Blog records: 2008 N/A Blog|Month_12

27.12.2008 18:01

Hver var þessi Hinrik?



525. Hver var eiginlega þessi Hinrik sem Hinrikshnjúkur er nefndur eftir? Fyrir fáeinum misserum hafði ég ekki minnstu hugmynd um að til væri tindur með þessu nafni við Siglufjörð. En það var reyndar áður en ég fékk þá flugu í höfuðið að gaman væri að sjá landslagið frá öðru sjónarhorni en frá þeim stöðum sem allflestir gera. Eftir því sem árin hafa liðið, hafa sjónir og hugur því beinst að fleiru en því sem blasir beinlínis við án frekari ígrundunar. Og ef "nærsýnu" gleraugun eru tekin niður og umhverfið skoðað í víðara samhengi, sést að Siglufjörður er vissulega fleira og meira en Aðalgatan, Torgið, Allinn, Samkaup og jafnvel Sídarminjasafnið.

 

Það var mikill fengur að örnefnavefnum http://snokur.is/ sem opnaður var í sumar og það er auðveldlega hægt er að liggja yfir honum tímunum saman og hafa gaman af, en svo má líka að reyna að rýna aðeins dýpra.

Og það er einmitt það sem ég hef gert. Ég skil alveg og tel mig vita af hverju t.d. Staðarhólshnjúkur og Hestskarðshnjúkur bera þau nöfn sem þessi fjöll gera. Sömuleiðis Hólshyrna, Hafnarfjall o.s.frv. En öðru máli gildir um Hinrikshnjúk því þar hlýtur einhver Hinrik einhvern tíma að hafa komið við sögu. En hver var hann og hvað gerði hann nægilega merkilegan til að þessi myndarlega klettaborg sem allt of fáir taka eftir, sé nefnd eftir honum? Ég hef spurt ýmsa þá sem ég hef talið að gætu hugsanlega vitað eitthvað meira um nafngiftina en ég, ég hef reynt að "gúggla" mér vitneskju um málið og ég hef leita eftir svarinu í bókum. En það virðist vera alveg jafn langt undan og þegar ég hóf leitina í upphafi. Ef einhver veit eitthvað meira en ég og greinilega margir aðrir um Hinrik og hnjúkinn "hans", væru allar slíkar upplýsingar mjög vel þegnar.



01.01.08. Um leið og mig langar að hnýta hérna aftan við ítrekun til þeirra vísu manna sem gætu vitað eitthvað um tilurð nafngiftar þeirrar sem fest hefur sig við hnjúkinn, vil ég óska þeim sem hingað eiga leið svo og einnig þeim sem eiga það ekki, gleðilegs nýs árs og farsældar um ókomna tíð.

02.01.08. Ég velti fyrir mér hvort það geti virkilega verið að enginn þekki til neinna heimilda um örnefnið Hinrikshnjúkur eða hvernig nafngiftin er til komin.

03.01.08. Því miður virðist a.m.k. enginn sem á leið um þessa síðu vita neitt um hvernig það bar til að þessi fjallatoppur fékk nafn sitt. Og ég er ekki alveg tilbúinn að samþykkja að hann sé nefndur eftir Hinna kennara eins og einn sveitungi minn hvíslaði að mér, þó svo að sá ágæti maður eigi allt gott skilið og full ástæða sé að halda nafni hans á lofti. Því tel ég það eitt ráð hugsanlega duga til að svala forvitni minni, að hafa samband við nokkra valinkunna sérfræðinga bæði norðan og sunnan heiða og freista þess að grafast fyrir um svarið.

05.01.08. Einhverjar vísbendingar virðast liggja í loftinu sem rétt og skylt er að kanna í þaula.

26.12.2008 07:07

Sólarglenna í Hafnarfirði og jólaball á Catalinu.

Sólarglenna í Hafnarfirði.

524. Það skein sól í Hafnarfirði í dag.
Um þessar mundir er þó hinn risastóri guli hita og lífgjafi okkar jarðarbúa mjög lágt á lofti hér á norðurslóðum. Það er því engu líkara en hann gægist feimnislega rétt yfir Reykjanesið um stund, en fari hjá sér og dragi sig fljótlega bæði hæversklega og jafnvel svolítið vandræðarlega til baka og hverfi okkur sjónum. Ég skrapp út með myndavélina og freistaði þess að fanga nokkra geisla sem voru eins láréttir og þeir geta orðið.








Jólaball á Catalinu.



Í kvöld
þ.e. föstudaginn annan dag jóla munu Vanir Menn standa á palli og framreiða danstónlist fyrir gesti Catalinu. Frítt er inn og allir velkomnir eins og venjulega.
En á laugardaginn 27. des. sem telst vera þriðji dagur jóla verður svo mætt aftur, en þá verður líka haldin mikil jólagleði Önfirðinga hér syðra.


Ljósmynd Björn Ingi Bjarnason.

Hér eru Æfingarmenn með hljómsveitartöskuna sem hefur ekki verið opnuð árum saman. Frá v. Siggi Björns, Ásbjörn Björgvinsson, Árni Benediktsson og Jón Ingiberg Guðmundsson
Hljómsveitin hefur hafið undirbúning þess að koma saman á næsta ári, fyrst á Flateyri þ. 31. maí (Hvítasunnudag) og síðan á Catalinu í október.
En eitt af því sem telst til mikilla tímamóta er að nú eru 40 ár liðin frá því að hljómsveitin Æfing lék opinberlega í fyrsta skipti, en hún var um árabil eins konar staðarhljómsveit þeirra Flateyringa. Skráðar heimildir eru um að fyrsta giggið hafi verið þ. 27. des. 1968 á fundi í verkalýðsfélaginu Skildi þar vestra. En frítt er inn og húsið öllum opið frá miðnætti.

24.12.2008 20:53

Gleðileg jól



523. Ég vil senda mínar bestu óskir til þeirra sem hingað kíkja við um gleðileg jól, farsælt komandi ár og þökk fyrir innlitin á árinu.

15.12.2008 17:39

Tímarnir breytast

522. Það er til marks um tíma sem nú eru að mestu leyti að baki, að verklýsing ræstingafólks í sameign fjölbýlishússins þar sem þetta blað hékk uppi verður að vera bæði í íslensku og pólsku. Það er að segja ef verkið á að vinnast á annað borð og skilaboðin að skiljast þeim sem fást til að vinna það fyrir "rétt" verð. Það er svo annað mál hvort einhverjar ályktanir er rétt að draga t.d. af þeirri stafsetningarkunnáttu sem blasir við þeim sem plaggið lesa og í framhaldi af því spurning hvort hönnuðir skjals þessa eru heppilegir "frontar" fyrir aðra. Fyrir hreint ekki svo ýkja löngu fengust nefnilega ekki svo margir til að taka að sér þau störf sem hér er lýst og varð að flytja inn ódýrara vinnuafl m.a. til þess að halda húsum okkar þokkalega þrifalegum. Við hinir innfæddu vorum nefnilega svo endalaust uppteknir við önnur og miklu merkilegri störf. En nú hefur skipast veður í lofti og það svo um munar, rétt eins og sjá má þegar biðlistar eftir umönnunarstörfum svo og við sorphirðu eru skoðaðir. Fyrrum yfirstéttin lækkar óðum flugið og leitar eftir fótfestu á móður jörð, en fellur oftar en ekki kylliflöt í leirugum drullupolli og forarvilpu sem er tilkominn vegna fyrri gerða hennar. Og hún er þá gjarnan með þessa bergmálandi tómleikatilfinningu í galtómu höfðinu þar sem hugsanirnar eiga að vera. Þeir sem áður bjuggu handan fjarskans og án tengsla við núveruleikann í hinu tiltölulega skammvinna en ljúfa stundarkorni firringar sinnar, skirrast ekki við að endurkynna sjálfa sig í ógeðfeldri og ófyrirleitinni markaðssetningu sem hinn nýja valkost á ögurstundu og bjóða litla trúgjarna mannininum góð bjargráð til sölu gegn hæfilegu gjaldi að eigin mati. Halda Pappírspésarnir virkilega að það sé strax kominn tími á að "endurplata" hann meðal-Jón og meðal-Gunnu sem býr í gamalli blokk og unnu einu sinni á vöktum í Hampiðjunni, en lifa núna á skertum örörkubótum og eru bestu vinir Gullnámunnar. Nei það er líklega ekki eftir miklu að slægjast hjá þeim skötuhjúum lengur. Slíkt hlýtur að vekja ugg í brjósti þess og þeirra sem eru skynsamlega þenkjandi og hafa bundið trúss sitt við jarðtengda rökhyggju sprottna upp úr jarðvegi hinnar Íslensku þjóðarsálar gegn um þykkt og þunnt í aldanna rás. Þeir hinir sömu sem kysu í nútímanum að nærast á hrútspungum, magál og léttmjólk eins og hið þjóðlega poppskáld kvað og var gerður góður rómur að.
Ég gat ekki annað en glott aulalega í áttina að hægra eyranu þegar ég heyrði auglýsingu í útvarpinu skömmu eftir að búið var að breyta landinu í efnahagslegt gettó, fjölmörgum úthverfum "stór-Sódómu" í mannlaus draugaþorp og leggja auk þess niður því sem næst heilu atvinnugreinarnar.

"Öll almenn bankaviðskipti hratt og örugglega þegar þér hentar, - Landsbankinn."
Hahaha...! Þessi var góður.
En það skipti svo sem engu máli hvaða banki það var sem auglýsti að þessu sinni, því allir hafa þeir nýverið lent á lungandi kennitöluflakki eftir erfitt og langvarandi gerfipappírsfyllerí sem steig þeim svo til höfuðs að allar hugsanaleiðir tepptust rétt eins og kransæðar sem fylltar hafa verið af mæjónessi sem komið var langt fram yfir síðasta söludag.
En það er svo annað mál að rétt eins og Kynlífsbiblían er höfuðbók graðnaglans, byssur og bænahald er helsta áhugamál Kanans og Kínverskt lýðræði er ekki til, mun fátt annað gerast á næstu árum og áratugum en að vinnulúin þjóð mun standa eftir snauðari en áður og gjalda fyrir "ekkertið" eins og það er kallað í þekktu ævintýri, með svita sínum og tárum.
Líklega mun okkur í framtíðinni finnast slíkar heimildir sem hér að ofan má sjá, minna óþægilega á horfna tíma þegar þjóðin var látin lifa í innistæðulaustum vellystingum og það praktuglega án þess að vita hve hár reikningurinn yrði þegar henni skyldi klappast á bakið og hún tæki ropann sinn eftir gjöfina. Með sorg í hjarta, brenglaða siðferðisvitund og niðurbælda reiði sem mun aldrei fá útrás nema upp í beljandi storminn, munum við líka örugglega einhvern tíma í framtíðinni horfa upp á söguna endurtaka sig.

En í framhaldi af þessum vangaveltum er ein ábending til þeirra sem eru vantar hugmynd að heppilegri jólagjöf en dettur hreinlega ekkert í hug.

            


Gefðu ástvinum aflátsbréf í Jóla eða áramótagjöf

3. flokkur 2000. krónur - 2. flokkur 5000. krónur - 1. flokkur 15000. krónur

3. flokkur er fyrir hinn almenna syndara og kostar aflausnin 2000 krónur.
Er fyrir léttvægar syndir eins og hvítar lygar og óhreinar hugsanir.

2. flokkur er fyrir þá sem hafa drýgt stærri syndir og kostar fyrirgefning stærri synda 5000 krónur. Er fyrir stærri syndir eins og þjófnaði, framhjáhöld og ölvun á almannafæri.

1. flokkur tryggir kaupandanum syndaaflát fyrir allar syndir smáar sem stórar, jafnvel dauðasyndir. Einnig eru innifaldar syndir sem enn hafa ekki verið framdar svo og smærri misgjörðir sem gleymst hafa. Fyrsta flokks kostar aflátsbréf 15000 krónur.

Aflátsbréfin eru hægt að panta í síma 6929526
og eru þau einnig fáanleg á Þýsku og Ensku

Allur ágóði af aflátsbréfunum rennur í Ríkissjóð.

15.12.2008 17:06

Ekkert varir að eilífu

521. Það er alveg sama hvað við gerum. - Tíminn líður og...



En það er svo allt annað og alveg óskylt mál að rétt þykir og fyllilega tímabært að skella sér í stutta ferð á Sigló nú í vikunni...

11.12.2008 17:04

Vestfirsk bókakynning og hljómsveitin Facon í eftirrétt

520. Í gærkvöldi fór ég á bókakynningu á Catalinu sem Vestfirska forlagið stóð fyrir. Ástæðan var að vísu ekki eingöngu vegna þess að ég sé bókhneigðari nú en áður, heldur miklu frekar að ég lagði til hljóðkerfi og var í leiðinni skipaður eins konar "magnaravörður" sem er gamalt og virðulegt starfsheiti. En það var mikið notað yfir tæknimenn Ríkisútvarpsins meðan það var við Austurvöll og síðar á Skúlagötu. Það var líka löngu áður en tæknin varð eins flókin sem hún er núna og starfið fólst á þessum tíma aðallega í að hækka og lækka, bæta við diskant eða bassa og sjá um að snúrur væru í lagi og tengdar. Eins og mig grunaði reyndist sú vinna sem ég þurfti að inna af hendi minni en látið hafði verið í veðri vaka, því þeir sem notuðu kerfið voru allir gríðarlega miklir reynsluboltar og alveg sjálfbjarga.


Eftir að lesið hafði verið upp úr nokkrum fjölda bóka sem reyndist hver annarri skemmtilegri var tekið svolítið hlé, en eftir það steig nýjasta útgáfa hljómsveitarinnar Facon á svið. Mæting var mjög góð og ástæðan hefur eflaust m.a. verið sú að vel var auglýst á vestfirskum vefsíðum.

En þessi bókakynning er sú síðasta í röðinni af þremur nýverið. Sú fyrsta var í Vík í Mýrdal en þaðan var haldið á Selfoss.

Á vef Önfirðinga má lesa eftirfarandi...

Vestfirðingar, brottfluttir og aðrir fjarri heimabyggð, boða til bókakynningar í Veitingahúsinu Catalinu, Hamraborg 11 í Kópavogi, miðvikudaginn 10. desember n.k. kl. 20:30. Þar verða kynntar og lesið úr þremur af þeim ellefu bókum sem Vestfirska forlagið á Þingeyri gefur út fyrir þessi jól.

Önfirðingurinn Guðrún Jónína Magnúsdóttir á Hellu kynnir bók sína "Birta - ástarsaga að vestan" sem er þriðja og síðasta bókin í þessari ritröð. Áður  komu út bækurnar um Hörpu og Silju 2006 og 2007.

.

Ísfirðingurinn og Flateyringurinn Harpa Jónsdóttir í Vík í Mýrdal kynnir bók sína "Húsið - Ljósbrot frá Ísafirði" sem er saga hússins að Hrannargötu 1 á Ísafirði og fyrst og fremst af fólkinu í kring um það og nánasta umhverfi. Harpa fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin 2002 og var bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar.

.

Þá kynna Bílddælingarnir Jón Kr. Ólafsson, söngvari þar og Hafliði Magnússon, rithöfundur sem nú býr á Selfossi, bók Hafliða um lífshlaup Jóns Kr. "Melódíur minninganna." Jón Kr. Ólafsson er landskunnur söngvari og söng á sínum tíma með hljómsveitinni Facon á Bíldudal og allir þekkja lag þeirra "Ég er frjáls." Pétur Bjarnason frá Bíldudal, sem samdi lagið, hefur sett saman hljómsveit að þessu tilefni og mun Jón Kr. taka lagið.


Guðlaug Helga Ingadóttir, söngkona á Hvolsvelli afhendir Jóni Kr. undirkjólinn góða sem Guðrún Á Símonar átti. Ljósm.: BIB

Það hljóp á snærið hjá Jóni Kr. Ólafssyni á Hvolsvelli

Vestfirðingar á Suðurlandi stóðu fyrir tveimur bókakyningum á Suðurlandi um síðustu helgi. Troðullt var í Bókakaffi á Selfossi og í versluninni Klakki í Vík í Mýrdal. Á heimleiðinni frá Vík á laugardag var komið við í Kaffi Eldstó á Hvolsvelli hjá söngkonunni Guðlaugu Helgu Ingadóttur og Þór Sveinssyni leirkerasmið  sem voru með aðventusamkomu. Þar afhenti Guðlaug Helga Jóni Kr. Ólafssyni á Bíldudal undirkjól af söngkonunni Guðrúnu Á. Símonar sem Guðlaug Helga lærði hjá á sínum tíma. Var Jón Kr. mjög ánægður með kjólinn og mun hann fá veglegan sess í tónlistarsafni hans á Bíldudal sem heitir "Melódíur minninganna"



Að kynningu lokinni í Vík árituðu höfundar bækur sínar. F.v.: Hafliði Magnússon, Jón Kr. Ólafsson, Sveinn Pálsson, sveitarstjóri í Vík, Kolbrún Matthíasdóttir verslunareigandi í Klakki og Harpa Jónsdóttir.  Ljósm.: BIB

 

Fjölmenni á vestfirskri bókakynningu í Vík í Mýrdal í gær

Fjölmenni var á bókakynningu frá Vestfirska forlaginu á Þingeyri í Vík í Mýrdal í gær hjá versluninni Klakki og var gerður mjög góður rómur að þessari heimsókn Vestfirðinga sem og framlagi vestfirsku heimamannana í Vík,  Hörpu Jónsdóttur listakonu og Kristins Níelssonar skólastjóra Tónlistarskólans í Vík en þau bjuggu á Flateyri um árabil.

Fyrst las Ísfirðingurinn og Önfirðingurinn, Harpa Jónsdóttir í Vík í Mýrdal úr bók sinni  "Húsið - Ljósbrot frá Ísafirði" sem er saga hússins að Hrannargötu 1 á Ísafirði og fyrst og fremst af fólkinu í kring um það og nánasta umhverfi.

Þá kynntu  Bílddælingarnir Jón Kr. Ólafsson, söngvari þar og Hafliði Magnússon, rithöfundur sem nú býr á Selfossi, bók Hafliða um lífshlaup Jóns Kr. "Melódíur minninganna" og Hafliði las úr bókinni.

Jón Kr. Ólafsson er landskunnur söngvari og söng á sínum tíma með hljómsveitinni Facon á Bíldudal og allir þekkja lag þeirra "Ég er frjáls." Stofnuð var sérstök hljómsveit í Vík vegna þessarar samkomu, "Vestfirska-Víkur-bandið" og  Jón Kr. tók lagið  "Ég er frjáls"  með hljómsveitinni.

Að lokinni samkomunni í versluninni Klakki buðu Harpa Jónsdóttir og Kristinn Níelsson vestfirsku gestunu til veislukaffis á heimili sínu í Vík.

 


Troðfullt var á bókakynningu í Bókakaffi á Selfossi í gærkveldi þar sem m.a. Jón Kr. Ólafsson söng síðan "Ég er frjáls" með "Vestfirska Flóamanna-bandinu"

 

En nánar má lesa um málið á http://www.flateyri.is/ auk þess sem Þar sem einnig er að finna mikinn fjölda mynda. Raunar er fjallað svo mikið um þessar skemmtilegu uppákomur að síðan dugir ekki til. Smella þarf á "fleiri fréttir" til að sjá allt það sem sagt er og sýnt.

En ég tók auðvitað nokkrar myndir af "hinni nýju Facon" eins og hún var kynnt á Catalinu.


En Björn Ingi Bjarnason Flateyringur vr kynnir og hélt utan um atburðina.


Nýjasta útgáfa af hljómsveitinni Facon frá Bíldudal.


Söngvarinn Jón Kr.


Hann lygndi augum og þandi raddböndin.


Renndi sér upp og niður tónstigann.


Og tók nokkur dansspor um gólfið í leiðinni.


Svo tóku þessir tveir dúett saman, Jón og hinn söngvarinn sem ég man því miður ekki hvað heitir, en hann var alveg þrælfínn.


Áðstoðarsöngvarinn og gítarleikarinn sungu svo bakraddir.


Og eitt jólalag flaut með.


Gítarleikarinn kom alla leið úr Vík í Mýrdal en ég held að hann sé skólastjóri tónlistarskóla þeirra Mýrdælinga.


Hjörtur er fyrri "hljómsveitarstjóri" Facon meðan hún starfaði af fullum krafti og gerði víðreist á sjöunda áratugnum.


Hann lifði sig mjög svo inn í hina líðandi stund og auðheyrt var að hann hafði áður spilað á pianó.


Pétur Bjarnason tók við hljómsveitarstjórninni af af Hirti en hann samdi líka lagið sem hljómsveitin er svo þekkt fyrir, "Ég er frjáls."


Bassaleikarinn kemur líka að vestan en hann var nemandi Péturs meðan hann var kennari á Bíldudal.

En þarna á Catalinu heyrði ég sögu af Víkurferð þeirra félaga. Seint um kvöldið eftir kynninguna í Klakki var ekið áleiðis til Reykjavíkur. Við Skógarfoss var staldrað við þó nokkuð dimmt væri orðið og svo aftur við Seljalandsfoss, en hann mun vera lýstur upp eftir að skyggja tekur. Jón er þá sagður hafa horft á fossinn um stund en síðan mælt af þunga.

"Þegar við komum vestur þurfum við að lýsa upp Dynjanda."

Verður fróðlegt að fylgjast með framvindu mála í Arnarfirðinum, því Jón hefur þegar sýnt að hann getur komið ótrúlegustu málum í framkvæmd.


Ólafur Helgi sýslumaður (áður á Ísafirði en nú á Selfossi) sleit síðan samkomunni og flutti kveðjur frá Hallgrími Sveinssyni hjá Vestfirska forlaginu.

En þegar Sýsli var kominn í pontu tók ég eftir að það þurfti að lækka míkrafóninn um eina 20 sentimetra eða svo. Þá mundi ég eftir skondinni sögu sem mér hafði eitt sinn verið "trúað" fyrir. Hann er sem sagt mjög lágvaxinn maður og vafasamar tungur segja hann ávalt ganga í skóm með afar þykkum botni til að sýnast hærri. Þannig var að á meðan hann sat á Ísafirði þurfti hann annað slagið að erindast suður til Reykjavíkur eins og gengur. Eitt sinn var hann í slíkri ferð þegar einhver kemur inn á skrifstofuna og spyr hvort geti verið að Ólafur sé kominn í bæinn. Skrifstofufólkið hélt að svo væri ekki en spyr á móti af hverju sá sem spurði teldi að svo gæti verið.

"Jú, ég þurfti að bregða mér inn á WC-ið áðan og sá að það var búið að setja litlar tröppur fyrir framan toilettið."

Mátti þá sjá brosviprur fara um andlit nærstaddra þó að fáu væri svarað.

En Ólafur Helgi var ekki í bænum svo því var þá slegið föstu að húsvörðurinn hefði líklega verið að skipta um peru.



Bíldælingurinn Hafliði Magnússon laumaðist þó til að taka eins og tvö lög á nikkuna þrátt fyrir að "sýsli" væri búinn að slíta samkomunni formlega.

09.12.2008 01:48

Helga Margrét



519. Og það kom að afabarnið var ausið vatni og því gefið nafn.





01.12.2008 12:09

Hríseyjarball

518. Eitt af því sem kom upp úr myndakassanum sem áður hefur verið nefndur, voru nokkrar myndir sem teknar voru áðið 1976 eða 77 þegar Miðaldamenn lögðu í einn Hríseyjartúrinn af mörgum slíkum. Því miður hafa þær greinilega ekki verið geymdar við kjöraðstæður og bera þess glöggt merki. Einhver hefði sagt hreint út að þær væru ónýtar, en þar sem um "sögulegar heimildir" er að ræða verður þeim ekki fargað. Það var alltaf gaman að koma til Hríseyjar því móttökurnar voru einstakar og það var farið með okkur eins og höfðingja. Á þessum tíma skipuðu hljómsveitina Magnús Guðbrandsson sem var þá sá eini sem eftir var af upphaflegu meðlimunum. Sturlaugur Kristjánsson, Birgir Ingimarsson og sá sem þetta ritar þ.e. Leó R. Ólason. Oft slæddust einhverjir farþegar með okkur og eins og sjá má hér að neðan, þá var alla vega Gulla Ásgeirs hans Magga með okkur að þessu sinni.


Magnús.


Birgir.


Ég (Leó)


Sturlaugur.


Þessir tveir virðast við fyrstu sýn vera hressir morgunhanar á ferð og vaknaðir á undan öllum öðrum, en svo er reyndar ekki. Að vísu er runninn upp nýr dagur, en þessir skemmtannaglöðu einstaklingar eru ekkert á þeim buxunum að fara að halla sér. Kannski voru þeir svolítið ofvirkir á þessum árum eða þannig.

En á bak við þá vinstra megin á myndinni má sjá í sundlaugina í Hrísey.

 

Eitt sinn man ég eftir að Jón Andrés Hinriksson kom með okkur ásamt einhverjum fleirum ágætum mönnum. Um nóttina eftir ballið var mannskapurinn ekki alveg í stuði til að fara að sofa og laumaðist allur hópurinn í bjartri sumarnóttinni í sund (og hafði nesti með sér). Við svömluðum þarna fram undir morgun nema Jón Andrés sem spígsporaði um botninn, - líka í djúpu lauginni. En það gat hann lengdar sinnar vegna meðan við hinir fórum alveg á kaf við að reyna það sama.

Ekki veit ég hvað Biggi hefur ætlað sér með þennan bekk sem hann burðast hérna með fyrir hornið á samkomuhúsinu, en það hlýtur að vera eitthvað mikið, djúphugsað og stórbrotið því það var einfaldlega hans stíll.


Þessi mynd er tekin við dæmigerða móttökuathöfn inni í samkomuhúsinu. Þau sem næst sitja heita Anna Eiðsdóttir og Björgvin Pálsson og búa í Syðstabæ. En það er stórt og mikið hús upp á hæðinni og gnæfir yfir eyjuna. Þegar við spiluðum í Hrísey mátti búast við kaffiboði frá þessu ágæta fólki sem var vissulega höfðingjar heima að sækja. En Anna er er móðir Helga sem var orgelleikari í hljómsveitinni Geislum frá Akureyri, en hann varð eiginmaður Mæju systir Bigga Inga.

Hér eru frá vinstri talið: Anna Eiðs, þá sést í hnakkann á Gullu Ásgeirs,Maggi Guðbrands með hönd undir kinn og sá sem þetta ritar.

  • 1

Name:

Leó R. Ólason

Location:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Today's page views: 1088
Today's unique visitors: 161
Yesterday's page views: 1391
Yesterday's unique visitors: 279
Total page views: 496465
Total unique visitors: 54779
Updated numbers: 26.12.2024 23:50:21
clockhere

Links