Færslur: 2012 September

27.09.2012 23:54

Blauta grasið reyndist vera Hama(r)s-liði í vígahug


840. Vegna atviks sem talsvert hefur verið verið til umfjöllunar undanfara daga, hefur knattspyrnudeild Hamras í Hveragerði séð sig knúið til að senda frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:

-

"Stuðningsmenn KF fjölmenntu á lokaleik liðanna í 2. deild, leik þar sem KF gat tryggt sæti sitt í 1. deild að ári. Langflestir stuðningsmenn á vellinum, jafnt heimamenn sem og gestir, höguðu sér vel á áhorfendasvæðinu og voru stuðningsmenn gestanna upp til hópa liði sínu til sóma. Þó varð vart við einhverja ölvun meðal nokkurra gesta aðkomuliðsins og biðst knattspyrnudeild Hamars afsökunar á því að hafa ekki meinað þeim aðgang að vellinum.  

Undir lok leiks, er gestirnir höfðu jafnað leikinn, rauk stuðningsmaður KF út fyrir afmarkað svæði áhorfenda og inn á í átt að keppnisvellinum. Gæslumaður á vellinum stjakaði við áhorfandanum sem rann til í blautu grasinu og féll niður. Við fallið virtist umræddur stuðningsmaður hafa vankast.

Vegna þessa atviks varð mikil múgæsing meðal stuðningsmanna KF sem gerðu aðsúg að gæslumönnum vallarins, svo mikinn að sá sem féll mátti teljast heppinn að hafa ekki verið troðinn niður í hamaganginum. Gæslumenn vallarins brugðust hárrétt við er þeir reyndu að halda aftur af æstum stuðningsmönnum KF og mynda skjól í kringum þann sem lá niðri svo hægt væri að veita honum aðhlynningu. Kallað var strax á sjúkrabíl og fluttu gæslumenn þann sem féll á sjúkrabörum inn í félagsaðstöðu Hamars til aðhlynningar þar til sjúkrabíll mætti á staðinn. 

Ekki var atvikið alvarlegra en svo að umræddur stuðningsmaður var mættur á áhorfendasvæðið nokkrum mínútum síðar og tók svo aftur upp á því að fara út fyrir áhorfendasvæðið og inn á völlinn til að fagna með leikmönnum KF. 

Knattspyrnudeild Hamars stendur heil að baki ákvörðunum og verkum gæslumanna sinna en harmar um leið atvikið sem varð og einhliða fréttaflutning af því. Knattspyrnudeild Hamars þykir miður að atvik sem þetta skuli verða til þess að herða verði gæslu á leikjum liðsins í framtíðinni enda hafa sambærileg atvik ekki komið upp meðal neinna annarra áhorfenda á Grýluvelli, sem hafa sýnt af sér góðan þokka og verið félögum sínum til sóma. 

Um leið vill knattspyrnudeild Hamars óska liðsmönnum, aðstandendum og öðrum sem tengjast liði KF til hamingju með sætið í 1. deild að ári og óska þeim góðs gengis innan vallar sem utan um ókomna framtíð."

-

Kíkið á http://www.facebook.com/photo.php?v=488852227805994

-

Er þetta kannski það sem kallað er að færa í stílinn?

25.09.2012 11:02

Uppáferð í umferðinni



839. Þegar ég átti í eitt af fjölmörgum skiptum leið um Breiðholtsbrautina í síðustu viku, lenti ég í svolitlum vandræðum í einni ferðinni, því ég þurfti að fara um þrönga og krókótta hjáleið sem getur verið talsvert basl á jafn stórum bílum og strætó. Ástæðan var þetta umferðaróhapp sem sjá má á meðfylgjandi myndum sem varð til þess að götunni var lokað um stund. Það vakti athygli mina þegar ég nálgaðist að eitthvað var þarna skrýtið í gangi, því ég gat ekki betur séð en að löggan vappaði tvístígandi um svæðið og mér sýndist þeir sem þarna voru á stjákli klóra sér óvenju mikið í höfðinu. En margt bendir til þass að litlar sem engar líkur hafi verið á að það hafi verið höfuðlúsafaraldur eða einhver því um lík óværa sem herjaði á laganna verði a.m.k. ekki að þessu sinni, heldur miklu fremur hin óvenjulega aðkoma. Það hefðu að öllum líkindum einnig verið mín fyrstu viðbrögð að lyfta hendi og klóra mér í hnakkagrófinni, ef mér hefði ekki legið jafn mikið á og raunin var að fiska myndavélina upp úr vasanum, gera hana klára og ná eins og einu skoti áður en myndefnið var að baki. Ekki munu hafa orðið nein slys á fólki í árekstrinum, hamingunni sé lof. En líklega verður hann að teljast fremur óhefðbundinn, og tel ég mig ekki þurfa nauðsynlega að færa nein sérstök rök fyrir þeirri skoðun minni.

18.09.2012 05:28

Hlaupakötturinn í Kópavogi



838. Ég dró annað augað í pung, hrukkaði ennið og hummaði svolítið með sjálfum mér þegar ég las eftirfarandi frétt sem birtist á mbl.is í síðustu viku.

"Heimilisköttur í Kópavogi olli umferðarslysi um miðnættið í nótt. Flytja þurfti ökumann á slysadeild eftir að hann ók á ljósastaur. Það var um miðnætti þegar köttur í Kópavogi hljóp út á götu og í veg fyrir bifreið sem þar var á ferð. Ökumaður sveigði frá en endaði förina á ljósastaur. Ökumaður kenndi til eftir óhappið og var fluttur með sjúkrabíl á bráðamóttökuna í Fossvogi til aðhlynningar".

-

Það rifjaðist upp fyrir mér að ég hafði einmitt verið að keyra Kópavogsstrætó á leið 28 kvöldið áður þegar háttarlag kattar á Álfhólsveginum olli mér svolitlum vandræðum.

Það hefur líklega verið skömmu áður en ummrætt slys átti sér stað að ég var að koma úr Mjóddinni og var rétt ókominn í Hamraborgina þegar svart/hvítflekkóttur köttur hljóp eftir gangstéttinni og virtist vera að etja kappi við strætó. Mér fannst kisi nokkuð duglegur og standa sig vel í kapphlaupinu þar sem hann geystist áfram á gangstéttinni. Fyrst tók ég eftir honum í speglinum rétt aftan við bílinn, en eftir skamma stund var hann kominn á móts við framenda vagnsins. Svo seig hann fram úr og þá gerðist það.

Allt í einu tók hann vinkilbeygju og hvarf undir hægra horn bílsins rétt framan við framhjólið. Mér dauðbrá við þetta óvænta uppátæki kattarins og snarbremsaði ósjálfrátt. Til allrar hamingju voru ekki nema þrír farþegar í vagninum, en þeim brá greinilega rétt eins og mér því ég heyrði lágvært óp í einum þeirra, líklega þegar hann eða hún lyftist eða rann fram í sætinu við hina óvæntu hraðabreytingu. Ekki veit ég hvort farþegarnir hafa séð hlaupaköttinn eða vitað hver ásæðan var fyrir viðbrögðum bílstjórans, en mér létti mikið þegar kisi skaust undan vinstra horninu og stoppaði ekki fyrr en á gangstéttinni hinum megin. Þar settist hann niður og horfði hróðugur á vagninn fjarlægjast eins og hann vildi segja; "þarna náði ég að skjóta þér skelk í bringu karluglan þín". Ég er meira að segja ekki frá því að hann hafi verið svolítið glottuleitur til munns og augna.

-

Mér fannst þetta ekkert sérlega fyndið hjá honum enda yfirleitt ekki þekktur að því að finnast gaman að því sem er skemmtilegt, en velti því fyrir mér hvort þarna hafi verið á ferðinni sami köttur og sá sem getið var í netútgáfu Moggans.

Ef svo er, þá tel ég að hætt sé við að hin níu líf sem köttum mun vera úthlutað í "vöggugjöf" samkvæmt gömlum kattasögnum endist þeim flekkótta ekki lengi því einhver mun á endanum verða hægur á bremsunni.

18.09.2012 04:10

Dráttur


837. Ég rakst á þessa sögu á netinu og þó hún hafi eflaust farið víða og sennilega í mörgum mismunandi útgáfum, fannst mér hún það skondin, að ef einhverjir þeirra sem hingað að rekast stundum inn og hafa ekki lesið hana, vildi ég miðla henni áfram.

-

Þegar ég eignaðist hundinn minn og komið var að því að gefa honum nafn langaði mig að nefna hann eitthvað annað en þessi sígildu hundanöfn sem maður heyrir alls staðar, nöfn eins og Snati, Sámur eða Depill o.s.frv. Eftir miklar og djúpar pælingar fékk hann nafnið Dráttur, en eftir á að hyggja var það kannski hreint ekki neitt sniðugt því nafngiftin er oft búin að valda verulegum misskilningi og stundum ómældum vandræðum.
Ég fór í Ráðhúsið á dögunum til að endurnýja hundaleyfið og sagði  við afgreiðslumanninn að ég vildi fá leyfi fyrir Drætti.

Hann svaraði að bragði "ég líka", en þegar ég sagði honum að það væri hundur sem ég væri að tala um, horfði hann mjög undarlega á mig og sagði "ja, þú um þín ástamál".

"En þú skilur þetta ekki" sagði ég, "Ég fékk Drátt þegar ég var 9 ára.

"Þú hefur aldeilis verið bráðþroska" var þá svarið.
Þegar ég gifti mig og fór í brúðkaupsferð, tók ég hundinn með. Í móttökunni á hótelinu sagðist ég vilja fá herbergi fyrir okkur hjónin og auka herbergi fyrir Drátt. Mér var svarað að öll hótelherbergin væru ætluð fyrir drátt, en ég svaraði að Dráttur héldi vöku fyrir mér á næturnar. Afgreiðslumaðurinn svaraði: "Sama hjá mér".
Einn daginn lét ég skrá Drátt í hundakeppn. Rétt áður en keppnin hófst slapp hundurinn frá mér. Einn keppendanna snéri sér við og spurði hvers vegna ég væri að skima í kring um mig. Ég svaraði að ég hefði nú hugsað mér að vera með Drátt í keppninni hann svaraði: "Þú hefðir átt að selja miða að þeirri keppn"i. "Heyrðu þú skilur þetta ekki rétt", sagði ég, ég var að vonast til að geta sýnt Drátt í sjónvarpinu. Þá svaraði hann: "Það vantar greinilega ekki sjálfsálitið hjá þér".
Þegar við hjónin skildum fór málið fyrir dómara því auðvitað vildi ég berjast fyrir að fá Drátt.

"Herra dómari, ég fékk Drátt löngu áður en ég giftist" sagði ég.

"Ég líka" svaraði dómarinn.

Þá sagði ég honum að Dráttur hefði horfið þegar ég giftist og ég hefði eytt miklum tíma og orku í að leita hann uppi en ekki maðurinn minn.

"Þetta var mjög svipað hjá mér" sagði hann þá og varð svolítið dapurlegur til augnanna.

Í gærkvöldi stakk Dráttur af eina ferðina enn og ég var í marga klukkutíma að leita að honum úti í nóttinni og myrkrinu. Lögregluþjónn kom til mín og spurði hvað hvað ég væri að gera í þessari skuggalegu hliðargötu um hánótt og ég svaraði: "ég er að leita af Drætti".

"Þú skalt þá koma með mér" svaraði hann hvasst.

Ég ætlaði þá að fara að leiðrétta misskilninginn sem ég sá að var greinilega í uppsiglingu en hann vildi alls ekki hlusta á neinar skýringar.

Mér leist ekkert á blikuna þegar hann smellti handjárnunum á mig og ég æpti hástöfum og lét ófriðlega, en hann varð bara æstari og ákafari við það.
Ég fylltist skelfingu þegar við ókum af stað og ég velti fyrir mér hvernig þetta myndi enda. Ég hef nú aldrei laðast sérstaklega að mönnum í einkennisbúningum eða verið fyrir handjárn og þess háttar, en flest bendir nú til þess að hann haldi það þessi.

Ég varð eiginlega svolítið fegin þegar ökuferðin tók enda og mér var skutlað inn í klefa og síðan lokað á eftir mér með nokkrum látum.

-

En mér finnst þetta engu að síður ALLS EKKI sanngjarnt.

14.09.2012 10:19

ESB eða ekki ESB?


836. Ég gat ekki stillt mig um að draga upp myndavélina og smella af þegar ég stoppaði fyrir aftan þennan bíl á rauðu ljósi á dögunum, en hann var eins og sjá má ekkert að liggja á skoðunum sínum varðandi spurninguna um hvort við ættum erindi í ESB eða ekki. 

11.09.2012 03:24

Náði þeim í miðjum sérhljóða


835. Það er líklega full seint að fjalla loksins núna um tónlistarveisluna í Siglufjarðarkirku þ. 2. sept. sl. því henni hafa verið gerð ágæt skil bæði á siglo.is og siglfirdingur.is, en ég get þó ekki látið hjá líða að skjóta hér inn mynd af þeim félögum Hlöðve Sigurðssyni og Þorsteini Bjarnasyni þar sem þeir sungu frábæran dúett og ég náði þeim í miðjum sérhljóða.
O eða A...
-
En það er annars að segja að bloggfærslum hér hefur fækkað mjög undanfarið vegna (vonandi) tímabundins tímaleysis, því mikið mannahallæri hefur verið hjá Strætó í Kópavogi og þeir sem þar starfa hafa unnið mikla yfirvinnu í sumar og átt sáralítil frí, komið þreyttir heim og notað flestar þær stundir sem til hafa fallið utan dagskrár til hvíldar og svefns.

05.09.2012 09:55

Þvegillinn


834. Fékk þessa stórskemmtilegu auglýsingu senda í pósti á dögunum og mátti til með að flagga henni hérna, en þvegillinn var nýlunda um miðja síðustu öld og þótti hið mesta þarfaþing. Í leiðinni rifjast upp að símanúmerin í þá daga voru talsvert styttri (og þægilegri að muna) en nú er, en heima hjá mér var það 211 og ég man að ég hringdi oftast í 58 og 425 upp úr 1960, en þau voru bæði á Háveginum.
  • 1

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 292
Gestir í dag: 68
Flettingar í gær: 1391
Gestir í gær: 279
Samtals flettingar: 495669
Samtals gestir: 54686
Tölur uppfærðar: 26.12.2024 13:59:18
clockhere

Tenglar

Eldra efni