Blog records: 2013 N/A Blog|Month_11

27.11.2013 22:54

Aðalbarinn



899. Ég fékk þessa stórskemmtilegu vetrarmynd af Aðalgötu 28 senda frá honum Hilmari Gunnarssyni sveitunga mínum, en hann hefur undanfarið verið að láta skanna fjölda slidesmynda sem faðir hans Gunnar Þórðarson símvirki tók á árabilinu 1964-68.

Eitt og annað vekur þarna athygli mína, t.d. að tónskólalóðin var vandlega girt og með pílárahliði. Ég man aftur eftir girðingunni sem var annars löngu gleymd og horfin langt inn í lágþokubakka fortíðarinnar þegar ég sá myndina.

Til hægri sést í gaflinn á Aðalgötu 25. sem eitt sinn hýsti verslun Péturs Björnssonar. Hver ætli hafi átt heima þar á efri hæðinni þegar myndin var tekin? Kannski Stebbi lögga? Og ætli Þóra (fædd 1956) hafi þá átt reiðhjólið sem sést neðst í horninu?

Það verkur líka athygli mina að Schiöth-húsið virðist vera nýmálað og er ákaflega vel útlítandi, en þegar ég eignaðist það (um áramótin 1980-81) hafði neðri hæðin nýlega verið máluð með skelfilega grænum lit, en að öðru leyti var málningin mestöll flögnuð af. Litlu kvistirnir voru rauðir, - alveg rétt. Og skorsteinninn gægist yfir mæninn, en hann var brotinn niður árið 1996 m.a. af Óla Kára og fleirum þegar norðurþekjan var endurnýjuð, en hann var þá í læri Sigga Konn.

Takið eftir að á jarðhæðinni lengst til hægri og næst Aðalbúðinni er hurð þar sem nú er gluggi. Þarna var inngangur sem m.a. var ætlaður vinnu og afgreiðslufólkinu sem bjó uppi í kvistunum, en talsvert mjórri stigar lágu alla leið þangað upp en þeir sem lágu frá núverandi inngangi næst Allanum og ætlaðir voru apótekaranum og fjölskyldu hans.

Fyrir ofan dyrnar þar sem nú er gengið inn í bakaríið hjá Kobba stendur AÐALBAR. Þegar ég var á barnaskólaárunum var staðurinn yfirleitt kallaður Sjuttabarinn og þótti ekki henta öllum aldurshópum til að hanga á. En það var nú samt stundum laumast til að kíkja þangað.




Þegar rýnt er betur í myndina sést að ungur maður gægist út um stofugluggann, innan úr hlýjunni, öryggi heimilisins, virkinu þar sem hann á athvarf sitt, út í hríðina, veturinn og kuldann þar sem frostið bítur.

Hver skyldi þetta vera?

24.11.2013 09:01

Jónas og fjölskylda


898. Þarna er húmorinn greinilega í góðu lagi, en hvað skyldu margir muna eftir honum Jónasi og fjölskyldu úr umferðinni forðum daga, en hann var haldinn vægast sagt mjög undarlegri söfnunaráráttu. Jónas þessi fór sér gjarnan hægt í umferðinni ef einhverjir bílar voru fyrir aftan hann og átti sér það takmark að mynda bílalest sem næði helst hringinn í kring um landið. Það voru hjónin Bessi Bjarnason og Margrét Guðmundsdóttir sem fóru með aðalhlutverkin í þessum stórskemmtilegu innskotum sem unnin voru í samráði við sambærilegt apparat og í dag kallast Umferðarstofa. Ólafur Örn Haraldsson mun hafa samið textann í þáttunum og útsendingar hófust sumarið 1974 á RÚV. Þarna fór saman umferðarfræðsla sem virkaði og óborganleg leikræn tilþrif sem maður beið eftir að fá að heyra á hverjum degi.Seinna var svo efnið gefið út á kassettum, en í dag má nálgast það á youtube.

Slóðin að fyrsta þætti er http://www.youtube.com/watch?v=pYw5BE1spaA


19.11.2013 01:42

Gluggahlerar með boðskap



897. Þetta hús stendur á horni Bergþórugötu og Frakkastígs. Ef horft er beint á þær hliðar hússins sem snúa að umræddum götum, virðist þetta vera að öllu leyti eðlilegt og óskup venjulegt hús. En ef gengið er fyrir horn þess, koma þessir rauðu gluggahlerar í ljós og af þeim má lesa mjög svo skorinorðan boðskap eins og sjá má á myndinni hér að ofan.

Þarna hefur hún Auður farið á flug.

-

Hér undir er nýr gjörónýtur gluggi

frá Trésmiðju Stálsmiðjunnar

og

Hér undir eru ¾ af vanefndum, 

fullgreiddum, nú ónýtum glugga 

frá Trésmiðju Stálsmiðjunnar.

-

Á efri hæðinni býr rithöfundurinn Auður Haralds sem óhætt er að segja að sé þekkt fyrir að hafa munninn fyrir neðan nefið, fátítt sé að hún liggi á skoðunum sínum um nær hvaða málefni sem er og eigi það til að tjá hug sinn allan alveg svikalaust ef henni býður svo við að horfa.

Fyrsta skáldsaga hennar "Hvunndagshetjan: Þrjár öruggar aðferðir til að eignast óskilgetin börn" kom út árið 1979" vakti mikla athygli. Síðan komu út "Læknamafían" 1980 og "Hlustið þér á Mozart" 1982.

Eftir það skipti hún alveg um gír og skömmu síðar komu út þrjár bækur hennar um Elías sem byggðu á innslögum sem hún skrifaði fyrir Stundina okkar sem Sigurður Sigurjónsson lék og svo unglingabókin "Baneitrað samband á Njálsgötunni" 1985, en síðar var gerð leikgerð af því og það flutt m.a. í Íslensku Óperunni.

Árið 1987 kom svo út síðasta skáldsaga hennar til þessa í hinu hefðbundna bókarformi "Ung, há, feig og ljóshærð", en undir aldamótin skrifaði hún svo söguna "Hvað er Drottinn að drolla" sem var birt á bókavefnum á Strik.is árið 2000

Einhvern tíma milli 1990 og 2000 sá Auður um þáttinn "Sunnudagslærið" ásamt blaðakonunni og bókmenntarýninum Kolbrúnu Bergþórsdóttir sem við þekkjum m.a. úr Kiljunni hans Egils Helgasonar. Þær virtust eiga vel saman í þeim þætti, enda báða hæfilega "kjaftforar" (afsakið orðbragðið) og voru lítið fyrir að skafa utan af hlutunum. Í þeim þætti sagði Auður eitt sinn "þegar ég verð ekki lengur fyrir kynferðislegri áreitni, verður lítið gaman að vera til". Kolbrún hefur oftar en ekki átt það til að segja eitt og annað sem fer misjafnlega í menn. Hún varð m.a. mjög undrandi á sterkum viðbrögðum knattspyrnuáhugamanna við ákvörðun Sir Alex Ferguson að hætta störfum sem knattspyrnustjóri Manchester United og skrifaði þá í Moggann: "Þeir voru hágrenjandi allan daginn og ræddu þetta frá níu til fimm. Það var ekki vinnufriður fyrir karlmönnum sem voru í tilfinningalegu uppnámi. Ég er orðin mjög þreytt á þessu". Og það var auðvitað ekki að sökum að spyrja, allt varð hreinlega vitlaust og netheimar loguðu.

En á neðri hæð hússins við Bergþórugötu býr Páll Björgvinsson og hafa þau Auður eldað saman grátt silfur allt frá því að hann keypti hæðina fyrir fáeinum árum.

Ég á hús við Njálsgötu og liggja lóðir okkar því sem næst horn í horn. Eitt sinn ákvað Auður að breyta þakinu hjá sér og setja á það glugga. Þá var henni sagt að til væri eitthvað sem héti "grenndarkynning" og hún þyrfti að fara eftir ýmis konar reglugerðum o.þ.h. ef hún vildi gera hlutina rétt. Það fannst henni svo sem ekkert stórmál og í framhaldinu hringdi hún m.a. í mig og ég leit við hjá henni til að setja nafnið mitt á blað sem var auðsótt mál. Það fór annars vel á með okkur, ég staldraði við í 2 og ½ tíma og við kepptumst við að hafa orðið hverja einustu mínútu. Gleymi þeirri heimsókn líklega aldrei. En þegar farið var að eiga við þakið kom eitt og annað í ljós eins og gengur, allmargar fúnar spýtur hér og eitthvað af haugryðguðu bárujárni þar. Allmargir hundraðþúsunkallar voru því farnir í aðgerðina umfram kostnaðaráætlun áður en yfir lauk. Þá rukkaði hún Pál nágranna sinn um hans hlut en hann neitaði að borga. Og þar sem hún var meirihlutaeigandi hússins í rúmmetrum talið taldi hún sig geta tekið þær ákvarðanir sem henni þóknaðist í krafti atkvæðahlutfalls upp á heil 65% af heildareign, enda vildi hún helst ekki eiga nein samskipti við Pál og talaði reyndar aldrei við hann ótilneydd. En þar sem hún taldi af sömu ástæðum hinn mesti óþarfi að boða Pál á húsfund þó ekki væri nema formsins vegna, tapaði hún auðvitað málinu.

-

Andri Freyr og Gunna Dís tóku vægast sagt MJÖG hressilegt svokallað Drottningarviðtal í maí sl. í þætti sínum Virkir Morgnar þar sem Auður lætur hreinlega allt vaða.

Slóðin þangað er http://www.youtube.com/watch?v=6eXzOLQ0f8k

-

Og Auður Haralds mér og öðrum aðdáendum sínum til mikillar gleði, er um það bil að hefja aftur störf á rás 2 eftir allt of langt hlé, en þar mun hún væntanlega verða með vikulega jólabókaflóðskrídik í þættinum "Virkir Morgnar" næstu vikurnar eða allt fram að jólum. Hún var í eins konar kynningarviðtali í morgun, en fyrsti eiginlegi þáttur hennar verður næsta þriðjudag væntanlega skömmu fyrir hádegi.

En hún verður líklega þrátt fyrir allt að teljast vera svolítil frekjudós svona í eðli sínu, en hún er líka frábær rithöfundur, var stórskemmtileg útvarpskona hér í denn og verður það eflaust aftur, svo og ein þeirra sem mun alltaf standa bæði út úr og upp úr, - eða þannig.

Hún verður 66 ára þ. 11. des. nk.

15.11.2013 23:44

Strætó í ljósum logum

Mynd: Guðrún.

896. Í gær mátti lesa eftirfarandi smáfrétt í visir.is: "Eldur kom upp í strætisvagni á leið 28 við Aðalþing í Kópavogi um klukkan 11.40 í morgun. Vagnstjóra sakaði ekki og komst hann heill á húfi út úr vagninum. Enginn farþegi var um borð í bílnum. Eldsupptök eru ókunn og hefur slökkviliðið náð að ráða niðurlögum eldsins. Að sögn Kolbeins Óttarssonar Proppé, upplýsingafulltrúa Strætó bs., er vagninn gjörónýtur". Fréttin var nánast samhljóða á vefútgáfu Mbl.

Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/11/14/kviknadi_i_straeto/

Á dv.is var fréttin einnig með líku sniði, en við hana voru nokkrar verulega "fræðandi" og athyglisverð comment. Og þeir sem þau rituðu kunnu allar skýringar á því hver orsökin var og höfðu ótrúlega margt um málið að segja, án þess þó að nokkur ritaranna hafi verið á staðnum eða viti neitt um aðstæður eða aðdraganda. Það var eiginlega ekki annað hægt en að glotta eilítið út í annað yfir öllum þessum "sérfræðiálitum" og öllu bullinu í þeim.

Ótrúlega skammur tími leið frá því að eldurinn gaus upp aftarlega í vagninum, þar til ekki var mögulegt að sjá handa sinna skil fremst við inngöngudyrnar. Sá tími mældist í sekúndum miklu frekar en mínútum og bíllinn var einnig orðinn nánast alelda á svipuðum tíma.

Bílstjóri á rútu frá Teiti Jónassyni sem kom aðvífandi, svo og starfskona úr eldhúsi leikskólans við Aðalþing eiga mikið þakklæti skilið fyrir veitta aðstoð, en þetta er nokkuð sem maður vill komast hjá að þurfa að upplifa aftur þó svo að eldsvoðinn teljist ekki með þeim stærstu og enginn hafi verið í umtalsverðri hættu.

08.11.2013 22:37

Gengið gegn einelti

Gengið gegn einelti í Kópavogi í dag. Myndin er tekin eftir Hlíðarhjallanum af röðinni næstum því endalausu, en stór hluti hennar er þegar þarna er komið sögu, fyrir löngu horfinn upp á lóð Digranesskóla.

895. Í dag 8. nóvember var gengið gegn einelti víða um land, en að öllum líkindum hefur verið einna mest lagt upp úr göngunni í Kópavogi. Mér sýndist það alla vega á svöruninni þegar ég "fór á gúgglið" og þess utan varð göngufólkið á vegi mínum í orðsins fyllstu merkingu eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Ég átti leið niður Skálaheiði og niður á Hlíðarhjalla eða Hliðarhalla eins og mér er svo gjarnt á að kalla götuna þegar ágætur félagi minn heyrir til, en hann er einmitt íbúi hennar. Þar stoppaði ég og fylgdist með göngufólkinu þramma áfram og taka strikið upp að Digranesskóla. Röðin virtist alveg endalaus, því framendi henna ef kalla mætti þá sem á undan fóru, voru fyrir löngu horfnir inn á milli trjánna og upp fyrir brún skólalóðarinnar. En hún virtist engan enda ætla að taka og stöðugt komu fleiri niður Álfahlíðina og birtust mér á horni hennar og Hlíðarhjallanum. Eftir fáeinar mínútur hafði kennurum og skólaliðum tekist að beina strumnum að mestu leyti upp á gangstéttina og ég gat haldið áfram, en fór þó að sjálfsögðu ofur varlega. Þegar ég ók fyrir endann á Álfaheiðinni sá ég að straumurinn var svo sannarlega því sem næst endalaus, því hann náði eins langt upp þá götu og hægt var að sjá.

Þvílíkur fjöldi.!

Ósjálfrátt hugsaði ég til baka, til þess tíma þegar ég var á sama aldri og þorri göngufólks. Þá var ekki búið að finna orðið "einelti" almennilega upp, en engu að síður var til miklu meira en nóg af því.




Horft upp eftir Álfaheiðinni. Röðin virðist engan enda ætla að taka.

06.11.2013 18:20

Norðanfari 1863

894. Ég var að glugga í gömul blöð, já mjög gömul að þessu sinni. Og það er ekki laust við að maður brosi lítillega út í annað, jafnvel þótt umfjöllunarefnið sé ekkert mjög skemmtilegt í eðli sínu. Dánarfregnir og jarðarfarir, dauðsföll og slysfarir, en slíkt getur tæplega talist sérlega upplífgandi. En það er orðfærið, stafsetningin og efnistökin sem vekja athygli mína og hugsanlega einnig annarra sem glugga í úrklippurnar hér að neðan, enda eru skrifin frá árinu 1863. Þetta var ekki mislestur, frá árinu ÁTJÁNhundruðsextíuogþrjú eða hvorki meira né minna en 150 ára gömul.

Hér eru nokkur sýnishorn. 









  • 1

Name:

Leó R. Ólason

Location:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Today's page views: 927
Today's unique visitors: 152
Yesterday's page views: 1391
Yesterday's unique visitors: 279
Total page views: 496304
Total unique visitors: 54770
Updated numbers: 26.12.2024 22:46:44
clockhere

Links