Blog records: 2014 N/A Blog|Month_7

30.07.2014 06:54

Skoger til sölu



944. Ég rakst á þessa auglýsingu þegar ég brá á svolítið á netflakk sem er ekki svo ýkja óalgengt. Hún birtist í Siglfirðingi síðla sumars árið 1936 og það er ekki alveg laust við að ég hafa velt aðkomu Andrésar Hafliðasonar að málinu eitthvað fyrir mér, en eflaust kann hann Jón Andjes þó öll svör við því.


Skoger er búinn að vera huti af hinu Siglfirska landslagi svo lengi sem flestir sveitungar muna aftur í tímann. Þó hitti ég burtfluttan mann fyrir nokkru sem sagði mér frá minningum sínum um það þegar atburðurinn átti sér stað í frumbernskunni og logandi flakið rak fyrst út, en síðan inn fjörðinn aftur þar til það strandaði þar sem það situr enn sem fastast. Reyndar er það svo að ég vildi ógjarnan sjá þetta spor sögunnar hverfa að fullu þó það hljóti samt að gerast í fyllingu tímans.



Skoger nýbyggt við bryggju skipasmíðastöðvarinnar í Svelvik í Noregi, árið 1921.


"Samkvæmt upplýsingum frá norska sjóminjasafninu var Skoger tréskip, byggt árið 1921 í Svelvik í Noregi. Það var 48 metra langt, 10 metra breitt og það risti 4,5 metra. Vélin var 320 hestöfl. Fyrst var skipið gert út frá Drammen en síðan Brevik og loks Porsgrunn. Þessir bæir eru mjög sunnarlega í Noregi og alls ekki langt frá Osló.

Í maímánuði 1934 skemmdist skipið þegar eldur kom upp í því þar sem það var til viðgerðar í Porsgrunn. Skipið var þó gert upp og tekið fljótlega aftur í notkun. Í skýrslum um norska skipsskaða segir að upptök eldsins 1936 hafi verið neisti frá gufukatli sem hafi komist í gas. Sama heimild segir að skipstjórinn hafi fengið áminningu og sekt (40 norskar krónur) fyrir að hafa björgunarbúnað ekki í lagi".

Um þetta ritar Jónas Ragnarsson grein sem birtist á síðunni siglfirdingur.is og heitir "Skoger á Skútufjöru.

Og Jónas skrifar áfram.

"Árið 1936 var gott síldarár. Um miðjan ágúst hafði "aldrei áður verið veidd líkt því eins mikil síld til bræðslu," að sögn Morgunblaðsins. Fimmtudaginn 20. ágúst var líflegt um að litast á Siglufirði. Mörg íslensk síldveiðiskip lágu við bryggju og á annað hundrað erlend skip voru úti á firðinum. Erlendi veiðiflotinn hafði víst aldrei verið jafn stór. Skipin voru flest í höfn vegna norðaustan hvassviðris úti fyrir Norðurlandi, en það hafði staðið í nokkra daga.

Laust eftir klukkan átta að kvöldi þessa dags kom skyndilega upp eldur í einu norsku skipanna úti á höfninni. Það hét Skoger og var um 580 brúttótonn að stærð. Skipið hafði komið til Siglufjarðar tveimur dögum áður. Í því voru um 2000 tunnur af síld sem söltuð hafði verið um borð, 500 tómar síldartunnur og 500 tunnur af salti. Í olíugeymum skipsins voru 8 tonn af olíu (sumar heimildir nefna 30 rúmlestir) og auk þess voru í skipinu átta föt af smurolíu".

Slóðin að greininni er: http://www.siglfirdingur.is/v.asp?page=251&Article_ID=92



Þær eru ófáar myndirnar sem teknar hafa verið af bænum þar sem Skoger er ýmist í forgrunni eða gæðir myndflötinn lífi og eykur fjölbreytileika hans.



Snemma um vorið 1965 meðan ég var ennþá níu ára fór ég með móður minni og stjúpa, afa og ömmu í bíltúr yfir á Ás. Þá var þessi mynd tekin, en hún sýnir þáverandi ástand á Skoger og auk þess Lukku, hina mjög svo sérstöku trillu hans Magga á Ásnum. Einnig sést ágætlega í búnaðinn sem hann notaði til að draga hana upp í fjöruna þó það sé nú annað mál.



Þessi mynd er tekin tveimur árum síðar þegar ég var á ellefta ári og farinn að gera út á kajak að hætti Brekku og Suðurfrágutta. Ég man að ég réri yfir Leirurnar, hafði með mér myndavélina sem ég hafði þá nýlega eignast og smellti nokkrum nærmyndum að flakinu, en í þá daga var mun meira dýpi milli þess og lands.



Og þá alveg eins og nú var Skoger gamli tilvalinn "átylla" fyrir sjófuglana.

24.07.2014 21:40

Led Zeppelin


Led Zeppelin um 1970


943. Síðast liðið mánudagskvöld dólaði ég í rólegheitunum eftir Dalveginum, áleiðis að Smáralindinni og stefndi þaðan upp í Lindir. Allt með eins venjubundnum hætti og hugsast gat, eltandi GPS-ið eins og hlýðinn rakki. Það voru mjög fáir á ferli og óvenju mikið næði um borð. Ég var saddur og sæll, enda nýkominn úr matarhléinu sem við fáum á u.þ.b. miðri strætóvaktinni. Ég hækkaði aðfeins í útvarpinu, en nei, þetta gengur ekki, ég vil ekki hlusta á rapp.

Ég ýtti á takkann þar sem ég vissi að rás 2 var prógrammeruð og þar kvað við heldur betur annan tón og hann all góðan.

Þátturinn "Albúmið" var að fara í loftið, en í honum taka þeir félagarnir Jón Ólafsson (Bítlavinafélagsmaður) og Kristján Freyr Halldórsson (fyrrum trommari í hljómsveitinni Reykjavík) fyrir plötur sem hafa haft afgerandi áhrif á rokksöguna. Að þessu sinni var Led Zepprelin viðfangsefnið, og þá aðallega fjórða plata þeirrar sveitar, en á henni er m.a. ein mest spilaða rokkballaða allra tíma, Stairway to heaven.

 

Fyrstu kynnin af þessari mögnuðu hljómsveit rifjuðust upp fyrir mér og ég gat ekki annað en glott svolítið út í annað við þá upprifjun, en það var árið 1969 á Gaggóárunum þegar unglingahljómsveitin Hendrix var og hét. Annar gítarleikarinn í bandinu Þórhallur Ben, hafði orðið fyrir tónlistarlegri vitrun og í beinu framhaldi af því skipti hann gamla tónlistarsmekknum út fyrir annan nýjan sem var að hans mati mun betri og þroskaðri. Hann bauð til sölu gegn vægu verði allar gömlu "kúlutyggjópoppplöturnar" sínar og hóf markvisst að kaupa þróaðra rokk fyrir lengra komna og í framhaldinu hlustuðum við strákarnir á Cream, Woodstock og fleira gæðaefni eftir skóla heima hjá Þórhalli. En það fékkst ekki mikið af svona efni í Föndurbúðinni hjá honum Júlla Júll blessuðum svo að það þurfti oftast að fá það sent í póstkröfu að sunnan.

Í eitt skiptið þegar búið var að aura saman fyrir einum góðum vinylgrip til viðbótar þeim sem fyrir voru, var hringt í Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur og spurt um afurð meistara Jimi Hendix og sveitar hans Experience. Ég man að það voru talsverð vonbrigði þegar því var svarað til að allt efni með honum væri uppselt í bili en ný sending þó væntanleg innan tíðar. Sá sem svaraði benti hins vegar á nýútkomna plötu með lítt þekktri hljómsveit sem spáð var mikilli velgengni og mælti eindregið með henni. Það varð úr að hún var keypt en að mig minnir með talsverðum semingi þó. Þegar platan kom var hún leyst út og sett á fóninn. Við áttum fá orð yfir það sem fyrir eyru bar þegar fyrsta lag á síðu A byrjaði. "Good times, bad times" hvílíkur kraftur, hvílíkir galdramenn voru þarna á ferðinni. Svo komu þau eitt af öðru, "Babe I´m gonna leave you", "You shock me", "Dazed and Confused", "Your time is gonna come", "Communication breakdown" og öll hin.

Það var engu líkara en þarna væri verið að fremja einhverja illskiljanlega tónlistargjörninga sem ekki voru þessa heims, slíkir voru töfrarnir.



Fjórða LP plata Led Zeppelin bar engan titil og hvergi var á henni að finna nöfn flytjenda. 


En við þá sem eru áhugasamir fyrir góðri rokktónlist sem nú er löngu orðin klassísk, mæli ég með að þeir smelli á linkinn http://www.ruv.is/sarpurinn/albumid/22072014-0 og hlusti á þrælgóðan þátt um eðalsveitina Led Zeppelin.

20.07.2014 10:09

Rigning



942. Þegar ég fór á fætur í morgun, leit ég út um gluggann og sá að það rigndi ekki í augnablikinu sem verða eiginlega að teljast tíðindi á þessum síðustu og hundblautu tímum. Það var hins vegar allt rennandi blautt utandyra eftir nóttina sem eru reyndar alls engin tíðindi. Það rigndi  mikið í júní og þegar ég fór norður fyrstu vikuna í júlí hlýt ég að hafa tekið rigninguna með mér því þar var varla hundi út sigandi flesta þá daga sem ég staldraði við og aðsókn á Þjóðlagahátíðina varð með dræmara móti. Ég kenni rigningunni að mestu leyti um það því dagskráin var glæsileg að vanda. Síðan ég kom að norðan hefur rignt mismikið hvern einasta dag og útlit er fyrir að þannig verði það svo lengi sem veðurfræðingar geta séð í kortum sínum.

Mað sama áframhaldi held ég að rigningin fari fljótlega að þrengja sér inn í sálina og setjist þar síðan að um ókomna tíð.

 

Þetta minnir mig á að árið sem ég fæddist rigndi líka mikið og þá mest fyrir norðan. Reyndar alveg gríðarlega mikið er mér sagt. Sumarið 1955 hefur löngum verið kennt við hina geysimiklu úrkomu sem einkenndi það og gjarnan nefnt "rigningarsumarið mikla".

Sé gluggað í gömul blöð sést að mikillar átu varð vart fyrir norðurlandi og síldveiðin byrjaði fyrr um vorið en hún hafði gert nokkru sinni áður og var þá mjög góð. Það bjargaði líklega vertíðinni því seinni hluta sumarsins var veiðin mun dræmari, en í heildina varð árið harla gott. Alla vega miðað fyrir árin á undan sem höfðu einkennst að aflaleysi.

Þetta var árið sem Halldór Laxness fékk Nóbelinn, Ragnar Fjalar Lárusson varð sóknarprestur Siglfirðinga, Jói dívana tók við rekstri Eyrarbúðarinnar og bæjarstjórnin frestaði byggingu elliheimilis,

 

"Ef ánamaðkar hefðu söguvitund og héldu annála, hefði rigningarsumarið mikla árið 1955 orðið þeim víti til varnaðar".

var haft eftir háskólanemanum Magnúsi Sigurðssyni í Lesbók morgunblaðsins þ. 9. apríl 2005.

15.07.2014 05:15

Og þá komu menn saman til að gráta...



941. Ég rakst á þessa gömlu en sögulegu Polaroidmynd (hér að neðan) þegar ég var að gramsa í gömlu dóti eins og ég geri svo oft (en allt of sjaldan þó, því nóg er til). Ég horfði á hana um stund, gruflaði stutta stund í lágþokubökkum hugans og velti fyrir mér staðnum og stundinni, en eftir svolitla stund rann upp það ljós sem dugði til þess að varpa ljósi á þetta löngu liðna augnablik og ljúfsára minningarbrot.

Myndin var tekin þ. 9. okt. 1986, eða daginn sem Stöð 2 fór fyrst í loftið og Jón Óttar flutti hljóðlausa ávarpið sem frægt er

Þá hafði ég rekið myndbandaleiguna Videóbjörninn við Hringbraut 119 (við hliðina á JL húsinu) í u.þ.b. tvö ár ásamt þeim Guðnýju Reimarsdóttir, Sverri Tryggvasyni, Pétri Ólafssyni, Birgi Kristmundssyni og Trausta Reykdal, en hann er Siglfirðingur sem býr á Eskifrði og er sonur Varða málara sem bjó eitt sinn á Túngötu 10.

Þetta var dagurinn sem heimurinn hrundi. Ég hafði leigt út heilar fjórar spólur frá því snemma um morguninn og ástandið var ekkert ósvipað hjá öðrum í bransanum sem ég hafði haft spurnir af.

Við sem á myndinni erum, vorum allir góðir kunningjar og samherjar, komum saman að loknum þessum örlagaríka degi inni á lagernum hjá mér og bárum saman bækur okkar. Við vorum svartsýnir á framtíðina og töldum víst að nú væri videóævintýrið sem átti að gera okkur alla ríka endanlega úti. Það er ekkert ofsagt að þarna hafi heilmikill grátkór komið saman og framið einhvern drungalegan gjörning sem einkenndist af svartsýni og vantrú á framtíðina. Það var ekki mikið um jákvæða strauma í þetta skiptið og engar gamansögur voru sagðar áður en menn tíndust út í haustnóttina hver til sins heima. Tilfellið var að það tók bransann nokkuð langan tíma að jafna sig þannig að út á hann yrði gerandi og ekki komust allir yfir þann hjalla sem Jón Óttar hafi þarna reist að okkar mati illu heilli. Reyndar er það svo að ég hef ekki enn þann dag í dag gerst áskrifandi að Stöð 2 og mun aldrei gerast, en til hvers þurfti maður svo sem að gera það þega maður átti videóleigu?




Á myndinni eru frá vinstri talið: Ástmundur Gíslason (hálfbróðir Röggu Gísla söngkonu), Ísleifur Haraldsson (rak nokkrar leigur í Grindavík og á Reykjavíkursvæðinu ásamt Magnúsi mági sínum og eiginkonum), Jón Björgvins (okkar maður á siglo.is), Ólafur Guðmundsson og (hálfbróðir Ásmundar) og Árni Sigurjónsson (mágur þeirra Ásmundar og Ólafs), allt frábærir drengir.

Þeir Ástmundur, Ólafur og Árni ráku myndbandaleigurnar Videosport að Háleitisbraut, Ægissíðu og í Eddufelli ásamt myndbandaútgáfu og framleiðslufyrirtækinu Bergvík. Þeir Ástmundur og Árni eru nú fallnir frá, enÓlafur rekur enn Bergvík ásamt fjölskyldu sinni.

Ég gat ekki setið á mér að vera svo andstyggilegur að kroppa út andlitið á Nonna Björgvins og stækka það eins og sést á myndinni hér að ofan, því svipurinn á honum er svo innilega lýsandi dæmi um ástandið á okkur öllum sem þarna sátum. (Sorrý Nonni).

10.07.2014 17:10

Kominn heim



940. Þá er annar hluti sumarleyfisins að baki og honum var að sjálfsögðu eytt á heimaslóðum, en því miður í mikilli rigningu nær alla dagana. En skítt með það, þetta var alla vega miklu meira nærandi fyrir sálina og andann en einhver sólarlandaferð þar sem maður eyðir tímanum að mestu í að elta skuggann af næsta húsi og kæla sig niður með öllum tiltækum ráðum eins og ég gerði hérna um árið.

Það var árið 1983, eða kannski var það 1984 (man það ekki alveg upp á tíu) sem ég dvaldi í heila viku í svækjunni á Spáni og fannst alveg nóg um þrátt fyrir að senn færi að líða að lokum septembermánaðar. Dagurinn byrjaði gjarnan á því að ég rölti út á barinn gegnt hótelinu þar sem ég bjó og fékk mér einn svellkaldann af stærri gerðinni, gekk síðan upp að hótelblokkinni og settist niður í forsæluna skuggamegin við húshornið. tíminn leið og sólin sem var á ferðalagi rétt eins og ég, fetaði sig frá austri til verstur allt þar til hún gægðist fyrir hornið mér til mikils ama. Þá var fátt annað að gera en að endurnýja það sem til þurrðar var gengið í könnunni þótt stór væri, og rölta síðan aftur til baka. Ekki þó á sama stað, heldur fyrir þar næsta horn, vitandi að þangað myndu sólargeislarnir ekki ná að skína fyrr en degi var tekið að halla og það versta afstaðið. Þá var þó enn eitt horn fyrir að fara ef þörf var á áður en myrkrið hvolfdist yfir eins og tjald að lokinni leiksýningu. Já það er víst lítið um bjartar nætur þarna suður frá. Ég varð því þeirri stundu fegnastur þegar ég komst aftur heim og hef ekki lagt leið mína í suðurálfu síðan.

 

En það var alls ekki þetta sem ág ætlaði að nefna, heldur það að ég rakst á þessa gömlu úrklippu frá árinu 1949 þar sem bregður fyrir nöfnum manna sem munu lifa í minningunni. Alvörumenn sem voru sannir góðborgarar síns tíma og settu svo sannarlega svip sinn á bæjarbraginn og það svo um munaði.

  • 1

Name:

Leó R. Ólason

Location:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Today's page views: 1035
Today's unique visitors: 159
Yesterday's page views: 1391
Yesterday's unique visitors: 279
Total page views: 496412
Total unique visitors: 54777
Updated numbers: 26.12.2024 23:29:03
clockhere

Links