Færslur: 2011 Janúar

14.01.2011 04:07

Vitlaust veður í Hafnarfirði - blíða í Reykjavík



691. Það var undrlegt veðurfarið
á suðvesturhorninu í gær. Ég hafði áformað að leggja af stað til Siglufjarðar seinni partinn, því veðurspáin gaf til kynna að veðrið lægði þá í nokkra klukkutíma en versnaði síðan aftur um miðnættið. Ég sat við tölvu framan eftir deginum og hafði meira en nóg að gera við bókhald og margt fleira misjafnlega skemmtilegt, en þegar leið að fyrirhuguðum brottfarartíma fannst mér ekki vitlausari hugmynd en hver önnur að líta aðeins til veðurs. Ég var bæði orðinn stirður eftir langa setu og voru auðvitað einnig þessar praktíski ástæður eðli málsins samkvæmt. Mér dauðbrá þegar ég svipti gardínunum frá og starði steinhissa á glerið í glugganum. Hafði það verið málað hvítt utanfrá eða var "útsýnið" sem var nákvæmlega ekkert, ein af þessum skrýtnu afleiðingum hnattrænnar hlýnunar sem kemur stundum fram með hinum undarlegasta hætti á hinum ólíklegustu stöðum jarðarkringlunnar nú orðið. Það hafði myndast þykkur snjófleki utan á allar rúður hússins austanmegin og það á svo skömmum tíma að undrum sætti. Ég settist aftur við tölvuna og skoðaði spána vrá Veðurstofu Íslands, en á mínu svæði var enga breytingu að sjá. Lítils háttar snjókoma og eitthvað í kring um 10 metrar á sekúndu. Það sem ég sá passaði reyndar alls ekki við það, en ég þurfti hvað sem öllu leið að skreppa til Reykjavíkur sem ég og gerði.

 

Reykjavíkurtúrinn varð vægast sagt undarlegur bíltúr svo ekki sé meira sagt. Þegar ég beygði hjá Kaplakrika inn á Reykjanesbrautina (heitir vegurinn annars það ekki?) fann ég strax að þar var veruleg hálka.  Skömmu síðar sá ég fyrstu árekstrana og einnig bílana sem húktu blautir og yfirgefnir í köntunum. Skyggni var slæmt og meðalhraði þeirra sem voru á ferðinni vart mikið yfir 50 km. Eitthvað rofaði þó til þegar fór að styttast í Kópavoginn og þegar Smáralindin var að baki, sást ekki eitt einasta snjókorn á jörðu og vegir voru þurrir.

 

Ég sinnti erindi mínu í Reykjavík og snéri til baka, fullviss um að élið hefði siglt sína leið og væri núna komið eitthvert langt út á ballarhaf. Það var nú öðru nær því sagan endurtók sig, nema að núna gerðust hlutirnir í öfugri röð miðað við það sem áður var.  Ég keyrði úr þurrviðrinu og inn í hraglandann sem þéttist jafnt og þétt eftir því sem ég nálgaðist Hafnarfjörðinn. Ég varð vitni að fjögurra bíla árekstri gegnt Ikea og bílunum í vegköntunum hafði fjölgað frá því skömmu áður. Þegar ég kom að ljósunum við Fjarðarhraun, sá ég að snjómoksturstæki voru farin að moka götur. Þetta var alveg ótrúlegt og svona skörp veðraskil hef ég aldrei séð áður. Þegar ég kom heim frétti ég af 10 bíla árekstri sem hafði orðið á mótum Selvogsgötu og Suðurgötu meðan ég "skrapp í bæinn."

12.01.2011 02:22

Hljómplata og fleira gott stöff



690. Hljómplata
er stór, hringlaga plata
sem inniheldur lög sem spilast ef hún er sett á
plötuspilara. Þá er nál tyllt á plötuna og snúist húnt, þá spilast eitthvert lagið. Plötur voru mjög algengar á 20 öldinni. Platan var fundin upp um miðbik 19. aldar og var notuð í meira en hundrað ár á eftir þangað til að kassettan kom til sögunnar.
Ég datt um þetta óborganlega gullkorn á Wikipedia og bara verð að koma boðskapnum áfram svo fleiri megi njóta...

Og ég rakst líka á mjög kunnuglegt lag á youtube sem er bæði samið og sungið af Siglfirskum rafvirkja sem er alltaf í stuði...
Slóðin þangað er: http://www.youtube.com/user/icecream3036

09.01.2011 08:51

Of feitur fyrir Stones - of dökk fyrir mig



689. Á dögunum rak ég augun í undarlega frétt
á RUV sem minnti mig óþyrmilega mikið á gamalt tilsvar manns sem ég þekkti eitt sinn, en er núna hættur að þekkja. Það sem er sameiginlegt með báðum tilfellum, er að kröfur um útlit fólks eru hærra og meira metnar en innræti þess og/eða hæfileikar.
Hjá Stónsurunum virðist gamla sagun um hana Evu sem faldi skítugu börnin sín ganga í endurnýjun lífdaga í svolítið uppfærðri mynd. Þeir Keith Richards og Mick Jagger sýna sem vantar aðeins tvö ár í sjötugt, virðast vera með smá móra yfir gömlum ímyndarvanda og síðbúnum gelgjutöktum fortíðarinnar. Bill Wyman sem er reyndar orðinn 73 ára virðist einnig finna til svipaðra  kennda, því hann ætlar að spila með félögunum sem hann yfirgaf fyrir hartnær tveimur áratugum sem er þvert á fyrri yfirlýsingar. Fyrirsögnin fréttarinnar var "Bill Wyman til liðs við Stones" og ég varð auðvitað forvitinn um leið, en síðan kom áframhaldið: "Breski bassagítarleikarinn Bill Wyman hyggst taka höndum saman við gamla félaga sína í The Rolling Stones og hljóðrita lag í minningu eins af stofnendum hljómsveitarinnar, Ians Stewarts píanóleikara. Lagið sem varð fyrir valinu er "Watching The River Flow" eftir Bob Dylan.

Frá þessu er greint á vef breska músíktímaritsins NME. Það verður gefið út síðar á árinu á minningaplötunni Boogie For Stu. Bill Wyman sagði skilið við The Rolling Stones árið 1992. Þá hafði hljómsveitin starfað saman í þrjá áratugi. Ian Stewart fékk hjartaáfall og lést árið 1985. Hann var alla tíð viðloðandi The Rolling Stones, lék á hljómplötum hennar og sinnti ýmsum verkefnum, þótt hann teldist ekki til fullgildra liðsmanna nema í blábyrjuninni. Hann var látinn hætta á sínum tíma vegna þess að hann þótti full gildvaxinn."


 

Einn af vinnufélögum mínum frá liðinni tíð (sem er með óvenju hátt og gáfulegt enni) var nýlega fráskilinn fyrir u.þ.b. 20 árum og fór eins og svo margir þjáningarbræður hans í "kynlífsferð" til Thailands. Hann sem hafði átt mjög erfitt uppdráttar á hinum íslenska kjötmarkaði eftirskilnaðaráranna, var mjög upprifinn af hinum óendanlegu og óþrjótandi tækifærum í þessu fjarlæga landi.

"Þær þyrptust að mér eins og flugur" sagði hann skömmu eftir heimkomuna og átti þá
auðvitað við nýtilkomna kvenhylli sína.

"Og að hverju þyrpast svo flugur yfirleitt" spurði ég hann á móti og hugsaði um gamalt máltæki þar sem flugur koma einmitt við sögu. Ég fékk auðvitað ekkert svar við þessu óæskilega innskoti, en augnaráð félagans eitt og sér hefði sennilega getað kæst skötu á mettíma. Hann fór skömmu síðar aðra ferð til hins fjarlæga lands þar sem hinir fúlustu karlfauskar virtust umbreytast í eðalsjarmöra. Þegar hann kom svo aftur var hann ekki einsamall því með honum kom lítil og grannvaxin mannvera sem hann kynnti sem væntanlegt konuefni sitt. Fljótlega kom þó í ljós að hún var hinn mesti vandræða og gallagripur. Þegar einhver spurði hann einhverju sinni hvort hann hefði ekki getað fundið eitthvað skárra í öllu mannhafinu þarna úti kom svarið sem aldrei gleymist.

"Það var önnur þarna sem var miklu betri og skemmtilegri en mér fannst hún aðeins of dökk."

06.01.2011 07:37

Þrettándinn er í dag

688. Þrettándi dagur jóla eða "Þrettándinn" er í dag. Á öldum áður var hann talinn fæðingadagur Jesú og voru jólin því eftir áramót, en það mun hafa breyst á 17. öld hér uppi á Íslandi sem og víða annars staðar. Í einhverjum löndum austur-Evrópu svo og í Rússlandi eru jólin þó ennþá eftir áramót, eða á því svæði þar sem Rétttrúarkirkjan er ráðandi afl í kristnu samfélagi. Þjóðtrúin sagði líka að kýrnar töluðu mannamál á Þrettándanum en fleiri tala þó um nýjársnótt. Þá átti líka að vera búið að ljúka við allan jólamatinn, húsfreyjan gengur um bæinn þar sem ljós logr í hverju horni og hefur yfir eftirfarandi þulubrot:

Komi þeir sem koma vilja,

veri þeir sem vera vilja,

fari þeir sem fara vilja,

mér og mínum að meinalausu.

Þessar línur eru tengdar sérstökum fardögum álfa og huldufólks sem einnig eru ýmist sagðir vera á nýjásrnótt eða þrettándanum. Á okkar tímum er kveikt í brennum, álfakóngar og drottningar ásamt púkum og alls kyns furðuverur og vættir fara á stjá og svo er síðasti dagur í flugeldasölu. Á þrettándanum fer Kertasníkir, síðastur jólasveinanna aftur til sins heima. Jóhannes úr Kötlum hafði eftirfarandi um þá sveina að segja:

Svo tíndust þeir í burtu,
það tók þá frost og snjór.
Á Þrettándanum síðasti
sveinstaulinn fór. 

 

Ég gúgglaði nokkra álfa upp á skjáinn hjá mér og miðað við útlit þeirra er ekkert skrýtið þó einhverjir smaladrengir á sauðskinnsskóm vildu gjarnan ganga álfastelpum á hönd og yfirgefa mannheima. Alla vega miðað við hvernig íslenskum kotbúskap á öldum áður hefur oftlega verið lýst. Til stuðnings þeirri skoðun minni tel ég rétt og skylt að leggja fram eftirfarandi "gögn" sem sjá má hér að neðan.



03.01.2011 05:55

Skotið á Siglufjörð



687. Ég fékk nýverið senda ábendingu
á frétt sem birtist á Eyjunni og hafði alveg farið fram hjá mér. Hún var grundvölluð á ummælum Guðmundar Ragnarssonar sem er formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna og sagður LÍÚ maður inn að beini.  Eftir að hafa farið í gegn um hana og umræðuna sem fylgdi í kjölfarið svo og öll kommentin, er nokkuð ljóst að enn eru einhverjir kuklarar sem fylgjast illa með tímanum eru enn að rembast við að magna upp gamla drauga. Umræðan um Héðinsfjarðargöngin lifir enn og nokkur Nátttröll agnúast út í það sem orðið er og verður ekki breytt (til allrar hamningju).

Ég verð alltaf svolítið full þegar ég sé minn gamla heimabæ talaðan niður og gildir þá einu þó sýnt sé að þar séu ekki endilega einhverjir gáfumenn á ferð. Ég finn þá jafnframt hjá mér ríka hvöt til að velta mér upp úr einhverju ruglinu í "Reykjavíkurpakkinu," en þar er auðvitað af nægu að taka.


Gallað glerburðarvirki rifið niður af suðurvegg tónlistarhússins. Kostnaður gæti numið mörg hundruðum milljóna, en heildarkostnaður glerhjípsins er 3,2 milljarðar skv. áætlun.

Þarna er auðvitað hvergi minnst á að afskriftir aðeins vegna Tónlistarhússins Hörpu í Reykjavík eru orðnar 10 milljarðar og áætlun gerir ráð fyrir að tilbúið kosti það 27.5 milljarða. Einnig að sterk rök hafa veið færð fyrir því að styrkir þyrftu að nema 0.8 - 1 milljarður á ári næstu 35 árin til að hægt verið að reka það.


Sagt er að fjármálaráðherra hafi fengið ástralska sjónvarpsfréttamenn í heimsókn. Þeir höfðu gagngert komið til Íslands til að sannreyna það sem heimurinn héldi að  Íslendingar væru ekki með réttu ráði í fjármálum. Þeir voru nú komnir og vildu ræða við hann um hrunið og kreppuna og m.a. þetta merkilega séríslenska framtaksfyrirbrigði að byggja í miðri kreppu, rándýrt tónlistarskrauthýsi. Kreppufríir sögðust þeir sjálfir hafa átt fullt í fangi með sitt í Sidney. Eftir viðtalið vildu sjónvarpsmenn fá mynd af ráðherra með Hörpu í baksýn en hann mun hafa þvertekið fyrir það.

Skv. heimildum sem ættaðar eru frá Seðlabankanum eru uppsafnaðar afskriftir banka og sparisjóða vegna gjaldþrota fyrirtækja frá 1.1.2009 eftirfarandi:

Gjaldþrota félög                                                        160 milljarðar

Félög yfirtekin af bönkum og sparisjóðum             71 milljarður

Rekstrarfélög í óbreyttu eignarhaldi                        41 milljarður

Samtals                                                                       272 milljarðar

Þar fyrir utan hafa bankar og sparisjóðir afskrifað 112 milljarða vegna fjárhagslegrar endurskipulagningar hjá fyrirtækjum sem starfa síðan áfram. Við nánari skoðun kom svo auðvitað í ljós eins og vænta mátti, að nánast allar þessar afskriftir eru hjá félögum og fyrirtækjum sem hafa heimili og varnarþing í Reykjavík.

Hvað skyldi svo þetta suðvesturhornsævintýri kosta hvern landsbyggðarmann sem stóð hjá og tók ekki þátt í dansinum kring um gullkálfinn?


 

"Ummæli Guðmundar Ragnarssonar, formanns Félags vélstjóra og málmtæknimanna, við Eyjuna í vikunni vöktu athygli og umtal. Guðmundur sagði m.a. að "fjölmargar byggðir [væru] og hafa verið dauðadæmdar lengi". Tiltók hann tvær byggðir sérstaklega, Bolungarvík og Siglufjörð, þar sem hann sagði stöðnun ríkja í útgerð á sama tíma og að ríkið henti tugmilljörðum króna í í göng og sjóflóðavarnargarða."

 

Af því tilefni skoðaði Eyjan töluleg gögn um byggðaþróun á Siglufirði og tekur að því að mér virðist í flestum atriðum umdir orð Guðmundar. Þar mátti finna eftirfarandi fróðleiksmola:

 

"Hvanneyrarhreppur við Siglufjörð fékk verslunarréttindi 1818. Þá voru skráðir þar 161 íbúar, þar af 6 í kaupstaðnum. Öld síðar, 1918, fékk hreppurinn kaupstaðarréttindi og hét eftir það Siglufjarðarkaupstaður. Á síldarárunum var Siglufjörður fimmti stærsti kaupstaður landsins með 3100 íbúa. Auk þess var mikið um farandverkafólk sem stundaði vinnu í bænum. Síðan þá hefur íbúum stöðugt fækkað. Siglufjörður sameinaðist Ólafsfirði í júní 2006 undir nafninu Fjallabyggð.


Frá árinu 1998 hefur íbúum fækkað úr 1633 í 1214 (í janúar). Það er fjórðungsfækkun. Ef samsvarandi fækkun hefði orðið í höfuðborginni frá 1998 jafngildir það tæplega 27.000 manns.

Fækkun hefur verið í bænum öll ár frá 2000, að undanskildu 2006 þegar fjölgaði um 7. Séu þær tölur skoðar með tillti til kyns sést að konum fækkar sífellt, nema á síðasta ári þegar þeim fjölgaði um 7. Fjölgunin 2006 skýrist af 26 aðfluttum karlmönnum sem vega upp brottfluttning 21 konu.


Á seinasta ári voru kaupsamningar í Fjallabyggð 30. Heildarvelta þeirra var rúmlega 253 milljónir. 2008 voru kaupsamningar 45 og ári áður 69.  Gögn frá Fasteignamati ríkisins sýna að íbúðum á Siglufirði fækkaði úr 661 í 649 árið 2005.

Meðal fermetraverð á Siglufirði árið 2008 var 66.916 kr. Til grundvallar þeirri tölu liggja 13 kaupsamningar. Á sama tíma var meðalfermetraverð á Akureyri  164.642 kr. (169 kaupsamningar) og 50.309 á Ólafsfirði (6 kaupsamningar).


Á fiskveiðiárinu 1991-1992 var úthlutuðu aflamarki (kvóta) skipa með heimahöfn á Siglufirði 8.453.077 þorskígildistonn. Á þeim tíma var það 1,8% úthlutaðs kvóta í landinu. Á seinasta fiskveiðiári, 2009 - 2010, var hlutfallið komið í 1,3% og heildartalan 3.756.770 þorskígildistonn. Það er rúmlega 55% minnkun.

Árið 1996 komu 124.758 tonn af loðnu að landi á Siglufirði. Tæplega áratug síðar árið 2005 var sú tala komin í 29.721 tonn. Þorskafli á sama tíma hefur aukist, úr 3412  tonnum í 7050. Rækjuvinnsla fór fram úr þorskvinnslu  á tíunda áratug seinustu aldar. 1996 voru unnin 9.499 tonn af rækju á Siglufirði. Óhætt er að segja að algjört hrun hafi verið í þeirri vinnslu, því 2005 voru einungis unnin 677 tonn."

 

Og kommentin sem mörg virðast vera skrifuð í tilfinningahita augnabliksins eru eins og við má búast, misjafnlega vel ígrunduð og ekki í eina áttina. Kíkjum á svolítið sýnishorn.

 

Gulli 30.12 2010 12:59
Héðinsfjarðargöngin voru pólitík af viðbjóðslegustu gerð.
Það hefði verið ódýrara kaupa og "henda" Siglufirði.

 

SkallaÖrn 30.12 2010 12:30

Ef Siglfirðingum og Ólafsvíkingum hefði verið boðið að ráðstafa að eigin vild 12 milljörðum - Ca. 22..5 MILLJÓNIR Á HVERJA 4 MANNA FJÖLSKYLDU - Hversu margir hefðu valið að nota peninginn í Héðinsfjarðargöng ? Er einhver að halda því fram að íbúar sjálfir hefðu ekki getað fundið betri not fyrir peninginn ef þeir hefðu staðið frammi fyrir slíkir ákvörðun. Sumir hefðu vafalaust notað tækifærið og flutt burt. Aðrir hefðu viljað styrkja atvinnusköpun á Siglufirði og Ólafsfirði með öðrum hætti. Fólki heima í héraði stóð aldrei til boða að taka vitræna ákvörðun um þessi mál eftir upplýsta umræðu í eigin hópi.

 

Halldór 30.12 2010 12:36

Byggðirnar um landið hagræða í sjávarútvegi en hvar ætli nánast öll opinber störf í sjávarútvegi séu staðsett? Fiskistofa, Hafró, Matís o.sfrv. ha??
Auðvitað í hinni ríkisstyrktu Reykjavík....þar sem púkinn fitnar á fjósbitanum.

 

seifur 30.12 2010 12:52

Kaffihúsa snobbhænur úr 101 ættu ekki að kommenta um svona málefni því þau bara skilja þetta ekki.

 

Pétur Eiríksson 30.12 2010 12:58

Það hefur enginn rétt á að kveða upp dauðadóm yfir byggðum, hverfum fyrirtækjum eða atvinnugreinum.

 

Bjarni Kjartansson 30.12 2010 15:22

Ómar Kristjánsson telur, að þarna kjósi allir Framsókn eða Íhaldið. ÞAð var Krati sem kom þessari fyrru á koppinn, hann varð svo Samgönguráðherra og fékk að klippa á spottann.
Göngin hafa nú þegar kostað yfir 14 milljarða, svo að það vantar TVÖÞÚSUNDMILLJÓNIR inn í dæmið hjá ,,Skalla erni".
Svo var einnig verið að lengja flugbraut á Ak. svo að ,,bæta mætti varaflugvöll" fyrir millilandaflugið.
Samkvæmt skoðun á NOTAM og fl uppsláttaritum alþjóða flugmálastofnana er hann ekki enn kominn með þá áritun. Semsagt ekki hægt að logga á hann sem varavöll Egilstaðir eru enn á kortinu, enda nota erlendir flugmenn AK mjög lítið og lenda þar ekki nema í einsýnu. Þar fór hellingur af pening líka.

 

Níels A. Ársælsson 30.12 2010 15:54

Bjarni minn gamli vinur.
Kristján Möller tilheyrir íhaldinu, svo ? Hann er ekki krati frekar en þú ert Framsóknarmaður.

 

runar 30.12 2010 16:16

Níels Adolf Ársælsson á Tálknafirði, útgerðarmaður og skipstjóri Bjarma BA, var í dag dæmdur í Héraðsdómi Vestfjarða til greiðslu einnar milljónar króna í sekt og til greiðslu alls sakarkostnaðar í brottkastsmálinu svokallaða.
Er þessi frétt um þig Níels A Ársælsson ?

 

Níels A. Ársælsson 30.12 2010 19:26

Já Rúnar þessi frétt er um mig og ég er mjög stolltur yfir því sem ég gerði.

 

Guðjón II 31.12 2010 01:45

Í öllu þessu kjaftæði sem jafnan verður uppi hérna á þessu fjandans svæði hans Egils þá gleymist hversu mikið þessi skíta sjávarþorp "importa" fyrir íslenskt þjóðfélag...
Reykvíkingar hafa alltaf verið á bísanum og munu vera um aldir alda...

 

Muggur 31.12 2010 03:09

Er þá ekki í lagi að það fylgi hvað sveitarfélagið Fjallabyggð er að skapa í útflutningsverðmæti.
Tekið af heimasíðu Rammans.
Afli og aflaverðmæti skipa Ramma 2010 29. desember 2010
Afli og aflaverðmæti skipa Rammans á árinu sem er að líða var sem hér segir:
Skip afli tonn aflaverðmæti millj. kr. vinnsla og tegundir
Mánaberg ÓF 42 5.402 1.785,8 frosinn bolfiskur
Sigurbjörg ÓF 1 4.678 1.600,6 frosinn bolfiskur
Múlaberg SI 22 1.946 435,4 ferskur bolfiskur/rækja
Jón á Hofi ÁR 42 1.396 418,2 ferskur bolfiskur/humar
Fróði II ÁR 38 986 330,6 ferskur bolfiskur/humar
Alls 14.408 4.570,6
Þess má geta að öll skip félagsins fóru í slipp á árinu.
Eigum við að deila þessum 4,6 miljörðum í íbúafjöldann í Fjallabyggð og sjá svo hvað Reykjavík er að skaffa á hvern íbúa??

 

Og fyrir þá sem vilja skoða öll skrifin, þá er linkurinn á ummæli Guðmundar Ragnarssonar.

http://eyjan.is/2010/12/28/gudmundur-ragnarsson-fjolmargar-byggdir-daudadaemdar-og-hafa-verid-lengi/

 

Linkurinn á fréttaskýringar Eyjunnar er.

http://eyjan.is/2010/12/30/frettaskyring-siglufjordur-i-tolum/

  • 1

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 216
Gestir í dag: 38
Flettingar í gær: 1391
Gestir í gær: 279
Samtals flettingar: 495593
Samtals gestir: 54656
Tölur uppfærðar: 26.12.2024 13:37:52
clockhere

Tenglar

Eldra efni