans uppáhalds drykkjum var Portúgalinn sem að sjálf sögðu var ekki ætlaður til drykkjar. En það er nú stundum þannig að ekkert er meira spennandi og skemmtilegra en að stelast til að gera það sem er bannað, og þar á eftir kemur að reyna að drekka það sem merkt er "óhæft til drykkjar".
Einum stórnotanda og dyggum áhanganda Portúgalans var einu sinni bent á áletrun á miðanum og sagt að það sem þarna stæði þýddi "hristist fyrir notkun".
"Ja hérna, eins gott að kynna sér notkunarreglurnar" svaraði hann og eftir það hristi hann glasið alltaf duglega áður en hann fékk sér einn gráan. Eftir heimsóknina til Hrólfs var haldið út úr bænum. Þegar við Ingvar sem var samferða mér norður, vorum rétt komnir að Hvalfjarðargöngunum fékk ég þá flugu í höfuðið að sveiga lítillega af leið. Það er orðið langt síðan þessi beygja hefur verið tekin sem er reyndar hið versta mál, því það er virkilega gaman að aka Hvalfjörðinn á góðum degi. "Veistu hvað þetta litla skarð heitir"? Ég spurði en Ingvar var ekki með svarið og spurði á móti eins og hann efastist um að ég vissi það heldur. "Tíðaskarð" svaraði ég að bragði, en síðan upphófust nokkrar umræður um af hverju nafnið væri dregið. Það er reyndar ekkert tvírætt við upprunann þó að oft verið ýað að því, og óneitanlega hljómar nafnið í þá veruna. Tvær ástæður hafa verið nefndar sem líklegastar. Um Tíðaskarð gæti hafa legið fjölfarin reiðgata sem fara þurfti um þegar tíðir voru sóttar. Önnur þekkt skýring er sú að veðurskil hafi oft verið við skarðið þannig að tíðin hafi e.t.v. sjaldan verið sú sama beggja vegna þess.
Frá Hvalfjarðarveginum sem nú er ekki lengur sama þjóðbraut og áður er afleggjari niður að Saurbæ og Saurbæjarkirkju. Hann hefur að mestu verið aflagður eftir að vegurinn færðist neðar með tilkomu Hvalfjarðarganganna.
Skiltið með bæjarnafninu er fallið og lá í grasinu við vegkantinn. Við skoðuðum það aðeins og fram kom sú hugmynd að nema það á brott og nýta á hurðina heima þar sem nú er lítið merki með mynd af krökkum að pissa í kopp. Óneitanlega meira afgerandi merking, en frá því var samt horfið.
Við ræddum um bæjarnöfn til sveita á leið okkar upp Borgarfjörðinn og hve oft væri bæði strembið og skondið að þýða þau t.d. yfir á engilsaxneska tungu. Stundum vegna þess að merkingin væri mjög óljós eða þá skilningur okkar e.t.v. takmarkaður, en stundum vegna þess að þýðingin hljómaði mjög svo hjákátlega svo ekki væri meira sagt.
Hér fara á eftir nokkur dæmi:
Saurar
Botn
Dæli
Hurðarbak
Ok
Sælingsdalur
Vola
Ból
Þambárvellir
Krumshólar
Beigaldi
Þursstaðir
Jarðlangsstaðir
Stóri-kroppur
Amsturdamm
Snartartunga
Einfætingsgil
Skriðinsenni
Grindill
Þrömur o.s.frv...
Eftir að norður var komið var nóg að gera. Ég gaf mér þó tíma til að skoða þessa forláta eldavél sem mér hafði nú áskotnast, en vissi samt ekki alveg hvað ég ætti að gera við. Þetta hefur vafalaust verið stórglæsilegur gripur fyrir 50-60 árum, en er tæpast alveg að virka við Ikea innréttingar nútímans.
Ég veitti athygli gormahellunum og pottlokinu vinstra megin og innan við.
Ég tók lokið af "pottinum" og viti menn, hvað var þarna undir?
Þetta þurfti meiri athugunar við og enn blasti við eitthvað sem ég átti ekki von á. Ég spurðist fyrir um þetta "apparat" sem mér skilst að sé innbyggður gufusuðupottur!
Ég gægðist inn í ofninn og enn er þetta galdratæki að koma mér á óvart. Nokkuð ljóst að hann hefur ALDREI verið notaður. Og ekki bara það, heldur lágu "owners manuel" pappírarnir þarna nánast eins og nýkomnir úr prentsmiðjunni.
Og eftir nokkurra daga viðdvöl í heimabænum leið að brottför eins og gengur. Menn tóku saman pjönkur sínar, settu bensín á bílinn og horfðu á bæjarfjallið Hólshyrnuna minnka og síðan hverfa í baksýnisspeglinum meðan ekið var út ströndina.
19.04.2010 09:35
Gummi Ingólfs og Botnssúlur
626. Síðasta Siglóferð sem var sú fjórða í röð undanfarið upp á fáeina daga og flesta virka, endaði með suðurferð sl. laugardag. Sú fimmta hefst í dag mánudag upp úr hádegi við annan mann og til stendur að vera næst á suðurleið nk. fimmtudagskvöld.
En að öðru...
Flestir kannast við að þegar farið er á milli staða, skapast stundum svolítið vandamál sem vissulega er reynt að leysa með ýmsum ráðum og eflaust misgóðum. Þarna er ég að tala um matarafgangana í ísskápnum sem maður tímir ekki að henda þega líður að brottför. Oftast er um að ræða einhverja smáskammta frá deginum áður, en einnig ýmis konar álegg og brauðmeti. Auðvitað er yfirleitt hægt að skutla þessu í frystinn, en stundum er bara búið að fylla þann kvóta og því ekkert pláss eftir á þeim ágæta stað. Svo er líka hægt að pakka öllu saman niður og taka með sér, en einhverra hluta vegna hef ég oftast nær orðið var við verulega takmarkaðan áhuga á slíkum sendingum á heimaslóðum. Ég prófaði því alveg splunkunýja aðferð að þessu sinni sem reyndist afar vel.
Ég hringdi í Guðmund Ingólfsson rafvirkja og bauð honum í kaffi og afgangavandamálið var þar með úr sögunni.
(Birt með góðfúslegu leyfi umrædds rafvirkja).
Á leiðinni suður sá ég Botnssúlur í alveg nýju ljósi þrátt fyrir að þær hafi auðvitað alltaf verið á sínum stað þegar ég hef ekið um Melasveitina, en þaðan er myndin tekin.
Það eru líklega birtuskilyrðin, litirnir og andstæðurnar sem spila saman lítið lag og opnuðu augu mín í þetta skipti.
Mér finnst þær alla vega óvenju flottar þarna...
13.04.2010 00:00
Páskahretið og eftirstöðvar þess
625. Eins og ég nefndi í síðasta bloggi var svolítið súrt að hverfa frá Síldarbænum þegar páskafjörið var rétt að byrja, en það varð þó til þess að ég missti líka af páskahretinu sem mér fannst svona eftir á að hyggja ekki endilega alveg jafn súrt. Þegar hátíðin var liðin var aftur lagt af stað norður yfir heiðar og þá mátti glögglega sjá að það hafði gert allnokkra ofankomu þá daga sem menn höfðu verið fjarverandi.
Nú skyldi halda áfram þar sem frá var horfið, en þó væri full ástæða til að hafa myndavélina við höndina ef vera kynni að eitthvað bæri fyrir augu sem festa mætti í flögu.
Ég var staddur á gámasvæðinu þegar kunnuglegar drunur heyrðust. Ég greip til vélarinnar og náði í skottið á snjónum sem steyptist fram af þaki Mjölhússins. Ég hugsaði til skiltisins sem einu sinni var á horni þess sama húss, en á því stóð: HÆTTA ÞEGAR SNJÓR ER Á ÞAKINU. Manni fannst auðvitað svolítið spaugilegt að lesa þessi orð yfir hásumarið, en það var vissulega ekki ofsagt því þarna gat verið um gríðarlegt snjómagn að ræða. Stundum þegar skriðan af þakinu var í þykkra lagi og lagði af stað niður þakið, fylltist sundið á milli Mjölhússins og Tunnuverksmiðjugeymslunnar.
Snjóruðningurinn fyrir neðan litla rammíslenska sumarbústaðinn við Aðalgötuna er þarna greinilega orðinn talsvert hærri en hann - og þarf kannski ekki mikið til.
En ef grannt er skoðað, þá fer þetta litla hús sennilega mun betur við snjófjallið en Símstöðina.
Byggingarefni sem fallið hefur að himnum ofan í orðsins fyllstu merkinu, dugir vel til þess að byggja tvö virki og það sér ekki högg á vatni þó talsvert sé notað af sama hráefni til að hnoða úr skotfæri.
Hér hafa greinilega skapast kjöraðstæður til "fjallgöngu" sem eru auðvitað gjörnýttar eins og sjá má, en takið eftir að götur og gangstéttar eru alveg orðnar þurrar.
En alveg eins og um páskana var ekið suður þegar helgin var um það bil að ganga í garð og aftur til þess að spila. En nú er það búið og gert og tímabært að leggja af stað aftur á norðurslóðir.
05.04.2010 23:41
Páskar og fleira skemmtilegt
624. "Hoppandi meirihlutar á Alþingi duga skammt við aðstæður eins og okkar þjóð er í nú og of mikil orka og tími fer í að smala þeim saman og ná málum í gegn. Ein flokkssystir okkar orðaði þetta ágætlega þegar hún sagði að þetta væri "eins og að smala köttum".
Þetta voru orð Jóhönnu á flokkráðsfundi Samfylkingarinnar á dögunum. Einhverjir lásu það út úr boðskap hennar að með þeim mætti líkja Samfylkingunni við húsbændurnar sem legðu línurnar, en órólegu deildinni í VG við lítt meðfærileg og óþekk húsdýr.
Mér persónulega finnst þetta vera lúmst snilld og skondin samlíking í senn, sem gerir "órólegu VG köttunum "erfitt með að svara fyrir sig eins og þeir e.t.v. vildu. Ef þeir fyrtast við má halda því fram með nokkrum rétti að þeir geti ekki tekið gríninu, en annað mál að sé það skoðað af svolítilli dýpt er í sjálfu sér ekkert grin endilega þarna á ferðinni. - En samt.
Á slóðinni hér að neðan má sjá hvernig kattarsmölun fer fram er rétt er að taka það fram að hvergi sést til Jóhönnu, þrátt fyrir að eðlilegast væri að hún færi þar fremst í flokki smalanna.
Kíktu á http://www.youtube.com/watch?v=m_MaJDK3VNE
Þegar ég sá þessa mynd á siglo.is tók það mig svolitla stund að átta mig á að þetta væri í raun ég. Ef mig misminnir ekki, þá hefur Róbert Guðfinnsson að öllum líkindum tekið hana á árabilinu 1972-3. Hann hefur svo að öllum líkindum fundið hana í pússi sínu nýverið, skellt henni á síðuna og skemmt sér síðan stórkostlega yfir lúkkinu sem er vægast sagt fortíðarlegt.
Nema það hafi verið Steingrímur.
Það er mikið búið að brosa að henni á mínu heimili og auðvitað fittar hún alveg þrælvel inn í mottumarsþemað.
Það hlýtur að teljast nokkuð óyggjandi að Hollie Steel er upprennandi barnastjarna svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Líklega eru flestir sæmilega virkir netverjar bæði búnir að sjá hana og heyra, því ekki hefur farið svo lítið fyrir umfjölluninni um hana á þeim vettvangi. En hafi einhverjir ennþá hvorki heyrt né séð, þá endilega bætið úr því núna. Myndband frá því þegar hún sló í gegn á Britains got talent 2009 þá aðeins 10 ára, er að finna á slóðinni http://www.youtube.com/watch?v=RY-BY4YNs0o og það er alveg óhætt er að hækka aðeins í hátölurunum meðan þetta ótrúlega nýstirni lætur ljós sitt skína.
En frægðin er sjaldnast tekin út með sældinni því vægast sagt ógeðfelldum skilaboðum hefur rignt yfir hana í gegnum Facebooksíðu hennar og móðurinni er síður en svo skemmt. Hún segist ekki leyfa dóttur sinni að vafra um netið án eftirlits, enda sé það eins gott miðað við hvað þaðan berst.
Ótrúlegasta fólk hafi líka bankað upp á heima hjá þeim til að biðja um að fá að leika við dóttur þeirra.
Hollie gefur út sína fyrstu breiðskífu í maí næstkomandi.
Það er svolítið öfugsnúið að vera á Sigló síðustu vikuna í marsmánuði, en þurfa svo að taka sig upp og yfirgefa bæinn þegar páskarnir ganga í garð og missa því af öllum skemmtilegaheitunum sem þeim fylgja. Ástæðan er sú eins og svo oft áður, að til stóð að spila á Catalinu fyrir gesti sem vildu fá sér snúning (með meiru) á þeim ágæta stað um páskana. En að þeim liðnum er svo stefnan sett aftur á gamla síldarbæinn, en þá eru auðvitað flestir farnir þaðan sem sóttu bæinn heim um hátíðarnar. Það er nefnilega ekkert minna skemmtilegt að hitta burtflutta sveitunga á förnum vegi, en að sækja a.m.k. sumar uppákomur og þá afþreyingu sem boðið er upp á, án þess að ég vilji gera lítið úr þeim nema síður sé.
Ég náði þó að stuðla að komu nokkurra skíðamanna og kvenna þetta árið sem féllu auðvitað fyrir Skarðdalnum og er auðvitað hinn kátasti með það.
01.04.2010 03:51
Gamla Max & Max hin síðari
623. Á árunum 1968-69 starfaði hljómsveit sem nefndi sig Max. Hún æfði um tíma í Gránugötu 14 og spilaði m.a. á Ketilásnum, Allanum svo og auðvitað vítt og breitt um norðurlandið við góðan orðstýr.
Á myndinni eru frá vinstri talið...
Óli Ægirs (sólógítar) Ægirs rakara á Kambi.
Stjáni Hauks (rythmagítar) bróðir Finna Hauks (líka á Kambi) og því náfrændi Óla.
Sverrir Elefsen (bassi) pabbi Hilmars Elefsen í Max-2
Rabbi Erlends (trommur) sem fleiri þekkja sem Rabba í Gautum, en hann er neðan til á myndinni.
Framan af spilaði Hjálmar Jónsson (harmonikkuleikari) sem nú spilar í bílskúrsbandinu Heldri mönnum einnig með þeim á orgel.
Ef mig misminnir ekki þá eru þessir drengir af 1950 árganginum.
Sagan um hljóðfærakaup þeirra félaga í upphafi ferilsins svo og fjármögnun þeirrar fjárfestingar, var bæði nokkuð lífseig og mjög skemmtileg hvort sem hún var heimatilbúin haugalýgi eða algjörlega sannleikanum samkvæmt.
Þegar þeir höfðu ákveðið að stofna bandið var allur hljóðfærapakkinn keyptur alveg splunkunýr og greitt fyrir að mestu með víxlum langt inn í framtíðina. Síðan var lagst í æfingar og komið upp vænlegu dansprógrammi. Rabbi var aðalsöngvarinn en þeir Óli og Stjáni voru báðir mjög liðtækir í milliröddum. Þegar fært þótti var Ketilásinn tekinn á leigu og fyrsti dansleikurinn auglýstur. Hvort vindarnir hafa einfaldlega blásið úr yfirmáta hagstæðri átt eða eftirvæntingin svona mikil, þá var mæting með ólíkindum. Sagt var að um eða yfir 500 miðar hafi selst og fólk síðan borist með straumnum ýmist inn eða út um dyrnar í þessu ofurlitla samkomuhúsi án þess að hafa nokkra möguleikla á að geta neinu ráðið um ferðir sínar. Maxararnir voru því orðnir mjög fjáðir eftir helgina en fóru vel með, því í vikunni sem á eftir fór greiddu þeir upp alla víxlana og áttu þar með öll hljóðfærin skuldlaus.
Á þeim tíma sem hljómsveitin Max æfði í samkomusalnum í Vökuhúsinu voru aðrir pottormar að stíga sín fyrstu spor á tónlistarbrautunni í æfingarherbergi sem þeir höfðu á loftinu í sama húsi, en það band nefndist Hendrix eftir gítargoðinu fræga. Þá sveit skipuðu Óttar Bjarnason (trommur), Viðar Jóhannsson (bassi), Þórhallur Benediktsson (sólógítar), Guðni Sveinsson (rythmagítar) og sá sem þetta ritar, Leó R. Ólason (orgel). Og þrátt fyrir allgóðan ásetning af okkar hálfu, minnir mig að mun meiri tími hafi farið í að hlusta fullir lotningar á Maxarana en sinna okkar eigin æfingum.
Hljómsveitin Max lifði hratt þó hún lifði kannski ekkert sérlega hátt, en hún var verulega skemmtilegt ballband. Mér vitanlega hefur hún komið saman a.m.k. einu sinni eftir að hún hætti fyrir 40 árum, en það mun hafa verið á bekkjarsamkomu á Siglufirði fyrir allnokkrum árum. Undirbúningur þeirrar uppákomu mun hafa farið mjög leynt og urðu því margir hissa þegar hljómsveitin Max var kynnt sem eitt atriði kvöldsins. Þó mun eiginkona Óla gítarleikara hafa orðið meira hissa en aðrir, því samkvæmt mínum heimildum hafði hún ekki hafa fregnað af "hljómsveitatöffaratímabili" hans fyrr.
Tuttugu árum síðar eða rúmlega það var önnur hljómsveit komin á kreik með sama nafni. En hvort sem það var til aðgreiningar frá Max hinni fyrri eða af einhverri annarri ástæðu sem mér er ekki kunn, fóru þeir drengir að kenna sig við "hina hugrökku brauðrist" sem mér hefur alltaf fundist hljóma eins og undirtitill við fyrirsögn.
En þeir eru, talið framan frá og aftur úr...
Rúnar Sveinsson, sonur Svenna Þorsteins og Bertu
Sveinn Hjartar, bróðir Írisar (trúbadors) Hjartardóttur.
Hlöðver Sigurðsson, sonur Sigga Hlöðvers
Hilmar Elefsen, sonur Sverris Elefsen og Köllu
Örvar Bjarnason, sonur Bjarna Harðar og Möggu Vals
Allir þessir drengir eru úr árgangi 1973 nema Sveinn sem er árinu eldri.
Samkvæmt mínum heimildum kom Max fram í allra fyrsta sinn á 6. bekkjar skemmtun Grunnskólans sennilega árið1988. Þá var Sveinn ekki tekinn við trommunum og Pálmi var söngvari. Upprunalegi trommarinn í Hugrökku brauðristinni Max var Jón Pálmi Rögnvaldsson (sonur Rögnvalds Jóns og Systu Óla), en hann staldraði örstutt við og hugsanlegt er að þetta hafi verið í eina skiptið sem hann kom fram undir merkjum Max.
Einhvern tíma mun þó bandið hafa spilað söngvaralaust, en til að leysa það vandamál spilaði Örvar Bjarna allar laglínur á hljómborðið.
Pálmi Steingrímsson stórfrændi Jóns Pálma (sonur Steingríms Jóns og Hörpu Gissurar) söng með sveitinni eitthvað framan af, en Hlöðver tók svo við af honum. Hann hefur svo aftur komið við sögu í seinni tíð en þá sem gítarleikari.
Ég hef nokkrum sinnum heyrt í þessu ágæta bandi og verð að segja að það er ekkert síður jafn þrælskemmtilegt, þétt og velspilandi en það gamla.
Þeir hafa átt það til að koma saman við valin tækifæri undanfarin ár þó svo að ekki hafi verið um að ræða "reglubundna starfsemi" um árabil. Síðast mér vitanlega tróðu þeir upp á Siglfirðingakvöldi á Spot í Kópavogi 9. jan. s.l. Með þeim voru auglýst númerin Cargo, Gotti og Eisi, Our lives ásamt gleðisveitinni Jói Samfestingur.
Því er svo við að bæta að ég hleraði að Maxararnir verði aftur á SPOT þ. 16. apríl nk.
- 1