Færslur: 2011 Desember
30.12.2011 14:38
Snjór
789. Snjór, snjór, snjór. Það er ekki laust við að það sé eins og að vera kominn á heimaslóðir þegar litið er út um gluggann þar sem sjá má snjómoksturstækin, ruðningana, fjúkið, og spólandi, vanbúna bílana pikkfasta í sköflunum. Úti er alvöru vetur og manni líður ágætlega í eigin skinni, inni í hlýjunni og "réttu megin" við glerið. Samt er eitthvað sem togar í og léttur fiðringur seytlar niður fæturna, niður í iljar og þaðan alla leið fram í stórutær.
Það væri líka svolítið gaman að fara
í þykka úlpu og auðvitað ullarpeysu, ullarhúfu, ullarsokka og ullarvettlinga (helst
þessa sem eru með tveim þumlum) og bregða sér aðeins út fyrir. Endurlifa löngu
liðnar stundir, þegar snjórinn kom fyrr, varð meiri og ófærðin var viðvarandi
um lengri tíma. Ærslast, byggja snjóhús,
Siglfirðingurinn Steini
Birgis stendur í ströngu jafnt nætur og daga meðan tíðin er eins og hún er, og honum
bregður sennilega minna við en suðvesturhyrningum (eða á ég að segja
suðvesturhornsbúum), því víst er að hann hefur séð snjó áður og það í
talsverðum mæli. Það hefur hins vegar eflaust verið átak fyrir hann að láta af
galgopaskapnum í svolitla stund rétt á meðan hann ræddi við fréttamann í gær,
en það verður að segjast að þessi ágæti drengur tekur sig ágætlega út í mynd þrátt
fyrir að vera að byrja að skríða á sjötugsaldurinn og verður að teljast bara
nokkuð sjónvarpsvænn.
Á vef Reykjavíkurborgar
segir að Þorsteinn Birgisson rekstrartæknifræðingur sé tæknilegur
rekstrarstjóri þjónustumiðstöðvarinnar á Stórhöfða sem sinni umferðarmerkingum,
umferðarljósum, snjóruðningi, hálkueyðingu og fleiri þáttum.
Ég átti leið í Bónus á
Völlunum í gær sem telst ekkert sérlega fréttnæmt svona eitt og sér. Fyrir
nokkrum mánuðum þegar ég var staddur á sama stað í sams konar erindagjörðum,
vakti það athygli mina hve margi stórir og glæsilegir jeppar voru þar á
stæðinu. Einhvern vegin flaug mér í hug að eðlilegast væri að fyrir framan
þessa lágvöruverðsverslun væru aðallega ódýrir kreppubílar, aðeins betri bílar
fyrir framan Fjarðarkaup, enn flottari bílar úti fyrir Hagkaupum o.s.frv. En
svo getur auðvitað annar flötur verið til á sama máli. Þeir sem reistu sér
hurðarás um öxl fyrir kreppu, gætu verið að sligast undan lánunum á
óseljanlegum og yfirveðsettum bílum "sínum" og þess vegna haft lítið sem ekkert
handa á milli til að brauðfæða sig og sína.
En ég átti sem sagt leið í
Bónus á Völlunum í gær og segja má að jeppa og afkomukenningin hafi þá verið
rækilega toppuð. Því inn á stæðið rennir glæsilegur Hummer sem er lagt nærri
dyrunum og leifði engu að heilum tveimur stæðum undir glæsivagninn. Ég fylgdist
með lávaxinni konu á miðjum aldri feta sig gætilega til jarðar og taka síðan
stefnuna í átt að umræddri verslun. Ég þreifaði eftir myndavélinni en mundi þá
að hún var heima í hleðslu. Æ, æ, þetta hefði getað orðið mynd mánaðarins.
En það er auðvitað ekkert að
því að versla þar sem verðið er hagstætt sama hver á í hlut, en samt fannst mér
eitthvað bogið við þetta. Veit bara ekki alveg hvað.
25.12.2011 10:28
Jólin 2011
788. Það eru aftur komin jól,
aðfangadagur er að baki og því búið að opna alla pakka. Enginn í mínum húsum fékk
spjaldtölvu sem Rannsóknarsetur verslunarinnar hafði spáð að yrði jólagjöfin í ár,
en hins vegar talsvert af bókum. Reyndar hef ég ekki heyrt um neinn enn þá sem
fékk spjaldtölvu í jólagjöf sem kemur mér ekkert sérlega mikið á óvart. - En
aftur að bókunum. Í ár fékk ég fjórar bækur sem toppaði árið í fyrra þegar ég fékk
þrjár, en þar á undan hafði ég varla fengið bók í einhverja áratugi. Man ekki
einu sinni hvað marga. Það sem er einkennandi fyrir þær er hvernig tenging
þeirra liggur í gegn um umfjöllunarefnið og hvar atburðarrásin á sér rætur eða
stað. Ætli það sé ekki svipað ástatt með marga sveitunga mina um þessar mundir.
Það hefur nefnilega verið óvenjumikil útgáfa bóka þar sem höfundar eru
siglfirskir, viðfangsefnið er síldarbærinn eða persónur honum tengdar. Ég spái og
vona að framhald verði á.
21.12.2011 01:04
Desemberdvöl á Sigló
Það hefur myndast sú hefð
síðustu árin að Siglufjörður er alltaf heimsóttur í desember, hvernig sem
viðrar og eiginlega hvernig sem á stendur. Fyrir utan að gera höfuðstöðvarnar
nyrðra örlítið jólalegar, hitta Jón Hólm vegna leiðikrossamála og slaka á í
næstum því algjörri einveru megnið af tímanum, var auðvitað hitt og þetta sem
þurfti að sinna eins og gengur. Nokkrir naglar hér, skrúfur þar, málbandi var
brugðið á loft og jafnvel kúbeini á einum stað.
En mest var þó setið við
tölvuna og unnið að gæluverkefni sem á svo gott sem hug minn allan um þessar
mundir. Myndina hér að neðan tók ég rétt áður en ég lagði af stað suður yfir
heiðar, en það var eins og áður sagði; föstudaginn sextánda sem var skásti
dagurinn veðurfarslega séð í talsverðan tíma.
16.12.2011 00:04
Á Síldarballi 1988
786. Ég rakst á þessa mynd í Afmælisriti Siglfirðinafélagsins sem kom út í haust þar sem fór frekar lítið fyrir henni. Reyndar svo lítið að ég tók ekki eftir henni fyrr en ég hafði flett nokkrum sinnum í gegn um blaðið. Hún hefur líklega verið tekin á Siglfirðingaballi í Félagsheimili Seltirninga um vorið 1988, en þá var safnað í Siglufjarðarband til að koma fram með nokkur lög. Á myndina vantar því miður Selmu Hauks sem hefði gert myndina mun áferðarfallegri.
En fyrir utan þann sem þetta ritar
og situr við rauðu Farfisuna, eru þarna talið til hægri; Biggi Inga, Gummi
Ragnars og Maggi Guðbrands. Þetta var sama samsetning og skipaði Miðaldamenn
árið 1978. Þá var
Aðalhljómsveitin sem spilaði
á ballinu var þó ekki með öllu laus við Siglfirðinga, því trommuleikarinn í
henni var enginn annar en Hallvarður S. Óskarsson. Auk hans spilaði Árni
Ísaksson (síðar veiðimálastjóri) á orgel og Halldór Kristinsson (Tempó, Þrjú á
palli) á gítar. Það tríó hafði spilað saman í fáein ár, en var
u.þ.b. að leysast upp af ýmsum ástæðum. Skömmu síðar hringdi Hallvarður í mig
og við stofnuðum Vana Menn um haustið ásamt Eyþóri Stefánssyni sem hafði þá
spilað mörg ár á gítar með Ragga Bjarna.
"Síldargínan" sem er reyndar
einfætt þó ekki beri mikið á því, var yfirleitt til staðar á
Siglfirðingaböllunum hér áður fyrr, en lítið hefur sést til hennar á nýrri öld.
Spurning hvort einhver veit um afdrif hennar.
15.12.2011 10:12
Fleiri fiskamerki
Fyrri umfjöllun er á http://leor.123.is/blog/2011/11/09/550299/
En það eru
greinilega fleiri fiskar í sjónum sem hafa einnig ratað í merki danskra þéttbýlisstaða. Baldur
Árnason (bróðir Halla Árna í Sparisjóðnum) hafði samband við mig á dögunum og benti mér á
bæjarmerki Nibe sem er lítið þorp við Limafjörð á Norður-Jótlandi. Það merki virðist þó
ekki hafa eins fastmótað og niðurnjörvað form og yfirleitt gerist, því er til í nokkrum tilbrigðum eins og
sjá má hér að neðan.
14.12.2011 22:07
Misskilningur
784. Hér hefur greinilega orðið smávægilegur misskilningur. - Einnig felst í skilaboðunum ábending um að það getur verið gott að skafa úr eyrunum annað slagið.
13.12.2011 04:20
Góð gen
783. Stundum er talað um að
eplið falli ekki langt frá eikinni, en hér á sennilega betur við að tala um
eplin í fleirtölu.
Berglind Ýr kom sjálfri sér
stórlega á óvart að eigin sögn, með því að vinna "Dans, dans, dans" keppnina á
laugardaginn var. Víst er að hún er kraftmikil hæfileikastúlka og gerði
ótrúlega hluti miðað við hvað hún hefur átt við erfið veikindi að stríða.
Annie Mist sem varð
heimsmeistari kvenna í Crossfit í júlí s.l. og var þá Evrópumeistari fyrir, er
ekki síður kraftmikil keppnismanneskja og þar komum við aftur að sögunni um
eplið og eikina, því þær eru nebblega systradætur.
13.12.2011 01:45
Skattgrímur
782. Samkvæmt meðfylgjandi gögnum má ljóst vera að framundan getur varla verið neitt minna en verulega snörp leifursókn til bjargar ríkisfjármálunum.
Nú á sko að taka á því.
11.12.2011 18:18
Að vera hrútur um fengitímann
781. Það er mikið líf og fjör í fjárhúsum landsins þessa dagana því nú er hafinn sá tími sem hrútarnir hafa beðið eftir með ákefðarglampa í augum allt árið. Það verður mikið "hopp og hí og hamagangur á Hóli" í sveitum landsins eins og þeir Ríómenn sungu hér um árið og svo koma blessuð lömbið í heiminn í vor þegar fuglarnir fara að syngja, sólin að skína blómin að anga o.s.frv. Því má svo auðvitað bæta við að þar með hefur verið tryggt að landsmenn fái sunnudagslærið sitt með rauðkáli og grænum baunum næsta vetur. En þessa mynd rakst ég á einhvers staðar á víðáttum netsins og þarna má sjá lambrollurnar bíða í röðum eftir að komast að, því allar vilja þær verða næstar.
Við að sjá þessa mynd
rifjast upp meira en 40 ára gömul saga úr Barnaskóla Siglufjarðar þegar
kennarinn spurði nemendur eitt sinn hvað þá langaði mest til að verða þegar
þeir yrðu stórir og svörin voru á ýmsa lund eins og gengur. Flugmaður, kennari,
skipstjóri, lögga, bílstjóri, sjómaður og svo mætti lengi telja. Svar eins
ónefnds nemanda sem í dag gegnir viðulegri stöðu hér á Siglufirði, skar sig þó
úr með afgerandi hætti.
"Mig langar mest til að vera
hrútur um fengitímann í fjárhúsunum hjá pabba" svaraði hann án þess að blikna.
Stór hluti bekkjarins
hreinlega sprakk og kennarinn mun hafa átt mjög bágt með að halda andlitinu, en
annar hópur nemenda hló ekki neitt því hann skildi ekki hvað var svona fyndið.
10.12.2011 17:22
Uppruni laufabrauðsins
780. Það verður líklega seint sagt um okkar ágætu nágranna Ólafsfirðinga, að þeir séu illa haldnir af minnimáttakennd. Enda er engin ástæða til slíks, því þriðjungur núverandi íbúa mun vera Siglfirðingar eða afkomendur þeirra. En sú var tíðin að þegar sveitaböllin á Ketilási voru upp á sitt besta, sögðu menn gjarnan; "passi nú hver sitt, Ólafsfirðingarnir eru að koma" þegar sást til sætaferðarinnar koma niður frá Stífluhólunum. Nú orðið heyrir auðvitað allur slíkur hrepparígur sögunni til góðu heilli, og íbúar austan og vestan Héðinsfjarðar hafa fallist í faðma og gengið í eina Fjallabyggarsæng. Reyndar ætlaði ég alls ekki að minnast einu orði á neitt af ofanrituði, - ég missti mig bara svolítið í áttina til fortíðar.
Erindið var að benda á stórskemmtilega
sögu sem er að finna á "Ólafsfjarðarvefnum" 625.is sem Gísli Rúnar Gylfason stendur
fyrir. Hún opinberar hinn stóra sannleika um uppruna laufabrauðsins og er að finna
á slóðinni http://625.123.is/blog/2011/12/09/589399/
09.12.2011 01:30
Jólasveinninn er kominn
779. Þessi líflega,
skemmtilega og jólalega mynd skreytir húshlið við Suðurgötuna hér á Siglufirði.
Jólasveinninn er þarna að koma færandi hendi til handa
bæjarbúum sem honum auðvitað fagnandi. - Nema hvað.
Í fyrstu fannst þetta aðeins
virkilega flott skraut í skammdeginu, en svo fór ég að íhuga hina dýpri merkinu
skreytingarinnar og þá ekki síst með tilliti hvar hún er staðsett. Það rann upp
fyrir mér alveg nýtt ljós og ég gat ekki annað en brosað í kampinn, því með
góðum vilja og hæfilega frjálslegri túlkun má vel sjá húmorinn í myndefninu. Ég
er líka alveg sannfærður um að sá ágæti drengur sem er eigandi hússins, brosir
lika út í annað þegar hann áttar sig á djókinu.
07.12.2011 01:27
Aage Schiöt fertugur
778. Allar götur síðan ég eignaðist húsið að Aðalgötu 28, hef ég gjarnan lagt við eyru þegar ég hef heyrt eitthvað af eða um manninn sem byggði það. En það var Aage Schiöth lyfsali sem fæddist á Akureyri, en fluttist til Siglufjarðar að námi loknu þar sem hann opnaði lyfjaverslun árið 1928. Fyrstu tvö árin bjó hann í bárujárnsklæddu timburhúsi við Aðalgötu þar sem Hótel Hvanneyri stendur nú, en það brann einhverjum árum eftir að hann flutti þaðan. Apótekið opnaði hann í timburhúsi að Aðalgötu 28, en ári síðar var það flutt innar á lóðina og stórt steinhús byggt á sama stað við götuna. Í gamla húsinu rak hann síðar Efnagerð Siglufjarðar, en Apótekið í því nýja næstu þrjá áratugina. Síðar var byggður skúr á milli húsanna sem tengdi þau saman og þannig var húsakosturinn þegar ég keypti eignina árið 1981, alls 560 fermtrar. Ég rakst á greinina um fertugsafmælið á netflakki á dögunum og datt þá í hug að gúggla svolítið meira um manninn, sem svo sannarlega setti sterkan svip á síldarbæinn allan þann tíma sem hann lifði og starfaði þar.
MORGUNBLAÐIÐ. 26.06.1942.
"Í dag er einn af mestu dugnaðar og athafnamönnum Siglufjarðar fertugur. Það, er Aage Schiöth lyfsali. Það eru nú 14 ár síðan hann fluttist til Siglufjarðar og stofnsetti þar Lyfjabúð Siglufjarðar. Hefir lyfjabúðin eflst og dafnað, og er nú orðin eitt af stærstu þess kyns fyrirtækjum landsins, utan höfuðstaðarins. Schiöth er áhuga mikill fylgismaður Sjálfstæðisflokksins, og hefir jafnan staðið í fremstu röð í baráttu flokksmannasinna norður þar. Hann hefir setið 6 ár í bæjarstjórn Siglufjarðar. Fyrir nokkrum árum stofnsetti Schiöth Efnagerð Siglufjarðar h.f. og hefir það fyrirtæki blómgast vel undir stjórn hans. Hann hefir einnig rekið útgerð í nokkur ár. Þá var hann einn af aðalforgöngumönnunum að stofnun hraðfrystihússins Hrímnis h.f., sem er stór og myndarlegt fyrirtæki og vafalaust á eftir að bæta mjög atvinnu skilyrði Siglfirðinga, bæði til sjós og lands. Schiöth er ágætur áhuga maður um hvers kyns íþróttir, og landskunnursöngvari er hann Þess væri óskandi að Siglufjörður mætti sem lengst að njóta starfskrafta hans og athafnaáhuga.
S. Bj."
Það er greinilegt að Schiöth hefur byrjað kornungur að syngja eins og fram kemur í blaðinu ÍSLENDINGUR þ. 16.04.1920, en þá er hann aðeins 18 ára að aldri.
"Þriðjudaginn 6. Apríl var
haldin kvöldskemtun í leikfimishúsi Gagnfræðaskölans til ágóða fyrir sjúkrasjóð
skólans. Þar kom fram á sjónarsviðið stud. art. Aage Schiöth og söng solo "Hvorfor
svulmer Weichselfloden som et Heltebryst" og nokkur fleiri lög, öll af frábærri
list. Systir hans ungfrú Oda Schiöth aðstoðaði bróður sinn með því að spila
snildarlega undir á píanó. Hefir Aage Schiöth af Drottni þegið einhverja þá
dásamlegustu gáfu, sem nokkrum dauðlegum manni má hlotnast sem sje töfrandi
fagra söngrödd og má óhætt spá honum frægðar og frama í sönglistinni ef honum endist
aldur til, lærist honum æ betur og betur að beita sínum undurfögru hljóðum.
Eins og nærri má geta urðu áheyrendunir stórhrifnir og vottuðu söngmanninum
margsinnis aðdáun sína með dynjandi lófaklappi, og var hann kallaður fram hvað
eftir annað."
Í sama blaði er að finna
stutta tilkynningu þ. 21.11.1924.
"Þann 5. nóv. voru gefin saman
í hjónaband í Kaupmannahöfn ungfrú Gudrun Juulsöe og Aage Schiöth stud. pharm.
héðan úr bænum."
Blaðið HÆNIR á Akureyri
22.11.1924.
"Aage Schiöth, sonur Axels Schiöth bakara á Akureyri, söng hér kvöldið 17. þ. m. Um söng hans er það skjótast aö segja, að rödd hans er látlaus og allmikil, og virðist hann hafa óvenjulega mikiö vald yfir tónunum og voga sér þó nokkuð hátt. Hann hefir notið kenslu hjá söngkennara í Höfn í 3 ár, en hefir annars samtímisstundað nám í lyfjafræði og lokið nýlega prófi í henni,"
Í blaðinu "FRÉTTIR OG AUGLÝSINGAR" sem gefið var út á Siglufirði um skeið birtust eftirfarandi línur þ. 14.05.1927
"Aage Schiöth, sonur Axels Schiöths bakarameistara, hefur nýlega
lokið fullnaðarprófi í lyfjafræði með ágætri einkun. Prófið tók hann í
Hamborg."
Það vakti athygli mina að að HÆNIR á Akureyri segir Schiöth hafa lokið prófi í lyfjafræði í Höfn árið 1924, en FRÉTTIR OG AUGLÝSINGAR að hann hafi tekið fullnaðarpróf í Hamborg 1927 eða þremur árum síðar.
VÖRÐUR segir frá fjölgun
lyfjaverslana þ. 28.04.1928.
"Lyfjaverslunum fjölgar.
Heyrst hefur, að stofnaðar verði þrjár lyfjaverslanir hjer á landi í sumar. Á að reisa tvær hjer í Reykjavík. Á aðra Jóhanna Magnúsdóttir, en hina Mogensen, forstjóri vínverslunarinnar. Sú þriðja kvað eiga að koma á Siglufirði, og er eigandi hennar Aage Schiöth frá Akureyri."
05.12.2011 18:48
Svört vinna óskast
777. Það var ekkert verið að fara fínt í hlutina eða talað undir rós hjá einum auglýsandanum á bland.is í fyrra mánuði, en sá var að auglýsa eftir vinnu og þótt sérstök ástæða að taka fram að hann væri heiðarlegur. Ekki veit ég hvort Steingrímur J. hefur séð ástæðu til að svara auglýsingunni, en mér þyklir ólíklegt að hún hafi fallið honum neitt sérlega vel í geð. Auglýsingin var svohljóðandi:
Svört vinna óskast! Opna öll innlegg. svart111 | Óþekktur aðili | Umsagnir (0) | 9 nóv. '11, kl: 21:27:04 | Alls sótt: 255 | Svara | Atvinna
- 1