Blog records: 2013 N/A Blog|Month_10
31.10.2013 08:50
Geimverur lenda á Akureyri
893. Í vefútgáfu breska stórblaðsins Mirror, birtist svolítil
frétt frá Íslandi þ. 20 okt. sl. undir fyrirsögninni "Watch UFO fall from the
sky over the town of
Slóðin á fréttina er: http://www.mirror.co.uk/news/weird-news/watch-ufo-fall-sky-over-2472543
-
(VIÐBÓT) Síðar fréttist að neyðarblysi hafi verið skotið á loft og Akureyri sé því enn "Geimverufrír" staður, ef litið er fram hjá því að öll getum við jarðarbúar með góðum rökum talist til geimvera.
29.10.2013 10:57
Reykjavík undir rauðum himni
892. Síðdegis á laugardeginum þeim 26., var ég að koma úr
Kolaportinu og átti þá leið fram hjá Tjörninni. Ég hafði tafist óvenju lengi við
frágang á básnum okkar, klukkan var næstum orðin sex og því fyllilega tímabært
að drífa sig áleiðis heim. (Já Kolaportið, ég átti alveg eftir að segja frá því
ævintýri. Stefni á að
Hér eru nokkur sýnishorn.
En það er síðan annað mál að á svona stundum vildi ég svo gjarnan eiga betri myndavél.
26.10.2013 03:03
Skráma
891. Í bókinni "Siglfirskar
þjóðsögur og sagnir" sem Þ. Ragnar Jónasson skrifaði og Vaka - Helgafell gaf út
árið 1996 segir: "Gil eitt mikið og djúpt er milli bæjanna Dalabæjar og
Engidals í Úlfsdölum er Herkonugil heitir. Eru það gömul munnmæli að tröllskessa
ein hafi stigið fram gilið til þess að
Líkamsleifar tröllkonunnar fundnar.
Upp undir brúnum
Hvanneyrarskálarinnar en þó Engidalsmegin liggja þessir steinar sem myndin hér að ofan sýnir, en
eru þó farnir að sökkva nokkuð í jarðveginn eins og sjá má. Með hæfilega
frjóu ímyndunarafli má sjá fyrir sér að líkamsleifar skessunnar Skrámu séu nú
loksins fundnar og í leiðinni geta sér til um endalok hennar. Þarna virðist hún
hafa sest niður og horft yfir búsvæði sitt, en ekki gætt að því hve stutt var í
sólarupprás. Kannski hefur hún dormað svolítið í blíðviðri síns síðasta
morguns, eða þá að hún hefur verið orðin svo gömul og sjóndöpur að hún hefur
ekki séð að hverju stefndi. En eins og fjölmargar "heimildir" herma, þá þoldu
tröllkarlar og kerlingar alls ekki sólarljósið. Við slíka uppákomu steinrunnu
þau, en nærtækt dæmi um slíkt er auðvitað tröllaparið sem ekki náði að reka
naut sitt yfir Skagafjörð meðan nótt var á. Á meðfylgjandi mynd virðist Skráma
hafa setið á svolitlu barði þegar hún mætti örlögum sínum, en sigið við það
aftur fyrir sig og lagst síðan út af. Fremst má vel sjá steingerða og digra
lærleggi hennar ásamt sköflungsbeinum, en neðarlega til vinstri eru þrír fingur
hennar vel greinanlegir og nokkuð krepptir. Þá má greina brjóst hennar og
höfuðbein uppi í horninu til hægri. Þar er eins og hún hafi snúið höfði sínu og
horft í átt að helli sínum í andarslitrunum.
Voru tröllin marsbúar?
Og því er svo við bæta að komið hefur fram stórskemmtileg kenning um upphaf og tilkomu tröllanna í fjöllunum. Hún gengur út á að um það leyti sem plánetan Mars var orðin óbyggileg, hafi íbúar hennar flutt sig um set og siglt á himinfleyi sínu til jarðarinnar þar sem það hafi brotlent og í kjölfarið hafi háþróuð tækni þeirra glatast. Þar sem aðdráttarafl rauðu plánetunnar er mun minni en jarðarinnar, hafi það haft þau áhrif að íbúarnir hafi fyrir flutning þróast í þá átt að þeir urðu mun stórvaxnari en hér gerðist. Einnig hafi sú staðreynd að þar er mun svalara en á móður jörð, vegið þungt þegar kom að vali ferðalanganna á búsetusvæði. Ísland hafi virst þeim einstaklega heppilegt, en einnig benda fjölmargar sagnir um Snjómanninn ógurlega í Asíu og Stórfót í Ameríku til þess að marsbúarnir hafi dreifst nokkuð víða um jarðarkringluna. En allt hefur sinn vitjunartíma og lítið hefur sést til tröllanna í fjöllunum síðustu árhundruðin. Líklega hefur þessi stofn dáið út og sennilegast er að hann hafi aldrei aðlagast hinum nýju heimkynnum sínum nægilega vel og því verið í bráðri útrýmingarhættu frá upphafi.
13.10.2013 06:35
Náttúruperlur á Reykjanesi
890. Ég átti leið suður með
sjó í byrjun síðasta mánaðar. Með mér í för var Ásgeir nokkur Magnússon,
bakari, pípari og fyrrverandi afgreiðslumaður á Laugarásvideó frá því bæði
laust fyrir og eftir síðustu aldamót. Ástæða ferðarinnar var bæði sú að nefndur
Ásgeir var að koma til landsins frá Norgi þar sem hann hefur búið undanfarin
ár, en einnig vantaði eina afastelpuna skutl á Ásbrúna til móður sinnar. Það
var þess vegna alveg gráupplagt að "slá tvær flugur í sama höfuðið" eins og
spakur maður orðaði meiningu sína eitt sinn. Þegar sú stutta var komin á
áfangastað, lögðum við Ásgeir upp frá miðbæ Keflavíkur og hugðumst ekki
Þegar ekið er í suður frá
Höfnum er fljótlega komið að brúnni milli heimsálfanna sem er bæði merkilegur
og skemmtilegur staður sem mætti gjarnan fá meiri athygli bæði íslenskra og
erlendra ferðamanna.
Þarna hefur einhver
skiltagerðarmaður einfaldað málin með því að einkenna álfurnar með fánum
Evrópubandalagsins og Bandarríkjanna, en það má jafnvel einnig hafa svolítið
gaman að því uppátæki sé skopskynið í þokkalegu standi.
Þarna eru Evrasíu og Norður-Ameríkuflekarnir
að gliðna og liggja plötuskilin frá Reykjanesi, m.a. í gegn um Þingvelli og
norðaustur um land. Hægt er að halda því fram með góðum og gildum rökum að
Reykjaneshryggurinn komi þarna upp á land og skipti Íslandi milli tveggja
jarðskorpufleka og þá í leiðinni milli Evrópu og Asíu.
Í sandinum ofan í gjánni og undir
brúnni er algengt að erlendir ferðamenn "riti" nöfn landa sinna, sitt eigið eða
síns fólks í sandinn og noti til þess laust grjót sem þarna er nóg af. Sá eða
sú sem kemur þarna oft, getur því sífellt verið að lesa ný skilaboð af botni
gjárinnar.
Sé gengið spölkorn norður
fyrir Gunnuhver sem er skammt sunnan við Brúna milli heimsálfa, er gott útsýni
bæði til hafs og lands.
Reykjanesviti var fyrsti viti
á Íslandi. Hann var upphaflega reistur árið 1878, og var þá upp á svonefndum
Valahnjúk. Árið 1896 urðu nokkrir jarðskjálftar sem urðu til þess að undirstaða
vitans skemmdist það mikið að talið var nauðsynlegt að byggja nýjan. Honum var
þá valinn staður á Bæjarfelli sem er um 400 metra frá Valahnúk og þá einnig frá
ströndinni. Þeirri staðsetningu fylgdi þó sá galli, að Skálafell skyggir á
vitann séð úr suðaustri. Þess vegna var reistur annar lítill viti úti á svokölluðum
Skemmum sem sumir kalla hálf-vitann. Því má svo gjarnan bæta við að frá Reykjanesi
er óslitið haf allt til Suðurskautslandsins.
Á myndinni hér að ofan má sjá
Reykjanesvita hinn síðari lengst til hægri á Bæjarfellinu sem áður nefndist
Grasfell en einnig Vatnafell. Þá eru hús vitavarðarins næst, en föst búseta
vitavarðar lagðist ekki af fyrr en árið 1999.
Valahnjúkur sem er vinstra
megin við miðja mynd, gengur fram í fjörukamb þegar lágsjávað er, en því sem
næst í sjó fram á háflóði. Því miður var ekki tími til að skoða hann betur, eða
draugahellirinn sem þarna er rétt hjá. Aðeins sést í Valbjargargjá þar sem elstu
núlifandi Grindvíkingar lærðu sund. Laugin var hlaðin að hluta og þótti allvel boðleg
á þeim tíma.
Þá er aðeins eftir að geta
eyjarinnar sem sést úti fyrir ströndinni, en það er sjálf Eldey, en hún er 77 m
hár, þverhníptur, gerð úr móbergi og u.þ.b. 15 km. frá landi. Þarna skammt frá var
áður eitt síðasta vígi geirfuglsins,Geirfuglasker. Það hvarf að mestu í hafið í
eldsumbrotum 1830.Það var ekki vitað til þess, að eyjan hefði verið klifin,
þegar þrír vaskir Vestmannaeyingar klifu hana 30. maí 1894 og þeirra á meðal
var Hjalti Jónsson, öðru nafni Eldeyjar Hjalti sem áður hafði klifið Háadrang
hjá Dyrhólaey. Þremenningarnir töldu sig hafa séð bolta á nokkrum stöðum í
berginu í Eldey, sem gaf til kynna að þetta væri ekki í fyrsta skipti sem eyjan
væri klifin. Eftir það var farið árlega í Eldey til fugla og eggjatöku allt þar
til hún var friðuð árið 1940.
Þá er einnig örstutt í
Reykjanesvirkjun sem var formlega tekin í notkun í maí 2006 og auðvitað reist í
lítilli sátt við náttúruverndarsinna eins og nánast allar aðrar virkjanir. Það
má nefnilega alla jafna ganga má út frá a.m.k. tvennu sem nokkurn veginn vísu;
nýting orkulinda verður alltaf nauðsynleg, en ósnortin náttúran er líklega
besta fjárfestingin til langframa. Í þriðja lagi mun líklega alltaf reynast
snúið að sætta þessi sjónarmið.
Og hinn einstaki Gunnuhver er líka á þessum sama bletti, eða örskammt sunnan við Brúna milli heimsálfa og Reykjanesvirkjun. Frá aðalveginum liggur 1.3 km. malarspotti að hvernum og er hann ágætur yfirferðar.
Þegar komið er á bílastæðið við hverinn tekur við svolítil ganga um ágætlega merkta stíga og timburbrýr. Full ástæða er til að halda sig á merktum leiðum, því þarna er mikill hiti í jörðu og ekki að vita hvort einhverjar óvæntar breytinhgar hafa orðið við nýlegar jarðhræringar sem áttu upptök sín skammt frá Reykjanestá á dögunum.
Aðalskiltið við Gunnuhver lýsir draugasögunni um Gunnu, sem var eitthvað á þessa leið: "Gunna var uppi um 1700 og var leiguliði í koti við Kirkjuból í Sandgerði. Eftir að hún gat ekki staðið skil á leigunni tók Vilhjálmur Jónsson lögréttumaður pott sem hún átti upp í leiguna. Við þetta reiddist Gunna mjög og neitaði að drekka vígt vatn og dó skömmu síðar. Þegar hún var sett niður í gröfina heyrðist sagt: ,,Ekki skal djúpt grafa, ekki á lengi að liggja."
Næstu nótt fannst Vilhjálmur dauður og heyrðist af Gunnu afturgenginni um Miðnesheiðina. Margir reyndu að kveða Gunnu niður en ekkert gekk fyrr en séra Eiríkur á Vogsósum fékkst í verkið eftir drjúgt brennivínsþamb. Sagði hann mönnum að koma hnykli í hendurnar á Gunnu og þá rúllaði hann með hana þangað sem hún gerði engum skaða. Þetta gekk allt eftir og Gunna elti hnykilinn í hverinn við Reykjanesvita og steyptist þar ofan í og hefur verið þar síðan. Sumir sjá hana hlaupa hring eftir hring á hverabarminum á eftir hnyklinum, við það að detta ofan í og hljóðar hún þá hátt".
Á árunum milli 1930 og 1940 bjuggu þarna hjón af erlendu bergi brotin. Þau höfðu kölluðust Höyer að ættar eða eftirnafni, hann var Danskur en hún var Lettnesk. Hinn Danski Höyer var garðyrkjumaður og kom upphaflega til landsins til að stunda rannsaka og ræktun við jarðhita. Hann hóf starf sitt í Hveradölum, en flutist síðan einhverra hluta vegna út á Reykjanes. Þau fengu til ábúðar skika úr landi Staðar og nefndu bæ sinn Hveradali, en hann var að hálfu íveruhús og að hálfu verkstæði ásamt vinnustofu. Aðalstarf þeirra hjóna var blómarækt og gerð jurtapotta úr leir sem þau hertu við jarðhitann. Mjög víða á Reykjanesinu er lítið um ferskt vatn, enda eru þar nánast engar bergvatnsár eða lækir. Allt vatn sem þau þörfnuðust fengu þau með því að þétta hveragufuna og kæla hana niður. Höyer var áður blaðamaður á hinu danska stórblaði Politiken og bauðst eftir nokkurra ára dvöl á Íslandi starf meðritstjóra við deild um landbúnaðarmálefni þess. Hann þáði það og þau hjón fluttust til Kaupmannahafnar skömmu fyrir stríð.
Þar skrifaði hann æfisögu konu sinnar sem var 15 árum yngri en eiginmaðurinn að hluta, eða allt fram að þeim tíma þegar hún komst til Þýskalands eftir fyrra stríð. Bókin kom út í Danmökru á stríðsárunum en Árni Óla þýddi hana á íslensku. Hún heitir Anna Ivanowna og er höfundur er skráður Erika Høyer sem mun vera nafn hennar eftir giftingu. Bókin er átakanleg lýsing á miklum hörmungatímum í ævi konunnar og var eitt sinn lesin sem útvarpssaga. Hann kom aftur til Íslands eftir stríð og endaði starfsæfi sína sem flugumferðarstjóri á Melgerðismelum í Eyjafirði en hún varð eftir í Danmörku
Enn má sjá rústir bæjarhúss Höyerhjónanna sem stóð við kísilhóinn rétt við Gunnuhver. Á sínum tíma mátti vel finna að jörð væri þarna ilvolg en núna er þarna allt að því suðuhiti og mjög varhugavert er að ganga um bæjarstæðið.
En að lokinni u.þ.b. klukkustundarlangri dvöl á Reykjanesinu sem er auðvitað allt of stutt, var haldið áfram. Mér finnst óneitanlega svolítið skrýtið að nálgast Grindavík frá þessu sjónarhorni. Sérstaklega þar sem maður kom árum saman akandi inn í bæinn hina hefðbundnu leið, þ.e. í suðurátt frá Reykjanesbrautinni og Stapanum, yfir úfið hraunið, fram hjá Bláa lóninu og svo auðvitað Þorbirninum.
Þegar ekið er inn í Staðarhverfið sem er vestan Grindavíkur, blasir sjáfarþorpið við þar sem fiskur var forðum sagður vera undir steini sem frægt varð og að margra mati gert heldur heldur minna úr menningu staðarins en efni stóðu til.
Um Stað og Staðarhverfi segir: "Kirkja var á Stað allt frá 13.öld til 1907. Í Staðarhverfi var konungsverslun á 18. öld, eða þangað til hún var flutt til Básenda. Árið 1703 var Staðarhverfið fjölmennast í Staðarsókn (Grindavík). Áttatíu árum seinna var þar orðið fámennast. Í dag er enginn íbúi skráður í Staðarhverfi en þar má sjá tóftir tveggja lögbýla og 26 hjáleiga frá mismunandi tímum."
"Hverfin í Grindavík eru þrjú; Þórkötlustaðarhverfi austast, Járngerðarstaðarhverfi í miðið og Staðarhverfi vestast."
Þetta myndarlega og upplýsandi söguskilti er á svokölluðum Holuhól sem er nokkuð vestan við kirkjugarð Grindvíkinga, en myndin er einmitt tekin frá nefndum hól. Saga staðarins er bæði löng og merkileg og mun meiri að vöxtum en margur heldur. Hún er svo sannarlega ekki bara fiskvinna alla virka daga og ball í Festi um helgar.
Íbúarnir eru orðnir 2.850, í bænum er glænýtt tjaldstæði, góð sundlaug og 18 holu golfvöllur.
Náttúran og landslagið er með sérstæðara móti, náttúruperlur á borð við Gunnuhver, Brimketil, Eldvörp, Kleifarvatn (já það tilheyrir Grindavík) og Krísuvíkurberg.
Í fjörunum eru fjölmörg gömul og forvitnileg skipsflök, gönguleiðir eru margar s.s. Prestastígur, Skógarfellsvegur, Reykjavegur og er auðvitað við hæfi að rölta upp á bæjarfjallið Þorbjörninn.
Það er illa gerlegt að ná þokkalegri mynd að bænum af sléttlendinu sem hann stendur á, nema þá að ganga á Þorbjörninn, en þangað lagði ég ekki leið mina að þessu sinni. Ég fékk því þessa loftmynd lánaða af vefnum visitgrindavik.is og vonast auðvitað til þess að komast upp með glæpinn.
"Grindavík hlaut kaupstaðarréttindi árið 1974. Í Landnámabók
segir að Molda-Gnúpur Hrólfsson og synir hans námu land í Grindavík. Þar segir svo:
,Þeir voru þá fulltíða synir Molda-Gnúps, Björn og Gnúpur, Þorsteinn hrugnir og
Þórður leggjaldi. Björn dreymdi um nótt, að bergbúi kæmi að honum og bauð að
Þegar einokunarverslun komst á árið 1602 var Grindavík ein af lögskipuðum verslunarhöfnum".
Tyrkjaránið var atburður í sögu Íslands sem átti sér stað árið 1627 þegar sjóræningjar rændu fólki í Grindavík, Vestmannaeyjum og á Austfjörðum og seldu í þrældóm í Barbaríinu sem svo var nefnt Nokkuð af fólkinu var síðar leyst út, snéri heim aftur og sagði sögu sína. Þekktust þeirra er Guðríður Símonardóttir (Tyrkja Gudda), sem síðar giftist Hallgrími Péturssyni og Halldór Hertekni sem síðar varð lögréttumaður og bjó á Hvaleyri við Hafnarfjörð.
Jan Janszoon van Haarlem var hollenskur sjóræningi sem gengið hafði í þjónustu Ottómanaveldisins og kallaðist þar oftast Murat Reis aðmíráll. Hann varð fyrsti landstjóri og stóraðmíráll borgríkisins Salé á strönd Marokkó, en höfnin þar var miðstöð sjóræningja sem herjuðu á nærliggjandi hafsvæði. Árið 1627 skipaði Janszoon dönskum þræl úr áhöfn sinni sem hafði komið til Íslands, að stýra skipi sínu þangað sem engum hafði áður dottið í hug að fremja sjórán. Annað skip, sem var frá Algeirsborg, lagði einnig af stað í ránsferð til Íslands en kom þangað mun síðar og er ekki ljóst hvort skipin höfðu eitthvert samflot í upphafi eða samráð um Íslandsferðina.
Ræningjarnir frá Salé undir forystu Janszoons komu til Grindavíkur 20. júní 1627. Danski kaupmaðurinn í Grindavík, Lauritz Bentson, sendi átta menn á báti til að athuga hvaða skip væri þarna á ferðinni og fóru þeir um borð en ræningjarnir tóku þá og fengu þá til að upplýsa að fátt væri um varnir í landi. Þeir náðu líka á sitt vald dönsku kaupskipi sem lá á höfninni. Murat Reis fór svo með þrjátíu menn í land og rændu þeir kaupmannsbúðina en kaupmanninum tókst að flýja ásamt öðrum dönskum mönnum nema þeim þremur sem verið höfðu um borð í danska skipinu.
Síðan rændu þeir bæina í víkinni, hirtu það sem þeim þótti fémætt en tóku 15 manns höndum og særðu tvo illa. Margir gátu þó flúið og falið sig í hrauninu. Ræningjarnir sigldu svo frá Grindavík en á útsiglingunni urðu þeir varir við danskt kaupskip sem var á leið til Vestfjarða. Þeim tókst að blekkja skipverja með því að draga upp falskt flagg og ná skipinu á sitt vald og höfðu þeir nú þrjú skip.
Ræningjarnir munu sjálfir hafa haft í huga að fara til Vestfjarða og ræna þar en hættu við það og ætluðu að ráðast að konungsmönnum á Bessastöðum en þar voru menn viðbúnir þeim og höfðu safnað liði og mannað fallbyssur. Eftir að eitt skipanna steytti á skeri utan við Bessastaði gáfust ræningjarnir upp á fyrirætlunum sínum og sigldu þ. 24. júní frá landinu og héldu heim á leið með fólkið, sem var svo selt var í ánauð í Salé. Guðrún Jónsdóttir húsfreyja á Járngerðarstöðum og Halldór bróðir hennar losnuðu fljótt úr haldi og komu aftur til Íslands 1628, en Helgi sonur Guðrúnar var keyptur laus 1636 og kom þá heim. Hinir níu Grindvíkingarnir sneru ekki aftur.
Suðurstrandarvegurinn nýi var formlega opnaður 21. júní 2012.
"Fornar göngu og reiðleiðir hafa legið austur og vestur með suðurströnd Reykjanesskagans allt frá fyrstu tíð búsetu hér á landi. Eftir að Skálholtsstóll eignaðist flestar jarðirnar á svæðinu varð það eitt mesta forðabúr biskupssetursins. Jafnvel svo mikilvægt að dæmi eru um að fella hafi þurft niður skólahald í Skálholtsskóla þegar aflabrestur varð á vertíðum í og við Grindavík. Af meitluðum götunum í berghelluna má ætla að skreiðarlestar-ferðirnar hafi verið margar á þessu tímabili.Við opnun nýja vegarins eru liðin nákvæmlega 80 ár frá því að fyrsti vagnvegurinn var lagður milli Grindavíkur og Krýsuvíkur. Það var Hlín Johnson, sem greiddi fyrir lagninguna sumarið 1932, en þá áttu hún og bóndi hennar, Einar Benediktsson, skáld, bæði Herdísarvík í Ölfushreppi og Stóra-Nýjabæ í Krýsuvíkurhreppi. Tilgangurinn var að búa til leið til að koma heyfeng síðarnefndu jarðarinnar í verð í Grindavík. Þessi vagnvegur var að mestu lagður ofan í gömlu reiðleiðina. Hann varð einnig, til að byrja með, farvegur fyrstu bílanna, sem þarna fóru á milli.Árin 1946 og '47 var síðan lagður akfær vegur milli Ölfus og Grindavíkur. Sá vegur hefur að mestu leyti legið í farvegi þess vegar er sá nýi leysir nú af hólmi, eða í 65 ár."
Engin viðdvöl var höfð við í Grindavík, enda tíminn knappur og ferðalagið sem ekki einu sinni átti að verða neitt, hafði tekið dágóðan tíma.
Áður en lagt var af stað áleiðis til Hafnarfjarðar um Krýsuvík og Suðurstrandarveg, var staldrað við í Járngerðarstaðahverfi og teknar nokkrar myndir. Auðvitað var svo ákveðið að fara þessa leið aftur og gefa sér þá góðan tíma til þess. Vonandi gengur það eftir.
08.10.2013 07:39
Þegar KS-ingarnir unnu Norðurlandsbikarinn
889. Á því herrans ári 1964 áttu Siglfirðingar firnasterkt,
framsækið og skotglatt knattspyrnulið. Það barðist hart á knattspyrnuvöllum um
gjörvalt norðurland um vorið og haustið og menn uppskáru sanngjörn laun erfiðis
sins.
Lið K.S. sem vann Norðurlandsmeistaratitilinn 1964
Aftari röð: Helgi Magg, Þröstur Stefánsson, Freyr
Sigurðs, Rögnvaldur Rögnvaldsson, Þorkell Hjörleifsson og Sævar Gestsson.
Fremri röð: Birgir Guðlaugs, Arnar Ólafsson, Ásgrímur
Ingólfsson, Bjarni Þorgeirsson og Sigurjón Erlendsson.
Siglfirðingar urðu sem sagt Norðurlandsmeistarar í knattspyrnu árið 1964. Í mörg ár og jafnvel áratugi á eftir minntust gamlir KS-ingar á þennan merka áfanga og urðu þá gjarnan fjarrænir á svipinn og fengu móðukennda glýju í augu. Úrslitaleikur keppninnar fór fram á Akureyri þar sem KS bar sigurorð af Þór með þremur mörkum gegn einu. Í hófi sem var haldið köppunum til heiðurs í nóvember sama ár, var þeim afhentur sjálfur bikarinn. Tómas Hallgrímsson formaður KS bauð gesti velkomna, og þá sérstaklega nokkra velunnara KS sem sýnt höfðu félaginu einstaka velvild og hjálpsemi hvenær sem til þeirra hafi verið leitað, ávallt tilbúnir til að lggja á sig ómælda vinnu og erfiði endurgjaldslaust og styrkt félagið og starfsemi þess á ýmsan hátt. Síðan snéri Tómas máli sínu til hinna nýbökuðu Norðurlandsmeistara. Kvað hann það öllum Siglfirðingum það mikið gleðiefni, að KS hafi borið sigur af hólmi í keppninni um Norðurlandsmeistaratitilinn og bætti við að hin góða frammistaða strákanna hefði lífgað upp á deyfð sumarsins á Siglufirði. Hann sagðist og vona að þeir létu hér ekki staðar numið, heldur héldu áfram á sigurbrautinni. Kvað Tómas hina ungu og efnilegu KS-inga eiga miklar þakkir skyldar fyrir glæsilega frammistöðu. Til að undirstrika orð sín um það hve almenna ánægju það hefði vakið að KS vann Norðurlandsmeistaratitilinn, las Tómas upp nokkur skeyti sem félaginu höfðu borist af þessu tilefni. Voru þau frá ýmsum aðilum bæði til sjós og lands, m.a. f rá skipstjóra og skipshöfn Hafliða SI-2 og knattspyrnufélaginu Leiftri Ólafsfirði.
Aage Schiöth formaður IBS afhendir Frey Sigurðssyni
fyrirliða K.S. Norðurlandsbikarinn.
Þegar Tómas hafði lokið máli sínu, tók til máls Aage Schiöth formaður Íþróttabandalags Siglufjarðar. Greindi hann fyrst frá störfum þings ÍSÍ sem hann hafði þá nýlega setið, og kvaðst þess fullviss að aldrei hefði verið meiri gróska í íþróttamálum þjóðarinnar en í dag. Sagði hann síðan, að sér hefði verið falið að afhenda Knattspyrnufélagi Siglufjarðar bikarinn fyrir Norðurlandsmeistaramótið og það væri aðalerindi hans í þetta hóf. Aage Schiöth sagði að það gleddi sig síst ekki minna en aðra Siglfirðinga að lesa lýsingarnar á úrslitaleiknum og framkomu KS-inganna á Akureyri sem birst hefðu í Akureyrarblöðunum. Hún hefði verið til fyrirmyndar í alla staði, drengileg og prúðmannleg, og hjá þeim hefði ríkt sannur íþróttaandi. Slíkt yljaði mönnum alltaf um hjartaræturnar. Að svo mæltu afhenti Schiöth fyrirliða liðsins Frey Sigurðssyni Norðurlandsmeistarabikarinn, sem hann sagði KS hafa unnið áður árið 1961. KA. vann hann árin 1962 og 1963, en KS aftur nú árið 1964. Eftir að allir viðstaddir höfðu gætt sér á glæsilegum tertum og brauði auk hressandi kaffi, sleit Tómas Hallgrímsson samkvæminu, þakkaði enn einu sinni Norðurlandsmeisturunum glæsilegan árangur og óskaði þeim alls góðs á komandi árum.
Yfirleitt mun hafa verið spilað um Norðurlandsmeistaratitilinn á vorin og haustin, en afhending bikarsins mun þó hafa verið óvenju seint á ferðinni árið 1964. Létu einhverjir að því liggja að þegar hefði verið búið að grafa nafn Þórs á hann, og úrslitin á Akureyri hefðu vægast sagt komið flatt upp á aðstandendur mótsins. Það hefði því tekið nokkurn tíma að "koma bikarnum í lag" eins og gamall KS-ingur komst svo skemmtilega að orði. Hvort eitthvert sannleikskorn leynist í þessari sögu eða jafnvel alls ekkert, er hún alla vega skemmtileg. Það gæti því átt við eins og svo oft áður, að ekki er endilega ástæða að láta sannleikann skemma góða sögu.
Árið áður eða 1963 var KS einnig í sviðsljósinu, því liðið vann sig í raun upp í 1. deild með því að vinna Þrótt frá Reykjavík. En þá dúkkaði upp vandamál sem kom aðstandendum siglfirska liðsins mjög á óvart. Einn af efnilegri knattspyrnumönnum á Siglufirði var á þessum tíma óumdeilanlega Sigurjón Erlendsson. En þar sem hann var undir aldri hafði Tómas samband við KSÍ og óskaði eftir undanþágu fyrir hann. Einn stjórnarmaður sendi skeyti norður og veitti umbeðna undanþágu. En Þróttarar voru ekki sáttir við að tapa þessum mikilvæga leik og kærðu hann. Málið var tekið fyrir á fundi syðra og leyfisveitingin var ógild. KS-ingar máttu því halda áfram að spila í annarri deild og Þróttur fór upp.
Sumir hafa sagt að KS hafi ekki verið betri á sjöunda áratugnum en þessi tvö ár. Aðrir vildu meina að þarna hefðu KS-ingarnir berið bestir á allri síðustu öld. Svo eru þeir til sem hafa þá skoðun að KS hafi ALDREI verið með betra og sterkara lið en árin 1963-64.
Mynd af KS-ingum birtist í fréttablaði Siglfirðingafélgasins. - Ljósmyndari ókunnur.
Mynd af Aage Schiöth og Frey Sigurðssyni birtist í Alþýðublaðinu. - Ljósmyndari ókunnur.
Greinin birtist áður á siglo.is í nóv. 2011
05.10.2013 22:41
Kveðja til Eyþórs vinar míns
888. Allt er í heiminum hverfult, það sem við þekkjum er
forgengilegt og ekkert okkar mun eiga samleið með eilífðinni. Vinur
Síðan það gerðist hef ég oft og mörgum sinnum byrjað á því að setja niður nokkur orð um hann Eyþór, bæði sitjandi við tölvuna og einnig í huganum. En allar þær hugleiðingarnar þar til nú, hafa alltaf endað með einhverjum vangaveltum um hvað sumt getur verið svo ótímabært, næstum því óeðlilegt og eiginlega óásættanlegt með öllu.
Ég kynntist Eyþóri fyrst haustið 1987 þegar Siglfirðingurinn og trommuleikarinn Hallvarður S. Óskarsson hringdi í mig og spurði hvort ég væri ekki til í að stofna með sér hljómsveit ásamt ágætum manni, mjög lunknum gítarleikara og fínum söngmanni með mikla reynslu í poppinu, sem væri á lausu um þessar mundir. Ég var auðvitað til í það og mætti á tilsettum tíma í bílskúrinn á fyrstu æfinguna hjá Hallvarði sem bjó þá á Langholtsveginum, og þar mætti einnig Eyþór Guðleifur Stefánsson með gítarinn og magnarann hvort í sinni hendinni. Það fór strax ágætlega á með okkur og æfingarnar gengu vel fyrir sig, við náðum vel saman í söng og leik og vorum fljótir að koma okkur upp prógrammi þar sem breiddin og fjölbreytnin var höfð að leiðarljósi. Fyrst sáu þeir Eyþór og Hallvarður um allan söng, en Eyþór hvatti mig til þess að verða mér úti um góðan míkrafón og auka þannig mína framlegð ef svo mætti segja. Ég hafði fram til þessa ekki verið mikið fyrir að þenja raddböndin en hann er líklega ábyrgur fyrir þeirri stefnubreytingu sem þarna varð og innan skamms vorum við farnir að syngja heilmikið þríraddað sem hljómaði hreint ekki svo bölvanlega þó ég segi sjálfur frá.
Fyrsta giggið var bókað mjög fljótlega eftir að æfingar hófust. Það voru að mig minnir Kiwanismenn í Vestmannaeyjum sem höfðu pantað hið splunkunýja tríó á haustfagnað sem þeir hugðust halda fyrsta laugardag í októbermánuði. Dagurinn rann upp, en þó hvorki bjartur né fagur eins og allir höfðu vonast eftir, heldur með beljandi stormi og grenjandi rigningu. Fellibylur sem hafði gert heilmikinn usla á austurströnd Bandarríkjanna fáeinum dögum áður, var nú kominn alla leið til Íslands og freistaði þess að nota síðustu krafta sína til að gera okkur Frónbúum lífið leitt áður en hann legði upp laupana og umbreyttist í djúpa lægð samkvæmt stöðlum og skilgreiningum veðurfræðinnar. Það tókst og við fórum hvergi þennan dag. Herjólfur komst ekki inn í höfnina í Þorlákshöfn vegna veðurhamsins og ölduhæðarinnar, og ekkert var flogið frá Reykjavíkurflugvelli þennan dag. Eða kannski næstum ekkert, því þá tröllasögu fengum við að heyra að Vestmannaeyingar hefðu fyrir satt að Hljómsveit Magnúsar Kjartanssonar hefði komið með flugvél til Eyja þennan sama dag og spilað í Höllinni. Þeir hefðu einfaldlega beðið á vellinum eftir hinu hárrétta andartaki og þegar auga fellibylsins fór yfir Reykjavík hófu þeir sig á loft í lítilli Cessna vél, fylgdu síðan auganu til Vestmannaeyja og lentu þar í logni áður en veðrið varð hreinlega kolbrjálað á ný. Það fylgdi auðvitað sögunni að þetta hefðum við líka átt að geta fyrst Magnús og co. gerðu það og gátu. Hugsanlega hefur þessi saga náð einhverju flugi úti í Eyjum, því það leið næstum því heill áratugur áður en nærveru okkar var næst óskað þar um slóðir.
En sagt er að fall sé fararheill og vissulega styður þessi saga þá kenningu nema hvað fallið entist óþarflega lengi að okkar mati, því enginn annar óskaði eftir þjónustu okkar þetta haustið. Það var því ekki fyrr en eftir áramótin og þegar árið 1988 var runnið upp, að hjólin fóru loksins að snúast, en þá gerðu þau það líka með stæl.
Eitt af því fyrsta sem við gerðum var að fara í myndatöku og fá Siglfirðinginn Birgir Ingimarsson sem hafði þá nýlega hafið sjálfstæðan rekstur, til að hanna og láta framleiða auglýsingaplakat sem er reyndar enn verið að nota við sérstök tilefni.
Hljómsveitarútgerðin fór vel af stað.
Á árum áður leit helst út fyrir að Eyþór yrði togarasjómaður, en örlögin hafa líklega ætlað honum annað hlutverk því hann fór að finna til í baki og kom því alkominn í land allmörgum árum á undan áætlun. Gítarinn varð hans næsta viðfangsefni og áhugamál, hann spilaði með ýmsum hljómsveitum og var mikið í lausamennsku í tónlistarbransanum næstu árin. Oft gengu hlutirnir þannig fyrir sig að einhver fékk upphringingu og fyrirspurn vegna þorrablóts eða einhvers slíks, og í framhaldi af því var oftar en ekki komið gigg án hljómsveitar. Síðan var hringt í einhverja sem voru líklegir til að geta mætt nánast óundirbúnir á ballið en samt kunnað allt, og þá var oft hringt í Eyþór því hann var einn af þessum eldkláru.
Árið 1977 gekk hann til liðs við Ragga Bjarna og Sumargleðina þar sem hann var einn af hornsteinunum í hart nær áratug. Þar var hann samtíða Siglfirðingnum Stefáni Jóhannssyni trommuleikara sem áður hafði verið í hinni geysivinsælu hljómsveit Dátum.
Það var á þeim árum sem Eyþór hóf fyrir alvöru námið í myndlistinni sem síðar átti síðan eftir að verða hans aðalstarf það sem eftir var. Ég rakst á eftirfarandi viðtal við hann úr DV. frá 16. október 1985.
Maður verdur að
standa sína plikt
Sá sem stendur pliktina svo staðfastlega heitir Eyþór Stefánsson og skylduræknin rekur hann milli Íslands og Noregs einu sinni í viku. Hann stundar listnám í Osló en flýgur hingaö um hverja helgi til þess aö taka þátt í Sumargleðinni á Broadway. Og sem gefur að skilja er Eyþór á þönum þann tíma sem hann eyðir á Íslandi en gaf sér þó tíma í örstutt spjall við Sviðljósið.
,,Það er engin spurning, maður verður að standa sína plikt. Eg er nú einu sinni úr þessum hópi og hef verið með Sumargleöinni síðastliðin átta ár, byrjaðí fyrst á Hótel Sögu hjá Ragga
Bjarna að spila á gítar haustið 77 og hef verið með honum síðan, bæði í hljómsveitinni og Sumargíeðinni.
"Guð
Það er ýmislegt skemmtilegt sem gerist í tengslum við Sumargleöina, hress hópur þar, og ég vil ómögulega missa af strákunum. Ýmislegt hefur verið á dagskránni, misvinsælt eins og alltaf verður en með betri atvikum var þegar ballettatriðið var sýnt. Ég held það hafi verið
uppi á Skaga. Þá áttu allir að vera ofsasætir og dansa ballett, klæddir eins og alvöruballerínur.
Þetta gekk allt upp og enginn vandi að finna búninga og skó
á mannskapinn. Svo þegar þeir stíga inn á sviðið er steinhljóð, enginn segir
neitt í salnum. Það hefði mátt heyra saumnál detta. Að lokum var þögnin rofin
með þungu andvarpi og stunu í konu einhvers staðar í salnum: "Gvuð
Að pota í myndlist
Eiginlega var það spilamennskan sem gerði mér fært að læra myndlist. Eg var að pota í þetta svona af og til með vinnunni en svo var spilamennskan á Sögu að kvöldi og því gat ég farið í
Myndlista- og handíðaskólann að deginum og útskrifaðist þaðan úr kennaradeild, tók eitt ár í málaradeildinni eftir það og fór svo til Noregs. Í Noregi er ég í listnámi í Osló í Statens Kunstakademi, og nota því bara helgarnar til þess að vera með strákunum í Sumargleðinni. Kem síðdegis á fimmtudag og fer snemma á sunnudagsmorgni. Eg verð bara á þessu flakki núna og gæti þess að þetta standi undir sér. Í raun og veru ef þetta er hugsað rökrétt þá er enginn tími sem fer í að fara á milli, þetta er bara eins og að fara héðan úr Reykjavík á Hvol að spila."
Eyþór nýkominn til Noregs
Það var á árunum meðan samstarf okkar stóð yfir að Eyþór hóf að vinna fyrir DV. Hann teiknaði það sem kallaðist "Myndgátan" fyrir hvern einasta dag sem blaðið kom út í meira en áratug. Hún naut mikilla vinsælda, enda oft stutt í húmorinn hjá okkar manni eins og sjá má á meðfylgjandi sýnishornum.
(Tvílyft timburhús).
(Skaftfellingar).
(Sjónarvottur ber vitni).
Er þetta ekki alveg dásamlegt?
Eftir að Hallvarður yfirgaf Vana Menn og fór að tromma með Lúdó sextett og Stefáni, spiluðum við Eyþór tveir saman um tíma, en síðar bættist söngkonan Þuríður Sigurðardóttir í hópinn en hún hafði áður starfað með Eyþóri á Sumargleðisárunum. Hún söng með okkur í sex ár með litlum hléum, en síðan urðum við Eyþór aftur tveir sem hentaði okkur ágætlega.
Ég, Þura og Eyþór að spila á oktoberfest á Vitanum í Sandgerði.
Eyþór var mjög vaxandi myndlistamaður á þessum tíma og kom víðar við eftir því sem árin liðu. Kannski var hann betur þekktur og hærra skrifaður af mörgum "kollegum" sínum og myndlistarelítunni erlendis en hérlendis.
Dæmi um það er viðtal sem birtist í DV. laugardaginn 14. júlí 2001.
Lesendur DV kannast flestir við myndagátuna sem birtist daglega á tilverusíðum blaðsins. Listamaðurinn Eyþór Stefánsson hefur í rúm tíu ár teiknað og birt rúmlega þrjú þúsund myndagátur. Eyþór starfar einnig sem "freelance" teiknari og teiknar skrýtlur, eins og hann kallar þær, fyrir danskt dagblað. Fyrir skömmu sigraði hann í alþjóðlegri teiknimyndasamkeppni sem haldin var á vegum Federation og European Cartoonist Organisations (FECO) sem haldin var í Tyrklandi.
Alþjóðleg viðurkenning
Eyþór segir að hann hafi verið með blýantinn á lofti og
eitthvað að krota frá því að hann man eftir sér. Þorsteinn Eggertsson, sem er í
forsvari fyrir FECO á íslandi, hafði samband við mig í vetur og bauð mér að
ganga í félagið. Í framhaldi af því sendi ég tvær teikningar í alþjóðlega
keppni fyrir kartúnista í
-
Og Morgunblaðið sagði líka frá 18. nóvember sama ár.
Íslenskur
skopmyndateiknari vinnur til verðlauna
Eyþór Stefánsson skopteiknari vann til Aydin Dogan-verðlauna
Alþjóðlegu samtaka skopmyndateiknara, FECO, á dögunum og fór athöfnin fram í
óperuhúsinu í
Ekki man ég eftir að hafa heyrt neitt af keppninni sem haldin var í Rúmeníu árið eftir, en árið þar á eftir var hann aftur kominn á verðlaunapall í Tyrklandi eins og lesa má í Morgunblaðinu 14 janúar 2003.
Vann önnur verðlaun í teiknisamkeppni
EYÞÓR Stefánsson myndlistarmaður hlaut á dögunum önnur verðlaun í stærstu alþjóðlegu teiknisamkeppni sem haldin er árlega á vegum stofnunar Aydin Dogan, stærstu menningar- og listastofnunar Tyrklands. Fékk Eyþór 5 þúsund dollara í verðlaun auk styttu.
"Ég hef fengið töluvert af tölvupósti með boðum um þátttöku í hinum ýmsu sýningum og keppnum út um allan heim," segir hann aðspurður um frekari ávinning af árangrinum.
Að þessu sinni kepptu 1.350 teiknarar frá 90 löndum og var mynd Tyrkjans Mamet Ates Gulcuqil valin besta myndin. Þess má geta að Eyþór keppti einnig árið 2001 og hlaut þá sérstök velgengnisverðlaun. Þema keppninnar að þessu sinni var hryðjuverk. Verðlaunamynd Eyþórs, túss og litblýsteikning, sýnir dreng frá mið-austurlöndum í nöturlegu umhverfi skoða blað með hríðskotabyssum í skini ljóss frá Coca-Cola-sjálfsala. Birtugjafinn, gossjálfsalinn, er að sögn Eyþórs tákn fyrir innihaldsrýra menningu.
Við Eyþór ræddum myndina og boðskap hennar eitt sinn og hann hafði þá nokkurn vegin eftirfarandi um hana að segja svona meiningarlega séð: "Vesturlensk stórfyrirtæki láta vissulega oft þriðja heims þjóðum í té svolitla ljóstýru, en þær þurfa vissulega að borga fyrir hana því hún er kannski einmitt tækið sem er notað til að arðræna þau. Vesturlönd láta líka ótrúlegustu harðstjóra hafa vopn og fleira ef það þjónar stundarhagsmunum þeirra, en sömu vopn eiga stundum til að snúast gegn þeim sem upphaflega lét þau í hendur "sinna manna".
Beggja vegna gaddavírsgirðingarinnar eru varðstöðvar. Öðru megin eru Ísraelar, en hinum megin Palstínumenn. En ýmislegt er öllum sameiginlegt og klósettrúllan gengur á milli. Allir erum við jú mannlegir inn við beinið...
Eyþór var mikill húmoristi, en glottaralegt gamanið og góðlátlegt grínið fer eins og rauður þráður í gegn um nánast öll hans verk.
Þegar ég eitt sinn stakk upp á að við létum
Nafnspjaldið
Stundum var þó skriplað á endimörkum hinnar rauðu markalínu sem helst má aldrei fara yfir sé vel og vandlega hugað að viðteknu almennu velsæmi. Eitt sinn vorum við pantaðir til að spila í kirkju nokkurri á höfuðborgarsvæðinu við brúðkaup. Meðan við biðum í pínulitlu og mjög gisnu herbergi eftir að röðin kæmi að okkur, uppi á bak við orgelið þar sem kirkjukórinn heldur sig alla jafna, fórum við að spjalla saman um hin verðandi brúðhjón. Eyþór leist þannig á að þetta myndi nú líklega ekki endast mjög lengi, en á eftir fylgdu nokkrir vafasamir brandarar og "strákasögur" sem tengdust þó ekki fyrri umræðunni á nokkurn hátt, en líklega hefur það nú verið gert.
Ég heyrði mjög ákveðna ræskingu undir fótum mér en hugsaði þó ekki mikið meira um það að sinni. Við héldum áfram að spjalla á svipuðum nótum og einhver ræskti sig aftur og nú mun hærra en áður. Mér fannst eins og einhver væri hreinlega staddur inni í herberginu hjá okkur, en svo var þó alveg örugglega ekki.
Í sama mund var dyrunum svipt upp og inn næstum því datt kirkjuvörðurinn, eins og eldkúla í framan og nánast hvæsti að okkur með samanbitnar tennur:
"Strákar, hvert og eitt einasta orð sem þið segið heyrist bæði skýrt og greinilega niður til kirkjugestanna sem sitja hér beint fyrir neðan."
Okkur dauðbrá auðvitað og við horfðum hvor á annan heldur betur skömmustulegir á svipinn. Ég leit niður og sá þá ofan á kollinn á kirkjugestum sem sátu fyrir neðan milli gisinna gólfborðanna.
Kirkjuvörðurinn fór og virtist ætla að skella panelklæddu Z-dyrunum á eftir sér en hætti við í miðju kafi og ég sá þær leggjast bæði ákveðið og mjög þétt af stöfum.
Þá stóð Eyþór upp, gekk út í horn og laut þar höfði rétt eins og hann hefði verið sendur út í skammarkrók. Síðan gægðist hann aulalega út undan sér í áttina til mín.
Ég var næstum því sprunginn af hlátri því þetta var meira en verulega fyndið. Ég mátti þó alls ekki hlægja því það hefði örugglega ekki bara heyrst niður, heldur út um alla kirkju sem mátti alls ekki gerast á þessari stundu. Mér tókst þó ekki að bæla niður alveg öll hljóð því eitthvað slapp út og hljómaði eins og dapurlegt ekkasog án þess þó að því fylgdu neinar afleiðingar, ákúrur eða athugasemdir, til allrar hamingju.
Mörgum árum síðar hitti ég einn kirkjugestanna sem tjáði mér að hjónabandið hefði endst í tæp tvö ár.
Myndin er tekin á Húsbílaballi á Arnarstapa vestur á Snæfellsnesi, árið 1991 eða 1992.
Í heil tíu ár samfleytt spiluðum við fyrir Húsbílafélagið. Einu sinni að vori við upphaf sumars og svo aftur að hausti, en það var haldin árshátíð og ferðasumrinu lokað.
Í einni vorferðinni fórum við Eyþór í sund. Ekki af því að okkur langaði svo mikið til þess að synda, heldur miklu meira vegna þess að það var löngu komin nótt og lauginni hafði því verið lokað fyrir einhverjum klukkutímum síðan, það þurfti að klifra yfir háa girðingu til þess að komast ofan í og við áttum ennþá nokkra ókláraða bauka. En fyrsta og síðast líklega vegna þess að allt sem er bannað er nefinlega miklu meira gaman en það sem má. (Ég man það ekki alveg).
Í Offiseraklúbbnum á Keflavíkurvelli m.a. fyrir deild Frímúrara innan Vallar og reyndar fleiri aðila á þeim slóðum. Eitt sinn stóð eitthvað meira til en venjulega og það var beðið um mynd af hljómsveitinni til að nota á auglýsingaplakat.
Hugmyndin um humrana var sprottin upp úr lífseigum innansveitarhúmor sem var mikið í gangi um tíma en ekki verður skýrður nánar hér. Eyþór sendi mynd af hljómsveitinni eins og um var beðið vegna fagnaðarins, en auðvitað í sinni útfærslu. Eitthvað skilst mér að móttakendurnir hafi orðið undrandi yfir sendingunni, en birtu hana samt neðst í hægra horninu eins og sjá má.
Árið 2005 tók myndlistin yfr tónlistina. Það var ekki lengur rými fyrir hvort tveggja. Eyþór sagðist eftir sautján ára samstarf ekki getatreysta sér til að sinna hvoru tveggja, - því miður. Ég skildi það vel og poppgúrúinn Axel Einarsson tók við af honum sem gítarleikari dúósins. Skömmu síðar var Axel staddur erlendis þegar kallað var eftir gítarleikaranum í gigg. Ég hringdi í Eyþór, en hann svaraði ekki fyrr en daginn eftir og þá með undarlega drafandi röddu.
"Ertu fullur" spurði ég, en hann sór og sárt við lagði að svo væri ekki, en hann hann hefði hins vegar fengið heilablóðfall.
Ég vissi ekki hvernig ég átti að bregðast við, en honum virtist næstum því skemmt yfir því hve ég varð vandræðalegur.
"Það er fúlt að komast ekki í giggið, en mér er haldið hérna nauðugum".
Ég átti engin svör.....
-
Í ár voru ákveðin vatnaskil hjá Vogaakademíunni, en svo kallar sig hópur myndlistanemenda sem numið hefur hjá Eyþóri í Vogunum og jafnan sett upp sýningu á verkum sínum á Ljósanótt undir handleiðslu kennara sins. Nú var skarð fyrir skildi því hans naut ekki lengur við og setti því akademían upp sýningu á verkum Eyþórs í minningu hans.
-
Eyþór Guðleifur Stefánsson var fæddur í Kaupmannahöfn 11. júní 1950 og lést þ. 8 júlí 2013.
Hann hvílir í Kálfatjarnarkirkjuugarði á Vatnsleysuströnd
Jarðarförin fór fram í kyrrþey seinni hluta júlímánaðar.
Ég votta eftirlifandi eiginkonu hans Guðrúnu Pétursdóttir mína dýpstu samúð svo og dætrunum þremur, þeim Sigríði, Anítu og Ástu
01.10.2013 06:43
Videóheimar loka
887. Og enn fækkar í videóbransanum. Í ársbyrjun lokaði hin gamalgróna myndbandaleiga Grensásvideó, og nú er komin röðin að Videóheimum sem Siglfirðingurinn Árdís Þórðardóttir (Dísa Þórðar í Hrímnir) hefur rekið með miklum myndarbrag í á þriðja áratug.
Breytt neysluhegðun hefur þrengt mjög að myndbandaleigunum á síðustu árum og þeim hefur þess vegna fækkað jafnt og þétt. Það er af sem áður var að þær voru næstum því jafn óteljandi og Breiðafjarðareyjarnar, vötnin á Arnarvatnsheiðinni eða hólarnir í Vatnsdalnum. Sú var tíðin að hvorki fleiri né færri en fimm aðilar leigðu út VHS spólur á Siglufirði á sama tíma svo nærtækt dæmi sé tekið og Bónusvideóleigurnar voru um eða yfir 30 talsins, þó sá sem þetta skrifar harmi endalok þeirrar keðju ekki svo mjög, frómt frá sagt.
Ég hitti Dísu á dögunum sem sagði mér að hafin væri rýmingarsala á myndefni leigunnar og hún gengi vonum framar. Um helmingurinn af lagernum væri þegar seldur og hún stefndi á að selja megnið af honum áður en hún skellti endanlega í lás.
Það er ekki laust við að maður spyrji sig hver loki næst.
- 1