18.11.2007 23:55

Blíðan í dag.



417. Þegar ég fór af stað í dag áleiðis til Reykjavíkur í því skyni að fara að smíða, saga, mæla, skrúfa og negla, gat það með engu móti farið fram hjá mér frekar en nokkrum öðrum óblindum manni að veðrið var hreint út sagt aldeilis frábært. Það var því lögð svolítil (reyndar þónokkuð stór) lykkja á leið þess sem þetta ritar og myndavélin sem alltaf er innan seilingar notuð alveg þar til meldingin "battery low" hamlaði frekari skotum.



Það getur verið gaman að rölta yfir göngubrúna sem tengir saman Áslandið og Hvammana, en undir henni liðast umferðin eftir Reykjanesbrautinni sem verið er að tvöfalda að ósk Rúnna Júll (og kannski einhverra fleiri.)



Og ofan af Áslandinu og niður á Vellina liggur Ásbrautin og undir hana er verulega mikið skreyttur göngustígur eins og sjá má.



Af Ásbrautinni fékk ég svo að fylgjast með sólinni lækka sig yfir Reykjanesinu því degi var tekið að halla.



En leiðin lá til Reykjavíkur og það var við Perluna að mér datt í hug að leggja lykkju númer tvö á leið mína. Þarna var margt feðamanna og ég sá að svolítill hópur stefndi niður slakkann að austanverðri Öskjuhlíðinni og þeim sem þar fóru virtist vera talsvert mikið niðri fyrir. Ég fylgdi því fólkinu eftir ef þarna væri eitthvað sniðugt að sjá og svo reyndist vera.



Spölkorni fyrir neðan geymana sá ég að það bullaði bæði og rauk upp úr jörðinni. Ég mundi samt ekki eftir að ég hefði heyrt af að þarna væri hver, en það leyndi sér ekki að eitthvað var þarna sem dró að sér athyglina.



En það var ekki um að villast.



Og ég varð því að kanna málið frekar.



Þarna rétt hjá var svo þessar upplýsingar að finna, og fyrir þá sem ekki sjá smáa letrið uppi í vinstra horninu, má þar lesa eftirfarandi.

STRÓKUR.
Til skemmtunar og fræðslu um virkni goshvera hefur Hitaveita Reykjavíkur látið útbúa goshverinn Strók sem líkir eftir hegðun goshvera. Boruð var 30 metra djúp hola og í hana sett stálrör með inntaki fyrir vatnsleiðslu. Um leiðsluna er leitt 125 stiga heitt jarðhitavatn. Efst í stálrörinu er komið fyrir þrengingu, þ.e. mjórra röri sem skipta má um. Sá búnaður ræður hæð gossins. Steinlögð skál er umhverfis opið.



Og hægur vindur hefur staðið frá norðaustri til suðvesturs og það hefur líka verið lítilsháttar frost. Gufan sem eðli málsins samkvæmt þéttist og breytist í vatn við kuldann, hefur sest á greinar trjánna og gert þau mjög jólaleg svona rétt upp úr miðjum nóvember. En þetta sjónarspil er hvað sem hver segir ekki bara eins og yfirfært úr einhverju ævintýri, heldur líka eins og það sé sérhannað fyrir ferðamenn og myndavélar sem nóg var af á staðnum. En myndirnar sem á eftir fara eru hins vegar eins og svolítil endurómun hver af annarri og mismunandi tilbrigði við sama stefið aftur og aftur. Fleiri orð eru því óþörf að mínu mati.















Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 149
Gestir í dag: 30
Flettingar í gær: 403
Gestir í gær: 101
Samtals flettingar: 318176
Samtals gestir: 34911
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 11:35:41
clockhere

Tenglar

Eldra efni