Blog records: 2011 N/A Blog|Month_8
31.08.2011 23:15
Létt skot í beinni
747. Í gær fékk ég létt skot í beinni í síðdegisútvarpinu á rás 2.
Forsaga málsins er sú að um páskana héldum við nokkrir burtfluttir Siglfirðingar ásamt söngkonunni Þuriði Sigurðardóttur tónleika í Bátahúsinu hér á Sigló. Þetta vatt upp á sig og tónleikarnir urðu fleiri. Síðast var uppselt í Salnum í Kópavogi, svo ákveðið var að endurtaka þá fljótlega eftir sumarfrí starfsfólks. Frá upphafi höfðum við gert upp samkvæmt hlutaskiptareglu, þar sem Þuríður hafði einn og hálfan hlut. Þegar á leið fór hún fram á hækkun og var með rúma tvo hluti sem litlar athugasemdir voru gerðar við, á síðasta uppgjöri. En þó að salan á næstu tónleika hafi farið mjög vel af stað og eflaust eigi eftir að seljast upp á þá líka, varð ég meira en lítið hissa þegar ég fékk tölvupóst þar sem söngkonan bauð okkur strákunum að spila undir hjá sér fyrir fjörutíuþúsundkall. Mér þótti þetta fullmikil lækkun úr níutíuþúsunum. Ég afþakkaði því boðið, sagði mig frá viðfangsefninu og bara ekkert frekar um það að segja af minni hálfu.
Ég hafði verið úti að múra í
kring um glugga og skrapp inn í síðdegiskaffi, akkúrat þegar hún var í viðtali
á rásinni. Ég heyrði hana þá segja að fyrri tónleikar yrðu toppaðir þar sem snillingurinn
Gunnar Gunnarsson píanó og hljómborðleikari væri genginn til liðs við hana. Hljómar
ekki illa, en ég kannaðist við klangið í röddinni og vissi auðvitað um leið hverjum sneiðin var ætluð. Gunnar er frábær tónlistarmaður og ég veit að tónleikarnir
verða örugglega hin besta skemmtun, en það er nú óþarfi að láta svona.
29.08.2011 18:57
Fugl dagsins
746. Ég man að fyrir margt löngu síðan var spiluð upptaka með hljóði einhverrar fuglategundar rétt fyrir
hádegisfréttir á gömlu Gufunni. Liðurinn var nefndur "Fugl dagsins", og ég veit
til þess að margir lögðu við eyru og reyndu að geta sér til um hvaða fugl væri nú
að láta í sér heyra áður en þulurinn upplýsti það. Oft varð "Fugl dagsins" líka
ágætur efniviður í alls konar einfeldningslegt grin og skemmtilega
skrumskælingu manna á meðal og margar fleygar línur uðu til.
Fugl dagsins er Furðufugl, Hermikráka, Gargönd eða Skúfönd eftir jólabaðið svo dæmi séu tekin. Einu sinni sá ég millifyrirsögnina "Fugl dagsins á einni erfiðustu holu vallarins" og svo er til "Fugl dagsins" - sagan endalausa eftir Michael Ende.
Þetta svona dúkkaði upp í
kollinum á mér þegar ég rakst á þessar tvær skemmtilegu fuglamyndir sem báðar
færu létt með að standa undir titlinum.
29.08.2011 00:29
Maggi Hauks og Ragnheiður á Sigló
745. Það kemur líklega einstaka sinnum fyrir flesta rétt eins og mig, að rekast á einhvern sem maður þekkir, á einhverjum mjög, mjög ólíklegum stað. Á sólarströnd, í jeppaferð uppi á hálendinu, sleðaferð á jökli, á fjölfarinni götu í erlendri stórborg, eða bara einhvers staðar. Við verðum alltaf jafn hissa en svona gerist þetta bara.
Ég var á rúntinum hérna á Siglufirði og datt í hug að taka létta lykkju yfir lóð S.R. af öllum stöðum og svæðum. En af því að ég veitti mikilli athygli forláta drossíu sem kom á móti mér, tók ég betur eftir ökumanninum en ég hefði ella gert og fannst hann koma mér eitthvað svo undarlega kunnuglega fyrir sjónir. Ég stoppaði og drossían stoppaði líka. Síðan bökkuðum við báðir og tókum tal saman. Þetta reyndist vera Magnús Hauksson, "gamall vídeókarl" frá Ísafirði og Ragnheiður kona hans. Hann tjáði mér að hann væri að koma til Siglufjarðar í annað skiptið, en hún í það allra fyrsta. Þau reka í dag "Tjöruhúsið" (byggt 1734) niðr'í "neðsta" (Neðstakaupstað) á Ísafirði, en það hefur þótt bjóða upp á meira spennandi fistkrétti en algengt er á veitingahúsum hér á Fróni. Hlýri, karfi, steinbítur, keila, o.fl. plús plokkari í hádeginu og allt á fáránlega sanngjörnu verði. Ég mæli með að þeir sem eiga leið um vestfirði kíki við í Tjöruhúsinu a.m.k. einu sinni áður en þeir yfirgefa "kjálkann", því leið okkar sem búum annars staðar á "skerinu" liggur því miður allt of sjaldan um þennan landshluta, og því óvitlaust að "grípa gæsina" eða öllu heldur hina frábæru fiskrétti meðan gefst.
P.S. Það er vissara að panta
og þá er síminn er 456-4419.
24.08.2011 22:01
Af hverju konur lifa lengur
744. Það er staðreynd sem ekki verður á móti mælt að
meðalaldur kvenna er hærri en karla. Ýmsir hafa orðið til að velta fyrir sér ástæðum
þess og margt hefur verið nefnt sem líklega ástæða. Hér er ein þeirra sett upp á
myndrænan hátt og líklega þarnast hún ekki flókinna skýringa.
21.08.2011 22:32
Róstursamur skilnaður Gunnars og Önnu
743. Mér barst nýverið til
eyrna að
Þar kemur fram að Stefnandi hafi fyrst komið til starfa hjá stefnda í apríl 2008 og þá fengið í laun kr. 1.500 krónur á klukkustund,
en þau laun hafi ekki verið gefin upp til skatts, sem hlýtur að teljast nokkuð sérstakur vitnisburður í dómskjölum.
Um áramótin 2008-2009 hafi verið hafist handa við undirbúning að opnun útibús Laugarásvídeós í Borgarnesi og var
stefnanda falið að sjá um rekstur þess. Og þrátt fyrir að Laugarásvidó
hafi gefið út launamiða fyrir árið 2010 þar sem heildarlaunin voru sögð 1.345.900
krónur, hafi stefnandi einungis verið greiddar 330.000 krónur fyrir störf sín á því ári.
Útibúinu hafi síðan verið lokað hinn 29. mars 2010 án þess að gengið hafi verið frá launum. Þá hafi stefnandi gert sér grein fyrir að hún fengi engar frekari greiðslur úr hendi stefnda. Hafi stefnda þá verið sent innheimtubréf þar sem krafist hafi verið greiðslu launa og uppgjörs. Því bréfi var svarað á þá leið að ekkert yrði gert fyrir stefnanda.
Í dómsorði segir að Laugarásvídeó ehf. skuli greiði stefnanda, Önnu Ólöfu Kristjánsdóttur, 630.917 krónur, ásamt dráttarvöxtum frá 3. maí 2010 til greiðsludags ásamt kr. 350.000 krónur í málskostnað.
Ja hérna hvað sumir halda sig alltaf við sama heygarðshornið, ég segi nú bara ekkert annað en það. Og ef einhver skyldi vilja kynna sér dóminn í heild sinni þá er slóðin þangað:
http://www.domstolar.is/domaleit/nanar/?ID=E201006835&Domur=2&type=1&Serial=1
19.08.2011 01:25
Gullkorn gáfumanns
742 Frá örófi alda hafa vitringar leitt okkur og leiðbeint upp úr djúpum dölum fávisku og ranghugsunar. Þessi speki kom upp í hugann þegar ég sá ummælin hér að ofan á síðu Ísfirðingsins Jóns Steinars http://prakkarinn.blog.is/ og gat í framhaldinu ekki setið á mér og stalst til að "cópý/peista" þau. Vonandi kemst ég svo upp með "glæpinn".
14.08.2011 13:11
Hestadagar á Siglufirði
741. Hestadögum lauk í dag, en þeir sóðu yfir dagana 12. til 14. ágúst. Síðast vou þeir haldnir hér á Siglufirði árið 2008 og verða næst að öllu óbreyttu aftur hér 2014. Að þeim standa hestamannafélögin Glæsi, Gnýfari og Svaði, og eru þeir því til skiptis á Siglufirði, Ólafsfirði og á Hofsósi. Á annað hundrað hestamenn komu ríðandi yfir Siglufjarðarskarð og rétt innan við hundraðið fór síðan ríðandi inn í Hólsdal vestan megin og út að austanverðu. Þá var efnt til leikja og kepptu menn þar m.a. í Dekkjarallý og Villimannareið. Ég fylgdist með mótinu og tók talsvert af myndum, en svolítið sýnishorn af afrakstrinum má sjá hér að neðan.
En eins og áður er sagt þá er þetta aðeins örlítill hluti myndanna. Eins og gengur heppnast ekki allar myndir eins vel og ítrustu vonir standa til, en ég henti litlu að þessu sinni og lét flest "vaða" inn á möppuna. Sumir geta einfaldlega aldrei verið kyrrir eitt andartak og myndavélin höndlar ekki alltaf með góðu móti miklar og stöðugar hreyfingar. Gott dæmi um slíkt er Margrét Alfreðsdóttir frá Lambanesreykjum. En u.þ.b. 400 myndir má finna á slóðinni http://leor.123.is/album/default.aspx?aid=212056
11.08.2011 23:00
Pallahnjúkur
11.08.2011 00:01
Rednex, fjallahugleiðingar og krúttlegir hlaupaskór
739. Fyrir þá sem eru fjarri "góðu
gamni" eða öllu heldur góðu veðri, skal upplýst að hér á Sigló var einmuna veðurblíða
í dag. Ekki sást svo mikið sem fjaðurskýtutla á himni, sólin gat því hellt
geislum sínum yfir síldarbæinn alveg óhindrað og gerði það líka alveg svikalaust.
Hitamælirinn á Sparisjóðnum sýndi 22 stig eftir hádegið, en var komin ofan í 19
stig þegar leið að kvöldmatartíma.
Ég horfði mikið til
fjallanna í dag og ekki síst Pallahnjúks, Dísarinnar og Móskógarhnjúks, en mig
hefur lengi langað til að ganga frá Hestskarði til Hólsskarðs.
Margir hafa þó latt mig til
þeirrar ferðar og sagt mér að ekkert vit sé í að klífa Pallahnjúk frá
Hestskarði. Ég veit svo sem allt um það því ég hef staðið í skarðinu og horft
upp eftir fjallsegginni. Samt langar mig til að þó ekki sé nema að skoða málið
aðeins áður en ég tek undir slíkar skoðanir.
Það sem varð þó til þess að
ekkert var gert í neinum slíkum málum, var að ég hafði meira en nóg að sýsla
við að færa til og endurbyggja "gömlu" tröppurnar við Suðurgötu 46. Reyndar eru
þær ekki svo mjög gamlar, en fyrri hönnuður og samsetningarmaður þeirra viðurkenndi
nýlega fyrir mér að allmargir "baukar" hefðu verið hafðir við hönd við gerð
þeirra á sínum tíma. Það sést líka ágætlega ef menn renna "smiðauganu" eftir kjálkunum. Áður var þó búið að "nýsmíða" efsta hlutann og færa miðhlutann þó nokkuð marga sentimetra til suðurs. Í framhaldinu verður svo væntanlega ráðist í gerð handriðs.
En svo má ég ekki láta hjá líða að minnast á þessa
geggjuðu "hlaupaskó" sem ég sá í dag á fótum upprennandi íþróttakempu. Þessi útfærsla
fékkst alla vega ekki í skóbúðinni hjá Óla Tóra hér í denn, svo mikið veit ég.
09.08.2011 21:20
Aftur í Salinn
738. Sumri er greinilega
tekið að halla, dagurinn hefur verið að styttast og nóttin lengst að sama
skapi og án þess að margur hafi tekið allt of mikið eftir því. Skuggarnir eru
byrjaðir að teygja sig yfir höf og lönd, og svo mætti lengi halda áfram. Hér
norður á Siglufirði hefur ferðafólki fækkað ört á tjaldstæðinu síðustu dagana,
en þar hefur oft verið ansi þéttbýlt í sumar. Það styttist líka í að skólar
opni dyr sínar fyrir væntanlegum nemendum á komandi haustönn og um svipað leyti breytist allur taktur í lífsmynstri okkar. Einum kaflanum er að ljúka rétt einu sinni enn,
annar að hefjast og vetrardagskráin byrjuð að mótast.
Við (Vanir Menn) ásamt söngkonunni Þuríði Sigurðardóttur stóðum fyrir tónleikum í
Salnum í Kópavogi seint s.l. júnímánuð. Þá fannst okkur við vera mjög bjartsýn
að leggja út í þetta ævintýri, en það seldist upp á þá nánast áður en
við vorum byrjaðir að auglýsa okkur til óblandinnar ánægju. Það var því ákveðið að endurtaka leikinn, en þar
sem starfsmenn Salarins voru u.þ.b. að fara í sumarfrí, var ekki um annað að
ræða en að hinkra til haustsins. Dagurinn 29. sept. var geirnegldur í bak og
fyrir og síðan héldu allir út í sumarið sælir og glaðir.
Það má segja að okkur hafi
næstum því brugðið við þegar við sáum að áður áformuð markaðssetning var komin í
fullan gang, þótt sú tímasetning hafi auðvitað legið fyrir í allt sumar. Það var engu líkara
en bæði klukkan og dagatalið hefðu farið mun hraðar yfir, en hin líðandi stund
eins og við upplifðum hana. Og óhætt að segja að hér hafi verið tjaldað til plakati af stærri gerðinni.
09.08.2011 03:00
Einn á palli
737. Allt er nú einu sinni fyrst og mér finnst þetta eiginlega svolítið klikkað. Þó ég hafi oftsinnis staulast á pall og það nokkuð reglulega í meira en 40 ár, hef ég aldrei verið ALEINN á plakati áður.
03.08.2011 12:56
Á Síldarævintýri 2011
Það var þéttbýlt á flestöllun grænum svæðum í bænum og þó sést ekki nema hluti af tjaldsvæðunum. Það vakti þó athygli mína að venjuleg tjöld var því sem næst hægt að telja á tám og fingrum.
736. Margir trúbadorar og
hljómsveitir stigu á pall á nýliðnu Síldarævintýri, en eftir að hafa farið yfir
fréttaflutning á Sksiglo.is, siglfirðingur.is og 625.is, má sjá að tónlistarfólk
hefur höfðað mismikið til umsjónarmanna umræddra fréttavefja. Mig langar því að
minnast örlítið á þá sem fengu þar enga umfjöllun eða sáust hvergi á þeim fjölmörgu
myndum sem birtar hafa verið síðustu daga. Varla verður þó plássleysi kennt um,
því ágætar myndir var að finna t.d. af Hólshyrnunni, ein virkilega falleg sólarlagsmynd,
bátur að sigla út fjörðinn, bílar á leið um Héðinsfjarðargöng auk mynda þar sem
gangnamunnar eru í forgrunni, mávur sem horfir svolítið undirfurðulega á íslenska
fánann blakta við hún, nokkrar fallegar bæjarmyndir í talsverðum fjarska, nokkrum
vel til höfðum húsum sem hefðu getað verið teknar hvenær sem er og hafa takmarkaða
skírskotun til þessarar bæjarhátíðar og svo mæti lengi telja. Allt saman
flottar og vel teknar myndir, en tengingin við iðandi mannlífið í bænum er
vandséð.
Edda Heiðrún Backman hefði að ósekju mátt fá meiri umfjöllun, en hún hélt málverkasýningu í Veiðarfæraverslun Sig. Fanndal sem nú heitir Svarta Krían. Því var hvíslað að mér að skömmu áður en sýningunni lauk, hafi hún verið búin að selja allar myndirnar nema tvær, en það skal ítrekað að það eru óstaðfestar fréttir.
Hin stórskemmtilega hljómsveit
Papar, steig á sviðið við Ráðhústorg og lék síðan fyrir dansi á Allanum. Tónlist
þeirra með sínu Keltneska yfirbragði hefur löngum farið vel í landann, enda
ekkert skrýtið þar sem genasamsetning okkar Íslendinga er að stórum hluta af
þeim stofni. Það er því ekkert undarlegt þó okkur renni blóðið til taktsins og
tónlistarinnar sem fær jafnvel þunglamalegustu fýlupúka til að brosa út í annað
og dilla sér.
Ég heyrði á tal fólks sem fannst greinilega mikið til um hvað miðbærinn er afgerandi á Siglufirði, vegalengdir stuttar milli Ráðhústorgs, tjaldsvæðis, allrar verslunar og þjónustu að ógleymdri smábátahöfninni og Rauðkusvæðinu. Þetta er auðvitað alveg einstakur bær.
Þegar ég heyrði að
Fjallabræður ættu að troða upp á föstudagskvöldinu, datt mér strax í hug Óli
Palli og félagar hans sem starfað hafa undir því nafni á Reykjavíkursvæðinu.
Þeir munu hins vegar ekki hafa verið á faraldsfæti um helgina, heldur mætti til
leiks samnefnd hljómsveit héðan úr Fjallabyggð sem var sett saman að mér skilst
sérstaklega fyrir þetta kvöld. Og ég komst reyndar að því að það voru fleiri
sem héldu það sama og ég. Mér datt í hug að vel væri hægt að aðgreina þessa hópa
tónlistarmanna með því að nefna þá Fjallabræður nyrðri og Fjallabræður syðri, líkt
og Fjallabaksleið nyrðri og syðri sem var nokkuð í umræðunni þegar hljóp í Múlakvísl.
Það munu hafa verið þeir Gísli Rúnar, Maggi Ólafs, Rúnar Sveins og Ási Tona sem
mynduðu þetta band. Harðsnúinn hópur reynslubolta sem eru flestir tónlistarvegir
færir. Því miður var ég alveg upptekinn annars staðar og náði því hvorki að
heyra og sjá Papana né Fjallabræður (nyrðri) og á því enga mynd af þessum
megaböndum.
Cargo á Ráðhústorgi. Upp kom sú kómíska og í raun óvitlausa hugmynd að nefna hljómsveitina Cargolux að þessu sinni. Rökun voru þau að þetta væri eins konar deluxe útgáfa af þeirri gömlu vegna fjölgunarinnar.
Hljómsveitin Cargo "var uppi" á árunum 1986-1989 og átti alveg frábært "kombakk" um helgina. Á sínum tíma voru meðlimir hennar lengst af þeir Steini Sveins, Jói Abbýar, Össi Gunnu, Jón Erlings að ógleymdum Leifa Elíasar. Stjarna þeirra reis e.t.v. hæst þegar þeir unnu hljómsveitarkeppni á Skeljavíkurhátíð sem Bítlavinafélagið stóð fyrir. Það var árið 1988 og þeir fluttu þar fjögur frumsamin lög og fengu að launum hljóðverstíma í hljóðveri þeirra Bítlavinafélagsmanna. Þar sem þeir Jón og Leifi áttu ekki heimangengt um helgina voru kallaðir til afleysingamenn sem voru ekki af verri endanum. Það voru þeir Þröstur Þórhallsson gítarleikari úr Saga Class og Kiddi (kennari) Kristjáns Óla. Auk þeirra bættist við söngkonan Sesselja Magnúsdóttir við, en hún hefur sungið með hljómsveitum á borð við Áttavillt og Saga Class. Cargo kom fram á föstudagskvöldið og þá hlustaði ég alveg agndofa á þetta þétta og skemmtilega band, en svo voru þeir aðalhljómsveitin á laugardagskvöldinu á Ráðhústorgi.
Vanir menn á Ráðhústorgi
Við "strákarnir" í Vönum
Mönnum spiluðum fjórum sinnum á þeim þremur dögum sem sjálft ævintýrið stóð
yfir. Fyrst á litla pallinum á Rauðkutorgi föstudagskvöldið, en það hafði þá
hafði fengið yfir sig myndarlegt "parruk" til varnar lítilsháttar úrkomu, síðan
á stóra sviðinu við Ráðhústorg og aftur á Rauðkutorgi á laugardagskvöldinu. Á
þeim ágæta bæ töldu menn að þar hafi verið samankomið hátt í þúsund manns á öllu
svæðinu. Ekki vil ég þó fullyrða neitt um það en þegar ég leit upp úr texta og
nótnabókinni, sá ég að sundið milli Hannes Boy og Rauðku var sneysafullt stafna
á milli, örtröð var fyrir framan pallinn hjá okkur, innan dyra var Kaffi Rauðka
greinilega full af fólki og talsvert mannhaf var til beggja hliða frá okkur séð.
Þá heiðraði Baldvin Júlíusson fyrrum söngvari hinna landsfrægu Gauta, okkur með
nærveru sinni og söng nokkur lög sem hljómuðu gjarnan á Gautaböllunum fyrir
hartnær hálfri öld.
Vanir Menn á Kaffi Rauðku
Á sunnudagskvöldinu hafði útihitinn
lækkað svolítið og við vorum fluttir inn í stóra salinn á Rauðku. Þar myndaðist
notaleg stemming þegar leið á kvöldið, nokkur ágætlega fótmenntuð pör nýttu sér
"frímerkið" fyrir framan sviðið og fengu sér snúning.
- 1