Blog records: 2007 N/A Blog|Month_11

27.11.2007 09:59

Leppalúði og ég.



420. Ég átti leið inn í fiskbúðina
við Lækjargötuna hérna í Hafnarfirði til að kaupa fisk, - nema hvað. En í þessari ágætu fiskbúð er fáanlegt margt og margvíslegt mannafóðrið, svo lystilega framreitt að oft er úr vöndu að ráða þegar kemur að því að velja rétt dagsins. Á meðaldegi er t.d. oft hægt að velja á milli 4 - 6 fiskrétta sem eru tilbúnir í ofninn auk alls annars, og tekur oft svolítinn tíma að rýna í hvað í boði er þann og þann daginn. Það þarf að samræma langanir og þrár til fiskmetisins og taka síðan yfirvegaða lokaákvörðun í þessu stóra máli sem tekur gildi um leið og eftirfarandi orð hafa verið sögð.
"Ég ætla að fá 1200 gr. af þessu hérna."
En þetta er ekki alltaf svo einfalt mál því oftast er erfitt að velja á milli þess sem freistar bragðlaukanna. Sælkerasaltfiskbollur í súrsætri sósu, ýsubitar í sætri karrýsósu og kókos, steinbítur í sælkeragrænmetissósu, ýsurúllur með osta og humarfyllingu, blandaðir sjáfarréttir í grænmetis og lauksósu, Grískur saltfiskréttur með einhverju sem var svo framandi að ég kann ekki að nefna það og svo mætti lengi telja.

Það var einmitt eitt sinn í miðjum slíkum hugleiðingum og það af dýpri gerðinni, að mér fannst einhver vera að horfa á mig. Ég fékk á tilfinninguna að það var fylgst grannt með hverri hverri einustu hreyfingu minni, hversu smávægileg sem hún væri. Hvernig ég velti fyrir mér innihaldi hvers bakka fyrir sig þarna í borðinu og reyndi að ímynda mér hvernig hver réttur smakkaðist. Einnig fannst mér að öll svipbrigði sem ég sýndi væru bæði vegin, metin og mæld, og reynt að gaumgæfa og sjá út hvaða þýðingu hvert og eitt þeirra hefði þegar kæmi að ákvarðanatöku um hvað keypt skyldi í það skiptið..
Ég snéri mér snöggt við og horfði á manninn sem sendi mér svona stingandi og næstum því áþreifanlegt augnaráð í mjóhrygginn og við horfðumst í augu svolitla stund.
"Góðan daginn," sagði ég og kinkaði kolli til hans.
Afgreiðslumaðurinn flissaði og ég horfði á hann en síðan á Leppalúðann sem stóð grafkyrr úti í horni og lét eins og hann sæi mig ekki. En fljótlega sá ég að mér hafði tekist ágætlega upp með að gera mig að talsverðum aula eina ferðina enn.



"Er í lagi að fá eins og eina mynd af okkur saman?"
Afgreiðslumaðurinn hélt að það væri í góðu lagi og skemmti sér greinilega vel yfir öllu saman, en bætti því við að það reyndu margir sem reyndu að eiga tjáskipti við "Lúða" en án sýnilegs árangurs enn sem komið væri. Hann væri einn af þeim fáskiptari svo ekki væri dýpra í árina tekið.

En í dag þriðjudaginn 27. nóvember er ég farinn norður á Sigló í 2 - 3 daga. En ég verð að komast suður aftur fyrir helgi, því dúóið "Vanir menn" verður að spila á Catalinu í Kópavogi um næstu helgi. Og það er búið að vera mikið um að vera í þeirri útgerð, því engin helgi hefur fallið úr síðan seinni partinn í ágúst og stefnir í að fyrsta fríhelgin í tæpt hálft ár verði í janúar 2008. Þetta er sem sagt að verða eins og í "old days."

24.11.2007 04:06

Með blæju fyrir andliti og Kóraninn í hendi.

419. Það er nokkuð ljóst að heimurinn liti öðruvísi út í dag ef Talibanar hefðu unnið "stríðið" við Búss hinn yngri, sem menn eru ekki allir sammála um hvort sé bæði læs og skrifandi eða e.t.v. bara annað hvort. Allavega er ég þeirrar skoðunar að talsvert vanti upp á eðlilega hugsun hjá karlskarfinum. En það er nú auðvitað bara vandamál Ameríkana, og eiginlega svolítið mátulegt á þá fyrst þeir voru svo vitlausir til að kjósa þennan skramba yfir sig.

En líklega gæti þá styttan við Ellis Island og í leiðinni innsiglingin í hina Nýju Jórvík litið einhvern vegin svona út.

21.11.2007 12:12

Stuttur til klofsins.



418 Hann þótti alltaf stuttur til klofsins og líktist að því einu leytinu móðurömmu sinni sálugu örlitla agnarögn. En enginn sem til hans þekkti þorði fyrir sitt litla líf að hafa orð á því svo hann heyrði. Það hefði einfaldlega þýtt félagslegan dauðadóm yfir viðkomandi, því sá klofstutti virðist geta verið á mörgum stöðum á sama tíma svo að fyrir þá sem hann umgangast alla jafna yrði lítið um skjól. Og hann heyrir ekki bara vel, heldur hefur hann alltaf haft kjaftinn vægast sagt á réttum stað. Hann hefur og farið létt með að jarða hvern sem er, með andstyggilega kvikindislegum háðsglósum sem hafa oftar en ekki gengið sem hárbeittur rýtingur í gegn um hjarta, lifur, lungu, bris og milta þess sem fyrir þeim hefur orðið. Þá hefur það ekki verið til þess að draga úr áhrifunum, að raddstyrkurinn virðist vera því sem næst ótakmarkaður. Undarlegt hvað stundum geta komið mikil hljóð úr svona litlum búk. Það er því alveg sama hvað hver segir, viðkomandi verður alltaf undir eða það segir reynslan okkur.

Það er einmitt vegna mælsku sinnar vegna sem okkar maður nýtur meiri virðingar nærstaddra hverju sinni en einhver annar myndi gera, og mörgum ókunnugum þykir stundum full mikið af henni miðað við t.d. ytra útlit. En það er bara rétt allra, allra fyrst á meðan þeir eru alveg bláókunnugir. Að vísu er ég ekki frá því að ef vel er skoðað með þykku kókflöskubotnagleraugunum, kemur það e.t.v. í ljós að virðingin er kannski lítillega yfirborðskennd á köflum.
Og eitt er víst að hann aðhylltist alls ekki skoðanir hinna djúpvitru sem flagga gjarnan frasanum: "Þeir sem vita meira en aðrir, hafa líka vit á að þegja."

Ég veit að Stuttlingur mun aldrei nokkurn tíma lesa þennan pistil vegna núverandi aðstæðna sinna sem gerast dapurlegri með hverju árinu sem líður, en þar sem myndin hér að ofan er orðin nokkuð gömul, eru þeir sem á henni eru það þess vegna líka. Þeim klofstutta hefur nefnilega loksins verið komið fyrir á "viðeigandi stofnun" eins og það er stundum kallað. Því eftir því sem árin hafa liðið hefur hugsunin orðið óskýrari, mælskan farið hratt minnkandi þar til hún hefur vart talist mælanleg. Margur maðurinn hefur þess vegna rétt örlítið úr kútnum, varpað öndinni léttar og loksins farið að tjá sig um það sem fyrir augu og eyru ber óttalausari en áður.

Og rétt er að geta þess að ekki er talið að margt "stórmennið" sé undan okkar manni komið, enda var hann sjálfur ekki bara tiltölulega lágvaxinn, heldur einnig ákaflega lítillar ættar.
Og lýkur þar með þessari tölu, hafi hver einasti ríkulega þökk er las og gerði sér skemmtan af, en hinir ógleði er angrast við og verður ekki að gamni.

18.11.2007 23:55

Blíðan í dag.



417. Þegar ég fór af stað í dag áleiðis til Reykjavíkur í því skyni að fara að smíða, saga, mæla, skrúfa og negla, gat það með engu móti farið fram hjá mér frekar en nokkrum öðrum óblindum manni að veðrið var hreint út sagt aldeilis frábært. Það var því lögð svolítil (reyndar þónokkuð stór) lykkja á leið þess sem þetta ritar og myndavélin sem alltaf er innan seilingar notuð alveg þar til meldingin "battery low" hamlaði frekari skotum.



Það getur verið gaman að rölta yfir göngubrúna sem tengir saman Áslandið og Hvammana, en undir henni liðast umferðin eftir Reykjanesbrautinni sem verið er að tvöfalda að ósk Rúnna Júll (og kannski einhverra fleiri.)



Og ofan af Áslandinu og niður á Vellina liggur Ásbrautin og undir hana er verulega mikið skreyttur göngustígur eins og sjá má.



Af Ásbrautinni fékk ég svo að fylgjast með sólinni lækka sig yfir Reykjanesinu því degi var tekið að halla.



En leiðin lá til Reykjavíkur og það var við Perluna að mér datt í hug að leggja lykkju númer tvö á leið mína. Þarna var margt feðamanna og ég sá að svolítill hópur stefndi niður slakkann að austanverðri Öskjuhlíðinni og þeim sem þar fóru virtist vera talsvert mikið niðri fyrir. Ég fylgdi því fólkinu eftir ef þarna væri eitthvað sniðugt að sjá og svo reyndist vera.



Spölkorni fyrir neðan geymana sá ég að það bullaði bæði og rauk upp úr jörðinni. Ég mundi samt ekki eftir að ég hefði heyrt af að þarna væri hver, en það leyndi sér ekki að eitthvað var þarna sem dró að sér athyglina.



En það var ekki um að villast.



Og ég varð því að kanna málið frekar.



Þarna rétt hjá var svo þessar upplýsingar að finna, og fyrir þá sem ekki sjá smáa letrið uppi í vinstra horninu, má þar lesa eftirfarandi.

STRÓKUR.
Til skemmtunar og fræðslu um virkni goshvera hefur Hitaveita Reykjavíkur látið útbúa goshverinn Strók sem líkir eftir hegðun goshvera. Boruð var 30 metra djúp hola og í hana sett stálrör með inntaki fyrir vatnsleiðslu. Um leiðsluna er leitt 125 stiga heitt jarðhitavatn. Efst í stálrörinu er komið fyrir þrengingu, þ.e. mjórra röri sem skipta má um. Sá búnaður ræður hæð gossins. Steinlögð skál er umhverfis opið.



Og hægur vindur hefur staðið frá norðaustri til suðvesturs og það hefur líka verið lítilsháttar frost. Gufan sem eðli málsins samkvæmt þéttist og breytist í vatn við kuldann, hefur sest á greinar trjánna og gert þau mjög jólaleg svona rétt upp úr miðjum nóvember. En þetta sjónarspil er hvað sem hver segir ekki bara eins og yfirfært úr einhverju ævintýri, heldur líka eins og það sé sérhannað fyrir ferðamenn og myndavélar sem nóg var af á staðnum. En myndirnar sem á eftir fara eru hins vegar eins og svolítil endurómun hver af annarri og mismunandi tilbrigði við sama stefið aftur og aftur. Fleiri orð eru því óþörf að mínu mati.















18.11.2007 01:56

Áfallahjálp óskast að flugferð lokinni.




416. Eru ekki allar líkur á að þetta verði að teljast full langdreginn forleikur, með sveigjanlegri flugvélum og sagan endalausa - allt í einum pakka og kannski meira til.

15.11.2007 14:05

Nokkur gullkorn af netinu.



415. Stundum rekur eitt og annað á fjörur manns
á hinum endalausu ströndum internetsins sem brosa má að, sé þá einhver vilji fyrir slíku á annað borð. Ég sem hef sjaldnast gaman af því sem er skemmtilegt og á það jafnvel til að vera verulega niðurdrepandi á köflum, á engu að síður til að safna því saman sem flokka mætti sem jákvætt og skemmtilegt, ef ske kynni að einhver annar en ég sjálfur gæti hafa gagn eða gaman af. - Hér á eftir fara nokkur sýnishorn.


Bréf frá Ömmu.
Ágætu ættingjar mínir, þar sem nú líður að jólum einn ganginn enn, og þið brugðust svo vel við í fyrra, þá datt mér í hug að gefa ykkur svolítið hint fyrir þessi jólin líka.

Eins og þig vitið þá kemur hann afi ykkar ekkert nálægt því að kaupa inn jólagjafirnar. En samt sem áður er það alltaf hann sem fær bestu og skynsamlegustu gjafirnar. Hlýja sokka, nýja peysu, góða vetrarúlpu og svo framvegis.
Það er bara ég sem fæ stytturnar og myndirnar. Af hverju þetta stafar veit ég ekki. En ætli þetta sé ekki það sem blessaðir femínistarnir eru alltaf að reyna að segja. Ekki veit ég.
En fyrst ég er nú byrjuð á annað borð, þá langar mig að minnast á nokkur atriði með hann afa ykkar.
Úlpan sem þið gáfuð honum í fyrra var heldur stór. Ég skil vel að þið, sem eruð sífellt með börnin fyrir augunum, sem stækka og stækka, haldið að hann afi ykkar verði að fá úlpu svolítið við vöxt, svo hann geti notað hana lengur.
Málið er bara að hann afi ykkar rýrnar heldur en hitt. Hann er sumsé hættur að stækka, og farinn að minnka. Þetta mynduð þið örugglega sjá, ef þið kæmuð í heimsókn einhvern tíma.
Þá er betra bara að gefa honum fleiri pör af ullarsokkum, því hann er orðinn svo fótkaldur þetta skar.
Nú eða almennilega kuldaskó eða mannbrodda.
Hann vill nefnilega týna sokkaleistunum af sér. Hvurnig það er hægt er mér hulinn ráðgáta. Hann getur týnt þeim svo gjörsamlega að þeir sjást ekki meir. Ég er reyndar að finna þá á ólíklegustu stöðum.
Fann einu sinni par inn í örbylgjuofninum. Hann sagði mér að hann hefði ætlað að hita þá aðeins. Þeir höfðu þá verið þar í mánuð, vegna þess að við notum örbylgjuofninn svo lítið.
Þetta með íslensku lopapeysuna er auðvitað rosalega sætt, en gætið að, það þarf að handþvo svona peysur, og ekki gerir afi ykkar það. Það er ég sem þarf að þvo flykkið, vinda það og leggja til þerris. Þetta er bara heljar djobb, ef ég á að vera hreinskilin. Þó það sé auðvitað voða sæt gjöf og allt það. Þá megið þið nú aðeins spá í afleiðingarnar.
Ef ykkur skyldi láta ykkur detta í hug að gefa honum nærbrækur, þá dugar ekkert minna en föðurlandið. Ég vil ekki sjá hann þvælast um á stuttbrók með sína kræklóttu köldu fætur um stofuna á kveldin. Fyrir utan að bibbinn vill lafa niður fyrir skálmarnar og vekur von um eitthvað sem ekki er hægt.
Hann vill sum sé helst vera á nærbrókinni. Ég hef því fjarlægt allar stuttar nærbuxur af svæðinu. Hann vill ekki vera í neinum af þessum mörgu frottésloppum sem ég á svo mikið af. Og ekki vill hann vera í náttfötum. En naríurnar þurfa að vera vel þæfðar, svo ég geti sett þær í þurrkarann.
Það getur stundum verið svolítið erfitt með karlinn, því hann heldur að hann sé einhver Don Juan, þó það sé eins langt frá raunveruleikanum og Mata Hari og María Mey.
En sum sé, þessi jólin, verð ég heima, og vonast til að eitthvert ykkar nenni að kíkja við, það er eiginlega betra en einhver jólagjöf eða kort. Sérstaklega í ljósi þess að þið búið flest hér í nágrenninu.
Elskulegu barnabörn sem allt viljið fyrir okkur gera, og eruð svo elskuleg og indæl
ef þið nú í raun og veru viljið kerlingunni vel, þá væri við hæfi að þið bara gæfuð gamla brýninu honum afa ykkar stóran skammt af Viagra. Og ekki segja pabba og mömmu frá þessu.



Orðaskipti sem fram fóru á netinu
á milli bandarískrar konu í leit að ríkum eiginmanni og óþekkts bankamanns á Wall Street, sem sagði hana í slæmri samningsstöðu, hafa vakið nokkra athygli í netheimum. Konan er 25 ára og auglýsti fyrir skömmu eftir aðstoð við að finna sér eiginmann sem hefði yfir hálfa milljón dollara í árslaun.
Í auglýsingunni sagðist konan vera "ofboðslega falleg" og "yfirborðskennd." Hún sagðist hafa verið með kaupsýslumönnum sem höfðu 200-250 þúsund dollara í árslaun "en ég virðist ekki geta komist ofar." Á slíkum launum nái enginn langt í New York, sagði konan, og spurði meðal annars: "Hvar er ríku og ókvæntu mennina að finna?"
Bankamaðurinn dularfulli, sem sagðist uppfylla öll skilyrði konunnar, útskýrði fyrir henni að hún væri að bjóða upp á "ferlega vond viðskipti."
"Útliti þínu mun hnigna, en peningarnir mínir halda áfram að ávaxtast um ókomna tíð ... staðreyndin er sú, að allar líkur eru á að ég muni hækka í launum, en það er alveg öruggt að fegurð þín mun ekki aukast!" sagði bankamaðurinn.
"Á máli kaupsýslumanna heitir þetta að verðgildi þitt rýrnar en verðgildi mitt vex. Ég skal útskýra þetta nánar: Þú ert 25 ára núna og verður líklega sæmilega heit næstu fimm árin, en þó minna ár frá ári. Svo ferðu virkilega að dofna. Þegar þú verður 35 ára er öllu lokið."
"Það eru ekki góð kaup í þér (þú ert í rauninni að bjóða þig til kaups), þannig að ég myndi frekar kjósa kaupleigu."
Konan hefur nú tekið auglýsinguna af vefnum - ásamt svarinu - en orðaskiptin hafa gengið manna á millum í tölvupósti og birst á bloggsíðum. Talsmaður vefjarins sem auglýsingin birtist á tjáði The New York Times að svo virtist sem konan hafi birt auglýsinguna af heilum hug.



Fengið að "láni" af síðunni hennar Evu Karlottu, hvaðan svo sem það hefur komið til hennar.
Mamman gekk fram hjá herbergi dóttur sinnar og varð nokkuð undrandi að sjá að það var búið að búa um rúmið og taka vel til í öllu herberginu.
Hún sá að það var umslag á miðju rúminu og á því stóð: TIL MÖMMU. Mjög áhyggjufull opnaði hún umslagið og las skjálfhent bréfið sem í því var.

Elsku mamma. Það hryggir mig nokkuð að þurfa að segja þér með bréfi þessu að ég er hlaupin að heiman. Ég geri þetta svona til að koma í veg fyrir að þið pabbi reiðist mér. Ég hef að undanförnu fundið sterkar tilfinningar til Ahmeds og hann er svo yndislegur þrátt fyrir öll götin, húðflúrið, skeggið og mótorhjólagallana sína. En það er ekki bara það mamma mín að ég ber svona sterkar tilfinningar til hans því að ég er ólétt og Ahmed segir mér að hann sé svo glaður með það. Hann er þegar búinn að kaupa hjólhýsi fyrir okkur að búa í og hann er búinn að safna helling af eldivið til að halda á okkur hita í allan vetur. Hann er búinn að segja mér að hann langi til að eignast með mér fullt af börnum og ég er svo innilega sammála honum með það. Ahmed hefur kennt mér það að marijuana gerir engum illt í raun og veru og ætlar hann að rækta nóg af því fyrir okkur þannig að við munum eiga nóg af því afgangs til að skipta á því og kókaíni og E-töflum handa okkur báðum. En ég vona líka að vísindamenn finni fljótlega lækningu á AIDS svo að
Ahmed mínum batni, hann á það svo skilið!! En ég bið þig að hafa ekki áhyggjur mamma mín því að ég er nú orðin 15 ára og kann alveg að sjá um mig sjálfa. Þar að auki er Ahmed orðinn orðinn þrítugur þannig að hann veit vel hvað hann er að gera. Einhvern daginn ætla ég svo að koma í eimsókn svo að þú getir hitt öll barnabörnin þín.

Þín dóttir Guðrún.

PS: Mamma, ekkert að ofansögðu er satt. Ég er í heimsókn hjá Siggu í næsta húsi. Mig langaði bara að láta þig vita að það er margt verra í heiminum en einkunnaspjaldið mitt sem er í efstu skrifborðskúffunni. Ég elska þig.
Láttu mig vita þegar það er óhætt fyrir mig að koma heim.



Hér eru nokkur gullkorn íþróttafréttamanna
fengin að láni frá einhverjum bloggara:
Leiknum verður sjónvarpað í sjónvarpinu.
Einum leik er ekki alveg ólokið.
Hann sprettur úr skónum.
Skotið ríður af stað.
Hann varð að fara af leikvelli í leikhléinu.
Við erum stödd á leik FH og Hauka í Hafnarfirði og það eru Hafnfirðingar sem eru með boltann.
Nú hafa Lakers loksins fengið nýjan nýliða.
.... og áhorfendur rísa hér úr fætum.
.... og áhorfendur baula á leikinn.
Allir leikmenn liðsins eru á annan meter.
KR-ingar eiga hornspyrnu á mjög hættulegum stað.
Hann missti boltann jafnóðum strax.
Þeir skora bara í byrjun á fyrstu upphafsmínútu þessa leiks.
Fyrrverandi sonur þjálfarans er á leið í annað félag.
Hann skrúfaði boltann bak við hægra eyrað á markmanninum.
Þeir eru með bandarískan Ameríkana.
Það er hellingur fullt af fólki.
Weah skallaði hann með höfðinu.



Og eitt sem tengist ekki íþróttum.
Kanar kunna ekki að labba lengur. Þess vegna eru amerískir göngustígar með hjólförum

11.11.2007 19:55

Fernir tímar.

414. Fyrir nokkru birtust á vefnum "Lífið á Sigló" alveg einstaklega skemmtilegar úrklippur úr blaðinu FRAM sem gefið var út á Siglufirði snemma á síðustu öld. Þrílógían var þar nefnd ÞRENNIR TÍMAR sem er svo sem ekkert skrýtið miðað við hvert viðfangsefnið var. Þarna var farið aftur í tímann og spáð í hvernig það sem okkur finnst smávægilegir atburðir hafa eflaust litað hvunndaginn jafnvel nokkuð sterkum litum upp úr aldamótunum 1800. Einnig er reynt að sjá önnur 100 ár inn í framtíðina eða til því sem næst dagsins í dag. En þar sem þau 100 ár eru næstum því liðin, er auðvitað fróðlegt og skemmtilegt að velta því fyrir sér bæði í gamni og alvöru hvað hefur ræst og hvað ekki.

En til að ganga skrefinu lengra en FRAM-menn gerðu, einhver myndi segja bæta gráu ofan á svart, láta hugann fara á flug eða bara hafa enn meira gaman af öllu saman, datt mér í hug að ímynda mér hvernig Siglufjörður liti út eftir, - eigum við að segja 900 ár?

Ég leyfi mér að endursegja hérna greinarstúfana þrjá sem birtust í FRAM, og bæta þeim fjórða við.








Myndirnar hér að ofan eru flestar af gömlum póstkortum þar sem ljósmyndaranna er ekki getið.

20. maí 1818.
Það er sumarmorgunn og þoka liggur yfir hafinu. Seglskipið Már hefur ekki haft landsýn í samfleytt fimm sólarhringa og hvorki skipstjórinn, afi minn né nokkur annar af skipshöfninni getur sagt til um hvar í Íshafinu skipið er statt. Um miðjan dag sést til lands á bakborða og þokunni léttir smám saman. Hinn litli vindsvali eykst og að lokum er hann orðinn að stinningsbyr sem ber skipið að landi og það sést í Siglunesið og um kvöldið liggur það inni á hinni skjólsælu Siglufjarðarhöfn. Meðfram fjallahlíðunum innan til í firðinum og niðri á eyrinni standa nokkur hús og allflest úr torfi. Nokkrum litlum bátum er róið út að skipinu, því hinir sárafáu íbúar vilja nota þetta sjaldgæfa tækifæri til að fá einhverjar fréttir af umheiminum. Kaupmaðurinn á staðnum leitar eftir viðskiptum við skipsverja en varningurinn sem hann hefur að að bjóða er fremur fábrotinn og einhæfur. Morguninn eftir er skipið farið og höfnin aftur orðin auð. Siglufjörður er aftur orðinn eins og hann var og hefur löngum verið. Einangrað byggðarlag þar sem fáir eiga leið um. Þrúgandi kyrrðin og afgerandi tilbreytingarleysið eru helstu einkenni staðarins. Kannski kemur annað skip siglandi inn fjörðinn einhvern tíma seinna, en hver veit svo sem hvenær það verður.

20. maí 1918.
Fallbyssuskot ríður af, bærinn er allur fánum skrýddur og það er hringt til guðsþjónustu í kirkjunni. Hátíðadagskrá hefur verið prentuð í lit á pappír og það hafa verið ort kvæði í tilefni dagsins. Það eru gengnar skrúðgöngur, já meira að segja fleiri en ein sama daginn og syngjandi flokkur prúðbúinna barna fer á undan göngunum. Þetta eru þau sem erfa skulu landið. Fólk er skrautklætt og það má sjá silki og flauelsklæði, og einnig glitra á gull og silfur. Hljóðfærasláttur heyrist víða svo og söngur, bæði raddaður og eintóna. Það eru haldnar margar snjallar ræður, íþróttasýningar eru haldnar og um kvöldið er dansleikur þar sem dragspilið er þanið til hins ýtrasta. Allan daginn, allt kvöldið, alla nóttina á eftir og langt fram á næsta dag er hvarvetna svo mikið líf og fjör að undrum sætir. Hinir u.þ.b. þúsund íbúar þorpsins hafa líka ástæðu til að fagna, því í dag á þessi bær 100 ára afmæli sem löggiltur verslunarstaður og í dag verður hann líka kaupstaður. Í þessum firði voru aðeins örfá hús fyrir 100 árum, en núna er hérna risinn stór bær. Í dag eru hérna 20 kaupmenn með starfsemi sína þar sem aðeins einn var fyrir öld síðan. Hér hafa risið verksmiðjur og hér er nú söltuð meiri síld en annars staðar á landinu. Allir eru fullir bjartsýni og björt framtíðin blasir við. Einhverjir íbúar gullgrafarabæjarins vildu jafnvel breyta nafni hans í í Síldarfjörð.

20. maí 2018.
Hraðlestin sem fór frá Reykjavík fyrir fjórum stundum, staðnæmdist á hinni íburðarmiklu járnbrautarstöð í bænum við síldarfjörðinn sem heitir reyndar ennþá Siglufjörður. Skömmu síðar er farþegum lestarinnar ekið í glæsibifreiðum til hins glæsilega hótels sem dregur nafn sitt af firðinum og er þekkt víða um lönd fyrir hreint ótrúlega mikinn glæsileika. Þar inni eru samankomnir hundruð gesta frá flestum þjóðríkjum heimsins og því talaður aragrúi tungumála sem blandaðist síðan saman í undarlegan og óskiljanlegan klið. Það stóð líka mikið til því bærinn er hundarð ára og hefur einnig verið verslunarstaður í heil 200 ár. Á hverju götuhorni eru einhverjar uppákomur, alls konar skemmtiatriði og raunar allt það sem má verða til þess að gera hátíðina sem glæsilegasta og eftirminnilegasta. Innan skamms mun hefjast kappróður á neðansjáfarbátum sem er vissulega forvitnilegt fyrirbæri og þykir hið mesta tækniundur. Þúsundir áhorfenda eru að koma sér fyrir á bryggjunum umhverfis gömlu höfnina. Annars hefur bærinn stækkað og fólkinu fjölgað jafnt og þétt síðustu áratugina, byggðin nær næstum því umhverfis allan fjörðinn og m.a er komin talsverð byggð úti á Siglunesi. Fjörðurinn er líka allur orðinn því sem næst ein allsherjar höfn, en það er orðið gerlegt vegna stíflunnar eða ísgildrunnar sem hefur verið byggð þvert fyrir fjarðarkjaftinn. Þetta er risavaxið mannvirki sem hingað til hefur staðið af sér öll veður, hafís og allt það sem valdið getur skaða inni á firðinum. Ekki er það svo til að gera annað en gott betra að veðrið var eins og best varð á kosið. En það hafði líka kvisast út að fyrir lægi tillaga um að breyta nafni bæjarins í Síldarfjörður, og ekki laust við að sú frétt ylli talsverðri ókyrrð meðal bæjarbúa.


                                                                                           Ljósmynd og tölvuvinnsla LRÓ.

20.maí 2918.
Í dag er bærinn, eða öllu heldur borgin okkar N3697ac, sem við köllum oftast Norðurbyggð þúsund ára gömul. Hún hét eitt sinn Siglufjörður, þá Fjallabyggð, en Síldarfjörður þegar síldin kom aftur. Siglufjarðarnafnið var svo tekið upp öðru sinni þegar hún hvarf í seinna skiptið og var við lýði allt þar til að heimurinn fór að breytast og mannkynið þurfti að fara að aðlaga sig að hinum nýju aðstæðum. Borgin þykir um margt merkileg fyrir sérstæða sögu sína sem allir hér eru mjög stoltir af. Íbúum fjölgaði svo verulega þegar stór svæði sunnar í álfunni urðu óbyggileg og þjóðaflutningarnir miklu hófust. Hér búa núna alls rétt innan við þrjár milljónir. En samkvæmt áætlunum yfirvalda mun þeim fækka verulega á næstu árhundruðum vegna fyrirhugaðra kynbótastýringa.

En margt fleira hefur gerst á þessu árþúsundi sem liðin eru frá stofnun hans. Síldin sem varð til þess á sínum tíma að byggð fór að myndast á þessum stað fyrir löngu, er alveg horfin úr hafinu sem og allur annar fiskur. Aðeins er nægilega mikið DNA efni varðveitt til að hægt sé að einrækta fiska og aðrar sjáfardýrategundir ef rétt skilyrði eiga einhvern tíma eftir að myndast á ný. Reyndar eru sögusagnir á kreiki um að örfáar tegundir séu enn til lifandi á vandlega földum rannsóknarstofum utan við borgirnar, en ekki er líklegt að núlifandi fólk eigi mikla möguleika á að sjá með eigin augum furðuskepnur eins og síld, ýmsar tegundir þorskfiska eða einhver önnur undarleg dýr sem svömluðu ýmist í sjó eða vötnum í eina tíð.

Um það bil þúsund árum eftir að land byggðist fóru menn að gera fyrstu jarðgöngin í því skyni að greiða fyrir samgöngum. Nú er svo komið að flestallar samgönguæðar heimsins eru neðanjarðar, því ekki er talið öruggt að vera á ferli óvarinn utan svokallaðra skyggðra svæða og þar sem andrúmsloftið er einnig hreinsað. Það er því enga vegi, flugvelli, hafnir eða brautarstöðvar að finna lengur ofan jarðar og er Ísland í dag þar engin undantekning.

Af hagkvæmnisástæðum var farið að þétta byggðina verulega fyrir 5-600 árum og íbúarnir söfnuðust saman í þessar lokuðu borgir sem eru ofanjarðar. (skyggðu svæðin.) Ísland sem er næst minnsta héraðið í hinni sameinuðu Evrópu, er eitt skipulagssvæði. Byggingarnar sem mynda borgirnar eru líka því sem næst loftþéttar, vegna þess hve samsetning lofthjúps jarðar hefur breyst. Á íslandi hafa nú verið settar á stofn 11 borgir ekki ósvipaðar og sést á myndinni og er suðvesturborgin langstærst.

Framleiðsla matvæla hefur tekið miklum breytingum og í sífelldri endurskoðun. Öll matvæli sem neytt er í dag eru erfðabreytt, því annars gæti jörðin ekki brauðfætt mannkynið við núverandi aðstæður. Líftæknifyrirtæki hafa um aldir hagnýtt þekkingu sína á sameindalíffræðinni til að flytja gen milli lífvera í því skyni að þróa nýjar og söluhæfar afurðir. Fæðan sem við leggjum okkur til munns í dag hefur því mjög líklega verið samansett úr genum sem eiga uppruna sinn bæði í jurta og dýraríkinu. Erfðatæknin gerir vísindamönnum nútímans kleift að blanda saman genum úr t.d. bakteríu, appelsínu, fiski, næpu, nashyrning og jafnvel manni og útkoman væri ekkert af þessu, heldur eitthvað allt annað sem byggi þó yfir völdum eiginleikum frá hverri tegund. Matvælaframleiðsla fer fram á svæðum í nánd við borgirnar. Þau líkjast litlum þorpum af undarlegum kúlutjöldum, en mikil leynd hvílir yfir starfseminni og í raun veit ekkert venjulegt fólk hvað fram fer þar.

Vísindamenn starfrækja nokkrar risastórar og færanlegar rannsóknastofur (eins og sést á myndinni) sem líkjast helst einhverju fornu skordýri. Eða þá geimfari eins og lýst er í Innrásinni frá Mars í sögu H. G. Wells sem hann skrifaði árið 1898 en hefur nú verið bönnuð eins og margar aðrar vísindaskáldsögur, en enginn veit af hverju. Það skiptir svo sem ekki öllu máli því yfirvöld sjá þegnunum fyrir nægu lesefni og öðru afþreyingarefni svo engum þarf að leiðast. En það veit líka enginn í raun og veru hvað gerist inni í þessum förum sem koma stundum, staldra við í einhvern tíma og hverfa síðan aftur.

Íbúarnir sem búa ofan jarðar, geta séð og skynjað þann hluta sólarljóssins sem ekki er síaður úr heildarljósflæðinu inn um gríðarlega þykkt gler sem er á öllum byggingum. Fyrir hundruðum ára eyddist ósonlagið því nær algjörlega en hefur smátt og smátt verið að myndast á ný þó langt sé enn í land. En það er ekki allt, því mikil hrina sólgosa af áður óþekktri stærðargráðu hafur staðið látlaust yfir síðan upp úr 2400. Stærð og umfang sólsprenginga, segulstorma, sólbletta, geimgeisla, agnaskýja sem áður voru þekkt blikna í samanburði við það sem síðar varð. Hlutfall lofttegunda bæði náttúrulegra og manngerðra svo sem brennisteinsvetni, koldíoxíð, tví-nituroxíð, vetnisflúorkolefni, og klórflúorkolefni hefur farið vaxandi í lofthjúpi jarðar á sama tíma og hlutfall súrefnis hefur farið minnkandi. Jörðin væri því lítt eða jafnvel alveg óbyggileg með öllu ef ekki væru skyggðu svæðin, hreinsaða andrúmsloftið, hinar nýju aðferðir við framleiðslu matvæla og neðanjarðar samgöngunetið.

Þökk sé yfirvöldum og vísindamönnunum.

08.11.2007 01:30

Styttri, skemmtilegri og fljótfarnari leið.



413. Öllum skrambanum taka menn upp á og það meira að segja á gamals aldri! Ég verð líklega að gangast við þessum veikleika mínum því þar eru orðnir svo margir sem hafa orðið vitni að þeim hamförum sem stundum eiga sér stað í stigaganginum hér heima á Öldugötunni. Það er samt yfirleitt frekar þegar að ég held að enginn sjái til, að ég fer þessa styttri og fljótfarnari leið ofan af þriðju hæðinni og alla leið niður til jarðar. En í hvert sinn sem ég lendi á næsta stigapalli fyrir neðan hvert handrið heyrist svolítill dynkur og það jafnvel þó að lendingin takist með ágætum. Reyndar er þessi dynkur kannski ekki bara svolítill, því "talsverður" væri e.t.v. það lýsingarorð sem gæfi réttari mynd af þeim kafla í atburðarrásinni. Það hefur reyndar gerst að hurðir hafa verið rifnar upp, nágrannarnir snarast fram en staldrað við, horft á mig furðu lostnir og með spyrjandi augnaráði en sagt síðan svolítið vandræðalegir.
"Ég hélt að einhver væri að flytja eða eitthvað svoleiðis!"
Ég hef þá auðvitað líka orðið svolítið skömmustulegur og afsakað þessa hegðun mína með því að segjast vera að athuga hvort ég geti "þetta" ennþá.
Einu sinni náði ég alveg svakalega góðu rennsli niður síðasta hlutann og niður á neðsta gólf. Kom aldeilis á fljúgandi ferð niður handriðið og kútveltist á gólfinu með miklu brambolti. Það vildi þá ekki betur til en svo að ein frúin í stigaganginum var að flýta sér eitthvað verulega mikið og svipti upp hurðinni með stæl og hugðist storma með tilþrifum til síns heima í sama mund og ég lenti. Ég féll því eiginlega að fótum hennar rétt eins og þvældur kartöflupoki, en um leið og ég skynjaði návist hennar, spratt ég samt á fætur eins og stálfjöður, reyndi auðvitað að halda andlitinu og láta á því sem næst engu bera. En atburðarrásin var bæði hröð og henni fylgdi líka talsverð hávaðamengun. Hún sem áttaði sig ekki á hvað gæti eiginlega verið að gerast þarna, fraus á staðnum og það var engu líkara en hún hefði breyst í skúlptúr. Andartak var dauðaþögn, ég var sprottinn upp og vissi ekki alveg hvað ég ætti að segja eða gera næst. Þá komst hreyfing á loftið á ný og skúlptúrinn lifnaði snarlega aftur við og það svo um munaði. Nágrannakona mín orgaði af öllum sínum lífs og sálarkröftum og það sást skýrt og greinilega hvað hún hafði borðað í morgunmat þann morguninn. Þetta var mikið hátíðnihljóð sem skar í bæði innri og ytri eyru og ég sá eins og í móðu að hún lyfti hægri hendinni eins og hún ætlaði að blessa mig. En þar sem hún kreppti hnefann svo að hnúarnir hvítnuðu vissi ég að það stóð ekki til, enda hafði ég aldrei heyrt að hún væri neitt sérlega trúuð kona. Það opnuðust nokkrar hurðir og höfuð íbúanna teygðu sig fram á ganginn. Sumir sáu að ég var þarna á ferð og áttuðu sig á að það gæti ekki verið neitt merkilegt að ske fyrst svo var, en aðrir vildu svala forvitni sinni í örlítið smærri atriðum og spurðu hvað gengi á eða eitthvað í þá áttina. Nágrannakonan lét handlegginn síga aftur og ég varpaði öndinni svolítið léttar.
"Góðan daginn" sagði ég.
"Þú ert nú meira helv... fíflið" svaraði hún.
Ég brosti á móti, gekk út og þóttist bara hafa sloppið vel.

Nokkuð er liðið síðan þessir atburðir áttu sér stað, en ég renndi mér síðast niður handriðið seinnipartinn í dag. Það er erfitt að kenna gömlum hundi að sitja...

05.11.2007 14:03

Hljómsveitin með dónalega nafnið.

Hljómsveitin Sjálfsfróun kom fram á Rokk í Reykjavík.

412. Ég var að ferðalagi á netinu þegar ég datt inn á http://jensgud.blog.is en þar sá eg eftirfarandi pistil sem ég "tók mér að svolitlu láni."

Grófustu hljómsveitarnöfnin.
Ritstjórn bandaríska músíkblaðsins Rolling Stone hefur í samvinnu við lesendur sína tekið saman lista yfir ruddalegustu nöfn þekktra hljómsveita. Þegar ég renndi yfir þennan lista - sem er birtur hér fyrir neðan - varð mér hugsað til þess hvað nöfn íslenskra hljómsveita eru jafnan kurteisleg. Í fljótu bragði man ég þó eftir Morðingjunum, Gyllinæð og Haltri hóru. Nafn Höltu hórunnar var meira að segja heldur grófara áður en það var stytt. Langa útgáfan var Hölt hóra með kúk á brjóstunum.

En hér er listinn úr Rolling Stone:

1. Cattle Decapitation
2. Dahmer's Icebox
3. Alien Sex Fiend
4. Chainsaw Surgery
5. My Bloody Valentine
6. Southern Death Cult
7. Cannibal Corpse
8. Christian Death
9. Revolting Cocks
10. Black Sabbath
11. diSEMBOWELMENT
12. Necrocannibalistic Vomitorium
13. Dogs Die In Hot Cars
14. Throbbing Gristle
15. Carcass
16. Pig Destroyer
17. Nosferatu
18. Flesh Eaters
19. .And You Will Know Us By The Trail Of Dead

20. Hootie & The Blowfish

Guðríður "kommentaði." Hljómsveitin Sjálfsfróun var náttúrlega með svo gróft (dónalegt) nafn að hún mátti ekki auglýsa böll eða tónleika í Ríkisútvarpinu. Þeir breyttu um nafn bara fyrir auglýsingarnar og hétu þá Hljómsveitin Handriðið og Ísland hló, alla vega þeir sem skildu djókinn.

Ég man vel eftir þessu uppátæki strákanna þegar þeir tóku hina virðulegu stofnun RÚV. hreinlega í xxx með þessum hætti. Það stóð til að halda tónleika þar sem nokkrar af yngstu böndunum áttu að spila, og auðvitað varð að auglýsa uppákomuna. Þá brá svo við að RÚV neitaði að taka hana til birtingar ef hljómsveitarnafnið Sjálfsfróun yrði þar á meðal. Það var haldinn neyðarfundur um málið og ráðamönnum RÚV tilkynnt að hljómsveitarmeðlimir hefðu ákveðið að skipta um nafn og verða þannig við eðlilegum kröfum siðferðispostulanna hjá hinni virðulegu stofnun. Hljómsveitin skyldi eftirleiðis heita Handriðið. Það má vissulega velta því fyrir sér hver munurinn er en RÚV mönnum fannst ekkert aðfinnsluvert við hina nýju nafngift, allir voru sáttir og auglýsingin var marglesin eftir að sú breyting hafði verið gerð á henni.

Litlar upplýsingar er að finna á netinu um afrek hljómsveitarinnar. Líklega eru mestu heimildirnar að sjá og heyra í kvikmynd Friðriks Þórs Rokk í Reykjavík frá árinu 1982, þar sem bandið flytur þrjú lög. Lollipops, Antichrist og Sjálfsfróun.

01.11.2007 09:05

Sjónmæling.



411. Þegar árunum í æfisafninu fjölgar og þegar það sem var einu sinni nýtt og öflugt tæki er það ekki lengur, er ljóst að við þurfum að gera þær ráðstafanir sem duga best til þess að halda öllu í sem bestu horfinu þrátt fyrir allt. Þegar árunum fjölgar eru nefnilega verulegar líkur á því að sjónin taki að daprast. Við bregðumst oftast og flest við þessu með því að fara til augnlæknis og láta mæla sjónina, en í framhaldi af því liggur oftar en ekki fyrir að fjárfesta þurfi í gleraugum.



En núna hafa augnlæknar þróað aðferð til að bæta sjón a.m.k. karlmanna.
Þetta spjald ku hafa reynst mun betur og árangursríkara en það gamla með misstórum bókstöfum.

  • 1

Name:

Leó R. Ólason

Location:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Today's page views: 1035
Today's unique visitors: 159
Yesterday's page views: 1391
Yesterday's unique visitors: 279
Total page views: 496412
Total unique visitors: 54777
Updated numbers: 26.12.2024 23:29:03
clockhere

Links