Blog records: 2012 N/A Blog|Month_5

28.05.2012 21:25

Evróið í Bakú


818. Ég bjóst til að setja niður einhverjar línur strax eftir keppnina ógurlegu í Bakú, en úrslitin komu svo flatt upp á mig að ég hef eiginlega verið kjaftstopp alveg samfleytt  í heila tvo daga og það er fyrst núna að ég er aðeins á átta mig á hinum ískalda raunveruleika.

7 stig frá Finnum.
6 stig frá Dönum.
6 stig frá Ungverjum.
6 stig frá Eistum.
5 stig frá Norðmönnum.
4 stig frá Spánverjum.
4 stig frá Slóvenum.
4 stig frá Slóvökum.
3 stig frá Þjóðverjum.
1 stig frá Kýpverjum.

En EKKERT frá Svíum, og við sem gáfum þeim tólfuna okkar.

Það er auðvitað ekki spurning um að loka IKEA strax og fara fram á neyðarfund í Norðurlandaráði vegna þessarra að okkar mati óvæntu aðstæðna sem upp eru komnar.

En borgaryfirvöld í Stokkhólmi, Gautaborg og Malmö rifast nú um að fá að halda næstu Evróvisjónkeppni sem verður þann 18. maí 2013, en í vonbrigðakastinu segjum við bara að fátt sameini íslendinga betur en vond músik og góð skemmtun og hana nú. (Eða þannig).

-

Það jákvæða við 20. sætið er að skrifarinn gat farið á bensínstöð ÓB og fyllt hjá sér tankinn fyrir kr. 233 lítrann.

Einhver netverjinn spurði hvort lögreglan væri tilbúin með neyðaráætlun um að bregðast við umferðaröngþveiti við bensínstöðvar í kjölfar tónlistarlegra hrakfara í fjarlægu ríki.

Annar sagði að okkar framlag hefði verið lafið "Mundu eftir mér" - lagið sem gleymdist, og vildi í kjölfarið henda sápu ofan í Eyjafjallajökul til að fá svolitla tilfinningalega útrás.

Sá þriðji vildi meina að Albanska söngkonan (sem var engan vegin allra en þó algjörlega sumra), væri drottning af fjarlægri plánetu sem ætti að koma sér hið fyrsta langt út í geim, lokaorð Hrafnhildar hefðu átt að vera "Guð blessi Ísland" og Óla bæri að senda niðurstöðu kosninganna í þjóðaratkvæðagreiðslu.

-

En auðvitað eru engin vonbrigði svona í alvörunni, engar hrakfarir og ekkert andlegt niðurbrot. Hvað sem stigunum eða öllu heldur stigaleysinu líður, þá var okkar fólk bara flott og ekkert annað. Jafnvel Gautarnir meðan þeir voru upp á sitt allra besta hefðu ekkert endilega gert þetta mikið betur.

23.05.2012 10:31

Þeir eru kynlegir þessir femínistar



817. Ég ætlaði að vera búinn að minnast á greinina sem birtist í DV fyrir nokkru, þar sem Eimskip og Kiwanishreyfingin voru gagnrýnd fyrir að gefa öllum sex ára gömlum börnum reihjólahjálma. En eins og alkunna er mun aldrei vera hægt að gera svo öllum líki, sama hvað tilgangurinn er óumdeilanlega af hinu góða og gjörningurinn í raun einfaldur. Það er því ekki laust við að maður velti fyrir sér hvað það getur verið erfitt að dansa á þeirri hárfínu jafnræðis og réttlætislínu sem flestir vilja þó alltaf gera, en ekkert síður hvar hin línan liggur sem er ekki síður hárfín þó á annan hátt sé. Þá á ég við hvar rétmætri og eðlilegri gagnrýni sleppir og öfgarnar taka við. Hin stóru og alvarlegu mistök gerðarmanna virðast að þessu sinni vera fólgin í litavali á öryggisbúnaðinn.

-

Hildur Lilliendahl ofurfemínisti segir litavalið vera tímaskekkju. "Það græðir enginn á öðru en að við komum fram við börn af virðingu, hættum að draga þau í dilka eftir æxlunarfærum og móta þau eftir hefðbundnum kynhlutverkum." Ekki verður betur séð ef vel er að gáð, en að Hildur sé hér að gagnrýna "hvernig að málinu var staðið" áður en hún hefur fyrir því að kynna sér "hvernig að málinu var staðið" ef þannig mætti komast að orði. Það er að mínu mati við hæfi að benda henni á að gamla spakmælið að "kapp sé best með forsjá" er enn í fullu gildi.

-

Þeir Eimskipsmenn segja að fyrir þremur árum hafi þeir fengið kvartanir yfir því að hjálmarnir sem þá voru gefnir hefðu verið úreltir, ekki í tísku og krakkarnir fengust því ekki til að nota þá. Næst var boðið upp á kúluhjálma sem voru þá í tísku. Þeir voru myndskreyttir en aðalliturinn var grár sem féll ekki heldur í kramið. Núna var gerð viðamikil könnun þar sem um 40 börn voru beðin um að velja þá liti af hjálmum sem þeim leist á. Niðurstaðan var að 90 prósent af drengjunum völdu bláa hjálma og 80 prósent af stúlkunum völdu bleika. Samkvæmt upplýsingum sem Eimskipsmenn segja vera komið frá lögregluembættum víðs vegar um land, má ráða að bleiku og bláu hjálmarnir séu mikið notaðir og þeir hafi að öllum líkindum bjargað fimm mannslífum það sem af er.

Og ég spyr: Skiptir ekki meiru máli hvort þeir gera gagn fremur en í hvaða lit þeir eru?

Mér kemur í hug annað sem oftlega bregður fyrir í málflutningi femínista, en það er krafan um kynjakvóta. Má þá ekki nota þeirra eigin rök og orðfæri þegar því er haldið á lofti að ekki eigi að flokka fólk eftir æxlunarfærum þess, og spyrja hvort ekki skipti meira máli hvað er milli eyrnanna á fólki en læranna á því.

Eru sumir fullkomlega samkvæmir sjálfum sér?

-

Þess utan er særandi, sálarlega niðurdrepandi, andlega tærandi og það orsakar vanlíðan og tilfinningarót af versta tagi þegar uppskeran er neikvæðni og vanþakklæti þeim til handa sem eru að gera vel og af góðum hug. En ráð til þeirra sem vila komast hjá slíku eru líklega af skornum skammti. Helst kannski að gera alls ekki neina slæma hluti og heldur enga góða hluti, segja aldrei neitt, skrifa aldrei neitt, blanda sem allra minnst geði við annað fólk og vera sem mest ósýnilegur. 

20.05.2012 09:16

Nokkur minningarorð um Dodge Caravan


816. Þar kom að því að sá sem þjónað hefur svo vel og svo lengi, lagði upp í sína hinstu för fyrir fáeinum dögum. Notkun bílsins sem jaðrað hefur við misnotkun á stundum, hefur verið bæði ótrúlega margþætt og mismunandi. Hann hefur jöfnum höndum verið notaður sem fjölskyldubíll, hljómsveitarbíll, vinnubíll og þá ekki svo sjaldan til efnisflutninga og það jafnvel af grófara tagi, svo sem ef flytja hefur þurft jarðefni, múrbrot, byggingarefni og fleira í þeim dúr. Sætum hefur því ýmist verið fækkað eða fjölgað og pláss hefur verið eftir atvikum fyrir allt frá einn og upp í sjö farþega.

Þessi samferðungur minn hefur lengst af verið góður þjónn en var þó orðinn svolítið óheppilegur húsbóndi undir lokin. En þá var hann farinn að þurfa nokkuð mikið til sín og orðinn bilanagjarn úr hófi fram að mínu mati. Slíkt er erfitt að hundsa og það stefndi í að útgerðarkostnaðurinn færi að valda mér verulegum verkjum í veskinu. Dæmi um hver þróunin var í þeim efnum er að finna á http://leor.123.is/blog/2012/03/28/606379/ en áður en þrautagangan varð lengri fékk hann heilaáfall og hefur síðan ekki farið í gang, alveg sama hvað reynt hefur verið að gera. Hann telst því vera heiladauður og mun því sennilega í framhaldinu rata á þann stað þar sem hans líkar glata gjarnan lögun sinni undir mikilli pressu.

Hljómsveitin hefur lokið leik sínum að þessu sinni ef svo mætti að orði komast og yfirgefið sviðið.

Blessuð sé minning hans.




En rétt eins og maður kemur í manns stað, kemur bill í bíls stað. Þar sem ég var ekki viðbúinn þessum óvæntu tímamótum, flýtti ég mér á netið og leitaði upp vænlegan kreppukost, a.m.k. til nánustu framtíðar, því bíllaus get ég illa verið. Ég rakst þar fljótlega á Micru af árgerðinni 2000 sem aðeins var keyrður 140 þús km. Og þar sem ég hef góða reynslu að tegundinni og hún svarar auk þess kröfum mínum um minni orkukostnað á tímum ört hækkandi bensínverðs á afar jákvæðan hátt, var strax farið að vinna í málunum. Það voru ekki liðnir nema tveir tímar eða svo frá því að leit hófst á bilasolur.is þar til nýr eigandi bifreiðarinnar LV 764 ók út af bílasöluplaninu. Kannski getur þetta flokkast undir svolítið fljótræði, en eitthvað segir mér að niðurstaðan hefði orðið sú hin sama þó lengri tíma hefði verið varið til djúpra pælinga og nákvæmrar skoðunnar. 

17.05.2012 04:58

Ef þetta væri bara svona einfalt


815. Ég rakst á alveg magnaða auglýsingu á netmiðli sem ég kíki stundum á. Við fyrsta lestur sá ég fyrir mér að nú væru öll mín vandamál sem tengjast á einhvern hátt fjármálum og efnahag leyst til frambúðar og það varanlega. Bæði þau sem eru til komin vegna yfirstandandi efnahagslægðar eða svokallaðrar kreppu, svo og einnig af öllum öðrum hugsanlegum og óhugsanlegum ástæðum. Og ekki bara mín, heldur hvorki meira né minna en landsmanna allra ef út í það er farið. Auglýsingin var svona:

-

Viltu verða skuldlaus ?

Peningar eru ekki allt en þeir auðvelda lífið töluvert!
Viltu verða skuldlaus?
Viltu geta gert það sem þig langar?
Viltu geta farið erlendis amk tvisvar sinnum á ári?
Viltu geta keypt draumabílinn sem fyrst?
Viltu láta drauma þína og fjölskyldu þinnar rætast?
Ef þú hefur áhuga, þá getum við veitt þér tækifæri lífsins
Hafðu samband og við bókum þig á fund.

-

Þetta var aldeilis ekkert svo lítið frábært. Einmitt það sem ég hafði alltaf óskað mér og lausn sem mig hafði oft vantað svo sárlega. Og nú bar ekki á öðru en að lausnin hreinlega steinlægi fyrir fótum mér í boði einhvers ótiltekins, ósýnilegs og enn sem komið var alla vega nafnlauss aðila sem stóð á bak við þessa gleðilegu auglýsingu. Nú biði mín farsældin sjálf til frambúðar í öllu sínu veldi, með útbreiddan faðminn rétt eins og álfkonan með sprotann. Eða hinn stóri og djúpi sannleikur sem engum hafði hingað til dottið í hug að gæti verið jafn sáraeinfaldur í mikilleika sínum og raunin virtist vera.

Ég sá framtíðina fyrir mér um stundarsakir í einhverjum himneskum og ljósrauðum bjarma. Blómafretandi englar með bollukinnar sem flögruðu um og léku á hörpur sínar og póstlúðra. Mér fannst umhverfið mettast af einhvers konar glaðlofti, gull og demantsryki, og umhverfið varð allt dýrðlegra en orð fá lýst.

En svo fann ég að ég var kominn með óþægilegt suð fyrir eyrun sem fór hækkandi eftir því sem ég sökk dýpra ofan í þessar pælingar mínar einhvers staðar langt handan fjarskans, eða kannski hinum megin við raunveruleikann. Og allt í einu vaknaði ég upp af dagdraumunum og hrökk ég til baka þar sem ég steytti allt í einu á fjárans núinu sem var vissulega ekki eins jákvætt og skemmtilegt. Þetta er líklega ekki alveg svona einfalt.

-

Að bóka á fund og hvað svo?

Líklega til að rukka fyrirfram einhver vesæl fórnarlömb fyrir veitta þjónustu, bjóða upp á lykil að framtíðinni, fá þau til að afsala sér dómgreindinni a,m,k, um stundarsakir, kannski að finna til einhverja einstaklinga sem ekki eru taldir trampa í vitinu.

Stendur kannski til að gera greindarskort væntanlegra viðskiptavina að féþúfu? Munu "handhafar sannleikans" leggja fram einhverjar "skotheldar pappírskenningar" sem standast síðan ekki hinn ískalda raunveruleika? - Ég veit það svo sem ekki.

En þar sem ég trúi miklu meira á rökvísi, staðreyndir og heilbrigða skynsemi en óræða skynjun, dulspeki og spádómsgáfu, tel ég að ef eitthvað virðist vera of gott til að vera satt, sé það líka undantekningalítið of gott til að vera satt. - Hvað heldur þú?

11.05.2012 02:48

Siglfirsk í báðar ættir



814. Sagt var frá því á siglo.is fyrir nokkrum dögum síðan, að Halldóra Ósk Helgadóttir nemandi í 9-L hafi unnið til fyrstu verðlauna í smásagnasamkeppni sem haldin var í Laugalækjarskóla nýverið, og þar kom einnig fram að Halldóra er barnabarn þeirra Hannesar og Höddu sem eru okkur siglfirðnum svo mjög að góðu kunn.

Linkur á umrædda frétt er: http://www.sksiglo.is/is/news/frett_af_heimasidu_laugalaekjarskola/



Hulda Þráinsdóttir leikskólakennari og Helgi Hannesson foreldrar Halldóru bjuggum á Siglufirði um árabil.


Við Siglfirðingar erum auðvitað alltaf stoltir af okkar fólki, en í tilfelli Halldóru getum við tvöfaldað það stolt miðað við áður fram komnar upplýsingar, því hún er siglfirsk í báðar ættir. Móðir hennar er nefnilega Hulda Þráinsdóttir, en Þráinn afi hennar var einmitt skólastjóri Laugalækjarskóla til margra ára þar sem umrædd smásagnasamkeppni var einmitt haldin núna.

-

Þráinn var fæddur á Brekkunni á Siglufirði 24. apríl árið 1933, en eftir menntaskólaárin á Akureyri lá leið hans suður á bóginn en ekki aftur á heimaslóðir, - því miður.



Þráinn Guðmundsson


Þráinn var einn af öflugustu félagsmönnum sem íslenska skákhreyfingin hefur átt og ritaði m.a. sögu Skáksambands Íslands. Þráinn var forseti Skáksambandsins 1986 til 1989, og mörg ár var hann fulltrúi Íslands á þingum Alþjóðaskáksambandsins FIDE. hann var skólastjóri Laugalækjaskóla eins og áður segir, einnig Námsflokka Reykjavíkur og um tíma fræðslustjóri í Reykjavík.




Ingibjörg móðir Þráins kom oft í heimsókn á æskuheimili mitt að Hverfisgötu 11. Hún og Sóley móðuramma mín voru báðar Svarfdælingar og höfðu þekkst frá unga aldri. Ingibjörg var fædd á Sauðanesi sem stóð skammt fyrir utan Dalvík, en bæjarstæðið hvarf undir veginn þegar hann var lagður fyrir að Ólafsfjarðarmúla. Og eins og svo margir gerðu snemma á síðustu öld , fluttist hún búferlum í hinn ævintýralega og  ört vaxandi síldarbæ.




Á myndinni er móðir skrásetjara Minný Leósdóttir, skrásetjari sjálfur Leó R. Ólason og Guðmundur Þorleifsson faðir Þráins. Hann er sá hinn sami Guðmundur og Guðmundartúnið var síðan kennt við, en hann ræktaði upp melinn fyrir ofan hús þeirra hjóna sem hefur eflaust ekki verið létt verk.

Ingibjörg og Guðmundur bjuggu síðan alla sína búskapartíð að Hávegi 12b á Siglufirði.

  • 1

Name:

Leó R. Ólason

Location:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Today's page views: 1035
Today's unique visitors: 159
Yesterday's page views: 1391
Yesterday's unique visitors: 279
Total page views: 496412
Total unique visitors: 54777
Updated numbers: 26.12.2024 23:29:03
clockhere

Links