Blog records: 2013 N/A Blog|Month_5
19.05.2013 09:57
Siglufjarðarskarð, einn apar eða tveir og uppákoma í Bauhaus
867 Ég á það til að kíkja annað veifið inn á bland.is og skoða hvað er helst að sjá og finna á þeim magnaða auglýsingavef. Núna síðast sá ég eftirfarandi auglýsingu sem vakti að sjálfsögðu athygli mina.
"Fallegt olíumálverk c.a. 100X80 cm. til sölu. Verð: 100.000 kr. Þeir sem hafa áhuga hafið samband í síma: 695-2134 eða hér á blandinu".
Alltaf flottur hann Ragnar Páll, og ekki fyrir nema hundraðþúsundkall, - ekki nokkur spurning.
Um nýliðin mánaðarmót þurfti ég að flytja talsvert magn af ýmis konar smádóti milli staða og notaði auðvitað til þess Micruna sem þekkt að því að vera stærri að innan en að utan. Þegar skottið og aftursætið var orðið fullt, átti ég eftir að koma fyrir litlum pappakassa og tuskuapanum sem sést á myndinni hér að ofan. Ég setti kassann í framsætið og lét apann ofan á, og því sat apinn nokkuð hátt í sætinu. Við svo búið lagði ég af stað.
Fátt bar til tíðinda til að byrja með, ég ók frá Hafnarfirði til Reykjavíkur, setti Bítladisk í spilarann og hækkaði vel í. Ég stðvaði við rautt ljós á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar, og þar sem þetta var snemma á sunnudagsmorgni var fátt folk á ferli. Þó sá ég út undan mér hvar hvítur skutbíll nálgaðist og stöðvaðist við hliðina á mér. Eftir skamma stund varð ég þess var að einhver hreyfing var inni í bílnum og ég leit upp. Í farþegasætinu fram í sat kona sem baðaði út höndunum og mér sýndis hún bókstaflega vera að ærast úr hlátri. Ég horfði undrandi á hana og gat með engu móti skilið hvað var svona fyndið, en hún tók þá bakföll og virtist vera við að ærast úr hlátri. Ég gat ekki betur séð en tárin væru farin að trítla niður kinnar hennar og hún sló út vinstri hendinni í bringu mannsins sem sat undir stýri og sagði eitthvað um leið og hún benti á mig. Hann teygði álkuna yfir til hennar og ég sá hvernig steinrunnið og fýlulegt andlit hans umhverfðist í einhvern óreglulega hringlaga flöt, sem sýndi væg krampaeinkenni og varð á stuttum tíma alveg eldrauður. Þau réru fram og aftur í sætum sínum, pötuði höndunum í átt til mín og skemmtu sér greinilega hið besta. Hvað ætli sé eiginlega að þessu fólki?
Þá mundi ég eftir fjárans apanum.
Það var líka fyrir nokkrum dögum síðan að manni nokkrum varð laus höndin í byggingarvöruversluninni Bauhaus. Ekki þó með þeim hætti að hann veittist að neinu öðru fólki sem þarna var statt, heldur réðist hann að brunaboða þeirrar gerðar sem er svo algeng á slíkum stöðum, þ.e. rofa sem er inni í litlum kassa með gleri yfir og er tengdur bjöllu. Maðurinn braut glerið og ýtti á rofann. Ekki var þó neinn eldur laus og ekki er vitað hvað manninum gekk til með háttalaginu. En þá fór ferli í gang sem erfiðara reyndist að stöðva en koma af stað. Bjallan glumdi og sjálfvirkt aðvörunarkerfi fór í gang og svolítið tölvuleg karlmannsrödd leiðbeindi viðskiptavinum samkvæmt forritaðri áætlun nokkurn vegin á eftirfarandi leið.
"Viðskiptavinir athugið; það er eldur laus í byggingunni. Skiljið eftir kerrurnar og fylgið leiðbeiningum starfsmanna ."
Fólk staldraði við, horfði forviða í kring um sig og hélt síðan áfram eins og ekkert hefði í skorist. Enginn sýndi þess merki að til stæði að hætta við verslunarleiðangurinn, hvað þá að fara eitthvað að flýta sér út.
Önnur rödd heyrðist þá í hátalarakerfinu sem var greinilega að reyna að ná sambandi við starfsmann.
"Logi er beðinn að svara í símann".
Fljótlega uppgötvaðist þó að enginn eldur var neins staðar laus, en illa gekk að stöðva tölvuröddina og hélt hún lengi áfram að aðvara viðskiptavini milli þess sem leitað var logandi ljósi að honum Loga sem virtist vera ákaflega seinn til svars.
- 1